5 minute read

Kistuhöfði

Náttúra og not

Land Hvanneyrar er eins konar tunga á milli Hvítár að vestan og Andakílsár að austan. Tungan gengur því til suðvesturs og endar í Kistuhöfða sem rís þar eins og virki í miðjum Borgarfirði. Kistuhöfði stendur vestast í belti kletta, sem mjög einkennir landslag í Andakíl. Hvanneyrarhverfið stendur á því belti. Höfðinn er þó allt annarrar gerðar hvað berg snertir. Þar er líkt og smiður heimanna hafi brætt grjót í aukalega sem soðið hafi upp í eldri jarðlög eða upp úr eldri þeim. Fyrir LX árum var okkur búfræðinemum við Hvanneyrarskóla á grundvelli Jarðfræði Guðmundar G. Bárðarsonar kennt að Brekkufjallið væri „ólagskiptur bergstandur“, eins konar tappi í gígopi. Kistuhöfðinn er smátappi sömu gerðar, ef til vill bara hraungúll. Guðmundur Jónsson skrifaði svo um þetta svæði árið 1939:

Advertisement

Syðst í landi Hvanneyrar skagar til vesturs klettatangi, er nefnist Kistuhöfði. Yzt á höfðanum er klettaborg allmikil með fremur litlu graslendi. Er það kallað Klif, þar sem klettaborgin er hæst þvert yfir, en vestan við Klifið hallar niður að sjó á alla vegu, og vestast í tanganum var til forna talin ágæt lending. Mátti þaðan komast með hesta upp á tangann, en aðeins á einum stað yfir Klifið. Fyrir ofan klettaborg þessa, norðan á tanganum, liggur meðfram holti einu, grasi vaxinn halli, Norðurkinn. En beint þar á móti, sunnanvert á tanganum, er Kríuholt, og við vesturenda þess var til forna lending í lítilli vík. Suður undan Kríuholti eru tvö sker, er nefnast Kríuholtssker, og er þar flæðihætt. Fyrir austan Kríuholt kemur hátt holt, sem ekki ber sérstakt nafn, og má telja, að Kistuhöfðinn nái austur að línu, sem hugsuð væri fyrir norðaustan það og þvert yfir í Hvítá, en um skörp takmörk er ekki að ræða.

Ströndin austan Kistuhöfða með Kistufirði er skorin af víkum. Stærstar eru Dauðsmannsvík, næst höfðanum, þá Miðvík en austast er Syðstavík. Vel er líklegt að í Dauðsmannsvík hafi fundist einhver slíkur rekinn sem farartálminn Hvítá hafði hremmt, eða sem farist hafði í grimmum sjóum á firðinum.

Í dagbókum nemenda á Hvanneyri frá fyrsta hluta tuttugustu aldar er getið dæma um að þeir hafi lent Hvanneyrarskipi við Kistuhöfðann við aðdrætti úr Borgarnesi. Sennilega hefur mátt velja lendingarstaði við höfðann eftir vindátt, bæði fyrir vondu áttunum S-SA og NA, jafnvel líka fyrir vestanátt. Þá hefur varningurinn verið fluttur heim að bæ á hestum eða bara á postulunum. Ég hef svipast um eftir minjum um mannvirki í höfðanum sem gætu bent til lendingar og skipsuppsáturs en ekkert fundið enn svo öruggt sé. Víst er þó að fjörubotn og strönd hafa áreiðanlega breyst töluvert í áranna rás áður en Borgarfjarðarbrú tók að raska vatna- og sjávarfari á þessum slóðum.

Klettar höfðans taka á sig ýmsar myndir. Þar má m.a. sjá þröngar skorur í þeim, sumar sem minna á kistu og gætu þess vegna verið ástæðan fyrir nafngift höfðans. Mér var bent á að

þarna mætti sjá svipaða landmótun og í Kistuvogi, þeim þekkta aftökustað í Trékyllisvík. Ekki er þó vitað til þess að neitt slíkt hafi gerst við Kistuhöfða. En svo er það kistulokið sem vel má sjá norðanvert í höfðanum. Dálítið þungt að vísu en sýnilega hefur einhver samt reynt að lyfta því og gægjast oní byrðuna. Þannig virðist mér auðvelt að tengja nafngift höfðans sjáanlegum landsháttum þar.

En fleira kann að hafa komið til svo hugurinn sé látinn reika. Alþekkt er frásögn Egils sögu um landnám Skalla-Gríms, m.a. um dauða Kveld-Úlfs föður hans í hafi sem þeir „lögðu í kistu ok skutu síðan fyrir borð.“Förunautur Skalla-Gríms, Grímur hinn háleygski, var samkvæmt sögunni fyrr kominn í Borgarfjörð, og hann fann þar kistu Kveld-Úlfs rekna og jarðsetti hann. Vetri seinna flutti Skalla-Grímur hins vegar utan af Mýrum og gerði sér bústað á Borg. Þótt sagan segi að Skalla-Grímur hafi gefið Grími háleyska land í Andakíl, bendir hún einnig til þess að Grímur hafi verið landnámsmaður þar. Kominn sem slíkur á undan Skalla-Grími og hafandi þá fundið kistu Kveld-Úlfs kann hann því að hafa kosið að finna honum leg utan síns landnáms og þá þar sem líklegt var að Skalla-Grímur tæki sér framtíðar bólfestu. Þannig reki örnefnin Kista og Kistuhöfði sig allt aftur á landnámstíma!

Síðustu árin hefur reglulega sést til hafarna við Kistuhöfða. Varp þeirra mun hafa tekist í stöku árum, þótt einnig muni hann hafa átt sér setur úti í Grjóteyrarklakknum, eyju yst á Kistufirði. Skrifleg veiðisaga er til frá byrjun síðustu aldar, varðveitt í dagbók kennara á Hvanneyri 31. maí 1909, en þar sagði m.a.:

Á Kistuhöfða; horft til austurs yfir Víkurnar, Kistufjörður á hægri hönd.

Jeg skaut Örn úti í Kistuhöfða og tel jeg það einn af mestu merkisviðburðum í lífi mínu, því það er mjög sjaldgæft, að slíkt eigi sér stað, því ernir eru nú sjaldsjeðir fuglar.

Hvað um þennan fugl, sem mun hafa verið assa, varð er fátt vitað. Frásögnin er sögumanni svo sem ekki til vegsauka en fjórum árum síðar var haförninn alfriðaður með lögum.

Þessi árin (2020) má oft sjá þennan höfðingja kastalans, Kistuhöfðans, sitja grafkyrran þar á hæsta tróni og horfa einbeittan yfir veiðilendur sínar. Þótt farið sér rólega flýgur hann oftast upp og tekur fallegar svifæfingar yfir gestum sínum, tignarlegur og hljóðlátur.

Fyrir síðustu aldamót var hlúð að æðarvarpi á grónu svæði rétt austan við Kistuhöfðann. Munu hreiðrin hafa verið komin í 50-60 að tölu. Gekk það í nokkur ár en varð að þoka fyrir erninum er hann hóf aftur að venja komur sínar í höfðann.

Sagnir herma að gripir, og þá líklega helst geldneyti, hafi verið geymdir í höfðanum því mjög er auðvelt að girða þvert yfir tangann þar sem hann er mjóstur austan við sjálfan höfðann.

Frá háhöfðanum er afar víðsýnt. Í björtu veðri blasir gervallur fjallahringurinn frá Snæfellsjökli til Hafnarfjalla við. Lega Kistuhöfða í mynni Borgarfjarðar er þannig að óvíða er að finna hentugri varðstöðu. Í ljósi ævintýra fyrri alda má því hugsa sér að þar hefði mátt sjá til mannaferða allt um kring, bæði á landi en enn betur á sjó, auk þess sem þar hefði auðveldlega mátt reisa óvinnanlega borg – kastala. Væri staðurinn t.d. á Skotlandi mundi hann því hugsanlega hafa kallast Fort Chest ! Það að konungur fuglanna hefur valið sér Kistuhöfðann sem setur í óðali sínu segir meira en flest annað um stöðu höfðans í umhverfinu við innanverðan Borgarfjörð.

Þá má vel varpa því fram að nafn héraðsins sé allt eins dregið af þeirri einkennandi borg sem klettahöfðinn er í mynni fjarðarins eins og af klettaborginni upp af bæ Skalla-Gríms?! Kistuhöfðinn hefur blasað vel landnámsmönnum sem komu siglandi inn Borgarfjörð.

Kistuhöfðinn hefur í áranna rás verið vinsæll áfangastaður heimafólks á Hvanneyri sem þangað hefur farið gangandi, ríðandi eða akandi á torfærutækjum. Hvatt hefur verið til varkárni á þeim tíma þegar haförninn er viðkvæmastur fyrir truflun vegna umferðar fólks. Vinsældir höfðans hafa spurst út því almenn umferð þangað virðist hafa vaxið síðustu misserin. Í sjálfu sér er það af hinu góða, svæðið er bæði hrikalegt og óvenjulega í sveit sett – mikilfenglegt til að sjá þarna úti í miðjum Borgarfirði. Hins vegar þarf að fræða gesti um svæðið og gera þeim ljósar þær reglur virða skal þegar farið er um það.