
3 minute read
Fjárhús á Íslandi
Í fornleifaskráningunni frá 2019 var fjárhústóftinni lýst svo: „Tóftin snýr norðvestur-suðaustur og er 7x10 m að utanmáli. Dyr hafa snúið til suðausturs. Veggir eru 20-40 cm háir, tæplega metri á breidd og algrónir grasi.“5 Einn könnunarskurður [81] var grafinn í gegnum tóftina árið 2020 með stefnu norður-suður, 7,3x0,85 m, og var vesturbakkinn teiknaður. Í þessum skurði komu í ljós hleðslur, torfveggir með gjósku frá V-1477, torfhrun inni í tóftinni og hugsanlega gólflag, en í því var engin mannvist sjáanleg. Torfveggir virtust vera hlaðnir úr strengjatorfi sem sést nokkuð vel í norðurveggnum. Ekki var á þessu stigi hægt að segja með vissu til um hlutverk mannvirkisins en hugsanlegt var talið að um útihús væri að ræða þar sem engir gripir fundust í skurðinum. Gjóskulagið úr Öskju frá 1875 lá yfir mannvistarleifum in situ þannig að allt benti til þess að þarna væri að finna minjar frá því fyrir gjóskufallið.6 Því var ljóst að frekari fornleifarannsókn þurfti að fara fram á tóftinni, enda vitað að hún myndi hverfa undir Öldugarð. Rannsóknarmarkmiðið fyrir 2021 var að grafa upp allt húsið og kanna enn frekar aldur þess og hlutverk.
Á 19. og framan af 20. öld var mikið af fjárhúsum á túnum, oftast fleira en eitt. Yfirleitt voru þau aflöng og mjó, gerð úr torfi og grjóti. Fjárhús gátu staðið ein sér eða tvö til þrjú saman og stundum með hlöðu baka til. Flest fjárhús á Norður- og Austurlandi sem voru í notkun á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar voru með garða sem á var gefið hey. Garðarnir voru yfirleitt grjóthlaðnir og þá eftir miðju húsinu endilöngu ef einungis var einn garði en stundum voru þeir fleiri. Þeir náðu frá bakvegg og í átt að inngangi og var yfirleitt um 1 m fjarlægð milli inngangs og garðaendans eða garðahöfuðs. Oftast voru stoðir sem stóðu fram af brúnum garðans og upp undir ásana í þakinu.7
Advertisement
5 Guðný Zoëga og Bryndís Zoëga, 2019, nr. 2048-22. 6 Ragnheiður Traustadóttir og Rannveig Þórhallsdóttir, 2020, 31-32. 7 Birna Lárusdóttir, 2011, 111-116; Jónas Jónasson, 1961, 470-472. Í greininni „Einfaldar reglur um fjárhúsabyggingu og sauðfjárrækt“ frá árinu 1851 sem hafðar eru eftir ónefndum bónda úr Múlasýslu er byggingu fjárhúsa á þeim tíma lýst. Þar segir að hús handa 50 ám eigi að vera 40 fet (um 12,5 m) að lengd og 14 fet (um 4,3 m) að breidd en hús handa 50 lömbum 32 fet (um 10 m) að lengd og 13 feta (um 4 m) breitt. Húsin áttu að vera vel há, hliðarveggir 3 álnir (um 1,9 m) að hæð en stafninn það hár að fullorðinn maður gæti staðið uppréttur. Dyrnar áttu að vera jafn háar hliðarveggnum. Þær áttu að vera 3 feta (um 0,94 m) breiðar um dyrastafi en 4 fet (1,24 m) milli innri kampanna. Nauðsynlegt var að hlaða veggina að innan með grjóti upp að 3 fetum (0,94 m). Að utan þurfti að hafa góðar undirstöður úr grjóti en ekki þurfti að hlaða ytri veggina úr grjóti ef lítið var um það. Þegar grjóthleðslunni var lokið var mælt með því að hlaða veggina með hálfþurrum strengjum eða klömbruhnausum. Hornin á fjárhúsunum áttu að vera ávöl en ekki skörp; þannig voru þau betur varin fyrir veðri og skepnum. Ekki þótti nauðsynlegt að hafa hliðarveggi mjög þykka heldur var nóg að hafa þá 4 fet að þykkt neðst en 3 fet ofar. Stafnveggurinn ætti samt að vera að minnsta kosti 4,5 fet að neðan. Garði handa fullorðnu fé mátti ekki vera mjórri en 4 fet. Fjárhús sem byggð voru á þennan hátt áttu að geta enst í um 60 ár.8
Fjárhús er víða að finna í landslaginu í brekkum Seyðisfjarðar en sex hafa verið skráð í hlíðum Bjólfs svo öruggt sé.9 Auk þeirra hafa fundist í hlíðunum sex útihús þar sem nánara hlutverk er ekki þekkt en sum gætu hafa verið notuð fyrir skepnur.10 Rannsóknin árið 2020 leiddi í ljós að flest útihúsin á þessu svæði hafa verið reist á 20. öldinni. Tóft [2048-22] skar sig hins vegar úr því könnunarskurður sýndi að hún var eldri en 1875.11
8 Einfaldar reglur um fjárhúsabyggingu og sauðfjárrækt, 1851, 4-10. 9 Bryndís Zoëga og Guðný Zoëga, 2019, nr. 2048-18/26/48/49; Indriði Skarphéðinsson og Ragnheiður Traustadóttir, 2021, nr. 99. 10 Bryndís Zoëga og Guðný Zoëga, 2019, nr. 2048-2/13/22/23; Indriði
Skarphéðinsson og Ragnheiður Traustadóttir, 2021, nr. 93. 11 Ragnheiður Traustadóttir og Rannveig Þórhallsdóttir, 2020, 31-32.