12 minute read

Hnökrar á kerfinu – fyrsta sniðræsið

Next Article
Formáli

Formáli

4. KAFLI

Hnökrar á kerfinu – fyrsta sniðræsið

Eftir holræsaátakið mikla 1906–1916 komu ýmsir hnökrar á kerfinu fljótt í ljós. Bærinn var í örri þróun, íbúunum fjölgaði mjög hratt og það var rétt svo að bæjaryfirvöld gætu haldið í við þróunina með holræsaframkvæmdir. Á árunum 1920 til 1940 voru flest árin miklir erfiðleikar í efnahagsmálum og atvinnuleysi mikið í Reykjavík. Æ meiri peningar fóru í fátækraframfæri en því minna var aflögu til framkvæmda.

Langt í frá fullkomið kerfi

Þó að holræsakerfið væri í grófum dráttum komið um allan bæinn árið 1916 var það langt í frá fullkomið eins og áður sagði. Allmikið var til dæmis um kvartanir vegna þess að holræsi lágu of hátt í götu til þess að íbúar húsa neðan við hana gætu nýtt sér þau. Þannig skrifuðu átta húseigendur við Njálsgötu neðanverða bréf til borgarstjóra vorið 1916 og báðust undan því að þurfa að borga holræsagjald vegna aukakostnaðar sem þeir höfðu þurft að greiða. Þeir sögðu: „Sumarið 1914 var lagt holræsi í götu þá, er vér búum við, en vér höfum þess engin not, því jarðveg hallar svo mikið á þessu svæði, sem kunnugt er, að holræsið í götunni er mikið ofar en kjallarar í húsum vorum, enda þó þeir séu næstum alveg upp úr jörðu, eða svo ofarlega, sem leyfilegt er. Til þess að ná í göturæsi var oss sá einn kostur, að gjöra holræsi á vorn kostnað alla leið niður í Grettisgötu, og hefir það kostað hvern af oss meira og minna á annað hundrað krónur, eða margfalt meira en oss hefði kostað að ná í samband við Njálsgötuna, þá götu sem hús vor liggja við.“1

Slíkum undanþágum frá holræsagjöldum var yfirleitt hafnað.

Að venja sig af sóðaskapnum Niðurföll voru að sjálfsögðu höfð í holræsunum og í þau gátu menn í þá daga hellt skólpi sínu frá húsum sem ekki voru enn tengd kerfinu eða hafði verið trassað að leggja heimæð frá í göturæsi þó að það væri skylt samkvæmt lögum. Nokkur brögð voru að því af ýmsum ástæðum, svo sem efnaleysi eða einfaldlega fastheldni við gamla lagið. Sumum bæjarbúum virtist hreinlega um megn að venja sig af þeim sóðaskap sem lengi hafði viðgengist í bænum. Eftirfarandi mátti lesa í Morgunblaðinu 1916: „Á hverjum degi sé ég að hellt er skólpi og alls konar rusli í opin í holræsunum, eða réttara sagt við hliðina á þeim, því þessu er bara þeytt eitthvað í áttina til opsins. Hvergi kveður þó eins mikið að þessu eins og við opið á horninu á Vonarstræti og Tjarnargötu; þar er holræsi og því skylda að hafa ræsi þangað úr húsunum … en því fer fjarri að þessu sé hlýtt, því úr einu húsi þar er daglega

Horft frá Njálsgötu upp Kárastíg um 1920. Holræsislok fremst á myndinni. Enn vantaði þó upp á að öll hús tengdust holræsinu á þessum slóðum.

Ágúst Jósefsson var heilbrigðisfulltrúi Reykjavíkur 1918–1950. Hann hafði meðal annars það hlutverk að sjá til þess að skólpræsi og salerni bæjarins væru í lagi og var það ærinn starfi. skvett þangað skólpi og alls konar óþverra svo að viðbjóðslegt er að ganga þar hjá.“2

Mörg dæmi eru um slíkar kvartanir. Sumarið 1923 sendu 11 húseigendur og búendur við Kárastíg og Njálsgötu kvörtunarbréf til lögreglustjórans í Reykjavík út af skólpi og óþverra sem safnast hefði saman í lón á lóðunum bak við Kárastíg vestanverðan. Í bréfinu sagði: „Vatnsrennsli þetta virðist stafa frá klóaklausu húsi er stendur við Skólavörðustíginn nr. 33B. Óþverrapollur þessi, sem illa ilman leggur upp úr, er mjög til óprýðis fyrir þennan bæjarhluta auk þess sem óhæft virðist að menn leggi vatnsfrárennsli sín aðeins út af sinni lóð og skeyti svo ekki um það frekar.“3

Þetta voru barnasjúkdómar hins nýfengna holræsakerfis Reykjavíkur. Fyrst árið 1938 var gerð breyting á lögreglusamþykkt Reykjavíkur. Inn í hana var bætt eftirfarandi klausu: „Í götubrunna og göturæsi má ekki hella gólfskólpi né öðrum óhreinindum sem saurga götuna.“4

Barátta heilbrigðisfulltrúans Árið 1923 virðist Ágúst Jósefsson heilbrigðisfulltrúi hafa gert gangskör að því að koma í veg fyrir að menn gætu verslað með matvæli eða unnið matvæli þar sem fráveita var ófullnægjandi. Um vorið sendi hann til dæmis frá sér bréf þar sem fram kom að ekkert skólpræsi væri frá húsunum Vesturgötu 12 og 14 en í öðru þeirra væri mjólkursala en hinu brauðgerð. Kvað hann nauðsynlegt að loka þessari starfsemi þar til komið væri skólpræsi. Hins vegar hefði ekki verið hægt að semja við eigendur þessara húsa þar sem annar væri fjarverandi úr bænum en hinn ekki samningsfær vegna ölæðis. Hann lagði til að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur léti vinna þetta verk á kostnað þessara húseigenda.5

Sumarið 1923 skoðaði heilbrigðisfulltrúinn kjötbúðir í bænum og gerði við þær margar athugasemdir. Í Kjötbúð M. Frederiksen í kjallara Ingólfshvols á horninu á Hafnarstræti og Pósthússtræti var til dæmis engin skólpleiðsla og ekki hægt að koma henni fyrir þar sem gólfflötur kjallarans var dýpra í jörð en leiðslur í nærliggjandi götum. Taldi heilbrigðisfulltrúinn búðina óþriflega og illa til kjötsölu fallna.6

Upptaka holræsa

Snemma kom í ljós, eins og áður hefur verið vikið að, að skólprör í einstökum götum voru ekki nógu breið til að anna frárennslinu. Ekki hafði nægilegrar framsýni verið gætt við lagningu þeirra eða útreikningar á frárennsli brugðist. Vatnsneysla Reykvíkinga hafði einnig aukist gríðarlega með tilkomu Vatnsveitunnar. Hún var talin að meðaltali 17 lítrar á mann á degi hverjum fyrir daga hennar en árið 1930 var hún komin upp í 300 til 350 lítra á mann.7 Þetta auk stóraukins iðnaðar með tilheyrandi vatnsnotkun jók verulega álagið á fráveitukerfið. Kerfið var líka einfalt. Auk skólps þurfti það að taka við ofanvatni, regni, snjó og leysingavatni, og einnig svokölluðu lekavatni sem var jarðvatn sem seig inn í leiðslurnar.

Verulegur þáttur í holræsaframkvæmdum um og eftir 1920 fólst í því að taka upp fyrstu holræsin og setja ný í staðinn með víðari pípum. Á árinu 1918 var til dæmis skipt um holræsi í Vonarstræti og Tjarnargötu þannig að settar voru 12 þumlunga pípur í stað níu þumlunga. Einnig var hallanum á því holræsi breytt til að fá betra rennsli í áttina að Læknum. Á sama ári var einnig skipt um rör í Lindargötu á kaflanum frá Frakkastíg að Vitatorgi.8

Sama var upp á teningnum 1919. Blaðið Dagsbrún, sem var málgagn alþýðuflokksmanna, fjargviðraðist yfir þessu þá um sumarið: „Oft spyrja menn: Hvað verður um allt það fé, sem bærinn eyðir árlega. Margt fer í þarft en margt líka í óþarft, til dæmis það að leggja tvisvar eða þrisvar göturæsi í sömu götuna, oft með fárra ára millibili í stað þess að leggja þegar í fyrstu nógu gildar pípur. Þannig hefir það verið með Laugaveginn, og sá sem gengur um Vesturgötu þessa dagana getur séð áþreifanlegt dæmi upp á „framsýnina“. Það er nú sem sé verið að taka upp pípur sem lagðar voru fyrir nokkrum árum og leggja aðrar gildari í staðinn. Þetta er ekki gott fyrir bæinn. En fyrir Pípugerðina er það ágætt.“9

Sama gerðist á Hverfisgötu. Til stóð 1923 að malbika götuna frá Smiðjustíg og inn eftir og var ákveðið að taka upp holræsið þar, sem þótti of þröngt, og leggja nýtt.10 Sumarið 1925 var lagt nýtt holræsi í Aðalstræti og sagði Morgunblaðið við það tækifæri að það væri ekki ný bóla að þau gömlu væru of þröng.11 Árið 1930 var Vonarstræti tekið upp rétt einn ganginn eða í þriðja sinn og lagt í

Skurðgröftur innarlega við Laugaveg. Menn hneyksluðust mjög á því hve oft þurfti að taka upp holræsi vegna þess að þau sem upphaflega voru lögð voru of mjó. það nýtt holræsi, helmingi víðara en það sem var fyrir. Borgari sem skrifaði í Vísi var mjög hneykslaður á þessu vinnulagi. Hann sagði: „Ekki mun byggð hafa aukist við Vonarstræti svo að neinu nemi síðan er gömlu skólpræsin voru lögð í það, og verður ekki séð hvernig á því muni standa að nú þurfi að leggja þar víðari pípur. Þetta er því ekkert annað en tvíverknaður og sá tvíverknaður er bæjarbúum dýr. En svona gengur þetta hér í höfuðstaðnum. Ár eftir ár eru göturnar tættar sundur því að skólpræsi og aðrar leiðslur reynast ófullnægjandi.“12

Holræsi í nýjar götur Árið 1919 var það gefið út í bæjarstjórn að lagt yrði fyrir vatnsæðar og holræsi jafnóðum og nýjar götur byggðust. Á næstu árum var

mikið byggt í Skólavörðuholti fyrir ofan Óðinsgötu og nýjar götur urðu til. Bærinn seldi lóðirnar á þessum slóðum en andvirðið fór meðal annars til holræsagerðar sem reyndist mjög kostnaðarsöm vegna þess hve jarðvegurinn var grunnur á þeim slóðum. Sprengja þurfti göng ofan í klöppina til að koma fyrir pípum. Tugir manna unnu að þessu ár eftir ár.13 Öllu skólpi í þessu hverfi var síðan veitt niður í Lækjargötu í aðalræsið þar.

En bærinn þandist út og bæjarstjórnin gat ekki alltaf fylgt þróuninni eftir. Þannig barst henni bréf frá nokkrum íbúum við Öldugötu haustið 1923 þar sem þess var krafist að klóak yrði sett í götuna milli Bræðraborgarstígs og Brekkustígs. Í því sagði: „Eitt hús er þegar byggt við götuna, en tvö önnur bráðlega byggð, og ef til vill fleiri í náinni framtíð. Þess skal getið að fyrir utan óþægindi þau er stafa af því að hafa ekkert frárennsli frá húsinu, þá hafa íbúar hússins, sem þegar er byggt, verið kærðir fyrir heilbrigðisnefnd, fyrir að hella sorpi sem auðvitað hefur runnið á annarra lóðir.“14

Bæjarstjórn gat ekki strax orðið við þessari beiðni og ekki heldur beiðni um holræsi frá lóðareigendum við fyrirhugað-

Árið 1919 var það gefið út í bæjarstjórn að lagt yrði fyrir vatnsæðar og holræsi jafnóðum og nýjar götur byggðust. Á næstu árum var mikið byggt í Skólavörðuholti en þar reyndist holræsagerðin mjög kostnaðarsöm vegna þess hve jarðvegurinn var grunnur. Myndin er tekin neðst á Þórsgötu á þriðja áratug síðustu aldar. Nýbyggða steinhúsið er Þórsgata 4.

an Hallveigarstíg. Borið var við kostnaði.15 Ekki var því að fullu staðið við fyrirheit um að holræsi yrðu lögð jafnóðum og nýjar götur byggðust. Árið 1923 var efnahagskreppa í landinu og mikið atvinnuleysi. Hvort tveggja hafði sín áhrif á fjárhagsgetu bæjarins.

Ástandið í Reykjavíkurhöfn vegna skólpútrása Í Skinfaxa, blaði ungmennafélaganna, var árið 1918 sagt frá hinu árlega nýárssundi sem jafnan fór fram í Reykjavíkurhöfn. Kvartað var undan því hve þátttakendur væru fáir en þeir voru aðeins sex að þessu sinni. Og kannski var ástæðan þessi eins og segir í frásögn blaðsins: „Þar sem sundið er þreytt er höfnin eins og forarpollur. Rennur þar út í hana alls konar óþverri úr skólpræsum borgarinnar.“16

Hafnargerðin í Reykjavík fór fram á árunum 1913–1917 og var

höfninni þá lokað með voldugum hafnargörðum með tiltölulega þröngri innsiglingu um hafnarmynnið. Sá böggull fylgdi skammrifi að innan þessarar nýju og glæsilegu hafnar voru útrásir helstu holræsa bæjarins, meðal annars frá aðalholræsinu, Læknum, sem tók við öllu skólpi úr Miðbænum og stórum hluta Austurbæjarins. Úr Vesturbænum lágu einnig skólpræsi út í höfnina. En nú hreinsaði sjórinn sig miklu síður innan hafnar en áður var þegar hún var fyrir opnu hafi. Segja má að sóðaskapurinn sem einkenndi opnu skólpræsin á götum bæjarins, áður en holræsin komu, hafi nú flust niður í flæðarmálið og ekki síst í höfnina.

Einn helsti atvinnuvegur bæjarbúa var saltfiskverkun. Árið 1923 varð að tvöfalda vatnsmagn Vatnsveitu Reykjavíkur, ekki síst vegna þess að farið var að nota Gvendarbrunnavatn til saltfiskverkunar í stað þess að þvegið var upp úr sjó áður. Sjórinn var orðinn ónothæfur til slíks vegna rennslis úr skólpræsum.17

Allt til ársins 1928 var útrás fyrir stærsta skólpræsi bæjarins í Reykjavíkurhöfn rétt fyrir austan Verkamannaskýlið sem sést hér á myndinni lítið eitt til vinstri frá miðju. Þaðan lagði mikinn óþef og höfnin sjálf var orðin hálfgerður forarpollur.

Skurðgröftur við Austurbakka Reykjavíkurhafnar 1925–1928. Hér er líklega verið að grafa fyrir sniðræsinu sem hafði útrás í krikanum fyrir austan Ingólfsgarð og veitti öllu skólpi út fyrir höfnina.

Árið 1925 var ástandið í Reykjavíkurhöfn vegna skólpútrása í hana orðið allskuggalegt. Eftirfarandi var skrifað það ár í Morgunblaðið: „Þeir munu ekki vera margir bæjarbúarnir sem ekki hafa fyrr eða síðar fundið óþef þann sem leggur frá höfninni austan Verkamannaskýlisins þegar fjara er. Þarf ekki að koma nærri höfninni til þess að verða var við þessa ógeðslegu fýlu því hana leggur yfir bæinn ef nokkur gustur er á norðan og það svo stundum að illgangandi er meðfram höfninni … Ástæðan til þessarar fýlu er eins og öllum mun vera kunnugt um sú að skólprörið úr Miðbænum liggur út í höfnina í krikanum austan við Verkamannaskýlið en ekki lengra en svo að það kemur alltaf upp úr með fjöru og þá gýs upp þessi fýla og leggur um allt. Þetta er gersamlega óviðunandi. Skólpræsið verður að leggja svo langt út í höfnina að öruggt sé að það komi ekki upp þegar lágsjávað er. En helst ætti að leggja það út í sjó á allt öðrum stað. En þó svo miklu sé ekki raskað verður að lengja rörið og frelsa bæjarbúa undan þeim óþrifum og óþef sem stafar af þessu. Það virðist engin ástæða vera til að mesta skólpræsi bæjarins sé svo að segja lagt upp í nefið á íbúunum.“18

Fyrsta sniðræsið

Menn sáu að þetta ástand gekk ekki til lengdar. Veita yrði skólpinu út fyrir höfnina. Og sumarið 1925 var hafist handa. Stóðu framkvæmdir yfir látlaust hvert sumar fram til 1928. Þetta var

langstærsta og dýrasta holræsaframkvæmdin í Reykjavík eftir holræsavæðinguna á árunum 1906–1916. Mikið holræsi var lagt eftir endilangri Tryggvagötu, sem öll var á hafnaruppfyllingu, og átti það að taka við skólpi úr meginhluta Miðbæjarins, þar sem holræsi voru að hluta endurnýjuð, og Vesturbænum að hluta. Þetta mikla holræsi var síðan sameinað Lækjarholræsinu sem sveigt var frá sinni gömlu útrás, lagt niður í Austurbakka og út fyrir Ingólfsgarð. Sagt var frá þessari framkvæmd í Morgunblaðinu sumarið 1927: „Lagning skólpröranna í austuruppfyllingunni austur fyrir hafnargarðinn hefir gengið tiltölulega fljótt. Er búið að grafa ræsið og farið að láta rörin niður og er byrjað að austanverðu. Hver rörbútur er mikið bákn og svo víður að lítið vantar á að fullvaxinn maður fái gengið uppréttur í þeim. Talsverðum erfiðleikum er það bundið að koma svo stórum og þungum rörum fyrir í ræsinu.“19

Og þarna í flæðarmálinu fyrir utan Ingólfsgarð var næstu áratugi meginútrás skólps í Reykjavík. En minni útrásir voru hvarvetna austan og vestan við höfnina.

Meginskólpútrásin fyrir austan Ingólfsgarð sést hér til hægri á þessari mynd sem var tekin um það leyti sem framkvæmdir við Sæbraut hófust 1983–1984. Mávager fyrir framan sem er að gera sér gott af „góðgætinu“ sem kemur úr útrásinni. Kolbeinshaus fjær.

This article is from: