1 1 Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd:
Gönguleiðin að Keili - að kanna hana, laga með litlu raski og stöðva gróðurskemmdir Keilir er tæplega 400 m hátt móbergsfjall. Hann sést víða að þó hann sé ekki hár og var áður mikilvægt eyktarmark af sjó. Keilir er í Sveitarfélaginu Vogum. Keilir, Oddafell og Höskuldarvellir eru á náttúruminjaskrá og gæti það svæði síðar meir orðið hluti af Reykjanesfólkvangi og jafnframt hluti af fyrirhuguðum Reykjanesjarðvangi. Það er vinsælt að ganga á Keili. Ekið er frá Reykjanesbraut eftir ósléttum og grýttum Höskuldavallavegi að bílastæði (gamalt borholuplan) við norðurenda Oddafells sem er langt, mjótt og lágt fjall. Þaðan ganga flestir að Keili. Meirihluti gönguleiðarinnar er á frekar sléttu Þráinsskjaldarhrauninu og greiðfær, sjá efstu myndina. Á myndinni hér til hliðar gengur fólkið af stað eftir ökuslóða uppi á Oddafellinu, en þar ganga fáir. Flestir velja greiða götu meðfram Oddafelli sem liggur eftir vel gróinni laut milli apalhrauns og hlíðar Oddafells, sjá mynd neðar. Það sér á gróðrinum undan traðkinu og við veltum því fyrir okkur hvort hægt væri með merkingum að fá fólk til að ganga eftir Oddafellinu (á að giska 20 m hækkun) í staðinn. Að athuguðu máli líst okkur ekki á það því þó útsýni sé gott af fjallshryggnum er fyrrnefnd gönguleið huggulegri. Þar mætti hugsanlega styrkja gróðurinn með áburði svo hann þoli betur traðkið og það gæti komið að því að bera þurfi möl í götuna. Á neðstu mynd t.h. gengur hópur framhjá fjölförnustu leiðinni sem þverar mosavaxna apalhrauntungu á u.þ.b 150 m kafla. Þar er erfitt að ganga og mikil náttúrueyðilegging, en það er stysta leiðin og flestir kjósa að ganga hana. Þar vill fólk ganga á mjúkum mosanum sem drepst við það og verður að mold sem fýkur burt eða hrynur niður í hraunholu. Þá verður eftir bert og úfið hraungrýtið, lítt fýsilegt að ganga á svo göngufólkið færir sig utar og utar.