
13 minute read
Álagabruni á Hvanneyri?
– þegar „Byggingin“ í Þórulág brann
Það var sunnudagurinn 15. september 1968. Bjart veður og stillt allan daginn; hlýtt, segir í dagbók minni.103 Við hjónakornin skruppum í berjamó suður í Land eftir hádegið og síðan fékk ég mér blund.
Advertisement
En kyrrðin var rofin um kvöldmatarleitið þegar mikill reykur sást stíga til himins frá húsunum norðurfrá, Byggingunni sem svo var kölluð, sambyggingu fjárhúsa, hesthúss og kálfafjóss með heygeymslum, er stóð þar sem heitir í Þórulág. Þegar betur var að gáð sást að eldur var þar laus. Uppi varð fótur og fit og allir sem vettlingi gátu valdið hlupu norðureftir. Kafarauk þá úr öllum götum Byggingarinnar. Er að var komið heyrðust hvellir og smellir þegar asbestið á þakinu hitnaði og sprakk. Stuttu síðar gaus eldur upp úr þaki hússins er þakviðir tóku að falla. Má segja að húsið hafi verið orðið alelda um kl. hálf átta. Símstöðin skólans var opnuð og kallað á slökkviliðin úr Borgarnesi og Reykholti sem komu á níunda tímanum.
Þegar slökkviliðin komu að eldsvoðanum var gengið í það að dæla vatni á tilraunahlöðurnar, sem stóðu norðan við Bygginguna. Tókst að miklu leyti að verja þær. Er hér var komið sögu hafði drifið að margt fólk, áhorfendur mjög marga, bændur úr nágrenni til að hjálpa o.fl. Miklum erfiðleikum olli það slökkviliði hve erfitt var að ná í vatn til slökkvistarfanna. Vatnsból voru engin örugg nærri.
Um kl. 22 var tekið til við að moka heyi út úr nyrðri tilraunahlöðunni. Var unnið í hópum sem voru inni í 1-2 mínútur hver. Lengur gekk það ekki vegna reyks þar inni. Gekk allvel að slökkva elda í Norðurhlöðunni þar sem heyið var laust í stæðu, en það gekk verr með vélbundna heyið í Suðurhlöðunni; þar logaði mjög í „djö . . . böggunum“ hef ég skrifað í dagbókina. Man ég að eldurinn laumaðist á milli bagganna enda voru þar hinir ágætustu loftstokkar fyrir súrefnið.
Hér má bæta því við sem skýringu að í hlöðunum höfðum við Bútæknideildarmenn komið fyrir súgþurrkunar- og -geymslutilraun til samanburðar á lausu og vélbundnu heyi, en þá var sú tækni að ryðja sér til rúms. Höfðum við hirt heyið með ærinni fyrirhöfn og meðal annars bæði vegið hey í sérstakar grisjur sem og vegið og merkt bagga til þess að geta mælt þurrefnistap við þurrkun og geymslu. Legu hins merkta heys í stæðunum höfðum við Ólafur Guðmundsson til þæginda er að gjöfum kæmi merkt með gulum borðum, sem á stóð VARÚÐ – JARÐSTRENGUR eða eitthvað í þá áttina. Borðana munum við hafa komist yfir með sérstökum hætti, líklega ófrjálsum, í von um að meinlaust teldist. Þórhallur Þórarinsson
103 Frásögnin er að mestu leyti byggð á dagbók BG frá þessum dögum.
staðarrafvirki, sem aldrei mátti vamm sitt vita blessaður í neinu sem við kom rafmagni, varð hins vegar alveg æfur er hann sá borðana þarna í eld- og reykhafinu og vandaði okkur bútæknimönnum ekki kveðjur sem von var. Fyrsta hugsun hans var nefnilega sú að hér hefði kviknað í út frá rafmagni, sem hreint ekki var, eins og síðar verður sagt frá.
Nú, nú. Er hér var komið sögu hafði eldur að mestu kulnað í fjárhúsunum sjálfum. Þar var flest brunnið sem brunnið gat. Þess vegna var unnt að brjótast um rústirnar þvert í gegnum þau að gafli Suðurhlöðunnar. Varð þannig auðveldara að vinna á eldinum í heyinu. Þarna var nú mokað, grafið og sprautað vatni lengi nætur uns eldur hafði kulnað. Upp úr stæðunum komu í henglum hinir gulu jarðstrengsborðar sem og merkt hey, laust hey og bundið í vel merktum grisjum. Margir kunningjar mínir vissu að ég hafði verið við heyverkunartilraunir til þess að safna efni í námsritgerð mína í Noregi og spurðu mig nú áhyggjufullir hvað yrði um áform mín í þeim efnum. Sem betur fór hafði þessi tilraun ekkert með námsrannsóknir mínar að gera. Ég hafði aðeins unnið að henni með starfsmönnum skólabús og Bútæknideildar. Illt var þó að sjá á eftir allri vinnunni og fyrirhöfninni sem í tilraunina hafði farið; tilraunin var bæði vönduð og í fullri stærð. Hún hefði því getað gefið okkur gagnlegar upplýsingar til viðbótar þeim sem við höfðum aflað með þurrkunartilraunum í minni mælikvarða. En þarna hvarf hin vandaða tilraun sem sagt í vatni, eldi og reyk og varð að hluta að ösku.
Mér varð það hins vegar mikill lærdómur að upplifa þennan bruna: Að sjá eins og áður sagði hvernig eldurinn dreifðist um meginhluta baggastæðunnar, er þegar þurrt heyið, sem sneri inn að loftgöngunum á milli þeirra, brann. Hins vegar að finna brunagöngin – kanalana – sem urðu til í lausa heyinu: þar var hægt að stinga brunaslöngunum all langt ofan í göngin án minnstu mótstöðu. Þá vakti það ekki síður furðu mína að sjá hey sem mokað var út á hlöðuvöllinn verða skyndilega alelda þar um leið og súrefnið komst að því – líkt og í því yrði sprenging. Ég lærði það að minnsta kosti að hlöðueldar eru ekki auðveldir viðfangs.
„Byggingin“ brennur 15. september 1968; þakið að falli komið (ljósm. Ólafur Guðmundsson).
Gríðarleg hugaræsing með fáti greip um sig við eldsuppkomuna, sem von var. Þetta var óhugnanleg sjón þar sem dökkur reykjarmökkurinn steig hátt til himins þarna í kvöldkyrrðinni. Hann mun hafa sést langt að. Guðmundur skólastjóri „var hálf-ruglaður, að því er virtist“, hef ég skrifað í dagbókina. Mér er í minni að þeir nafnarnir, skólastjóri og ráðsmaður, drógu sig eiginlega í hlé um tíma á fyrsta skeiði brunans, hurfu okkur á brunastaðnum að minnsta kosti. Mér er það hins vegar jafnskýrt í minni að þá gekk Grétar Einarsson, þá starfsmaður Bútæknideildar, fram fyrir skjöldu í verkstjórn. Skipaði hann fyrir um varnaraðgerðir þangað til slökkviliðin voru komin í fullan gang, og beitti sér mjög til skynsamlegrar og árangursríkrar verkstjórnar á meðan atið stóð hæst. Taldi ég að mikið hefði munað um frumkvæði og forystu Grétars í björgunaraðgerðum er við var komið.
Heima í mötuneyti í kjallara Skólastjórastjórahússins voru matföng dregin fram. Kaffi var á boðstólum og önnur hressing fyrir þá sem að slökkvistörfunum unnu. „Þáðu menn hressinguna með þökkum, flestir“, stendur þar.
Hægt og sígandi tók að róast yfir og menn að ná tökum á framvindunni. Það munaði mjög um að veður hélst kyrrt um nóttina líka. Þarna í rústunum fór því að gefast tími til þess að blása úr nös og spjalla saman, líka um óskylda hluti til þess að dreifa huganum. Þannig man ég að við Jón Blöndal í Langholti settumst saman þar á steinvegg til þess að kasta mæðinni. Þá fór hann í undrun sinni að segja mér frá því að það þyrfti hálfs-tonns átak til þess að snúa við stimpli í Fólksvagen-mótor: Hafði það eftir Pétri Haraldssyni verkstæðisformanni í Bæ en síðan vélakennara á Hvanneyri, en á honum tóku allir mikið mark. Jóni þótti þetta mikil firn og hló sínum hvella og sterka hlátri á eftir. Þetta vor fyrstu kynni mín af Jóni Blöndal, sem áttu eftir að verða mikil síðar.
Um þrjúleytið um nóttina var ég orðinn slituppgefinn og labbaði heim til að sofa. „Hef ég sjaldan verið þreyttari“ stendur í dagbókinni.
. . . En svo reis nýr dagur, mánudagur, með bjartviðri og sólskini. Fyrir mörgum runnu dagarnir tveir saman í eitt. Mig grunar til dæmis að Guðmundur ráðsmaður hafði lítið sofið þessa nótt. Ég kom að brunarústunum kl. 9. Rauk þá enn úr heyi. Voru flestir farnir að sofa en nýir menn voru á verði við rústirnar ef eldur kynni að blossa upp að nýju.
Þegar var hafist handa við að galta minnst skemmda heyið en breiða annað til þerris og viðrunar. Notuð var flötin norðan við Bygginguna – Kálgarðurinn, sem svo var þá kölluð. Um það verk að mestu sáum við Ríkharð Brynjólfsson sumarstarfsmaður, Árni Guðjónsson frá Stafholtsveggjum, sem þá var kaupamaður Hvanneyrarbúsins í hlutastarfi, svo og líklega Kristján Gunnarsson, en þeir tveir síðartöldu voru starfsmenn Sigurgeirs Ingimarssonar, byggingarmeistara í Borgarnesi, er um þær mundir vann að byggingu Nýja skólans. Man ég enn hve þykkt var á flekknum í Kálgarðinum, því mikið var heyið sem þurfti að viðra og þurrka. Þá kom sér vel að þurrkur var góður og að við höfðum aðgang að því undratæki sem heyþyrlan var. „Margir forvitringar komu heim að skoða vegsummerkin, en enginn til
að hjálpa til við björgun heyjanna!“ stendur í dagbók. En hagstætt veður bjargaði því sem bjargað varð. Taka má fram að engar skepnur voru í Byggingunni þegar bruninn varð.
Áður en vikið verður að orsökum brunans má geta frétta sem birtust um hann. Ekki veit ég hvað olli því að þær bárust fjölmiðlum svo fljótt sem varð: Tekið var til þess að egypskur kaupamaður, sem á Hvanneyri var þetta sumar, Muhamed Ali Murad að nafni, sat einn síns liðs og í rólegheitum niðri í sjónvarpsstofu Gamla skólans og fylgdist með kvöldfréttum Ríkisútvarpsins – Sjónvarps þennan sunnudag þegar skyndilega kom upp á skjáinn mynd af Hvanneyri sem hann kenndi. Fréttir hófust þá kl. 20. Muhamed hafði ekki fyrr orðið var látanna, en þetta með öðru varð til þess að honum varð ljóst hvað gerst hafði.
Eins og verða vill voru fréttir í fyrstu ekki nákvæmar: Í dagbók segir m.a.: „Fréttir eru brenglaðar, m.a. var bjargað út hrossum og sauðfé og fleiri þúsundir heyhesta brunnu!“ Ég gríp ofan í fréttir dagblaðanna Vísis og Tímans og tek með ljósmynd Einars Ingimundarsonar í Borgarnesi er birtist með fréttinni í Morgunblaðinu:
Heyhlaða og 300 kinda fjárhús brunnu á Hvanneyri
— Tjónið nemur hundruðum þúsunda
■ Þúsund hestar af heyi hlaða og fjárhús brunnu í nótt á Hvanneyri. — Eldurinn kom upp um kvöldmatarleytið í gær og kviknaði út frá mótor, sem notaður er til kyndingar. Brann allt timburverk bæði í hlöðunni og fjárhúsinu, sem er um 300 kinda hús og eina fjárhúsið á staðnum.
Í hlöðunni voru þúsund hestar af heyi og skemmdist það mikið, en ef til vill mun vera hægt að
nýta eitthvað af því. — Við lendum óneitanlega í dálitlum vandræðum vegna þessa skaða, sagði Guðmundur Jónsson, skólastjóri á Hvanneyri, þegar Vísir ræddi við hann í morgun. Húsin eru mikils virði og eitthvað verður að koma í þeirra stað.
Guðmundur kvaðst ekki geta gizkað á hversu mikið tjónið væri, en vísast næmi það hundruðum þúsunda. — Heyið sem var í hlöðunni er um það bil 1/5 af heyfeng Hvanneyrarbúsins í sumar og kvaðst Guðmundur ekki geta sagt til um það á þessu stigi málsins, hvort gera þyrfti einhverjar ráðstafanir til frekari heyfanga vegna þessa skaða, en í þessari hlöðu var geymt fóður ofan í kindur og hesta.
Slökkvistarfið stóð enn þá yfir, þegar Vísir hafði samband við Hvanneyri í morgun. Að slökkvistarfinu unnu brunaliðsmenn úr Borgarnesi og slökkviliðinu í Reykholti. Auk þess dreif að mikinn mannfjölda úr sveitinni í kring.104
104 Vísir 16. september 1968.
ÁLAGABRUNI Á HVANNEYRI?
HLAÐA, FJÁRHÚS OG HESTHÚS BRUNNU
FB-Reykjavík, mánudag.
Á sunnudagskvöldið um klukkan 7 kom upp eldur í hlöðu á Hvanneyri. — Slökkvilið var þegar kvatt á staðinn og kom það bæði frá Borgarnesi og Reykholti. Var unnið að því að ráða niðurlögum eldsins í nótt og fram eftir degi í dag. Eldurinn mun hafa kviknað út frá olíukyndingu.
Blaðið hafði í dag samband við Guðmund Jónsson, skólastjóra á Hvanneyri. Sagði hann að eldurinn hefði komið upp í kjallara undir hlöðunni. En þar voru kynditækin. Við hlöðuna voru áföst fjárhús og hesthús, en allar þessar byggingar skemmdust mikið, þó hesthúsin minnst. Hefur í dag verið unnið að því að lagfæra húsin eftir því sem hægt er.
Í hlöðunni voru 1000 hestar af heyi og mun um helmingur þess hafa eyðilagzt í fjárhúsunum var rúm fyrir 300 fjár og í hesthúsinu var rúm fyrir 30 hross.
Í bókinni Landið þitt eftir Þorstein Jósepsson, segir um Hvanneyri, að þegar búnaðarskóli var þar stofnaður árið 1889, hafi verið mörg smábýli þar í kring, og hafi leiguliðar, sem þar bjuggu verið reknir burtu vægðarlaust, sumir sárnauðugir, aðrir í heiftarhug. Kona ein var í þeirra hópi. Hún mælti svo um og lagði á, að þrír stórbrunar yrðu á Hvanneyri.
„Síðan hafa orðið þar tveir stórbrunar,“ segir í bókinni. Í dag spurðum við Guðmund, hvort þetta hefði þá ekki verið þriðji stórbruninn.
— Nei, það held ég ekki, svaraði hann, það mun hafa verið átt við íbúðarhúsin, en ekki útihús, svo hér á eftir að brenna enn.105
Í fréttunum var vikið að meintum upptökum brunans. Nú hef ég ekki undir höndum rannsóknaskýrslur lögreglu eða tryggingafélags um málið svo hér er byggt á því sem mér sem heimamanni kom fyrir sjónir sem líklegasta skýring.
Guðmundur ráðsmaður var á þessum misserum mjög upptekinn af ýmsum nýjungum sem leitt gætu til hagræðingar í bústörfum. Skurðflórar í fjárhús voru honum t.d. hugleiknir, og hugmynd um þá kynnti hann m.a. á Landbúnaðarsýningunni í Reykjavík fyrr þetta sumar. Þeim búnaði hafði hann komið fyrir í kjallara fjárhússins. Hann velti fyrir sér hvort ekki mætti líka nota flórana sem súgþurrkunarstokka fyrir hey, sem lagt væri ofan á grindur
105 Tíminn 17. september 1968.
þeirra. Það hafði í tilraunaskyni verið gert þarna í Byggingunni: Blautt hey hafði verið hirt á flórgrindurnar og blásara komið fyrir við enda þeirra, hæð neðar en flórarnir voru og vestast í Byggingunni. Blásarinn var knúinn frá dráttarvél, í þessu tilviki nýlegri John Deere Lanzdráttarvél Hvanneyrarbúsins. Við blásarann var komið fyrir olíukyndibúnaði til þess að hita loftið upp, sömu gerðar og Verkfæranefnd hafði reynt með góðum árangri nokkrum árum áður.106 Allt virkaði þetta með ágætum sbr. skrif mín í dagbók föstudaginn 13. september þetta ár: „Fór með ráðsa [en svo var Guðmundur jafnan kallaður] í kvöld inn í Byggingu, en þar hafði hann sett upp lofthitara sem varmaði loftið upp um 26°C. Stóð dampurinn þykkur upp úr stæðu, en Ráðsi brosti í kampinn og lyfti annarri brúninni.“
Það sem gerðist var að eldsneyti dráttarvélarinnar þraut svo á henni drapst. Þar með stöðvaðist loftblásturinn. Hins vegar logaði áfram í olíukyndingunni. Aukinn eldur í henni var talinn hafa náð í þurrlegt hey sem hékk þar víða niður úr rifum í lofti blásararýmisins; að svo hafi eldur glæðst er hann náði í þornandi heyið uppi í þurrkstæðunni. Þar með varð eldurinn laus og breiddist greiðlega út til annarra hluta Byggingarinnar.
Tal heyrðist strax um að kviknað hefði í út frá rafmagni. Olli það Þórhalli rafvirkja Þórarinssyni miklu hugarvíli en hann var alþekktur fyrir staka nákvæmni og verkvöndun í iðn sinni og sem ábyrgðarmaður allra rafmagnsmála á vegum skólans, eins og fyrr sagði. Um tíma var hann því mjög æstur vegna málsins, raunar „alveg snaróður“ segir í dagbók. Ég tel að brátt hafi öllum verið ljóst að skýring á brunanum var einföld og óskyld rafmagni, svo sá hluti málsins leið hjá. Ég varð þess hins vegar aldrei var að Guðmundi ráðsmanni væri á neinn máta kennt um brunann eða hann gerður ábyrgur fyrir tjóninu sem varð. Litið var á brunann sem hvert annað óhapp og kröftum beint að því að bæta tjónið og laga það sem lagað varð.
Strax á þriðjudegi 17. september var Sigurgeir byggingameistari Ingimarsson mættur með sína menn til þess að endurreisa Bygginguna. Þá var strax ákveðið að „hækka veggi fjárhússins um 1,2 m í ca. 2 m og setja flatara þak.“ Það reið á að koma húsinu undir þak fyrir vetur og hýsingu heys og búpenings.
Úr heyafla greiddist og man ég ekki til þess að kæmi til vandræða vegna heyskorts þótt nokkur hluti heyfengs skólabúsins hefði þarna farið forgörðum. Miklu af heyi tókst að bjarga með aðferðum sem áður var lýst. Byggingin reis og varð bara vel brúkanlegt hús eftir, eiginlega öllu betra en það var fyrir brunann, a.m.k. sem fjárhús.

106 Verkfæranefnd ríkisins. Skýrsla um tilraunir ... á árinu 1955 (1956), 31-33.
Hvað álögin snerti var sú alþekkta saga vissulega rædd á skólastaðnum. Æ síðan hefur atburðurinn staðið í ljósi vafans – hvort þarna varð þriðji stórbruninn á Hvanneyri eða hvort hann er enn óorðinn. Dálitla löngun hef ég til þó þess að hallast að hinu fyrra: Við sem upplifðum atburðinn sáum að um stórbruna var að ræða og mikið tjón – hefði raunar getað farið mun verr. Hagstætt veður hjálpaði til að svo fór ekki, að ei sé nú gleymt því öfluga hjálparliði er kom að slökkvistörfum og fyrstu björgun. Rangalar Byggingarinnar og afkimar hennar hefðu hins vegar getað valdið ókunnugum hjálparmönnum skaða og jafnvel fjörtjóni í eldinum, hitanum og reyknum, sem um tíma umlék gjörvallt mannvirkið.
Hins vegar minnir mig að ýmsir staðarmenn hafi hallast að þeirri skoðun Guðmundar skólastjóra er höfð var eftir honum í blaðaviðtalinu að hér væri ekki um þriðja álagabrunann að ræða . . . “svo hér á eftir að brenna enn“. Sannarlega má vona að svo verði ekki.
Guði má þakka fyrir að enginn slasaðist í þessum bruna. Efnisleg verðmæti mátti þá sem endranær bæta. Það var gert.107
107 Skrifað 2. september 2012.