6 minute read

Við minningamark á Mylluhóli

Gunnar Bjarnason

Hver haldiði, strákar, að fari með elskuna sína út í votheysgryfju? e. G.Bj.

Advertisement

Komið með mér 77 ár aftur í tímann – til haustsins 1935. Kannski sjáum við héðan af Mylluhólnum til skólapilta, sem tínast heim að Hvanneyri. Halldór skólastjóri, glaðbeittur og fyrirmannlegur en ögn farinn að reskjast tekur á móti þeim, einum af öðrum. Einn piltanna er kominn norðan af Húsavík. Hann ætlar að taka námið á einum vetri af því hann var búinn að vera í skóla hjá skáldprestinum sr. Friðrik A. Friðrikssyni. Ég gef mér það, að pilturinn hafi ekki farið með veggjum, heldur talað hátt og hlegið enn hærra, ódeigur og vanur að bjarga sér í stórum og brasthörðum systkinahópi þar í húsi athafnahjónanna, Bjarna og Þórdísar – búinn að þroskast hjá Hallgrími á Halldórsstöðum í Laxárdal, og læra það, að Þingeyingar væru fæddir til þess að leiða þessa þjóð.

Okkar maður stundaði nám og félagslíf hér úti í Gamla skólanum, sem við nú köllum svo; hvort hann náði einhverjum frama í leikfimihúsinu hér vestan við veit ég ekki; efast eiginlega um það, en á skemmtunum þar tvíla ég að hann hafi þó setið kyrr. Honum sóttist vel námið, en sinnti fleiru. Sjarmör með gott auga fyrir kvenfólki. Bráðfalleg dóttir skólastjórans fangaði hug hans, og hana nam hann á brott úr skólastjórahúsinu að námi loknu. . .

Við rekumst næst á okkar mann úti í Kaupmannhöfn, hann les þar búfræði hjá Møllgård og Clausen, og Jepsen, eða hvað þeir nú hétu. Fór ekki í launkofa með, að hann væri af töluvert eldra konungakyni en kverkmæltir Danir á tréskóm. Slapp heim til Íslands fyrir hildarleikinn stóra, og var áður en varði orðinn ráðunautur þessarar nýlendu Danakonungs í hrossarækt: Kannski ekki spennandi hlutskipti fyrir ungan búvísindamann, því bændur voru óðum að leysa sín hross undan aktygjum og reiðingi – trúðu á traktorana og ógnarafl olíunnar, en ekki mó-merar eða mis lata vinnujálka. Kallaður til kennslu á Hvanneyri árið sem Ísland var lýðveldi: varð einn af kennara-kollegíinu, sem í ill-skiljanlegri bjartsýni hóf háskólakennslu á rúmlega 20 fermetrum hér úti í skólahúsinu haustið 1947. Ekkert gefið eftir og nemendur dregnir sofandi ofan af heimavist ef þeir ekki hundskuðust á réttum tíma til fyrirlestra . . . Hér er nú orðinn alvöru-háskóli og nemendur sofa eins og þá lystir.

Nemendur Bændaskólans kunnu margir að meta það hversu fús ungi kennarinn var til rökræðna, tímarnir fóru stundum út um víðan völl, svo margir vissu stundum ekki hvar í dauðanum þeir voru staddir, öðrum líkaði þetta stórvel: Augnablikið var aðalatriðið, ekki pensúmið eða einhver smáatriði úr fóðurfræði, búfjárrækt eða búnaðarsögu. Og í þéttu samspili við áhugasama nemendur hóf hann tamninga- og reiðkennslu hér við

Tilraun með flórristar Gunnar Bjarnasonar í Hvanneyrarfjósi á sjötta áratugnum. Gunnar t.v., þá Pétur Gunnarsson fóðurfræðingur og Ólafur E. Stefánsson ráðunautur (ljósm. Ólafur Guðmundsson). skólann. Alger nýlunda. Umburðarlyndur skólastjórinn lét það eftir starfsmanni sínum, þótt þorra manna þætti þetta nú hið mesta fánýti, hrossin væru liðin tíð. Við sjáum úlpuklædda menn bisa við fola sína hérna á hlaðinu norðan við og austan af ísilögðu Vatnshamravatni heyrist hófadynur. Okkar maður er þar með nemendum sínum, þykir að vísu heldur slakur reiðmaður, en það er samt eitthvað sem gerist . . . og áður en varir er farið að efna til keppni í þessum hestakúnstum. Að vísu fylgja þessu hestastússi heilmikil óformlegheit, sumir kölluðu það drykkju og djöfulgang. En hvað gerist? Hægt og sígandi verða til menn sem sjá, að okkar maður hefur lög að mæla: íslenski hesturinn hefur ekki runnið sitt skeið – hans bíða ný hlutverk . . .

Okkar maður er kannski ekki sá allra praktískasti í veröldinni: Hugur hans svífur oft fjöllunum hærra. Skagfirskur iðnaðarmaður, staddur hér hjá dóttur sinni, hjálpar honum til dæmis við að koma íbúðarhúsinu á Álfhól undir þak, þegar haustið virtist ætla að bera hinn unga húsbyggjanda ofurliði.

Kannski var hann þá að hugsa út flórristarnar, sem síðan var gerð tilraun með hér í Hvanneyrarfjósinu: að láta þyngdaraflið um það sem þúsundir manna höfðu sér til leiðinda verið bundnir við í hundruð ára: að moka kúaskít. Kokmæltir Danir töldu sig síðar hafa fundið þetta upp en okkar maður í samvinnu við Guðmund ráðsa og Halla smið höfðu komið þessu á koppinn löngu fyrr. . . Og héðan af stað tóku að streyma menn sem leiddu íslenska hestinn fram á völlinn að nýju, innblásnir af ræðum okkar manns, . . . þeir gerðust postular hans, Þorkell, Einar Eylert, Bogga, Reynir, Gunna í Koti, Siggi Sæm., Ragnar, Trausti, Benni, og hver þau nú annars eru . . . Og þarna í Álfhólnum tók okkar maður að skrifa greinar og bréf, og hringja út og suður til þess að vinna íslenska hestinum álits, stofnaði félög og alþjóðasamtök, einhver kallaði það maníu, en áður en varði hafði hann hrundið af stað stórri áhugabylgju, m.a. með þýskum glæsikvinnum. Okkar maður orðaði það þannig, að ekkert væri tilkomumeira en þegar frísandi og vöðvastæltur, sumargljándi íslenskur fákur af guðakyni með gneista úr augum og flenntar nasir lyti mildu oki fagurrar konu. Og Þýðverjar meðal annarra sáu skyndilega fegurðina í því sem þeir áður höfðu álitið vera syfjuð og sljó vinnudýr hvunndagsins. Búnaðarfélagsmenn töldu þetta að vísu fyrir utan erindisbréf okkar manns, þrösuðu smá, en létu þetta annars óátalið.

Svo vildi okkar maður meiri frama, sem von var. Fékk staðarforráð á Hólum í Hjaltadal, en þá gerðist það, að tímarnir og okkar maður áttu ekki samleið. Líkaböng hringdi, ekki bara á Hólum, heldur víða um kerfið.

Næst hittum við okkar mann bókstaflega af baki dottinn með trosnaðan písk og slitna gjörð úti í Kaupmannahöfn. Honum verður þó ekki meira um útreiðina en svo, að hann nemur nýja tíma í landbúnaði og fóðurfræði sérstaklega – fyllist enn þrótti, og heldur heim eins og forfeður hans á þjóðveldisöld úr vel lukkaðri útlegð, með stóran feng í sínum mal. Tók að boða nýja tíma – tíma „rasjonaliseringar“ eins og hann kallaði þá, tíma skynvæðingar. Sumir urðu þá sannfærðir um að okkar maður væri endanlega genginn í bland við tröllin. Í vesturhorninu á skólastjórahúsinu sat hins vegar enn hinn umburðarlyndi skólastjóri, Guðmundur Jónsson, sem aftur tók á móti okkar manni.

Úti í skólahúsinu tekur hinn endurreisti vígamaður enn til þar sem frá var horfið: hneykslar suma nemendur, hrífur aðra. Ekki bara unga menn úr Flóanum, heldur flesta þá, sem síðar stóðu fyrir því að hrossarækt og hestamennska breyttust úr fokki í fag – fag, sem í dag er viðurkennt sem eitt af styrkustu stoðum íslenskrar þjóðmenningar: fag, sem Landbúnaðarháskóli Íslands er líka í forystu fyrir, með vaxandi hópi af ungu fólki.

En yfir í Álfhól heyrum við ritvélina tifa seint og snemma þar sem okkar maður er m.a. að banka saman stórt ritverk um búfjárrækt: Nú er ekkert sirka og hérumbil eða hugarflug í þrjátíu þúsund fetum: Það er að verða til kennslubók, eitt merkasta búfræðirit 20. aldar: Hvanneyrarskóli brást ekki, og norðlenskir höfðingjar gáfu verkið út, Prentverk Odds Björnssonar á Akureyri. Því verr sögðu ýmsir aðrir humm og kannski, jafnvel nei. . .

Jæja, ég skal stytta mál mitt: Hérna undir Kirkjuhólnum er verið að hlaða vegg. Steinarnir eru misjafnir að lögun, sumir reglulegir, aðrir kantaðir og hrufóttir, svo vandséð er að þeir passi í nokkra hleðslu. En sé þeim raðað rétt saman falla þeir og mynda fallegan vegg. Þannig var okkar maður, Gunnar Bjarnason: hrufóttur og með óvænta kanta oft og tíðum. En inn í þetta umhverfi féll hann, og nágrannasteinarnir féllu að honum. Hér á Hvanneyri og héðan vann hann flest sín merkustu verk: Hann reyndi á umhverfið og umhverfið reyndi á hann: Það agaði hann bæði og veitti honum kjör til þess að fylgja eftir lífsskoðunum sínum og hugmyndum.124

Búfjárfræði Gunnars Bjarnasonar; eitt stærsta og athyglisverðasta búfræðirit sem út var gefið á Íslandi á tuttugustu öld.

124 Pistill fluttur við afhjúpun minningamarks um Gunnar Bjarnason á Hvanneyri 22. júní 2012.

This article is from: