12 minute read

Nýir tímar – ný tækni

9. KAFLI

Nýir tímar – ný tækni

Ingi Ú. Magnússon, þá deildarverkfræðingur holræsagerðar í Reykjavík, átti mikinn þátt í holræsareglugerðinni 1960. Hér sést hann við eitt af rörunum í Kringlumýrarræsi en það var 160 sentímetrar á vídd og víðara en í öðru ræsi áður. Ný holræsareglugerð – skipulagsbreytingar

Árið 1960 var gefin út ný reglugerð um holræsi í Reykjavík og átti Ingi Ú. Magnússon deildarverkfræðingur holræsagerðar mikinn þátt í tilurð hennar. Hann sat í norrænni nefnd sem vann að samræmingu byggingarákvæða allra Norðurlanda að því er tók til vatnslagna, frárennslislagna og hreinlætistækja. Sat hann fund nefndarinnar sem fram fór í Helsinki í desember 1959 og kynnti sér holræsareglugerðir sem giltu á Norðurlöndum. Ragnar Ingimarsson verkfræðingur tók síðan að sér að semja frumdrög að reglugerðinni en sérstök nefnd vann að lokafrágangi hennar.1 Nýja reglugerðin var mjög ítarleg. Helstu nýmælin í henni voru þau að gerðar voru miklu strangari kröfur en áður til frárennslis frá húsum. Skila varð teikningum að þeim og þeir einir máttu leggja holræsi frá húsum sem hefðu til þess löggildingu. Frá þeim tíma sem holræsareglugerðin tók gildi eða frá 16. september 1960 eru því til allir samþykktir uppdrættir af frárennsliskerfum og lögnum í hús ásamt tengingum heimæða við holræsakerfið.

Einnig voru um svipað leyti gerðar nokkrar skipulagsbreytingar að því er varðaði holræsakerfið. Fram að þessu hafði sorphreinsun, salernishreinsun og hreinsun á holræsaheimæðum í einkaeign heyrt undir borgarlækni en 1. maí 1960 gekk í gildi ný skipan þar sem þessi verk voru færð undir bæjarverkfræðing. Þar var stofnuð sérstök hreinsunardeild og öll hreinsunarstarfsemi Reykjavíkur sameinuð undir henni. Yfir hana var settur sem deildarstjóri Guðjón Þorsteinsson sem árum saman hafði verið yfirverkstjóri við gatnagerð.

Kerfisbundið eftirlit var með öllum holræsum og holræsabrunnum Reykjavíkur en þó mest í elstu hverfum borgarinnar. Þetta eftirlit annaðist fjögurra manna vinnuflokkur sem hafði bíl og svokallaðan holræsasnigil til umráða.

Gatnagerðargjöld valda þáttaskilum Liðin var sú tíð að íbúar tækju þátt í kostnaði við holræsagerð í götum þeirra á móti bæjarstjórn eins og var á fyrstu árum hennar eftir 1906. Allt fram undir 1960 varð bæjarsjóður að standa straum af öllum kostnaði við undirbúning nýrra hverfa án þess að hafa til þess sérstaka tekjustofna. Á þessu urðu breytingar árið 1958. Lóðarhöfum var þá aftur gert skylt að taka þátt í kostnaði við götur, holræsi og vatnsveitu í nýjum hverfum.2 Þetta var undanfari formlegra gatnagerðargjalda sem samþykkt voru samhljóða í bæjarstjórn árið 1960. Gjaldið miðaðist við að lóðarhafar nýrra lóða, sem borgin úthlutaði, greiddu 2/3 kostnaðar holræsa og malarvega. Gjaldið hafði einnig þau hliðaráhrif, þegar reynsla komst á það, að mjög dró úr braski með lóðir sem áður hafði viðgengist og lóðir voru betur nýttar.3 Fyrri hluta ársins 1961 var gatnagerðargjaldið hæst á einbýlishúsum, 47 krónur á rúmmetra, en lægst á

Holræsi lögð í húsgrunn. Í nýrri reglugerð um holræsi árið 1960 voru gerðar mun strangari kröfur en áður um frárennsliskerfi og lagnir í hús.

fjölbýlishúsum, sem hærri voru en fjórar hæðir, eða 14 krónur á rúmmetra.4

Gatnagerðargjöldin höfðu fljótlega veruleg áhrif á fjárhagsstöðu borgarinnar og getu hennar til framkvæmda.

Tvöfalda kerfið

Hitaveitan sem lögð var í gamla bænum innan Hringbrautar á árunum 1939 til 1944 var ennþá árið 1960 eina hitaveitan í Reykjavík. Öll húsin í nýju hverfunum, sem byggðust eftir stríð, máttu búa við olíukyndingu. Árið 1961 var hins vegar gerð tímamótasamþykkt í bæjarstjórn. Ákveðið var að hitaveita skyldi lögð í öll skipulögð hverfi vestan Elliðaáa fyrir árslok 1965. Þetta var gríðarlegt átak sem lauk að mestu árið 1966.5 En hitaveita í nýju hverfin skapaði mjög aukið álag á fráveitukerfið.

Í gamla bænum var einfalt kerfi; heita vatnið, hvort sem það kom úr ofnum eða krönum, rann beint í klóakið. Ofnavatn var allt að 50 gráðu heitt, þegar það rann af þeim, og lagði þá oft hitastróka upp úr niðurföllum. Með árunum varð þó betri hitastýring á ofnum og þar af leiðandi betri nýting á vatninu. En nú var tekið upp tvöfalt fráveitukerfi í flestum hinna nýju hverfa. Það fól meðal annars í sér endurnýtingu á svokölluðu ofnavatni sem var leitt til baka að dælustöðvum Hitaveitunnar og hluti af því notaður aftur til uppblöndunar og kælingar á því vatni sem kom heitast úr borholum en það gat orðið allt að 130 gráða heitt, einkum úr borholum við Laugaveg. Eftir slíka uppblöndun og kælingu var vatnið síðan sent um 80 gráða heitt til baka til neytenda en verulegur hluti af því fór þó frá dælustöðvunum í holræsin og gat valdið tæringu í rörunum.6

Eftir 1960 var í síauknum mæli gert ráð fyrir sérstakri leiðslu sem eingöngu flytti skólp og annarri sem eingöngu flytti regnvatn, bæði frá húsum og í götunum sjálfum. Þrátt fyrir aukinn kostnað við lagningu pípna var þetta talið borga sig þegar fram liðu stundir vegna fyrirhugaðra hreinsi- og dælustöðva. Mun minna magn færi um þær ef regnvatnið væri skilið frá og veitt burt með einföldum hætti. Ofanvatn gat að vísu verið mengað og varð þá að koma fyrir bensín- og olíuskiljum í regnvatnslögnum. Fleiri kostir voru við tvöfalt kerfi. Í flóði vegna rigninga eða hláku yfirfylltist skólpkerfið

síður þannig að kjallarar húsa voru öruggari. Og jafnvel þó að vatn flæddi um götur og inn í kjallara var það ekki skólpmengað eins og gat gerst í einföldu holræsakerfi. Í tvöföldu kerfi voru skólplagnir yfirleitt lagðar neðar en regnvatnslagnir. Ástæðan var sú að lega þeirra fyrrnefndu var fremur háð jarðvegsdýpi og því hversu kjallarar voru mikið niðurgrafnir.7

Eitt af skilyrðunum fyrir því að koma á sérstökum regnvatnslögnum var að hægt væri að veita regnvatninu í ár, læki, vötn eða opna skurði til sjávar. Þetta var hægt víðast hvar í Reykjavík. Í sumum tilvikum var því þó einfaldlega beint út í jarðveginn. Eftir 1963 voru því svo til eingöngu lögð tvöföld kerfi í ný hverfi borgarinnar.8

Fossvogshverfið, sem sést hér fremst á loftmynd frá 1968, var fyrsta hverfið í Reykjavík með svokölluðu tvöföldu holræsakerfi. Gert var ráð fyrir sérstakri leiðslu sem eingöngu flytti skólp en annarri sem flytti regnvatn. Það var síðan regla í nýjum hverfum.

Í mörg horn að líta – útboð í auknum mæli Árið 1959 var tekin upp sú nýbreytni í nýjum hverfum að vinnuflokkar borgarinnar lögðu vatns- og skólpheimæðar inn á hverja lóð áður en þeim var úthlutað og um leið og holræsaframkvæmdir fóru fram í sjálfum götunum. Lóðarhöfum var gert að greiða kostnaðinn við heimæðarnar um leið og þeir sóttu afstöðumyndir og hæðarblöð fyrir lóðirnar. Þetta átti að koma í veg fyrir umrót í götustæðum eftir að götur voru lagðar.9 Fyrstu hverfin þar sem þessi háttur var hafður á voru við Sunnuveg fyrir neðan Laugarásveg 1959 og í Safa- og Álftamýrarhverfi 1960.

Eftir 1960 var gert mikið átak í að malbika götur, eins og áður hefur komið fram, en í eldri hverfum þar sem ekki hafði verið malbikað, svo sem í Melahverfi, voru engin niðurföll. Þar varð því að byrja á að leggja niðurföll hundruðum saman áður en malbikað var. Í öðrum hverfum, aðeins nýrri, svo sem Hlíðunum, þurfti að fjölga mjög niðurföllum áður en malbikað var.10 Í Sundunum og víðar varð að skipta út holræsum og öðrum leiðslum áður en hægt væri að malbika. Það var því í mörg horn að líta hjá gatnamálastjóra á þessum árum en útboð á verkum urðu æ algengari eftir miðjan sjöunda áratuginn. Meðal helstu verktaka sem tóku að sér lagningu gatna og holræsa í Reykjavík, eftir að útboð voru tekin upp, má nefna Miðfell, Loftorku, Hlaðbæ, Malbikun, Almenna byggingafélagið, Ok, Sveinbjörn Runólfsson, Ýtutækni, Þórisós og Ástvald og Halldór.

Hönnun holræsakerfa

Eftir sem áður hafði embætti gatnamálastjóra með höndum hönnun og skipulag holræsakerfa borgarinnar og undirbúning útboða sem var mikið nákvæmnisverk. Við gerð skipulags þurfti að hafa í huga hvaða frárennslismöguleikar væru fyrir hendi og hvar lagnir yrðu best staðsettar. Gilti það jafnt um heildarskipulag og staðsetningu nýrra hverfa. Þar þurfti að gæta vandlega að dýpi og lengd holræsalagna eftir því hvernig lega nýrra húsa var ákveðin.

Ein af frumforsendum við hönnun holræsakerfis er raunhæf áætlun um magn skólps og vatns sem því er ætlað að flytja. Þar varð að taka til greina notkun á heitu og köldu vatni sem rann í

kerfið og magn regnvatns sem kynni að renna um það. Árið 1973 var reiknað út að vatnsmagn á hvern íbúa í eldri hverfum væri um 500 lítrar á sólarhring en líklegt þótti þó að inn í þá tölu blandaðist vatn sem læki úr dreifikerfi vatnsveitunnar og skilaði sér að einhverju leyti í holræsakerfið. Raunhæfari tala væri því 3–400 lítrar á sólarhring. Á sama tíma var talið að heitavatnsnotkun væri 100 lítrar á sólarhring á íbúa.

Með flóknum útreikningum, þar sem tekið var tillit til margra þátta, svo sem endurnotkunar hitaveituvatns, aukins fjölda íbúa sem ættu eftir að notast við viðkomandi kerfi í framtíðinni, innrennslis jarðvatns í lögnina og fleira, var sú regla tekin upp að holræsakerfi Reykjavíkur skyldi miðast við að regnvatn gæti mest orðið 56 lítrar á sekúndu á hvern hektara lands en skólpið 0,032 lítrar á sekúndu á hvern íbúa.

Sverleiki pípu í regnvatnslögn þurfti annars vegar að miðast við halla hennar og hins vegar mesta vatnsmagn sem hún átti að flytja. Helsta vandamálið var að finna út hvað vatnsmagnið gæti mest orðið, til dæmis í hellirigningu eða mikilli hláku.

Regn sem fellur á yfirborð í þéttbýli fer þó ekki allt í holræsakerfið. Hluti þess fer ofan í jarðveginn, gufar upp á leiðinni, sogast inn í þurrt efni af einhverri tegund eða er kyrrt á þeim fleti sem það hefur lent á. Afrennslisstuðull kallast á tæknimáli sá hluti

Teikning Einars B. Pálssonar af frágangi niðurfalls við gangstétt í Reykjavík.

Stífluð niðurföll með tilheyrandi vatnsaga hafa löngum heillað unga drengi. Myndin er tekin í Lindargötu árið 1964.

ofanvatns sem fer í ræsin. Hann er mishár eftir því hvort regnið fellur á vatnsþétt malbik nálægt niðurfalli eða til dæmis í gljúpan jarðveg fjarri götu. Þak- eða götuniðurfall þarf að miða við mesta úrkomumagn á mjög stuttum tíma. Það verður að reikna út með haldgóðum upplýsingum um úrkomu á löngum tíma og hversu ákaft og langvarandi úrhelli getur orðið.

Árið 1968 skrifaði Páll Bergþórsson veðurfræðingur grein í tímaritið Veðrið. Hún var tilkomin vegna fyrirspurnar verkfræðings sem vantaði upplýsingar um úrkomumagn til að geta hannað holræsakerfi. Í grein Páls er birt tafla yfir niðurstöður úrkomumælinga á um 140 stöðum á landinu. Hún sýnir mestu sólarhringsúrkomu sem mælst hefur á hverjum stað í millímetrum talið, meðaltal árlegs hámarks og þann árafjölda sem mælingarnar náðu yfir. Í töflunni sést meðal annars að töluvert meiri úrkoma er inni við Elliðaár, á Rjúpnahæð við Reykjavík og á Hólmi við

Reykjavík en inni í borginni sjálfri.11 Þegar holræsakerfi voru hönnuð fyrir Breiðholt, Árbæjarhverfi, Selás og síðar Grafarholt og Norðlingaholt varð að taka sérstakt tillit til þess að þar rigndi meira en neðar í borginni.

Þrátt fyrir að allgóðar upplýsingar séu til um úrkomumagn, sérstaklega mestu toppana sem kerfið þarf að ráða við, er annað óvissuatriði sem getur verið erfiðara að fást við. Það er hlákan. Þíðviðri með rigningu ofan í snjó eða frosna jörð getur hæglega yfirfyllt holræsakerfið við ákveðnar aðstæður og skapað vatnsaga og flóð á yfirborðinu. Ekki þarf þó að gera ráð fyrir við hönnun holræsakerfis að saman fari hámarkssnjódýpt, mesta leysing og frosin jörð. Oft rennur leysingavatn langar leiðir ofanjarðar og fer beint í ár, vötn eða sjó án þess að fara í holræsakerfið.12

Reyndar kom fram nokkur gagnrýni á starfsaðferðir hjá gatnamálastjóraembættinu á ráðstefnu sem haldin var í nóvember 1968.

Við útreikninga á því magni skólps og vatns sem kerfinu væri ætlað að flytja þurfti að taka tillit til margra þátta. Einna mestu óvissuþættirnir tengdust úrhellisregni og asahláku. Í febrúar 1968 varð mikið flóð í Elliðaám sem orsakaðist af hlýviðri og úrfelli en mikill klaki var þá í jörð þannig að árnar flutu yfir bakka sína og ollu töluverðu tjóni. Myndin er tekin meðan mest gekk á við Vatnsveitubrúna. Í veðrinu kom vatn upp úr niðurföllum víðs vegar um Reykjavík og rann inn í kjallara húsa.

Flóð á horni Rauðarárstígs og Laugavegar árið 1963. Reynt að opna fyrir niðurfall með skóflu. Bensínstöð BP á Hlemmi í baksýn. Sigurður Thoroddsen, eigandi stærstu verkfræðistofu landsins, var einn frummælenda og kvartaði hann undan því hversu fá verkefni íslenskir ráðgjafarverkfræðingar fengju til úrlausnar. Nefndi hann sem dæmi gatna-, holræsa- og vatnsveitugerð í Reykjavík. Verkefnin þar væru að miklum hluta unnin í aukavinnu af starfsmönnum borgarinnar sem notuðu svo vinnutímann í að gagnrýna, yfirfara og samþykkja eigin aðgerðir.13

Rafreiknir Háskóla Íslands Um áramótin 1964 til 1965 eignaðist Háskóli Íslands svokallaðan rafreikni sem var fyrsta tölva á Íslandi. Þá þegar lagði gatnamálastjóri drög að því að hagnýta sér þá möguleika sem rafreiknirinn gaf. Sýnir það hversu vel hann og starfsmenn hans fylgdust með nýjungum og voru reiðubúnir að taka þær upp. Verkfræðingur á vegum gatnamálastjóraembættisins gerði svokallaðar forskriftir fyrir rafreikninn (tölvuna) sem nú til dags myndi kallast forritun

og voru þær notaðar í fyrsta sinn árið 1966 við lóðaútreikninga og teikningar af legu gatna og holræsa í Reykjavík. Meðal annars var með þessum hætti reiknuð út stærð holræsakerfa í borginni með tilliti til íbúafjölda, hektara og afrennslisstuðla og niðurstöðu hæðarlegu gatna og holræsa. Þetta sparaði mikinn tíma og vinnu.

Efnismagn og kostnaður við einstakar framkvæmdir var einnig reiknaður út í rafreikninum og það, ásamt niðurstöðum um hæðarlegu gatna og holræsa, notað í gerð tilboðsskráa og við reikningsuppgjör við verktaka.

Í ársskýrslu gatnamálastjóra 1967 er lýst sjö forskriftum sem gerðar voru fyrir rafreikninn og sagt að leitast hafi verið við að gera þær þannig úr garði að þær gætu reiknað öll hugsanleg tilfelli. Með tilkomu þeirra væri öryggi við alla útreikninga meira en áður, yfirsýn og áætlanagerð betri og þeir tækju miklu styttri tíma en áður.

Rafreiknir Háskóla Íslands var fyrst notaður við hönnun gatna og holræsa í Fossvegshverfi, Árbæjarhverfi og Breiðholti.14

Rafreiknir Háskóla Íslands var fyrsta tölvan sem keypt var til Íslands. Árið eftir að hann kom eða 1966 var hann notaður við lóðaútreikninga á vegum gatnamálastjóraembættisins í Reykjavík og til að reikna út legu gatna og holræsa. Myndin er tekin við rafreikninn 1965. Við hann standa Helgi Sigvaldason, Ragnar Ingimarsson, sem vann um tíma hjá Bæjarverkfræðingi Reykjavíkur, síðar prófessor, Oddur Benediktsson og Magnús Magnússon.

This article is from: