Orðskýringar 08 jún 2016 Albúmín: Vatnsleysanlegt prótín sem er að finna í sermi manna og einnig í mörgum öðrum dýrategundum og plöntum. Alkýlerandi efni: Ákveðin tegund krabbameinslyfja sem getur bundið alkýlhópa á byggingareiningar DNA og RNA. Þannig hindra lyfin eftirmyndun DNA í krabbameinsfrumunum. Aukaverkun: Vandamál sem kemur fram vegna lyfjagjafar. Aukaverkun verður vegna þeirra áhrifa lyfs sem einnig eru notuð í meðferðarskyni. Dæmi um aukaverkun eru ógleði, mergbæling, hárlos og slímhúðarsár sem verður vegna þeirra frumudrepandi áhrifa krabbameinslyfja sem einnig eru ætluð til að drepa krabbameinsfrumur. B-frumur/B-eitilfrumur: Ákveðin gerð hvítra blóðkorna sem þroskast í plasmafrumur í beinmergnum. Þessar frumur framleiða mótefni. Beinátufruma: Frumur sem eru á skilum beins og beinmergs og gegna því hlutverki að brjóta niður gamalt bein. Í kring um mergæxli verður oförvun á beinátufrumum og bæling á starfsemi beinfrumna. Úr því verður beinúráta. Beindrep í kjálka: Ein af þekktum en sjaldgæfum hliðarverkunum meðferðar við beinþynningu með bisfosfonötum er myndun dreps í kjálkabeini. Eyðing á beinvef í kringum tennur getur leitt til tannmissis eða berun beinsins. Þetta getur leitt til mikilla verkja en fyrstu einkenni eru verkir, bólga, dofi í kjálka eða tannlos. Beinfruma: Fruma í beini sem myndar bein. Beinfrumur mynda prótínið beinlíki (e. osteoid) sem binst kalsíum og verður að hörðu beini.
Beinmergsskipti: Þegar stofnfrumur eru teknar úr beinmerg einhvers einstaklings og settar inn í sjúkling. Beinmergsskiptum hefur fækkað að undanförnu og stofnfrumuskipti tekið við. Gjafabeinmergur er oftast fenginn úr gjafa sem ekki hefur sama erfðaefni og þeginn og kallast því ósamgenja (e. allogenic). Beinmergssýni: Vefur sem fenginn er með því að stinga sérstakri nál inn í beinmerg. Sýnið er skoðað í smásjá og leitað er að krabbameinsfrumum. Ef þær finnast reynir meinafræðingur að meta hversu hátt hlutfall beinmergs inniheldur mergæxlisfrumur. Til eru tvær gerðir beinmergssýna; beinmergssog þar sem frumur úr mergnum eru dregnar upp í sprautu og skoðaðar og grófnálarsýni þar sem bútur úr mergnum er tekinn í heilu lagi en í slíku sýni er hægt að skoða frumur mergsins sem hluta af vef en ekki bara sitt í hvoru lagi. Beinmergur: Mjúkur vefur sem er að finna í holrými beina. Beinmergurinn sér um framleiðslu hvítra blóðkorna, rauðra blóðkorna og blóðflagna. Mergæxli myndast í beinmerg. Beinúráta (e. lytic lesion): Mein inni í beini sem veldur staðbundinni eyðingu beinsins. Hægt er að sjá dökka bletti á beini á röntgenmynd þegar slík úráta er til staðar. Beinþynning: Með aldri þynnast beinin og hættan á beinbroti eykst. Ýmsir þættir geta aukið hættu á beinþynningu, t.d. kvenkyn, reykingar og sum lyf s.s. sterar. Bence-Jones-prótín: Einstofna mótefni sem er að finna í þvagi mergæxlissjúklinga. Magn þessara prótína er mælt í grömmum prótína sem losuð eru út með þvagi á einum sólarhring (g/24klst). Bence-Jones-prótín í þvagi eru alltaf óeðlileg rannsóknarniðurstaða.
Beinlíki (e. osteoid): Prótín sem myndað er af beinfrumum. Það binst svo kalki og myndar hart bein.
myeloma.org
•
+1 800-452-2873 Bandaríkin og Kanada
•
+1 818-487-7455 Önnur lönd