5 minute read

Fornleifarannsókn svæði C

Next Article
Inngangur

Inngangur

Kort 2. Uppgraftarsvæði 2021 ásamt könnunarskurðinum frá 2020 og uppmældri tóftinni.

Svæðið var opnað með vélgröfu og grasyfirborð tekið af, auk þess sem grafið var upp úr könnunarskurðinum [81] frá árinu áður. Stærð á uppgraftarsvæðinu var um það bil 10x12 m og dýpt 0,9 m og var rúmmál uppgraftar því 108 m3 .

Advertisement

Tóftin – fjárhús [4]

Þegar grasrót var flett af kom tóftin í ljós; yfir henni voru skráð þrjú lög: yfirborðslag [1900], malarlag [2176] og gjóskulag [2192].

Í yfirborðslaginu [1900] voru gripir sem líklega eru allir frá 20. öld, nokkuð um leirkersbrot, smá járn og glerbrot. Einnig voru nokkur brennd bein, en þau voru ekki hirt.

Mynd 3. Tóftin að koma í ljós; inni í henni og í norðurvegg sést hvítleitt gjóskulag úr Öskju frá árinu 1875.

Yfir norðvesturhluta tóftarinnar var malarlag [2176] sem virðist hafa verið mokað inn í hana eftir að mannvirkið fór úr notkun. Lagið samanstóð af möl eða smásteinum og smá móösku, auk þess sem í því var nokkuð um leirker og gler og talsvert af járni. Einnig voru brennd og óbrennd bein í laginu sem ekki voru hirt. Þetta lag hefur líklega verið rusl sem hefur verið hent í rýmið á milli garðans [2461] og norðurveggs [2214] tóftarinnar eða þá að það sé frá snjóflóðinu sem féll árið 1885.

Undir lagi [2176] var gjóskulag [2192] frá eldgosinu í Öskju árið 1875. Gjóskulagið var að hluta til blandað við malarlagið. Einnig hafði fitulag með kolaslettum blandast saman við lagið. Nokkrir gripir voru í laginu: leirkersbrot, járn og glerbrot. Auk þess voru brennd bein í því. Þremur pokum af járni og einum af brenndum beinum var fargað. Gjóskulagið liggur inni í mestallri tóftinni og upp á veggina en ekki yfir þá.

Torfhrun og torfþekja

Nokkuð var um torfhrun inni í tóftinni. Í eystri hluta hennar voru skráð þrjú mismunandi torfhrunslög [2450], [6345] og [6943]. Erfitt er að segja hver af þessum lögum eru úr þaki og hver úr veggjum; líklega hafa þau blandast saman. Eitt stórt torfhrunslag [5338] var í suðvesturhluta tóftarinnar og annað svipað í norðvesturhluta hennar [5619]; sennilega hefur torfið hrunið úr þaki tóftarinnar. Annað svipað lag var þar undir [6316]. Einnig var eitt lítið torflag [5449] í norðvesturhluta tóftarinnar. Í öllum þessum torfhrunslögum var gjóska frá Veiðivatnagosinu árið 1477.

Sex gripir komu úr torfhrunslögum. Þar af voru þrír í torflagi [2450], þ.e. rauðleir (F-964), glerbrot (F-988) og járn (F-990). Tvö leirkersbrot (F-973 og F-976) voru í torflagi [6333] og eitt hvítleirkersbrot (F-965) fannst í lagi [6345]. Allir gripirnir í torfhruninu fundust ofarlega og gætu tilheyrt yngri lögum.

Mynd 4. Flygildismynd af fjárhúsinu [4].

Torfveggir

Veggir tóftarinnar voru úr torfi og grjóti og virðast að mestu vera gerðir úr strengjatorfi. Torfveggir [2214] voru til staðar norðan, sunnan og vestan megin og lágu í skeifu en inngangur hefur verið í mannvirkið að austanverðu. Torfið var misvel farið, þykkast var það í vestanverðum norðurveggnum en suður- og vesturveggir voru verr farnir. Í torfinu var gjóska úr Veiðivatnagosinu árið 1477.12

Steinhleðslur eru aðeins í hluta veggjanna. Þær eru í ytri brún í austanverðri tóftinni og við inngang; annars staðar eru ekki hleðslur að utan. Í innbrún voru þéttar steinhleðslur í norðurvegg og vesturvegg en ekki eins þéttar við suðurvegg. Mögulegt er að húsið hafi verið að hluta endurhlaðið við innganginn og að það skýri öðruvísi hleðslur þar. Suðurveggurinn er 8 m langur, norðurveggurinn 8,8 m og vesturveggurinn 5 m. Þykkastur er veggurinn að norðanverðu, 1,5 m, vesturveggurinn er 0,8 m þykkur og suðurveggurinn um 1 m þykkur. Engir gripir fundust í veggjunum.

12 Magnús Á. Sigurgeirsson, 2021.

Mynd 5. Hluti af garðanum [2461 ] til hægri á mynd, suðurveggur [2214] til vinstri.

Garði

Í miðri tóftinni var garði [2461] sem lá langsum austur-vestur, frá vesturvegg og að inngangi. Garðinn var 6,3 m langur og um 0,7 m breiður. Hann lá eftir allri tóftinni og skipti henni í tvennt, rýmið norðan megin var nokkuð stærra en rýmið sunnan megin. Garðinn var hlaðinn að norðanverðu en að sunnan var einföld steinaröð efst á honum. Stoðarsteinar komu í ljós neðst í garðanum og hefur hann að hluta til sigið yfir þá. Engir gripir fundust í garðanum.

Mynd 6. Steinar og hellur við inngang í fjárhúsið.

Gólf

Í inngangi fjárhússins var mikið af grjóti, aðallega hrun úr veggjum og garðanum; einnig leit út fyrir að gólfið hafi þarna að hluta til verið hellulagt. Tvö stór gólflög voru hins vegar skráð í norðurrýminu [6317] og suðurrýminu [6318], þ.e. sitt hvoru megin við garðann. Bæði voru þunn og úr efni sem minnti á torf. Gólfið var ekki sýnilegt alls staðar í tóftinni. Í norðurrýminu var það um 6x1,6-2 m að stærð en í suðurrýminu um 6x1 m. Gólflagið var um 3 cm þykkt þar sem það var þykkast. Engir gripir fundust í gólfinu.

Undir torfhruni [6345] var kolalag [6755] sem var nokkrir mm að þykkt. Það lá í suðausturenda tóftarinnar, á milli garðans [2461] og torfveggjarins [2214] sunnan megin. Þykkast var það við garðann. Einn gripur, eineggja hnífur (F-601), fannst í laginu. Undir kolalaginu voru gólfleifar [6943] sem hafa líklega verið samtíma gólfum [6317] og [6318]. Einnig voru svolitlar leifar af gólfi í inngangi tóftarinnar [6333] sem er líklega samtíma hinum gólflögunum.

Mynd 7. Kolalag í [6755] við suðurvegginn.

Flæðirit 1

GRIPIR Á SVÆÐI C

Alls voru skráð 55 gripanúmer á svæði C. Helstu gripaflokkarnir voru leirker, járn og gler. Leirker var algengasti gripaflokkurinn en 42 af 55 gripum voru leirker. Flestir gripir fundust í yfirborðslagi og rótuðum lögum sem voru yngri en fjárhúsið. Grisjað var úr yfirborðslagi [1900] og teknar voru ljósmyndir af 20 gripum (naglar og aðrir járngripir) sem var fargað.

Tafla 1. Efnisflokkar gripa.

This article is from: