18 minute read

Hvanneyrarmjólk

Frá náttúrunnar hendi er gott undir bú á Hvanneyri. Fyrr á tíð munaði mest um engjalöndin meðfram Hvítá. Áin með framburði sínum og samspili við salt vatn fjarðarins gerði Hvanneyri að gersemisjörð til heyskapar gamla tímans. Þegar nýrækt túna hófst reyndust hallamýrarnar austur af bænum einnig hið frjósamasta ræktunarland.

Lítið er vitað um búskap á Hvanneyri framan af öldum. Sé sagan um landnám Gríms háleyska rétt má telja víst að hann hafi þegar gert gripahald til mjólkurframleiðslu að meginstoð landbúskapar síns og þá líklega helst með ræktun nautgripa. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu Jarðabók héraðsins árið 1707 bjuggu fimm bændur á Hvanneyri. Þeir höfðu samtals 24 kýr og 85 ær, og þá líklega mjólkurær. Kúgildin hafa því reiknast 24 + 85/6 ~ 38, sem telja verður vænan bústofn í ljósi síðari tíma umfangs búskapar á Hvanneyri.

Advertisement

SAUÐAMJÓLK – KÚAMJÓLK Þótt Hvanneyri hafi á síðari árum fyrst og fremst verið talin kúajörð er ljóst að sauðamjólk hefur einnig verið mikilvæg afurð Hvanneyrarbænda áður fyrr. Nægir þar að benda á örnefni og minjar, svo sem örnefnin stekkur og sel, sem bæði vísa til mjólkurfjár. Sagt er til dæmis að býlið Staðarhóll við Hvanneyri hafi verið byggt „um 1670 á stekkjarstæði“ Hvanneyrar-jarðarinnar. Þar heitir líka Stekkjarlág. Skammt sunnan við bygginguna Ásgarð eru Stekkjarholt og vestanvert í þeim mótar enn fyrir tóftum eins og sagt var frá hér að framan. Tóftirnar eru tengdar grjótgirðingu (-vegg) um nátthaga sem þarna er og mun líklega vera sú sem nemendur Búnaðarskólans hlóðu þarna á árunum 1903-1905. Það bendir til þess að þá hafi enn verið mjólkurær á Hvanneyri. Við vegarslóðann sem liggur frá Tungutúnsborg suðaustur að Andakílsá eru glöggar tóftir fast við slóðann. Þar virðist hafa staðið stekkur eða að minnsta kosti mjaltakví, sjá pistil hér að framan.

Í Kistu, tanganum syðst í landi Hvanneyrar við Andakílsá er örnefnið Selhóll.

Og úr því að nefnd eru sel skal því haldið til haga að samkvæmt máldaga frá 1463 átti Hvanneyrarkirkja selför í Indriðastaðaland í Skorradal. Hvort og hvernig sá réttur hefur verið nýttur veit enginn lengur. Þar hefur fengist kostameira beitiland en heimalandið því varla verður sagt að Hvanneyrarjörðin hafa verið gott sauðland frá náttúrunnar hendi: Mest votlendi og blautar mýrar fyrir daga framræslu þeirra. Þegar Halldór Vilhjálmsson hóf þar rekstur skóla og búskap gramdist honum hve lömb af þessu landi voru rýr til frálags og leitaði því annarra vor- og sumarhaga fyrir sauðfé sitt.

Um minjar þessar er fjallað í öðrum Hvanneyrarpistli.

Ekki er vitað með vissu hvenær mjólkurframleiðslu með ám lauk á Hvanneyri. Sennilega

þó með búskap Hjartar Snorrasonar skólastjóra. Muna má samt að sumurin 1996-1997 stóð Sveinn Hallgrímsson, þá kennari á Hvanneyri, fyrir tilraun við skólann þar sem fært var frá ám um miðjan júlí og þær mjólkaðar fram í ágústlok. Úr mjólkinni voru gerðir ostar í Mjólkursamlaginu í Búðardal sem þóttu góðir.

„TEITUR BÝR MEÐ TUTTUGU KÝR Í FJÓSI“. . . Stefán Stephensen amtmaður nýtti sér vel landkosti Hvanneyrarjarðarinnar er hann bjó á Hvanneyri um nokkurra ára skeið í byrjun nítjándu aldar. Í ferðabók sinni segir McKenzie frá komu sinni að Hvanneyri sumarið 1810.Segir hann bú amtmannsins „reconed the best in the island“. Þá voru fimmtíu kýr á Hvanneyri og tvö eða þrjú hundruð fjár auk annars búsmala. Tekur McKenzie fram að amtmaður afli nægra heyja til vetrarfóðurs fyrir hinn stóra bústofn. Ekki hefur það heldur verið lítil vinna að koma ársnyt 50 kúa í mat, sem ætla má að hafi verið 80 þúsund lítrar eða meira – það er um 220 lítrar á dag að meðaltali. Þar að auki hefur án efa fengist mikið af sauðamjólk á sumrum. Fátt er vitað um mjólkurvinnsluna á búi amtmannsins. Hins vegar lifði fjóshaugur hans lengi – Amtmannshaugurinn – rétt framan við sáluhlið garðs Hvanneyrarkirkju. Hann var eitt af því fyrsta sem fyrstu nemendur og skólastjóri Búnaðarskólans tóku til við að gera verðmæti úr, um 1890.

Um miðbik nítjándu aldar bjó Teitur Símonarson á Hvanneyri; hann hafði einnig mikið umleikis og fór orð af búskap hans og höfðingsskap. Um hann var m.a. kveðið:

Teitur býr með tuttugu kýr í fjósi. Fingra-týrinn fanna snar fylki stýrir Hvanneyrar.

Mjólkurframleiðsla Teits hefur því verið langt umfram heimilisþarfir hans svo ætla má að hann hafi sett á markað (nær eða fjær) töluvert af afurðum sínum. Um það eru þó fáar heimildir.

Þegar settur var búnaðarskóli á Hvanneyri árið 1889 hafði verið ákveðið að nemendur skyldu m.a. læra meðferð og tilbúning á osti og smjöri, auk hirðingar nautgripa og bóklegs náms í þeirri búgrein. Sveinn Sveinsson, fyrsti skólastjórinn, kom sér upp einum tíu kúm, auk áa. Byggt var fjós. Strax fyrsta vorið aflaði Sveinn sér jarðvinnsluáhalda, enda þá allt kapp lagt á að efla jarðræktina, en einnig varð hann sér úti um mjólkurvinnsluáhöld frá Noregi. Sveinn var raunar kunnáttumaður í mjólkurmeðferð; hafði m.a. leiðbeint um hana sem búfræðingur (ráðunautur) á vegum Búnaðarfjelags Suðurtamtsins. Starfsár Sveins á Hvanneyri urðu hins vegar aðeins þrjú.

Sumarið 1896 kom Feilberg, hinn danski búfræðingur sem rækilega kynnti sér íslenskan búskap í lok nítjándu aldar, að Hvanneyri. Þá voru þar 14 kýr. Virðist smjör þá hafa verið unnið þar til sölu á Reykjavíkur-markaði enda var þá vaxandi áhugi á smjöri ekki síst á erlendum

mörkuðum. Feilberg taldi að með bættum samgöngum og hinum einstöku engjalöndum Hvanneyrar verði jörðin „en rentable Ejendom“ með möguleikum til kjötframleiðslu og starfrækslu mjólkurbús „som vel næppe noget andet Sted paa Island.“

HJARTARFJÓS, RAGNHEIÐUR OG MJÓLKURSKÓLINN Áhugi fyrir mjólkurframleiðslu og vinnslu smjörs til útflutnings óx mjög á allra síðustu árum nítjándu aldar. Til þess lágu einkum tvær ástæður: Annars vegar sú að markaður fyrir lifandi sauði á Bretlandseyjum, sem skapað hafði tekjur og eflt umsvif í mörgum íslenskum sveitum, lokaðist. Það kallaði á leit að nýjum leiðum fyrir afurðir landbúnaðarins. Hin ástæðan var vaxandi markaður fyrir smjör í Bretlandi, markaður sem danskir bændur höfðu þá þegar tekið að nýta sér. Það kitlaði framsækna íslenska bændur. Í þeim hópi var Hjörtur Snorrason skólastjóri og í höndum hans efldist mjólkurframleiðslan á Hvanneyri. Árið 1900 reisti Hjörtur m.a. fjós fyrir sextán gripi, sem árið eftir var stækkað þannig að það rúmaði alls 40 kýr auk kálfa. Fjós Hjartar varð eitt fyrsta steinfjósið sem reist var hérlendis.

Hjörtur skólastjóri, kominn með hið nýja fjós, reyndi fyrir sér með smjörsölu á erlendan markað. Á síðasta sumri nítjándu aldarinnar var sent dálítið af smjöri frá Hvanneyri og tveimur öðrum búum, m.a. til Englands Hinn erlendi markaður var kröfuharður og í blaðafregn sagði meðal annars:

Fáir munu hafa varað sig á því hér, að mikill munur mundi gerður þar í milli, og líklegast alls ekki orðið hans varir, þótt bragðað hefðu á þessum smjörsendingum öllum þremur. En Englendingurinn var ekki lengi að finna muninn. Hann gaf 90 aura fyrir Hvanneyrarsmjörið, en 45 a. [aura] fyrir hitt.

Áreiðanlega lá mismunurinn í verkkunnáttu Ragnheiðar Torfadóttur verðandi húsfreyju á Hvanneyri sem lært hafði mjólkurmeðferð í Danmörku. Hún var nýlega orðin heimilismaður á Hvanneyri og hefur mjög líklega verið byrjuð að starfa að smjör- og ostagerð þar. Haustið 1900 gengu þau í hjónaband Hjörtur og Ragnheiður. Ragnheiður var dóttir Torfa Bjarnasonar skólastjóra í Ólafsdal og verðskuldar nánari kynningu:

Ragnheiður nam í Danmörku veturinn 1898 og fram í ágúst hjá frú Hanne Nielsen á búgarðinum Havarthigaard við Holtestation skammt frá Kaupmannahöfn. Frú Nielsen framleiddi bæði framúrskarandi smjör og osta, m.a. roquefort, gorgonzola og havarti, sem dregur nafn af búgarðinum. Hún hafði kynnt sér ostagerð sunnar í álfunni, hafði marga danska og erlenda nemendur og Havarthigaard var þekktur langt út fyrir landsteinana. Eftir námsdvölina hjá frú Nielsen fékk Ragnheiður að vera einn mánuð á „Andelsmejeriinu“ (mjólkursamlaginu), svo að hún hefði sem mest gott af tímanum í Danmörku. Ragnheiður Torfadóttir frá Ólafsdal.

Ragnheiður hafði beðið föður sinn, Torfa, að reyna að fá handa sér styrk, „svo sem 100 kr. úr sýslusjóði og annað eins frá amtinu“, til sumarnámsins hjá frú Nielsen, sem ætlaði þá að gera roquefortost Ragnheiðar vegna. Ekki leit út fyrir, að hún fengi styrk frá amtinu og í bréfi til föður síns segir hún: „Mjer þykir það gróflega skrýtið hjá blessuðum amtmanninum að láta mig gjalda þess, að jeg er fröken.“ Ragnheiður hvatti eindregið til þess, að í Ólafsdal yrði hafin gerð roquefortosts, einkum úr sauðamjólkinni, og reynt að senda ostinn til Englands. Hún lýsir aðferðum frú Nielsen við smjör- og ostagerðina, segist ekki geta hugsað sér annað en það megi gera jafngóða osta á Íslandi og sér þætti gaman, að faðir hennar gæti sett upp svolítið „mejeri“ heima í Ólafsdal. Hún segir allar aðstæður þar góðar til ostagerðar og hún muni verða ábatasöm með tímanum . . .

Mjög líklega átti Ragnheiður einnig draum um að koma upp „mejeríi“ á Hvanneyri. Það fór hins vegar svo að hinum nýja Mjólkurskóla Búnaðarfélags Íslands, sem mennta skyldi verðandi rjómabústýrur landsins, var komið fyrir þar. Samið var um að hann nyti aðstöðu hjá Búnaðarskólanum, þ.m.t. hvað snerti kaup mjólkur til verklegu kennslunnar. Hjörtur skólastjóri var ekki fyllilega sáttur við þá ráðstöfun, eins og fjallað hefur verið um á öðrum stað, en gekk til samstarfsins skv. gerðu samkomulagi. Um hlutskipti Ragnheiðar húsfreyju er minna vitað.

Mjólkurskólanum voru útveguð tæki og áhöld til kennslunnar sem hófst 1. nóvember 1900. Gera má ráð fyrir að þá hafi tæknin við mjólkurvinnslu í Mjólkurskólanum verið eins og best gerðist á þeim tíma. Allt fékk það starf hins vegar snöggan endi með stórbruna á Hvanneyri 6. október 1903, en þá brunnu skólahúsin tvö: Búnaðarskólans og nýtt hús Mjólkurskólans. Varð að flytja starfsemi Mjólkurskólans til Reykjavíkur. Hvarf hann þá úr sögu Hvanneyrar en þar fengu menn hins vegar fullar hendur við að reisa Búnaðarskólann úr brunarústunum. Fer nú ekki sögum af mjólkurmálum á Hvanneyri fyrr en Halldór Vilhjálmsson tók við skólanum árið 1907.

HALLDÓRSFJÓS OG RÍKI KRISTJÖNU JÓNATANSDÓTTUR Áður en Halldór tók við Hvanneyrarskóla hafði hann m.a. leiðbeint um mjólkurvinnslu hjá rjómabúunum sunnanlands. Var hann þeim málum því kunnugur að því við bættu að hann hafði numið mjólkurfræði við búnaðar- og mjólkurfræðiskólann á Dalum í Danmörku. Fáir Íslendingar voru því betur að sér um mjólk og mjólkurvinnslu á þeim árum. Halldór hófst þegar handa um frekari umbætur í nautgriparæktinni á Hvanneyri. Hann lagði herslu á að bæta ræktun kúnna og að auka afurðir þeirra, einnig með fóðurverkun og fóðrun; gerði m.a. merkar athuganir og tilraunir á því sviði. Vorið 1908 keypti Halldór nautið Cæsar, rauðan að lit og óvenju vel gerðan og kyngóðan tudda, frá Eggert Finnssyni á Meðalfelli í Kjós. Gætti áhrifa Cæsars um áratugi í nautgripunum á Hvanneyri enda mun skyldleikaræktun þar hafa verið mikil.

Svo virðist sem Halldór hafi strax tekið mjólkurvinnsluna föstum tökum. Hann réði til sín rjómabústýru, Kristjönu Jónatansdóttur frá Fjalli í Aðaldal, er numið hafði við Mjólkurskólann á Hvanneyri og síðan í Danmörku. Annaðist hún mjólkurvinnsluna

á Hvanneyri nær óslitið til vors 1936 , sjá mynd á bls. 20. „Voru þar um langt skeið framleiddar mjólkurafurðir, sem þóttu bera af sams konar vörum annars staðar frá, Hvanneyrarrjómi og Hvanneyrarskyr. Og Halldór fór ekki dult með það, að þetta væri fyrst og fremst rjómabústýrunni hans að þakka, henni Kristjönu“, skrifaði Guðmundur Jónsson. Mjólkurvinnsla hefur líklega ekki í annan tíma orðið umfangsmeiri Hvanneyri en á árum Halldórs Vilhjálmssonar, þegar allt að 80 kýr voru í fjósi.

Til þess að forvitnast um vinnubrögð við mjólkurvinnslu á þeim tíma bað ég tvo nemendur Halldórs rifja upp minningar sínar, þá Guðmund P. Valgeirsson í Bæ í Árneshreppi, sem nam á Hvanneyri árin 1925-1927og Friðbert Pétursson í Botni í Súgandafirði er var nemandi á Hvanneyri 1929-1931, en þá hafði nýtt og stærra fjós verið tekið í notkun.

Guðmundur í Bæ skrifaði m.a.:

Þó við strákar gerðum okkur nokkrar ferðir í mjólkurbúið til að kaupa okkur skyr og rjóma þar, til þess að gera okkur dagamun í fremur fábreyttu daglegu lífi og til að bæta ögn úr því einhæfa og fábreytta fæði sem við bjuggum við, þá veitti maður því ekki mikla athygli hvernig þetta var unnið eða hvaða tæki voru notuð. Það má því segja að þetta sé gleymt mér a.m.k.

Í því efni er líklega minn bjálfaskapur meiri en annarra, hvað lítið ég man um þetta. Þar sem ég aðstoðaði mjólkurbústýruna í tvo eða þrjá daga við að skilja mjólkina þegar rafmagnið bilaði svo að það gat ekki nýst til að skilja mjólkina sem unnið var úr. Rafmagn var þá komið frá mótor sem komið var fyrir í neðri hluta kjallarans undir skólanum [Gamla skólanum]. – Hinum megin var matsalur skólapilta. –

Var mjólkin skilin í rafknúinni skilvindu sem nú var ekki virk. En til vara var stór skilvinda handsnúin og henni var ég látinn snúa þessa daga . . . Þann tíma sem ég var á Hvanneyri var Guðrún Guðmundsdóttir frá Skálpastöðum mjólkurbússtýra . . .

Ekki er vert að teygja meir lopann um þetta efni heldur reyna að svara þeim spurningum sem þú berð fram.

▶ 1. Mjólkurvinnslan fór fram í norðausturhorni skólastjórasetursins. Mig minnir að inngangur í hann hafi verið við eða undir tröppunum sem lágu upp á efrihæð (miðhæð hússins).

▶ 2. Eins og ég áður sagði var Guðrún frá Skálpastöðum bústýra og sá um alla vinnslu mjólkurinnar, sem ekki fór beint á sölumarkað í Reykjavík. Ég vissi ekki til að [Guðrún] hefði annað starf á hendi. Hygg líka það hafi verið meira en nóg. Man heldur ekki hvort hún hafði aðstoðarstúlku, má þó vera.

▶ 3. Að gera grein fyrir þeim áhöldum, sem notuð voru, á ég ekki hægt með svo á því sé að byggja. Ég minntist á skilvinduna. Þá rafknúnu og hina handsnúnu til vara. – Sú rafknúna var, að mig minnir nokkuð stór. Þá var þar tankur sem tók við undanrennunni. – Stórt ker var þar á gólfinu sem skyrið

var hleypt í (Gæti hafa verið líkt og stórt baðkar á nútímavísu). Trúlega var það emelerað að innan. Þá hefur verið þar skyrsía, þó ég muni ekki sérstaklega eftir henni. Mysan úr skyrinu var notuð sem fóður fyrir kálfa og svín þau sem þar voru o.fl. Þá hafa verið smjörgerðaráhöld. En ég man ekki eftir þeim svo ég fari út í að lýsa þeim.

▶ 4. Nemendur skólans komu ekki að þessu svo ég muni, nema þá í tilfellum eins og ég lenti í.

▶ 5. Allt var rafknúið þar sem því var hægt að koma við – þar voru hjól og og reimar þar sem við átti.

Ekki veit ég hvaðan þessi áhöld voru komin. Líklegt þætti mér að Halldór hafi flutt þau inn frá Danmörku eða Svíþjóð. Hugsanlegt er að þau hafi verið fengin úr búinu á Hvítárvöllum, sem lagt hafði verið niður.

Mig minnir að um 60 mjólkandi kýr hafi verið á búinu þessi ár. Mjólkurframleiðsla var mikil miðað við þá tíma. Megnið af mjólkinni var strax sett í brúsa og þeim komið í kæli. – Sá kælir þætti nú ófullkominn, og var það. – Hálfgert jarðhýsi grafið í jörð neðst í túnkinninni niður af kirkjunni sem næst því er vegurinn niður á Fitina og að stokknum þar sem báturinn (Hvanneyrarbáturinn) lá. Þakið var yfir það með þykku torflagi. Í það var mokað snjó á vetrum og hann notaður til kælingar. Þessi mjólk var svo flutt í bátnum til Borgarness í sambandi við ferðir Suðurlandsins til Reykjavíkur þar sem hún fór á sölumarkað. En nokkur hluti mjólkurinnar fór í mjólkurbúið til vinnslu í mataræði heimamanna og einnig á sölumarkað í Reykjavík.

Frá búinu var selt skyr, rjómi og ostar – og líklega smjör, því lítið var notað af því á matborð vinnufólksins, þetta fór sömu leið og mjólkin með bát í Borgarnes og þaðan til Reykjavíkur á sölumarkað. Með hverjum hætti það var veit ég ekki.

Þegar ég kom að Hvanneyri bar margt fyrir augu mín, sem ég hafði aldrei áður kynnst eða látið mér til hugar koma. Eitt af því sem mér þótti bæði spaugilegt og frumstætt var að sjá Bauja gamla [Böðvar Gíslason 1886-1955, . . . „sem lengst allra hefur starfað við hirðingu [Hvanneyrarkúnna] og lengur öllum öðrum hefur unnið á Hvanneyri eftir að skóli var settur þar á stofn.“ ] . . . rogast með mjólkurbrúsana frá fjósinu heim á hlað að dyrum mjólkurhússins í burðarklafa sem lá á herðum hans og öxlum. Hann var haldinn miklum astma og gekk upp og niður af mæði. Samt var hann látinn rogast með þessar þungu byrðar. Ég held hann hafi verið gæddur miklu þreki, enda samanrekinn. En þetta var honum erfitt.

Sumarið 1926, sem ég var þarna, kom nýtt tæki til að létta þessa flutninga. Það var pallvagn á lágum hjólum, sem Bauji dró og ýmsir urðu til að kippa í með honum en erfitt eigi að síður. – Þarna voru tveir harðduglegir fjósamenn, þeir Tryggvi Samúelsson, síðar fangavörður, og Jón Kristjánsson frá Skerðingsstöðum, tóku oft í vagninn með Bauja. – En það er önnur saga. Auglýsing í Vísi 22. júní 1928. Í Tjarnargötu 5 í Reykjavík verslaði Guðrún Jónsdóttir, kölluð Gunka (1865-1937), en við hana hafði Halldór skólastjóri samið um umboðssölu mjólkurafurða frá Hvanneyri.

Og Friðbert í Botni skrifaði m.a.:

Rétt er muna í þessu sambandi að skólinn og búið var ekki eitt og sama, þó Halldór hefði hefði yfirstjórnina á hvorutveggja. Búið rak hann fyrir sinn reikning, en skólann fyrir ríkið. Þess vegna lærðum við t.d. Mjólkurfræði án þess að styðjast við mjólkurvinnsluna á staðnum og þótti sumum ófært. Þess vegna man ég of lítið um mjólkurvinnslutækin til þess að geta sagt frá þeim svo öruggt sé. Mjólkurvinnslan fór fram í neðri hluta kjallara íbúðarhúss skólastjóra. Þetta var í raun ríki Kristjönu Jónatansdóttur mjólkurbústýru en ekki annarra. Hún hafði enga hjálp að jafnaði, en hún kunni sitt fag, lærði mjólkurvinnslu í Danmörku var mér sagt. Þetta var framúrskarandi kona að dugnaði og þekkingu, enda voru mjólkurvörurnar frá Hvanneyri þekktar um land allt fyrir gæði, smjörið, rjóminn og ekki síst Hvanneyrarskyrið. Enda fór Halldór Vilhjálmsson hin mikla kempa ekki dult með álit sitt á Kristjönu. Hann hafði lært mjólkuriðn í Danmörku og gat því dæmt um gæðin á vörunni.

Mest af vörunni var sett til Reykjavíkur – með bíl í Borgarnes og þaðan með skipi . . .

Nýtt Hvanneyrarskyr auglýst í Morgunblaðinu 11. febrúar 1933.

Þorsteinn Guðmundsson, nemandi á Hvanneyri 1921-1923 og síðar bóndi á Skálpastöðum í Lundarreykjadal, hafði svipaða sögu að segja og þeir Guðmundur og Friðbert. Hann sagði mjólkurafurðir hafa verið fluttar allt að því tvisvar í viku með báti úr Heimastokki á Hvanneyri í Borgarnes og þaðan með skipi til Reykjavíkur; skyr í tunnum en rjóminn í brúsum.

Þegar krafa um gerilsneyðingu mjólkurvara var sett samdi Halldór um það við Mjólkurfélag Reykjavíkur haustið 1933 að selja allan rjóma búsins „fyrir sama verð og meðlimi sína.“ Skyldi félagið afhenda Halldóri [óseldan] sama rjóma, „án þess að honum sé blandað saman við aðra vöru“, en Halldór „halda sama útsöluverði á rjóma og Mjólkurbandalag Suðurlands ákveður á hverjum tíma.“

Á þeim árum virðist Matarfélag nemenda hafa átt mjög takmörkuð viðskipti við bú Halldórs og jafnvel keypt neyslumjólk á nálægum bæjum. Reykjavíkurmarkaðurinn gaf vel enda mun bú Halldórs hafa dafnað prýðilega. Nemendur ráku sitt eigið mötuneyti, sagði Þorsteinn á Skálpastöðum, og þar var allt sparað til hins ítrasta. Aðeins var notað smjörlíki ofan á brauð, að vísu vel útilátið. Undanrenna var höfð til drykkjar og grautagerðar en nýmjólk sáralítið ef nokkuð. Undanrennan var fengin úr (rjóma)búi Halldórs. Ekki minntist Þorsteinn þeirra áhalda sem þar voru notuð. Hann taldi Hjört Snorrason ekki hafa stundað viðlíka mjólkuriðnað og Halldór enda bú Hjartar mun minna. Hefði Halldór því sennilega orðið sér úti um áhöldin sem notuð voru.

Halldór Vilhjálmsson sendi afurðir sínar víðar en til Reykjavíkur. Hann átti viðskipti við verslanir á Vesturlandi og Vestfjörðum, meðal annars við verslun Bjarna Eiríkssonar í Bolungavík og þá með fleiri landafurðir.

Árið 1936 urðu miklar breytingar á Hvanneyri. Halldór skólastjóri hafði veikst af ólæknandi krabbameini er dró hann til dauða þá um vorið. Búreksturinn varð hluti af rekstri skólans eftir að dánarbú Halldórs skilaði honum af sér vorið 1937. Við tóku nýir hættir undir stjórn Runólfs Sveinssonar skólastjóra. Í viðskiptaumhverfi landbúnaðarins hafði einnig mikið gerst með tilkomu nýrra laga um afurðasölu hans og –vinnslu, sem sett voru árið 1934. Með þeim var meðal annars komið á samsölu á mjólk. Þrengdust þá kostir þeirra bænda sem selt höfðu mjólk sína og mjólkurafurðir „beint frá býli“, eins og nú er sagt, en jafnframt varð afsetning mjólkurinnar bændum almennt auðveldari en áður. Þann 10. febrúar 1932 hóf Mjólkursamlag Borgfirðinga í Borgarnesi að taka á móti mjólk. Ekki mun þó hafa verið farið að senda Hvanneyrarmjólk þangað fyrr en á árinu 1935 megi marka frásagnir nemenda, sem þá voru á Hvanneyri. Lauk þar með sérstæðum kafla í mjólkurframleiðslu og –vinnslu á skólastaðnum. Rjómabústýran hans Halldórs, hún Kristjana Jónatansdóttir, var þá enda orðin roskin og farin að kröftum.

NOKKRIR SÖGUÁFANGAR Síðustu öldina hefur margt breyst hvað varðar mjólkurframleiðslu á Hvanneyri, svo ólíklegt er að fjósamaður þar haustið 1920 mundi kannast við nokkuð nema kýrnar, mjólkina og hugsanlega heyið kæmi hann í Hvanneyrarfjósið í dag. Til gamans má tíunda nokkra söguáfanga og þá aðeins á stikkorðaformi; þeir eru þó í misnánum tengslum við mjólkina:

1890: Nýtt fjós (Sveinsfjós), fyrir 14 nautgripi, og sennilega annað árið 1895.

1900: Nýtt fjós, Hjartarfjós, reist fyrir 16 nautgripi; lengt árið eftir svo rúmaði 40 kýr og 8 kálfa.

1900: Mjólkurskólinn hóf starf 1. nóvember; sérstakt skólahús tekið í notkun á Þorláksmessu 1901.

1903: Hús Búnaðarskólans og Mjólkurskólans brunnu til grunna aðfaranótt 6. október.

1928: Nýtt fjós, Halldórsfjós, tekið í notkun.

1929: Mjaltavélar teknar í notkun; notaðar til 1937 en þá var hætt að nota þær . . . „hafa vafalaust minnkað mjólkurmagnið og skemmt kýrnar varanlega, einkum hinar ungu kýr“, skrifaði

Guðmundur Jónsson.

1946: Mjaltavélar teknar upp að nýju og voru notaðar úr því.

1949: Sæðingastöð Sambands nautgriparæktarfélaga Borgarfjarðar hóf störf með aðstöðu í

Halldórsfjósi, syðst í kjallara þess. Nautin voru nyrst í fjósinu.

Um 1950: Taða af ræktuðu landi verður meiri hluti vetrarheyfóðurs á kostnað útheys af engjalöndum Hvanneyrar.

1963: Tekið að mjólka kýrnar á mjaltabás með rörmjaltakerfi, í stað þess að mjólka þær í vélfötur á básum sínum eins og áður hafði verið gert.

1965: Naut Sæðingastöðvarinnar flutt úr Hvanneyrarfjósi í nautafjósið á Pálstanga, síðar Nautastöð

Búnaðarfélags Íslands.

1966: Hafin tilraun með mjólkurtank við rörmjaltakerfið sem síðan leiddi til tankvæðingar.

1979: Básum fjóssins, jötum og fleiru breytt í samræmi við kröfur nýrra tíma. Þá (?) voru einnig settir rimlaflórar í stað hinna lokuðu flóra sem áður voru í fjósinu.

2004: Nýtt fjós, (Magnúsarfjós), tekið í notkun 11. ágúst.

2008: Fyrsti mjaltaþjónninn (robot) í Hvanneyrarfjósi tekin í notkun – í ágúst.

Frá árdögum mjaltabáss í Hvanneyrarfjósi 1963. Fjósameistarinn Bjarni H. Johansen mjólkar. (ljósm. Ólafur Guðmundsson).