
4 minute read
Farsæll brautryðjandi
Guðmundur Jónsson skólastjóri
Þegar Verkfærasafni var með lögum komið upp á Hvanneyri árið 1940, munu fyrstu verk við það hafa komið í hlut Guðmundar Jónssonar, þá kennara hér við skólann. Guðmundur gerði m.a. fyrstu munaskrá safnsins, og mér þykir sennilegt, að hann hafi átt mikinn þátt í að velja þá gripi, sem til álita komu, gripi sem nú mynda elsta kjarnann í Landbúnaðarsafninu. Með safninu höfðu menn ekki síst í huga, hvað gagnlegt væri bændum á þeim gríðarlega breytingatíma, sem þá var að hefjast í íslenkum landbúnaði.
Advertisement
Guðmundur verðskuldar því minningamark hér í safninu, sem og fyrir það að hafa starfað hér á Hvanneyri, og stýrt staðnum um langt árabil. Að fjalla um Guðmund er efni í langan fyrirlestur, en hér ætla ég eingöngu að fjalla í örstuttu máli um bakgrunn hans, og hlut að safninu og starfsemi þess.
Guðmundur var mjög vel menntaður búfræðingur, fyrst úr Hólaskóla og síðan úr danska landbúnaðarháskólanum. Það má segja, að hann hafi haft nokkra sérstöðu meðal ungra búfræðinga, er til starfa komu á þessum árum. Sú sérstaða fólst í áhuga hans á hagfræði og búrekstri. Guðmundur varð brautryðjandi í bókhaldi bænda, þar sem hersla var lögð á rekstrarafkomu búa sem fyrirtækja, með góðri ávöxtun rekstrarfjármuna búanna og aukinni framleiðni vinnuafls þeirra.
Nú er hvers konar bútækni, með vélum og verkfærum, það sem breytir grunnfræðum náttúrunnar eins og t.d. efna- og eðlisfræði, jarðvegsfræði, áburðarfræði og fóðurfræði í nýtanlegar afurðir og verslunarvöru með vinnusparandi hætti. Það nægir að líta í ársritið Búfræðinginn, sem Guðmundur var maðurinn á bak við, til þess að sjá, hve honum var sú staðreynd ljós. Fjölmargar greinar, fréttir og hugmyndir, svo og tíðindi frá nemendum hans, sem birtust í Búfræðingnum, varða einmitt bútæknilausnir, vélar og verkfæri, sem talin voru líkleg til þess að létta og spara bændum og búaliði vinnu.
Það var því ekki tilviljun, að Guðmundur sat í Verkfæranefnd ríkisins um liðlega tveggja áratuga skeið, nefnd er gegndi mikilvægu forystuhlutverki í vélvæðingu landbúnaðarins á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina, einkum á sviði landnáms með nýrækt, en síðar búvélaprófunum og verktæknitilraunum. Í Verkfæranefnd átti Guðmundur strax hlut að merkum athugunum og tilraunum, m.a. á súgþurrkun heys, sem þá var nýmæli, er átti eftir að gerbreyta heyskap landsmanna.
Guðmundur naut þess líka að sjá son sinn, Jón Ólaf, sækja sér sérmenntun á sviði bútækni til Svíþjóðar; Sennilega var það heldur ekki tilviljun, Ólafur tók síðan við forystu Verkfæranefndar á miklu breytingaskeiði landbúnaðar og leiddi það starf, bændum til
Guðmundur Jónsson skólastjóri með kennurum og nemendum Framhaldsdeildarinnar 1947-1949. Stefán Jónsson kennari er lengst t.v. en á hina hlið Guðmundar er Haukur Jörundarson kennari. (ljósm. í eigu LbhÍ).
mikillar farsældar. Því miður féll Ólafur frá í miðju starfi, en við minnumst verka hans með virðingu og þakklæti.
Það má velta því fyrir sér, hvað vakti áhuga Guðmundar á bútækni og hagræðingu búverka – því sem þá kallaðist „rationalisering“ í nágrannalöndunum? Ég nefni nokkra þætti, sem í huga minn koma:
1. Skólaumhverfið á Hólum, er Guðmundur dvaldi þar ungur, mótað af hugsjónamanninum
Sigurði Sigurðssyni skólastjóra og faglegu starfi Ræktunarfélags Norðurlands. Sigurður átti hvað mestan þátt í Búsáhaldasýningunni sumarið 1921, sýningu sem Guðmundur kenndi okkur löngu síðar að gríðarmiklu hefði skipt fyrir tæknivæðingu og framfarir íslensks landbúnaðar.
2. Sem ungur námsmaður í Danmörku kynntist Guðmundur því vel, hvernig danskur landbúnaður hafði orðið að öflugri atvinnugrein, með því að nýta fagkunnáttu, verktækni, bókhald og hagræðingu með markvissum hætti til þess að auka framleiðni og arðsemi greinarinnar þjóðinni allri til farsældar.
3. Ég hef þegar nefnt starf Guðmundar að búreikningum, stórmerkilegt brautryðjendastarf, sem sýndi honum betur en flestum öðrum, hve miklu varðaði að huga að greiningu á rekstri búanna og markvissri leit að leiðum til hagræðingar hans.
4. Á tíð hans, sem skólastjóra hér á Hvanneyri efldist mjög staðarumhverfi, sem nú mætti kalla nýsköpunarumhverfi, þar sem margt var reynt til verkumbóta og framfara í búnaðarháttum. Komu þar mjög við sögu hugvitsmaðurinn Guðmundur ráðsmaður
Jóhannesson, Ólafur Guðmundsson með starfi Verkfæranefndar, tilraunastjórinn
Magnús Óskarsson og raunar margir fleiri sem nefna mætti.
5. Loks nefni ég tengslin sem Guðmundur var iðinn við að rækta við nágrannalöndin og stofnanir þar, tilraunastöðvar og landbúnaðarháskóla, en þannig kynntist hann ýmsum nýjungum sem hann með beinum eða óbeinum hætti færði til landsins, m.a. vélum og verkfærum . . .
- - ooo - -
Þetta var aðeins ágrip þess, sem tengir nafn Guðmundar Jónssonar við Landbúnaðarsafnið. Það fer því vel á því, að hann horfi hér til safnmuna og sýningarinnar, sem varpar ljósi á þróun landbúnaðarins á tuttugustu öld, muna og gripa sem leiddu til hagræðingar, vinnusparnaðar og vinnuléttis – og breyttu erfiðri lífsbaráttu í nútímalega og tæknivædda atvinnugrein. Það var draumur Guðmundar skólastjóra, sem við getum lesið úr ýmsum skrifum hans, og sem við minnumst líka úr fjölmörgum kennslustundum hjá honum.
Að endingu vil ég svo fyrir hönd Landbúnaðarsafnsins þakka ykkur, búfræðingar vorsins 1963, fyrir þessa myndarlegu gjöf. Hún kemur safninu vel, hún styrkir rætur þess og heldur á lofti minningu um eljustarf merkilegs brautryðjanda.109

Sigurður R. (t.v.) og Ásgeir Guðmundssynir við afhjúpun lágmyndar af föður þeirra í Landbúnaðarsafni.
109 Ávarp flutt við afhjúpun lágmyndar af Guðmundi Jónssyni skólastjóra í Landbúnaðarsafni 6. júní 2015.