
3 minute read
Kópavogshálsinn | Héraðsskjalasafn Kópavogs
Héraðsskjalasafn Kópavogs heldur utan um sögu bæjarins og menningarminjar. Hér má glugga í sögu Kópavogshálsins þar sem nú standa Menningahúsin.
Efst á Kópavogshálsi standa Menningarhús Kópavogsbæjar, í alfaraleið milli höfuðborgar, Hafnarfjarðar og Suðurnesja. Í dag er staðurinn kunnastur undir nafninu Kópavogsháls eða einfaldlega Hamraborg í hugum þeirra sem ekki eru staðkunnugir. Þótt einfaldast sé að nota eitt nafn yfir vítt svæði, þá eru nöfnin fleiri sem koma við sögu. Árni Magnússon (1663-1730) handritasafnari sagði að melurinn fyrir ofan Kópavog héti LangiJörfi en óvíst er hvað hann náði yfir stórt svæði. Aðalheimildarmaður um örnefni á hæðinni var Þuríður Guðmundsdóttir (1855-1938), fædd og uppalin í bænum Kópavogi, skammt fyrir neðan núverandi steinbæ neðst við voginn. Hún sagði að holtið vestan við veginn á Kópavogshálsi héti Borgarholt og klettabeltið þar Borgin. Kastalar væru vestan undir holtinu, 3 klettar. „Þar umhverfis mátti hvorki hóa né hátt hafa, né rífa lyng, - vitanlega vegna huldufólksins í Borginni eða holtinu og Köstulunum.”
Advertisement
VOFUR Í KÓPAVOGI
Getið er um dulræna viðburði á hálsinum og sagnaritari einn skrifaði um Vofuna á Kópavogshálsi og þurfti eigi að rengja þá frásögn. Annar talaði um hinn fræga Kópavogsháls einnig í tengslum við færð og umferð, enda má sjá í blaðinu Ísafold í október 1890 að vegurinn upp Kópavogsháls hafi verið óhæfilega brattur og lítt fær með vagn.
FYRSTA UMFERÐARSLYSIÐ
Grímur Thomsen (1820-1896) skáld reið oft yfir Kópavogsháls milli Bessastaða og Reykjavíkur og samkvæmt einni frásögn þeysti hann við annan mann upp hálsinn frá Kópavogi og urðu þeir ekki varir við annan hóp reiðmanna frá Fossvogi. Sá hvorugur hinn fyrr en efst á hálsinum og geystist samferðamaður Gríms inn í hópinn og varð slys af. Þetta er að líkindum elsta heimild um umferðarslys á Kópavogshálsi.
HRESSINGARHÆLIÐ
Borgarholtið hefur að mestu fengið að vera ósnortið frá upphafi byggðar í Kópavogi. Vindmylla var sett upp á Borgarholti á þriðja áratug síðust aldar í þeim tilgangi að framleiða rafmagn til lýsingar fyrir Hressingarhælið sem Kvenfélagið Hringurinn rak á Kópavogsjörðinni. Sú eldri varð fyrir spellvirkjum árið 1926 og ný var sett upp. Svo var veðrasamt á háholtinu að vindmyllan þoldi ekki og var tekin niður skömmu eftir 1930.
KÓPAVOGSKIRKJA
Fyrstu hugmyndir um kirkju á Borgarholti komu fram um 1946 og var hún reist á árunum 1958-1962. Hún var vígð 16. desember 1962. Borgarholt var friðað sem náttúruvætti árið 1981 samkvæmt íslenskum náttúruverndarlögum. Nokkur húsabyggð var í austanverðu Borgarholtinu þar sem nú eru Menningarhús Kópavogs. Í steinhúsi að Borgarholtsbraut 6 sem reist var sem íbúðarhús var m.a. verslun, iðnaður og félagsmiðstöð. Lengst af var það nefnt Sjálfstæðishúsið. Upp við Hafnarfjarðarveginn, þar sem Bókasafn Kópavogs er nú, var víðfræg bensínsjoppa sem gegndi einnig hlutverki félagsmiðstöðvar ungs fólks í Kópavogi.
MENNINGARHÚSIN RÍSA
Gamla byggðin hefur nú vikið og einnig hugmyndir að húsum sem ekki urðu að veruleika. Má þar nefna hugmynd að Menntaskóla á túninu suðaustan við Borgarholt árið 1978 og óperuhús sem fyrirhugað var að reisa á svæðinu rétt fyrir 2008. Upp úr 1970 var Gjáin sprengd og Hafnarfjarðarvegur um Kópavog endurbættur. Brýr yfir Gjána voru byggðar milli 1970 og 1975. Byggt var yfir Gjána og brýrnar tengdar saman á árunum 2002- 2008. Torgið ofan á Gjánni hlaut nafnið Hálsatorg og var vígt 20. maí 2006. Bæjarskrifstofur Kópavogs fluttust í Digranesveg 1 á árunum 2017-2018. Um svipað leyti voru Menningarhús Kópavogs byggð í áföngum við barm Gjárinnar, hús Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs, Gerðarsafn og Salurinn. Héraðsskjalasafn Kópavogs er á Digranesvegi 7 þar sem það hefur verið frá árinu 2012. Póstafgreiðsla í Kópavogi var þar til húsa frá árinu 1965 til 2003 og í um áratug eftir það var þar póstflokkun. Símstöð er á efri hæðinni. Pósthúsgarður er vestan við húsið og þar stóð lengi listaverk Gerðar Helgadóttur Hin eilífa hringrás en það hefur verið flutt út á hringtorgið við Digranesveg 1.