6 minute read

Gömlu fjósin – Tímamótabyggingar

HJARTARFJÓS Þegar snúið er heim á hlað Gamla staðarins á Hvanneyri verða fyrir okkur á vinstri hönd tveggja bursta hús. Þessi saga er um húsið undir nyrðri burstinni. Síðustu misserin hafa sumir tekið að kalla það Hjartarfjós. Lengst af var það þó kallað Verkfærahús. Árið 1900 reisti Hjörtur Snorrason skólastjóri það sem fjós. Árið eftir var það stækkað. Fullbyggt tók það 40 kýr og 8 kálfa svo líklega var það þá stærsta fjós landsins. Það var notað allt til þess að Halldórsfjós, handan hlaðsins, leysti það af hólmi árið 1928.

Hjartarfjós er merkilegt fyrir margt. Fyrst fyrir það að húsið er byggt úr steini: Afar þykkir veggir þess eru gerðir úr steinsteypu sem mikið af holtagrjóti hefur verið borið í. Sá byggingarháttur taldist vera fágætur á byggingartíma fjóssins. Hjartarfjósi svipar mjög til fjóssins í Ólafsdal sem reist var 1896-1897 og Barónsfjóssins í Reykjavík, sem reist var 18971898, af baróninum á Hvítárvöllum, sem svo var nefndur, hinum franska Charles Gouldrée Boilleau. Hjörtur skólastjóri var búfræðingur frá Ólafsdal, hafði numið þar en varð síðan kennari við skólann 1892-1894 áður en hann var ráðinn að Hvanneyri. Hjörtur varð auk þess tengdasonur Torfa skólastjóra, kvæntur Ragnheiði Torfadóttur. Mjög sennilegt er því að Hjörtur hafi litið til Ólafsdals eftir fyrirmynd að nýju Hvanneyrarfjósi en líka til fjósbyggingar nágranna síns, Hvítárvallabaróns, því að útliti svipar þeim mjög saman Hjartarfjósi á Hvanneyri og Barónsfjósinu.

Advertisement

Hjörtur skólastjóri var áhugasamur um nautgriparækt. Kona hans, Ragnheiður Torfadóttir frá Ólafsdal, hafði lært til mjólkurvinnslu. Frá Hvanneyri var þegar fyrir aldamótin 1900 flutt út nokkuð af smjöri, sem gott verð fékkst fyrir: Árið 1899 náði Hvanneyrarsmjörið hæsta verðinu sem fékkst fyrir íslenska smjörið á erlendum markaði. Hjörtur var því ekki með öllu sáttur þegar Mjólkurskóli var settur á Hvanneyri haustið 1900 undir stjórn dansks mjólkurfæðings, Hans J. Grönfeldts, og honum gert að útvega Mjólkurskólanum aðstöðu og mjólk til vinnslu.

Hvað varð um notkun Hjartarfjóss eftir að kýr voru fluttar yfir í hið nýja Halldórsfjós veit ég ekki nákvæmlega, en með innreið vélanna varð fjósið að verkfærahúsi – verkstæði og verkfærageymslu fyrir Bændaskólann í vaxandi vélvæðingu. Þegar kennsla í vélameðferð hófst varð húsið helsti vettvangur hennar.

Frá Hvanneyri 1906. Hjartarfjós næst til vinstri (ljósm. Magnús Ólafsson).

Í vesturhorn hússins var sett eldsmiðja sem vel kom sér. Í henni lærðum við skólafélagarnir m.a. að slá skeifur svo seint sem veturinn 1961-62. Vélakennslan flutti úr Hjartarfjósi þegar nýja verkfærahúsið kom til sögunnar árið 1963. Úr því var Hjartarfjós fyrst og fremst verkstæði skólabúsins allt fram yfir síðustu aldamót. Um langan aldur var húsið og stéttin framan við það eins konar miðstöð búrekstrarins á Hvanneyri og þaðan var hinum mörgu sumarstarfsmönnum búsins skipað til dagsverkefna.

Í austurenda hússins var á fimmta áratug síðustu aldar að undirlagi Valgerðar skólastjórafrúar á Hvanneyri og húsmæðrakennara komið fyrir steinsteyptum kerjum til þess að geyma í matvæli, s.s. kjöt og slátur. Reyndust þau betri geymslur en tunnur.46 Árið 1949 var þak sett á gömlu hestaréttina, sunnan við Hjartarfjós. Um leið munu stafnar þess hafa verið hækkaðir og þakið þá einnig, svo það hentaði betur fyrir vaxandi stærð og fjölda véla skólabúsins.

Það var svo fyrir fáum árum að Hjartarfjósi var breytt í aðstöðu fyrir garðyrkjudeild LbhÍ, og aðstaða bætt til geymslu bíls og búnaðar héraðsslökkviliðsins. Það hafði þá um nokkurt árabil haft aðstöðu í austurenda hússins.

Hjartarfjós er merkileg bygging, þó ekki sé fyrir annað en það að hún mun vera ein elsta gripahúss-steinbygging landsins, og eitt fyrsta „nútímafjósið“ sem reist var hérlendis.

Samhliða Hjartarfjósi, að suðvestanverðu, var reist hestarétt, sem nýtt var svo lengi sem hestar voru meginaflgjafinn við ræktunar- og heyskaparverk á skólabúinu. Þar voru hestarnir búnir undir vinnuna og frá þeim gengið. Þegar dráttarvélar leystu Hvanneyrar-hestana af hólmi, um 1950, var reft yfir réttina og hún gerð að geymsluhúsi fyrir vélar og verkfæri. Stóð svo allt fram til aldamóta að henni var breytt í smáverslun og síðar öldurhús.

HALLDÓRSFJÓS Árið 1928 hratt Halldór Vilhjálmsson skólastjóri af stað byggingu fjóss og hlöðu fyrir Bændaskólann á Hvanneyri. Skyldi byggingin leysa af hið tæplega þrjátíu ára gamla Hjartarfjós. Halldór var stórhuga: Hann fékk Guðjón Samúelsson húsameistara til þess að teikna bygginguna, sem rúma skyldi 80 nautgripi, auk hlöðu, kálfafjóss, mjólkurklefa, haughúss og þvaggryfju. Mannvirkið kostaði 157.282,04 kr.

Halldórsfjós í byggingu sumarið 1928 (Ljósm.safn Akraness).

46 Búfræðingurinn (1944), 180.

Fjósið skyldi verða fyrirmyndarfjós og varð það, svo mörgum tækninýjungum sem það var prýtt: Rafknúninni heyhirðingu, loftræstingu að amerískri fyrirmynd, hengibrautum í lofti til fóðurflutninga fram á fóðurgang, mjaltavélum, votheysgryfjum, milligerðum úr galvaniseruðum pípum, svo það helsta sé nefnt. Stílum Halldórsfjóss og Korpúlfsstaða-fjóss svipaði saman um margt enda byggð á svipuðum tíma. Geta má þess að gott samband var á milli Halldórs skólastjóra og Thors Jensen, Korpúlfsstaðabónda. Sonur Thors, Lórentz, síðar bústjóri á Korpúlfsstöðum, var t.d. nemandi Bændaskólans árin 1924-1926.

Þúsundir gesta heimsóttu Halldórsfjós áranna rás, bæði sem almennir gestir skólans en einnig bændur er sjá vildu nútímalega aðstöðu til nautgriparæktar. Minnisstæð varð mörgum t.d. heimsókn Kristjáns X Danakonungs í fjósið árið 1930. Haft var eftir Bauja gamla, Böðvari Gíslasyni fjósamanni til áratuga, að svo vel hefði að jafnaði verið gengið um fjósið að ekki hefði einu sinni þurft að þrífa aukalega vegna heimsóknar kóngs í fjósið.

Fyrstu ár Halldórsfjóss var öll mjólk þaðan unnin heima á Hvanneyri. Kristjana Jónatansdóttir rjómabústýra stóð fyrir mjólkurverkum með stúlkum sínum. Mjólkurvinnslan fór fram í kjallara og undirkjallara Skólastjórahússins. Afurðir umfram heimanot voru seldar víða um land, mest þó í Reykjavík. Á þessum árum urðu til hugtökin Hvanneyrarskyr og –rjómi. Afurðirnar gátu sér orð og þóttu eftirsóttar fyrir gæði.

Skilyrði til heimavinnslu mjólkur breyttust með afurðasölulögunum svonefndu árið 1934. Þá var stutt í lok heimavinnslu mjólkur á Hvanneyri. Farið var farið að leggja alla Hvanneyrarmjólk inn í Mjólkursamlagið í Borgarnesi og heimavinnsla mjólkur á Hvanneyri lagðist af.

Margt dreif á daga Halldórsfjóss allt þar til kýrnar voru úr því fluttar í nýtt fjós 11. ágúst 2004. Nefna má nokkur atriði:

 Hinar góðu heygeymslur auðvelduðu nýtingu hinna miklu og náttúrugefnu

Hvanneyrarengja og fitjanna til mjólkurframleiðslu. Hægt og sígandi tók taða af vaxandi túnum við af engjaheyinu.  Fjósið varð vettvangur margra búnaðarnýjunga. Þess vegna voru ýmsar breytingar gerðar á því, breytingar sem einnig varpa ljósi á framvindu búnaðarsögunnar. Af nýjungum þessum má til dæmis nefna:  Súgþurrkunar heys í hlöðunum stóru, meira að segja með upphituðu lofti mjög snemma á súgþurrkunartímanum – 1947  Margvíslegra tilrauna með verkun votheys  Miðstöðvar fyrsta sæðingastarfs í Borgarfirði

Úr Halldórsfjósi, líklega á fjórða áratugnum (ljósm. óþ.)

 Tilrauna með ristarflóra fyrir kýr, sem líklega voru heimsnýjung  Prófanir fjölmargra tækja og véla til vinnuléttis og sparnaðar  Eins fyrsta mjaltabássins, sem komið var upp í fjósi hérlendis (1962-1963) og síðar rörmjaltakerfi í stað fötukerfis sem var hin upphaflega tækni  Og síðast en ekki síst: Fjósið var alla sína tíð kennslustofa nemenda Bændaskólans í hirðingu nautgripa.

Árið 1947 var hæð bætt ofan á fjóshluta byggingarinnar. Þar var komið fyrir íbúðum, efnarannsóknastofu, smíðakennslustofu og fóðurbætisgeymslu. Og var þó ekki allt rýmið innréttað. Reyndist þetta rými skólanum ótrúlega vel til ýmissa nýbreytniverka sem of langt er upp að telja. Þegar hafin var kennsla við LBH í umhverfisskipulagi var kennslustofu vegna hennar komið fyrir á fjósloftinu.

Um miðja fyrri öld var sett ökubrú í hlöðuna svo aka mátti heyvögnum og heybílum í gegnum hana frá norðri til suðurs, alls um 70 m brú. Þótti það auka hirðingarafköst til mikilla muna.

Á áttunda og níunda áratugnum voru gerðar ýmsar endurbætur á Halldórsfjósi. Þak hlöðunnar var endurnýjað, loftræsting fjóssins endurhönnuð og lagfærð, settir ristarflórar, básum og bindslum breytt og nýjum mjaltabás komið fyrir, auk margs annars. Bæði var þetta gert til þess að bæta fjósið sem slíkt en ekki síður sem liður í tilrauna- og þróunarstarfi Bændaskólans, flest í samvinnu við Bútæknideild Rala.

Sem fyrr segir voru kýrnar fluttar úr Halldórsfjósi síðsumars 2004. Liðlega þremur árum síðar var ákveðið að leigja bygginguna Landbúnaðarsafni Íslands. Halldórsfjós varð miðstöð safnsins. Með nokkrum rétti má segja að byggingin sé stærsti gripur safnsins, svo sögurík er hún bæði í gerð sinni og minjamörkum sem þar má sjá.

Ungur kaupamaður (kúskur) ekur af hlöðubrú Halldórsfjóss eftir affermingu, líklega sumarið 1954 (ljósm. Einar E. Gíslason).

This article is from: