1 minute read

Gerður Helgadóttir | Frumkvöðull í íslenskri myndlist

Gerður var fjölhæfur myndlistarmaður sem fékkst við skúlptúr, steint gler og mósaík. Hún stundaði nám við Handíðaskólann og hélt fyrst íslenskra myndlistarmanna til Flórens í nám árið 1949. Fljótlega þar á eftir hélt hún til Parísar, þar sem hún bjó og starfaði mestan hluta ævi sinnar.

Verk Gerðar voru stór og efniviðurinn oft grófari en tíðkaðist að konur á þessum tíma nýttu sér til listsköpunar. Vinnustofa hennar minnti stundum frekar á vélaverkstæði en listvinnustofu og mörgum þótti furðulegt að sjá þessa fínlegu konu innan um slaghamra, stálfleyga og logsuðutæki að beygja efni eins og járn og leir í risastór og voldug listaverk. Sjálf sagðist Gerður vera sterk og brosti að þess háttar athugasemdum. Gerður var frumkvöðull þrívíðrar abstraktlistar hér á landi. Sem dæmi um frumleika hennar má nefna myndir gerðar eingöngu úr hárfínum járnvírum sem mynda teikningu í rýminu en einnig logsauð hún mikil verk úr bronsi þar sem sjá má skyldleika við ljóðrænu abstraktlistina. Eftir ferð til Egyptalands árið 1966 má greina áhrif frá fornri egyptskri list í verkum hennar. Um og upp úr 1970 taka við verk unnin úr gifsi, leir og jafnvel steinsteypu sem einkennast af einföldum hringformum og hreyfingu í ýmsum tilbrigðum. MÓSAÍK OG GLERLIST Þótt Gerður hafi fyrst og fremst litið á sig sem myndhöggvara var hún einnig virtur glerlistamaður, bæði hér heima og erlendis. Steindir gluggar eftir hana prýða nokkrar kirkjur hér á landi, þ.á.m. í Skálholtsdómkirkju og Kópavogskirkju. Einnig eru gluggar eftir Gerði í nokkrum kirkjum í Þýskalandi. Þekktasta verk hennar hér á landi er án efa stóra mósaíkmyndin frá árinu 1973 á Tollhúsinu í Hafnarstræti í Reykjavík. Gerður var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1974.

Advertisement

1400 LISTAVERK Þegar Gerður dvaldi á Íslandi bjó hún hjá ættingjum sínum á Víghólastíg í Kópavogi og voru því tengsl hennar við bæinn sterk. Gerður lést 1975 aðeins 47 ára að aldri og árið 1977 færðu erfingjar hennar Kópavogsbæ um 1400 listaverk úr dánarbúi listakonunnar. Skilyrði fyrir gjöfinni var að Kópavogsbær skyldi byggja listasafn, sem tengdist nafni Gerðar, geymdi og sýndi verk hennar og héldi minningu hennar á lofti.

Glugga eftir Gerði má sjá í Kópavogskirkju og fleiri kirkjum hérlendis og erlendis

Gerður Helgadóttir: Frumkvöðull í íslenskri myndlist

This article is from: