Page 1

1

Vinna Sjálfboðasamtakanna í Þingvallaþjóðgarði 2012

Efnisyfirlit Leiðir á milli Leira og Bolabáss Leiðir kannaðar laugard. 21. apríl 2012 Frá tjaldsvæðinu með Leiragjá að Fjárhúsmúla Meðfram Sleðaásgjá Framkvæmdir Meðfram Sleðaásgjá, laugard. 20. maí. Við „Bolabásgötu“, laugard. 26. maí Leiðir milli Vatnskots, Skógarkots og Þingvalla, Framkvæmdir Samantekt og tillögur

bls. 2 bls. 2 bls. 3 bls. 5 bls. 6 bls. 8 bls.10

Höfundar skýrslunnar: Þorvaldur Örn Árnason og Sigrún Helgadóttir. Forsíðumynd tók Sigríður Rut Skúladóttir, og Sigrún Helgadóttir myndina bls. 7. Aðrar myndir tók Ragnheiður E. Jónsdóttir.


2

Leiðir á milli Leira og Bolabáss kannaðar laugard. 21. apríl 2012 Þátttakendur: Ebenezer Bárðarson, Jóhanna Hergeirsdóttir, Ólafur S. Andrésson, Ragnheiður E. Jónsdóttir, Sigríður Rut Skúladóttir, Sigrún Davíðsdóttir, Sigrún Helgadóttir og Þorvaldur Örn Árnason. Farið var úr Mjódd kl. 10 á bílum Ebenezers og Þorvaldar. Veðrið var yndislegt allan tímann, sólskin og hæg gola og um 5°C hiti. Engin greiðfær merkt gönguleið er nú á milli aðaltjaldsvæðis og þjónustumiðstöðvar þjóðgarðsins annars vegar og Bolabáss og Ármannsfells hins vegar. Þeir sem vilja fara þessa leið geta ekki annað en ekið/gengið malbikaða veginn meðfram Hvannabrekku og um Leynistíg. Gönguleið þarna á milli væri þó ekki nema rúmlega tveir kílómetrar og yki afþreyingarmöguleika tjaldgesta og drægi úr bílaumferð. Skoðaðar voru tvær leiðir: a) Frá tjaldsvæðinu miðju, með Leiragjá og að vestasta hluta Bolabáss, undir Fjárhúsmúla. b) Frá veginum austan tjaldsvæðisins og með Sleðaásgjá en hún kemur að Bolaklifi austan við Bolabás. A. „Bolabásgata“ frá tjaldsvæðinu með Leiragjá að Fjárhúsmúla Fyrst var könnuð leið frá bílastæði suðaustan undan Fjárhúsmúla að tjaldsvæðinu á Leirum. Sigrún og Ólafur, maður hennar, voru búin að kanna hana og setja inn hnit og tókum við mið af því. Þetta getur ekki talist vera gömul þjóðleið þótt vitað sé að þarna fór fólk mikið á milli, einkum um Alþingishátíðina 1930 þar sem hluti hátíðarhaldanna fór fram í Bolabás. Talsvert er af götum eftir fólk og fénað og völdum við leið sem fylgir að mestu frekar ógreinilegum götum fyrst í stað. Fara þarf yfir þjóðgarðsgirðinguna sem jafnframt er sauðfjárveikivarnargirðing (í frekar lélegu ástandi). Þar þarf að setja prílu.Við gerðum ráð fyrir að hún kæmi við horn á girðingunni og sagði Sigrún að Einar, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, hefði mælt með þeim stað fyrir prílur. Sunnan girðingar þarf að fara yfir gjá og fundum við ágætan stíg yfir hana. Bendir gróður til þess að hann hafi verið talsvert farinn áður en ekki í seinni tíð, enda gatan að gjánni gróin kjarri og girðingin heftir för. Stígurinn yfir gjána sést ekki á meðfylgjandi mynd en fólkið stendur nærri honum.

Skammt norðan girðingar. Ármannsfell og Fjárhúsmúli út frá því. Bílarnir á bílastæði þar sem væri upphaf eða endi leiðarinnar að norðanverðu.


3 Þegar komið er yfir stíginn og niður hallinn með gjánni er gatan greinileg. Hún er að hluta notuð af vísindafólki sem rannsakar þar mosa. Hún kemur að Leiragjá þar sem gjáin er lítil og fylgir gatan austurbarmi hennar til suðurs þar til gjáin er orðin mjög djúp. Þar tekur við úfið sprungusvæði við gjána og teljum við ráðlegt að velja leið þaðan beint á mitt tjaldstæðið, bæði til að sneiða hjá sprungunum og til að stytta leið tjaldgesta í Bolabás. Neðri myndin sýnir götuna til suðurs við gjána nokkuð norðar en þar sem beygt væri frá gjánni. Verkefni þarna eru að klippa kjarr á fáeinum stöðum, tína laust grjót, stika leiðina og merkja við endana. Við syðri endann gæti staðið Bolabás x km en við nyrðri endann Leirar tjaldsvæði xx km. Um miðbik leiðarinnar, eða við „Bolabásgata“ við Leiragjá. Leiragjá, þverar hún leiðina að Jónsstíg. Spurning er hvort ekki ætti að merkja þar líka. Á þeim köflum sem leiðin fylgir ógreinilegum og margskiptum götum þyrfti að stika nokkuð þétt (allt niður í 20 m á milli stika) til að leiða fólk inn á eina leið sem yrði síðan greinileg þegar margir hefðu gengið hana. Annars væri nóg að setja stikur á allt að 50 m bili. Þessi vestari leið hentar vel fólki til að ganga frá tjaldsvæðinu eða þjónustumiðstöðinni yfir í vestasta hluta Bolabáss. Þetta eru til dæmis þeir sem vilja ganga á Ármannsfell upp Fjárhúsmúla og þeir sem ganga vilja hringleið í Bolabás og koma til baka leiðina meðfram Sleðaásgjá (eða öfugt). Leiðin yrði mjög greiðfær eftir fyrrnefndar lagfæringar og lítið um mishæðir. Hún er auðkennd á kortum í Þingvallabók Sigrúnar og segir hún Ólaf þjóðgarðsvörð hafa lýst sig sammála því að „Bolabásgata“ ætti að vera greiðfær leið. Núna fer fólk oftast á milli þessara staða akandi eða gengur eftir þjóðveginum. B. Leið milli Leira og Bolabáss, meðfram Sleðaásgjá Í könnunarferðinni 21. apríl könnuðum við leiðina eftir eystri barmi Sleðaásgjár. Við Sleðaásinn (Bolaklif) er bílastæði og príla yfir girðinguna. Leið þessi er ekki merkt en það mikið gengin að hún er mjög greinileg. Aðalvandi fólks er að rata inn á hana. Hún byrjar að norðan, á sama stað og Réttargatan að Hrauntúni, en aðeins Réttargatan er merkt.

Upphafið við Bolaklif

Upphafið við Bolaklif

Greinileg gata en mishæðótt


4 Syðri endi Sleðaásleiðarinnar er við þjóðveginn, rétt austan við tjaldsvæðið, og byrjar þar á sama stað og Leiragata sem er merkt. Aðstæður þarna eru slæmar, við mjög fjölfarinn veg og engin gönguleið meðfram honum sem tengir gönguleiðirnar og tjaldsvæðið. Reyndar er hægt að klofa yfir gjána rétt norðan við veginn og þar var lítil göngubrú fyrir tveim áratugum að sögn Sigrúnar. Þar þyrfti að byggja nýja göngubrú með handriðum og jafnvel huga að frekari öryggisatriðum.

Upphafið við þjóðveginn

Þarna þarf að setja aftur hlera yfir gjána

Fyrsta spölinn frá hleranum þarf að leiða fólk framhjá sprungum.

Merkja þarf allar þessar leiðir

Gatan meðfram Sleðaásgjá er svo greinileg að það ætti ekki að þurfa að stika hana þétt nema þar sem hún er ógreinileg eða þar sem hún verður færð til. Annars staðar gætu stikur verið með löngu millibili. Við gengum hana ekki alla í könnunarferðinni heldur áleiðis frá báðum endum. Það er nauðsynlegt að merkja upphafsstaðina og æskilegt að tína úr henni grjót og klippa kjarr á stöku stað. Guðrún yfirlandvörður sagði þetta um leiðina í tölvubréfi haustið 2011: Auk þessa vil ég nefna leiðina meðfram Sleðaásgjánni, milli tjaldsvæðisins á Leirum og Bolaklifs. Þá leið þarf að leggja fallega í landið og stika til að byrja með. Þar með opnast hringleið frá tjaldsvæðinu um Bolaklif og Réttargötu í Hrauntún þaðan sem síðan er hægt að ganga annaðhvort í Skógarkot eða niður á tjaldsvæðið aftur um Leiragötu. Talsvert verk er síðan framundan við að koma Leiragötu í gott horf sem getur beðið betri tíma.

Hugmyndir þessar voru ræddar við Ólaf Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörð, á stuttum morgunfundi á Amokka mánud. 30. apríl. og honum send skýrslan um skoðunarferðina. Þar féllst hann á að láta smíða brú yfir gjána við Leirur og lagði til að við tækjum þessa leið á undan vestari leiðinni, „Bolaklifsgötu“ sem við og gerðum.


5

Framkvæmdir við leið meðfram Sleðaásgjá, laugard. 19. maí. Þann 19. maí skundaði vaskur hópur sjálfboðaliða á Þingvöll og hófst handa. Alls unnu átta manns þennan dag, þar af unnu fimm allan daginn. Lagt var af stað frá Reykjavík kl. 10 og komið þangað til baka kl. 19. Það voru Þorvaldur Örn, Sveinn, Sigrún Davíðsdóttir, Skírnir Garðarsson og Vigfús Eysteinsson. Hálfan daginn unnu þau Sigrún Helgadóttir, Ólafur og Grétar Einarsson. Þetta voru því 6 ½ drjúgt dagsverk. Það var prýðis vinnuveður, léttskýjað og norðan gola eða kaldi. Þjóðgarðurinn lagði til verkfæri og stikur eins og við þurftum. Við tókum og settum niður 40 stikur og fengum lánaðar fjórar klippur og skóflu og litla sög. Við skiluðum verkfærunum á tröppur skemmunnar því þá var búið að loka (tókum óvart litlu sögina með til Reykjavíkur og var henni skilað í næstu ferð viku síðar). Sjálf lögðum við til handbörur, léttan járnkall, slaghamar, net til að flytja stóra steina og auka klippur. kl. 11:15 hófumst við handa SA við Sleðaásgjána við Leirur, u.þ.b.100 m NA þjóðvegarins þar sem Sleðaásgatan greinist frá Leiragötunni. Tínt var laust grjót úr götunni og viðráðanlegir steinar sem stóðu upp úr henni voru fjarlægðir með járnkarli og gjarna settir í nálæg moldarflög. Beittar nibbur á stórum steinum voru brotnar af eða rúnnaðar af með slaghamri. Þar sem kjarr óx í götunni eða fast við hana var það klippt og sagað rækilega þannig að ætti að duga í nokkur ár. Síðan voru settar stikur á áberandi staði við götuna, strjált þar sem gatan var greinleg en þéttar þar sem hún var ógreinileg og einkum þar sem við reyndum að færa hana til. Við færðum hana til á 3-4 stöðum þar sem hún var að okkar mati hættulega nálægt gjánni og /eða lá að óþörfu um brattan hól. Við nostruðum við SV-hlutann en seinasta hlutann hefði mátt nostra meira við ef tíminn hefði leyft það og einnig vantar þar stikur því að við urðum uppiskroppa með þær. Gatan er að okkar mati greiðfær göngufólki eins og við skildum við hana og vonandi hægt að rata hana. Þó væri gott að fara aftur yfir hana síðar NA frá, bæta í 10 – 20 stikum og e.t.v pjakka burt meira af grjóti. Gott væri að fá mat landvarða á Þingvöllum og almennra vegfarenda á ástandi götunnar áður en við klárum verkið. Einkum á því hvort þar leynast hættur. Við teljum okkur hafa breytt legu götuna frá helstu hættum en betur sjá augu en auga. Ætlunin er að vinna vestari leiðina á svipaðan hátt um næstu helgi og fara svo aftur yfir báðar leiðirnar nokkru síðar og fínkemba þær. Þá væri gott að komin væri brú á Sleðaásgjána við þjóðveginn og príla yfir girðinguna á vestari leiðinni. Einnig þarf að setja skýrar merkingar við báða enda beggja gatnanna. Að því búnu ættu göngu- og afþreyingarmöguleikar þjóðgarðsgesta að hafa aukist nokkuð, ekki síst þeirra sem dvelja á tjaldsvæðinu. Þorvaldur spurði Guðrúnu landvörð í síma tæpri viku síðar hvort hún og hennar fólk hefði kynnt sér ástand götunnar eftir lagfæringar okkar. Hún sagði svo vera, að gatan hefði lagast en hana þyrfti að laga meira og stika betur til að standast kröfur sem gerðar eru í þjóðgarðinum. Við áttum leið um Leirur í septemberbyrjun og var þá engin brú komin á gjána og þessu verki því ólokið.


6

Framkvæmdir við „Bolabásgötu“, laugard. 26. maí Við mættum átta sjálfboðaliðar á tveim bílum við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum rétt fyrir kl. 11. Við vorum: Dagbjört, Ebeneser, Finnur, Jóna, Katla, Ólafur, Sigrún og Sveinn. Finnur er sonur Eysteins, fyrrverandi formanns Þingvallanefndar, og hafði verið í sveit hjá séra Eiríki þjóðgarðsverði þegar hann var lítill og rifjaði upp ýmislegt gamalt og fróðlegt fyrir okkur hin. Skemman var opnuð fyrir okkur og við fengum lánaðar klippur, járnkall og sleggjuhamar. Vorum með litla sög frá því síðast sem við skiluðum að verki loknu. Tókum líka stikur við húsvegginn. Þegar við höfðum lokið vinnu okkar var búið að læsa skemmunni svo að við lögðum öll áhöldin á tröppurnar og létum Scott vita, en hann var þá í þjónustumiðstöðinni. Við ókum upp að Fjárhúsmúla, gengum þaðan og unnum okkur suður leiðina að Leirum. Við stefndum á hornstaurinn á sauðfjárveikivarnar- þjógarðsgirðingunni. Við settum ekki niður stikur næst veginum til að draga ekki fólk að girðingunni á meðan ekki er búið að setja yfir hana prílur. Girðingin er léleg og til að gera hana ekki enn verri bárum við með okkur létta, sterka kassa sem við settum við girðinguna báðum megin til að stíga á svo að við kæmumst auðveldlega yfir hana án þess að leggja girðinguna niður. Kassana tókum við svo auðvitað með okkur aftur heim. Rétt sunnan girðingarinnar er þarna stígur yfir gjána (Almannagjá?). Stígurinn var annars vegar mjög gróinn og illsýnilegur og hins vegar grýttur, þótt auðveldlega mætti fara þar. Við klipptum úr stígnum og löguðum grjótið og merktum leiðina með stikum. Svo að nú er tiltölulega auðvelt að fara þarna yfir gjána. Sunnan stígsins er leiðin niður lítinn hall og þar þurfti að klippa úr henni. Þá var komið á greinilegan troðning suður með hallinum og leiðin var greið. Á nokkrum stöðum þurfti að velja úr tveim leiðum, hvor væri betri/greinilegri og á einum stað að klippa og saga rækilega. Við settum niður nokkrar stikur, sérstaklega ef um tvær leiðir var að velja. Þar sem komið var á troðning sem Ingibjörg Svala, vistfræðiprófessor, hefur farið eftir til að komast á mosarannsóknarreiti settum við stóran stein í þann troðning en stikur með Bolabásgötunni. Svo skemmtilega vildi til að þegar við vorum í þjónustumiðstöðinni, sleikjandi ís eftir að verki var lokið, kom Inga Svala þar og gátum við sagt henni að við hefðum lagt stein í götu hennar og hún fagnaði því. Hún hafði lengi gert sér grein fyrir þeim vanda, að það hve hennar götur eru greinilegar í mosanum beinir fólki að rannsóknarreitunum en af réttri leið. Við Leiragjá greinast götur, (þar þyrfti að vera vegpóstur). a) leið suður með Leiragjá, b) leið yfir Leiragjá upp á veg, c) leið austur á Jónsstíg, ógreinileg fyrir þá sem ekki þekkja til d) leið norður en hún greinist síðan í Bolabásgötu og að rannsóknareitum. Við vorum að koma leið d) og fórum nú leið a) suður með Leiragjá. Gatan var mjög greinileg með gjánni eins og oft er. Við höfðum margoft skoðað leiðina, og áttum gps-punkta, hvar við vildum beygja frá gjánni til að fara beint á tjaldsvæðið. En þennan dag brást tæknin okkur, greinilega líka athyglisgáfan og minnið, og við beygðum til austurs ekki alveg á réttum stað. Sú leið sem var valin var er þó líklega ekkert verri en hin, en það má skoða síðar. Alls staðar þurfti að klippa sig í gegnum kjarr til að komast á opna svæði norðan tjaldsvæðis. Það gerðum við og komum syðst á tjaldsvæðið.


7 Með gjánni og að tjaldsvæðinu stikuðum við gisið, fyrst og fremst til að við, eða aðrir sem vildu skoða leiðina og e.t.v. vinna hana betur en við gerðum, fyndu hana. Við vorum komin niður á tjaldsvæðið aftur þegar klukkan var tæplega fjögur. Þetta var því um 5 klst. vinna fyrir 8 = 40 klst. = vikuvinna! Að auki ferðatími til og frá vinnustað sem mætti reikna klukkustund á mann hvor leið og getur þetta því hæglega reiknast 8 dagsverk. Framhaldið: Mikilvægt er að prílur komi yfir þjógarðsgirðinguna „Bolabásgötu“ sem fyrst. Þá þarf að ljúka við að stika yfir melinn norðan girðingar að horni hennar. Einnig þarf að koma brú yfir Sleðaásgjá við tjaldsvæðið. Að sögn þjóðgarðsvarðar og yfirlandvarðar er ætlunin að flytja þangað brú sem verið er að leysa af hólmi annars staðar. Þá geta farið litlir hópar, t.d. sjálfboðaliðar eða landverðir, og smátt og smátt lagað leiðirnar. Annars vegar frá tjaldsvæði í Bolabás við Fjárhúsmúla og hins vegar austan Sleðaáss að Bolaklifi. Þarna kemur skemmtileg hringleið og góð afþreying fyrir þá sem eru á tjaldsvæðinu. Frá þjónustumiðstöð og að Ármannsfelli aðra hvora leiðina, um Bolabás og hina leiðina til baka eru rúmlega sex kílómetrar. Þeir frískustu geta svo bætt Ármannsfelli við! Nú er líka lítið mál að stika Jónsstíg og í raun mikilvægt að gera það áður en leiðin týnist alveg. Þá væri kominn styttri hringleið frá tjaldsvæðinu en ef farið er alveg upp í Bolabás. Sá hringur er rúmlega þrír kílómetrar.

Kaffitímar eru líka mikilvægir, Finnur, Sveinn og Jóna.


8

Framkvæmdir við leiðir milli Vatnskots, Skógarkots og Þingvallabæjar 22. – 24. júní Vinnulotan nú var frá föstudegi til sunnudags. Alls tóku 13 sjálfboðaliðar þátt og unnu flestir þeirra tvo daga, en 2 unnu þrjá daga og 2 einn dag. Alls geta þetta talist vera 26 dagsverk. Þar með eru dagsverkin í Þingvallaþjóðgarði orðin vel 50 þetta árið og er þá heimavinna umsjónarmanna verksins við undirbúning, skipulag og skýrslugerð ekki talin með. Tjaldað var á hinu undurfagra tjaldsvæði í Vatnskoti í boði þjóðgarðsins sem einnig veitti 30.000 kr. fjárstyrk til matarkaupa fyrir hópinn. Aðstaðan á tjaldsvæðinu er á allan hátt frábær. Þó fannst okkur að þar mætti vera hlaðið útigrill á vel völdum stað, m.a. til að forðast eldhættu þegar fólk er að nota eigin einnota grill sem mjög margir sýnast gera. Svo vantar skýrar merkingar þeirra gönguleiða sem liggja frá Vatnskoti. Þarna áttu sjálfboðaliðarnir dýrðlegar samverustundir kvölds og morgna og sofnuðu við fjölraddaðan fuglasöng, m.a. himbrima. Sól skein allan tímann og var ýmist lygnt eða svalur vestlægur vindur. Föstudagur Sigrún Helgadóttir, Þorvaldur Örn og Finnur Eysteinsson mættu í Vatnskot laust fyrir hádegi á föstudeginum og unnu við Vatnskotsveg til kvölds. Hann var lagfærður og stikaður frá Vatnskoti og að leiðinni sem liggur frá vegi og suður á Lambhaga, Lambhagagötu. Vatnsslanga liggur víða eftir endilangri götunni eða meðfram henni og er mjög til lýta og leiðinda. Við prófuðum að færa hana fjær götunni nærri Vatnskoti og var það hægt vegna þess að þar er skóglaust. Hún er samt enn allt of áberandi og truflandi. Ef færa ætti hana í skóginum þyrfti að taka af vatnið og skrúfa í sundur nokkur samskeyti og væri þá hægt að fela hana í kjarrinu. Það teljum við vera auðveldustu leiðina til að losna við hana úr augsýn göngufólks með minnstu raski. Annað ráð væri að grafa hana eða rispa ögn niður við götuna með skóflum og járnkarli. gæti orðið erfitt og fylgdi óhjákvæmilega rask sem tæki nokkur ár að jafna sig. Þegar fólk kemur eftir Vatnskotsvegi á Lambhagagötu lendir það í vanda. Bílastæðið blasir við og fara margir þangað og upp á veg en aðrir fylgja slöngunni áfram og lenda þá á sprungusvæði og enda líka uppi á bílveginum þar sem er beygja á honum og umferð hættuleg. Í báðum tilfellum gengur fólk síðan með eða á mjóum veginum að Silfru eða Flosagjá. Lausnin er að okkar mati sú að finna leið áfram yfir hraunið í vestur að nýgerðu götunni góðu sem liggur með Silfru og fylgja henni upp á Þingvallatún. Við skoðuðum aðeins hugsanlega leiðir en það var orðið kvöldsett svo að við gengum niður Lambhagagötuna niður að vatni, yfir Lambhagann nyrst, sunnan garðs, og með vatninu til baka. Þessa leið þarf að laga og klippa úr og gerðum við það lítilsháttar, svona í leiðinni. Sveinn og Jóna mættu um kl. 15 og gengu beint til vinnu og svo bættist Ólafur við rétt í lok vinnudags og gekk vasklega í matargerð ásamt Sigrúnu og fleirum. Grilluð var bleikja (þó ekki úr Þingvallavatni) og bragðaðist guðdómlega. Um nóttina komu Ebeneser og Dagbjört og Jóhanna, Sigríður Rut og Signý Ósk á laugardagsmorgni. Laugardagur Á laugardeginum unnu 11 sjálfboðaliðar (flestir allan daginn) við Vatnskotsgötu, frá Vatnskoti að Skógarkoti, og svo áfram við Gönguveg frá Skógarkoti að þjóðveginum við Flosagjá. Alla þessa leið var klippt kjarr og lyng, hreinsað lausagrjót og drjúgur slatti af steinum losaður með skóflu eða járnkarli og fjarlægðir úr götunni þar sem þeir voru til baga, ýmist stóðu upp úr


9 götunni og mynduðu nibbur eða hindranir og eins steinar sem þrengdu mjög götuna. Reynt var að koma sem mestu af þessu grjóti fyrir í moldarflögum meðfram stígnum en víða voru engin slík flög og var þá leitast við að setja þá í lautir og láta fléttugróna flötinn snúa upp. Í stærstu holurnar eftir steinana var stungið minni steinum og mold eða torfusneplum sem stungnir voru úr þrengingum í götunni. Leiðin sem lagfærð var á þennan hátt er tæplega 5 km. Syðsti hluti Vatnskotsgötu, sem liggur á milli eldri bílvegarins (Konungsvegar) og tjaldsvæðisins í Vatnskoti, var nú stikaður í fyrsta sinn. Upphafsmerki götunnar er norðan bílvegarins og vantar nú að setja einnig slíkt skilti við upphaf götunnar við þjónustuhúsin á tjaldsvæðinu. Gatan frá bílveginum norður að Skógarkoti var vel stikuð og þurftu sjálfboðaliðar þar litlu að bæta við, helst að slá á nokkrar stikur. Gönguvegurinn er mjög vel varðaður frá Skógarkoti að Háugjá. Helsti vandinn er sá að vegfarendur eru að bæta grjóti í þessar fornu vörður. Við ákváðum að stika spottann frá Háugjá að bílveginum við Flosagjá en það verk beið þó næsta dags.

Stígurinn yfir Háugjá er flottur, að hluta manngerður.

Kristrún við merkta vörðu.

Til að sjá hvernig loka mætti Vatnskotshringnum gengum við eftir malbikuðum vegi frá Flosagjá að þjóðargrafreitnum við Þingvallakirkju og áfram handan hans um túnið uns við komum að vönduðum göngustíg meðfram Silfru. Þá áfram eftir honum niður undir vatnið en beygðum þá til austurs uns við komum að Vatnskotsveginum með vatnsleiðslunni þar sem vinnu okkar við þann veg lauk kvöldið áður. Við skoðuðum og mátum þessa leið og undirbjuggum vinnu sunnudagsins. Við grilluðum aftur við frumstæðar aðstæður á laugardagskvöld og snæddum úti í nokkuð nöprum vestankalda sem gekk ekki niður fyrr en við höfðum flúið í húsaskjól og troðið okkur öllum inn í pínulítið hjólhýsi sem Ebenezer og Dagbjört höfðu meðferðis og við kölluðum skrifstofu Sjálfboðaliðasamtakanna. Þar áttum við notalega kvöldstund með kaffi og súkkulaði. Við slíkar aðstæður fer fram mikilvæg umræða um verkefnin og starf samtakanna. Þá um kvöldið bættust systurnar Kristrún og Ragnheiður í hópinn, komu hvor úr sinni áttinni; Heiða úr Vogum og Kiddý frá Hvammstanga. Sunnudagur: Eftir morgunverð á sunnudeginum voru tjöldin tekin niður og óku 9 sjálfboðaliðar til vinnu á mörkum þinghelginnar.


10 Nú skyldi loka hringnum þannig að fólk gæti gengið sæmilega hættulítið hvað bílaumferð varðaði hringinn um Vatnskot, Skógarkot, Flosagjá, Þingvelli. Skipt var liði. Annar hópurinn fékk það verkefni að stika frá Háugjá, með Gönguvegi að bílveginum við Flosagjá og gekk það greiðlega. Upphafsskilti Gönguvegarins er austan við bílveginn og þar er ekkert bílastæði. Eðlilegt væri að telja leiðina byrja við bílastæðið við Flosagjá, nokkra tugi metra þar frá, og að skiltið væri þar. Þá þarf að þvera bílveginn, sem er mikið keyrður, og eftir troðningum að dæma ganga flestir á ská yfir veginn, sem eykur enn á hættuna, og ganga síðan eftir veginum niður á bílastæðið. Þetta er hættulegur spotti eins og aðstæður eru nú. Vegurinn er þröngur, fer yfir blindhæð, klettaveggur er við aðra vegabrúnina og hátt niður af hinni. Þarna er mikil umferð, oft stórra bíla, og ekki alltaf farið varlega. Sjálfboðaliðarnir skoðuðu svæðið og veltu vöngum yfir hvar væri besta og öruggasta leiðin og sýndist sitt hverjum. Við komum auga á nokkrar lausnir. Allar gera þær þó ráð fyrir að fólk gangi beint vestur yfir veginn og að Vegagerðin setji upp skiltið Gangandi vegfarendur og máli sebrabraut á malbikið (mætti gera víðar). Síðan mætti velja og vinna leið norðan í hæðinni og niður á bílastæðið en þannig yrði umferð gangandi best aðskilin frá bílaumferð. Eða að afmarka gönguleið með veginum, með vegriði og merkingum, svo gangandi fólk hafi ótvírætt sitt rými á veginum. Þar sem sjálfboðaliðar ræddu málið kom þar að Torfi, einn af landvörðum þjóðgarðsins, og gaf sig á tal við hópinn. Hann taldi sérstaka gönguleið þarna óþarfa, fólk gæti gengið eftir bílveginum. Svo fór að þessi stutti spotti var ekki stikaður og hringnum því ekki alveg lokað. Vonandi verða þarna gerðar úrbætur áður en slys verður. Hinn hópurinn, fjórir sjálfboðaliðar, gengu niður með Silfru og fundu heppilega leið frá henni og yfir á gatnamót Vatnskotsvegar og Lambhagagötu. Klippt var úr leiðinni og hún stikuð. Rúmum mánuði síðar fór Sigrún Helgadóttir þarna um og var þá kominn þarna greinilegur troðningur og augljóst að margt fólk er að ganga þessa leið. Allur hópurinn stikaði síðan frá bílastæðinu við Silfru, um Þingvallatún og að Skötutjörn, nálægt þjóðgargrafreit, þaðan sem er malbikuð leið aftur á Flosagjá. Vinnu lauk upp úr kl. 14. Stígurinn yfir Skötugjá, í Þingvallatúninu.

Samantekt og tillögur Þetta var fjórða ferð Sjálfboðaliðasamtakanna á Þingvöll sumarið 2012. Þann 21. apríl voru kannaðar leiðir á milli tjaldsvæðis á Leirum og Ármannsfells, 19. maí var unnið við lagfæringar á leiðinni með Sleðaásgjá og 26. maí unnið við leiðina frá tjaldsvæði að Fjárhúsmúla, „Bolabásgötu“. Sjálfboðaliðar sjá ótal verkefni á Þingvöllum fyrir vinnufúsar hendur. Bæði að vinna betur þær leiðir sem þegar hefur verið unnið við og ný verkefni. 1. Í fyrra klipptum við leiðina á milli Klukkustígs og Þórhallastaða. Enn er eftir síðasti spottinn frá Þórhallastöðum að Pelahellu. Gaman væri líka að tengja þessa leið, sem kannski má kalla „Klukkuveg“, öðrum leiðum þjóðgarðsins. Mikilvægt er að þjóðgarðurinn fari fram á það við Vegagerðina að setja undirgöng í veginn á Klukkustíg. Það hefði auðvitað átt að gera sumarið 1974 þegar þessi vegur var lagður í


11

2. 3.

4. 5. 6. 7.

ævafornan stíg sem fram að því hafði verið þjóðleið gangandi og ríðandi fólks. Svo þarf að stika leiðina og merkja. Þegar þjóðgarðurinn hefur sett prílur yfir girðinguna norðarlega á „Bolabásgötu“ þarf að ljúka við að stika hana. Guðrún yfirlandvörður telur að vinna þurfi enn frekar að leiðinni með Sleðaásgjá og við tökum undir það. Þjóðgarðurinn þarf að setja brú yfir gjána við tjaldsvæðið eins og talað var um og þá er hægt að setja skilti þar sem þessi leið skilst frá leiðinni að Skógarkoti. Hægt er, og reyndar mikilvægt, að merkja leiðina um Jónsstíg á milli Bolabásgötu og yfir Sleðaásgjá að götunni austan gjárinnar. Lagfæra þarf Lambhagagötu. Stika þarf leið með vatninu sem nýtist göngufólki og beinir því góða leið með vatninu án þess að fara of nærri vatnsbakkanum þar sem veiðimenn halda sig. Í fyrra skoðuðum við líka leiðir í austurhluta þjóðgarðsins, leiðir með Hellishæð, Svínhólum, Hrafnagjá o.fl. sem við hefðum fullan hug á að vinna í.

Sjálfboðaliðasamtökin vilja gjarna ræða við þjóðgarðsvörð um þessi verkefni og önnur ef áhugi er fyrir hendi hjá þjóðgarðsstjórnendum. Fleiri tillögur Við undirbúning og framkvæmdir okkar í sumar höfum við séð ýmislegt sem við viljum gera að tillögum okkar eða setja fram til umhugsunar. Vegvísar í þjóðgarðinum sjást yfirleitt vel þar sem fólk er fótgangandi, t.d. við bílastæði, en sjást illa úr bílum. Þannig sést vegvísir að tjaldstæðinu í Vatnskoti mjög illa en veiðiskilti þar sjást betur. Einn vegvísir var greinilega rangur. Hann var við reiðveginn við Skógarkot og er letrað á hann Skógarkotsvegur, og undir með smærri stöfum Skógarkot 1,9 km. Það stenst ekki því þarna er verið að merkja leiðina frá Skógarkoti. Við sögðum Torfa landverði frá þessu og hann kannaðist við það. Við hvöttum hann til að sjá til þess að þetta yrði lagað. Það sárvantar mun fleiri vegmerkingar (vegpresta) í Þingvallaþjóðgarði á gatnamótum. Spurning hvor ekki væri rétt að hafa a.m.k. suma þeirra einfaldari og ódýrari en jafnframt með skýrari (stærri) áletrun en þeir sem fyrir eru og tryggja betur að þeir sjáist, t.d. vegna kjarrs. Ráð væri að reyna að fá Vegagerðina til að setja upp aðvörunarskiltið “Gangandi vegfarendur” þar sem gönguleiðir skera bílvegi. Einnig að mála þar sebrabrautir á malbikið. Færa þarf vatnsleiðsluna sem liggur eftir Vatnskotsvegi. Að lokum óskum við eftir nánari samvinnu við landverði á Þingvöllum ef framhald á að verða á vinnu Sjálfboðaliðasamtakanna í þjóðgarðinum. Samskiptin hafa verið með bréfum og símtölum auk þess sem við höfum hitt landverði af tilviljun á förnum vegi þegar við höfum verið við störf á Þingvöllum. Við myndum vilja blanda geði við landverði þannig að við hjálpuðumst að og lærum hvert af öðru. Við höfum góða reynslu af þess konar samskiptum við heimafólk víða um land, bæði við undirbúning verka og framkvæmdir.

Vinna Sjálfboðasamtakanna í Þingvallaþjóðgarði 2012  

Projects of the Iclandic Natur Volunteer organisation in Thingvellir National Park 2012

Vinna Sjálfboðasamtakanna í Þingvallaþjóðgarði 2012  

Projects of the Iclandic Natur Volunteer organisation in Thingvellir National Park 2012

Advertisement