Vinnuferð Snæfellsnes 17. – 21. júní 2004 Verkefni með Bresku sjálfboðaliðum, BTCV Þátttakendur frjá Sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd, Sjá Þorvaldur bílstjóri, Eyþrúður dóttir Þorvaldar, Björg og undirrituð, Dóróthea, lögðum af stað frá Reykjavík um kl. 15.30, í fallegu veðri, sólskin og heiðbjart. Dagur 1. Við stoppuðum við Búðir á Snæfellsnesi og fengum okkur göngutúr. Þorvaldur sýndi okkur brunn sem er þar skammt frá. Fyrir 14 árum síðan voru Sjálfboðaliðasamtökin í vinnuferð einmitt til að grafa fram þennan brunn sem þá var alveg fullur af sandi. Nú er yfirbygging sem hindrar að brunnurinn fyllist aftur af sandi. Við komum að Gufuskálum um kvöldmatarleitið, þar sem Bretarnir voru með íbúð til afnota. Við heilsuðum upp á Mark, Emmu, Ann, Darryl og Paul, sem er verkstjóri Bretanna. Þau eru öll frá Bretlandi nema Darryl sem er frá Suðurafríku. Okkur var boðin kvöldmatur og úthlutað herbergjum. Á Gufuskálum eru landverðir þjóðgarðsins einnig með íbúð. Við hittum Eygló, fyrrum félaga Sjá, sem hannaði fallega Sjá merkið. Fleirri landverðir voru Ásta og Þórunn, sem ég kynntist á námskeiðinu á Hólum í fyrra. Kvöldið var mjög fagurt og við sátum lengi útivið, Þorvaldur spilaði á gítar og tók lagið með Björgu og Eyþrúður skoppaði um á grasinu. Ég gerði fátt annað en að bara njóta stundarinnar. Dagur 2 Á föstudag hittum við Þröst landvörð, sem vinnur með Bretunum sem verkefnastjóri. Við keyrðum að Djúpalónssandi. Þar er verið að leggja nýja gönguleið á kafla yfir í Dritvík. Sú fyrri, er of nálægt háu brúnunum og hefur sjór og vindur grafið undan, svo hættulegt er að ganga þar. Veðrið var all gott, en ekki mikið sólskin. Við unnum að þessu verkefni yfir daginn. Eftir vinnu vorum við nokkur sem skruppum yfir í Ólafsvík í sund. Um kvöldið eldaði Þröstur fyrir okkur lambalæri og ljúffenga súkkulagðiköku með flöskuþeyttum rjóma.