3 minute read

Rafskútur og umferðaröryggi

Rafskútur (e. e-scooter) eru rafknúin hlaupahjól, oft einnig kölluð rafhlaupahjól eða rafskottur. Þær eru skv. umferðarlögum reiðhjól í flokki C (sem eru ökutæki) og eingöngu til nota á göngu- og hjólastígum en ekki akbrautum enda ekki ætluð til hraðari aksturs en 25 km/klst. Þessi ferðamáti er kominn til að vera með tilheyrandi áhrifum á ferðavenjur. Vinsældir rafskúta sýna að vegfarendur eru opnir fyrir nýjungum í samgöngum. Segja má að rafskútur hafi hafið innreið sína á Íslandi haustið 2019 og á ekki lengri tíma hefur þeim fjölgað verulega og magn leiguskúta á höfuðborgarsvæðinu margfaldast. Nýjum farartækjum fylgja bæði kostir og gallar. Kostirnir felast m.a. í því að þetta eru létt og umhverfismild tæki sem bæta samgönguvalkosti almennings. Neikvæðasti þátturinn er slysatíðnin sem hefur aukist mikið þrátt fyrir covid-19 og hrun í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að ná utan um slysin og efla umferðaröryggi og forvarnir til þessa að stemma stigu við þeirri vá.

Rannsókn VSÓ

VSÓ ráðgjöf skilaði af sér rannsóknarverkefni með skýrslu í lok maí, Rafskútur og umferðaröryggi. Rannsóknin var unnin með styrk frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborg. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga hvaða áhrif rafskútur hafi á umferðaröryggi og hvaða þættir ógni helst öryggi rafskútunotenda og annarra vegfarenda í umferðinni. Farið var yfir íslensk og erlend gögn og rannsóknir varðandi rafskútnotkun og slys. Skýrsluhöfundar benda m.a. á að aukin þjálfun og kennsla í notkun rafskúta minnki líkur á slysum. Ljósanotkun og hraðatakmarkanir séu mikilvægar. Einnig komu fram ábendingar um mögulegar laga- og reglubreytingar, s.s. lágmarksaldur, lækkun hámarkshraða, og kröfur um hvar megi aka rafskútum og hlífðarbúnað. Einnig er reifað að setja frekari reglur og takmarkanir varðandi rafskútuleigur og að tekin sé afstaða til þess hvort æskilegt sé að setja hömlur á útleigu um helgar.

Sprenging

Fram kemur í skýrslunni að margt verði að hafa í huga í tengslum við innkomu nýrra ferðamáta sem á skömmum tíma geta náð mikilli útbreiðslu og vinsældum, líkt og rafskúturnar. Tæplega tvö þúsund rafskútur voru til útleigu á höfuðborgarsvæðinu í maí og hafa þær einnig dreift sér til bæja á landsbyggðinni. Rafskútum í einkaeigu hefur fjölgað mikið og eru nú á um 12% reykvískra heimila. Kannanir erlendis hafa sýnt að 93% notenda rafskúta leigja þær af rafskútuleigum, og að rafskútur hafi áhrif á ferðamáta fólks. Mörg slys á rafskútum sem tengjast yfirborði slitlaga á stígum auka á mikilvægi þess að bæta uppbyggingu innviða fyrir rafskútur. Kannanir sýna að um 44% landsmanna hefur prófað rafskútu og af þeim sem nota þær reglulega segjast 12% vilja nota þær á götum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst eða lægri, sem er ólöglegt í dag.

Slys

Í skýrslu VSÓ segir að af þeim 149 einstaklingum á aldursbilinu frá 8 ára upp í 77 ára sem heimsóttu bráðamóttöku Landsspítalans vegna rafskútuslysa sumarið 2020, 1. júní til 31. ágúst, var 45% undir 18 ára aldri. Í 60% tilvika var of mikil hraði fyrir hendi, viðkomandi misst jafnvægið eða ójafna í götu var talin orsök slyss. Áfengi eða önnur vímuefni voru í blóði 27 einstaklinga 18 ára og eldri við notkun rafskúta. Hjálmanotkun ungmenna reyndist vera 79% en aðeins 18% hjá fullorðnum. Þá reyndust 38% einstaklinga með beinbrot og 6% notenda þurftu innlögn á sjúkrahús.

Rafskútur í Osló

Nýverið samþykkti borgarráð Oslóar að takmarka magn rafskúta sem boðnar eru til leigu í borginni. Frá og með 1. september n.k. verður rafskútum til útleigu fækkað úr tuttugu þúsund niður í átta þúsund.

Norskir læknar greindu í sumar frá fjölgun slysa vegna rafskúta. Fram kom að 856 hafi slasast í Osló í tengslum við rafskútunotkun það sem af er ári. Flest slysin eða 57% verða á milli ellefu að kvöldi og fimm að morgni.

This article is from: