Vinnuferðir í Hekluskóga á árinu 2011. Þátttakendur frá Sjá: Björg Ólínudóttir, Guðrún Árnadóttir, Halldór Þór Wium Kristinsson, Jóhanna Jóhannesdóttir, Lilja Bögeskov, Margrét Baldursdóttir, Ragnheiður E. Jónsdóttir, Sigríður Rut Skúladóttir, Sveinn Jóhannsson, Vigfús Ó. Vigfússon og Þorvaldur Örn Árnason. Hekluskógar: Friðþór Sigurmundsson og Hreinn Óskarsson Inngangur. Síðustu ár hefur SJÁ farið í nokkrar vinnuferðir á vegum Hekluskóga. Í þessum ferðum hefur verið m.a. verið plantað birki og reyni í landi Galtalækjar, í Kjalrakatungur og í Skarðstanga fyrir austan Þjórsá og við veginn að Hjálparfossi fyrir vestan Þjórsá. Það var því rökrétt framhald að félagið fengi úthlutað svæði til að hafa umsjón með. Fyrir valinu varð land milli Dímons og Vegghamars og þar í kring sem er vestast í landi Hekluskóga. Við svæðið er fornbýlið Fremri Áslákstunga. Gróðurfar á svæðinu er í mjög misjöfnu ástandi. Sandáin rennur um svæðið og má segja að hún afmarki svæðið að vestan. Þar sem áin rennur í kverkinni milli Dímons og Vegghamars er svæðið nokkuð vel gróið og lúpína nokkuð víða búin að ná yfirhöndinni eða við það að verða ríkjandi gróður sérstaklega við Sandá. Fljótlega tekur við svartur sandurinn með stæðilegum lúpínuhnausum. Melgresi er þarna við sandbingi og sáð hefur verið grasfræi á svæðinu sérstaklega með gömlu Sprengisandsleiðinni og við veginn inn á svæðið og þar er komið rýrt og nokkuð gisið graslendi. Sandurinn er samt ríkjandi á þeim hluta svæðisins og gróður á erfitt uppdráttar vegna þess að sandurinn heldur ekki vatni meðan engin er gróðurþekjan. Búið var að planta töluverðu í svæðið þegar við komum að því sérstaklega þar sem grasþekja var og eins þar sem grasinu hefur verið sáð. Mest hafði verið plantað af birki en einnig nokkru af reyni, sitkaöl og ösp. Á þessu ári voru farnar tvær skipulagðar vinnuferðir á svæðið. Sú fyrri var helgina 21. og 22. maí og sú síðari helgina 24. og 25. september. Fyrir utan þessar skipulögðu ferðir fóru Grétar Einarsson og Vigfús Ó. Vigfússon í þrjár ferðir til að planta í svæðið milli þessara tveggja ferða og einu sinni var Grétar einn á ferð og eftir hana hafa þeir farið í tvær ferðir til að sá birkifræi og en þeirri þriðju þurfti að fresta þar sem snjór hefur lagst yfir land Hekluskóga. Í þessum ferðum var gist í hjólhýsi Grétars í Þjórsárdal og í fjölmennari ferðunum sváfu nokkrir í fortjaldi við hjólhýsið og einnig gistu menn í tjöldum. Á kvöldin var svo grillað og slegið á létta stengi og stundum farið í gönguferðir eftir vinnu á sunnudegi. Vinnuferðin 21. og 22. maí. Þátttakendur í þessaari vinnuferð voru 9 og voru tveir aðeins fyrri vinnudaginn en aðrir voru báða dagana. Fjórir mættu strax á föstudagskvöldið til geta byrjað vinnu strax um morguninn og eins til að hitta Friðþór starfsmann Hekluskóga, sem sá okkur fyrir verkfærum, áburði og plöntum. Nokkuð svalt var þessa daga og hvasst en veður bjart og fallegt. Við bjuggum okkur því vel og unnum kappklædd allan laugardaginn og fram yfir hádegi á sunnudeginum. Þegar vinnu lauk var farið í skógargöngu í skóginum í Þjórsárdal að þeim stað þar sem einn af síðustu ábúendum að Skriðufelli og fjallkóngur er heygður með hesti sínum. Þar fengum við okkur nesti og varð ekki vart við annað en að góður andi svifi yfir. Dökkt öskuský frá Grímsvötnum var yfir austurloftinu sunnudaginn 22. maí og byrjaði öskufallið í dalnum þegar við vorum að leggja af stað heim um kl. 16.