42 minute read

við lesum eins og flóðhestar í flagi“

hnýzt í dagbækur Magnúsar Óskarssonar

Ég sit yfir syrpu af dagbókum Magnúsar Óskarssonar, lengst af kennara og tilraunastjóra á Hvanneyri, frá því aldursskeiði hans þegar menn eru að mótast – eru horfnir af unglingsaldri, hafa valið sér leið, eru í óða önn að undirbúa starfsævina og stíga fyrstu skref hennar. Ég ætla að búa til dálitla einsögu, eins og sagnfæðingarnar kalla hana, úr knöppum dagbókarfærslum Magnúsar. Hann var athyglisverður maður og mörgum þeim, sem honum kynntust, hugstæður. Magnús fæddist árið 1927, Mýramaður var hann, en fluttist í Kópavog þar sem hann ólst upp við bústörf. Landbúnaður höfðaði til hans og vorið 1949 göngum við í veg hans þar sem hann hafði stundað bóklegt nám við Bændaskólann á Hvanneyri í einn vetur og komið var að verklegu námi við skólann:

Advertisement

AF VERKNÁMI Á HVANNEYRI 1949 Nemendum Bændaskólans bar að stunda verknám að vori og hausti eftir fyrri námsvetur sinn við skólann og færa dagbók. Sú námsskipan hafði haldist lengi en nú var farið að styttast í henni. Fyrsta dagbók Magnúsar í syrpunni er einmitt verknámsdagbókin. Hún varpar ljósi á námið og ýmsa verkhætti sem voru að hverfa, því tímarnir voru að breytast svo um munaði, ekki síst hvað snerti landbúnaðinn.

Verknáminu var skipt á tvö tímabil: 1. maí til 15. júní og 14. sept. til 13. okt., eða tæpar ellefu vikur. Samtals vann Magnús á því tímabili í 779 stundir – rúmlega 10 stundir á dag, alla daga verknámsins. Af dagbókinni má ráða að hóflegt skipulag hafi verið á náminu, að piltar hafi nánast verið í almennri vinnu á skólabúinu og gengið í þau störf sem efst voru á baugi eða kölluðu að á hverjum tíma. Af og til komu þó upp viðfangsefni sem sýnast hafa verið formleg kennsla. Getið er þeirra helstu:

Vélanámskeið: Þegar verknámið hófst, 1. maí, var allt á öðrum endanum á Hvanneyri, skrifaði Magnús: „Það var verið að gera öll húsin hrein og útbúa leikfimihúsið sem íbúð fyrir vélanámskeiðsmenn125, en um kvöldið komu nokkrir þeirra og voru þeir ´tolleraðir´“. Skólapiltar munu einnig hafa fengið að taka þátt í námskeiðinu, en þau voru árlega á þessum árum. „Við vorum 16 sem látnir voru fara í vélanám. Fyrst vorum við hjá Hauk Jörundarsyni í eldri deild, og sagði hann okkur frá tilhögun námsins. Síðan vorum við látnir fara út í verkfærahús að rífa í sundur vélar. Við skoðuðum niður í „gírkassann“, stilltum legu, slípuðum „ventla“ o. fl. Þetta er mjög lærdómsríkt og greiðlega svarað spurningum nemenda.“

125 Vélanámskeiðin voru haldin nokkur vor á þessum árum, líklega allt frá 1945, einkum til þess að mæta ört vaxandi þörf fyrir starfsmenn á vinnuvélar búnaðar- og ræktunarsambandanna. Þau voru haldin að tilstuðlan Verkfæranefndar/ Vélanefndar ríkisins en á Hvanneyri í samvinnu við Bændaskólann. Nokkrir nemendur skólans tóku gjarnan þátt í námskeiðunum hvert vor.

Magnús Óskarsson í knattspyrnuliði Hvanneyringa um 1950. Kartöfluspírun: Verkefnið var „. . . að koma fyrir kössum með hálf spíruðum kartöflum og stráðu þeir mold ofan á suma kassana. Ég hefi aldrei séð þetta gert og veit ekki til hvers það er gert, og það vissu hinir strákarnir ekki heldur.“

Hallamælingar lands: Verkinu, sem Gunnar Bjarnason kenndi, lýsti Magnús samviskusamlega.

Fjósaverkin: Fjórðungur verknámstíma Magnúsar fór til ýmissa fjósverka. „Ég hjálpa Guðmundi [mun vera Guðmundur Þorsteinsson frá Efri-Hrepp] til að gefa kálfunum, er það skemmtilegt starf.“ Þarna var Stefán Jónsson kennari að gera tilraun „með kálfauppeldi, það er á hvern hátt sé ódýrast að ala upp kálfa.“

Dráttarvélarnar: „Við héldum áfram að setja ´John Deere´saman. Gekk það heldur seinlega vegna þess að allar skrúfur voru ryðgaðar . . . ´John Deere´er tveggja [cylindra], með vökvalyftu að aftan. Það heyrist hátt í honum, og hann er heldur klunnalegur í útliti. Hér var sýnd í dag [19. maí] Ferguson dráttarvél með tilheyrandi útbúnaði. Þetta virðast mjög þægilegar vélar fyrir minni búskap.“

Sæðingar: „Við áttum að halda kú undir Brand en það tókst ekki svo að fjósameistarinn ákvað að láta tæknifrjóvga kúna. Ólafur Stefánsson [Ólafur E. Stefánsson ráðunautur] gerði það kl. 3, og var ég viðstaddur, er það í fyrsta skipti sem ég hefi séð það gert.“

Skurðahreinsun: „Síðan fórum við upp á tún á Case og Farmal W4 en með þeim er hreinsað upp úr skurðunum, á þann hátt að þeir eru látnir aka sitt hvoru megin við skurðinn með sama hraða en á eftir sér draga þeir í ca. 15 m löngum stálkapli herfi með 4 diskum, sem losar úr skurðbotninum. Ég var á Case en Tómas [Gíslason Vestur-Skaftfellingur] á Farmal W4, okkur gekk heldur illa að stilla vélarnar á sama hraðastig.“

Dreifing tilbúins áburðar: „Ég var í dag [27. maí] sendur tvívegis til Gunnars Bjarnasonar til að læra dreifingu tilbúins áburðar, í annað skiptið með höndum en hitt skipti með vél. Í báðum tilfellum dreifðum við sprengisaltpétri NH4NO3.“ Verkum var síðan lýst af kostgæfni.

Heybinding: Í byrjun júní var flokkur pilta sendur til þess að binda hey - „troða heyinu í balla“, upp að Rauðsgili og Kalmanstungu, og einnig að Breiðabólsstöðum.126

126 Vorið 1949 var mikið heyleysi og þurfti því að miðla heyi til illa staddra héraða. Lesaranum þykir sennilegt að þarna hafi verið um að ræða hey fyrir Hvanneyrarbúið því 25. maí skrifaði Magnús: „Það horfir all ískyggilega með heyin hér á Hvanneyri, það er eftir hálf súrheysgryfja og lítils háttar af þurrheyi, það er sparað við kýrnar eins og hægt er en heyin minka stöðugt. Ekki bætir ástandið að ærnar eru farnar að bera en það verður þrátt fyrir það að gefa þeim inni vegna kulda.“

Byggingarframkvæmdir: Vorið 1949 var verið að steypa næturhitunina svonefndu [varmaskiptistöðina er nýtti næturrafmagn frá nýreistri Andakílsárvirkjun til upphitunar vatns til kyndingar skólahúsanna – þá kölluð hitaveita], og að ljúka byggingu votheysgryfju, einnar eða fleiri, í fjóshlöðunni. Tóku nemendur sýnilega virkan þátt í þeim verkum.

Flóðgarðar: Ein rækilegasta verknámslýsing Magnúsar er af flóðgarðahleðslu er þeir námu 8. og 9. júní. Birti hann einnig í dagbók sinni málsetta þverskurðarteikningu af flóðgarði. „ … Til þess að hlaða flóðgarðinn rétt verður að strengja snúrur til að hlaða eftir, og hafa stikur til að merkja hæðina á . . . “

Verknámsferð: Hefðbundin verknámsferð, þriggja daga, var farin, um Suðurland og stofnanir heimsóttar, allt austur að Sámsstöðum og síðan til Reykjavíkur þar sem endað var að Keldum. Gist var á Laugarvatni og í Menntaskólaselinu.

Hausthluti verknámsins: Það leið við mörg hefðbundin haustverk, af beinni kennslu nefndi Magnús gerð opinna skurða, og lokræsa, en lokræsagerð lýsir hann nákvæmlega, allt unnið með handverkfærum. Þá virðist nokkur tími nemenda hafa farið í kynningu og athuganir á sláttuvélagreiðum hjá Guðmundi skólastjóra. Dagbókinni lýkur Magnús 13. október, og skrifar: „Ég hefi verið í allan dag að vinna við að setja þak á hestaréttina [syðraVerkfærahúsið – nú Kráin]. En það er verið að búa til hús fyrir verkfærin úr réttinni. Yfirsmiðurinn er úr Reykjavík og heitir Jósep. Við vorum í allan dag að setja upp silluna og steypa hana fasta, ég vann til 7½“. Vinnuhestarnir voru sem sagt að hverfa frá Hvanneyri – vinnuvélarnar að koma í þeirra stað.

Af upptalningunni má sjá að nýir tímar voru að ganga í garð. Ýmis verk, unnin með handverkfærum, voru að hverfa. Vélar og nýir verkhætti að taka við. Má því segja að Magnús hafi þarna staðið á mærum tveggja tíma. Tuttugu og þriggja ára gömlum búfræðingi var því spennandi kostur að ráðast til frekara búnaðarnáms og það gerði Magnús. Hann innritaðist í nýlega stofnaða Framhaldsdeild á Hvanneyri haustið 1951 og þar hittum við hann fyrir á ný skömmu eftir áramót 1953, nánar tiltekið 17. janúar.

ÚR FRAMHALDSDEILD TIL FRAMHALDSNÁMS Dagbók sína færði Magnús fyrir hvern dag, formlega og skipulega, en var ekki mjög margorður um einstaka viðburði daganna frekar en fyrr. Framhaldsnám sitt virðist hann hafa stundað af mikilli samviskusemi. Hann telur sig ekki sterkan námsmann, en sýnt er að hann hefur lesið mikið og raunar unnið mikið, „við lesum eins og flóðhestar í flagi“, skrifaði hann 23. maí 1953. Þegar að skemmtunum kemur, sem á skólanum voru all tíðar, meðal annars með meyjum Varmalandsskóla, lýsir Magnús þátttöku sinni í dansi en drykkja og viðlíka fyrirgangur er ekki að hans skapi, getur þess raunar alloft að hann hafi gengið til náða þegar aðrir héldu lengur til næturinnar.

Veturinn 1953 er tvennt námstengt glöggt í færslum Magnúsar: Fyrst það hve margir gestakennarar komu við sögu Framhaldsdeildarinnar, kennarar sem dvöldu við skólann nokkra daga í senn og fyrirlásu um efni sérgreina sinna. Verður ekki betur séð en að þarna hafi mætt hinir lærðustu menn, hver á sínu fagsviði landbúnaðar, sem þannig áttu hlut að því að mennta sem best verðandi íslenska búfræðikandídata. Nefna má t.d. Halldór Pálsson, Hjalta Gestsson, Ólaf Jónsson, Klemenz Kr. Kristjánsson, Stefán Björnsson, Geir Gígja, Þór Guðjónsson, Björn Bjarnarson, Gísla Kristjánsson o.fl. Búfjárræktarmennirnir kenndu jafnt bóklega sem verklega, og þá með búfjárdómum; meira að segja Gísli Kristjánsson, sem kenndi hænsnarækt, tók nemendur sína til þjálfunar í hænsnadómum.

Hitt atriðið er það að nemendum Framhaldsdeildar bar að læra tamningar. Í þeirri sögu Magnúsar virðist hann m.a. hafa komið að þjálfun dráttarklárs sem faðir hans hugðist síðan kaupa og nota. Svo er það Stjarna, sem mikið rými fær á síðum dagbókarinnar fram til vors, en það var tryppi fengið að láni frá Pétri Þorsteinssyni á Miðfossum, alvitlaust í byrjun, skrifaði Magnús, en róast síðan fyrir elju hans, sem stundaði Stjörnu daglega með kembingum og annarri önn. Virðist hann hafa náð að temja gripinn til nokkurs gagns og skilar hann Pétri Stjörnu um vorið, hafði þá þurft að draga undan henni því hófarnir voru „alltof þurrir … Ég uppgötvaði að hófarnir á Stjörnu eru illa sprungnir“, segir í dagbók. Tamninguna stundaði Magnús af eðlislægri samviskusemi en mun ekki hafa komið að hestamennsku eftir þetta námskeið.

Sunnudaginn 6. júní 1953 útskrifuðust þeir félagar sem búfræðikandídatar, er auk Magnúsar voru þeir Egill Jónsson, síðar ráðunautur og alþingismaður, og Ingi Garðar Sigurðsson, síðar ráðunautur og tilraunastjóri. Athöfnin hófst með þrírétta máltíð kl. 12 en kl. 2½ var brautskráningin. „Það lítur út fyrir að það séu að aukast atvinnumöguleikar búfræðikandidata. U.S.A. ætlar að styrkja dreifðar áburðartilraunir og fyrirlestrahald að einhverju leyti“, hafði Magnús skrifað nokkru fyrr. Sjálfur hélt hann strax að brautskráningu lokinni heim í

Magnús og félagi hans Einar Eylert Gíslason við tamningu dráttarklárs á Hvanneyri, líklega 1953. (ljósm. úr safni EEG).

Kópavog með föður sínum og bróður sem komu á bíl með “boddíi” téðan sunnudag.

Sýnilega var Magnús farinn að velta fyrir sér framhaldi er dró að lokum námsins á Hvanneyri. Í ljósi ævistarfs hans er athyglisvert að ein þeirra námsritgerða sem hann glímdi við þennan vetur fjallaði um sögu tilrauna á Íslandi. Og þann 4. apríl skrifaði Magnús: „Ég talaði við skólastjórann en hann er búinn að fá bréf frá Askov þar sem mér verður leyft að vera … frá miðjum okt.“ en á Askov var mjög þekkt tilraunastöð í jarðrækt á þessum árum. Þann 4. maí segir í dagbók: „Ég skrifaði Klemenz á Sámsstöðum í dag og sagði honum að ég gæti ekki farið til hans fyrir 1600 kr., en hann bauð mér það í bréfi, sem að hann skrifaði mér nýlega.“ Ljóst er því að Magnús hefur þá þegar verið farinn að velta fyrir sér jarðræktarrannsóknum sem viðfangsefni til framtíðar.

Sumarið 1953 var Magnús heima í Kópavogi. Hann lagði fjölskyldu sinni lið við búrekstur vegna Kópavogshælisins, þar sem faðir hans var bústjóri, og við smíði íbúðarhúss fjölskyldunnar auk þess að grípa í önnur verk, m.a. „að gera skipulagsuppdrátt að skrúðgarði í lóðina hans pabba.“ Hafa verður í huga anda og sið þeirrar tíðar þegar þessi orð dagbókarinnar 5.7. eru lesin: „Fávitarnir á hælinu hérna eru 30 og við það starfa 12 manns. Pabbi hefur einn fávitann stöðugt í vinnumennsku og heitir sá Leifur og ´gengur fyrir´ neftóbaki. Um daginn fékk hann ekki tóbak, varð hann þá reiður, svo reiður að það varð að setja á hann bönd.“

Magnús gerðist einnig verkstjóri unglingavinnuflokks hreppsins og vann að bryggjusmíði. Hann naut bæjarlífsins með bræðrum sínum og félögum, fór í bíó, á íþróttamót og sótti söfnin heim: Listasafn ríkisins, hreifst af „afar vel upp settri sýningu Þjóðminjasafnsins, en um Listasafn Einars Jónssonar skrifaði hann: „ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum, mér fannst vera töluvert of skrautleg! en einföldustu myndirnar voru góðar. Bezt fannst mér Útlaginn og Jónas Hallgrímsson.“

Undir haustið var utanferðin ráðin og 19. september skrifaði Magnús eftir kaupstaðarferð til Reykjavíkur:

En ég keypti töskur og vinnuföt fyrir ferðalagið. Ég fór líka í Fjárhagsráð að reyna að fá mér gjaldeyri. Ég skrifaði umsókn, en þeir vildu fá skilríki frá stofnuninni sem ég færi til, en þar sem ég hafði ekkert slíkt í höndum (nema þá á Hvanneyri) þá lofuðu þeir að taka gilt bréf frá Páli búnaðarmálastjóra . Ég fór til hans og fékk þar bréf sem sagt var í að ég þyrfti sem svaraði 500 ísl. kr. á mánuði til framfærslu. Þetta verður svo lagt fyrir fund hjá Fjárhagsráði í næstu viku og ég fæ þá svarið.

Pál Zóphoníasson búnaðarmálastjóra hafði Magnús heimsótt nokkru fyrr „til að vita hvort ég mætti eiga von á styrk til námsins. Hann gaf heldur góðar vonir um það, þegar þar að kæmi.“ (22.8.). Og undir septemberlokin skrapp Magnús niður að Marbakka „að fá mér vottorð um að ég sé skuldlaus við hreppinn,“ líklega vegna væntanlegrar utanfarar sinnar.

Og þriðjudaginn 29. september var Magnús kominn með í hendur farseðil með Gullfossi til Kaupmannahafnar, á II farrými er kostaði 824 kr. Daginn eftir kom Egill [Jónsson síðar á Seljavöllum], skólabróðir Magnúsar í heimsókn: „Hann er búinn að hafa öll ósköpin upp á jarðýtu í sumar. Nú kemur til mála að hann verði umferðarráðunautur hjá Búnaðarfélaginu eftir nýju Marshallplani.“ Hinn skólafélaginn, Ingi Garðar Sigurðsson, „er enn hjá Birni Bjarnarsyni og getur verið að hann verði fastráðinn þar hjá Búnaðarfélaginu.“ (8.10.)

SIGLT TIL DANMERKUR – ÁRIÐ Á ASKOV Þriðjudaginn 13. október hafði Magnús kvatt nágranna sína, vini og félaga, og ekki síst ömmusystur sína, Jóhönnu Magnúsdóttur sem varð „85 ára um daginn. Hún ráðlagði mér meðal annars að koma ekki heim með danska stelpu aftur til baka.“ Í tollskýlinu kvaddi hann foreldra sína og steig um borð í Gullfoss er lét síðdegis úr höfn:

Ég varð dálítið sjóveikur eftir að [skipið] kom út fyrir Reykjanes en gubbaði þó ekki en fór snemma í rúmið. Félagar mínir þrír, Einar, Jobbi og Stebbi voru að skemmta sér fram á nótt.

Líf og fjör var um borð í Gullfossi, dansað og hlaupið í skarðið uppi í sólskýli I farrýmis. Mikið fyllerí um borð, segir í dagbók, en landsýn góð í Skotlandi og Orkneyjum. Viðdvöl í Leith gaf Magnúsi og ferðafélögum hans, nokkrum strákum, einnig færi á að skoða Edinborg, sem ekki reyndist þeim aðlaðandi, „allt kolsvart af kolareyk og sér ekki neitt frá sér fyrir mistri…“ Gott var leiðið yfir Norðursjó en gutlandi er nálgaðist Skagen. „Ég var bara „askolli“ sjóveikur“, skrifaði Magnús.

Upp úr kl. 10 sunnudaginn 18. október 1953 lagðist Gullfoss svo að bryggju í Kaupmannahöfn, sem ekki heilsaði glaðlega – með þoku og rigningarsúld. Kunningjahópurinn tók inni á heldur lélegu en ódýru hóteli í Helgolandsgade og leit þegar á borgarlífið, fór m.a. á Røde Pipinellen, „drukkum þar bjór og dönsuðum og fórum heim kl. 1.“ Nýhöfnina litu þeir á daginn eftir, „fórum þaðan eiginlega strax aftur, en nóg var þar af vændiskonum og rónum…“

Nú, nú. Magnús dreif sig með lest til áfangastaðar síns þegar þann 20. október – til Askov, svo sem um hafði verið samið. Hann hóf strax þátttöku í fjölbreyttum verkum á tilraunastöðinni sem og búrekstri hennar. Þar voru stundaðar umfangsmiklar jarðræktartilraunir, meðal annars með áburð og afbrigði nytjajurta, fyrst og fremst rófur. Aðbúnaður Magnúsar var frumstæður, í

Gullfoss var helsti farkosturinn á milli Íslands, Bretlandseyja og Danmerkur um miðbik síðustu aldar, og með honum tók Magnús sér fari báðar leiðir vegna Danmerkurdvalar sinnar. Hér lætur Gullfoss úr erlendri höfn sumarið 1957. Ljósmynd Sigurhans Vignir. Ljósm.safn Reykjavíkur.

köldu herbergi uppi á lofti í gömlu húsi, ekki langt frá stalli kláranna, sem stundum héldu fyrir honum vöku með brölti sínu. Brátt fékk hann þó vistlegra herbergi. Ýmislegt kom honum nýtt fyrir sjónir svo sem nefna má dæmi um:

Það er bezt að lýsa mataræðinu hér á Askov en maturinn hér er afar góður. Á morgnana er étið haframjöl með sultutaui og sykri út á eða hafragrautur, svo er kaffi eða te og brauð með osti og jarðarberjasultu. Þetta er kl. 6.45-7. Síðan er byrjað að vinna og unnið til kl. 12, en þá er miðdegisverður. Hann er tvíréttaður, grautur eða súpa og svo eitthvað annað. Stundum er eintómt kálmeti og það líkar mér einna verst en svo er oftast annað hvort fiskur eða kjöt. Kvöldverður er kl. 6.15, þá kemur fyrst heitur réttur og svo ´smörrebrød´ og te, mjólk eða súrmjólk. Ofanálegg er aldrei minna en 4-8 tegundir. Stundum er svo kvöldkaffi. (29.10.)

Í kvöld voru öll áhöld tekin og allt burstað og þvegið, eins og gert er á hverju kvöldi. Skóflur eru sprautaðar og borin á þær olía á eftir. (24.10.)

…síðasti klukkutíminn fór í venjulega laugardagshreingerningu, meðal annars vorum við látnir sópa veginn hingað heim. Ég er viss um að ef einhver bóndi á Íslandi léti sópa svona að hann væri álitinn hættulegur umhverfinu og sendur á Klepp.

… eftir hádegið fór ég á námskeið sem að búnaðarfélögin halda fyrir unga menn frá 15-25 ára. Ráðunauturinn notar bæklinga, kvikmyndir og venjulegar skuggamyndir við kennsluna og svo gerði hann kalk-´regastion´ [svo] fyrir nemendur. Námskeið þetta á að standa í 12 laugardaga og vera 3 klst í hvert sinn. Á námskeiðinu talar hann aðeins um nytjaplönturnar og jarðvinnslu. Svona starfsemi þyrfti líka að vera heima. (5.12.)

Í kvöld fór ég á skemmtun hjá Stjörnuklúbbnum og gerðist meðlimur í honum, þetta er víst fyllerís og kvennafarsfélag, svoleiðis var ballið, en þarna spiluðu og skemmtu 5 sænskar stúlkur og voru þær fjörugar og gaman að þeim… (6.12.)

Eiginlega finnst mér Danirnir fara öllu verr með dýr en við heima, þeir hugsa fyrst og síðast um hvað borgar sig. (27.12.). … Annars finnst mér Danmörk allsstaðar vera eins, hæðir, búgarðar og skjólbelti. (18.4.)

Af dagbók Magnúsar má ráða að á Askov hafi hann tekið þátt í afar fjölbreyttu tilraunastarfi og kynnst vinnubrögðum við jarðræktartilraunir til nokkurs hlítar, vinnubrögðum sem virðast hafa verið í afar öguðu formi. Þá vann hann um stund á rannsóknastofu stöðvarinnar, meðal annars við þurrefnismælingar sem og mælingar á köfnunarefni (N) í gróðursýnum. Af nákvæmni skráði hann margt sem fyrir bar í tilraunastarfinu, ýmist með orðum eða einföldum teikningum af verkfærum og áhöldum. En svo var það við köfnunarefnis-mælingar á efnarannsóknastofunni sem Magnús varð fyrir all alvarlegu slysi: Mælikolba með natríumlút sprakk í höndum hans, „slæmir skurðir komu í hendina á mér og það skarst í sundur sinin að löngutöng og hálf sinin að baugfingri“. Kostaði það Magnús tíu daga dvöl á sjúkrahúsi og

uppskurð á hendinni um vorið 1954. Varð var hann af þessum sökum frá vinnu um nokkurra vikna skeið.

Magnús getur tveggja ferðalaga um Danmörku sumarið 1954. Annars vegar með Guðmundi skólastjóra og nemendum Framhaldsdeildarinnar, þ.e.a.s. hópsins sem myndaði næstu framhaldsdeild á eftir hópi Magnúsar, er í voru Sveinn Guðmundsson, Einar Eylert Gíslason, Kjartan Georgsson, Gísli Einarsson og Sigurmundur Guðbjörnsson. Stóð sú ferð dagana 29. júní til 7. júlí og voru merkir staðir heimsóttir, einkum landbúnaðarstofnanir. Var Magnús fararstjóri þeirra um Jótland. Hins vegar var það í vikuferð upp úr miðjum júlí sem Magnús heimsótti tilraunastöðvar á Jótlandi og einnig á Fjóni og kynnti sér verkefni þeirra og aðstöðu. Askov-menn höfðu skipulagt honum ferðina, sem sýnilega varð Magnúsi áhrifamikil. Færir hann margt í dagbók sína er þar bar fyrir augu.

Af lestri dagbókarinnar má glöggt greina að með dvölinni á Askov hefur Magnús orðið sér úti um mjög víðtæka og hagnýta þekkingu á og reynslu af jarðræktarrannsóknum á tilraunastöð sem hafði af miklu að miðla. Jafnframt virðist hann hafa tekið virkan þátt í lífi og starfi þar í byggðinni með lýðháskólann víðkunna í næstu grennd.

NUMIÐ OG LIFAÐ Í KAUPMANNAHÖFN Í ágústlok 1954 hélt Magnús til Kaupmannahafnar og innritaðist til náms í Landbúnaðarháskólann þar (KVL) sem óreglulegur nemandi. Hann tók á leigu herbergi á 5. hæð í húsi nr. 74 við Nørrebrogade, en hafði fæði á Kannibalen, hinu þekkta mötuneyti stúdenta. Iðulega naut hann þó veitinga hjá leigusölum sínum, þótt honum félli miður vel við frúna þar, frú Hougaard, en látum það liggja á milli hluta. Hann var þó ekki alveg laus frá Askov því þangað var hann kallaður til uppskerustarfa við tilraunir um nokkurra daga skeið í öndverðum sepember þá um haustið.

Magnús virðist hafa gengið til fyrirlestra í ýmsum greinum við KVL. Áburðarfræðin var kjörgrein hans og uppáhald, en þar sat á tróni próf. Steenbjerg, sem hann hafði regluleg samskipti við. Hjá honum gekk Magnús upp til prófs 22. apríl 1955: „Ég fékk kölkun og uppskerulínurit, var bullandi „nervös“ , fékk líklega mg÷“. Virðist það hafa verið eina prófið sem Magnús tók við KVL. Hins vegar sótti hann kennslustundir í ýmsum öðrum greinum,

Myndina tók Magnús sennilega í Jótlandsferð Framhaldsdeildunganna; hún er af þremur Danmerkurförum, f.v. Sigurmundi, Sveini og Gísla. Þarna eru þeir líklega nálægt Himmelbjerget megi marka gerð göngustafanna. Skv. dagbók Magnúsar mun hann snemma hafa eignast myndavél og notað mikið og skipulega.

bæði fyrirlestra og verklega tíma, svo sem í efnafræði, plöntulífeðlisfræði, grasafræði, tilraunafræði og jafnvel fóðurfræði. Meðal annars náði hann að kynnast próf. Møllgaard, fóðurfræðingnum sem leiðandi var í greininni um þær mundir, skemmtilegum fyrirlesara en afar harðneskjulegum við nemendur sína. Ekki virðist Magnús hafa kynnst mörgum dönskum samnemendum sínum, en fór þó stuttar námsferðir með þeim. Þeim mun meiri samskipti hafði hann við landa sína í Landbúnaðarháskólanum, Einar Þorsteinsson, síðar héraðsráðunaut, og Jóhannes Eiríksson, síðar nautgriparæktarráðunaut, sem og Jón Guðbrandsson verðandi dýralækni. Þorsteinn Þorsteinsson lífefnafræðingur frá Húsafelli, sem þá var við nám í Kaupmannahafnarháskóla, var einnig innarlega í „omgangskreds“ Magnúsar.

Magnús fylgdist sýnilega vel með í fræðastarfi utan háskólans því hann getur m.a. þátttöku sinnar í fagfundum jarðræktarmanna, „Planteavlsmødet“, veturinn 1955, bæði í Jótlands- og Sjálandsmótunum. Þar komu saman helstu kanónur á fræðasviðinu og kynntu rannsóknir sínar og aðrar nýjungar. Einnig á þeim fundum hafði Magnús „stillt á upptöku“ og gerir grein fyrir efnisatriðum og upplifunum sínum í dagbókinni góðu.

Fram kemur í dagbók að Magnús hefur sem fyrr verið iðinn við lesturinn. Helsta dægrastyttingin var að fara í bíó. Raunar undrar það dagbókarlesarann hve oft Magnús fór í bíó í Kaupmannahöfn, úti á Askov og einnig heima í Kópavogi. Hefur Magnús því áreiðanlega verið afar vel að sér um kvikmyndamenningu þessara tíma. Íslenska stúdentalífið í Kaupmannhöfn stundaði Magnús, en sýnilega af hófsemd, þótt oft hafi samkomurnar þar verið líflegar. Í ljósi þess að hann hefur verið einhleypur alla tíð virðist hann ekki hafa verið einangrunarsinni gagnvart kvenfólki á þessum árum; dansþátttöku sína nefnir hann iðulega og nafngreinir stúlkur sem á vegum hans urðu, auk krúsar af öli, þótt fáorður sé og hófsamur í allri frásögn sinni. Lýsir þó þungri drykkju á mörgum dönsku samkomanna og jafnvel slagsmálum.

Jólum 1954 varði Magnús í Kaupmannahöfn, rétt eins og Askov-jólum sínum árið áður. Hann naut tilbreytingar hjá leigusölum sínum, og Jóhannesi Eiríkssyni og fjölskyldu hans, sem fengið hafði hangikjöt sjóveg með Gullfossi. Varði öðrum degi jóla á Þjóðminjasafninu, skoðaði deildina um Indíána og Eskimóa: „Mér finnst Þjóðminjasafnið vera skemmtilegasta safn sem ég hefi séð á ævinni,“ skrifaði hann. Um áramótin skrapp Magnús hins vegar norður að Limafirði, hitti þar m.a. vin sinn Jens Hougård og átti góðar stundir með honum og nokkrum kunningjum sínum frá Askov.

Skömmu eftir nýárið 1955 bað UMFÍ Magnús að fara sem annan af tveimur fulltrúum Íslands á norrænt námskeið [í lýðháskólanum] á Önnestad yfir á Skáni í Svíþjóð, tveggja vikna námskeið á vegum 4H-hreyfingarinnar um starfsíþróttir, vinnufræði og verkstjórn. Þarna kynntist Magnús meðal annars dr. Birger Tvedt, norskum sérfræðingi í vinnuheilsufræði og skrifaði: „Dr Tvedt hefur afar einkennilegan máta að kenna á, hann rabbar við nemendur og gerir grín að þeim. Annars er það sem hann segir um líffærafræði afar merkilegt.“ Magnús

varð síðar brautryðjandi í vinnufræðikennslu hérlendis og vitnaði þá oft í fræði Tvedts, man lesarinn. Skömmu eftir heimkomuna hélt Magnús erindi um vinnutækni á þingi UMFÍ á Akureyri og síðan annað um sama efni í Búnaðarþætti Ríkisútvarpsins.

Það heyrir til sögunni um Svíþjóðarnámskeiðið að Magnús af alþekktri samviskusemi sinni kunni ekki við að stökkva frá fyrirlestrum án leyfis þó í háskóla væri, og 21. janúar færði hann til bókar:

Eftir tíma í áburðarfræði talaði ég við prófessor Steenbjerg um hvort ekki væri í lagi að ég færi til Svíþjóðar, sagði hann það vera. Hann var í bezta skapi og sagði að þegar ég yrði mikils ráðandi heima þá skyldi ég láta bjóða honum heim til að rannsaka fosfórsýruþörfina o.fl.127

Á dvalartíma Magnúsar með Dönum fór ekki mikið fyrir samskiptum hans við Ísland að því er segir í dagbók. Og þó. Hann getur bréfaskrifta, keypti dagblaðið Tímann og fékk hann í stórum sendingum, las Búnaðarblaðið Frey á bókasafni KVL, fór á blaðafundi í Stúdentafélaginu en sérstök og fágæt tilbreyting var það honum að heyra sendingar íslenska ríkisútvarpsins.

Í byrjun maí 1955 átti Guðmundur skólastjóri Jónsson leið um Kaupmannahöfn á ferð sinni til Þýzkalands og þann tíunda maí skráir Magnús: „Í kvöld fór ég að tala við Guðmund. Ég réði mig hjá honum í sumar við tilraunir og við að búa til grasafræðigarð.“ Stefnan var mörkuð. Eins og fara gerist hafði Magnús þó sýnilega verið að velta fleiri möguleikum fyrir sér því að í einu af samtölum sínum við próf. Steenbjerg fyrr um veturinn hafði prófessorinn lofað Magnúsi að hjálpa honum með vinnu í Englandi „ef að til kæmi og ég hefði ekki önnur úrræði.“ Liðlega mánuði síðar skrifaði hann: „Ég hefi þvælst mikið um í dag og skoðað húsgögn. Ég endaði með því að festa kaup á skrifborði, 2 djúpum stólum, sófaborði og sófa.“ Sýnilega hefur Magnús þá verið farinn að velta fyrir sér nokkurri staðfestu.

Maí-mánuður fór í síðustu námsgreinarnar, stutt skólaferðalag, auk þess sem Magnús skrapp út á Askov og hitti fólkið þar, m.a. Iversen tilraunastjóra (?): „Hann gerir heldur lítið úr uppskerulínuritum og efnarannsókn af jörð, sérlega kalítölunni. Hann ráðlagði mér að prufa afar stóra skammta af N, vegna þess að okkur vantar smára“, skráði Magnús í dagbók. Þarna skoðaði hann einnig ´lysemeter´sem verið var að byggja, en það er eiginlega jarðvegstankur sem gefur færi á mjög nákvæmum jarðvegsrannsóknum á vatns- og efnabúskap jarðvegs. Sem sagt að búa sig undir væntanlegt starf, auk þess sem hann brá sér dagsferð til Hróarskeldu með Einari skólabróður sínum Þorsteinssyni til að kaupa „tilraunatæki fyrir Hvanneyri fyrir tæpar 300,00 kr.“

127 Prófessor Steenbjerg kom til Íslands sumarið 1967 og að Hvanneyri. Hafði raunar áður komið til landsins laust fyrir 1940. Áreiðanlega hefur fosfórinn borið á góma Magnúsar og Steenbjergs, því þá hafði Magnús með rannsóknum sínum, byggðum á fyrstu tilraununum sem hann gerði, sýnt hve mýrarnar vestanlands halda fast á fosfór sínum og þarfnast því ríkulegs fosfór-áburðar.

Föstudagurinn 20. maí 1955 var síðasti skóladagurinn í KVL. Ýmsu þurfti að ljúka – fara á manntalsskrifstofuna, pósthúsið, skrifstofu háskólans, kveðja próf. Steenbjerg, sem hann fann þó ekki sjálfan, og drekka kveðjukaffi með leigusölum sínum á hæðinni undir. Árdegis, viku síðar steig Magnús svo um borð í Gulllfoss, og hafði þá með nokkurri fyrirhöfn komið öllu sínu góssi á skipsfjöl. Í blíðu veðri var Danmörk kvödd og Gullfoss tók samkvæmt áætlun sinni stefnu á Skotland. Þar var áð svo Magnúsi og ferðafélaga hans, Jens Hougård, sem áður kom við sögu, gafst kostur á að kíkja á Leith og Edinborg með næsta nágrenni, m.a. brugðu þeir sér stutta ferð upp í Hálöndin. Um borð var unað við spil og dans. Undir kvöld miðvikudaginn 1. júní reis Eyjafjallajökull úr hafi, „. . . sigldum síðan fyrir innan Vestmannaeyjar. Farþegar voru hrifnir af landsýn og ekki síst ég sjálfur.“ Árla morguns var komið til Reykjavíkur og urðu fagnaðarfundir. Magnús var kominn heim eftir nær 20 mánaða námsdvöl með Dönum.

AFTUR AÐ HVANNEYRI Magnús gekk þegar frá ýmsum málum vegna flutningsins og sunnudaginn 5. júní 1955 hélt hann ásamt Jens upp að Hvanneyri. Þar var þeim vísað til vistar á herbergi nr. 12 í Skólahúsinu. Daginn eftir skráir Magnús: „Ég byrjaði strax í morgun að vinna. Ég setti upp svolitla athugun eftir Björn Jóhannesson [jarðvegsfræðing] með kalk, 7,5 t pr ha og svo með skeljasandi 25 t pr ha. Jens var með mér í þessu.“ Og þar með var ævistarfið hafið. Magnús fékk þegar fulla hendur verkefna. Hann lagði út tilraunir, meðal annars með vöxt grasa í mismunandi jarðvegi sem komið var fyrir í jarðgryfjum og römmum [austan við kirkjugarðinn] og hóf að taka til í rannsóknastofunni á Fjósloftinu „en Stefán [Jónsson] hefur skilið heldur illa við þar.“ Tilraun með fosfóráburð (P2O5) var sett upp, sennilega í kjölfar brýningar próf. Steenbjerg. Magnús vann að vinnumælingum með Ólafi Guðmundssyni og lagði Atvinnudeildarmönnum Háskólans lið við tilraunir þeirra með votheysverkun: „Eftir

Eitt fyrsta verk Magnúsar var að athugun á vexti grasa í mismunandi jarðvegi, sem komið var fyrir í trérömmum (-reitum). Þarna hugar Magnús að tilraun sinni sem sett var fast austan við kirkjugarðinn á Hvanneyri (ljósm. úr safni MÓ).

hádegið byrjaði ég að moka út úr húsinu sem að tilraunagryfjurnar eru í. Stefán Jónsson hafði þar áður kindur“, skrifaði Magnús 21. september. Haraldur staðarsmiður Sigurjónsson hjálpaði honum með lagfæringar og nýsmíði á efnarannsóknastofunni; það kom svo í hlut Magnúsar að mála hana og þrífa. Nokkuð af tækjum og búnaði var þar þegar fyrir en Magnús nefnir ´photometer´ sem nýjan feng til stofunnar þetta sumar, og líklega einnig pH-mæli. Þá hóf hann að leggja drög að grasafræðigarðinum, girti um hann og færði í hann fyrstu plöntuna þann 8. ágúst: Baldursbrá. Annars varð sumarið afskaplega vætusamt og erfitt til búverka eins og víða kemur fram í dagbók Magnúsar, óþurrkasumarið 1955. Hann greip því líka í heyskapinn þegar mest lá við, og lagði Guðmundi ráðsmanni Jóhannessyni lið við tilraunir með súgþurrkun heys með upphituðu lofti.

2. september 1955 skráir Magnús: „Í dag réði ég mig við kennslu og fleira hér í vetur“ og um miðjan október hófst kennslan samkvæmt venju. „Ég á að kenna fram að jólum stærðfræði í eldri deild, grasafræði í yngri deild og lög í framhaldsdeild“, segir hann mánudaginn 17. október. Byrjunin varð brösótt því umgangspest hafði lagt Magnús að velli; varð hann því að sleppa fyrsta kennsludegi. Fallið reyndist hins vegar fararheill því daginn eftir segir: „Ég hefi haft mínar fyrstu kennslustundir í dag og get varla sagt annað en að þeim reiddi vel af. Ég er að minnsta kosti vel ánægður með byrjunina. Mér er samt hálf illa við stærðfræðina . . .“

Auk kennslunnar virðist Magnús hafa unnið töluvert á rannsóknastofunni, meðal annars við að aðstoða Örnólf kennara Örnólfsson við undirbúning efnafræðiæfinga þar. Efnarannsóknastofan var Magnúsi nærri, því nú hafði hann fengið húsnæði til íbúðar þar á Fjósloftinu. Þá hófst hann handa við verk sem átti eftir að verða stórt og merkilegt, því 16. nóvember skrifar hann: „Eftir hádegið byrjaði ég að vinna í Frey, að safna saman ritgerðum, ég er viss um að ég verð ekki hálfnaður með Frey um jól.“ Þetta verk dugði Magnúsi og síðar öðrum starfsmönnum skólans næstu tólf árin; kom út 1967, mikið rit og vóg ein fjögur kíló [Ritgerðatal].

Utan vinnu tók Magnús virkan þátt í félagslífi bæði í Bændaskólanum, þar sem hann einnig sá um bókasafnið gagnvart nemendum, spilaði bridge með félögum sínum á Hvanneyri og sótti skemmtanir í sveitinni. Undir þessari málsgrein má skjóta að orðum frá laugardeginum 30. júlí 1955: „Og þau tíðindi gerðust að ekkert ball er í öllum Borgarfirði, merk nýung.“

Kyrrt var að mestu til jóla og áramóta og hátíðunum fagnaði Magnús með fjölskyldu sinni í Kópavogi. Hún var þá flutt í nýbyggt hús sitt; „. . . er það óskaplegur munur“, skrifar Magnús. Einhvern daginn eftir áramótin hélt svo Guðmundur skólastjóri „blaðamannafund á Hótel Borg og sagði frá ýmsu á Hvanneyri“, segir í dagbók. Reykjavíkurblöðin gerðu fundinum góð skil [sjá mynd].

„Ég fór upp að Hvanneyri 8 janúar [1956]. Daginn eftir var próf og um kvöldið fóru nemendur niður á Akranes og fór ég með þeim. Það var hvasst og skafrenningur svo erfitt var að fara niður á Akranes. En þegar við snérum til að halda til baka komumst við ekki heim og urðum að fara niður á Akranes og fá gistingu á hótelinu þar. Þetta gekk vel fyrir sig og fengu flestir sæmilegan svefnfrið en urðu þó að liggja á gólfinu flestir. Næsta morgun komumst við með mestu prýði heim.“ Þar eð 9. janúar bar þá upp á mánudag er líklegt að þarna hafi nemendur skólans verið kallaðir til upp- eða útskipunarstarfa á Akranesi, eins og iðulega gerðist á þeim árum, þegar mikinn mannafla þurfti til afmarkaðra verka, bæði þar og í Borgarnesi.

Eftir áramótin þyngdi á með kennslu hjá Magnúsi því nú var kollegi hans, Haukur Jörundarson, farinn í námsleyfi til USA. Á Magnús bættist kennsla í tilraunafræði, teikningu og síðan vinnutækni í eldri deild, ein kennslustund á viku, en sú grein var þá nýung í búfræðináminu og sennilega í framhalds- og iðnskólum hérlendis yfirleitt. „Ég hefi fyrsta tímann alla daga í framhaldsdeild“ skrifaði Magnús, en alls virðist hann hafa kennt 16 tíma á viku, auk verklegra æfingatíma, á seinni helmingi þessa fyrsta kennsluvetrar síns, 1956.

Er leið á janúar-mánuð urðu dagbókarfærslurnar strjálari, Magnús dregur gjarnan saman viku tíma í skrifum sínum, sennilega hafa annirnar verið orðnar nokkrar og tilbreytingin að sama skapi minni enda segir hann í síðustu færslunni, sem er fyrir sunnudaginn 29. jan. til laugardagsins 4. febr.: „Kennslan gekk sinn vana gang, og er ekkert sérstakt um það að segja.“ Dagbókinni lýkur hins vegar þannig: „Á laugardaginn fór ég á þorrablót, var ég með dömu, Ídu Sigurðard. Það er óhætt að segja að skemmtunin fór vel fram.“128

FYRSTU STARFSÁRIN – STÖRFIN MÓTAST Þótt Magnús Óskarsson legði dagbókarfærslur um eigin hag til hliðar í febrúar 1956 tók hann hins vegar til við að færa dagbók fyrir jarðræktartilraunirnar á Hvanneyri. Sú bók hefur einnig varðveizt og nær yfir tímabilið 25. apríl 1956 til 7. maí 1960, á köflum samfelld en með löngum hléum, einkum utan sumartímans svo sem vænta mátti. Lesarinn stöðvaðist

128 Ída var Sigurðardóttir, Gíslasonar, áður bónda á Hamraendum í Stafholtstungum. Ída mun þá hafa verið starfsstúlka á Hvanneyri. Hún giftist árið 1959 Jóni Þ. Björnssyni, kennara og skólastjóra, lengst af í Borgarnesi, látin 2019.

við nokkra þætti sem greiða má út úr dagbókarfærslum Magnúsar sem flestar eru stuttar og nánast í skeytastíl.

Vorið 1956 var hafist handa við að brjóta nýræktarland og undirbúa sem sérstaklega var ætlað til tilrauna. Magnúsi til aðstoðar voru ýmsir, einkum úr hópi nemenda og starfsmanna Hvanneyrarbúsins. Ýmsar tilraunir voru „lagðar út“, mest tilraunir með mismunandi áburðarskammta. Þarna eru að mótast nöfn tilraunaspildnanna, A-land, B-land og C-land; nöfnin minna á svipað kerfi sem Magnús nefndi í dagbókum sínum frá Askov. Tilraunir með afbrigði byggs, kartaflna, sáðskipti, svo og fóðurkál komu á dagskrá sem og hör (lín) en þær munu hafa verið verkefni Steinþórs Runólfssonar nemanda í Framhaldsdeild.

Flestar voru tilraunirnar gerðar úti á nýræktum Hvanneyrartúns. Vorið 1960 fékk Bændaskólinn Mitcherlichræktunarpottatil nákvæmnisrannsókna á efnahag nytjajurta, potta sem settir voru niður í skólagarðinum. Þá komu til dreifðar tilraunir – tilraunir á bæjum í héraði. Á dagskrá voru einnig tilraunir með ýmis eyðingarlyf sem á boðstólum voru á þessum árum, t.d. gagnvart illgresi og kartöflumyglu. Magnús umgekkst þau þá þegar af mikilli varúð en varð síðan fráhverfur þeim með öllu.129

Vorið 1957 var mælt fyrir skjólbeltunum, og 14. júní skrifaði Magnús: „Einnig var gróðursett í skjólbeltin, kom maður frá skógræktinni til að stjórna því verki (Guðmundur Jónsson [garðyrkjumaður á Akranesi ? – Guðmundur-Garða]).“ Með sínu fólki var það síðan hlutverk Magnúsar að bæta plöntum í skörðin sem urðu til vegna vetrarkals næstu árin.

Magnús átti þátt í að koma upp steyptum tilraunagryfjum fyrir vothey og lagði jafnan Atvinnudeildarmönnum lið við verkun heys í þeim. Gryfjurnar voru í skála undir klettinum norðan við Fjóshlöðuna.

Svo kom að því að Magnúsi gáfust aðstoðarmenn við tilraunastörfin um lengri eða skemmri tíma sumars, bæði til útiverka sem og til vinnu á rannsóknastofunni. Hvað fyrstur var þar Magnús Ellertsson búfræðikandídat, „sem mun hjálpa mér í tilraununum í sumar“ skrifaði Magnús

Tilraunasláttur á nýræktum við Bárustaðavatn á Hvanneyri sumarið 1964. Myndina tók Ólafur Guðmundsson.

129 Sagan segir að gestir hafi verið á Hvanneyri þar sem Magnús kom utan af tilraunalöndum með illgresisdælu sína, klæddur varnarbúning gagnvart eyðingarefnunum, í stóru rauðbotna tilraunastjórastígvélunum, í miklum hlífðarklæðnaði og með veglega grímu auk stórrar húfu. Gestir munu hafa undrast búnað mannsins. Nálægur heimakúskur á þá að hafa hughreyst þá með orðunum. „Iss, hann er ekkert hættulegur þessi, hann er bara svona.“

vorið 1958, en einnig þær Hildur Guðmundsdóttir og Hanna Frímannsdóttir. Vorið 1959 kom nýr og vandaður þurrkskápur á rannsóknastofuna, sem auðveldaði þurrefnismælingar á sýnum sem urðu æ fleiri eftir því sem tilrunastarfseminni óx fiskur um hrygg.

Allvíða getur Magnús samstarfs við Ólaf Guðmundsson framkvæmdastjóra Verkfæranefndar og 4. júlí 1958 segir: „Eftir hádegið komu Davíð Davíðsson prófessor og Guðm. Arnlaugsson frá Vísindasjóði vegna umsóknar okkar Þorsteins um styrk.“ Þorsteinn Þorsteinsson lífefnafræðingur frá Húsafelli var þá nýráðinn til skólans og var þarna að mótast mjög farsælt starf þeirra Magnúsar einkum á sviði steinefnafræða gróðurs og búfjár sem og beinaveiki í kúm – rannsókna sem bættu við mikilli þekkingu um áburð á túngrös og fóðrun mjólkurkúa hvað steinefni snerti. Þorsteinn tók við rekstri efnarannsóknastofunnar.

Satt að segja mun það hafa verið fátt sem þeir félagarnir ekki tóku sér fyrir hendur, sbr. færslu 3. september 1958:

Suð-austanátt, hægviðri og hiti. Ég sló 17-56A og 13-56B, tók jarðvegssýni og leitaði að jarðhita með Þorsteini í Báreksstaðavatni og víðar.

Samkvæmt tilraunanúmerunum virðist fjöldi tilraunaverkefna, sem hófust á árinu 1956, hafa verið kominn upp í a.m.k. sautján. Segir það nokkuð um verkefni og virkni Magnúsar sem tilraunastjóra. Dagbókin, þótt slitrótt sé, gefur til kynna að jarðræktarverkefnin sem tekin voru fyrir, voru afar fjölbreytt að efni. Má líta á fjölbreytni sem dæmi um þá miklu gerjun er var á umræddu árabili í flestu er snerti nýrækt og jarðyrkju. Verkefnin, sem Magnús hóf fyrsta sumar sitt á Hvanneyri, grasafræðigarðurinn og ræktun í mismundandi jarðvegi, að hluta sýnisreitir, virðast hins vegar brátt hafa lagst til hliðar því þeirra er lítt og ekki getið í dagbókinni.

Magnús Óskarsson (t.h.) og Þorsteinn Þorsteinsson, staddir í Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri 1. september 2015. Samstarf þeirra á Hvanneyri varð bæði farsælt og árangursríkt. Þeir efldu kennslu og rannsóknastarf Bændaskólans til mikill muna. (BG)

Er leið á tímabil dagbókarinnar sést að nokkra sumardaga hefur Magnús notað til uppgjörs tilrauna, auk þess sem jafnaðarlega er getið þátttöku í kennslu og öðrum verkum við framhaldsdeildina. Örfárra sumarleyfisdaga getur Magnús en er að öðru leyti fámáll um eigin hagi enda var dagbókin miðuð við jarðræktartilraunirnar og tíðindi af þeim.

EFTIRMÁLI

Hér hefur verið hámað yfir lífshlaup Magnúsar Óskarssonar um áratugs skeið – frá upphafi framhaldsskólanáms hans til þess að hann, að loknu sérfræðinámi, hefur mótað sér það starf er hann síðan stundaði allan embættisferil sinn – sem kennari og tilraunastjóri við Bændaskólann á Hvanneyri nokkuð sem skapar honum athyglisverða sérstöðu meðal starfsmanna Hvanneyrarskóla. Þetta varð dálítil einsaga, byggð á misrækilegum dagbókarfærslum hans. Mörgu og merkilegu úr dagbókunum er sleppt. Einnig er að mestu látið vera að spá í orð dagbókarinnar ellegar lesa á milli lína hennar; Magnús gefur að vísu sárafá efni til þess, svo málefnalegur sem hann er í skrifum sínum. Frumheimildin, dagbækurnar, fær vonandi geymslu á verðugum stað.

Dagbækur Magnúsar spanna þann hluta æviskeiðs æskumanns sem leiðir frá nýlega mótaðri lífsstefnu til fyrstu ára einstaklega farsæls ævistarfs. Lesaranum hefur þótt býsna gaman að sjá hin ýmsu lífsstef Magnúsar stíga þar fram og mótast eins og í forleik tónverks, stef sem síðan vefja sig áfram eftir því sem tónverkinu vindur fram. Það er ekki öllum gefið að færa slíka dagbók, og enn síður að skapa sér þann lífsstíl og –feril sem varð tilefni hennar.130

130 Lokið fyrsta vetrardag 2019; lagfært á góu 2020.

INNGANGUR – AÐDRAGANDI Í dag fögnum við því að 100 ár eru liðin frá því Ungmennafélagið Íslendingur var stofnað. Ég ætla að greina hér í fáum orðum frá sögu félagsins. Mér nægir annars að vísa til afmælisrits félagsins – Ungmennastarf um aldarskeið – sem kom út í dag. Þar eru helstu atburðir og afrek í sögu félagsins rakin í máli og myndum. Líka í minningaþáttum nokkurra ungmennafélaga sem lögðu mér lið með skrifum sínum:

Ungmennafélagið Íslendingur varð til þegar áhrifa heimastjórnar var farið að gæta í nokkrum mæli. Ungmennafélagshreyfingin var raunar mikilvægur gerandi í þeim miklu hræringum sem einkenndu fyrstu ár 20. aldarinnar.

Hreyfingin þótti víst nokkuð róttæk á upphafsárum sínum. Þannig sagði einn af stofnendum Íslendings, hún Svava Þórhallsdóttir, biskupsdóttir úr Laufási í Reykjavík og skólastjórafrú hér á Hvanneyri, sem tekið hafði virkan þátt í starfi Ungmennafélags Reykjavíkur:

Þegar Ungmennafélagsskapurinn var að byrja 1907 og 1908, þá var það heldur á móti venjum í Reykjavík að fara í félagsskap með ungu fólki, sem maður þekkti ekki og frá heimilum, sem ekki voru kunn manns eigin foreldrum. En þessu breyttu Ungmennafélögin. Í fyrstu var ekki vitað, hver áhrif þetta hefði, og mættu félögin nokkurri mótspyrnu.131

Ungmennafélagið Íslendingur braut líka í bág við strauminn. Það mun m.a. hafa fengið á sig orð fyrir að draga úr kirkjusókn hér í sveit. Það leiddi til þess að félagið vildi gjöra iðran. Það gekkst því fyrir söfnun fjár til kaupa á altarismynd í Hvanneyrarkirkju. Ef til vill var það kitlandi að eiga samneyti við framandi jafnaldra af báðum kynjum á vettvangi ungmennafélaganna, bæði til baráttu fyrir spennandi verkefnum en líka til þess að skemmta sér við íþróttir, dans, söng og hvers kyns félagsmálastarf í þágu lýðs og lands.

STOFNUN UNGMENNAFÉLAGSINS Ungmennafélagið Íslendingur varð til hér á Hvanneyri. Ástæðurnar fyrir því virðast einkum hafa verið tvennar:

Fyrst sú að Hvanneyrarskólinn var áfangastaður fjölda ungs fólks: nemenda, kennara og starfsfólks, sem hafði kynnst ungmennafélagshreyfingunni í öðrum sveitum: í Reykjavík, austur í Flóa, vestur í Dýrafirði og hér í Borgarfirði, en líka fólks sem orðið hafði fyrir áhrifum ungmenna- og lýðháskólahreyfingarinnar á Norðurlöndum, einkum þó í Danmörku.

131 Svava Þórhallsdóttir: Móðir mín (1949), 101-102.

Hin ástæðan var sú deigla sem Hvanneyrarskólinn var á þessum árum: Endurskipulagður í anda nýrrar aldar og nýrra hugmynda, öðru frekar með það í huga að móta nýja stétt manna til þess að taka ábyrgð á framkvæmd nýfenginnar heimastjórnar. Að skólanum voru komnir ungir menn til stjórnar og kennslu, menn sem kynnst höfðu norrænum félagsmálahreyfingum og voru tilbúnir að vinna Íslandi allt.

Hér á Hvanneyri hafði því orðið til einstakur gróðurreitur félagsstarfs, sem tók fljótt og vel undir hugmynd Vigfúsar Guðmundssonar, er þá var nemandi hér á Hvanneyri en síðar landsþekktur veitingamaður, um að stofna ungmennafélag. Þjálfað félagsmálafólk var kallað til undirbúnings félagsstofnuninni. Lög voru samþykkt. Í 3. grein laganna var ákvæði er markaði nokkra sérstöðu félagsins. Þar sagði m.a.: Tilgangi sínum hugsar félagið sér að ná með því að halda fundi, þar sem aðallega verða rædd ungmennafélagsmál og félagar sem eru frá ýmsum ungmennafélögum út um land skýri frá starfsemi og fyrirkomulagi sinna félaga.

Félagið hlaut nafnið Íslendingur, og skyldi starfssvæðið vera Andakíls- og Skorradalshreppar. Félaginu var kosin fyrsta stjórnin. Hana skipuðu þau

Páll Zóphoníasson, kennari, sem varð formaður Svava Þórhallsdóttir, skólastjórafrú, ritari og Einar Jónsson, kennari og ráðsmaður á Hvanneyri, sem kosinn var gjaldkeri.

Stjórnarmenn Ungmennafélagsins og varamenn þeirra voru ýmist starfsmenn Hvanneyrarskóla eða nemendur hans. Það var ekki tilviljun að félagið skyldi stofnað 12. desember, né heldur að það fengi nafnið Íslendingur: Þennan dag árið 1911 voru einmitt liðin 200 ár frá fæðingu Skúla Magnússonar fógeta. Dagurinn var valinn sérstaklega, eða eins og segir í fyrstu árskýrslu stjórnarinnar:

Það þótti eiga vel við að stofna þá félag, sem hlúði að því er honum var kærast, hlúði að því sem þjóðlegt var og þarflegt og öllu því, er göfgar og bætir manninn.

Sakir hinna nánu tengsla Ungmennafélagsins við Hvanneyrarskóla hlaut það marga þjálfaða liðsmenn úr ungmennafélögum úti um land, sem þá þegar voru starfandi, og, eins og þegar er nefnt, áttu þeir hvað mestan þátt í stofnun félagsins.

Hitt var ekki síður mikilvægt, að fjölmargir Hvanneyringar kynntust þarna ungmennafélagshreyfingunni af eigin raun og hlutu þjálfun, sem nýttist þeim í félagsmálastarfi, þegar heim kom. Ef til vill má því segja að Ungmennafélagið Íslendingur hafi verið einn fyrsti vísirinn að Félagsmálaskóla UMFÍ.

UNGMENNAFÉLAGIÐ SEM FORM OG ÞÁTTUR Í FRAMVINDU BYGGÐARINNAR Og svo hóf Ungmennafélagið Íslendingur starf sitt. Um margt bar það blæ verkefna annarra ungmennafélaga, sem þó var lagað að aðstæðum í sveitinni. Félagsfundir voru bæði fjölsóttir

og tíðir framan af, enda þeir kærkomin tilbreyting unga fólkinu, sem naut þess að koma saman, hitta jafnaldra og deila með þeim stundum frá erfiði daganna. Ekkert var félagshúsið. Fundir voru því haldnir utandyra, í tjaldi ellegar þá undir þaki Bændaskólans, en í nyrðri stofu Gamla skólahússins hér á Hvanneyri – Yngri-deildar-stofunni – var félagið stofnað. Skólahúsið var þá splunkunýtt – eitt glæsilegasta skólahúsið á landinu um þær mundir.

Þegar á fyrsta starfsári varð sund mikilvæg íþróttagrein Ungmennafélagsins. Hefur svo verið allar götur síðan. Til var gömul torfsundlaug við Efri-Hrepp, sem ungmennafélagar endurbættu í sjálfboðavinnu. En líka var synt í Hvanneyrarstokknum hér við Fitina, í Vatnshamravatni, að ógleymdri sjálfri Hvítá, þar sem héraðsmótin fóru fram.

En laust fyrir 1930 lagði Ungmennafélagið í stórátak til eflingar sundaðstöðu, sem var bygging sundlaugar við Efri-Hrepp. Ég veit ekki hvort við gerum okkur í dag nokkra grein fyrir því hversu risavaxið verkefni þetta var fátæku Ungmennafélagi. Verkið hvíldi ekki á herðum margra. En það tókst að koma lauginni upp. Hún varð þó ekki sú efling félagsstarfsins sem menn höfðu vænst. Félagið gekk eiginlega fram af sér, og ekki bætti Kreppan alræmda, er reið yfir rétt í þann mund sem sundlaugin stóð nothæf. Íslendingur lagðist í dvala um tíma.

En dugmiklir menn gættu glóðarinnar og reistu félagið við að nýju. Sundlaugin varð, er frá leið, miðpunktur félagsstarfsins í mörgu tilliti, og hefur verið allt til þessa dags. Hún hefur kallað á mikið starf félagsmanna en líka skilað miklu í öflugu sundfólki félagsins og í þúsundum ánægðra sundlaugargesta hvert sumar.

Fljótlega gekkst Íslendingur fyrir eflingu andans með því að létta félagsmönnum og öðrum aðgang að bókum og öðru lesefni. Raunar hafði félagið forystu um bókasafnsmál byggðarlagsins allt til efstu ára síðustu aldar að sveitarfélagið tók við þeim.

Lengi átti Ungmennafélagið draum um félagshús. Hugmyndin var að reisa það á bletti sem Fossabændur gáfu félaginu árið 1916 við Andakílsárfossa. Hann var ræktaður og skógarplöntum víða að úr Borgarfirði plantað í hann. Húsdrauminn átti félagið lengi. Ræddi hann mikið. Hann varð hins vegar að engu þegar kom að virkjun fossafallsins árið 1947 og Andakílsárvirkjun leitaði eftir kaupum á blettinum. Með trega var fallist á að þiggja nokkrar bætur fyrir hann, sem Ungmennafélagið gat m.a. nýtt til þess að bæta aðstöðu sína við Hreppslaug.

Minningaspjald fyrir Ungmennafélagið fertugt, málað af Birni Sigurbjörnssyni, þá nemanda á Hvanneyri, en síðar forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, ráðuneytisstjóra o.fl.

Þar reis félagshúsið, líka fyrir fjármuni sem Ungmennafélagið aflaði með ýmsum samkomum, m.a. þátttöku í hinum frægu Húsafellsmótum Ungmennasambands Borgarfjarðar.

Elstu þekktu dæmi um leikstarf hér á sveit eru frá byrjun síðustu aldar og þá hér á Hvanneyri. En á vegum Ungmennafélagsins kom leikstarfið fyrst til sögu á fimmta áratugnum. Um miðjan áttunda áratuginn varð leikstarfið svo að föstum lið á vettvangi félagsins. Hefur svo verið samfellt nú um 35 ára skeið. Mikill fjöldi félagsmanna hefur komið að leikstarfinu og lagt fram umtalsverða vinnu. Leikstarfið hefur einkennst af metnaði, notið mikilla vinsælda og borið hróður Ungmennafélagsins víða.

Árið 1967 urðu eiginlega straumhvörf í starfi Ungmennafélagsins. Með Jónsmessuhátíð, sem þá var haldin á Mannamótsflöt, var blásið til nýrrar sóknar. Starfið var eflt til stórra muna m.a. með því að sinna félagsþörfum barna og unglinga á félagssvæðinu. Stofnuð var ungmennadeildin Æskan. Starf hennar skilaði mörgum ungmennum inn í raðir Ungmennafélagsins, ungmennum, sem hafa átt þátt í að bera starf félagsins áfram með þróttmiklum hætti. Á þessu sviði var Íslendingur eiginlega í fararbroddi ungmennafélaga. Starf Æskunnar varð burðarás félagsstarfs unga fólksins þar til fast form komst á grunnskóla byggðarlagsins, sem þá tók að miklu leyti við hinum félagslega þætti.

Þótt sundið hafi eiginlega verið íþrótt Íslendings um áratuga skeið hafa aðrar íþróttir ekki setið á haka. Þótt árasveiflur hafi orðið í ástundun og árangri hefur fjöldi félagsmanna getið sér gott orð á sviði frjálsra íþrótta sem og hópíþrótta. Þannig hefur félagið eignast nokkra meistara á Landsmótum UMFÍ og íþróttamenn félagsins hafa keppt fyrir Íslands hönd á fjölþjóðamótum. Vart er á marga hallað þótt minnt sé á eiginlega gullöld Íslendings á sviði frjálsra íþrótta um miðja síðustu öld: Félagsstarfið stóð þá með blóma og Ungmennafélagið var nær ósigrandi á íþróttamótum í héraðinu.

Nefna má hlut Íslendings að eflingu og viðhaldi þjóðdansa. Félagið tók þá upp á fyrstu árum sínum og hefur rækt þá meira og minna síðan, eiginlega allt til þessa dags. Nemendur Hvanneyrarskóla kynntust þeim á vettvangi Ungmennafélagsins á fyrstu starfsárum þess. Grun hef ég um að einhverjir Hvanneyringar a.m.k. hafi borið þá með sér heim í héruð, og þannig átt hlut að því að útbreiða áhugann fyrir þeim.

Ónefndur er þá urmull annarra verkefna, og í engu ómerkari, sem Ungmennafélagið Íslendingur hefur unnið að á 100 ára ferli sínum. Tíminn leyfir ekki upptalningu þeirra allra. Margra er getið í hinu nýútkomna afmælisriti. Önnur eru bréfuð í miklu gagnasafni félagsins, eða hafa bara geymst í minningu þeirra fjölmörgu sem á hverjum tíma hafa tekið þátt í starfi Ungmennafélagsins.

UNGMENNAFÉLAGIÐ – SAMTÍÐ OG FRAMTÍÐ Margt ræður framvindu eins ungmennafélags: Einstaklingarnir, sem það mynda, og það hvernig þeir ná að stilla saman vilja sinn, áhugamál og starfskrafta. Umhverfið ræður einnig

miklu, bæði á félagssvæðinu sem og á héraðs- og landsvísu: Það er bæði þegið og gefið. Þetta sýnir félagssaga Íslendings.

Greiningu á því hvernig umhverfið hefur mótað starf Ungmennafélagsins læt ég liggja á milli hluta, þótt engu ómerkara sé. Þar má nefna samskiptin við Ungmennasamband Borgarfjarðar, Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands og fleiri skylda aðila, að ógleymdum sveitarstjórnunum.

Í byggðum Andakíls, Skorradals og Bæjarsveitar hefur Ungmennafélagið í 100 ár verið misáberandi áhald og vettvangur þarfra og góðra verka. Það hefur svo sem ekki gert harðar kröfur til félagsmanna sinna eða annarra, en höfðað þeim mun sterkar til áhuga þeirra og þegnskyldu. Og einmitt þess vegna er það enn til. Ungmennafélagið er ekkert annað en fólkið sjálft – Við.

Á eitt hundrað ára skeiði hefur starf Ungmennafélagsins breyst gríðarlega, enda aðstæður, viðhorf og raunar menning þjóðar orðin allt önnur en var við stofnun félagsins. Ég geri ekki tilraun til þess að meta breytingarnar. Þær endurspeglast hins vegar glöggt í köflum afmælisritsins og þá ekki síður í skrifum félaga okkar sem í ritinu rifja upp minningar sínar.

En við sjáum líka það sem ekki hefur breyst: Það er hinn mannlegi þáttur, er snýst um þörfina fyrir samneyti í starfi og leik, samneyti til þess að leggja góðum málum lið, bæta sjálfan sig og umhverfi sitt, og njóta stundanna. Hver að hætti sinnar tíðar. Íslandi þó alltaf allt! Vonandi breytist sá þáttur ekki í veltingi veraldarinnar næstu hundrað árin hið minnsta.

Ég þakka ykkur áheyrnina – og óska Ungmennafélaginu til hamingju með aldarafmælið.132

132 Söguþáttur fluttur á aldarafmælisfagnaði Ungmennafélagsins Íslendingur að Hvanneyri 11. desember 2011.

This article is from: