
9 minute read
Altarismyndin í Hvanneyrarkirkju
Undur páskamorguns á engjum Andakíls
Þegar Suðuramtið hafði fengið Hvanneyrarjörðina til umráða til reksturs búnaðarskóla hóf það ýmsar umbætur á jörðinni. Strax árið 1889 var reist skólahús og árið eftir reis stórt fjós, eftir þeirrar tíðar mælikvarða. Kirkjan fylgdi jörðinni en hún var orðin ónothæf, herma heimildir32, þótt vönduð þætti í upphafi.33 Því reisti amtið nýja kirkju árið 1893. Var henni valinn staður á Kirkjuhólnum, sem svo heitir nú, en gamla kirkjan stóð inni í garðinum. Lítt mun hafa verið vandað til nýju kirkjunnar, sögð „illa gerð í fyrstu“. Því fór svo í „ofsaveðri á sunnan“, er skall á undir kvöld 15. nóvember 1902 og stóð til morguns, að kirkjan fauk:
Advertisement
Um nóttina kl. 2 fauk hér kirkjan að eins út í kirkjugarðinn og þar um koll, og náðist hver ögn úr henni, og hver spíta, skólapiltar og heimafólk áttu þar föt sín og hirslur sem brotnaði sumt en náðist flest nema kennarinn misti bækur sínar, nálægt hundrað kr. virði . . .
skrifaði ein þáverandi námsstúlkna Mjólkurskólans á Hvanneyri í dagbók sína.34 Eftir skaðann kannaði prófastur áhuga safnaðarins á að reisa nýja kirkju. Reyndist hann hverfandi því aðeins 2 af 22 sóknarmönnum, sem mættir voru, vildu byggja kirkjuna upp að nýju. Vilji amtsráðsins var að láta söfnuðinn taka við kirkjunni. Áður hafði til orða komið að sameina Hvanneyrar- og Bæjarsóknir með nýrri kirkju að Hesti, ábýlisjörð prests Hestþinga. Það fór hins vegar svo að amtið lét reisa nýja kirkju á Hvanneyri, þá er nú stendur. Prófasturinn, sr. Jón Sveinsson á Akranesi, vígði hana haustið 1905. Kirkjan var reist eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar húsameistara.
Hvanneyrarkirkja hin nýja var víst ekki ríkulega búin hið innra. Altarismynd mun ekki hafa verið í nýju kirkjunni fyrstu árin megi marka athugasemd séra Guðmundar prófasts Helgasonar gerða er hann skoðaði eldri kirkjuna, í ágúst 1894: Þá þótti honum á vanta að í kirkjunni væru hvorki orgel né altaristafla.35 Alla vega kviknaði hugmynd um það á fundi Ungmennafélagsins Íslendings haustið 1918 að kaupa altarismynd í kirkjuna. Á fundinum hafði verið vakin eftirfarandi spurning, segir í fundargerð félagsins: „Er það satt að vanræksla á kirkjuferðum sje U.M.F. að kenna, og hvað getum við gert fyrir kirkjuna?“ Þá hafði Ungmennafélagið starfað um sjö ára skeið; flest árin af þrótti, megi marka fundargerðir frá þeim tíma. Því er ekki ósennilegt að ungmennafélagsstarfið, sem eflaust þótti vera spennandi nýjung, hafi að einhverju marki orðið á kostnað kirkjusóknar unga fólksins. Um spurninguna urðu miklar umræður á fundinum. Að þeim loknum var samþykkt eftirfarandi tillaga frá Kristni Guðmundssyni, sem þá var héraðsmaður en síðar kenndur við Mosfell í Mosfellssveit:
32 Hér er byggt á frásögn Guðmundar Jónssonar: Hvanneyrarskólinn 50 ára (1939), 101-103. 33 Ari Gíslason: Kaupfélagsritið 38 (1973), 32. 34 Dagbók Guðmundu Maríu Guðmundsdóttur. Í vörslu Bj.Guðm. 35 Ari Gíslason: Kaupfélagsritið 38 (1973), 32.
Fundurinn ákveður að U.M.F. Íslendingur taki að sjer að safna fje til altaristöflukaupa í Hvanneyrarkirkju.36
Síðan var kjörin fimm manna nefnd til þess að koma málinu í framkvæmd. Í hana voru kosin þau Guðmundur Jónsson á Skeljabrekku (Ytri), áðurnefndur Kristinn Guðmundsson, Elísabet Þorsteinsdóttir á Miðfossum, Jóhanna Sigurðardóttir í Árdal og Sigríður Hjartardóttir á Grjóteyri.
Nefndin hóf þegar störf og á febrúarfundi Ungmennafélagsins árið 1919 var bókað: Altaristöflumálið. Fyrir hönd nefndarinnar skýrði Guðmundur Jónsson frá starfi hennar, og kom þá í ljós að töluvert fje hafði safnast saman til altaristöflukaupa í Hvanneyrarkirkjusókn.
Síðan virðist hafa dofnað yfir málinu því næst finnum við þess getið á desemberfundi Ungmennafélagsins árið 1922. Þá gat Guðmundur þess að safnast hafi með vöxtum 400 krónur, þó væri það langt of lítið fje, einkum ef keyft væri Íslenskt málverk. Vildi hann að eitthvað væri í málinu gert. Þótti mönnum miður að félagið skyldi ekki geta safnað nægu fé og voru ræddar frekari leiðir til þess: G.J. fannst það engin vanvirða fyrir fjelagið, þó það gæti ekki fengið nóg fje og gerði það að tillögu, að nefndin safni eftir getu til vorsins og afhendi þá það sem safnast hefur Sóknarnefndinni til frekari framkvæmda og var það samþykkt.
Halldór Vilhjálmsson skólastjóri og kirkjubóndi á Hvanneyri tók málið upp á hreppsskilaþingi að Hvítárvöllum 25. október 1923. Án efa hafði hann fylgst náið með framvindu málsins í höndum Ungmennafélagsins og hlutast til um framkvæmdir því á þinginu lýsti hann yfir því
. . . að fáanleg væri altaristafla í Hvanneyrarkirkju. Væri það Brynjólfur Þórðarson málari í Rvík, er vildi taka að sér að mála töfluna fyrir 1000 krónur. Lýsti skólastjóri yfir því, að hann væri fús á að greiða 1/3 kostnaðar. Í sambandi við þetta mál var ákveðinn safnaðarfundur fyrir Hvanneyrarsókn þ. 11. nóv.br. nk.37
Eitt þúsund krónur voru mikið fé á þessum tíma. Það svaraði þá til verðmætis 95 dagsverka kaupamanns um sláttinn og nær þriggja kýrverða skv. verðlagsskrá Andakílshrepps.
Samskotaaðferðin til öflunar kirkjugripa var hreint ekkert einsdæmi á þessum árum því tæpum þrjátíu árum fyrr höfðu sóknarmenn í Bæjarsveit skotið saman til þess að kaupa altaristöflu fyrir Bæjarkirkju: . . . snotra altaristöflu, málaða af Þórarni bókbindara Þorlákssyni eftir altaristöflunni í Reykjavíkurkirkju.38
Og Brynjólfur Þórðarson listmálari var fenginn til þess að mála altaristöfluna fyrir Hvanneyrarkirkju. Hann lauk því verki á árinu 1924 skv. höfundarmarki á myndinni.
36 Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar: Skjöl Umf. Íslendings EF23 20-1/20-4. 37 Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar: Andakílshreppur ES7 7-2. 38 Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar: Andakílshreppur ES7 7-3.
Altarismyndin sýnir Krist í borgfirsku umhverfi, og skírskotar til upprisu hans þar sem konurnar tvær krjúpa við fætur hans.
Altarismynd Brynjólfs vekur jafnan athygli hinna fjölmörgu gesta kirkjunnar fyrir sérstöðu og fegurð. Saga myndarinnar hefur orðið ýmsum umhugsunar- og umræðuefni. Hér á eftir fara nokkrir þættir um hana.
Er þá fyrst að segja ögn frá listamanninum. Brynjólfur Þórðarson var fæddur árið 30. júlí 1896. Hann ólst upp hjá móður sinni og fóstra í Ráðagerði á Seltjarnarnesi. Brynjólfur nam teikningu hjá Þórarni B. Þorlákssyni og síðar við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Eftir teiknikennslu í Reykjavík og í Hafnarfirði árin 1920-1925 hélt hann til frekara listnáms í SuðurFrakklandi, Róm og París. Nam m.a. freskótækni. Kom heim árið 1929 og stundaði list sína og tók þátt í listsýningum. Brynjólfur hafði vinnustofu í Uppsölum við Aðalstræti, í elliheimilinu Grund og víðar í bænum. Brynjólfur átti við vanheilsu að stríða. Hann veiktist ungur af berklum og dvaldi um hríð á Vífilsstöðum. Það var þó krabbamein sem dró hann til dauða árið 1939, aðeins 43 ára gamlan. Hann dó ókvæntur og barnlaus.
Altarismyndin í Hvanneyrarkirkju (ljósm. Magnús Skúlason).
Haldnar hafa verið sýningar í Reykjavík á myndum Brynjólfs, meðal annars yfirlitssýningar á verkum hans í Reykjavík árin 1971 og 198239. Brynjólfur var sagður meðal lærðustu listamanna síns tíma. Hann hafði meitlað handbragð sem hvelfist eins og skel utan um flestar myndir hans, en síðan kemur þögnin eða kyrrðin, sem grípur milliliðalaust hvert einasta mannsbarn . . . skrifaði Hjörleifur Sigurðsson. Brynjólfur fór oft eldsnemma á fætur og málaði er hann var á tjaldferðalögum um landið, var haft eftir Ragnheiði Jónsdóttur, unnustu hans og lífsförunaut . . . Það er ef til vill þess vegna sem mikil kyrrð er yfir myndum hans, honum fannst loftið kyrrt svona snemma á morgnana, litirnir skýrir og tærir, og allt umhverfið ósnortið.
Öll þessi einkenni hefur altarismynd Brynjólfs í Hvanneyrarkirkju. Eftir yfirlitssýningarnar voru blaðadómar um verk Brynjólfs allir á eina lund: tvímælalaust það hæsta sem íslensk málaralist hefur náð, skrifaði Ásgeir Bjarnþórsson og Valtýr Pétursson gladdist yfir því að enn mætti finna listamenn meðal þjóðar vorrar sem ekki voru á allra vörum á sínum tíma, en koma eins heilsteyptir og ferskir fram á sjónarsviðið og Brynjólfur Þórðarson að sinni.40
39 Morgunblaðið 4. apríl 1982, 46-47. 40 Morgunblaðið 4. apríl 1982, 46.
Brynjólfur var hlédrægur og góður listamaður sem barst ekki á í list sinni, skrifaði heimildarmaður.41
Ýmsir hafa velt því fyrir sér hverjir hafi verið fyrirmyndir Brynjólfs að fólkinu sem á altarismyndinni er, svo skýrum andlitsdráttum það er þar dregið. Heyrst hafði sú flökkusaga meðal annars að það hafi verið unnusta málarans og vinkona hennar.
Sumarið 2011 átti ég tal við Hildi Sigurðardóttur í Grindavík sem kvaðst þekkja nokkuð til málsins.42 Hildur hafði heyrt að fyrirmyndir kvennanna tveggja væru þær Ólafía Vilborg Þórðardóttir og Svava Þórhallsdóttir. Hildur sagði Ólafíu hafa verið afasystur sína, frá Ráðagerði á Seltjarnarnesi, dóttir Þórðar útvegsbónda Jónssonar í Hlíðarhúsum í Reykjavík. Ólafía Vilborg og Brynjólfur Þórðarson voru systrabörn. Munnmæli um að fyrirsæturnar hefðu verið Ragnheiður, unnusta málarans, og vinkona hennar, taldi Hildur vera á misskilningi byggð. Ekkert kvaðst Hildur vita fyrir víst um tengsl Ólafíu og Svövu. Ekki vissi Hildur heldur hvor þeirra væri hvor á altarismyndinni. Hún nefndi hins vegar að sér þætti þær Ólafía og Svava sláandi líkar, væri dæmt eftir myndum af þeim ungum. Undir það er tekið. Ávæning hafði Hildur heyrt af því að málarinn hafi skipt um háralit kvennanna við myndgerðina.
Nú, nú. Sé reynt að geta hér í eyður sögunnar er af nokkru að taka. Fyrst um tengsl Ólafíu og Svövu. Ólafía Vilborg Þórðardóttir var fædd árið 1888. Hún lauk kennaraprófi frá Flensborg árið 1905 en nam svo við Lýðháskólann í Askov. Kenndi teikningu, handvinnu og leikfimi við barnaskólann í Mýrarhúsum árin 1908-1911.43 Svava Þórhallsdóttir var fædd árið 1890. Hún lauk kennaraprófi í Reykjavík árið 1909, og kennaranámskeiði í Svíþjóð árið eftir. Hún var stundakennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1909-1910.44 Samkvæmt þessu var bakgrunnur þeirra Ólafíu og Svövu áþekkur og þær á svipuðum aldri. Þær giftust báðar vorið 1911. Ólafía giftist Halldóri Hansen lækni eldra en Svava Halldóri skólastjóra Vilhjálmssyni á Hvanneyri.
Svava hafði tekið virkan þátt í félagslífi bæjarins, m.a. fyrsta starfi Ungmennafélags Reykjavíkur, enda alin upp við mikið frelsi og mannjöfnuð.45 Ýmislegt bendir því til þess að
Sat Svava Þórhallsdóttir skólastjórafrú á Hvanneyri fyrir þegar Brynjólfur Þórðarson málaði Maríu á upprisumynd sinni í Hvanneyrarkirkju? (ljósm. Magnús Skúlason).

41 Eggert Ásgeirsson: Lesbók Morgunblaðsins. 23. apríl 1993. 42 Hildur Sigurðardóttir 9. ágúst 2011 í samtali við BG. 43 Kennaratal II (1965), 17. 44 Kennaratal II (1965), 202. 45 Svava Þórhallsdóttir: Móðir mín (1949), 101.
þær stöllur, Ólafía og Svava, hafi þekkst og jafnvel ræktað með sér nokkurn kunningsskap sem enst hafi fram eftir aldri þeirra.
Þegar Halldór Vilhjálmsson gekk fram fyrir skjöldu í því að ljúka altaristöflumálinu, sem Ungmennafélagið Íslendingur hafði ýtt af stað, er hreint ekki ómögulegt að hann og þau hjónin hafi komið á tengslum við Brynjólf málara Þórðarson, ef til vill í gegnum kunningskap Svövu og Ólafíu, náfrænku málarans. Afar sennilegt er einnig að a.m.k. við gerð frumdraga að altarismyndinni hafi Brynjólfur Þórðarson dvalið á Hvanneyri; til þess benda flestir drættir myndarinnar. Telja má öldungis víst að málarinn hafi þá verið í skjóli kirkjubóndans og konu hans, skólastjórahjónanna Halldórs og Svövu. Hvað var þá eðlilegra en að fá skólastjórafrúna og vinkonu hennar, náfrænku málarans, til þess að sitja fyrir? Þá voru þær báðar liðlega þrítugar – glæsilegar konur í blóma lífsins.
Og fyrst vakinn er grunur um hverjar muni vera fyrirmyndir kvennanna tveggja er vitni urðu að upprisunni í pensildráttum Brynjólfs, málara altaristöflunnar, er freistandi að leiða hugann að fyrirmyndinni að Kristi, hinum upprisna. Enga hugmynd höfum við um það. Hafi frumdrög altarismyndarinnar hins vegar verið lögð á Hvanneyri er hreint ekki ólíklegt að þar hafi málarinn séð fyrir sér einhvern af hinum hraustu kaupamönnum og námssveinum er þá gengu til heyskapar á Hvanneyri.
Að endingu má spyrja sig að því hvort hægt sé að ganga öllu nær í því að tengja saman minnið um upphaf og megininntak kristinnar trúar á aðra hliðina og það þekkilega umhverfi, sem hið stílhreina guðshús Hvanneyrarsóknar stendur í, á hina heldur en listamaðurinn Brynjólfur Þórðarson gerði með þessari fallegu og áhrifamiklu altarismynd sinni? - o o o -

Hvanneyrarkirkja og Halldórsfjós sumarið 1939, horft af Kirkjuhólnum (ljósm. T. Gravem).
Má vel minnast þáttar Ungmennafélagsins Íslendings í tilurð altarismyndarinnar þegar fegurðar hennar og boðskapar er notið.