3 minute read
Félagslífið í Mjólkurskólanum
Mjólkurskólinn var ekki aðeins mjólkurfræði í bóknámi og verklegum æfingum. Hann varð líka samfélag svo sem skólum fylgir. Á meðan Mjólkurskólinn var á Hvanneyri má geta nærri að nærvera mjólkurskólastúlknanna hafi lífgað upp á heimilisbraginn á skólastaðnum, þar sem fyrir var hópur ungra karlmanna í almennu búnaðarnámi. Ég gríp eitt dæmi úr dagbók námsmeyjar Mjólkurskólans á Hvanneyri frá þrettándanum 1903:
Tombóla á Hvítárvöllum. Fór héðan 26 manns, 4 mjólkurskólastúlkur, heldur var það léleg tombóla … Svo var dans á eftir; alla nóttina var fólkið að tínast heim … kvöldið eftir var þrettándinn. Farið var ofan á Fit [við Hvítá] og sungið og dansað, síðan farið heim og drukkið kaffi, og með því klykkt út með jólin; þessi lengstu jól sem eg hef vitað haldin … Á sunnudaginn þann 11. [jan.] fórum við tíu upp á Vatnshamravatn og dönsuðum.154
Advertisement
Engar heimildir hafa fundist um félagslíf nemenda þann vetur sem skólinn stóð í Reykjavík. En eftir að hann flutt-
Kveðja og áritun Grönfeldts skólastjóra til nemanda við brautskráningu veturinn 1903.
ist að Hvítárvöllum endurnýjaðist sambandið við Hvanneyringa, enda vart nema tæpur klukkustundar gangur á milli bæjanna. Samfundir virðast hafa verið reglulegir auk þess sem Hvítárvellir voru þingstaður hreppsins og því einnig vettvangur annarra mannfunda í sveitinni.
Grönfeldt skólastjóri er sagður hafa verið mjög glaðsinna maður. Skólastjórafrúin, hún Þóra Þórleifsdóttir Grönfeldt, lék gjarnan fyrir dansi á harmóniku, og fáir voru þá glaðari í selskapnum en Grönfeldt skólastjóri, sagði Davíð Ólafsson á Hvítárvöllum, sem vel mundi þau hjón úr æsku sinni.155 Leikfimisýningar námsmeyja Mjólkurskólans þóttu mikil nýlunda á samkomum Hvanneyringa og Hvítárvallameyja á þessum árum. Þannig lýsir Hvanneyringurinn Kristján V. Guðmundsson samkomu nágrannaskólanna í ársbyrjun 1907:
Á jóladaginn komu skólastúlkurnar frá Völlum og húsbændur þeirra til kirkju og var það allt hér til kl. 3 um nóttina, skemmti sér við dans og leiki … Svo bauð Grönfeldt öllu heimilisfólkinu frá Hvanneyri inn eftir á annan í nýári. Og við fórum 23 (stykki), 12 karlmenn en hitt kvenfólk … þá fór ég, og mig iðraði ekki eftir því, því ég skemmti mér vel. Við fórum af stað frá Hv[anneyri] kl. 12 á. h. en komum kl. 5 um nóttina … Stúlkurnar sýndu okkur „Gymnastik“ í klukkutíma, og höfðum við mjög mikið gaman af því. Og hljóta þær að vera vel skynsamar, þar eð þær sýndu þær kúnstir, sem ekki eru taldar sem kvenlegastar af meðalmönnum.156
Og sami bréfritari skrifaði 9. maí sama ár:
… [á sunnudaginn] komu allar mjólkurskólastúlkurnar frá Völlum þá að kveðja Hvanneyringa, og við piltarnir eigum eftir að fara inneftir að kveðja áður en við förum, því við erum hrifnir af að koma til Grönfeldts og Þóru.
Grönfeldt setti upp leikrit í Mjólkurskólanum. Vitað er til dæmis að um áramótin 1902–03 var fluttur leikþáttur á Hvanneyri sem Grönfeldt hafði sjálfur skrifað. Mun leikþátturinn að einhverju leyti hafa fjallað um staðbundin viðfangsefni.157 Fleiri dæmi eru um leiksýningar í tengslum við Mjólkurskólann. Veturinn 1907 höfðu nemendur á Hvanneyri og Hvítárvöllum þýtt og æft tvo danska gamanleiki. Grönfeldt skrifaði sýslumanni og spurði „hvort ekki muni heimilt að selja aðgang að leiksýningunum á tuttugu og fimm aura.“158 Mætti því ætla að leiksýningar hafi verið nýlunda í héraðinu. Söngur og þó einkum dans var ríkur þáttur félagslífsins. Hvanneyringar fóru þannig reglulega í heimsóknir til „frænknanna“ á Hvítárvöllum, sem svo voru í gamni nefndar, og endurguldu boðin einnig. Þriðji skólinn í Andakílshreppi fyrir ungt fólk var á Hvítárbakka. Þó að þaðan og þangað væri um nokkurn veg að fara og auk þess yfir mikið vatnsfall, Grímsána, voru gagnkvæmar heimsóknir einnig til Hvítbekkinga. „Mikið um dýrðir og vel til vandað, eftir því sem tök voru á“, segir um þær.159
Mér þykir líklegt að rjómapóstarnir, þeir sem fluttu
Hjónin á Ferjubakka. Guðjón Jónsson og Sigríður Kristjánsdóttir, bændur á Ferjubakka II árin 1907–1941. Sigríður kom frá Múla í Dýrafirði og nam við Mjólkurskólann veturinn 1904–1905. Þá var Guðjón vinnumaður hjá móður sinni á Ferjubakka. Hann var einn af rjómapóstunum til Mjólkurskólans á Hvítárvöllum. Þau hjónin eru, auk skólastjórahjónanna Grönfeldts og Þóru, meðal dæma um traust og varanleg kynni sem tókust með ungu fólki í tengslum við starf Mjólkurskólans.
rjómann að Hvítárvöllum, hafi ekki verið mjög sporþungir við þau embættisverk: Framandi og forvitnilegar stúlkur Mjólkurskólans afgreiddu þá og varla hafa þeir farið þurrbrjósta frá Hvítárvöllum. Minntist Davíð á Hvítárvöllum, sem þá var barnungur, stöku rjómapósta af nágrannabæjum sem áttu til að dveljast drjúgum við verkið, jafnvel svo að nokkuð var liðið á nótt er þeir hurfu til síns heima. Að stofnaðist til hjónabands var ekki óþekkt.160