Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd (Sjá) höfðu samband við Vestmannaeyjabæ og buðu fram krafta sína yfir helgi. Ákveðið var, að ósk bæjaryfirvalda, að gera stíg með þrepum úr náttúrugrjóti niður í Kaplagjótu í Herjólfsdal. Stígurinn heppnaðist vel, en nýttist aðeins í nokkur ár því upp úr aldamótum var komið fyrir golf-gríni einmitt þar sem gengið var niður í Kaplagjótu. Sjá fóru einnig langa helgi á næsta sumri og gerðu þá 150 tréþrep úr trönuspírum í stíg í sandbrekku upp Klifið við Friðarhöfn. Sá stígur hefur dugað vel og er mikið genginn.
Annað verkefni var að færa til göngustíg úr Herjólfsdal í brattri grasbrekku upp á Eggjar norðantil. Einnig að græða upp eldri slóðina.
Sjálfboðaliðarnir nutu fegurðar Eyjanna og gestrisni bæjaryfirvalda, sem m.a. héldu þeim matarboð síðasta kvöldið, auk þess að kosta gistingu á farfuglaheimili og fríar ferðir með Herjólfi.