Skinfaxi 3 2014

Page 3

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ:

Heilbrigð sál í hraustum líkama

Þ

róun skipulagðs íþrótta- og æskulýðsstarfs á Íslandi á sér langa sögu. Má segja að hún hefjist formlega með stofnun Ungmennafélags Íslands 1907 og Íþróttasambands Íslands 1912. Upphafið má rekja til þess að ungt fólk fór til útlanda og kynntist þar slíku starfi, kom með hugmyndirnar heim og tók þátt í að koma þeim í framkvæmd. Þegar sagan er skoðuð má sjá að það var tiltölulega fámennur hópur fólks, aðallega karlar, sem stundaði íþróttir lengi vel og því mætti segja að íþróttir hafi verið iðja þeirra hraustu og sterku en almenningur hafi verið í hlutverki áhorfandans. Þátttakan miðaðist fyrst og fremst við keppni, golfið var t.d. fyrir fína fólkið, hestamennska tók mið af efnahagslegri stöðu fólks, fimleikar voru fyrir fáa útvalda og boltaleikir voru eingöngu fyrir þá sem gátu eitthvað. Sú íþrótt sem var mest stunduð af almenningi var sund. Fjölgun íþróttagreina, sem almenn þátttaka var í, var hæg framan af og það er ekki fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar að hlutirnir fara að gerast hratt. Líkamsræktarstöðvar voru stofnaðar, jaðaríþróttir og almenningsíþróttir litu dagsins ljós og það er einkum á þessu sviði íþrótta sem þróunin hefur orðið hvað hröðust. Þrátt fyrir mikið framboð hreyfingar/ íþrótta nú um stundir heyrum við um niður-

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ.

stöður rannsókna sem leiða í ljós að íslenska þjóðin er að fitna. Það er áhyggjuefni hvað yngri kynslóðin fitnar. Ástæðurnar eru margar en það að börnum er ekið í skóla og á íþróttaæfingar og útivera og leikir utanhúss hafa minnkað, samfara síaukinni notkun nettengdra jaðartækja vegur þar einna þyngst. Hjá fullorðnum skiptir kyrrsetan miklu máli samhliða auknum lífsþægindum svo sem bifreiðum, sjónvarpi og tölvum. Af þessu leiðir að þjóðin þyngist og hreyfir sig minna sem veldur sjúkdómum, líkamlegum og andlegum, og sjálfsmyndin versnar. Forvarnagildi íþróttanna er því mikið og íþróttahreyfingin hefur verið dugleg við að hvetja fólk til almennrar þátttöku í hvers konar hreyfingu og líkamsrækt. Sífellt fleiri stunda skokk og regluleg hlaup, fjölbreytt almenningsíþróttaverkefni eru í boði sem margir taka þátt í og íþróttaskólar fyrir yngstu börnin svo að eitthvað sé nefnt. En betur má ef duga skal og stöðugur áróður þarf að vera fyrir heilsusamlegu líferni sem hefur það að markmiði að hreyfing verði fastur liður í lífsmunstri fólks. Hreyfingin getur falist í því að taka þátt í keppni en hún getur einnig falist í því að styrkja líkamann, auka vellíðan, bæta útlitið og taka þátt í skemmtilegum og gefandi félagsskap. Mikilvægt er að kenna börnum strax á unga aldri að hreyfing sé holl og skemmtleg og að íþróttir auki vellíðan. Með því að stunda

íþróttir séu þau að auka lífslíkur sínar því að íþróttaiðkun dragi alla jafna úr óreglu og kenni þeim sem þær stunda aga og einbeitingu. Einn er sá hópur sem mun vaxa hvað hraðast næstu árin en það er hópur eldra fólks. Mikilvægt er að íþróttahreyfingin sinni þessum aldurshópi vel og bjóði honum upp á fjölbreytt verkefni. Því má segja að frá því að skipulag íþróttastarfs hófst í upphafi síðustu aldar hafi þróun þess leitt okkur að þeirri niðurstöðu að hreyfing, útivera og líkamsrækt séu bestu forvarnirnar gegn sjúkdómum, kyrrsetu og öðrum vágestum nútímans. Stjórnvöld hverju sinni hafa verið þessu sammála og hafa sett fjármagn í hvers kyns forvarnir sem miða að því að bæta heilsuástand þjóðarinnar en ljóst er að auka þarf verulega við fjármagn til þessa málaflokks. Aukið fjármagn til forvarna mun spara þjóðfélaginu heilmiklar upphæðir í heilbrigðisþjónustunni sé litið til lengri tíma. Því er mikilvægt að íþróttahreyfingin haldi vöku sinni og verði um ókomna framtíð mikilvægasta vogaraflið í að bæta lýðheilsu þjóðarinnar, að hún vilji vera heilbrigð sál í hraustum líkama. Íslandi allt! Helga Guðrún Guðjónsdóttir

SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands

3


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.