Gangverk 2007 1

Page 12

Áfram Ísland!

Stúkan stækkar Fræðslusetur KSÍ er meðal þess sem verður til húsa í nýbyggingu sem er risin við vesturhlið nýju aðalstúkunnar.

Aðalstúka Laugardalsvallarins eða stóra stúkan, eins og hún er gjarnan nefnd, hefur tekið verulegum stakkaskiptum. Auk nýbyggingar, sem risin er við vesturhlið hennar, hafa verið reistar nýjar áhorfendastúkur beggja vegna gömlu stúkunnar, ásamt áhorfendapöllum og aðstöðu fyrir leikmenn. Við þessar breytingar rúmar þjóðarleikvangurinn nú um tíu þúsund áhorfendur í sætum, en rúmaði um sjö þúsund áður. Nýbyggingin á vesturhliðinni er kjallari og þrjár hæðir og leggst hún utan á eldri bygginguna, svo að úr verður samstæð heild. Á tveimur efstu hæðum verður fræðslusetur, kennslustofur og skrifstofa KSÍ til húsa, en aðalinngangur og móttaka gesta á jarðhæð. Það gefur ágætis hugmynd af umfangi framkvæmdanna, að við þær hefur húsnæðið stækkað úr 3.300 í 6.000 m2, auk þess sem hvor hinna nýju áhorfendastúka er um 1.000 m2 að grunnfleti. Jafnframt fóru viðamiklar endurbætur fram á eldri mannvirkjum, en þeirra var víða þörf, svo sem á þaki eldri stúkunnar. Stúkuþök eru sérlega viðkvæm fyrir vindálagi að sögn Kristjáns G. Sveinssonar, yfirverkfræðings á burðarvirkjasviði, en öll verkfræðihönnun vegna nýju stúkunnar var unnin á VST, þar á meðal jarðtækni, lagna-, raflagna og brunahönnun og hönnun burðarvirkja. Bjarni Snæbjörnsson, arkitekt hjá T.ark, er arkitekt bygginganna og verkfræðistofa Magnúsar Bjarnasonar sá um eftirlit með framkvæmdum og umsjón fyrir hönd KSÍ.

12

Göt með tilgang Fyrir verkfræðinga er hönnun og lausn stúkuþaksins spennandi viðfangsefni, en það er í 12,5 metra hæð og eðli málsins samkvæmt mun stærra en eldra þakið, sem var endurbyggt í heild sinni. „Álag frá vindi, sem blæs innundir þakið er yfirleitt ráðandi álagstilfelli fyrir svona þök og var m.a. þess vegna ákveðið að skoða sérstaklega vel þær hönnunarforsendur,“ segir Kristján. Reiknistofa í veðurfræði var fengin til að meta mesta meðalvindhraða í 10 metra hæð með 50 ára endurkomutíma og var niðurstaðan m.a. sú að styðjast við 29,6 m/s fyrir austlægar áttir og 37,1 m/s fyrir aðrar áttir. „Í framhaldinu leitaði VST svo samstarfs við dr. Jón Þ. Snæbjörnsson, hjá Verkfræðistofnun H.Í., um leiðir til að minnka álagstoppa við þakbrúnina, en með því að trufla streymi undir hana og yfir, er hægt að draga verulega úr vindálaginu. Það er ástæðan fyrir „götunum“, sem sjá má við þakbrúnina, en með þessari hönnun minnkar vindálag á brúnina um allt að þriðjung.“


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.