Vinnuferð í Kerlingarfjöll 10. – 13. júlí 2003. Þátttakendur: Dóróthea Lárusdóttir, Helga Hausner, Signý Kristjánsdóttir, Sveinn Jóhannsson, Vigfús Óðinn Vigfússon. Fimmtudagur 10. júlí 2003: Hópurinn hittist í Mjóddinni kl. 18 fimmtudaginn 10. júlí. Þar vorum við sótt af tveimur mönnum sem eiga félagið sem rekur Kerlingarfjöll. Þar voru á ferð Hans Kristjánsson og Óskar Einarsson sem á árum áður dvöldu langdvölum í Kerlingarfjöllum og þekkja þar hvern krók og kima. Við komum í fjöllin fyrir kl. 10 um kvöldið þar sem staðarhaldarar Eðvarð Hallgrímsson og kona hans Helga Guðmundsdóttir tóku á móti okkur. Við fengum súpu þarna um kvöldið og komum okkur fyrir á lofti stóra skíðaskálans sem kallast Ásgarður. Áður en við lögðum af stað í ferðina stóðum við í þeirri meiningu að megin verkefni hópsins væri að stika gönguleiðir. Þegar þangað var komið fengum við þær fréttir að mikilvægara væri að laga gönguleið inn með Ásgarðánni að borholu, þar sem komið hefur verið upp heitum potti með borholuna í miðjunni eins og gosbrunn. Einnig var aðkallandi að laga göngubrú yfir Ásgarðsánna þar sem hún rennur í gegnum Hveradali og smíða aðra nýja á sömu slóðum. Áður en við tókum á okkur náðir fórum við á LandRover Óskars upp eftir Ásgarðsánni og litum á pottinn og gönguleiðina að honum. Hans fór heim um kvöldið en Óskar varð eftir yfir nóttina og skutlaði hópnum sem vann í Hveradölum þangað áður en hann hélt heim. Föstudagur 11. júní 2003: Hópnum var skipt í tvennt þannig að Sveinn og Helga fóru í Hveradali að laga stikur en Dóróthea, Signý og Vigfús voru sett í að laga göngustíginn með Ásgarðsánni. Í Hveradölum höfðu stikur bæði losnað og brotnað og aðrar horfið. Skipt var um brotnar stikur en þær brotnu nýttar inn í vörður eins og hægt var, þær föllnu reistar við og bætt inn í þar sem þurfa þótti. Aðallega var unnið á neðra Hveradalasvæðinu en aðeins var litið inn á efra svæðið sem er miklu stærra að umfangi. Mishæðótt er í neðri Hveradölum þannig að þeir sem unnu þar þurftu að brölta upp og niður brekkur með stikur og sleggju. Í staðin fengu þau að skoða vel hveri og gufur í Hveradölum. Kannski helst til vel því þegar þau voru á leið frá Snorrahver og komin nokkra tugi metra frá honum, kvað við mikill hvellur og kölski sendi spýju á eftir þeim sem hæfði buxnaskálm formannsins. Borholan við Ásgarðsánna átti upphaflega að nota til hitunar fyrir húsin í Hveradölum. Hitastig vatnsins reyndist aðeins vera baðvolgt, sem er alltof lítið til húshitunar. Hitinn í holunni fór auk þess lækkandi þegar komið var niður fyrir vissa vegalengd, sem bendir til þess að borinn hafi verið kominn út fyrir hitakeiluna undir Kerlingarfjöllum. Keilan er mjóst neðst þar sem hitinn streymir inn en