
3 minute read
Jón Ólafsson | Af fingrum fram
Tónleikaröð Jóns Ólafssonar
Advertisement
Gestir Jóns í vetur verða m.a. Ari Eldjárn, Diddú, Björgvin Halldórsson, Ellen Kristjáns, Ágústa Eva og Júníus Meyvant
JÓN ÓLAFSSON tónlistarmaður siglir hraðbyri inn í tólfta vetur tónleikaraðarinnar Af fingrum fram í Salnum.
„Árið 2004 gaf ég út mína fyrstu sólóplötu og kynnti hana með tónleikum þar sem ég sat við píanóið, spjallaði við fólk og flutti lögin mín. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og naut mín verulega,” segir Jón sem árin áður hafði gert vinsæla sjónvarpsþætti sem kölluðust Af fingrum fram ásamt Jóni Agli Bergþórssyni upptökustjóra sem átti hugmyndina að þáttunum. „Það höfðu mun fleiri áhuga á þessu tveggja manna tali tónlistarfólks en ég átti von á. Sjónvarpið setti þættina síðan á ís og þá ákvað ég að prófa að setja þá á svið og sameina það sem ég væri kannski einna skástur í; að taka viðtöl og spila á píanó. Ég kalla þetta spjalltónleika sem er að ég held einstakt fyrirbæri hér á landi og þó víðar væri leitað. Páll Eyjólfsson, umboðsmaður og framkvæmdahestur, hjálpaði mér svo að koma þessu af stað ásamt góðu fólki í Salnum.” Hann segir að það hafi tekið einn til tvo vetur að fá „spjalltónleikana” til að sanna sig en svo tóku áhorfendur við sér og nú eru um tólf Af fingrum fram tónleikar á ári, með aukatónleikum. Tónleikarnir hafa frá upphafi verið í Salnum og Jón sér ekki fyrir sér að fara þaðan. „Þarna er frábær hljómburður, góðir flyglar og mikil nánd við áhorfendur. Eins held ég að þetta sé mjög passleg stærð fyrir tónleika af þessari tegund.”
ÍSLENSK TÓNLIST RAUÐI ÞRÁÐURINN
Jón segir markmiðið með tónleikunum vera að kynna íslenska tónlist. „Eins og í allri minni dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi þá er íslensk tónlist rauði þráðurinn. Ég lifi og hrærist í þeim heimi og hef alltaf haft miklu meiri áhuga á íslensku tónlistarfólki en erlendu. Á þessum tónleikum ná áhorfendur að kynnast íslensku tónlistarfólki í návígi án nærveru myndavéla. Fyrir vikið verður andrúmsloftið afslappað og setningar fljúga sem yrðu aldrei sagðar annars staðar. Kvöldin eru nánast ekkert æfð fyrirfram og standa undir nafninu, Af fingrum fram, og maður veit því aldrei hvað gerist; hvorki í spjallinu eða tónlistinni.” Gestirnir sem komið hafa til Jóns skipta tugum og eru eins ólíkir og þeir eru margir. „Sumir hafa komið oftar en einu sinni enda finnst mér það líka hluti af þjónustunni. Salurinn tekur ekki nema tæp 300 manns í sæti og ef það selst upp þá finnst mér um að gera að bjóða aftur upp á viðkomandi listamann,” segir Jón og bætir við að gestirnir þurfi helst að uppfylla þau skilyrði að hann sjálfur hafi töluverðan áhuga á ferli þeirra og persónu. „Ef ég er ekki áhugasamur sjálfur þá verður kvöldið frekar klént og ég get ekki hugsað mér að sitja þarna í einhverri uppgerð. Ég dáist að flestum kollega minna í bransanum þannig að þetta er lítið vandamál.” Hann segist ekki eiga neinn draumagest „Ég hef nú þegar fengið flest gömlu átrúnaðargoðin mín frá því ég var krakki; setið með þeim og spilað lögin og spjallað. Þú getur rétt ímyndað þér hvað þetta er skemmtilegt. Í vetur verður samt nýjung en þá ætla ég í fyrsta sinn að fá uppistandara í viðtal til mín; Ara Eldjárn. Það er áskorun fyrir mig en ég er alveg handviss um að það mun svínvirka.”
HÚMOR SKIPTIR ÖLLU MÁLI
Hann segist finna það strax hvort kvöldið er vel heppnað. “Ef samspil mitt og listamannsins tekst vel hvað varðar flæði og traust þá er það ávísun á góðan árangur. Húmor skiptir síðan öllu máli. Ef fólk hefur ekki húmor fyrir sjálfu sér þá geta hlutir orðið stirðbusalegir. Sem betur fer finnast mér flestir tónlistarmenn mjög skemmtilegir og auðveldir viðmælendur. Vissulega eru þeir ekki allir jafn orðmargir en þá finn ég bara aðra leið að þeim - kannski í gegnum tónlistina sjálfa. Viðtökur áhorfenda segja auðvitað allt sem segja þarf.” Og áhorfendur eru virkir þátttakendur. „Það er enginn veggur á milli listamannanna á sviðinu og áhorfenda. Ég beini spurningum út í sal eða hvet til samsöngs. En lagaval og slíkt er alfarið á höndum mín og gestsins. Áhorfendur virðast kunna að meta þetta form og ég veit um fólk sem hreinlega mætir á alla tónleika á hverjum vetri, ár eftir ár. Aðsóknin eykst með hverju árinu sem segir mér að ég er að gera eitthvað rétt.”