3 minute read

Heimsmarkmiðin með augum Múmínálfanna | Vatnsdropinn

Vatnsdropinn er viðamesta verkefni Menningarhúsanna til þessa.

VATNSDROPINN er þriggja ára alþjóðlegt samstarfsverkefni Menningarhúsanna í Kópavogi, Múmínálfasafnsins í Tampere, H.C. Andersen safnsins í Óðinsvéum og Ilon’s Wonderland safnsins í Haapsalu í Eistlandi. Verkefnið á rætur sínar að rekja til vinabæjasamstarfs Kópavogs við Tampere og Óðinsvé en ekki er loku fyrir það skotið að fleiri borgir bætist í samstarfið þegar fram líða stundir.

Advertisement

„Vatnsdropi er í eðli sínu heill heimur út af fyrir sig og í honum speglast allt umhverfið.”

- H.C. Andersen

Þegar vatnsdropinn lendir á kyrrum vatnsfletinum eru áhrif hans mikil og þannig er verkefnið hugsað. Það byrjar smátt en mun sækja í sig veðrið og ljúka með umfangsmikilli farandsýningu og nýju fræðsluefni sem verður leiðbeinandi fyrir sambærileg verkefni í framtíðinni víða um heim.

BÆKUR SEM ENNÞÁ EIGA ERINDI

Vatnið hefur verið mörgu skáldinu yrkisefni og vatnið og hafið leika stór hlutverk í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Eitt meginstef Vatnsdropans er að tengja saman boðskap og gildi Heimsmarkmiðanna við sígild skáldverk barnabókahöfunda á borð við Tove Jansson, Astrid Lindgren og H.C. Andersen. Höfunda, sem hafa þrátt fyrir ólíkar áherslur í verkum sínum, kennt okkur að bera virðingu fyrir náttúrunni, gefið okkur innsýn í heim þeirra sem minna mega sín og hvernig við getum komið þeim til hjálpar. Þannig eiga höfundaverk hinna norrænu rithöfunda jafn mikið erindi við lesendur í dag og þegar þau voru rituð.

BÖRNIN SKAPA VATNSDROPANN

„Það er mjög við hæfi að endurvekja skilaboð þessara mætu höfunda sem lögðu áherslu á sjálfbærni, umhverfisvernd, jafnrétti kynja og mannvirðingu óháð aldri eða trúarbrögðum. Þessi málefni eru öll í brennidepli í heiminum í dag,” segir Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi og upphafsmaður Vatnsdropans. „Menningarhúsin leita sífellt nýrra leiða til að laða börn að menningarstarfi og gefa þeim skapandi verkfæri til að kynnast listum og menningu á eigin forsendum.

VIRTUR ALÞJÓÐLEGUR SÝNINGARSTJÓRI

Börn frá öllum samstarfslöndunum verða virkir þátttakendur í mótun og gerð Vatnsdropans undir stjórn valinkunnra listamanna og fræðimanna sem sýningarstjórinn Chus Martínez mun leiða saman. Chus Martínez er eftirsóttur sýningarstjóri, listfræðingur og heimspekingur frá Spáni sem starfar á alþjóða vettvangi. Í dag veitir hún forstöðu FHNW listaakademíu í Basel, Sviss en áður var hún forstöðumaður listasafnsins Frankfurter Kunstverein og listrænn stjórnandi Sala Rekalde listamiðstöðvarinnar í Bilbao. Hún hefur komið víða við sem sýningarstjóri meðal annars í hinu virta samtímalistasafni MACBA í Barselóna, á dOCUMENTA (13), Feneyjartvíæringnum og Sao Paulo. tvíæringnum. „Við stöndum frammi fyrir sögulegum tímamótum sem munu setja mark sitt á næstu áratugi og gera þá kröfu til okkar að við veitum þankagangi barna, hegðun þeirra og reynslu mun róttækari athygli. Við sem störfum að listum erum oft að kljást við þörfina fyrir nýja framsetningu og frásagnarmáta. Fyrr en varði stóð ég frammi fyrir einhverju algjörlega nýju: Vatnsdropaverkefninu. Verkefnið og samstarfið, sem það virkjar, á sér enga hliðstæðu og er því beint til barna serm eru mitt eftirlætis samferðafólk í veröldinni. Ég átta mig einfaldlega á því hversu mikið við getum lært og hvaða hag við höfum af því að skrá okkur til leiks í þessu ævintýri!“

Tove Jansson’s cover illustration for Moumine le Troll (Finn Family Moomintroll), 1968.

VATNSDROPINN VEKUR ATHYGLI

Verkefnastjóri Vatnsdropans er Sara Løve Daðadóttir stofnandi Pavilion Nordico í Berlín. „Vatnsdropanum er ætlað að vera flaggskip í dagskrá Menningarhúsanna á næstu misserum. Hvarvetna þar sem við kynnum Vatnsdropann vekur verkefnið gríðarlega athygli en til marks um það höfum við m.a. hlotið styrki frá Norræna menningarsjóðnum, Norrænu menningargáttinni, Menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar (Nordplus), Opstart, Menningarsjóði Kópavogs og Barnamenningarsjóði Íslands“.

UNGIR SÝNINGARSTJÓRAR

Fyrsta skref Vatnsdropans er þátttökuverkefnið Ungir sýningarstjórar. Valinn verður hópur 4.-10. bekkinga í Kópavogi sem verður virkjaður í sýningarstjórn og framkvæmd verkefnisins sem samanstendur af vinnusmiðjum, sýningum og viðburðum fyrir almenning í Kópavogi og víðar. Hópurinn mun vinna með erlendum jafnöldrum sínum undir stjórn sýningarstjórans. Bent er á heimasíðu Menningarhúsanna fyrir frekari upplýsingar.

This article is from: