Sáning við Bleikhól í Reykjanesfólkvangi

Page 1

Reykjanesfólkvangur – Að stöðva útbreiðslu lúpínu og sá grasfræi í rofsár

Áburður og sáning við Bleikhól, að frumkvæði Arnar Þorvaldssonar, félaga í Sjá. Sjálfboðaliðasamtök um Náttúruvernd hafa undanfarin 7 ár unnið að takmörkun útbreiðslu lúpínu á nokkrum stöðum í Reykjanesfólkvangi, í samráði við stjórn fólkvangsins og landvörð, m.a. að hefta útbreiðslu lúpínu á og við Bleikhól sem blasir við af veginum miðja vegu milli Kleifarvatns og Seltúns. Gróður og jarðvegur er illa rofinn víða á því svæði og hafa Sjá byrjað að sá grasfræi og bera á rofsár sunnan og vestan við hólinn. Sumarið 2017 (15. júní) sáði 15 manna hópur háskólanema frá Bandaríkjunum 40 kg. af húðuðu grasfræi og 600 kg af áburði sem Landgræðsla ríkisins lagði til. Örn og Þorvaldur tóku verkið út í september 2017. Þarna tókst að klæða grasi tæplega 5% af uppblásna láglendinu sunnan og vestan Bleikhóls. Þorvaldur tók myndir af svæðinu og eru nokkrar þeirra hér á fésbókarsíðu Sjá. Hér er síðan Skýrsla á vefnum issuu um starf Sjá í Reykjanesfólkvangi 2017 og fyrr. Vorið 2018 sótti Sjá um styrk frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum til frekari uppgræðslu á þessu svæði og fékk 100.000 kr. Landgræðslan lagði að auki til einn stórsekk af áburði (600 kg) og allt túnvingulsfræ sem þurfti, 180 kg af húðuðu fræi. Sjá keypti fyrir styrkinn 2 stórsekki til viðbótar. Þann 20. júní 2018 var dreift 1800 kg af áburði og 180 kg af húðuðu túnvingulsfræi í og við rofabörð. Brynjólfur frá Kolsholtshelli flutti áburð og fræ úr Þorlákshöfn og dreifði með kastdreifara, í samvinnu við Örn og Þorvald frá Sjá. Notaður var sams konar áburður og Landgræðslan notar (Sprettur 25-5), sekkurinn kostaði 41.000 kr mvsk hjá Skeljungi. Brynjólfur Þór frá Kolsholtshelli, Flóa (s.896 5713) hefur dreift áburði og fræi fyrir Landgræðsluna, þekktur fyrir vandvirkni og útsjónarsemi og að lesa landið. Hann var með öflug tæki að flytja áburð og dreifa við Krýsuvík og var tilvalið að fá hann að Bleikhól í framhaldi af því. Brynjólfur flutti áburðinn og fræ úr Þorlákshöfn, allt fyrir sanngjarnt verð. Samtökin kostuðu dreifinguna og flutninginn að mestu. Brynjólfur tekur allt að 3 stórsekki í dreifarann í einu, blandar fræinu við áburðinn og dreifir hvoru tveggja í einu. Hann getur dreift í rofabörð í nokkuð bröttu landi. Votviðri getur verið vandamál, leirinn verður drulla og getur markað spor. Það var vætutíð í sumar en hékk að mestu þurr dagana fyrir dreifingu og meðan á dreifingu stóð. Brynjólfur hefur tekið eftir því þar sem hann hefur sáð og borið á að best spírar í hjólförum traktorsins þar sem myndast skjól fyrir ungplöntuna, jarðvegur er þjappaður og yfirborðið helst lengur rakt. Hann lagði til að við gerðum þá tilraun að raka yfir smá hluta af því svæði sem hann dreifði á við Bleikhól og gerðum við það. Brynjólfur mætti um hádegi miðvikud. 20 júní með áburð, fræ, 2 traktora og dreifara og dreifði 1800 kg af áburði og um 180 kg af fræi. Gekk vel, gat dreift í mörg helstu rofsárin og sporaðist ekki til skaða. Örn og Þorvaldur voru til aðstoðar og leiðsagnar. Örn sló einnig lúpínubreiðurnar á kolli Bleikhóls og Þorvaldur og Sveinn slitu upp lúpínu umhverfis Bleikhól og í hlíðum hans þennan sama dag. Hér er myndaalbúm af verkinu, ásamt skýringum, á fésbókarsíðu Sjá. Félagar Sjá skoðuðu sáningarsvæðið 14. okt. 2018 og urðu fyrir vonbrigðum. Nýgræðingurinn var smávaxinn og strjáll, mun lakari útkoma en árið áður. Best var útkoman í traktorsförunum, en yfirrakstur með hrífu sem reyndur var á einum stað hafði ekkert að segja. Svo var að skilja á Brynjólfi (í síma) að

útkoman væri almennt slæm í ár. Ekki hefur skort vökvun en sólarleysi og kuldi hafi sitt að segja, jafnvel ofvökvun. Sáningin frá 2017 kom áfram vel út og er víða kominn þéttur svörður undir rofabörðum sem frostlyfting mun varla ógna.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.