Tímarit hjúkrunarfræðinga - 4. tbl 2013

Page 39

á réttum tíma, réttan skammt og rétt blönduð. Þegar ég hef lokið við að taka til lyfin, fara yfir í tví- og þrígang, reyni ég að láta mér ekki fallast hendur. Á bakkanum mínum eru tvær blóðþynnandi sprautur, tveir insúlínpennar, ein sprauta með verkjalyfjum, nokkrar ampúlur með lyfjum í sem á að gefa beint í æð, önnur sem á að blanda í vökva og gefa í æð og við gjafir sumra lyfjanna þarf náið eftirlit líkt og endurteknar mælingar blóðþrýstings. Einnig eru sýklalyf sem þarf að leysa upp í þar til gerðum leysi og gefa í æð, gleymum ekki pillufarganinu. Ég forgangsraðaði og leitaði á náðir samstarfsfélaga til að fá aðstoð svo að hægt væri að gefa sem flest lyf á réttum tíma. Það tókst, en ég fékk mér ekki morgunmat fyrir vikið. Svo kemur kallið frá slysadeild. Leggja á inn sjúkling með magablæðingu á deildina mína og ég tek við upplýsingum um hann í síma. Áður en hann kemur þarf ég að fara inn á stofu 2 og framkvæma þvag­ blöðruskolun með legg. Meðan á skoluninni stendur fáum við, ég og sjúklingur minn sem er eilítið ber­skjaldaður, tvær heimsóknir. Ritarinn segir mér að sjúklingurinn minn, hann Jóhannes sem er að fara í rannsókn, eigi að drekka skuggaefni blandað út í einn lítra af vatni á níutíu mínútum og að hún setji skuggaefnið inn í lyfjaherbergi. Ég endurtek þessar upplýsingar í huganum og held svo áfram að sinna sjúklingnum. Næst er bankað og sjúkraliði tjáir mér að Elsa sé aftur komin með mikla kviðverki og þurfi verkjalyf strax. Ég held áfram að skola. Blöðruskolunin gekk vel og ég fer fram á gang og rifja upp næstu verkefni. Elsa og Jóhannes bíða. Ritarinn kallar til mín hvort ég komist í símann, aðstandendur Karls séu að hringja í annað skiptið til að fá upplýsingar um hvað hafi komið út úr rannsókninni. Ég verð að biðja hana um að taka skilaboð og set á verkefnalistann

að hringja í þau til baka eftir að ég hef kannað niðurstöðurnar. Hvor er á undan, Jóhannes eða Elsa? Elsa verður að fá forgang. Ég fer inn í lyfjaherbergi og athuga í lyfjakerfinu hvað Elsa hefur fengið af verkjalyfjum. Morfín, 5 mg undir húð. Ég er komin með sprautuna til hennar innan skamms. Ég sé að henni líður illa og ég biðst afsökunar á biðinni, gef henni sprautu og er svo rokin. „Jæja, Jóhannes, nú átt þú að drekka þetta skuggaefni sem er blandað út í lítra af vatni á níutíu mínútum.“ Á þeirri stundu skýst höfuð inn um dyrnar: „Birna, sjúklingurinn er kominn frá slysó, í hvaða rúm á hann að fara?“ Ég fullvissa mig um að Jóhannes skilji hvernig hann á að drekka skuggaefnið og dríf mig svo að heilsa upp á nýja sjúklinginn. Hann er náfölur og líður hræðilega illa. Ég kíki í pappírana hans til að vita hvað ég á að gera fyrir hann. Hann á að fá lyfjadreypi í æð og einnig blóð því að blóðgildi hans eru ansi lág. Hann er líka með hjartabilun og á að fá þvagræsilyf í æð milli gjafa. Ekkert mál. Stasi er settur á handlegginn og nýrri nál komið fyrir í bláæð. Blóðið kemur úr Blóðbankanum, 400 ml af hágæða rauðum blóðkornum. Blóðgjöf fer af stað, en hægt því að við verðum að muna að passa hjartað, og lífsmörk eru mæld mjög reglulega. Lyfjadreypi er blandað og sett í gang. Jæja, hvernig er staðan? Síminn hringir og það minnir mig á aðstandendurna sem eiga inni hjá mér símtal en ég kemst ekki svo langt því að Karl hringir bjöllu og biður um aðstoð. Hann er móður og það hryglir í honum. Ég hagræði honum í rúminu, hækka undir höfði og handleggjum og mæli mettun. Hún er ekki nógu góð en hann má fá súrefni eftir þörfum svo ég gef honum einn lítra í nös og fylgist með tölunum hækka. Frábært. En verkirnir hjá Elsu hafa greinilega verið orðnir of miklir, hún þarf aukamorfín og

ég er kölluð til, ekkert mál. Á leiðinni til baka athuga ég hvernig Jóhannesi gengur að drekka. Hann vill fá að vita meira um rannsóknina og skuggaefnið svo við setjumst niður saman. Ég veiti því athygli hversu gulur hann er í augunum og hann er mjög kviðmikill. Ég verð kíkja á seinustu blóðprufur og biðja læknana að líta á hann áður en hann fer í rannsóknina. Það er komið að hádegislyfjunum. Af hverju er María enn þá að taka kalíum­ mixtúru? Kalíumgildin hennar voru komin í lag þegar ég skoðaði þau í morgun. Ég athuga það einu sinni enn. Aftur hringir síminn og hljóðið minnir mig á að ég verð að láta það vera mitt fyrsta verk eftir hádegismat að athuga með niðurstöðurnar fyrir Karl og hringja í fjölskylduna hans. En fyrst eru það lyfin. Nú er klukkan orðin tólf og hálfur vinnudagur í starfi hjúkrunarfræðings liðinn. Stiklað var á stóru og mörg verkefni unnin sem ekki komust hér á blað. Takk fyrir samfylgdina.

Birna Hrönn Björnsdóttir starfaði um fimm ára tímabil á meltingar- og nýrnadeild Landspítalans. Hún lét af störfum í kjölfar kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og hóf þá störf hjá fyrirtæki sínu, Pink Iceland. Það sérhæfir sig í skipulagningu ferða, viðburða og brúðkaupa á Íslandi fyrir hinsegin markhópinn.

VINNUSMIÐJA UM SIÐAREGLUR FÉLAGS ÍSLENSKRA HJÚKRUNARFRÆÐINGA Fimmtudaginn 7. nóvember kl. 17-19 býður siðaráð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga félagsmönnum að taka þátt í endurskoðun á siðareglum félagsins. Vinnusmiðjan markar upphafið að endurskoðun siðareglnanna – í samvinnu við félagsmenn. Ekki stendur til að umbylta siðareglunum, sem eru frá 1997, heldur færa þær nær nútímanum.

Tímarit hjúkrunarfræðinga – 4. tbl. 89. árg. 2013

37


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
Tímarit hjúkrunarfræðinga - 4. tbl 2013 by Tímarit hjúkrunarfræðinga - Issuu