1 minute read
Að endingu
Draga má saman helstu einkenni og áhrif þeirrar tilraunar sem stofnun og starf Mjólkurskólans var þannig:
• Mjólkurskólinn er dæmi um árangursríka tækniyfirfærslu á milli landa. Keypt var erlend kunnátta og henni dreift með skilvirkum hætti og á réttum tíma nýsköpunarskeiðs. • Mjólkurskólinn færði sönnur á mikilvægi þess að kunnátta og þekking komi á undan framkvæmdum og fjárfestingu við nýsköpun í atvinnurekstri. • Skólastarfið og leiðbeininga- og ráðgjafarstarfið var tengt saman í eina heild sem að grunni til byggðist á samvinnufélagsskap bænda um rjómabúin. Fyrirmyndin var sótt í góða reynslu danskra bænda. • Starf Mjólkurskólans í þágu rjómabúanna var liður í viðskiptavæðingu búanna; bændur tóku að sjá reiðufé sem m.a. ýtti enn frekar undir tæknivæðingu landbúnaðarins. • Mjólkurskólinn veitti hvað fyrstu sérhæfðu starfsmenntunina á sviði matvælavinnslu hérlendis. • Mjólkurskólinn var mikilvægur áfangi í menntun og réttindabaráttu íslenskra kvenna.
Advertisement
• Mjólkurskólinn með rjómabúunum var næsti fyrirrennari þess blómlega mjólkuriðnaðar sem við búum að í dag. • Rjómabúin urðu í mörgum sveitum brautryðjandi og fyrirmynd að samvinnu bænda – sýndu þeim hversu munað gat um samtakamátt margra og dreifðra framleiðenda. • Í krafti starfsmenntunar sinnar breyttu mjólkurskólastúlkurnar búverkum og búháttum víða um landið, bæði með beinum og óbeinum hætti, og áttu sinn drjúga þátt í að færa íslenskan landbúnað til nýrra tíma. • Nafn Hans Grönfeldt Jepsen frá Ølgod á Jótlandi er tengt
Mjólkurskólanum öðrum frekar. Sem skólastjóri hans, ráðgjafi rjómabúanna og frumkvöðull á sviði íslensks mjólkuriðnaðar átti Grönfeldt hvað stærstan þátt í því að miðla nauðsynlegri fagþekkingu og verkkunnáttu þegar íslenskir bændur hófu markaðssókn með mjólkurafurðir.
Til þeirra miðlunar má rekja rætur blómlegs mjólkuriðnaðar nútímans hér á landi. Og er þá heldur ekki gleymt hlut Sigurðar ráðunautar Sigurðssonar.