
1 minute read
Mikil stemning við nýskráningar
Það hefur verið mikil stemning við nýskráningar undanfarin tvö ár. Venjan er orðin sú að Kauphallarbjöllunni er núna hringt við skráningu bréfanna og fyrstu viðskipti með þau í húsakynnum félaganna við mikil fagnaðarlæti starfsmanna. Þessi háttur tengir starfsmenn meira við gildi skráningarinnar og reynist hvetjandi. Að vísu var Kauphallarbjöllunni ekki hringt í húsakynnum Play og Síldarvinnslunnar á síðasta ári. Í tilviki Play var flogið upp í tíu þúsund feta hæð með bjölluna í einni af þotum félagsins. Hjá Síldarvinnslunni var bjöllunni komið fyrir í einum togara félagsins við bryggju í Neskaupstað, Berki, og þar voru fyrstu viðskiptin slegin inn. Fjórar nýskráningar voru í Kauphöllinni á síðasta ári og vöktu allar verðskuldaða athygli. Allt ólík fyrirtæki; matvælafyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki, lyfjafyrirtæki og fyrirtæki í námagreftri; þ.e. Ölgerðin, Nova, Alvotech og Amaroq Minerals. Alvotech var tvískráð, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Byrjaði raunar á First North í Kauphöllinni en fluttist síðan yfir á Aðalmarkaðinn.
Árið 2021 voru einnig fjórar nýskráningar þegar Íslandsbanki, Síldarvinnslan, Play og Solid Clouds voru skráð í Kauphöllina – en á sama ári gekk sameining Kviku banka og TM í gegn undir merkjum Kviku og úr varð stórfyrirtæki á markaðnum.
Advertisement
Arion banki var skráður 2018, samtímis hér heima og í Svíþjóð. Það var svo í hlutafjárútboði Icelandair haustið 2020 sem tónninn var sleginn fyrir frekari skráningar og fjörugar bjölluhringingar.








