VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR // 73
Netspj@ll
Of mikið súkkulaði er ekki nóg
„Jú, ég er búin að vera dugleg að ferðast innanlands. Við fjölskyldan erum búin að fara í nokkrar dagsferðir en ferðuðumst líka hringinn í kringum landið. Það var alveg æðislega gaman,“ segir Njarðvíkingurinn Brynja Björk Harðardóttir þegar hún er spurð út í sumarið. Brynja gerði meira en að ferðast því hún fór líka á fjallahjólanámskeið í Þórsmörk með vinkonum og gengu þau hjónin Fimmvörðuháls. „Við Íslendingar verðum kannski dálítið „heimablind“ með alla þessa náttúrufegurð fyrir framan okkur alla daga. Ég skil ferðamennina vel sem tapa andanum yfir fegurðinni og andstæðunum.“
Við hjá VF vorum að skoða mynd af þér í Fegurðarsamkeppni Suðurnesja. Það eru nokkur ár síðan þú varst kjörin Fegurðardrotting Suðurnesja (og systir hennar gerði sér reyndar lítið fyrir og fylgdi henni eftir tveimur árum síðar). Hvernig rifjast það upp fyrir
þér, hvernig var sú reynsla og hvað tók við eftir það? Já, það eru nokkur ár síðan. Sú reynsla var bara stórfín. Þetta var alveg málið árið 1995. Ég fór í fleiri keppnir í kjölfarið en snéri mér svo að öðru.
– Hvað geturðu sagt okkur um menntun og síðan starf? Ég var ákveðin í að verða tannlæknir á þessum tíma en var ekki tilbúin í langt háskólanám alveg strax eftir stúdentspróf. Ég prófaði margvísleg störf í nokkur ár áður en ég fór svo í Háskóla Íslands og lærði tannlækningar. Ég útskrifaðist 2003 og hef starfað við það síðan. Bæði á Íslandi og í Stokkhólmi þar sem við bjuggum í ellefu ár, segir Brynja sem ekur auðvitað um á Volvo eins og margir sem hafa búið í Svíaríki.