Reykjanes skartaði sínu fegursta helgina sem rúmlega 20 sjálfboðaliðar tóku til hendinni eina helgi til að gera ferðamönnum og náttúruunnendum kleift að skoða hverasvæðið án þess að valda náttúruspjöllum eða skaðbrenna sig á sjóðandi leir og gufu.
Sól skein í heiði og var vindurinn rétt hæfilegur til að þerra svitann. Utan við hveraleirinn var blómskrúð, gras og dúnmjúkur mosi. Kríurnar stilltu árásunum í hóf og sandlóurnar voru farnar að róast seinni daginn. Þarna voru góð skilyrði til vinnu, náttúruskoðunar og samveru.
Hverasvæðið sem hér um ræðir er háhitasvæði skammt frá Reykjanesvita, gjarna nefnt Gunnuhver og tilheyrir Reykjanesbæ. Síðan þá hefur risið þar Reykjanesvirkjun og umhverfinu umturnað. Árið 1995 var þarna enginn göngupallur, engar merkingar og talsvert um utanvegaakstur.
Hér er því lýst þegar fyrsti göngustígurinn og fyrsta göngubrúin var byggð. Árið eftir var hún endurbætt og smíðað á hana handrið. Dugði vel í áratug, þar til hverinn færðist í aukana og nánast gleypti pallinn!