6 minute read

Hvítársiglingar – Hvanneyrarlending

Hvítárbrú við Ferjukot var stórframkvæmd sem breytti mörgu í Borgarfjarðarhéraði, skapaði að ýmsu leyti nýja héraðsmynd og varð sjálf eins konar einkennismerki héraðsins enda með fegurstu samgöngumannvirkjum enn í dag.

Með tilkomu brúarinnar árið 1928 voru lagðir af Hvanneyrarflutningar þverfirðis úr Borgarnesi, og þá um leið „hafnaraðstaðan“ á Hvanneyri; „Sjóargatan“ þar varð eftir það til muna sjaldfarnari. Fljótlega varð Halldór skólastjóri Vilhjálmsson sér úti um flutningabíl – Hvanneyrar-Grána – er lengi þjónaði skóla og búi. Það varð til ný aðal-þjóðgata að skólastaðnum, norðaustur klettaásana í átt til Bárustaða, út á hinn „nýja“ þjóðveg sunnan að og norður um Hvítárbrú. Og margt breyttist: Ein stóru breytinganna varð líka sú að „andlit“ hinna snotru gömlu skólahúsa á Hvanneyri blöstu ekki lengur við gestum staðarins er þeir komu gömlu leiðina – þverfirðis úr Borgarnesi. Eftir „nýju“ leiðinni komu þeir aftan að staðarhúsunum. Við þeim breytingum höfðu staðararkitektarnir Rögnvaldur Ólafsson, Einar I. Erlendsson og Guðjón Samúelsson, eða skipuleggjandi bygginganna, Halldór skólastjóri, ekki séð. Þótt tilraunir hafi verið gerðar til að bæta hér úr hafa þær ekki tekist enn.

Advertisement

Í dagbókum nemenda á Hvanneyri á framanverðri síðustu öld, er þeir færðu sem hluta af námi sínu, er allvíða getið um Borgarnessferðir þeirra á báti. Raunar er saga þeirra hluti af þeim kafla samgöngusögu Borgarfjarðar er gerist á Hvítá og rekur sig sennilega allt aftur til landnámsaldar, sbr. m.a. frásagnir Egils sögu um erindi Borgar-manna til kaupstefnanna inni á Hvítárvöllum. Hvítá var samgönguæð – „hin mikla móða“ sem auðveldaði flutninga og ferðalög um neðri hluta Borgarfjarðarhéraðs en gerði líka sérstakar kröfur um aðstöðu og allan búnað þeirra er leiðina vildu nýta. Þannig var það einnig um lendingarstaði og varir bæjanna við fjörðinn og Hvítána.

Það má til dæmis velta því fyrir sér hvar Hvanneyrarbáti/-skipi hefur verið ýtt á flot og því ráðið til hlunns. Vegna umfangs búreksturs og skólahalds á Hvanneyri er ljóst að flutningaþörfin þar hefur verið umtalsverð, ekki síst þegar staðið var í hinum umfangsmiklu húsbyggingum þar á fyrstu áratugum síðustu aldar. Flutningarnir gerðu ekki aðeins kröfu til fjarðarleiðarinnar heldur einnig leiðarinnar á landi.

Gömlu skólahúsin á Hvanneyri, séð úr vestri (óþ.ljósm.)

Örnefnið Skipalækur gefur strax bendingu um hvar lending kunni að hafa verið en það er lítill lækur sem rann og rennur enn fram vestur undir Ásgarðshöfða fyrir „suðvestan túnið á Hvanneyri . . . mun skipum áður hafa verið lagt þar“, skrifaði Guðmundur Jónsson. Ásgarðshöfðinn er dálítil klettaborg og undir standbergi hennar vestan-og norðvestanverðri hefur verið skjól fyrir verstu veðrunum á Hvanneyri (SA-S). Hefur áreiðanlega komið sér vel að geta geymt Hvanneyrarbát þar undir klettunum. Sjálf lendingin hefur líklega verið breytingum háð því við a.m.k. norðanverðan klettinn eru (nú 2018) aðeins hinar mjúku leirur sem framundan Fitjunum eru. Hins vegar er örlítil sandfjara undir Ásgarðshöfðanum vestanverðum og upp í hana hefur hugsanlega einnig mátt lenda á flóði og ná báti þar upp í góða fjöru.

En þá er það „sjóargatan“. Á uppdrættinum hér til hliðar má sjá götuna, Tröðina, sem lá frá skóla(stjóra)húsinu til suðurs (SSV) samhliða Skemmunni, sem enn stendur, og í átt að Tungutúnslæk. Virðist mér Tröðin hafa stefnt á dálítið klapparvað (hvalbak) sem þar var í læknum, vað sem lítið gat breyst. Óvíst er hins vegar hvernig og hvert sú gata lá þá áfram.

Lengi lá gata frá Tungutúni til vesturs í átt til Ásgarðshöfða. Á meðfylgjandi ljósmynd, sem tekin

„Sjóargatan“ norðanvert í Ásgarðshöfðanum.

Túnkort og uppdráttur af mannvirkjum á Hvanneyri í lok nítjándu aldar, gerður af Magnúsi Jónssyni, nemanda þar 18971899.

er sunnanvert við Ásgarðshólinn, þar sem halla tekur niður á Engjarnar, má greina leiðina áfram niður að meintri Hvanneyrar-lendingu. Er hún lítið eitt hægra megin við Loftorkuturninn sem greina má handan fjarðar á myndinni. Sjóargatan hefur verið sæmilega greiðfær ef frá er talið mýrarslakkið þarna undir holtunum, sem Skipalækurinn rennur um. Það má enn sjá leifar vegarslóðans í Ásgarðs-höfðanum norðanverðum, sjá myndina hér fyrir neðan. Þar virðist hafa verið rudd leið fyrir löngu og hlaðin upp að hluta. Vel getur verið að hún hafi verið til þess að flytja heim hey af Ásgarðsfitinni, sem þarna er fast norðan við. Mér þykir þó sennilegra að flutningar að og frá sjónum hafi verið ástæðan fyrir gerð götunnar.

Nú má nefna það að sunnanvert í Ásgarðshöfðanum er einnig vegarslóði sem nokkuð virðist hafa verið borið í. Hann er á leiðinni með ánni/firðinum suðvestur í Kistuhöfða. Vandséð er hvaða erindi menn áttu þangað um kerrubreiðan veg þar sem ætla má að suðvestur þangað hafi menn helst átt erindi með griparekstur. Vegarslóðinn gæti hins vegar hafa verið gerður til þess að auðvelda flutninga frá sjónum þegar lent var sunnan undir Ásgarðshöfðanum, þar sem sennilega var öllu betri lending en norðan undir honum, eins og áður var gefið til kynna.

Þótt ég kunni lítið sem ekkert til sjómennsku kæmi mér ekki á óvart að vegna sérstakra og síbreytlegra aðstæðna á Firðinum hafi Hvanneyringar stundum þurft að leita lands víðar á ströndinni frá Ásgarðshöfða út í Kistuhöfða, t.d. vegna sjávarfalla, ísreks, vindáttar og –styrks. Þá hefur þurft að gera viðeigandi ráðstafanir í landi vegna flutninganna þar, og m.a. þótt gott að eiga vegarslóða til þess að koma vögnum eða sleðum við . . .

Lendingarstaðirnir á Hvanneyri hafa því sennilega verið fleiri. Skipum (bátum) virðist einnig hafa verið lagt í Heimastokkinn en hann liggur beint fram undan Hvanneyrarstað. Frá honum er styttra að heiman og heim á staðinn en frá Skipalæknum en þar er hins vegar yfir engjar að fara. Vegur þangað niður eftir virðist hafa

Götusneiðin niður á Ásgarðsfitina og í framhaldi af henni gæti „sjóargatan“ gamla á Hvanneyri hafa legið.

verið gerður snemma, ef til vill þegar á níunda áratug nítjándu aldar, þegar Björn Bjarnarson bjó á Hvanneyri en hann gerði merkar vegabætur í ábúðartíð sinni þar. Jafnvel hefur verið enn betra að lenda í Hvanneyrarstokknum sem er norðar en þá var að vísu yfir lengri leið um fitjar og engjar að sullast.

Mér virðist sá kostur hafa verið við lendingu í stokkunum að á háflóði og í sæmilega kyrrum „sjó“ hafi mátt þoka skipi upp í stokkakverk þannig að mjög auðvelt hefur verið að ferma það og afferma: skipið gat jafnvel staðið á föstu/þurru á fjöru og borð þess þá í hæfilegri hæð. Má vera til dæmis að sú aðstaða í Heimastokknum hafi verið notuð árið 1910 þegar öllum þeim ósköpum byggingarefnis, sem þurftu í skólahúsið á Hvanneyri, var skipað í land þar úr Borgarnesi. Ég útiloka ekki að sambærileg aðstaða hafi einnig verið í Skipalæknum þótt nú sé umhverfi þar sennilega orðið töluvert annað en áður var.

Ætla má að frá ári til árs hafi orðið nokkrar breytingar á strandlínunni frá Hvanneyrarstokki og allt suðvestur að Kistuhöfða rétt eins og við núlifandi menn höfum upplifað síðustu áratugina. Líklegt er því að lendingarstaðir /„hafnaraðstaða“ hafi verið eitthvað breytilegir – líka og jafnvel eftir aðstæðum í hverri ferð, einkum þó í vetrarveðrum og eftir ísrek.

Sem aðkomumanni þykir mér þó sennilegt að við Ásgarðshöfðann hafi helsta vör Hvanneyrarhverfisins verið. Þar er land við sjó hvað fastast undir fæti, þar rann fram lækur sem eflaust mótaði hæfilega vör – Hvanneyrarvör, þar var þægilegt og sæmilega öruggt að geyma bát og síðan það sem trúlega er helsta sönnunartáknið: að lækurinn kallaðist Skipalækur. Undir lok skipaflutninga í þágu Hvanneyrarskólans benda heimildir til þess að Heimastokkurinn hafi hins vegar verið sú „vör“ sem tíðast var notuð enda þá kominn þangað sæmilega greiður vegur.

Vitað er að ferðir á Borgarfirði/Hvítá gátu verið erfiðar og afar varhugaverðar og ekki dæmalaust að mannskaðar hafi orðið í þeim. Halldór skólastjóri Vilhjálmsson mun til dæmis aldrei hafa verið rólegur þegar hann vissi af sínu fólki á Hvanneyrarbáti á leið um fjörðinn. Hann hafði misst fjóra heimilismenn sína í ána í hræðilegu slysi á fyrsta vetri sínum sem skólastjóri. Má því ímynda sér hvílíkur léttir það varð honum og mörgum öðrum er Hvítárbrú opnaði öruggari kaupstaðarleið.

This article is from: