5 minute read

Pípugerð Reykjavíkur

7. KAFLI

Pípugerð Reykjavíkur

Bæjarfyrirtæki stofnað við Langholtsveg

Ástríðsárunum 1940–1945 var oft skortur á holræsapípum og gangstéttarhellum sem hömluðu framkvæmdum. Þetta varð til þess að borgaryfirvöld gripu til nýrra úrræða við lok stríðsins. Þeim bauðst þá pípugerðarvél frá Keflavíkurflugvelli, framleidd af Concrete Pipe Machinery Company í Iowa í Banda-

Pípugerð Reykjavíkur við Langholtsveg árið 1949. Hún var til húsa í yfirgefnum setuliðsbröggum sem sjást hér til vinstri.

Pípurnar mótaðar í pípugerðarvél sem keypt var frá Keflavíkurflugvelli. Myndin er tekin í Pípugerðinni við Langholtsveg 1949. ríkjunum. Varð það að ráði að bærinn keypti vélina og réðist í að framleiða sjálfur efni í holræsagerð og gangstéttarhellur. Þetta var í samræmi við aðrar aðgerðir borgaryfirvalda á þessum tíma þar sem stofnuð voru bæjarfyrirtæki í samkeppni við einkaframtakið. Nægir þar að nefna Bæjarútgerð Reykjavíkur.

Í maí 1946 var formlega stofnuð Rörsteypa Reykjavíkurbæjar, síðar nefnd Pípugerð Reykjavíkurbæjar, en áður hafði vélinni af Vellinum verið komið fyrir í yfirgefnum setuliðsbröggum við Langholtsveg, skammt frá Suðurlandsbraut.1 Sveinbjörn Gíslason múrarameistari veitti fyrirtækinu forstöðu fyrstu árin.2 Ekki má rugla þessu nýja bæjarfyrirtæki saman við Pípuverksmiðju Reykjavíkur frá 1907 sem var einkafyrirtæki og áður hefur verið fjallað um.

En þarna var hægt að framleiða pípur af ýmsum sverleika, allt frá fjórum þumlungum að innanmáli til 15 þumlunga pípna. Jafnframt var gert átak í gæðamálum til að auka endingu röra. Seinna var gert ráð fyrir að þessi rör gætu enst í 60 ár en eldri rör frá því fyrir 1946 aðeins í 40 ár.3 Eftir stríð var farið að huga að því að gera meiri háttar holræsi frá nýjum úthverfum, til dæmis Laugardalsræsið sem síðar verður vikið að. Til þess að Pípugerðin gæti framleitt nægilega víð rör í slík aðalholræsi voru árið 1947 keypt mót og „víbratorar“ til að framleiða 60, 100 og 140 sentímetra víðar pípur frá Pedershaab Maskinfabrik í Brønderslev í Danmörku. Pípugerðin hafði þá einnig komið sér upp tækjum til að framleiða beygjur og stút- og greinpípur. Árið 1950 gat Pípugerðin fullnægt öllum þörfum Reykjavíkurbæjar varðandi holræsapípur, það er þegar sementsskortur hamlaði ekki starfseminni en mikil innflutningshöft voru og ekki farið að framleiða sement innanlands.4 Þannig voru um 20 kílómetrar af rörum framleiddir í fyrirtækinu árið 1949.5

Við framleiðsluna í Pípugerðinni störfuðu árið 1955 að jafnaði 9–12 verkamenn og bílstjórar auk verkstjóra.6

Flutt í Ártúnshöfða – vélakostur endurnýjaður Húsakynni og öll aðstaða við Langholtsveg var ófullkomin og réðst borgin því í það, þegar tímar liðu fram, að skapa Pípugerðinni nýtt og betra athafnasvæði. Henni var þá valinn staður í gamalli grjótnámu í Ártúnshöfða. Þar voru á árunum 1965–1966 reistar tvær stórar skemmur sem áður höfðu verið sunnan til í Öskjuhlíð en auk þeirra byggt nýtt hús fyrir afgreiðslu og starfsmenn en þeir voru 15–20 um þetta leyti. Vélakostur var einnig endurnýjaður.7 Nýju vélarnar, sem voru að mestu leyti sjálfvirkar eða stýrt af rafeindaheila, sem svo var kallaður, eru líklega eitthvert elsta dæmið um tölvustýrðan iðnað hér á landi. Sigurður E. Jónsson var yfirverkstjóri og sýndi hann blaðamönnum aðstöðuna 1966: „Sigurður fór fyrst með okkur inn í aðalsal verksmiðjunnar en þar fer fram vinna við að steypa alls konar pípur og fleira sem er í verkahring Píupugerðarinnar. Vélin sem lagar steypuna er af mjög fullkominni gerð, vestur-þýsk að þjóðerni. Steinefni og sement, sem í lögunina fara, koma í vélina á færiböndum, sem eru inn-

Gunnar Bíldal skrifstofustjóri Pípugerðarinnar við framleiðsluna í júlí 1961.

byggð í þaki hússins, þannig að ekki þarf að kvarta yfir hinu hvimleiða sementsryki, sem svo oft gerir mönnum erfitt fyrir, þegar unnið er í steypuvinnu. Sjálf steypuvélin stjórnast af rafeindaheila. Sett er gataspjald inn í heilann og á því eru ýmsar upplýsingar, t.d. um magn hvers steinefnis í þeirri lögun, sem á að fara að laga, rakastig hennar, styrkleika og fleira og síðan sér heilinn um að stjórna því að vélin lagi réttu lögunina … Er það gert í mjög fullkomnum dönskum vélum og er steypt við 2–6 víbratora þrýsting eftir stærð pípanna. Vinnan við þetta er unnin í ákvæðisvinnu og sáum við að ekki er slegið slöku við. Þarna eru líka steyptar alls konar beygjupípur, bæði heil- og hálfbeygjur. Einnig eru settar á sumar pípurnar hliðarpípur …“8

Árið 1974 var á vegum Pípugerðarinnar enn gert átak til að auka gæði framleiðslunnar. Byrjað var að framleiða rör sem gerð voru fyrir gúmmíþéttingar og var veggþykkt röranna jafnframt aukin og þar með styrkur þeirra. Gert var ráð fyrir að þau gætu

enst í 75 ár.9 Síðar var gæða- og framkvæmdaeftirlit innleitt með reglubundnum prófunum og samanburði við samkeppnisframleiðslu og staðla.10

Frá athafnasvæði Pípugerðarinnar í Ártúnshöfða.

Pípugerðin einkavædd

Pípugerðin var starfrækt með ágætum árangri næstu áratugi en upp úr 1990 komst einkavæðing opinberra fyrirtækja á dagskrá, bæði hjá ríki og borg. Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 21. júlí 1992 var samþykkt sú tillaga meirihluta Sjálfstæðisflokksins að stofnað yrði hlutafélag sem tæki yfir eignir og rekstur Pípugerðar Reykjavíkurborgar og yrði þetta fyrsta skrefið í átt til einkavæðingar. Ekki þótti lengur eðlilegt að opinber fyrirtæki væru rekin í samkeppni við einkaaðila en þeir voru þá orðnir allmargir á sviði holræsagerðar.

Þegar þetta var kynnt kom það fram í máli Sveins Andra Sveinssonar borgarfulltrúa að Pípugerðin þætti mjög söluvænleg

þar sem afkoma hennar væri góð og hún hefði skilað töluverðum rekstrarafgangi á undanförnu ári. Hann skrifaði: „Er talið að hlutdeild hennar á höfuðborgarsvæðinu sé um 35–45% í holræsaefni og 10% í hellum og steinum … 50% framleiðslunnar eru keypt af gatnamálastjóra, 5% fara til annarra borgarstofnana og 45% eru seld á almennum markaði.“11

Árið 1994 var Pípugerðin hf. þó enn í eigu borgarsjóðs og Aflvaka Reykjavíkur hf. sem átti 5% í fyrirtækinu. Pípugerðin hafði þá keypt fyrirtæki í Garðabæ sem framleiddi rör og flutt starfsemina þangað. Stjórnun og skrifstofuhald fyrirtækisins var ennfremur skilið frá Reykjavíkurborg um þetta leyti og það hóf að taka þátt í útboðum á almennum markaði. Tveimur árum seinna, á hálfrar aldar afmæli Pípugerðarinnar, var hún einkavædd. Kaupendur, sem áttu hæsta tilboð, voru Byggingarfélag Gylfa og Gunnars ehf. og Sandur ehf. sem eignuðust jafnan hlut í henni.12

Þegar kom fram á 21. öld ruddu plaströr sér smám saman til rúms í holræsalögnum. Þau þóttu hafa þann kost að vera mun léttari en steinsteyptu rörin, endast betur og skemmri tíma tæki að leggja þau. Helstu fyrirtækin sem framleiddu eða fluttu inn slík plaströr árið 2014 voru Set á Selfossi, Reykjalundur, Loftorka í Borgarnesi, Dregg á Akureyri og Tengi í Kópavogi.13

This article is from: