3 minute read

Arndís Þórarinsdóttir | Bókasöfn eru galdrastaðir

ARNDÍS ÞÓRARINSDÓTTIR rithöfundur starfaði á Bókasafni Kópavogs frá hausti 2007 til vors 2018.

„Ég er lestrarhestur frá barnæsku en ég ólst upp á þannig stað að það var ekkert bókasafn í göngufjarlægð. Sá staður var Vesturbær Reykjavíkur,” segir hún kímin. “Þannig að já, ég kannski var ekki bókasafnsormur þegar ég var barn en bókaormur. Svo þegar ég var háskólanemi fór ég að vinna með námi á Kringlusafni og þegar hér var auglýst starf sótti ég um.”

Advertisement

Þegar Arndís byrjaði að vinna á Bókasafni Kópavogs var það nokkuð ólíkt því safni sem nú er. „Þegar ég var ráðin hérna var ég sett yfir deild sem hafði titilinn Fornog dægurmenningardeild. Hún innihélt íslensk fræði og Íslendingasögur, ritgerðir og aðra svona skrýtna flokka og svo allar myndasögur og fantasíur þannig að þetta var mjög víðfeðm deild en mjög skemmtileg,” segir hún en þegar hún hóf störf var safnið frekar hefðbundið bókasafn. „Eins og á öðrum bókasöfnum færðist áherslan svo yfir á alhliða menningarstarfsemi. Það má því segja að ég hafi skipt um vinnustað án þess að skipta um vinnu sem var mjög skemmtileg reynsla.”

GALDRASTAÐIR OG GRIÐASTAÐIR

„Bókasöfn eru svo miklir galdrastaðir,” segir Arndís. „Þetta eru einu staðirnir í samfélaginu þar sem þú mátt bara vera og enginn ætlast til að þú kaupir eitthvað eða gerir eitthvað. Það er svo dýrmætt að það sé hefð fyrir þessum stofnunum og sérstaklega núna þegar þjónustan er stöðugt fjölbreyttari, fólk getur komið hingað og fengið aðstoð við skattframtalið eða heimanámið, svo dæmi séu tekin, og ef það er óþægilegt að vera heima hjá þér þá geturðu verið hér.” Hún bætir við að þrátt fyrir þetta sé grunnhlutverk safnsins líka óskaplega mikilvægt. „Það er dýrmætt að fólk geti óháð efnahag verið þátttakendur í bókmenntalegri og samfélagslegri umræðu með því að nálgast það sem um er rætt án tilkostnaðar. Ég held líka að góð almenningsbókasöfn stuðli að heilbrigðum bókamarkaði, á söfnunum verða til lesendur sem kaupa svo bækur handa sjálfum sér og öðrum. En fólk þarf að lesa meira en bara það sem það kaupir.“

ENGIN ÁHÆTTA AÐ PRÓFA

Arndís segir lífið á Bókasafni Kópavogs sveiflast eftir árstíðum eins og annars staðar. “Mér fannst mest gaman á haustin þegar nýju bækurnar koma, allir bíða spenntir og bækurnar eru plastaðar á vöktum, verið að skipuleggja upplestra og aðra viðburði vetrarins. En það er líka gaman á öðrum árstímum, til dæmis á sumrin þegar fjölskyldur koma enn meira saman á safnið,” segir hún og bætir við, „Maður finnur að það er mismunandi hvað fólk vill lesa. Á veturna er oft bið eftir nýju bókunum en á sumrin er fólk kannski meira í kiljunum. Safnið er líka fullt af bókum á sumrin af því þá koma inn bækurnar frá námsmönnunum þannig að hillurnar eru troðnar.” Hún bendir á að eitt af því sem gerir bókasöfn ólík bókabúðum er að það er engin áhætta fólgin í því að prófa. “Í bókabúð kaupirðu oftast það sem þú ætlaðir að kaupa en á safninu geturðu gripið eitthvað út í bláinn sem jafnvel kemur skemmtilega á óvart og víkkar sjóndeildarhringinn.” Arndís segist nota bókasöfn mikið og þekki orðið söfn í mörgum sveitarfélögum og þá liggur beint við að spyrja hverjir séu styrkleikar Bókasafns Kópavogs.

„Það er svo gott að vera hérna inni, húsið sjálft er í svo góðu flæði. Það er góð birta hérna, margir staðir þar sem hægt er að setjast niður. Fólki líður vel hérna og er ekki að flýta sér út aftur.” Arndís bætir við „Svo er svo gott aðgengi að öllu og ef þig vantar bók sem er ekki til er bara að láta starfsfólkið vita og þá eru góðar líkur á að hún verði keypt. Svo verð ég líka að hrósa mínum fyrrverandi kollegum. Eftir að hafa unnið með þeim veit ég að þau eru fagfólk á sínu sviði og ég treysti þeim og ég held að aðrir lánþegar upplifi þetta traust líka.”

NÆG ERINDI Á BÓKASAFNI KÓPAVOGS

Hvað vill rithöfundur sem kemur inn á bókasafn? „Fullt af fagurbókmenntum klárlega, því þær veita innblástur, en það er líka gott að hafa mikið af íðorðabókum hvers konar. Ef maður skrifaði bara um það sem maður þekkir þá væru allar mínar bækur um miðaldra konu sem skrifar barnabækur,” segir Arndís og kímir. „Það er því alltaf eitthvað sem rithöfundur þarf að kynna sér betur, kannski ertu að skrifa bók um barn með ADHD og þarft að leita heimilda, kannski býr persónan í öðru sveitarfélagi og þarf að lýsa staðháttum þar og þá er gott að hafa byggðasögu eða ferðamannahandbók. Núna er ég t.d. að skrifa um Möðruvallabók fyrir börn og mig vantar endalausar heimildir; ævisögu Jónasar Hallgrímssonar og fræðirit um handrit sem dæmi. Rithöfundar eiga næg erindi á bókasafnið hvort sem þeir skrifa fyrir börn eða fullorðna.”

This article is from: