
1 minute read
AÐ VERÐA BESTA ÚTGÁFAN AF SJÁLFUM SÉR
Síðastliðinn sunnudag var efnt til heilsueflandi dagskrár í Sagnheimum þar sem flutt voru áhugaverð erindi um heilsutengd málefni. Fremst í flokki við skipulagningu þar fór Sigurhanna Friðþórsdóttir, verkefnastjóri Safnahúss. „Við sem komum að undirbúningi erum mjög ánægð með hvernig til tókst og var mætingin framar vonum,“ sagði Hanna í samtali við Tígul. „Auðvitað er alltaf hægt að gera betur. Þetta var heldur langt, enda erindin öll áhugaverð og erfitt fyrir fyrirlesarana að stytta þau meira en gert var. Mögulega væri betra að hafa erindin færri og meiri tíma í kynningar. Þá munum við einnig endurskoða uppsetninguna og skoða möguleikann á að fyrirlestrarnir væru á einum stað og kynningarnar annars staðar í húsinu.
Jákvætt var að sjá hversu margt er í boði hér í Eyjum, við ættum öll að geta fundið það sem hentar hverju og einu,“ sagði Hanna. Hún segir stefnuna vera að gera þetta að árlegum viðburði en eftir eigi að skoða hvort önnur tímasetning henti ef til vill betur.
Advertisement
Auk fyrirlestra í sal voru nokkrir fluttir um fjarfundabúnað, sem gekk vel þegar búið var að ráða bót á tæknilegum uppákomum „... en auðvitað er alltaf skemmtilegra að fá fólk til okkar í eigin persónu,“ bætti Hanna við.