Stöðvun lúpínu í Skorradal 2012 og 1214

Page 1

Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd:

Fitjar og Vatnshorn í Skorradal

Vinnuferð með skemmtilegu ívafi þjóðhátíðarhelgina 16. – 17. júní 2012 -og júní og ágúst 2014 Umsjón fyrir Sjá: Sigríður Rut Skúladóttir og Þorvaldur Örn Árnason Þátttakendur: Sigríður Rut, Þorvaldur Örn, Ragnheiður, Ebeneser, Dagbjört, Jóhanna Berghild, Kristrún, Vigfús, Katla og Jóhann. Þorvaldur, Ebeneser, Jóhann og Kristrún voru á bíl. Þorvaldur Örn tók skýrsluna saman. Ragnheiður (Heiða) tók myndirnar.


Aðalverkefnið var að stöðva framrás lúpínu í friðaðan birkiskóg sunnan við Skorradalsvatn á móts við eyðibæinn Vatnsenda en þar er enn sem komið er lítið af lúpínu. Sjálfboðaliðasamtökin hófu þetta verk í fyrra. Einnig stóð til að taka upp gamla girðingu en það var látið bíða, enda af nógri lúpínu að taka og tókst ekki að klára allt í Vatnshornslandi. Unnið var að lúpínueyðingu frá hádegi til kvölds á laugardag og góð þriggja tíma lota um hádegisbil á þjóðhátíðardaginn.

Í baksýn er eyðibýlið Vatnshorn. Við það stendur lítið pakkhús sem var endurbyggt í fyrra, úr viði úr dalnum.

Unnið að frumkvæði og í samvinnu við Huldu Guðmundsdóttur skógar- og kirkjubónda á Fitjum. Hún vann með allan tímann, sló stærstu breiðurnar með vélorfi til að lúpínan sái sér ekki út í ár. Bærinn Fitjar er í bakgrunni. Lúpínan er nánast alls staðar í Skorradal.


Seinlegt var að taka með rót þúsundir ungplantna sem vaxa upp af fræi mörg ár eftir að búið er að fjarlægja móðurplönturnar, en þær voru teknar hér í fyrra.

Ræturnar voru ekki látnar liggja eftir á moldinni svo þær nái ekki að róta sig aftur. Lúpína heldur áfram að þroskast og mynda fræ eftir að búið er að fella hana. Ef verkið hefði dregist fram í júlí hefði þurft að fjarlægja blómin og skálpana með ærinni fyrirhöfn.

Lúpínan kæfir allan móagróður, m.a. þjóðarblómið holtasóley og allar tegundir af berjalyngi, en þarna er gott berjaland. Hér til hliðar er lítil planta sem hefur vaxið úr litlum rótarstubb sem varð eftir í moldinni við aðgerðir okkar í fyrra.


Á laugardagskvöldið var huggulegur kvöldverður: Afbragðs bleikja úr Skorradalsvatni, í boði Huldu.

Gist var í mjög huggulegu svefnpokaplássi í gamalli vélaskemmu sem hefur verið innréttuð á afar smekklegan hátt og klædd innan með furu og greni.

Eftir morgunmat á þjóðhátíðardaginn bauð Hulda hópnum að skoða kirkjuna sína, sagði sögu hennar og merkra gripa þar, m.a. túlkun á myndum á eftirgerð ævagamals kaleiks og geysifallegri nýlegri altaristöflu úr leir og rekaviði. Hulda fór með nútímalega bæn og við sungum auðvitað þjóðsönginn og Ó,blessuð vertu sumarsól við gítarleik Þorvaldar.


Dvöl okkar í Vatnshorni lauk með blómaskoðun kl. 14 – 16 á degi hinna villtu blóma sem nú bar upp á þjóðhátíðardaginn. Þar voru 13 þátttakendur sem tókst í sameiningu að greina 60 plöntur á svæðinu sem baráttan við lúpínuna fór fram, þ.e. austan við Vatnshornstúnið.

Merkt var við nafn plantnanna sem fundust á til þess gerð spjöld sem Náttúrufræðistofnun gefur út og sjá má hér til hliðar.Litla plantan sem liggur á spjaldinu var þegar byrjuð að mynda fræ. Að blómaskoðun lokinni var drukkið jurtate sem lagað var á staðnum með því að tína lauf af birki og bláberjalyngi í hitabrúsa með heitu vatni í.

Fitjar og Vatnshorn í Skorradal 14. – 15. júní – og 24. ágúst 2014. Unnið að frumkvæði og í samvinnu við Huldu Guðmundsdóttur á Fitjum (s.893 2789). Verkefnið er að stöðva framrás lúpínu að friðuðum birkiskógi sunnan við Skorradalsvatn á móts við eyðibæinn Vatnshorn. Sameiginlegt fæði og gist í svefnpokaplássi. Umsjón fyrir Sjá: Sigríður Rut Skúladóttir, Þátttakendur frá Sjá: Þorvaldur Örn, Ragnheiður Elísabet, Jóhanna Berghild og Sigríður Rut. Við vorum fjögur í Sjálfboðaliðasamtökunum, ásamt Huldu Guðmundsdóttur á Fitjum, sem héldum okkar ,,Verndardag villtra blóma" laugard.14. júní. Við björguðum fjöldanum öllum af blómstrandi holtasóleyjum og hekturum af berjalyngi frá því að kafna undir lúpínubreiðum næstu árin. Þessi viðburður átti sér stað við Vatnshorn gegnt Fitjum í Skorradal. Þar við suðausturhorn Skorradalsvatns


er enn allstórt svæði laust við lúpínu þar sem m.a. er friðaður birkiskógur. Ef við höldum vöku okkar verður þarna enn stórt lúpínulaust svæði og berjaland eftir svo sem 20 ár (þó ekki meðfram vatninu) en það verður ekki hægt að segja um aðra hluta Skorradals, nema þær jarðir sem áfram verða beittar sauðfé en þar verður minna um ber. (Við Heiða nutum strax ávaxta erfiðis okkar þegar við komum þarna aftur 24. ágúst og tínum bláber, aðalbláber og krækiber, auk þess að ráðast enn frekar á lúpínuna.) Veðrið var dásamlegt og við þróuðum enn frekar aðferðir okkar í kappleiknum við alaskalúpínuna. Það er þó óraunhæft að gera sér vonir um betri úrslit en jafntefli, því ég held það sigri enginn alaskalúpínu nema á litlum blettum sem heimsóttir eru árlega í meira en áratug. Við komum á Fitjar um hádegi og byrjuðum vinnu kl. 13:30 og unnum kappsamlega í blíðunni, með einni góðri kaffipásu, alveg þar til 21:30. Þá bauð Hulda okkur í dýrindis kvöldmat sem við gerðum mjög góð skil! Á sunnudeginum var farið að rigna og fórum við þá ekki til vinnu heldur lögðum tímanlega af stað heim með viðkomu í Ullarsetrinu og Búvélasafninu á Hvanneyri. Reyndar bættum við Heiða nærri þremur tímum við meðfram Reykjanesbrautinni á heimleið, en þar er lúpínan að stinga sér niður í vegköntum þar sem annars eru stór lúpínulaus svæði. Vinnuaðferðir. Við völdum lúpínutoppa og breiður (þær stærstu u.þ.b. 20 m 2 ) efst og vestast í hlíðinni ofan vð bæinn Vatnshorn til að hægja á eða jafnvel stöðva útbreiðslu hennar í vestur að friðaða birkiskóginum. Mest er um vert að taka breiðurnar ofarlega í hlíðinni því útbreiðslan er að jafnaði hraðari niður en upp í móti. Þó aðeins sé miður júní var lúpínan alblómga og byrjuð að mynda fræbelgi neðst á sumum blómstönglunum. Til að draga úr líkum á að fræjum í felldum plöntunum tækist að ná fullum þroska (það geta þau með því að nýta næringu úr stilkum og laufi) byrjuðum við á því að taka af efsta blómgaða hluta plantnanna. Í stærstu breiðunum niður við veginn létum við þá aðgerð nægja og teljum okkur þannig hafa komið í veg fyrir frædreifingu þetta árið. Í minni breiðum, og þar sem meira lá við ofar í hlíðinni, fórum við aðra ferð og tókum sem mest af ofanjarðarvextinum (stöngla og lauf) til að draga úr myndun forða í rótum þetta árið og þar með draga úr vaxtar- og blómgunarmætti plöntunnar á komandi ári. Á nokkrum stöðum þar sem lúpínan vex á sendnum (lítið grýttum) mel tókum við ræturnar líka. Í sendnum jarðvegi er tiltölulega auðvelt að ná upp rótunum, sérstaklega á yngri plöntum, en nær ógerningur í grýttum jarðvegi. Við lögðum áherslu á að tína upp ungviðið í kringum toppana og breiðurnar (á rúmlega meters belti þar í kring), en plöntur sem uxu af fræi í vor voru flestar komnar með 3 blaðpör, þe. tvö auk kímblaðanna. Hulda sló með vélorfi blóm ofan af stærstu breiðunum og eitthvað af græna hlutanum líka. Heiða og Jóhanna notuðu stóra vel brýnda búrhnífa líkt og ljá, bæði til að taka blóm og græna hlutann, auk þess að tína upp kynstur af ungviði með puttunum. Einnig notuðu þær stunguskóflur til að stinga sundur stöngla og til að ná upp rótum. Sirrý notaði aðallega stórar hekk-klippur, bæði á blóm og græna hlutann. Þorvaldur notaði berar hendurnar, bæði á blóm og græna hlutann og gekk vel að brjóta hnefafylli af stönglum alveg niður við jörð með því að kippa þeim til hliðar og þegar best lét náðist þannig allur græni hluti plöntunnar. Hann sleit einnig upp töluvert af rótum þar sem jarðvegur var minnst grýttur. Við skoðuðum breiður sem við þekktum og höfðum slitið upp og klippt 2-3 árum áður og sáum að það hafði skilað þeim árangri að plönturnar voru strjálli og ekki eins kraftmiklar. Við Heiða fórum í berjaferð í Skorradalinn 23 - 24. ágúst. Við ókum meðfram vatninu sunnanverðu og dáðumst að birkiskóginum http://www.skogur.is/thjodskogarnir/vesturland/nr/19 Vatnshornsskógi sem verið er að verja og lásum friðlýsingarskiltin sitt hvoru megin. Skógurinn nær ekki alla leið að Vatnshorni, hann byrjar það langt frá bænum að sauðféð forðum sótti ekki lengra á vetrarbeit. Það voru súldarskúrir síðari daginn en samt alveg dásamlegt veður. Tíndum við bæði ber og lúpínu eftir hádegi og fram á kvöld í Vatnshorni á sama svæði og við höfum verið að glíma við lúpínuna. Við tókum það sem komið var upp í vestustu og efstu breiðunum og einnig á melnum þar sem við byrjuðum, en þar var kominn þéttur en lágur lúpínugróður þrátt fyrir að ofanjarðarvöxturinn var allur fjarlægður í vor. Lúpínan sem við reyttum í vor hefur þó ekki náð að blómstra, en upp hafa sprottið æði margar plöntur, bæði af fræi og rótum. Ég er á því að við eigum að flytja lúpínu-víglínuna dálítið vestar og miða við að engin planta fái frið vestan við lækinn sem kemur niður við austurjaðar Vatnshornstúnsins, en þó uppræta stakar plöntur austan lækjarins. Það eru komnir upp það öflugir fræbankar í hlíðinni þar skammt austar sem við höfðum ekki roð við. Svo ætti að mínu viti að taka plönturnar sem eru að teygja sig upp frá vatninu vestan við Vatnshornsbæinn, þær sem eru komnar upp fyrir veg. Við tókum tvær við veginn ofan við túnið. Sennilega berst hún með farartækjum eftir veginum. Okkur datt í hug að ganga Síldarmannagöturnar næsta sumar m.a. til að gæta þar að lúpínu því hún berst gjarna með fólki, ýmist viljandi eða óviljandi.