Gangverk 2007 2

Page 16

1932 2007

Þegar nútíminn hóf loks innreið sína á Íslandi Kreppan mikla var í algleymingi, þegar Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hóf starfsemi fyrir 75 árum og var því fátt um fína drætti í atvinnulífi landsmanna. Sigurður lét það þó ekki aftra sér, sem er að mörgu leyti dæmigert fyrir þennan frumherja á sviði ráðgjafaverkfræðinnar hér á landi. Sigurður lauk námi í byggingarverkfræði við Polyteknisk Læreanstalt á árinu 1927. Aðeins örfáir verkfræðingar voru þá starfandi hér á landi og nær eingöngu innan embættismannakerfisins. Hann sinnti því ýmsum verkfræðistörfum í fyrstu, aðallega fyrir Vitamálastofnun, en rúmum fjórum árum eftir heimkomuna fara honum að berast starfstilboð, sum hver vænleg. Þvert á væntingar, ákveður hann að hafna þeim öllum og setja þess í stað eigin verkfræðistofu á laggirnar, sem hann ræðst svo í á vordögum 1932.

Tímarnir að breytast

Þótt vísirinn væri í upphafi mjór, hefur hann vaxið í áranna rás og starfa nú um 170 manns hjá VST. Á árinu 1956 flutti stofan á Miklubraut 34. Þá störfuðu sjö manns hjá VST, að Sigurði meðtöldum (heldur á pípu fyrir miðri mynd).

Þó að verkefnin væru strjál, fjölgaði þeim smám saman og þegar upp var staðið reyndist ákvörðun verkfræðingsins unga ekki svo fráleit. Hann hefur e.t.v. séð sem var, að tímarnir voru að breytast. Vissulega hægði fátækt og einangrun á þróuninni hér, en hún stefndi engu að síður í svipaða átt og í nágrannalöndunum og þar höfðu stofur sjálfstætt starfandi ráðgjafaverkfræðinga starfað með góðum árangri um árabil. Meðal fyrstu verkefna Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen voru Landspítalabyggingin nýja við Hringbraut, Hallgrímskirkja og síldarmannvirki í Djúpuvík á Ströndum, að mörgu leyti dæmigerð verkefni þessa tíma.

Líkan af Reiðhjallavirkjun, líklega frá því um 1950. Fyrir tíma tölvutækninnar var líkanasmíði hluti af þjónustu VST.

Vatnaskil stríðsáranna Hjólin tóku svo að snúast fyrir alvöru á hernámsárunum og að þeim loknum tók við hönnun á nýju borgarhverfunum sem risu hvert af öðru, Hlíðunum og Teigunum svo að einhver séu nefnd. Á sjötta og sjöunda áratugnum fóru virkjanaframkvæmdir að setja sífellt sterkari svip á starfsemina, ásamt vegagerð hringinn í kringum landið og uppbyggingunni til sveita, þar sem skólar, hafnir, sundlaugar og heilsugæslustöðvar risu ört. Saga VST verður eins og sjá má, ekki auðveldlega skilin frá sögu lands og þjóðar á 20. öld eða um það leyti sem nútíminn hóf loks innreið sína á Íslandi.

Maður andstæðna Sigurður var ekki eingöngu brautryðjandi á sviði ráðgjafaverkfræðinnar. Hann markaði einnig spor í sögu íslenskra virkjunarfræða og –framkvæmda, auk þess sem hann var ötull á sviði félagsmála ráðgjafaverkfræðinga og rammpólitískur og sat eitt kjörtímabil á Alþingi fyrir Sósíalistaflokkinn. Þá var hann ötull talsmaður umhverfis- og náttúruverndar og frábær frístundamálari og skopmyndateiknari. Hann var því maður andstæðna, sem kunni augljóslega þá list að sameina ólíka heima svo vel væri. Hann skilur að þessu leyti eftir sig merka arfleifð, sem reynst hefur VST traustur grunnur í því margbreytilega starfsumhverfi sem verkfræðistofur starfa.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.