
2 minute read
Formáli
by veitur
V
ið lítum gjarna á vatnsveituna sem dýpstu rót veitureksturs í Reykjavík en fráveitan er trúlega eldri. Á meðan enn þurfti að bera vatn úr brunnum í hvert hús í lágreistum Reykjavíkurbæ, rétt upp úr aldamótunum 1900, létu nunnurnar í Landakoti leggja skólplögn ofan af hæðinni, niður Ægisgötuna til sjávar. Langt fram eftir 20. öldinni máttu bæjarbúar þó sætta sig við opnar skólprennur með tilheyrandi óþrifum og sóttkveikjum.
Skuggahliðin á aðlögunarhæfni mannsins er ef til vill sú að okkur er hætt við að sætta okkur við eða að minnsta kosti venjast vondu ástandi. Þar sem fráveita og fleiri úrgangsmál virðast lítt til almennra vinsælda fallin á allt það ótalmarga fólk sem lagt hefur gjörva hönd á uppbyggingu fráveitukerfisins okkar ómældar þakkir skildar. Við, sem treyst er fyrir fráveitunni í dag, stöndum á öxlum ótal margra fyrirrennara sem oft mættu mótlæti við að þoka þessu brýna hreinlætismáli í rétta átt.
Verkefnin í uppbyggingu nútímalegs fráveitukerfis hefur ekki þrotið á þessari rúmu öld sem liðin er frá framtakinu á Landakotshæð. Það er heldur ekkert útlit fyrir að þau þrjóti. Kröfur okkar til hreinlætis og heilnæms umhverfis aukast, góðu heilli, og breytingar á loftslagi með hækkandi sjávarstöðu munu reyna sérstaklega á fráveituna. Uppbyggingarverkefnin í fráveitunni eru dýr, valda raski meðan á þeim stendur og fullbúin eru þau flest ósýnileg neðanjarðar. Þess vegna er áríðandi að efla skilning almennings á mikilvægi öflugrar fráveitu. Það er jú hann sem borgar brúsann.
Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna.
Veitur réðust í að fá söguna skráða, ekki síst vegna þeirrar þakkarskuldar sem við stöndum í við forvera okkar í fráveitumálunum. Uppbyggingarsögum vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu í Reykjavík hafa verið gerð góð skil í þremur bókum, einni helgaðri hverri veitu. Þær voru gefnar út af Orkuveitu Reykjavíkur á 100 ára afmæli Vatnsveitunnar, árið 2009. Orkuveitan tók við uppbyggingu og rekstri fráveitna í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð árið 2006. Veitur, dótturfélag OR, tóku til starfa árið 2014 og fljótlega eftir það kviknaði hugmyndin að skráningu þeirrar sögu sem hér fer.
Það var farsælt að fá til skrifanna Guðjón Friðriksson, einn virtasta sagnfræðing og rithöfund þjóðarinnar, sem áður hefur lagt gjörva hönd á skráningu annarra hliða sögu höfuðborgarinnar. Ég þakka Guðjóni fyrir gott samstarf við ritun bókarinnar, Írisi Þórarinsdóttur, fyrrverandi fagstjóra fráveitu Veitna, fyrir upptökin, Ingu Dóru Hrólfsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Veitna, fyrir að tryggja framgang málsins, Arndísi Ósk Ólafsdóttur og Fjólu Jóhannesdóttur, núverandi stjórnendum fráveitunnar, fyrir þeirra hlut og Eiríki Hjálmarssyni fyrir að halda utan um útgáfuna.
Njótið heil.
Gestur Pétursson framkvæmdastjóri Veitna