Hús Feðra Minna I - Frásögn sem gerir andlitið fagurt

Page 29

að vísindi vinar þíns hafi verið af öðrum toga en mín.“ Lilli Johnson kreppti hnefann og hélt honum við andlit Sams. “Þeir voru um það bil svona stórir,“ útskýrði hann, „og verulega vel saumaðir saman við bæði augu og varir. Það er enginn vafi á að þetta voru sömu vísindi og þín, Sam. Ég þekki þennan náunga mjög vel, verð ég að segja, því við stóðum í ýmsum viðskiptum saman. Og,“ bætti hann við, eins og til endanlegrar sönnunar, „hann var með nákvæmlega sams konar gleraugu og þú.“ „Ekki skyldi maður neita því að vinur þinn hafi viss mann­fræðileg áhugamál,“ sagði Sam vingjarnlega, „en maður verður þó að reikna með því að hans höfuðáhugamál hafi verið við­skipti.“ „Þar hittirði naglann á höfuðið, Sam. Hann smyglaði haus­unum í gegnum Kúbu og seldi þá ríkum túristum í Flórída.“ Einingu var náð og nú seig þægilegt andrúmsloft yfir menn­ina við borðið. Gill sauð selkjöt og Lilli Johnson bar fram Sam-Sú. Sam var neyddur til að borða svo mikið að tunga hans, eins og hann orðaði það sjálfur, stóð næstum upp á endann. Þegar menn sátu við kvölddrykkinn eftir máltíðina, spurði Gill: “Segðu mér, Sam, ætlarðu raunverulega að fara alla leið upp til norðurenda eyjarinnar í ár?“ Sam lagði glasið varlega á borðið og hallaði sér aftur á bak í stólnum. „Maður vill vita eitthvað um sadlermiutana, sem eftir því sem sagt er voru hreint stórkostlegt fólk. Þeir voru yfirmáta sóðalegir, líklega mestu svínin á heimskautasvæðunum. Húsin þeirra voru svört af sóti, vegna þess að konurnar þeirra hugsuðu ekkert um lampana og veggir þeirra og rúmstæði voru klístrug og angandi af spiki. Furðulegt fólk með furðulega siði. Mér hefur verið sagt að þeir hafi borið spikið frá veiðistöðvunum þannig, að þeir skáru stórt gat í miðjuna og smeygðu spik­stykkjunum yfir höfuðið eins og kraga. Jafnvel þótt fólkið sé nú horfið, hljóta að finnast einhverjir Baffínlendingar sem muna ennþá eftir þeim.“ 28|HÚS FEÐRA MINNA


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.