4 minute read

Inngangur

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda við byggingu snjóflóðavarnargarða undir Bjólfshlíðum í Seyðisfirði tók Antikva ehf. að sér fornleifarannsóknir og fornleifakannanir á svæðinu. Varnargarðarnir verða þrír, Bakkagarður, Fjarðargarður og Öldugarður.

Þar sem Öldugarður rís er meðal annars fjárhústóft [2048-22] sem þurfti að rannsaka í heild sinni. Einnig er þar tóft [2048-11] sem þurfti að grafa í könnunarskurð. Undir Bakkagarð fer myllutóft [2048-30] sem einnig þurfti að gera heildarrannsókn á.

Advertisement

Fyrir lá fornleifaskráning á svæðinu sem Bryndís Zoëga og Guðný Zoëga unnu árið 2019: Fornleifaskráning vegna umhverfismats snjóflóðavarna á Seyðisfirði. Sumarið 2020 var síðan gerð forkönnun á vegum Antikva ehf. og var þá meðal annars grafinn könnunarskurður í gegnum fjárhústóftina.1

Fornleifarannsóknin fór fram dagana 20. maí – 29. júlí á minjasvæðum sem þessi skýrsla fjallar um en uppgrefti í Firði lauk 15. október.

Uppgraftarleyfi veitti Minjastofnun Íslands þann 7. maí. Rannsóknin fékk númerið 202007-0005 og safnanúmerið 2021-28 hjá Þjóðminjasafni Íslands. Tilgangur rannsóknarinnar var að uppfylla kröfur Minjastofnunar Íslands um heildarrannsókn á myllutóft og fjárhústóft sem fara undir varnargarðanna, auk þess að taka könnunarskurð í þriðju tóftina.

Rannsóknin fór fram undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur, fornleifafræðings, og aðstoðarstjórnandi var Rannveig Þórhallsdóttir. Uppgraftarstjóri á fjárhústóftinni var Sigurður Snæbjörn Stefánsson, og Indriði Skarphéðinsson á myllutóftinni.

Aðrir fornleifafræðingar voru: Jessica Stocks, Sigrún Viðarsdóttir, Snædís Sunna Thorlacius, Svavar Níelsson, Arthur Knut Farestveit og Bryndís Súsanna Þórhallsdóttir.

1 Ragnheiður Traustadóttir og Rannveig Þórhallsdóttir, 2020. Nemar í fornleifafræði: Ásta Rakel Viðarsdóttir, Þóra Margrét Hallgrímsdóttir, Almar Smári Óskarsson, Anna Soffía Ingólfsdóttir og Jakob Kristján Þrastarson. Við úrvinnslu unnu skýrsluhöfundar.

Stefán Hrafn Magnússon gröfumaður sá um að opna uppgraftarsvæði hjá fjárhúsinu og taka könnunarskurð í tóft [2048-11]. Ekki var hægt að koma við gröfu hjá myllunni.

Jorge Cortes frá Eflu ehf. setti upp fastamerki á níu stöðum.

Magnús Á. Sigurgeirsson, gjóskulagasérfræðingur sá um gjóskulagagreiningu. Magnús Hellqvist, jarðfræðingur og skordýrafræðingur, mun greina skordýrasýni. Torbjörn Brorsson, leirkerasérfræðingur sá um að greina leirker. Egill Erlendsson, fornvistfræðingur mun greina frjókorn og plöntur.

Rúna K. Tetzschner íslenskufræðingur sá um kynningar og miðlun á rannsókninni á meðan á henni stóð og skrifaði sögulegan kafla um myllur. Rannsóknin heldur úti facebooksíðu til að miðla upplýsingum fyrir almenning: https://www.facebook.com/Antikvaehf.

Knut Paache og Dag-Øyvind Engtrø Solem sáu um gerð þrívíddarmódela. Hulda Björk Guðmundsdóttir, Ólafur Pétursson og Daníel Örn Gíslason sáu um flygildismyndatökur.

Forvarsla fór fram á vegum Þjóðminjasafns Íslands og önnuðust forverðirnir Sandra Sif Einarsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir hana.

Framkvæmdin er á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins, tengiliður er Sigurður Hlöðversson.

Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfsstjóri sveitarfélagsins Múlaþings var fulltrúi sveitarfélagsins í framkvæmdinni.

Höfundar þakka öllum sem hafa lagt rannsókninni lið.

Markmið og kröfur

Minjastofnun Íslands gerði kröfu um að tóft [2048-22] og myllutóft [2048-30] yrðu fullrannsakaðar þar sem ljóst var að þessar minjar færu undir snjóflóðavarnargarða. Könnunarskurður hafði verið tekinn í tóft [2048-22] árið 2020.2

Minjastofnun fór einnig fram á að grafinn yrði könnunarskurður í tóft [2048-11] til að kanna hlutverk og aldur tóftarinnar og hvort eldri minjar leyndust undir henni.

Aðferð við uppgröft

Grafið var með hefðbundnum og viðurkenndum aðferðum fornleifafræðinnar, reglum fylgt um veitingu leyfa sem Minjastofnun Íslands setur.

Einingaaðferðin (e. single context recording) hefur verið notuð við fornleifarannsóknir á Íslandi. Aðferðin felur í sér að hvert mannvistarlag á svæðinu, hvort sem um er að ræða jarðlag, holu eða byggingarhluta, er skráð sem stök eining. Hver eining er síðan mæld upp með alstöð og fær hlaupandi númer. Hún er ljósmynduð og henni lýst á sérstökum skráningarblöðum.

Við rannsóknina er notuð alstöð með hugbúnaði sem tengist gagnagrunninum og landupplýsingakerfinu Intrasis (Intra-site Information System, www.intrasis.com). Intrasis er hugbúnaður sem fornleifasvið þjóðminjavörslunnar í Svíþjóð hannaði og hefur stjórnandi rannsóknarinnar notað hann síðan 2003.3

Við fornleifarannsóknina eru jarðfundnir gripir mældir inn með alstöð því nákvæm staðsetning þeirra getur veitt ýmsar upplýsingar, s.s. um notkun húsanna sem þeir finnast í. Gripir eru ávallt tengdir við jarðlögin sem þeir finnast í úti á vettvangi um leið og þeir eru mældir inn. Þeir eru síðan skráðir inn í Intrasis með fundarnúmeri, stærð og þyngd, en nánari skráning fer

2 Ragnheiður Traustadóttir og Rannveig Þórhallsdóttir, 2020, 31-32. 3 Intrasis hefur til dæmis verið notað við eftirtaldar rannsóknir:

Austurhöfn, Alþingisreitinn, Hóla í Hjaltadal, Keldudal, Kolkuós,

Nesstofu, Landsímareitinn og Urriðakot í Garðabæ. svo fram þegar rannsókn lýkur á vettvangi. Jafnframt eru öll sýni mæld inn á vettvangi og tengd við þau jarðlög sem þau eru tekin úr.

Í stuttu máli má segja að Intrasis haldi utan um allt sem viðkemur rannsókninni: gripi, jarðlög, mannvirki, teikningar, ljósmyndir, upplýsingar um staðhætti, vinnuafl o.fl. Intrasis vinnur svo með öðrum forritum, s.s. ArcView, Access og Excel, sem notuð eru til margvíslegra greininga.

Voru jarðlög, jarðfundnir munir og hleðslur mæld eftir hnitakerfinu, hæðarmæld, teiknuð og ljósmynduð. Gripir, jarðlög, teikningar, ljósmyndir, greiningar o.fl. voru tölvuskráð í Intrasis. Gripir sem voru teknir og varðveittir í Þjóðminjasafni Íslands voru einnig skráðir inn í Sarp, gagnagrunn Þjóðminjasafnsins.

Aðferðafræði við könnunarskurðinn: Tekinn var einn skurður í tóft [2048-11], til að kanna hlutverk hennar, byggingarlag og aldur. Oftast er gert ráð fyrir að taka skurði án þess að teikna í plani, nema að í ljós komi eldri minjar eða minjarnar séu þess eðlis að ástæða sé til að teikna þær í plani. Ekki var teiknað í plani að þessu sinni.

Könnunarskurðurinn var tekinn með gröfu, snið hreinsað, teiknað, lýst og ljósmyndað. Skurðurinn var síðan mældur inn.

Við rannsóknina var notuð Trimble S6 alstöð. Uppgraftarsvæðið var sett í Isnet93 hnitakerfið og skurðir mældir upp í sama kerfi. Fastir punktar voru settir upp árið 2020 og fleiri fastamerki voru sett upp 2021.

Fastir punktar voru settir upp af Jorge Cortes frá Eflu hf. Punktarnir voru allir settir í jarðfasta steina þannig að hægt sé að nota þá áfram við framhaldsrannsóknir á svæðinu.

This article is from: