19 minute read

Kolbur og hvítir sloppar

Söguþættir um efnarannsóknastofuna á Hvanneyri 1947-1987

Óljóst er hvenær efnarannsóknir hóftst við Hvanneyrarskóla. Víst er hins vegar að á tímum voru þær töluverðar að umfangi. Með 21. öldinni drógust þær saman og eru nú aðeins svipur hjá fyrri sjón. Rifja má upp nokkra söguþætti um þær. Engin tilraun verður gerð til þess að skilgreina hvað nákvæmlega er átt við með efnarannsóknum – aðeins miðað við það sem í munni staðarmanna kallaðist því nafni.

Advertisement

DRÖGIN LÖGÐ Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri var áhugasamur um rannsókna- og þróunarstarf á sviði landbúnaðar, einkum þó í fóðurfræði. Fóðurtilraunir í Hvanneyrarfjósi hófust þegar veturinn 1912 og þá undir stjórn Ingimundar Guðmundssonar ráðunauts. Árangur tilraunanna var mestan part metinn í magni fóðurs og nytar en ekki er vitað til þess að eiginlegar efnarannsóknir hafi verið gerðar í tengslum við tilraunirnar. Fitumælingar í mjólk munu þó hafa verið gerðar með þeirrar tíðar tækni, enda komnar til sögu sem hluti af vaxandi starfi nautgriparæktarfélaganna. Slíkar mælingar voru líka einn þáttur í starfi Mjólkurskólans, er settur var á Hvanneyri haustið 1900, og mjög líklega hafa Hjörtur skólastjóri og Ragnheiður verðandi kona hans einnig stuðst við fitumælingar í ostagerð sinni og annarri mjólkurvinnslu um aldamótin 1900. Má því giska á að fitumælingar á mjólk hafi verið fyrstu efnarannsóknirnar sem gerðar voru á Hvanneyri.

Halldór skólastjóri virðist hafa gert töluvert af því að mæla og meta með formlegum hætti ýmislegt í búrekstri sínum. Sumt var unnið með samvinnu við aðra svo sem fóðrunartilraunir á sauðfé sem Þórir kennari Guðmundsson hóf árið 1921 að mestu kostaðar af Búnaðarfélagi Íslands og telja má „fyrstu tilraunir með fóðrun sauðfjár hér á landi, sem gerðar voru eftir vísindalegum aðferðum.“ Fleiri rannsóknir gerði Þórir á meðan honum entist aldur.

Haustið 1947 hófst kennsla í Framhaldsdeildinni á Hvanneyri, kennsla í búfræðum er vera skyldi á háskólastigi. Hluti námsins var í grunngreinum búfræða. Til þess að annast þær var ráðinn Stefán Jónsson, síðar kenndur við Kirkjubæ á Rangárvöllum. Hann var búfræðikandídat frá KVL í Kaupmannahöfn með framhaldsmenntun í fóðurefna- og lífeðlisfræði. Efnafræði varð stór hluti grunngreina. Skrifari telur sig m.a. muna að leifar einfalds búnaðar til efna- og eðlisfræðiæfinga hafi verið í Gamla skólanum, kompu sem myndaðist í lokuðum vestri inngangi að skólahúsinu, auk slíkra kennsluáhalda í geymslu vestast á annarri hæð skólahússins. Til kompunnar vísar Bjarni Arason, nemandi í fyrsta námshópi Framhaldsdeildar, sem skrifaði m.a.: „Niðri í kjallara var innréttuð kompa fyrir verklegar æfingar í efnafræði o.fl.“

Á rannsóknastofunni um 1960. Frá vinstri Völundur Hermóðsson, Þorgeir Örn Elíasson og Elías Sveinsson, þá nemendur við Framhaldsdeildina á Hvanneyri (ljósm. Ólafur Guðmundsson).

En sama sumar, 1947, var byggð hæð ofan á Hvanneyrarfjósið, lengst af síðan kölluð Fjósloftið. Varð þar til mikið húsrými, sem hægt og bítandi var innréttað til ýmisa þarfa. Þar hafði einnig verið innréttuð íbúð sem varð heimili Stefáns og fjölskyldu hans þau ár er þau bjuggu á Hvanneyri. Haustið 1949 var þar innréttuð efnarannsóknastofa en einnig smíðastofa. Stefán mótaði efnarannsóknastofuna sem þarna var síðan til húsa við vaxandi umsvif næstu fjörutíu árin. Áhugi kennarans Stefáns beindist einnig að rannsóknum og vann hann samhliða kennslu jafnframt fyrir Tilraunaráð búfjárræktar, einkum að votheysrannsóknum og áhrifum sláttutíma á fóðurgildi heyja, skrifaði Halldór Pálsson, er einnig sagði: „Vegna ágætrar menntunar og vísindalegrar nákvæmni í störfum var Stefán prýðilega fallinn til vísindaiðkana.“

Votheysrannsóknir þessar voru býsna merkilegar. Fyrir þeim var síðar gerð grein með fræðiriti. Í formála þess segir m.a.: „Stefán Jónsson, kennari á Hvanneyri, . . . annaðist alla framkvæmd tilraunanna á Hvanneyri og Hesti við verkun heysins, hitamælingar og sýnatöku . . . Stefán Jónsson . . . efnagreindi nokkuð af sýnishornum á efnarannsóknastofu Búnaðardeildar [svo]á Hvanneyri.“

Magnús Óskarsson kennari og tilraunastjóri taldi að Tilraunaráð búfjárræktar hafi kostað einhver rannsóknatæki í efnarannsóknastofuna og minntist m.a. skiptra skoðana þeirra Guðmundar skólastjóra Jónssonar og Halldórs Pálssonar, þá starfandi hjá Búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands, er frá leið, á því hver ætti rannsóknatækin. Og síðar í

formála áðurnefnds rits segir: „Nokkrar efnagreiningar voru framkvæmdar á Hvanneyri, og voru þau sýnishorn tekin beint úr gryfjunum til efnagreiningarinnar.“ Tilraunirnar voru gerðar sumarið 1951 í þremur nýlegum votheysgryfjum á Hvanneyri og einni á Hesti en einnig í votheysgryfjum suður í Mosfellssveit.

Sólveig, dóttir Stefáns Jónssonar, minnist rannsóknaverka föður síns, bæði við tilraunir á engjalöndum Hvanneyrar sem og á efnarannsóknastofunni. Hvaða mælibúnaður hefur verið kominn er ekki vitað, en giska má á að það hafi verðið tæki til pH (sýrustigs)- og þurrefnismælinga (vog, þurrkofn . . . ) og hugsanlega Macro-Kjeldahl-tæki til köfnunarefnismælinga, sem lengi var til á stofunni. Með óformlegu samstarfi skólans og Atvinnudeildarinnar varð til vísir að bærilegri efnarannsóknastofu á þeirrar tíðar mælikvarða í hinu nýja húsnæði skólans þar á Fjósloftinu.

EFNARANNSÓKNASTOFAN EFLIST Stefán Jónsson kaus að hverfa frá starfi á Hvanneyri vorið 1955 til þess að taka við hrosskynbótabúi Eggerts bróður síns að Kirkjubæ á Rangárvöllum. Þangað flutti hann því með fjölskyldu sinni. Nýir menn komu til starfa við Hvanneyrarskóla. Við kennslu Stefáns tók m.a. Örnólfur Örnólfsson sem var búfræðikandídat frá KVL eins og Stefán en hafði verið ráðunautur og kennari á Vestfjörðum í fjögur ár frá próflokum. Lítið er vitað um það hvort eða þá hvernig hann nýtti sér efnarannsóknastofuna í störfum um sínum.

Haustið 1957 var Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli ráðinn til kennslu í Framhaldsdeild. Hann hafði framhaldsmenntun og rannsóknareynslu í lífefnafræði. Þorsteinn leysti Örnólf af hólmi en Örnólfur hafði brúað bilið sem varð við brotthvarf Stefáns Jónssonar frá skólanum.

Það kom í hlut Þorsteins í náinni samvinnu við Magnús Óskarsson tilraunastjóra og kennara að stórefla starfsemi stofunnar, en Magnús var ráðinn til skólans árið 1955. Saman gerðu þeir rannsóknir og rannsóknastofuna að einum mikilvægasta þættinum í starfi Bændaskólans á Hvanneyri um árabil. Sá þáttur var ekki síst mikilvægur fyrir nám og starf í Framhaldsdeild skólans – og síðar Búvísindadeild. Þorsteinn hefur lýst þessum tíma þannig:

„Ég lauk magistersprófi í lífefnafræði frá Hafnarháskóla vorið 1956. Ég fékk vinnu við rannsóknir á vísindastofnun í BNA og vann þar til ársloka 1957. Það gekk allvel og birtust greinar með mínu nafni um árangurinn. Ég gerði mér ekki miklar vonir um vinnu í mínu fagi en skömmu áður en ég fór heim bárust mér tilmæli frá Guðmundi skólastjóra á Hvanneyri um að ég sækti um kennarastöðu við skólann. Hafði hann rökstuddan grun um að ráðamenn myndu skipa í stöðuna mann með ófullnægjandi menntun fyrir kennslu í Framhaldsdeild. Ég sótti um stöðuna, fékk ekki. Jónas Jónsson frá Ystafelli var skipaður. Guðmundur skólastjóri fann að þessu við embættismann. Nefndi skólastjóri að ég hefði miklu meira framhaldsnám en Jónas. Embættismaður svaraði skætingi einum. Guðmundur réði mig upp á von og óvon um að úr myndi rætast. Yfirdýralæknir bjargaði málinu svo að ég fékk laun til að rannsaka beinaveiki í kúm fyrsta árið og komst svo í stöðu sem losnaði við skólann síðar á árinu.

Það skal tekið fram að Jónas reyndist farsæll kennari og traustur embættismaður, hvers manns hugljúfi. Hann og hans góða kona voru alla tíð kærir vinir okkar hjóna.

Ég hóf störf á Hvanneyri í ársbyrjun 1958. Ég var settur með fjölskyldu mína í kjallarann í Ráðsmannshúsi, Jónas fékk Tungutún. Starfsmaður sem ekki vann hjá skólanum fékk Svíra en ég hafði fengið orð um að fá þar inni. Í Ráðsakjallara voru þrjú frekar lítil herbergi, eldhús og mjög lítil geymsla. Þetta hefði verið viðunandi ef íbúðin hefði ekki míglekið í rigningum. Það var bót í máli að lekinn læddist með veggjum og sytraði út á gang en lak [hvorki] ofan í húsgögn né rúm. Þarna vorum við í 3 ár en þá reyndist unnt að byggja kennarabústað á vegum skólans og fengum við hann og þar var vistin góð.

Örnólfur Örnólfsson hafði kennt í framhaldsdeild. Hann var búfræðikandídat frá Kaupmannahöfn. Hann hafði barist til mennta, stálheiðarlegur maður en þótti varla rísa undir því að kenna í deildinni. Kennslan var umsvifalaust tekin af honum og ég látin fá hana. Um vorið sagði hann upp og fór en ég fékk stöðuna hans að mig minnir. Ég starfaði á Hvanneyri til ársins 1964 en þá fékk ég vel launað starf í Reykjavík.

Guðmundur skólastjóri vissi að framhaldsnám búfræðinga krefst þess að nemendur og kennarar kynntust tilraunastarfsemi. Magnús Óskarsson var ráðinn kennari við bændaskólann árið 1955 og tók hann að sér jarðræktartilraunir. Þegar ég kom voru þær á góðum rekspeli undir hans stjórn. Allt frá dögum Halldórs Vilhjálmssonar höfðu verið gerðar búfjár- og jarðræktartilraunir en nú skyldu þær verða nauðsynlegur þáttur í fræðslu nema í framhaldsdeild. Ég kem þarna að rannsóknarstofu sem var sæmilega útbúin til efnamælinga í sambandi við jarðrækt og kennslu. Stefán Jónsson kennari lagði grunninn að henni. Hann var vel menntaður og hafði áhuga á tilraunum og kunni til verka í efnamælingum.

Halldór Vilhjálmsson lét reisa stórt fjós og hlöðu árin 1928 – 1929. Fjósið var 10,7 m breitt og 51 m að lengd. Þegar ég var nemandi sumarið 1946 voru allmargir vagnar á 4 hjólum með tveimur hestum fyrir notaðir til að flytja heyið til hlöðunnar. Á vagnana voru lagðar tvö net eða vörpur tengdar saman með tveimur trélistum eða öllu heldur grönnum plönkum í endilangan vagninn og þeir læstir saman með járnlásum sem opnuðust þegar kippt var í band. Að ofan var einhvers konar búnaður sem í mátti krækja járnkrók. Menn mokuðu heyinu á vagnana með heyforkum. Inni í hlöðunni var spil drifið rafmagnsmótor. Stálbiti var endilanga hlöðuna og eftir honum gekk hlaupaköttur tengdur í spilið. Heyhlassið var svo halað í loft upp með spilinu marga metra þangað til búnaðurinn snerti hlaupaköttinn. Þá dreif spilið vörpuna inn í hlöðuna. Þar var fyrir maður sem beindi hlassinu á réttan stað og kippti í bandið sem hékk niður úr hlassinu. Féll þá heyið niður og varpan var dregin út. Notast var við rafmagn úr vatnsaflsstöð. Hún var neðan við Kinnina og vatnið fékkst úr Vatnshamravatni með skurði. Það var ef satt skal segja tafsamt að ná heyinu inn með þessu móti. Laginn og dugmikill nemandi var fenginn til að stjórna spilinu. Mótorinn var of veikburða, sífellt stoppandi og sprengjandi öryggin enda raforkan takmörkuð með tilheyrandi spennuföllum. Síðar var gerður gangur í gegnum hlöðuna fyrir dráttarvélar.

Fjósið var upphaflega með hallandi skúrþaki við hlið hlöðunnar. Veit ég ekki hvort veggir og þak fjóssins voru að gefa sig eða þá að leysa þurfti húsnæðisvanda, að reist var ris við hliðina á hlöðuþakinu og fékkst þá mikið húsnæði undir þessu þaki, íbúð handa kennara, rannsóknastofa, rúmgott smíðaloft og fóðurbætisgeymsla.

Rannsóknastofa var í 40 - 50 fermetra rými. Á henni var einn kvistgluggi og nokkuð af plássinu undir súð. Aðkoman að henni var frekar óvistleg. Annað hvort var gengið eftir dráttarvélaganginum gegnum hlöðuna með gínandi súrheysgryfum á báðar hliðar, ellegar upp háan og brattan stiga neðan frá jafnsléttunni þar sem kýr gengu út og inn. Var þar gangur gegnum miðja hlöðu.

Stofunni var skipt í tvennt, annað herbergið var gluggalaust. Þar var hægt að sitja við borð og skrifa niðurstöður og reikna og teikna. Annað skrifstofuhúsnæði hafði ég ekki. Þar voru líka vogir, bæði efnamælingavog sem hægt var að vigta grömm með fjórum aukastöfum og svo grófari vog sem aðeins var næm fyrir hundraðasta hluta úr grammi. Kvörn var til að mala heysýni til efnamælinga. Ég man ekki hvar hún var en ekki var vinsælt verk að vinna við hana. Þarna var glervara til efnarannsókna, efnalager og ef til vill eitthvað fleira sem ég er búinn að gleyma.

Í herberginu með glugganum voru borð, skagi, þar sem hægt var að eima og vinna við sýni. Yfir því borði var hilla eins og svo oft sést á rannsóknastofum, á henni voru nokkrir baukar af efnum og flöskur með vökvum. Við endann á borðinu næst dyrum var postulínsvaskur og tilheyrandi krani með köldu vatni. Þar fékkst kælivatn á eimsvala og vatn á vatnssogdælur. Ég er búinn að gleyma hvað var af borðum og hillum á og með með veggjum. Klefi var fyrir efnalagerinn og stendur hann óskemmdur enn.

Einhvers staðar í þessu rými var þurrkskápur fyrir þurrefnisákvarðanir af tilraunareitum og fleiru þvílíku. Þarna var á stofunni brennsluofn til að aska sýni fyrir efnamælingar. Einnig var mælir til að meta ljósgleypni sýna, kolorímeter upp á dönsku. Með þessum búnaði gat ég strax farið að mæla kalsíum og fosfór í grassýnum af tilraunareitum. Smám saman bættist við búnaðinn. Stór og góður þurrkskápur til að ákvarða þurrefni í grasi af tilraunareitum, logaljósmælir til að mæla natrín og kalín. Engir gashitarar voru á stofunni en allmargir rafmagnshitarar til að nota við eimingar. Ekki taldi ég hægt að gera Kjeldal greiningar til ákvörðunar á proteini vegna þess að við það myndast brennissteinssýrugufur sem eyðileggja bæði dautt og lifandi því að súgskáp vantaði. Úr því rættist þegar við fengum mikro Kjeldal tæki en þá var hægt að soga eitraðan dampinn burt með vatnssogdælu.

Nemendur [Framhaldsdeildar] fengu nokkra tilsögn í efnamælingum í sambandi við nám í efna- og fóðurfræði. Var farið vandlega yfir sýnatöku á grasi, heyi og jarðvegi. Þurrefnisákvarðanir voru gerðar, sýni möluð, öskuð og steinefni mæld. Fengu þeir nokkra innsýn í þessi störf og kynntust gagnsemi þeirra.

Verkefni mitt við að rannska beinaveiki í kúm féll mæta vel að því að rannsaka heysýni af tilraunareitum Magnúsar Óskarssonar. Mátti heita að við værum sem einn maður við þessar rannsóknir.

Áburðarverksmiðja var stofnuð í Gufunesi 1952 og hóf hún framleiðslu 1954. Ammóníum nítrat var framleitt og selt bændum, mjög fínkornað og leystist hratt upp í jarðvegi. Ammóníum í áburði sýrir jarðveginn og það aftur veldur tregari upptöku steinefna. Ég hafði eignast sýrumælitæki með sambyggðum rafskautum og með þessu tæki sýndum við Magnús fram á það að jarðvegur í túnum þar sem áburðurinn frá Gufunesi hafði verið notaður var súrari því nær sem dró yfirborði. Á tilraunareitum reyndist kalsín í sýnum óeðlilega lágt svo ekki gat það fullnægt steinefnaþörf mjólkurkúa nema með mikilli notkun fóðursalta. Skoskur dýralæknir, Stewart að nafni, hafði um tíma rannsakað beinaveiki í kúm og sett saman forskrift að steinefnablöndu handa mjólkurkúm.

Við Magnús höfðum fundið að gras vaxið af jarðvegi blönduðum skeljasandi var kalsíumríkt. Á einum bæ þar sem kýr voru beinaveikar ráðlögðum við bónda að bera á skeljasand og gerði hann það með ágætum árangri.

Einnig reyndum við Magnús að bera saman hey af tilraunareitum þar sem annars vegar var borið á ammóníumnítrat og hins vegar kalsíumnítrat og reyndist grasið af reitum með kalsíumnítrati miklu kalsínríkara. Þessum niðurstöðum gat ég skilað með skýrslu um störf mín við rannsókn á beinaveiki kúa. Auðvitað vilja menn þakka sér og verkum sínum sitthvað gott, en líkur finnst mér til þess að okkur Magnúsi sé að þakka að lítið sem ekkert ber á beinaveiki í kúm nú, og löngu hætt að bjóða bændum hið stórhættulega, sprengifima ammóníumnítrat til áburðar.

Hanna Frímannsdóttir vann á rannsóknastofunni við efnamælingarnar. Hún var mikil starfskona og lagin við allt sem henni var falið. Á sumrin var þar að auki vinnufólk sem annaðist sýnatökur og ákvarðaði þurrefni í sýnum af tilraunareitunum og malaði síðan til efnamælinganna. Fleiri kennarar en við Magnús komu að tilraunavinnunni.

Á fyrstu árum tilraunastarfsins undir stjórn Magnúsar Óskarssonar uppgötvaði hann að ekki er hægt að rækta heilgrös á framræstum mýrarjarðvegi án fosfóráburðar. Tilraunareitir án hans voru aðeins moldin blökk.

Árið 1959 var þremur mönnum boðið til BNA á vegum stjórnarinnar þar í landi til að kynna sér notkun geislavirkra ísótópa í rannsóknum. Var boðið til þriggja mánaða dvalar. Ég fór sem fulltrúi landbúnaðarins, Jóhann Jakobsson efnaverkfræðingur á vegum iðnaðarins og Kolbeinn Kristófersson læknir á vegum læknisfræðinnar. Við vorum mánuð á námskeiði í Oak Ridge í Tennessee og tvo mánuði fórum við milli háskóla til að sjá tilraunir.

Eftir þessa dvöl hjálpaði Þorbjörn Sigurgeirsson við Eðlisfræðistofnun Háskólans okkur við að gera tilraunir með geislavirkt fosfat, útvegaði okkur efni og sá í fyrstu um að telja geislavirk sýni og síðan útvegaði hann okkur góðan geislateljara. Hann var að vísu nemendasmíð en ágætt tæki.

Við komumst að þeirri niðurstöðu að fosfatið binst í efstu sentimetrum jarðvegsins og skolast alls ekki þaðan. Þetta staðfesti að fosfat er mjög fast bundið í mýrarjarðvegi þurrkaðara túnsléttna á Hvanneyri eins og tilraunir Magnúsar höfðu sýnt. Þessi þekking er nauðsynleg við ræktun á mýrarjarðvegi.

Ég mun alltaf verða Guðmundi Jónssyni skólastjóra þakklátur fyrir að hafa ráðið mig til þessara starfa þó svo að hann hafi ekki boðið mér háreista höll að búa í né heldur rúmt og bjart skrifstofuhúsnæði fyrstu 3 árin eins og nú er í tísku. Ég kynntist ágætum nemendum sem urðu leiðtogar bænda, og tel að við Magnús Óskarsson höfum orðið íslenskum landbúnaði til varanlegs gagns með rannsóknum okkar.

Skrifað í ágúst 2015. Þorsteinn Þorsteinsson“

Það var einkenni vaxtaráranna að rými og innréttingum efnarannsóknastofunnar á Fjósloftinu var breytt og það aukið eftir þörfum og aðstæðum hvers tíma. Séð með augum nútíma mannsins mundi því margt vekja undrun og spurningar. Stofan bjó jafnan við þröngan húsakost, aðgengi að henni var bæði þröngt og erfitt, jafnvel hættulegt, það sama átti við um öryggismál eins og brunavarnir og meðferð hættulegra efna, sem og frárennsli. Einhverjar áhyggjur höfðu menn en þetta voru tímarnir og valdboð og eftirlit höfðu ekki náð þeim hæðum sem í dag þekkjast.

Um og upp úr 1960 var starfið á efnarannsóknastofunni orðið það umfangsmikið að fleiri komu þar að verkum en forstöðumaðurinn einn með aðstoðarstúlku. Ekki síst voru það jarðræktartilraunirnar undir stjórn Magnúsar Óskarssonar sem ólu af sér þörfina fyrir fjölbreyttar efnagreiningar gras- og jarðvegssýna. Af starfsmönnum er þegar nefnd Hanna Frímannsdóttir úr Reykjavík, sem varð afar fjölhæfur rannsóknamaður, sumarstarfsmaður í fyrstu en síðan ársmaður. Við sögu kom einnig Magnús Ellertsson búfræðikandídat og síðar mjólkurfræðingur sem við stofuna vann í hlutastarfi. Einnig Jón S. Snæbjörnsson búfræðikandídat. Húsmæður á staðnum lögðu sumarstarfi Tilraunastöðvarinnar lið, þær Erla Ragna Hróbjartsdóttir og Eygló Gísladóttir, en Ragna varð er frá leið ársmaður við tilraunastarfið, á sumrum sem aðstoðarmaður við jarðræktartilraunirnar en við efnagreiningar á vetrum.

Þorsteinn Þorsteinsson hvarf frá Hvanneyri vorið 1964 en árið eftir kom Friðrik Pálmason lic. agro til starfa en sérsvið hans var plöntunæringarfræði. Jón S. Snæbjörnsson var ábyrgðarmaður stofunnar tímabilið á milli Þorsteins og Friðriks. Friðrik hélt starfinu áfram í líkum anda og Þorsteinn en meðal nýmæla sem Friðrik tók upp voru sykrumælingar í grösum og síðan mælingar á meltanleika heys (in vitro) sem þá voru almennt að ryðja sér til rúms.

Friðrik hvarf til annarra starfa árið 1967 en kom aftur 1977 og tók þá við sama starfi og fyrr. Jón S. Snæbjörnsson hafði þá enn verið eins konar ábyrgðarmaður stofunnar og hafði aflað sér viðbótarmenntunar í efna- og fóðurfræði við norska landbúnaðarháskólann. Starfsemi stofunnar var þá komin í all mótaðan farveg og má segja að Erla Ragna Hróbjartsdóttir hafi verið orðinn hinn fasti starfsmaður er þar hélt utan um daglegt starf er mestan part snerist um efnagreiningar á grassýnum úr hinum umfangsmiklu jarðræktartilraunum Magnúsar Óskarssonar og heysýnum úr tilraunum Bútæknideildar Rala (áður Verkfæranefndar ríkisins).

Vegna þessara sýna reyndist einnig brátt nauðsynlegt að hafa sérstakan sumarstarfsmann við það eitt að þurrka, mæla þurrefni og búa gras- og heysýni til varðveislu og frekari efnagreininga. Þessu starfi gegndu m.a. Þóra Guðjónsdóttir frá Syðstu-Fossum, Helga Sigurjónsdóttir á Hvanneyri, Sigríður Laufey Einarsdóttir, síðar á Hesti, Jóhanna Hauksdóttir í Neðri-Hrepp og fleiri.

Merkur áfangi þótti það þegar tekið var að mæla meltanleika í heyi er gerði kleift að ákvarða orkugildi þess. Á Rannsóknastofnun landbúnaðarins höfðu verið gerðar mælingar á meltanleika heys með lifandi dýrum (sauðum). Nú varð mögulegt að stytta sér leið með því að nota vambarsafa úr þeim en herma eftir ferlinum í tilraunaglösum (í „glervömb“ eins og kölluð var – in vitro). Með samvinnu við Rala var aðferðin tekin upp á Hvanneyri. Kom sér nú vel að nóg pláss var á Fjósloftinu svo hægt var að ala þar hrúta til þess að skaffa vambarsafann. Brátt leið þó að því að létta þeirri nauð af dýrunum og herma meltingarferilinn með efnafræðilegum aðferðum einum. Kom það í hlut Friðriks Pálmasonar að leiða þá vinnu á efnarannsóknastofunni. Gerðist það laust fyrir 1970. Í kjölfar efldrar samvinnu búnaðarsambandanna á Vesturlandi og Bændaskólans voru þá teknar upp heyefnagreiningar fyrir bændur, efnagreiningar sem urðu um tíma gildur þáttur í starfi efnagreiningastofunnar.

AF FJÓSLOFTI Í FÍNT RANNSÓKNAHÚS Á Fjósloftinu hafði rannsóknastofu verið búinn staður, smár í fyrstu og einfaldur að útbúnaði en smátt og smátt var aukið við. Undra mörgu var hægt að koma fyrir í þessu frumstæða húsnæði. Menn bjuggu í hendur sér og ekki var ónýtt að hafa staðarsmiðinn, Harald Sigurjónsson, nærri sem flestu gat bjargað og flest smíðað. Með tímanum urðu annmarkar á húsnæðinu æ ljósari. Aðgengi að stofunni var afar erfitt eins og fyrr sagði, loftræsting ófullkomin sem og frárennsli og öryggisbúnaður, þar með taldar eldvarnir, þótt asbest væri helsta klæðningarefnið. Mengandi áhrif frárennslis frá stofunni sem gjarnan fór sömu leið og mykjan frá kúnum á neðri hæðinni varð ábyrgum aðilum stofunnar mjög mikill þyrnir í augum og áhyggjuefni um langt árabil. Má segja að flest sem prýða mátti nútíma efnarannsóknastofu hvað umhverfi og aðbúnað snerti hafi verið ófullkomið og sumt beinlínis stórhættulegt.

Hins vegar hafði á stofunni fyrir löngu skapast notalegt og hvetjandi andrúmsloft sem ræktaði skemmtilegan starfsanda. Nemendur Framhalds- og síðar Búvísindadeildar fundu það en um nær 40 ára skeið var stofan helsti vettvangur verklegra æfinga þeirra í efna- og eðlisfræði, líffræði og gerlafræði. Þar urðu fyrstu kynni þeirra af öguðum vinnubrögðum við rannsókna- og fræðistörf. Minnist skrifarinn þess til dæmis að hafa hjá kennaranum Þorsteini Þorsteinssyni frá Húsafelli lært að umgangast öll mælitæki af virðingu og nákvæmni, þrífa vel eftir sig og að koma hverjum hlut á sinn stað aftur að lokinni notkun, auk þess að klæðast hvítum sloppi við efnagreiningar og að forðast að hafa útvarp glymjandi á stofunni.

Litrófsmælir til efnagreininga, frá Klett-Summerson, fenginn á rannsóknastofu Bændaskólans árið 1947. (Úr safni LbhÍ, Hve)

Fyrsta „analysu“-vog Hvanneyrarskóla, frá Eimer & Amend, fengin á rannsóknastofu Bændaskólans árið 1947. (Úr safni LbhÍ, Hve) Það má kalla guðs þakkar vert að slys eða meiri háttar óhöpp urðu engin á fjörutíu ára starfstíma stofunnar á Fjósloftinu. Segir það meira um verkhætti og umgengni starfsfólksins en aðstöðu og búnað stofunnar.

Um 1980 var farið að ræða um nýja aðstöðu til efnarannsókna við Hvanneyrarskóla. Má segja að það hafi verið angi af þeim áhuga sem var á því að efla búvísindanámið enn sem og rannsóknastarf skólans. Hér verður sú saga ekki rakin; aðeins nefnt að haustið 1986 var tekið í notkun stórt, vandað og vel búið rannsóknahús á Hvanneyri. Lausamunir voru fluttir úr stofunni á Fjósloftinu í hina nýju rannsóknastofu en nýr búnaður fenginn að öðru leyti. Varla er hægt að lýsa þeirri breytingu sem varð á allri aðstöðu til efnagreininga og annarra rannsókna með flutningunum. Það kom einkum í hlut Þorsteins Guðmundssonar jarðvegsfræðings og síðar prófessors að leiða starfið, að búa um og móta fyrstu árin í hinu nýja rannsóknahúsi. Ekki má gleyma hlut Aðalsteins Geirssonar örverufræðings og kennara er kom upp á stofunni prýðilegri aðstöðu til örverurannsókna sem þar voru stundaðar um skeið.

En það er af hinu gamla húsnæði að segja að það var tekið til nýrra þarfa. Elísabet Haraldsdóttir keramiker fékk þar hlutaaðstöðu til listsköpunar og vinnslu- sinnar, vel búinni mjaltatækni-kennslustofu var komið þar upp, og síðast en ekki síst var elsta hlutanum breytt í vinnustofu fyrir nemendur fyrsta árgangs í Umhverfisskipulagi, síðar landslagsarkitektúr, við LBH haustið 2000.

Þannig hélt saga húsnæðisins áfram að þræða sig í gegnum árin. Þarfir hvers tíma réðu nýtingu Fjósloftsins og breytingum á því.