
17 minute read
Komist frá krít og blýanti
Drög að kennslutækjasögum frá Hvanneyri
TAFLA OG KRÍT . . . Mér þykir líklegt að fyrstu eiginlegu kennslutæki skólans hvað bóklegar greinar varðar hafi verið krítin og tafla. Áreiðanlega eiga þau lengstu söguna. Nær hún langt fram á áttunda áratug síðustu aldar; telur meira en 90 ár af sögu skólans. Sáraeinföld tækni og eftir því ódýr en mótuð af kennaranum í öllum atriðum – hjá sumum skýr, skipuleg og auðlesin en hjá öðrum ósköp mikill hrærigrautur, illa skrifaður og torlesinn. Sjálfur minnist ég krítar með hóflegum söknuði: Væri maður í dökkum fötum og „krítaði liðugt“ kom maður yfirkrítaður úr tíma og með lungun ert af kalkryki. Ekki batnaði standið ef taflan hafði verið þvegin með sápuvatni við síðasta þvott kennslustofunnar.
Advertisement
Snemma komu til ýmis konar spjöld, líkön og sýnishorn, sem notuð voru við búnaðarkennsluna, m.a. spjöld um grasafræði og fleiri líffræðigreinar, og síðar véla- og verkfærafræði, prentuð á þykkan pappa og í mörgum litum, að ógleymdum kennsluspjöldum um Müllers-æfingarnar. Fjölritun var tekin upp um 1920. Lengi vel sprittfjölritun en síðan blekfjölritun með „stenslum“. Þótti það mikil framför við gerð kennsluefnis sem losaði nemendur undan umfangsmiklum eftirritunum fyrirlestra. Í ársritinu Búfræðingurinn, sem hóf göngu sína á fjórða áratugnum fyrir atbeina Guðmundar Jónssonar, þá kennara á Hvanneyri, voru birtar efnismiklar ritgerðir um ýmis búnaðarmál. Þær voru síðan notaðar sem kennsluefni um árabil. Búfræðingurinn varð sameiginlegur vettvangur beggja búnaðarskólanna.
Á sjötta áratugnum komu til fjölritaðar kennslubækur býsna vandaðar að frágangi, m.a. um fóðurfræði og almenna búfjárrækt. Aðstaða til fjölritunar efnis stórbatnaði á Hvanneyri um og upp úr 1960. Mér finnst eins og Áburðarfræði Magnúsar Óskarssonar og Jarðvegsfræði Óttars Geirssonar, að ekki sé nú gleymt Ritgerðatali, séu dæmi um verk sem unnin voru heima á Hvanneyri með nýjum og vönduðum blekfjölrita frá Rex Rotary er skólinn fékk á þessum árum.
Vinnan við stenslana, sem ég kynntist allvel sem teiknari, var snúningasöm þótt væri afar hagnýt fyrir skólann og nemendur. Vesen gat verið að leiðrétta innsláttarvillur hins vélritaða texta og svo var nokkur kúnst að teikna myndir á stenslana. Það var að mestu gert með sérstökum pennum sem minntu mjög á örsmá kleinujárn. Gat þó tekist allvel ef myndin var einföld og teiknarinn einbeittur. Því varð tæknistökkið mikið þegar fenginn var „brennari“ fyrir stensla, einnig frá Rex Rotary, ef mig misminnir ekki. Með honum varð sára auðvelt að færa skýrar strikamyndir yfir á stensla og fjölrita síðan á venjulegan máta. Kennsluefnið batnaði stórlega að öllum frágangi.
Brautryðjandi innan stensla-fjölritunartækninnar á Hvanneyri var Hanna Frímannsdóttir, rannsóknamaður á Rannsóknastofu Bændaskólans, en byltingin með bókunun 1965 var rekin áfram af ritaranum Hafdísi Pétursdóttur (líklega fyrsta ritara skólans í formlegu starfi). Brátt varð til starf í kringum fjölritunina. Því sinnti lengi framan af Guðný Halldórsdóttir Arndal. Enn er byggt á rótum þess starfs en með mjög breyttri tækni.
„TEKIÐ UPP“ Þó það tilheyri ekki kennslutækjum má hér víkja að kennsluháttum sem beitt hefur verið við skólann. Heimildir benda til að fyrirlestrar hafi verið mikið stundaðir á fyrstu áratugunum, og þá líklega fyrirlestrar sem fluttir voru þannig að nemendur (flestir) gátu skrifað þá niður frá orði til orðs. Dæmi um þá hafa mörg safnast í gagnasafn skólans. Eimdi eftir af þessari kennslutækni nokkuð fram á sjöunda áratuginn. Með bættum aðgangi að kennslubókum þykir mér líklegt að yfirheyrslur hafi orðið hið viðurkennda verklag. Nemendur voru teknir upp að töflu og látnir svara spurningum kennarans um tiltekna kennslubókarkafla eða taka þátt í spjalli um þá. Ég hygg að þessi háttur hafi að mestu lagst af um og upp úr 1970. Þá fóru að taka við verkefni, bæði tímaverkefni og stærri, ætluð bæði einstaklingum og hópum.
Mér finnst eins og árin eftir 1972 hafi tekið að einkennast af þesu verklagi – sem og ritgerðasmíði. Innan skólans varð á þeim árum (1972-78) mikil umræða um kennslufræði. Haldin voru lengri og skemmri námskeið fyrir kennara sem mikil áhrif höfðu á vinnulag þeirra og verkhætti. Búnaðar- og garðyrkjukennarafélag Íslands (BGÍ) vann mikið og gott verk á því sviði. Kennarar skólans voru fyrst og fremst menntaðir í búfræðum og öðrum greinum náttúrufræði, ráðnir sem kunnáttumenn á þeim sviðum en lítið lagt upp úr kennsluhæfileikum þeirra. Gert var ráð fyrir að þeir væru meðfæddir. Það breyttist undir aldarlokin er til sögu fóru að koma búnaðarkennarar er einnig höfðu aflað sér staðgóðrar formlegrar háskólamenntunar í uppeldis- og kennslufræðum.
Próf og námsmat við skólann í gegnum tíðina er sérstakur kafli sem ég hætti mér ekki út í að fjalla um að svo stöddu.
REIKNIVÉL NÝRRA TÍMA En svo gerist frásögnin örlítið sjálfhverf og skreppur út úr skipulegu fari kennslutækjanna um stund. Upp úr miðri öldinni efldist tilrauna- og rannsóknastarf við Hvanneyrarskóla til muna. Kom þá til tækni því tengd, ekki síst til útreikninga. Flestar voru það fremur einfaldar reiknivélar, séðar með augum nútímans. Þó minnist ég reiknivélar frá árunum 1963-1964 með allflóknu og hallandi talnaborði sem notuð var við útreikning uppskeru af tilraunareitum og umbreytingu hennar í þurrefnismagn. Vélin var það flókin að Magnús Óskarsson tók okkur nemendur Framhaldsdeildar í sérstakan verktíma til þess að sýna okkur notkun vélarinnar í þessu skyni. Í minni mínu hefur hún sest að sem stór og fyrirferðarmikil, þung og hávær reiknivél sem fátt gerði nema margfalda, deila, draga frá og leggja saman. Af einhverjum ástæðum varð hún skammlíf á Hvanneyri og mér ekki sérlega minnisstæð.
„Handreikningar“ voru í hávegum hafðir. Minnisstætt er mér það atvik frá vorinu 1965 er við tveir námsfélagar í Framhaldsdeild vorum að ljúka við verkefni vetrarins í búreikningum hjá Guðmundi skólastjóra er fræðin kenndi. Vegna kunnugleika komst ég í reiknivél á skrifstofu Verkfæranefndar og með henni lögðum við saman og stemmdum af dálkana löngu. Vorum fljótir. Er Guðmundur komst að þessu snupraði hann okkur félagana; sagði okkur læra svo mikið á því að leggja saman í huganum . . .
Skömmu áður en ég lauk prófi við NLH á Ási veturinn 1971 og hélt heim kynntist ég nýrri Facit-rafreiknivél, sem mér þótti hið mesta þing. Hún var með sérstöku minni og undarlegum skjá þar sem tölurnar virtust birtast sem rauðglóandi þræðir. Reiknivélin var geymd í sérstöku herbergi stofnunarinnar og var töluverð ásókn í hana af starfmönnum deildarinnar (Landbruksteknisk Institutt) sem von var.
Er ég kom heim og hóf störf hjá Bútænideild Rala á Hvanneyri, í febrúar 1971, voru þar tvær reiknivélar; Odhner hét önnur, forn að gerð með pappírsstrimli, og hana notaði Ólafur deildarstjóri Guðmundsson mest til bókhaldsreikninga. Hin var Contex 20 vél, rafknúin en mekanisk með miklum hávaða og ágætlega lipur. Ætli hún hafi ekki komið á deildina í kringum 1963-64. Þá vél notaði ég mikið á fyrstu mánuðum mínum þar eftir heimkomuna. Vissulega þótti mér afturförin töluverð, en sætti mig við hana. Þá þegar var ég nefnilega búinn að detta um þá reglu að fátt er tilraunamanninum mikilvægara en að fá tilfinningu fyrir tölum rannsóknarinnar með eigin innslætti eða hægvirkum og endurteknum útreikningi (. . . ef til vill það sem Guðmundur skólastjóri var að segja okkur með áðurnefndum snuprum vorið 1965. . . !)
Svo gerðist það undir áramótin 1971-72 að mig minnir ákveðið að Ólafur deildarstjóri tjáir mér að nokkrir fjármunir deildarinnar muni verða afgangs um komandi áramót og að rétt væri að nota þá til fjárfestingar í þarfahlutum. Ég vék að hugmyndum um rafreiknivél „með minni“. Ólafur tók strax vel í tillöguna enda mun ég eitthvað hafa nuddað um hana fyrr á árinu. Við ræddum málið nánar og veltum fyrir okkur kostum sem við höfðum haft spurnir af.
Úr Reykjavíkurferð skömmu fyrir jólin kemur svo Ólafur með nýja reiknivél, af gerðinni Ricomac 1620R model 7468, keypta hjá Skrifstofuvélum hf /Otto Michelsen á Hverfisgötu 33, með tveimur minnum hvorki meira né minna, vél sem var fjarska fallega hönnuð: hljóðlát, nett og með grænum talnaskjá. Mér fannst við hafa himin höndum tekið. En dýr var gripurinn. Ég man ekki betur en vélin hafi kostað 72 þús.kr. Það var mikið fé. Má hafa það til samanburðar að þá voru mánaðarlaun mín víst um 36 þús.kr., samkvæmt launakvarða sérfræðings á lista BSRB.
Ég beið ekki boðanna að hefja notkun reiknivélarinnar, sem komið var fyrir á skrifborði mínu þarna á þremenningaskrifstofu okkar Ólafs og Árna Snæbjörnssonar innst í suðurenda (nýja) Verkfærahússins. Ég hafði í námi mínu við NLH komist upp á lag með
tölfræðireikninga, einkum aðhvarfsreikninga og fervikagreiningu, og tók nú að beita þeim í tíma og ótíma á eldri og yngri tilraunagögn frá Verkfæranefnd og Bútæknideild. Þar þurfti því á stundum að reikna langar talnaraðir til summu og fertölu(kvaðrat-)summu. Hafði það áður kostað a.m.k. tvöfaldan innslátt hverrar frumtölu. Með hinni nýju vél dugði hins vegar að slá hverja frumtölu inn aðeins einu sinni; minnin tvö björguðu restinni. Mér fannst ég kominn í nýjan heim og reiknaði allt sem ég kom höndum yfir. Ricoh-reiknivélin varð mér brátt ómissandi hjálpartæki.
Ég hafði um þetta leiti verið settur til þess að kenna nemendum Framhaldsdeildar frumatriði tölfræði-greiningar. Nú voru þeir að komast á skrið með lokaverkefni sín, þ.e. hópurinn sem útskrifaðist vorið 1973. Í þeim verkefnum sumum reyndi töluvert á tölfræði. Eðlilegt þótti að veita þeim tilsögn á reiknivélina góðu og að veita þeim aðgang að henni þegar hún væri ekki í notkun Bútæknideildarmanna. Gekk það allt hnökralítið að ég best man ekki síst vegna þess að sumir nemendanna unnu það til að vaka um nætur til þess að geta nýtt sér hægindin. Minnist ég sérstaklega þeirra Jónatans Hermannssonar Tungnamanns frá Galtalæk og Hauks Júlíussonar Rauðsendings frá Móbergi í þeim efnum. Af langdregnum næturreikningum þeirra spunnust sögur sem síðar hafa orðið munnmæli og skemmtiefni á nemendamótum.
Ricoh-vélin dugði í þó nokkur ár, en var að hluta leyst af hólmi með „vasareiknivélum“ sem Bútæknideild keypti, þær mátti bókstaflega setja í vasa og þær gengu fyrir rafhlöðum. Mig minnir að sú fyrsta hafi komið á árinu 1974; alla vega var ég að vinna með slíka vél að láni frá Bútæknideild heima í Steinbæ þegar í útvarpinu komu fregnir um hið hrikalega snjóflóð á Neskaupstað og hörmulegar afleiðingar þess.
Steininn tók þó úr líklega í kringum 19789 er ég keypti fyrir eigin reikning CASIO fx-19 scientific calculator. Sú kostaði aðeins hluta úr mánaðarlaunum, en olli enn meira stökki í notkun heldur en Ricohvélin góða gerði. Í snarhasti mátti reikna ýmsar tölfræðistærðir á CASIO-vélina, sem fór vel í vasa og var drifin rafhlöðum. Varð hún dyggasti fylgifiskur minn í kennslu og á bændafundum um langt árabil en raftengda borðvélin Ricoh rykféll.
Það má svo botna þessa frásögn með því þegar Guðmundur skólastjóri Jónsson sá Ricoh-vélina í fyrsta skipti hjá okkur Bútæknikörlum og hafði fengið stutta en upphafna kynningu mína á fídúsum
Ricomac 1620R-reiknivélin frá 1971; hún hafði tvenn minni og þótti mikið þing. (Úr safni LbhÍ, Hve).
vélarinnar sagði hann bara: „Hva, enginn strimill?“ Hann var vanur að bera prentaðan strimil reiknivélarinnar saman við frumgögnin. Og þótt ég segði honum að álíka langan tíma tæki að slá tölurnar inn aftur eins og að fara yfir strimilinn þótti honum það fánýt skýring. Honum fannst sýnilega ekki mikið til hinnar nýju reiknivélar koma.
RISSAÐ Á SELLÓFAN Mig minnir að myndvarpinn (Over Head Projector – OHP) hafi haldið innreið sína í Hvanneyrarskóla á útmánuðum veturinn 1966. Daglangt þann 4. mars, skv. dagbók minni, sat ég alla vega við og teiknaði kennslumyndir án afláts á varpann fyrir meistara minn og brautryðjanda myndvarpatækninnar á Hvanneyri, Ólaf Guðmundsson, sem þá var að kynna hina nýju tækni. Rissaði ég allmargar slíkar myndir fyrir hann síðar þann vetur. Mér finnst það hafi verið fyrir áhrif bræðra hans, Sigurðar og Ásgeirs, sem báðir voru skólastjórar, að Óli ýtti á eftir að svona apparat yrði fengið til kennslu á Hvanneyri.
Við höfðum ekki einu sinni almennilegt nafn á verkfærið, kölluðum það bara prósjektor. . . Var hann ekki af gerðinni 3M? (og er líklega til enn). Ég teiknaði með tússi á sellófanskæni, stórar og smáar myndir, aðallega tengdar verkfærarfræðikennslu Ólafs. Það var hægt að bæta litum inná, leggja aðra mynd yfir og hvaðeina . . . Últramóderne, þótti manni, þó sellófanið væri bæði þunnt og vildi verpast í lampavarmanum; sérstöku glærurnar komu síðar . . . Toppurinn var þó á teikna á sellófanrúlluna, sem fylgdi græjunni og lögð var yfir birtuflöt hennar, mátti þannig gera myndasögu: Svo var bara að snúa sveif og ný mynd birtist á veggnum – Og það þurfti ekki einu sinni að myrkva gluggastórar kennslustofurnar á Hvanneyri!
Á þessum árum voru reglulega haldnir fundir í Hvanneyrar-akademíunni, en hana skipuðu kennarar, tilraunamenn, ráðsmaður og fleiri megandi staðarmenn og gestir eftir atvikum. Og þennan vetur, 9. mars 1966, var haldinn sérstakur kynningarfundur í akademíunni um notkun OHP-tækninnar. Hún var raunar hluti AV-byltingarinnar (Audio Visual Technology) sem brátt tók að breiðast út í skólum hérlendis. Ólafur kynnti hið nýja tæki, sem vakti töluverða athygli. Engin örtröð varð þó að notkun þess sem bera varð á milli kennslustofa því aðeins eitt slíkt var til við skólann í fyrstu.
Það var helst Ólafur sem tækninni beitti, enda mikil þörf myndskýringa í kennslugrein hans. Krítin dugði þeim eldri hins vegar enn um stund. Byltingin varð á árunum 197274 hvað Hvanneyri snerti; kennarar fengu nokkur námskeið í meðferð OHP-tækninnar og í kennslufræðum í sambandi við hana. Fleiri myndvarpar voru keyptir og settar voru sérstakar töflur í stærstu kennslustofurnar tvær sem hentuðu til glærusýninga. Þær urðu hluti af hinum nýja kennslubúnaði.
EITT GAMALT „EPÍSKÓP“ Frá fyrsta námsári mínu á Hvanneyri, 1961-62, þykist ég muna apparat sem örlítið var notað, einkum þó af Ólafi Guðmundssyni. Það var kallað episkóp. Það minnti töluvert á fallbyssu
að ytri gerð. Setja mátti bók eða mynd á plötu undir því og varpa myndinni upp á tjald. Myndin varð ósköp dauf nema því aðeins að herbergið væri myrkvað. Hve gamalt tækið var á skólanum veit ég ekki. Sennilega hefur það verið endurnýjað því á árunum í kringum 1970 var komið nýlegra tæki en sömu megingerðar. Líklega var það þá sáralítið ef nokkuð notað. Fór svo að það var lánað út í Heiðarskóla til Sigurðar, bróður Ólafs, er þar var skólastjóri. Þróunin hljóp frá tækinu og það dró úr notkun þess þar einnig. Ég vissi alltaf af því þar út frá og nauðaði í Birgi Karlssyni, góðum ungmennafélaga mínum, sem þar var þá orðinn skólastjóri, að skila því aftur heim að Hvanneyri, hvað hann gerði samviskusamlega. Tækið er nú uppi á lofti Bútæknihúss, að því er virðist í góðu standi. Það heitir Pentascope og er þýskrar gerðar, svo vart mun þá að spyrja að vöndun smíðinnar. Við leit á Netinu komst ég að því að episkóp-tæknin er mjög gömul, rekur rætur allt aftur á 18. öld.
Mér finnst ég muna eftir episkópi í nútímalegum kennslusal Landbruksteknisk Institutt við NLH, þar standandi á allháu borði á hjólum, en sá skóli var á mínum árum þar (19661971) ekki búinn flóknum kennslutækjum. Sáralítið var það notað enda voru ljósmyndavélar og skuggamyndir (dias) þá orðnar almannaeign, og um flest þægilegri en hinar gömlu „fallbyssur“. Myndvarparnir ruddu þeim svo endanlega úr vegi og vaxandi tækni til þess að útbúa myndefni fyrir þá. Með komu þeirra lauk hins vegar því tímaskeiði er nemendur og fyrirlestragestir gátu fengið sér sætan lúr í myrkvaðri stofunni og undir svæfandi suði sýningarvélarinnar. Myndvarpinn gegndi sínu hlutverki nefnilega með ágætum í fullri dagsbirtu.
TÖLVA TIL SÖGU Árið 1979 fagnaði Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára afmæli sínu. Þá var ýmislegt gert til hátíðarbrigða og mörkunar áfangans. Eitt af því var að starfsmenn gengust fyrir fjársöfnun til þess að kaupa tölvu. Það flokkast undir sjálfsdýrkun að nefna það að hugmyndin mun hafa verið runnin undan mínum rifjum. Nokkurt fé safnaðist, þótt ég muni nú ekki lengur hvernig það féll til eða hvernig, hluti þess var alla vega kominn frá starfsmönnum, og sjóðurinn varð nægur til þess að tölvan var keypt. Hún leit út eins og uppþvottavél með áföstum prentara og lyklaborði. Fáir kunnu með verkfærið að fara, en það varð fljótlega áhald Jóns Viðars Jónmundssonar, sem líka gerði sér lítið fyrir er frá leið og keypti fyrir eigin reikning skjá við tölvuna. Jók skjárinn stórlega þægindi við notkun hennar. Notkunartími þessarar tölvu varð ekki langur því stutt var í það að einmenningstölvur (PC) héldu innreið sína í skólann. Gísli Sverrisson var auk Jóns Viðars hvað helsti forgöngumaðurinn á því sviði . . . Einn millileikur í tölvusögu staðarins var koma Burroughs borðreiknivélar; mér finnst hún hafa verið nokkru fyrr á ferðinni en afmælistölvan 1979. Burroughs-vélin var þeirrar náttúru að hana mátti forrita til einfaldari verka og geyma síðan forritið á segulspjaldi í greiðslukortastærð. Kom vélin sér einkar vel við ýmsa runureikninga til dæmis á efnarannsóknastofu skólans.
Upp úr 1990 tóku einmenningstölvurnar að ryðja sér til rúms á skrifstofum starfsmanna og hjá nemendum skólans. Tekin var upp kennsla í meðferð hinnar nýju tækni. Einhvern veginn held ég nú samt að jafningjafræðsla hafi verið hvað drýgsta menntunarleiðin á því
sviði innan skólans – hver kenndi öðrum. Sjálfur eignaðist ég tölvu árið 1988, Macintosh SE, kostaði þá á kennaraverði liðlega 130 þús. kr. með prentara. Þá notuðu nær allir PCtölvur, en mér þótti Macintosh hæfa betur áráttu minni að skrifa ekki bara texta heldur geta ögn leikið mér með letur og uppsetningu. Kostaði það að sönnu nokkrar stympingar á milli manna með mismunandi tölvugerðir en tíminn leysti úr þeim. Við Björn Þorsteinsson, sem kom til skólans árið 1990, vorum Macintosh-menn og því í stórum minnihluta gagnvart PCmönnum.
Hér má skjóta því inn áður en hefst næsti kafli að á árunum 1992-93, að mig minnir, var keyptur búnaður við tölvu og myndvarpa er þótti boða enn nýja tíð. Eins konar skjár/gluggi, er hét Syett Datashow 480, var tengdur við tölvu og hann lagður ofan á myndvarpa. Með því að vinna á tölvuna, t.d. Excel-reikinga, mátti færa þá yfir á gluggann sem myndvarpinn endursendi síðan upp á tjald. Daufar voru að vísu tölurnar en með því að skyggja rýmið og rína í myndina mátti njóta þess að sjá dæmið reiknast áfram á tölvunni. Gísli Sverrisson varð aðalkunnáttumaður á þennan búnað og sá sem helst notaði hann. Notkunartíminn var skammur enda stutt í næstu byltingu. Tækið er þó til enn.
. . . OG SVO KOM KRAFT PUNKTUR (PPT) Það var svo árið 1997 í tilefni 50 ára afmælis búfræðikennslu á háskólastigi að tölvan hélt fyrir alvöru innreið sína í kennslustundir á Hvanneyri. Velvildarstofnanir skólans, ýmis þjónustufyrirtæki landbúnaðarins, lögðu af myndarskap fram fjármuni til þess að búa kennslustofur nýjum og góðum tækjum til kennslu. Keyptur var fjarfundabúnaður, vígður á afmælishátíð Framhaldsdeildar síðsumars 1997 með ávarpi rektors danska Landbúnaðarháskólans, sem sent var þaðan til afmælissamkomunnar.
Og í hinar þá nær níræðu kennslustofur Gamla skólans voru settar tölvur með tilheyrandi skjávörpum en einnig eins konar nútímavæddri gerð episkóps. Notkun tækisins varð þó lítil og tók brátt enda því í þennan mund var forritið PowerPoint að ryðja sér til rúms. Var nú hægt að útbúa í tölvu allt efni sem nota þurfti með fyrirlestrum svo sem texta, bæði lengri og skemmri, sem og myndir af öllum gerðum. Framan af þurftu nemendur áfram að skrifa niður helstu atriði fyrirlestranna en brátt var tekið að afhenda þá ljósritaða, þ.e. „afhendin“ með helstu efnispunktum.
Ekki leið þó á löngu áður en nemendur tóku að koma með fartölvur sínar í kennslustundir. Í gegnum þær fengu þeir aðgang að öllu efni kennarans, að ekki sé nú gleymt aðgengi að Netinu og öllum leyndardómum þess. Með komu þessarar tækni varð kennslan skipulegri á flestan máta og auðveldaði kennaranum vinnu sína. En hræddur er ég um að hún hafi fremur en hitt ýtt undir það að nemendur lærðu aðeins efni glæranna en létu lestur tilvísaðra heimilda oftast sitja á hakanum.
Í kjölfar tölvu-skjávarpakennslunnar og æ betri tölvutenginga kom fjarkennsla/fjarnám til sögunnar. Gerðist það með fyrsta tug 21. aldarinnar m.a. með þjónustu tölvufyrirtækisins
Nepal/Bjarka Más Karlssonar (sem ég held að segja megi að kviknað hafi undir þaki Bændaskólans laust fyrir aldamótin). Nýbreytnin mæltist vel fyrir þótt við ýmsa byrjunarörðugleika væri að etja. Hún var svar við kalli og möguleikum tímanna, m.a. til fjarnáms, en ósköp var ég feginn að hafa horfið frá kennaraborðinu áður en verulega reyndi á nýja verkhætti við kennsluna.
KRÍT GEYMD TIL ÖRYGGIS Þannig hefur tæknin velzt fram og steypt stömpum í áranna rás. Spannar þó þessi saga mín ekki nema liðlega hálfa öld. Hverjum áfanga hefur verið tekið af hrifningu og verklag hefur við hann breyst, alltaf til bóta í helstu atriðum. Þótt dýr hafi tæknin jafnan verið í upphafi hefur verðið hríðfallið, jafnframt því sem möguleikar og afkastageta tækninnar hefur vaxið að mun. Tveggja minna reiknivélin sem fékkst fyrir tvenn mánaðarlaun mín haustið 1971 verður til dæmis broslega lítil í samanburði við tölvu sem í dag mundi kosta tvenn mánaðarlaun! Eiginlega er ekki hægt að bera þær saman enda er á milli þeirra heil eilífð.
Og þegar ég horfi til baka eru þau margs konar tækin sem áttu að leysa vanda heimsins – kennarans og rannsóknamannsins – en lutu hinum þunga straumi tíma og tækniframfara, hurfu í hringiðuna. Þannig mun einnig fara um þau sem í dag móta starfsumhverfi arftaka minnar kynslóðar . . .
Ég geymi krítarmola og blýantsstubb til öryggis.