
10 minute read
Örnefni í Hvanneyrartúni og tilurð þeirra
Hvarvetna voru örnefni mikilvægur þáttur í daglegu lífi fólks – og eru víða enn. Þau voru nauðsynleg við mörkun og setningu staða í samræðu, tilvísunum og verkum, hvort heldur var á landi eða sjó, GPS-punktar sinnar tíðar. Örnefnin urðu til með ýmsum hætti. Mörg hver bárust á milli kynslóða og ábúenda einstakra jarða en önnur týndust, breyttust eða viku fyrir nýjum. Svo sem margir hafa rakið má ýmsan fróðleik til viðbótar staðarviðmiðuninni lesa úr örnefnum, fróðleik um staðhætti, náttúrufar, landnýtingu, atvik og sögu. Hér verður litlu við þau fræði bætt með almennum hætti heldur vikið að þeirri þörf fyrir ný örnefni sem fylgdi í kjölfar túnræktarbyltingar tuttugustu aldar þegar til urðu nýjar túnspildur, margar skýrt afmarkaðar af framræsluskurðum. Heyskapur færðist þá af engjalöndum, þar sem hver spilda hafði gjarnan sitt nafn, yfir á nýræktir, sem þá kölluðu á heiti svo auðvelda mætti viðmiðun í samræðum, og afmörkun í túnbók sem ýmsir tóku að færa sér til búnaðarbóta að hvatningu leiðbeiningaþjónustu landbúnaðarins. Mörgum varð að vísu fyrir að nota þar aðeins spildunúmer en spildunöfn hafa jafnan verið mönnum mun tamari í daglegu tali.
„Hver einn bær á sína sögu“ segir á einum stað og á það áreiðanlega við um það hvernig örnefni hinna nýju ræktunarlanda urðu til. Sem dæmi um slíka örnefnasmíði verður í þessari grein því fjallað um nokkur örnefni í Hvanneyrartúni.
Advertisement
HVANNEYRI – BYGGÐAHVERFI VERÐUR SKÓLASTAÐUR Hvanneyri er talin vera landnámsjörð. Svo langt sem opinberar skrár ná var þar margbýli og byggðin sett umhverfis aðalbýlið (heimajörðina) svo talað var um Hvanneyrarhverfið. Árið 1889 var settur búnaðarskóli á Hvanneyri og hurfu smábýlin undir þá stofnun. Nöfn flestra smábýlanna lifa enn í nöfnum íbúðarhúsa á staðnum: Tungutún, Svíri, Staðarhóllog Ásgarður, það síðast nefnda er nú heiti á aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
Helsta heyskaparlandið var á hinum gjöfulu engjalöndum vestan við byggðina – meðfram Hvítá og þá auðguð næringu frá vetrarflóðum hennar. Tún voru smá en tóku brátt að vaxa m.a. sem námsvettvangar verknámsnemenda skólans í ræktunarstörfum. Austan við Hvanneyrarhverfið var mýrlendi og flóar, svæði sem tekið var til túnræktunar í kjölfar nýrrar verktækni við framræslu og jarðvinnslu um miðbik síðustu aldar. Þar urðu Hvanneyrartún nútímans til; urðu helsta heyskaparland Hvanneyrarbúsins en þýðing engjalandanna minnkaði að sama skapi. Hvanneyrartúnin urðu því hvað helsti starfsvettvangur kaupafólks og verknámsnemenda Bændaskólans, og þá kom þörfin fyrir nöfn til staðartilvísunar að sjálfsögðu til sögunnar. Með dvínandi heyskaparumferð um Hvanneyrarengjar hurfu nöfn spildnanna þar í gleymsku. Þetta er saga sem sambærileg er mörgum öðrum íslenskum bújörðum. Hins vegar hefur Hvanneyri ekki haft sambærilega festu í búsetu fólks og víða hefur gerst á hefðbundnum bújörðum: Nemendur dvöldust aðeins um skamman tíma á skólastaðnum, sama gerðist um marga starfsmenn og þó að skólastjórar og ráðsmenn hafi flestir eignast drjúgan starfsaldur við skólann hefur „mannaveltan“ verið fremur hröð. Án
efa hefur hún haft áhrif á örnefnaflóruna á Hvanneyri; flýtt því að gömul örnefni hyrfu sem og því að ný örnefni yrðu til.
Um miðjan sjötta áratuginn var rannsóknastarf á sviði túnræktar stóreflt á Hvanneyri, m.a. til þess að leita svara við spurningum sem þá blöstu við bændum á miklu nýræktarskeiði, einkum hvað snerti val grastegunda, notkun tilbúins áburðar og sláttutíma. Nýræktaðar túnspildur voru valdar undir ræktunartilraunir þar sem hver tilraun spannaði marga smáreiti er hver hlaut sína skilgreindu ræktunarmeðferð. Valdar voru góðar spildur, einsleitar og vel unnar, á hentugum stöðum í Hvanneyrartúni. Mikið þurfti að snúast í kringum hverja tilraun svo ekki fór hjá því að oft þyrfti að vísa til hverrar tilraunaspildu, bæði í samtölum og í skráningu gagna. Kom þá að ákvörðun um nöfn spildnanna.
TILRAUNASTJÓRINN OG NÖFN TILRAUNALANDANNA Magnús Óskarsson var árið 1955 ráðinn til þess að stjórna ræktunartilraunum og –rannsóknum Bændaskólans á Hvanneyri þegar ákvörðun hafði verið tekin um að efla þær til muna. Sinnti hann þeim rannsóknum allt til starfsloka, árið 1996. Magnús var mjög vel menntaður búvísindamaður og hafði á starfstíma sínum mikinn og lifandi áhuga á viðfangsefnum sínum sem og þjóðmálum almennt. Ræddi hann þau gjarnan við nemendur sína, en Magnús var áhrifamikill og einstaklega vel látinn sem kennari við Bændaskólann, þótti raunar frábær í því hlutverki. Og hefst þá sagan um tilraunastjórann og örnefni tilraunaspildnanna. Henni má skipta í þrjú skeið sem eru með sínum hætti tengd lífshlaupi tilraunastjórans.
▶ 1. skeið: Það má kenna við hefðir og formfestu vísindanna. Nýkominn til starfa, tæplega þrítugur, með ferska fræðimannsmenntun frá Danmörku í sínu farteski fékk Magnús þrjár mjög áþekkar nýræktarspildur til rannsókna sinna, á framræstri hallamýri austast í Hvanneyrartúni. Af fagmannlegri nákvæmni sinni kaus Magnús spildunum þremur nöfnin A-land, B-land og C-land. Hlutlaus og einföld nöfn rétt eins heiti tilraunaliða í hefðbundinni samanburðarrannsókn. Nöfn þessi lifðu góðu lífi á meðan tilraunir stóðu á spildunum en að tilraununum aflögðum hefur skafið yfir þau svo horfin eru úr daglegu tali.
▶ 2. skeið: Kemur þá að skeiði sem kenna má við rómantík. Brátt rak að því að jarðræktartilraunirnar á Hvanneyri krefðust meira lands en áðurnefndra A-, B- og C-landa. Beið þá framræst og nýbrotið mýrlendi austan gamla þjóðvegarins um Andakíl, austur undir Vatnshamravatni, hið prýðilegasta ræktunarland, sem deildist m.a. í fjórar fagurlagaðar spildur. Á nokkrum þeirra var stórum tilraunum komið fyrir, tilraunum er stóðu þar um árabil. Rannsóknastarfinu hafði vaxið fiskur um hrygg svo ráða þurfti sumarfólk til verka. Gjarnan voru það ungar stúlkur „að sunnan“, en einnig staðarkvinnur. Magnús tilraunastjóri var þá og æ síðan ókvæntur. Húmoristum, sem þótti kvennamálum Magnúsar miða rólega, varð þetta efni til ýmissa spaugsyrða og sáu hann jafnvel fyrir sér sem austurlenskan höfðingja í kvennabúri sínu þar sem tilraunafólkið hamaðist léttklætt við slátt tilraunareita, rakstur, vigtun, skráningu og sýnatöku á sólríkum hásumardögum. Ekkert af þessu lét Magnús raska ró sinni, brosti góðlátlega og færði til tilraunabókar
sinnar nöfn á hinum nýju spildum í rannsóknastarfinu: Hönnuvellir, Boggubali, Gyðutún . . . Spildurnar voru einfaldlega kenndar við stúlkurnar sem unnu að tilraununum með Magnúsi og minna því elstu menn enn á hlut þeirra í ræktunarrannsóknunum. Nafngiftirnar áttu sér hliðstæðu í nöfnum búfjár á Hvanneyrarbúinu, svo sem kúa og refalæðna. Þeim voru gjarnan gefin nöfn stúlkna sem störfuðu við Bændaskólann. Örnefna 2. skeiðs biðu sömu örlög og þeirra sem getið er í kafla um 1. skeið.
▶3. skeið: Loks kemur að skeiði sem kenna má við heimskreppu. Áfram voru reknar tilraunir á Hvanneyri og enn þurfti að leggja ný lönd undir þær. Aftur var haldið á nýbrotnar mýraspildur vestan við hinn gamla þjóðveg og svæði sem fyrr var nefnt (2. skeið). Til vesturs bættust þær við ein af annarri eftir því sem árin liðu og þörfin kallaði á. Landnám þarna mun hafa hafist á áttunda áratugnum. Þá urðu ýmsar breytingar á veltingi heimsins og í umræðum um hann. Árin á undan höfðu margir íslenskir bændur glímt við kal í ræktunarlöndum sínum. Í mörgum sveitum var þungt fyrir fæti af þeim sökum. Magnús Óskarsson tók mikinn þátt í rannsóknum til úrbóta, alltaf upptekinn af samfélagslegri ábyrgð sinni, og varð upptekinn af umhverfismálum almennt. Hann var m.a. með fyrstu mönnum til þess að vekja athygli á tímamótabók bandaríska líffræðingsins Rachel Carson: „Silent spring“ og fylgdist einnig grannt með umræðu um kjör og stöðu þróunarlanda, sem mikið bar raunar á í fjölmiðlum þá og síðar. Leyndi Magnús sjaldan áhyggjum sínum af framvindu þeirra mála. Það var því ekki gripið úr lausu lofti nafnið á fyrstu spildunni sem tekin var undir ræktunartilraunir á hinu nýja svæði; hún hlaut nafnið Angola. Í hæsta máta varð það því rökrétt framhald er Magnús skráði í tilraunabækur nöfn næstu spildna til vesturs eftir því sem teknar voru til rannsóknaþarfanna: Biafra, Cuba, Dahomei, Eritrea . . . Grimm örlög fátækra og stríðshrjáðra þjóða í fjarlægum heimshlutum eignuðust þannig sín mörk til áminningar á friðsælum tilraunalöndum í Hvanneyrartúni. Nöfnin eru enn í notkun enda eru þarna yngstu tilraunalöndin á Hvanneyri frá síðustu öld.
KJARNORKUSLÉTTA En stríð og heimsófriður tengjast fleiri örnefnum í Hvanneyrartún en nefnd voru hér að framan. Á árunum upp úr 1960 var kjarnorkustyrjaldarvá mönnum ofarlega í huga; höfðu áhyggjur af stríðsátökum þar sem skotmörk yrðu hérlendis en einnig af geislavirku ryki er fallið gæti. Fór svo að sett voru lög um almannavarnir og stofnun komið á fót í Reykjavík til þess að annast framkvæmd þeirra.Sú stofnun greip til ýmissa viðbúnaðarverka og hafði til þeirra nokkra fjármuni á milli handa. Eitt var það að gangast fyrir rannsókn á því hvaða nytjajurtir mætti hraðast og nytsamast fá til uppskeru eftir að kjarnorkusprengja hefði riðið yfir land, en sú vá var mjög í huga ráðamanna landsins á þessum árum. Stofnunin fól Bændaskólanum á Hvanneyri verkið sem þá kom í hlut Magnúsar Óskarssonar og samverkafólks hans að annast eftir nánari rannsóknaforskrift.
Og einhvern veginn þurfti nú að líkja eftir áhrifum kjarnorkusprengju. Það var að sjálfsögðu viðurhlutamikið að hleypa af einni slíkri yfir Andakíl. Því var víst sendur dúnkur að sunnan fullur einhvers eiturs er rjóða skyldi yfir tilraunaspildu til að gjöreyða hinum þjóðlega gróðri
þannig að gap yrði ginnunga en gras hvergi, eins og þar stendur. Í þessa manngerðu eyðimörk skyldi síðan sá efnilegum nytjajurtum. Var svo gert og allt unnið af þeirri nákvæmni sem einkenndi verk Magnúsar Óskarssonar. Ég minnist virðulegra sunnanmanna er komu og kynntu sér tilraunina og aðstæður hennar.
Svo ég geri langa sögu stutta man ég ekki spor um útfall rannsóknarinnar enda má sjálfsagt um það lesa í tilraunaskrám og -skýrslum frá Hvanneyri. Það situr aftur á móti eftir enn þann dag í dag nafnið á tilraunavangnum: Kjarnorkuslétta heitir spildan og er áminning um andstyggð misnotaðrar kjarnorku og það hve vel meint viðbrögð manna geta orðið skopleg þegar tímarnir hafa lagt á þau mat.
OG NOKKUR FLEIRI NÖFN Hafa má orð um nokkur fleiri örnefni á Hvanneyri. Heiti gömlu smábýlanna lifa sum enn í dag eins og áður sagði, t.d. Tungutún, Svíri, Staðarhóll og Ásgarður. Önnur vísa til þeirrar starfsemi sem fram hefur farið á staðnum, sbr. Skólasléttur sem á sínum tíma voru nýræktarlönd austur af heimavistarhúsi Bændaskólans (nú Ásgarði); þær eru nú að mestu horfnar undir íbúðabyggð. Fjárhússflatir, þar sem nú stendur nýlegt fjós skólans, eru til minja um að eitt sinn var sauðfé á Hvanneyri. Fótboltavöllur er gamalt heiti einnar spildunnar, rétt þar sem nú liggur Ormurinn langi, skjólbelti með gönguleið, sem plantað var um 1990, og vitnar um knattvöll og tómstundir skólapilta á Hvanneyri áður fyrr. Og nokkru austar þar í syrpu framræstra mýrarspildna hét Verkfæranefndarslétta. Nafn sitt hlut hún af því að þar hafði Verkfæranefnd ríkisins, síðar bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, um árabil fastan vettvang til ýmissa tilrauna, einkum varðandi slátt og heyþurrkun.
Þegar þéttbýli óx á Hvanneyri eftir 1970 og byggðin tók á sig mynd þorps kom upp þörfin fyrir götuheiti. Ýmsar tillögur komu fram m.a. heiti sem vísuðu til búskapar svo sem Kálfhagi, Lambhagi, Hrosshagi. Þær náðu ekki hljómgrunni en Túngata varð lendingin sem eitt heiti þótt um væri að ræða fleiri en eina götu. Allt fram yfir 1980 hélst sá siður að gefa einbýlishúsum sem risu sérstök heiti. Þannig standa við Túngötu Sigtún, Hófatún, Smáratún, Lækjartún, Túnsberg, Mýrartún, Grenitún . . . Hægt og sígandi virðast þessi nöfn vera að hverfa úr daglegu tali heimamanna. Nefna má einnig að dæmi er um þá reglu sem algeng var í Reykjavík að menn tækju með sér nafn þeirrar jarðar í dreifbýli þar sem þeir komu frá, sbr. Staðarstaður, Þverá, Grund . . . Magnús B. Jónsson skólastjóri reisti á áttunda áratugnum
Allmikil umræða var um geislun í tengslum við kjarnorkuumræðu upp úr miðri síðustu öld. Þessi geislamælir var smíðaður á Eðlisfræðistofu Háskóla Íslands fyrir rannsóknastofu Bændaskólans um 1960. (Úr safni LbhÍ, Hve)
íbúðarhús á Hvanneyri fyrir sig og fjölskyldu sína. Á það var notað nafnið Gerði, sótt til samnefnds æskubýlis Magnúsar í Vestmannaeyjum.
Síðan varð sú breyting að hefðbundinn landbúnaður varð ekki lengur einráður í starfi Bændaskólans og síðar Landbúnaðarháskólans heldur voru umhverfis- og náttúrutengdar námsgreinar teknar upp í vaxandi mæli. Má vera að það sé skýring á þeim nöfnum er valin voru sem götuheiti í nýjasta hverfinu, þar sem áður voru Skólaflatir. Þar heita nú Arnarflöt og Lóuflöt. Nefna má að hverfið sem byggðist næst á undan hefur götunafnið Sóltún. Má líta á það sem millispil á milli gamla og nýja tímans.
85