
9 minute read
Nátthagi og kvíar
NÁTTHAGINN Á STEKKJARHOLTUNUM Sunnanvert á Stekkjarholtunum, svo sem 700-800 metra suðvestan við Ásgarð, aðalbyggingu LbhÍ, eru minjar um nátthaga sem þar stóð. Um nátthagann hefur verið hlaðinn grjótgarður, allmikið mannvirki. Nátthagar eru frá þeim tíma þegar sauðamjaltir tíðkuðust. Þeir voru algengir og mjög nauðsynlegir á bæjum, dálitlar girðingar eða gerði nærri bæ, oft í túnjaðri og voru mest notaðar til þess að hafa kvíaær í þeim yfir nótt á meðan smalinn svaf. Þá voru ærnar tiltækar að morgni án þess þó að hafa staðið í þrengslum eða algerum svelti yfir nóttina. Nátthagar komu sér einnig vel við að hafa aðra stjórn á sauðfé.61 Með sínum hætti voru nátthagar einnig liður í ræktun lands, þannig að með þeim mátti stýra aðgangi beitarfjár og rækta upp land sem varð að góðu túni eftir áburð og traðk fjárins.62 Því má enn í allmörgum túnum finna spildunafnið Nátthaga.
Nátthagar voru meðal þeirra búnaðarbóta sem breiddust út við nýsköpun búnaðarhátta hérlendis er leið á nítjándu öld. Búnaðarfrömuðurinn Torfi Bjarnason skólastjóri í Ólafsdal mælti til dæmis með þeim, þótt hann vildi fremur kalla þá bæli því að í þeim hefðu ærnar enga beit.63 Hvað var þá eðlilegra en að tengdasonur hans, Hjörtur Snorrason skólastjóri á Hvanneyri, reyndi aðferðina á búi skólans þar?
Advertisement
Kristján Vilhjálmur Guðmundsson frá Kirkjubóli í Dýrafirði, þá nemandi á Hvanneyri, skrifaði Margrétu, systur sinni, þann 14. júlí 1906 m.a.:
Skólapiltar riðu til Þingvalla þann 29. júní . . . ekki neinir vinnumenn með . . . þótti ekki viðeigandi að biðja um leyfi, því nóg var að starfa. Þá var verið að keppast við grjótgarðinn kringum nátthagann, áður en farið væri að slá. Hann er hér nokkuð langt frá bænum . . . og er garðurinn ærið dýr, 12 eða 14 menn við hann í fleiri daga, fyrir utan það sem skólapiltar höfðu unnið við hann í vetur.64
Við norðvesturvegg nátthagans er dálítil kví, eða þó fremur rétt; svo stór er hún. Hún stendur hátt svo auðveldlega hefur runnið frá henni. Botn nátthagans var allvel gróinn þegar ég kannaði mannvirkið fyrst af alvöru, 6. júní 1990. Mest þar gæti verið seinni tíma gróður því líklega hefur nátthaginn ekki verið notaður lengi, eins og síðar verður vikið að.
Nú má nefna að vestur í Ólafsdal er að finna mjög áþekkan nátthaga/stekk. Sá er 0,96 hektarar að stærð og er tvískiptur. Í öðrum hlutanum er kví með langveggnum, 3,9 x 14,8 m að stærð. Þessum tveimur nátthögum svipar því mjög saman. Er ekki ósennilegt að
61 Sjá t.d. Kristján Eldjárn: „Uslaréttir“. Árbók Hins ísl. fornleifafélags 77 (1980), 109. 62 Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands I (1919), 116-117. 63 Torfi Bjarnason: „Um áburð“. Andvari X (1884), 162. 64 Bréf KVG til MG í vörslu BG.
Nátthaginn á Stekkjarholtunum. Gulu punktarnir eru við hvert horn hagans. Hvítu punktarnir marka réttina, sem er opin til suðvesturs. Rauðu punktarnir vísa til óljósra tófta sem kúra þarna vestanvert í Stekkjarholtunum og veggur nátthagans gengur yfir (Loftmyndir ehf).
Hjörtur hafi haft Ólafsdals-nátthagann að fyrirmynd, svo vel sem hann var kunnugur öllum aðstæðum þar vestra.65
Kristján Vilhjálmur skrifaði að garðurinn um nátthagann hafi verið „ærið dýr“. Má vel skilja það þegar leifar hans eru skoðaðar. Garðurinn hefur verið um það bil 1 meter á þykkt, tvíhlaðinn, sumpart úr stórum steinum; þannig hefur hann verið vörn á báða vegu. Hann er 280 m langur. Ekki er auðvelt að áætla hver hæð hans hefur verið því bæði er hann nú víðast siginn í svörð og gróður hefur safnast að honum. Undirstaða hans stendur þó enn vel. Varla hafa veggirnir um nátthagann verið lægri en 1 m á hæð, líklega þó fremur um 1,2 m. Grjótið í veggnum öllum hefur þá numið liðlega 300 m3 sem gæti hafa vegið meira en 600 tonn – auk grjótsins í réttarveggnum. Það er því ekki lítið sem skólasveinar og aðrir drógu að af efni. Það er ættað úr holtunum austan við nátthagann; sprungið grágrýti sem þar er nóg af í ýmsum stærðum. Flatarmál nátthagans er um það bil 5.000 m2 – hálfur hektari. Hann stendur í dálitlum slakka í gróinn klappaásinn sem umluktur er hallamýrum. Í nátthaganum hefur því verið þurrlent og úrkoma getað sigið í burtu. Ætti því að hafa farið vel um kvíaærnar í flestum sumarveðrum.
Í norðurhorni nátthagans eru allgreinilegar tóftir í þyrpingu og umhverfis þær stórþýfi. Þarna virðast þrennar tóftir liggja samsíða og er lengdarstefna þeirra í NV. Vestari tóftirnar tvær eru innan nátthagagarðsins. Þriðja tóftin er þeirra hvað greinilegust og liggur fast norðaustan við hann. Mannvirki þessi hafa snúið opum til NNV. Tóftirnar grænkuðu lengi vel nokkru meira en umhverfið, sbr. athugun mína árið 1990. Fátt annað virðist vera þarna nema hugsanlegt er að að húsabaki séu teikn fjórðu tóftarinnar sem þá hefur snúið hornrétt á þær sem áður var lýst. Frá tóftunum eru 1200-1300 m heim á gamla Hvanneyrarstað – vegalengd sem kalla hefur mátt miðlungs stekkjarveg. Skiljanlegt er að Hjörtur skólastjóri hafi kosið að leggja nátthaga fyrir kvíaær skólabúsins þar sem Hvanneyrarstekkurinn stóð – þarna vestan til í Stekkjarholtunum.
65 http://www.landbunadarsafn.is/static/media/raektunarminnjar.66d8015d.pdf, lesið 15. ágúst 2021.

Tóftabrot á Stekkjarholtum sitt hvorum megin við NA-vegg nátthagans. Myndin er lauslega dregin en gefur hugmynd um skipan mannvirkjanna sem sýnilega eru mjög gömul og hafa því eflaust aflagast.
Horft yfir nátthagann til vesturs. Tóftirnar þrjár við austurvegg nátthagans næst en fjær sér til réttarinnar við NV-vegg hans. Hún stendur þar á dálítilli hæð. Myndirnar voru teknar 23. júlí 2021.
Myndin sýnir dæmi um hleðslu í veggnum um nátthagann - norðaustur veggnum. Hann hefur verið um það bil 1 m á breidd, hlaðinn úr vönduðu hleðslugrjóti sem nóg hefur verið af þarna nærlendis. Á fyrsta tug tuttugustu aldar lögðu margir bændur fráfærur af bæði vegna skorts á vinnuafli en líka af hagkvæmniástæðum – batnandi kjötmarkaði. Halldór Vilhjálmsson, sem tók við Hvanneyrarskóla vorið 1907, var einn af þeim. Af skrifuðum heimildum, svo sem dagbókum nemenda skólans o.fl. virðist Halldór ekki hafa nýtt sér fráfærur sauðfjár. Hafi Hjörtur hins vegar gert það til búskaparloka á Hvanneyri hefur nýting nátthagans í því skyni verið afar stutt – ef til vill aðeins eitt sumar? Hins vegar nýttust nátthaginn og réttin áreiðanlega vel við rúning og önnur verk er snertu sauðfjárhald Hvanneyrarbúsins langt upp eftir síðustu öld.



Réttin í nátthaganum er 5,1-5,3 m breið,17,5 m löng og liggur við NV-vegg nátthagans. Hún er opin í þann endann sem myndin er tekin úr; horft er til N.
Vorrúningur á Hvanneyri snemma á síðustu öld. Það er Halldór skólastjóri sem þarna er á miðri mynd með heimilisfólki sínu (ljósm. frá Þórhalli Halldórssyni).
Nátthaginn kom sér vel fram eftir tuttugustu öld þegar rétta þurfti fé skólabúsins, svo sem við rúning og fleira. Ég minnist þess ekki að talað hafi verið um Nátthagann þarna; hins vegar var talað um Réttina, muni ég rétt.

FLEIRI KVÍAR Í HVANNEYRARHVERFINU En jafn auðskilinn og nátthaginn sjálfur er gildir ekki það sama um tóftirnar þrjár við NAhlið hans. Nærtækast er að álykta að þar hafi staðið stekkur, sbr. nafn holtanna, Stekkjarholt. Þarna er langt í vatnsból svo tæplega hefur verið þar um lengri en tímabundna mannvist að ræða, svo sem einhvers konar sel.
Nú varð það svo að í Hvanneyrarhverfinu voru áður nokkur býli auk heimajarðarinnar. Því er hugsanlegt að þarna hafi fleiri býli átt hvert sinn stekk eða verið saman um einn stekk. Hjörð kvíaáa tileinkar sér fljótt vanafasta hegðun. Ekki er ósennilegt að hjörð hvers býlis hafi verið haldið til beitar á „sínum stað“ í haglendi Hvanneyrar og þá rekin til mjalta hver í sinni kví? Miðað við lengd tveggja vestari tóftanna, um 5 m, má gera ráð fyrir að í þeim hafi rúmast 25 kvíaaær við mjaltir.
En fleira er. Fyrir nokkrum árum tók ég eftir minjum um kví í Suðurholtunum á Hvanneyri. Um er að ræða aflanga tóft sem er all vönduð, 1,9 x 8,0 m, grjóthlaðin, en nú vel vallgróin. Hnit hennar eru N 64°33,359 og V 21°45,932. Mjög líklega stóð þarna stekkur ellegar kví til sauðamjalta. Miðað við lengd hennar má gera ráð fyrir að í henni hafi rúmast 35-40 kvíaær.
Kvíin stendur á þurrlendum hrygg austanvert við allháa klettaborg og veit dyraop hennar til norðurs. Grunnur hennar hefur því haldist vel þurr og frá klettaborginni hefur sést vel til haganna umhverfis sem að mestum hluta er mýrlendi. Þarna er mjög fallegt stekk- eða kvíarstæði. Um það bil 1000 m gangur hefur verið frá kvínni heim að gamla Hvanneyrarbæ (heimajörð).
Ágiskun mín er sú að kvíin á Suðurholtunum sé yngri en kvíarnar hugsanlegu vestan við Stekkjarholtin. Nátthaginn þar hefur sennilega verið í notkun skamma hríð. Útlit kvíanna tveggja vestan við Stekkjarholtin bendir til þess að þær hafi verið aflagðar áður en nátthaginn kom til – og verið eins og örnefni holtanna bendir til, stekkur eða stekkir frá einhverjum býlanna í Hvanneyrarhverfinu.

Kvíin í Suðurholtunum á Hvanneyri; horft eftir lengdarstefnu hennar.
MINJAR Í LANDI STAÐARHÓLS – LEGOLANDI Vegna áforma um hesthúsbyggingu í svokölluðu Legolandi Staðarhóls vorið 2011 hafði Ómar Pétursson byggingatæknifræðingur vakið athygli á sýnilegum minjum í landi þar sem liggja á framhald vegar um hesthúsahverfið þar. Að beiðni þáverandi rekstrarstjóra LbhÍ skoðaði ég minjarnar í maí 2011. Þá voru þær vel sýnilegar á yfirborði sem þarna er vel gróið grasi. Ég brá lauslegu máli á minjarnar, sjá meðf. uppdrátt.
Mest áberandi er býsna regluleg tóft sem liggur í brekkurótum ofan Engjanna, á að giska 3-5 m yfir yfirborði þeirra. Lengdarstefna tóftarinnar er h.u.b. SA-NV. Tóftin liggur undan hallanum í örlitlum slakka sem þarna verður í Kinninni mót NV. Þúfnakargi vestan við tóftina er ógreinilegur; gæti hugsanlega verið leifar gamallar tóftar en líka orðinn til vegna vatnsrennslis meðfram aðaltóftinni. Sömuleiðis er ógreinilegur kargi neðan (NV) við tóftina. Í honum er grjót sem gæti verið leifar af einhvers konar hleðslu.
Punktur í austurhorni tóftarinnar hefur hnitin N 64°34,317 og V 21°44,776. Vænt grjót er í tóftinni, einkum SA-gafli hennar, svo sýnilega hefur verið haft fyrir hleðslunni. Grafin var 40 cm prufuhola í miðju tóftarinnar. Efstu 35 cm voru nær hrein mold og svörður, en fyrir neðan tók við smágrýttur aur. Ekki var að sjá þar neitt gólflag. Aurlagið var í 85 cm dýpt miðað við núverandi hæð veggja tóftarinnar.
Hvaða gæti hafa verið þarna? Um notkun eða sögu minja þessara verður því um sinn að beita hreinum ágiskunum. Mannabústaður hefur varla verið þarna. Til þess er of langt er í nothæft neysluvatn og staðurinn fremur aðkrepptur:
Grunnmynd af tóftinni í Legolandi og ummerkjum næst henni.

dz Þarna gæti hins vegar hafa verið fjárrétt, eða að minnsta kosti mannvirki sem tilheyrði gripahirðingu. Veggjalag og stærð tóftar, svo og ágiskuð dýpt hennar gæti bent til þess.
Mjaltakví er það þó ekki; til þess er réttin of breið. Ekki er útilokað að veggjabrotin framan við tóftina séu leifar e-s konar aðhalds við innrekstur fjár. dz Hugsanlegt er að þetta hafi verið heygeymsla – heygarður: að í tóftinni hafi verið borið upp hey af Engjunum sem eru skammt undan. Góður þurrkvöllur fyrir hey hefur verið umhverfis tóftarstæðið og reiðingstorf ekki langt undan. Breiðu dyrnar – undan verstu úrkomuáttinni – gætu átt þá skýringu.