
1 minute read
Ræðustóllinn hans Ríkarðs
Gersemisgjöf til Hvanneyrarskóla
Á fimmtíu ára afmælishátíð Bændaskólans á Hvanneyri 24.-25. júní árið 1939 færðu Mýra- og Borgarfjarðarsýslur ásamt Búnaðarsambandi Borgarfjarðar skólanum af gjöf ræðustól sem gerður var af listamanninum Ríkarði Jónssyni. Jón Steingrímsson sýslumaður afhenti gjöfina á sérstökum fundi nemenda félagsins „Hvanneyrings.“
Advertisement
Ræðustóllinn er mikið og forkunnarfallegt listaverk. Hann hefur alla tíð síðan verið notaður við allar stærri athafnir skólans. Lengi vel var hann einnig kennslupúlt eldri deildar. Margir hafa flutt mál sitt úr þessum ræðustóli, meðal annars fyrstu ræður sínar skjálfandi af ótta við áheyrendur. Líka hafa þeir verið til er litu á stólinn sem hvatningu til þátttöku í skoðanaskiptum. Þannig lét einn af ágætustu nemendum skólans, Jón M. Guðmundsson á Reykjum í Mosfellssveit, þau orð falla fyrir nokkrum áratugum að sig langaði alltaf til þess að halda ræðu þegar hann sæi þennan ræðustól. Svo mun vera um fleiri.
Ræðustóllinn er smíðaður úr eik: Megin hluti hans er raunar læsanlegur skápur er opnast að ræðumanni. Ofan á honum hvílir púlt, einnig með læsanlegu loki er hallast að ræðumanni. Ræðustóllinn er allur útskorinn. Ber mest á lágmynd framan á honum er sýnir sáðmann með skeppu sína er fellir fræ í akur. Yfir henni er síðan skráð höfðaletri:
Akrar voru frjóvir og aldingarðar Gladdist arður í grænum sverði Bændaskólinn á Hvanneyri Gjöf frá Borgfirðingum 1939
Fléttusúlur mynda fremri horn ræðustólsins og efst á þeim eru mikilúðleg höfuð karls og konu – bónda og húsfreyju, sem minna mjög á Torfa Bjarnason og Guðlaugu konu hans í Ólafsdal á styttum Ríkarðs er standa þar vestra.
Ýmis búskapartengd tákn eru síðan á stólnum, svo sem búfé, jarðyrkja, heyskaparamboð og mjólkurvinnsluáhöld. Töluvert hefur mætt á ræðustólnum í áranna rás enda var hann lengi kennslupúlt eins og fyrr sagði. Það var því fyrir aldarafmæli Hvanneyrarskóla, árið 1989, að Halldór Sigurðsson listamaður á Miðhúsum við Egilsstaði og nemandi frá Hvanneyri tók ræðustólinn til sín og hreinsaði hann og lagfærði svo varð sem nýr.
Hvanneyrarstóll Ríkarðs Jónssonar.
Ræðustóllinn er án efa eitt af mestu listaverkum Ríkarðs Jónssonar. Hann er líka einn mesti dýrgripur í eigu Landbúnaðarháskóla Íslands. Þótt orðinn sé meira en 80 ára gamall, eða þess vegna, er hann áhrifamikið tákn um hlutverk og starf skólans. Ræðustóllinn glæðir mikilvægar stundir í lífi nemenda og starfsfólks sérstökum blæ.