
4 minute read
Byggingin“ – gripahúsin í Þórulág
Norðan við meginbyggðina á Hvanneyri, vestan gömlu heimreiðarinnar (Ásvegarins), þar sem heitir Þórulág47, stendur hús er lengi var kallað „Byggingin“. Fjárhús (ft) var það einnig nefnt og síðar Hesthús (et). Það var reist á árunum 1942 og 1943. Ef til vill kom „Byggingar“nafnið til af því að allmörg ár liðu áður en næsta nýbygging reis á Hvanneyri. „Byggingin“ var í samtímaheimild sögð vera steinsteypt hesthús
40 x 15 m að stærð, tekur um 80 gripi. Votheysgryfjur og þurrheyshlöður taka um 1500 hestburði af heyi og eru í miðri byggingunni. Yfir gripahúsunum, sitt hvoru megin við hlöðuna, er steypt loft, þar sem hægt verður að þurrka og geyma garðávexti og korn. Undir nokkrum hluta byggingarinnar er áburðarhús.48
Advertisement
Með vissum hætti má segja að bygging þessa útihúss hafi verið fjörbrot dráttarhestatímans á Hvanneyri. Hún var reist á meðan dráttarhestar voru enn notaðir fyrir allar heyvinnuvélar skólabúsins. Um þessar mundir gekkst skólinn líka fyrir tamningu dráttarhesta. Aðeins nokkrum árum seinna ýttu dráttarvélarnar vinnuhestunum til hliðar, líklega að fullu árið 1949.
Í hesthúsinu voru stórar votheysgryfjur. Aka mátti heyvögnum í gegnum þvert húsið og moka heyinu í gryfjurnar til hvorrar handar. Stutt var niður á grasgefnar Hvanneyrarengjarnar og störin þaðan var afbragðs hráefni til votheysgerðar og vetrarfóðurs hestanna. Runólfur skólastjóri Sveinsson nýtti sér með húsbyggingunni góða reynslu tengdaföður síns, Halldórs skólastjóra Vilhjálmssonar, er sagði vothey „ágætt fóður handa hrossum á vetrardegi, og má jafnvel fóðra hross á tómu votheyi um lengri tíma, sérstaklega ef þau hafa nokkra beit með því.“49
„Byggingin“ – Gripahúsin í Þórulág um miðjan sjötta áratug síðustu aldar. Um dyrnar þrjár mátti aka hesta-heyvögnum þvert í gegnum húsið og losa heyið í gryfjurnar sem voru í miðju hússins. Í forgrunni er hirðingartækni að hætti Guðmundar Jóhannessonar ráðsmanns. Heyinu ýtt upp á vagn, sem hafði fellanleg skut (ljósm. Ólafur Guðmundsson).
47 Þjóðsagan hermir að nafnið sé komið frá stúlku sem þar átti að hafa átt stefnumót við pilta, einn eða fleiri . . . 48 Búfræðingurinn (1943), 182. 49 Halldór Vilhjálmsson: Fóðurfræði (1929), 448.
Garðávaxtageymsla var í „Byggingunni“, að mig minnir undir einni ökubrautinni þvert um húsið. Lítið varð hins vegar úr kornræktinni. Á Hvanneyri var hún þó stunduð út fimmta áratuginn. Loftið var innréttað sem fjárhús þótt svo lágt væri undir súðina að beita þurfti sérstöku lagi við tilhleypingar ánna á fengitíð. Kálfar tóku brátt pláss hestanna í syðri helmingi hesthússins.
Hesthúsið öðlaðist hins vegar annað hlutverk upp úr 1950 þegar tamningakennsla hófst á Hvanneyri fyrir atbeina Gunnars Bjarnasonar kennara. Þótt ekki þætti hesthúsið beysið undu nemendur þar með hesta sína löngum stundum frá áramótum til sumarmála hvern vetur. Úr hópi þeirra spruttu flestir þeir er leiðandi urðu á sviði tamninga og reiðmennsku á endurreisnarskeiði nútíma hestamennsku hérlendis. Má þá ekki gleyma hinum hvetjandi áhrifum Morgunblaðsskeifunnar, viðurkenningarinnar sem varð strax mjög áhrifamikil meðal nemenda Bændaskólans. Í látleysi sínu og fremur frumstæðum búnaði er „Byggingin“ á Hvanneyri sannanlega einn helsti sögustaður íslenskrar reiðmennsku og hrossaræktar á síðustu öld. Þar liggja gildar rætur hennar.
Um miðjan sjötta áratuginn voru á vegum Tilraunaráðs búfjárræktar reistar tvær tilraunahlöður undir sama þaki norðan við „Bygginguna“. Í þeim gerðu Verkfæranefnd ríkisins um árabil gagnmerkar tilraunir með og rannsóknir á súgþurrkun, heyverkunaraðferð sem þá var að breiðast út um sveitir landsins. Síðar var tilraunahlöðunum breytt í kornþurrkunaraðstöðu og vísi að „reiðhöll“. Flatgryfjuverkun votheys (útistæða) var reynd sunnan undir „Byggingunni“ um miðjan sjöunda áratuginn. Taldist sú aðferð þá nýlunda hérlendis.
Í krikanum, þar sem síðar stóð hringgerði Ingimars Sveinssonar, er síðar verður getið, var sumarið 1964 í tilraunaskyni reist hlaða að hollenskri fyrirmynd, eins konar stakkur með lyftanlegu þaki á fjórum stólpum. Í stakknum mátti súgþurrka heyið. Hlaðan virkaði ágætlega allt fram á vetur að Skarðsheiðarveður hreif með sér þakið. Fannst það í smáatriðum sínum niðri á Hvanneyrarengjum einhverjum dögum seinna. Hin hollenska tækni var ekki reynd aftur.
Ýmsar fleiri tilraunir voru gerðar í þessu merkilega húsi. Meðal annars voru reyndir þar svokallaðir skurðflórar fyrir sauðfé. Þeir voru settir í syðri hesthúshelminginn. Þeir voru ein af mörgum hugmyndum Guðmundar Jóhannessonar ráðsmanns skólabúsins. Bæði áttu skurðflórarnir að auðvelda skítmokstur undan fénu og notast einnig sem þurrkunaraðstaða fyrir hey á sumrum. Það var einmitt við tilraun til heyþurrkunar með yljuðu lofti á þessum flórum sem eldur varð laus í húsinu 15. september 1968. Asbestklætt þak byggingarinnar á timbursperrum brann og féll en það tókst að verja tilraunahlöðurnar að mestu. Strax var ákveðið að endurbyggja húsið en þá þannig að hækkaðir yrðu veggir þess og þakið gert flatara. Formbreytinguna má sjá á austurgafli hússins. Einnig var ökudyrum á húsinu fækkað í eina eins og nú er. Við þessa breytingu varð fjárhúsið á loftinu til muna betra á allan máta: hátt til lofts og rými allt hentugra til sinna nota.
Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar var sauðfjárbúskap hætt á Hvanneyri. Varð efri hæð hússins þá geymsla, einkum fyrir vélar, sem og völlur „Sveitafitness“ Guðmundar Hallgrímssonar um tíma. Neðri hæðin var áfram um nokkurt skeið notuð fyrir hross og kálfa.
Í tilraunaskyni var mykjutanki þeim, sem stendur vestan við „Bygginguna“, komið fyrir. Gerðist það um miðjan tíunda áratuginn.
Hringgerði til tamninga var byggt norðan við „Bygginguna“ að fyrirsögn Ingimars Sveinssonar kennara. Þar kenndi hann um árabil nýstárlega aðferð sína við frumtamningu hrossa. Þótt algert aukaatriði sé má nefna það að skúr sá, sem var hluti af tamningagerðinu, var áður rannsóknahlaða Bútæknideildar Rala til heyþurrkunar. Stóð þá austan við Nýja verkfærahúsið (Gamla-Bút). Upphaflega var mannvirkið hins vegar sementsgeymsluskúr, reistur þegar framkvæmdir hófust við byggingu Nýja skólans, nú Ásgarðs, vorið 1965. Saga skúrsins varð því töluvert merkari en ætla hefði mátt af stærð hans og gerð.

Heyjað á Hvanneyrarfit sumarið 2021.