
2 minute read
FME skiptir sér ekki af
Skeytingarleysi fjármálaeftirlits Seðlabankans gagnvart viðskiptavinum tryggingafélaganna kom afar skýrt fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurnum sem FÍB-blaðið sendi þangað á haustdögum. FÍB-blaðið spurði hvort fjármálaeftirlitið ætlaði að gera eitthvað til að sporna við því okri á iðgjöldum bílatrygginga sem lýsir sér í mikilli hækkun iðgjalda umfram verðlags- og slysaþróun.
Til að byrja með sagðist fjármálaeftirlitið ekki taka „efnislega afstöðu til fullyrðinga“ um að iðgjöld hafi hækkað, umferðarslysum fækkað eða að iðgjöld væru mun lægri á hinum Norðurlöndunum. Þetta er vægast sagt sérkennilegt, því að ekki er um fullyrðingar FÍB að ræða, heldur beinharðar staðreyndir byggðar á rannsóknum og opinberum upplýsingum. Ef fjármálaeftirlitið treystir ekki tölum má heita að fokið sé í flest skjól.
Hverju er fjármálaeftirlitið að fylgjast með ef það kannast ekki við að iðgjöld tryggingafélaga hafi hækkað?
Ekki okkar mál
FÍB-blaðið spurði hvort hlutverk fjármálaeftirlitsins væri ekki að huga að hagsmunum viðskiptavina tryggingafélaganna, t.d. með því að koma í veg fyrir okur, eða beina tilmælum til þeirra um að halda aftur af sér í iðgjaldahækkunum. Því svaraði fjármálaeftirlitið svo að hlutverk þess væri ekki að hafa eftirlit með iðgjaldagrundvelli vátrygginga. Með öðrum orðum, fjármálaeftirlitið skiptir sér ekki af iðgjaldaokrinu. Sagan sýnir reyndar að eftirlitið lítur velþóknunaraugum á hækkun iðgjalda.
Hvað með eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti?
Í svörum fjármálaeftirlitsins kom fram að hlutverk þess væri meðal annars að hafa eftirlit með því að tryggingafélögin stundi eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Ljóst er að þessi hluti eftirlitsins er í skötulíki. Kröfur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti eru tilgreindar í nokkrum lagabálkum sem allir eiga við um tryggingafélögin. Þar á meðal eru lög um fjármálafyrirtæki, lög um Seðlabankann, lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og svo að sjálfsögðu lög um vátryggingastarfsemi og um dreifingu vátrygginga. Í öllum ofangreindum lögum eru skýrar línur um hvað felst í eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum. Tekið er fram að hafa skuli hag neytenda og tryggingataka fyrir augum. Viðskiptahættir eru sagðir óréttmætir ef þeir eru líklegir til að raska fjárhagslegri hegðun neytenda. Fjármálaeftirlitið getur sektað hvern þann sem brýtur gegn þessum reglum.
Afhjúpandi reglur Seðlabankans
Seðlabankinn setur nánari reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja (en tryggingafélög falla þar undir). Í markmiðum reglnanna segir meðal annars að þeim sé ætlað að efla traust og trúverðugleika á fjármálamarkaði. Ljóst er að iðgjaldaokur tryggingafélaganna, óhófleg sjóðasöfnun og milljarðagreiðslur til hluthafa stuðla ekki að trausti og trúverðugleika þeirra. Þvert á móti. Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur bersýnilega engar áhyggjur af því.
Reglur Seðlabankans um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti eru nokkuð ítarlegar og þær sýna betur en margt annað hvers vegna tryggingafélögin komast upp með að soga fjármuni út úr bíleigendum ár eftir ár. Reglunum eru nefnilega ekki ætlað að sjá stóru myndina, hvort tryggingafélögin hagi starfsemi sinni með eðlilegum og heilbrigðum hætti í samfélaginu.
Reglur Seðlabankans virðast aðeins ætlaðar til að tryggja heilbrigð samskipti fjármálafyrirtækjanna við einstaka viðskiptavini og meðhöndlun kvartana, þar með sagt að þau hagi sér vel.
Okrað í skjóli fjármálaeftirlitsins
Einhver kynni að spyrja hvers vegna FÍB er svona gagnrýnið á fjármálaeftirlit Seðlabankans.
Það eru jú tryggingafélögin sem okra á bíleigendum, ekki
Seðlabankinn. Staðreyndin er þó sú að tryggingafélögin geta aðeins okrað á iðgjöldum bílatrygginga ef velþóknun fjármálaeftirlitsins er til staðar.
Á meðan sú velþóknun er jafn óheft og dæmin, sanna ásamt skeytingarleysinu um hag neytenda, verður ekki látið af þessari gagnrýni.