Tímarit hjúkrunarfræðinga 3. tbl. 2025

Page 1


Tímarit HJÚKRUNARFRÆÐINGA 100 ÁRA

The Icelandic Journal of Nursing | 3. tbl. 2025 | 101. árgangur

„Nærvera mikilvægt meðferðarform

við lífslok“

Erna Haraldsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði

Transteymi fullorðinna

RITRÝNDAR GREINAR

‒ „Enginn kom auga á heildarmyndina“ ‒‒ Heilsulæsi fólks með kransæðasjúkdóm ‒

‒ Heilsufar grunnskólabarna á Akureyri. Tengsl holdafars við líðan ‒

‒Snerting við náttúruna og endurnærandi áhrif hennar á fullorðna Íslendinga ‒

Heilandi skógarböð

LSR er til staðar fyrir þig á mörgum helstu tímamótum ævinnar. Sem sjóðfélagi öðlastu víðtæk réttindi – kynntu þér þau á lsr.is.

Hjá okkur geturðu líka fengið séreignarsparnað, sem er ekki aðeins bein launahækkun fyrir þig, heldur líka ein besta sparnaðarleið sem völ er á. Við bjóðum einnig fasteignalán, bæði verðtryggð og óverðtryggð.

Nú geturðu sótt um bæði séreignarsparnað og fasteignalán á vefnum okkar. Kynntu þér málið á lsr.is.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Efnisyfirlit

38 50 6 16

Viðtal – Erna Haraldsdóttir, prófessor við Queen Margaret háskólann, hefur rannsakað nærveru sem meðferðarform við lífslok

Hjúkrun 2025 – uppskeruhátíð hjúkrunarfræðinga í máli og myndum 16

Tímarit hjúkrunarfræðinga er 100 ára í ár og af því tilefni var talað við fyrrverandi ritstjóra

22 Leiðtoginn – Hildur Elísabet Pétursdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á HVest

Spurt og svarað um Starfsþróunarsetur Fíh

30 Viðtal – Malín Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur í transteymi fullorðinna á Landspítala

34 Shinrin-yoku er náttúrumeðferð við streitu – ritstýran og formaðurinn mættu í Heiðmörk og prófuðu í ausandi rigningu

38

40

Doktorspróf – doktor Guðrún Jónsdóttir skoðaði ákvarðanatöku um lífslokameðferð hjá sjúklingum með taugasjúkdóma

Doktorspróf – doktor Inga Valgerður Kristinsdóttir skoðaði umönnunarþarfir í heimaþjónustu, þá þætti sem spá fyrir um flutning á hjúkrunarheimili og umönnunarbyrði aðstandenda

42 Viðtal – Þóra Þórhildur Guðjónsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur lét nýverið af störfum eftir 47 ára farsælt starf og fer yfir ferilinn við þessi tímamót

48

Vaktin mín – Helga Margrét Gísladóttir hjúkrunarfræðingur í Ylju neyslurými

Vettvangsheimsókn í fangelsið á Hólmsheiði

Háskólakennarinn – Steinunn Jónatansdóttir, aðjúnkt við Hjúkurnarfræðideild Háskólans á Akureyri

Fræðslugrein – Sjálfsvíg meðal eldra fólks. Hlustum, horfum, metum, bregðumst við, finnum lausnir og fylgjum eftir

Viðtal – Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis

Ritrýnd grein: Heilsufar grunnskólabarna á Akureyri. Tengsl holdafars við líðan

Ritrýnd grein: Snerting við náttúruna og endurnærandi áhrif hennar á fullorðna Íslendinga: Lýðgrunduð þversniðsrannsókn

Ritrýnd grein: „Enginn kom auga á heildarmyndina“ Reynsla einstaklinga af heilkenni og sálfélagslegri líðan tengdri akavanda og/eða rakaskemmdum í húsum

Ritrýnd grein: Heilsulæsi fólks með kransæðasjúkdóm: Þversniðsrannsókn

Dýrmætasta gjöfin

Þá er síðasta tölublaðið á 100 ára afmælisári tímaritsins komið út. Heil öld hefur flogið hjá, hjúkrunarfræðingar hafa rannsakað marga anga fagsins og birt fjölda fræðigreina sem hafa stuðlað að framþróun og betri þekkingu. Vísindunum hefur fleygt fram á ógnarhraða, lífslíkur hafa aukist og sjúkdómar sem áður fyrr voru dauðadómur eru nú oft læknanlegir. Óhætt er að segja að við sem fáum að draga andann og upplifa nútímann höfum séð miklar tækniframfarir, sérstaklega síðustu árin. Við erum á hraðferð áfram í átt að veröld sem krefst kannski á margan hátt minni kunnáttu fyrir komandi kynslóðir. Hugvit hannar heim þar sem manneskjan er mötuð af upplýsingum með einföldum hætti og þá dugar oft að kunna á græjurnar, snjalltækin eru skeiðin og við opnum munninn og tökum á móti. Ég á oft í bölvuðu stappi við mín yngstu afkvæmi um snjallsímatíma, mögulega skaðsemi TikTok og dökkar hliðar samskiptaforrita. Þau grípa frekar í símann en bók en ef ég skipti símanum út fyrir bók (við misgóðar undirtektir) sé ég ró færast yfir þegar þau detta inn í söguheim sem nær athygli þeirra. Ég man að mér þótti það hátíð þegar Bókabíllinn sálugi mætti á bílastæðið hjá kjörbúðinni í hverfinu mínu. Þá stökk ég af stað með bókasafnskortið mitt inn í rútubílinn sem var smekkfullur af bókum um allt milli himins og jarðar. Þarna gat ég grúskað tímunum saman og fór iðulega heim með fullt fangið af bókum sem ég las svo fram á miðjar nætur þar til bíll drauma minna mætti aftur á planið viku seinna. Þá skilaði ég bókunum og sótti næsta lesskammt. Ég efast um að ég hefði fagnað bókafulla bílnum ef snjalltækin hefðu verið kominn á markað, þau hefðu líklega rænt tíma mínum og athygli og ég tæpast lesið mikið. Samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum í vestrænum heimi eyða börn og unglingar fimm klukkutímum á dag á samfélagsmiðlum og eðli málsins samkvæmt eyða þau þá minni tíma í leik og samveru. Félagsfærnin hlýtur að skerðast með þeim afleiðingum að þau verða ekki eins fær í samskiptum, að sýna umhyggju, samkennd og hlýju. Það er dýrmæt færni sem nýtist í alla þræði lífsins. Þegar fyrsta tölublað Tímaritsins kom fyrst út árið 1925 hvarflaði varla að neinum að ósýnileg rafmynt, þrívíddarprentuð líffæri og gervigreind, sem er eins konar reddari alls, yrðu framtíðin. Einmanaleiki er vaxandi vandamál í heiminum og mikil heilsufarsógn samkvæmt WHO. Þótt flest hafi breyst og tæknin þróist hratt er samt er eitt sem hefur ekki breyst og það er þörf manneskjunnar fyrir nánd og nærveru. Að halda í hönd, faðma fólkið sitt, sitja saman að snæðingi, tala saman og vera saman undir sæng, í sundi eða úti í náttúrunni. Við þrífumst flest á samveru, þurfum snertingu og nánd. Finna að við tilheyrum og höfum rödd og tilgang. Ég fór í vettvangsheimsókn í fangelsið á Hólmsheiði þar sem ég fékk að vera heila vakt með Huldu hjúkrunarfræðingi sem þar starfar. Hún tók vel á móti mér og sagði það besta við starfið vera að fá að

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Suðurlandsbraut 22 · 108 Reykjavík

Sími: 540 6400

hjukrun.is

Útgefandi: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

hjálpa fólki í erfiðum aðstæðum og sjá jafnvel vonarneista kvikna, jafnvel þegar allt virðist svart hjá viðkomandi. Hennar skjólstæðingar eiga oft við fjölþættan vanda að stríða; fíknivanda og áfallasögu. En hún segir að það sé líka erfitt að sjá vonarneista kvikna því kerfið sé oft ekki í stakk búið að taka við þessum brotnu einstaklingum þegar þeir fara aftur út í samfélagið. „Ég sé einstaklinga sem hefðu getað átt betri möguleika ef stuðningurinn, meðferðin og tækifærin hefðu verið til staðar. Þess vegna er mín helsta ósk sú að yfirvöld leggi meiri áherslu á endurhæfingu, menntun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Að fólk fái raunverulegt tækifæri til að byrja upp á nýtt. Ef heilbrigðisyfirvöld, Fangelsismálastofnun og aðrir hagsmunaaðilar vinna saman að því að bæta þjónustu og tryggja jafnrétti innan kerfisins, þá getum við byggt upp fangelsi sem stuðlar að bata fremur en broti. Með virðingu, fagmennsku og skilningi getum við skapað öruggara og mannúðlegra umhverfi – bæði fyrir fangana og okkur öll sem samfélag,“ sagði Hulda einlæg.

Við þurfum að hlúa að öllum; föngum, ungmennum, öldruðum og sjúkum en öll þurfum við líka að hlúa að okkur sjálfum og því fórum við Helga Rósa, formaður félagsins, í Heiðmörk og prófuðum japanskt skógarbað. Það reyndist vera ferð til „heilsufjár“ ef svo má að orði komast. Líkaminn slakaði á undir háum trjákrónum á meðan rigningardropar lentu í hrönnum á andlitinu, varðeldur skapaði róandi stemningu því snarkið í eldinum og ilmurinn af viðarbitum í ljósum logum fyllti vitin og róaði taugarnar. Þetta var endurnærandi upplifun og opnaði augun fyrir þeirri heilsulind sem náttúran er. Hvet öll til að nýta heilunarkraft náttúrunnar yfir hátíðarnar og njóta samveru án snjalltækja.

Ég tók áhugavert viðtal við Ernu Haraldsdóttur sem hefur rannsakað nærveru sem meðferðarform í fjölda ára, en hún segir að erfitt geti verið að skilja mikilvægi nærveru sem meðferðarforms. „Í líknarmeðferð tengist nærveran oft því að horfast í augu við dauðann og sættast við stöðuna og reyna þá að nýta tímann sem eftir er sem best. Það er ekki síður mikilvægt fyrir aðstandendur að eiga samtalið en að sama skapi verður alltaf að bera virðingu fyrir því að það eru ekki allir á þeim stað að geta talað um dauðann. Það krefst næmni og góðrar tilfinningagreindar að geta lesið hópinn og aðstæður hverju sinni,“ segir hún og tekur fram að nærvera geti haft alls konar birtingarmyndir; að hlæja saman, gráta saman og allt þar á milli. Það er samkenndartilfinning sem myndast.

Nærvera er rauði þráðurinn í lífinu.

Gleðilega hátíð, kæru hjúkrunarfræðingar, og njótið þess að vera með fólkinu ykkar. Það er dýrmætasta gjöfin.

Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Ritnefnd: Hildur Dís Kristjánsdóttir, Sólveig Hauksdóttir, Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman

Ritstjóri ritrýndra greina: Inga Valgerður Kristinsdóttir

Ritnefnd ritrýndra greina: Herdís Sveinsdóttir, Kristín Linda H. Hjartardóttir, Sigrún Sunna Skúladóttir

Yfirlestur: Ragnheiður Linnet

Auglýsingar: Erna Sigmundsdóttir

Umbrot: Prentmet Oddi

Forsíðumynd: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Prentun: Prentmet Oddi

ISSN 1022-2278

Pistill ritstjóra

Kaupa tryggingu

Meðgöngutrygging

Tryggjum verðandi mæður

Meðgangan er ferðalag og við tryggjum þig á leiðinni. Meðgöngutrygging Sjóvá nær yfir tímabil sem aðrar tryggingar gera ekki.

Sjóvá | sjova.is | 440 2000 | sjova@sjova.is

Kæru

Metnaður og eldmóður einkenndi HJÚKRUN 2025

hjúkrunarfræðingar, mikið var gaman að hittast á vísindaráðstefnunni HJÚKRUN 2025, sem haldin var í Hofi á Akureyri dagana 25.–26. september síðastliðinn. Ráðstefnan tókst einstaklega vel en uppselt var á hana í fyrsta sinn í sögu félagsins. Akureyri skapaði fallega umgjörð um fjölbreytta dagskrá þar sem faglegt starf hjúkrunarfræðinga og ný þekking voru í öndvegi.

Sum erindin kveiktu eldmóð, önnur nýjan áhuga eða vöktu til umhugsunar, enn önnur snertu djúpt við manni og minntu á mikilvægi starfs okkar í lífi fólks.

Það kom skýrt fram á ráðstefnunni að í hjúkrun á Íslandi er unnið öflugt og metnaðarfullt starf. Við eigum að sækja fram, taka pláss og nýta þau verkfæri sem við höfum til að efla okkur og fagið. Má þar nefna, háskólanám á heimsmælikvarða, Starfsþróunarsetur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, rannsóknarsjóð félagsins og þau fjölmörgu tækifæri til sí- og endurmenntunar sem standa til boða. Þetta eru lykilverkfæri til að þróa fagið áfram og styrkja stöðu hjúkrunar.

Eftir opnunarerindi Ingibjargar Jónsdóttur situr eftir hjá mér setningin: „Þetta snýst bara ekkert um þessi hormón“. Í erindi sínu fjallaði Ingibjörg um rannsóknir sínar á veikindum kvenna í hefðbundnum kvennastéttum. Hún sýndi fram á að orsök veikinda liggur ekki í líffræði þess að vera kona heldur í starfinu og umhverfinu. Konur við störf í hefðbundnum kvennastéttum bera oftar en ekki víðtækari ábyrgð í störfum sínum en gengur og gerist í störfum sem talin eru til hefðbundinna karlastétta. Samanburður þessara tveggja hópa sýnir einnig að í hefðbundnum kvennastéttum hafa einstaklingar minni völd og færri úrræði til að takast á við verkefni starfa sinna. Að auki sýna rannsóknir að konur sinna enn í meira mæli svokölluðu þriðju og fjórðu vaktinni í ofanálag. Þegar karlar eru í sambærilegri stöðu, hvað varðar álag í starfi og einkalífi, kemur í ljós að þeir endast ekki betur. Þannig sýna rannsóknirnar skýrt að það er starfið og umhverfið en ekki kyn einstaklingsins sem ræður úrslitum. Af því leiðir að við verðum að leggja áherslu á að bæta starfsumhverfi hefðbundinna kvenna-

stétta, tryggja raunhæfar kröfur og skapa aðstæður sem styðja við heilbrigði og sjálfbærni í starfi. Hluti af þeirri vegferð er vinna við mönnunarviðmið í hjúkrun. Við síðustu kjarasamninga hjúkrunarfræðinga við ríki var ákveðið að skipa vinnuhóp um innleiðingu á verklagi um slík viðmið. Sú vinna er hafin og gengur samkvæmt áætlun.

Haustið hefur enn einu sinni borið með sér fréttir af erfiðum aðstæðum innan Landspítala. Það hefur áhrif á okkur öll. Álagið er ekki bundið við spítalann heldur endurspeglar það stöðu heilbrigðiskerfisins í heild. Þegar ekki er hægt að tryggja eðlilegt flæði sjúklinga um kerfið vegna skorts á úrræðum, skapast ófremdarástand sem bitnar á öllum. Þegar við þurfum sífellt að gefa afslátt af þjónustu og fagmennsku, hefur það neikvæð áhrif á faglega sjálfsmynd okkar. Endurtekin atvik af því tagi skilja eftir sig sár í siðferðisvitund okkar, sár sem getur verið erfitt að græða. Þegar hjúkrunarfræðingar þurfa að taka sér hlé eða hverfa frá starfi til að græða þessi sár, þá tapar allt samfélagið. Fyrir utan sjálfsagða kröfu um eðlilegt starfsumhverfi leggur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga ríka áherslu á að efla faglegan stuðning, handleiðslu og úrvinnslu óvæntra atvika á vinnustöðum. Slíkur stuðningur skiptir sköpum fyrir líðan, öryggi og faglegt sjálfstraust. Við hvetjum alla hjúkrunarfræðinga til að nýta þau úrræði sem í boði eru og hvetjum heilbrigðisstofnanir til að tryggja að faglegur stuðningur sé hluti af skipulagi hvers vinnustaðar.

Nú er aðventan fram undan. Í skammdeginu er mikilvægt að huga að andlegri líðan og muna eftir D-vítamíninu. Ég vona að hjúkrunarfræðingar geti gefið sér tíma til að njóta samveru og gleði með sínum nánustu. Þótt birtan sé fátæk á himni verðum við að huga að ljósinu innra með okkur.

Megið þið eiga hamingjuríka og endurnærandi aðventu.

Helga Rósa Másdóttir formaður

Hjálpartæki til daglegra athafna

Öll getum við átt von á því að þurfa aðstoð við daglegar athafnir einhverntímann á lífsleiðinni. Fastus heilsa býður upp á fjölbreytt úrval sérvalinna hjálpartækja sem mæta ólíkum þörfum. Faglegt teymi sérfræðinga veitir ráðgjöf og aðstoð.

Sími 5803900 | fastusheilsa.is | Höfðabakki 7, 110 Reykjavík

Erna Haraldsdóttir prófessor í hjúkrunarfræði við Queen Margaret háskólann

Nærvera sem meðferðarform mikilvæg í líknarmeðferð

Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Kristina Mountain

Erna Haraldsdóttir lauk doktorsnámi í hjúkrunarfræði við Háskólann í Edinborg árið 2007 þar sem hún rannsakaði hugtakið nærvera í tengslum við líknarmeðferð. Hún er starfandi prófessor í hjúkrunarfræði við Queen Margaret háskólann í Edinborg þar sem hún stýrir rannsóknarsetri í persónumiðaðri umönnun. Nærvera sem meðferðarform við lífslok hefur verið rauði þráðurinn á starfsferli Ernu því áður en hún fór í doktorsnám starfaði hún m.a. á krabbameins- og líknardeild. Hún hefur haldið námskeið fyrir fagfólk um mikilvægi nærveru sem inngrips og meðferðarforms í heimi þar sem hraðinn er mikill á sama tíma og ákall um persónumiðaða heilbrigðisþjónustu er áberandi. Ritstýran sló á þráðinn til Ernu í Edinborg og fékk hana í viðtal um það sem hefur átt hug hennar í áratugi, nærveru.

Erna útskrifaðist úr hjúkrunarfræði árið 1987 og fór fljótlega eftir útskrift að starfa á krabbameinslækningadeild kvenna sem á þeim tíma var staðsett á Fæðingarheimilinu á horni Þorfinnsgötu og Eiríksgötu. „Þaðan fór ég svo á deild 11E við Hringbraut sem var þá nýstofnuð krabbameinslækningadeild, það var á þessum deildum sem ég kynntist fyrst líknarhjúkrun. Kristín Sophusdóttir hjúkrunarfræðingur var deildarstjóri á krabbameinslækningadeild kvenna þegar ég hóf störf þar. Hún fór svo yfir á deild 11E þar sem hún var deildarstjóri og ég ákvað að fylgja henni þangað. Kristín hafði mikinn áhuga á líknarmeðferð og það má segja að hún hafi kveikt áhuga minn, þarna voru líka starfandi krabbameinslæknarnir Sigurður Árnason og Þórarinn Sveinsson sem einnig voru áhugasamir um að geta veitt sjúklingum með ólæknandi krabbamein líknarmeðferð.“

Fagfólk með eldmóð og brennandi áhuga þróaði meðferð

Eftir þrjú ár á deild 11E ákvað Erna að breyta til: „Ég fór þá að starfa hjá Heimahlynningu Krabbameinsfélagsins sem tók það upp á sína arma að veita sérhæfða líknarmeðferð í heimahúsum. Hvoru tveggja, starfið á 11E og í Heimahlynningu Krabbameinsfélagsins, var frábær frumkvöðlavinna fyrir ungan hjúkrunarfræðing. Þarna kynntist ég fólki með eldmóð og brennandi áhuga á að bæta og þróa meðferð fyrir ólæknandi og deyjandi einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Auk Kristínar og Sigurðar kynntist ég og starfaði með Valgerði Sigurðardóttur krabbameinslækni og Bryndísi Konráðsdóttur, hjúkrunarfræðingi í Heimahlynningunni. Á þessum tíma gerði Tryggingastofnun Ríkisins samninga við hjúkrunarfræðinga sem störfuðu við Heimahlynningu Krabbameinsfélagsins. Við fengum þannig greitt fyrir hverja vitjun á líknandi hjúkrunarmeðferð fyrir deyjandi krabbameinssjúklinga sem voru heima. Þetta var alveg nýtt fyrirkomulag á þessum tíma. Við störfuðum sem sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar og vorum með aðsetur hjá Krabbameinsfélaginu sem útvegaði okkur húsnæði,“ rifjar hún upp og segir að þetta hafi verið lærdómsríkur og dýrmætur tími.

Stofnuðu sérhæft líknarteymi á Landspítala Erna vann líka um tíma hjá Karítas sem einnig veitti líknandi hjúkrunarmeðferð í heimahúsum og þróaðist út frá Heimahlynningu Krabbameinsfélagsins. „Að sinna sérhæfðri líknarmeðferð í heimahúsum var afar gefandi starf. Nokkrum árum seinna, eða árið 1997, stofnaði ég ásamt Nönnu Friðriksdóttur hjúkrunarfræðingi og Sigurði Árnasyni krabbameinslækni líknarteymi sem veitti ráðgjöf um líknarmeðferð á Landspítala. Fram að þeim tíma hafði sérhæfð líknarmeðferð ekki verið í boði innan spítalans. Við vorum ráðgefandi teymi fyrir allar deildir spítalans fyrir skjólstæðinga sem voru með ólæknandi sjúkdóm og deyjandi en þá snýst meðferðin um að láta sjúklingnum líða eins vel og unnt er og þjást sem minnst. Öll meðferðin byggist þá á því að meðhöndla einkenni sjúkdómsins, svokölluð einkennameðferð, sem var ný hérlendis á þessum tíma. Það má því segja að þetta hafi verið lítill en afar öflugur hópur af hjúkrunarfræðingum og læknum sem setti á laggirnar líknarmeðferð innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Að vera hluti af þessum hópi var ómetanlegt. Kristín kom með þekkingu frá Danmörku þar sem hún lærði líknarhjúkrun og Sigurður Árnason sem var mikil frumkvöðull í líknandi læknismeðferð, sótti sér þekkingu til Bretlands. Við fórum svo sem hópur saman erlendis á ráðstefnur, fengum erlenda sérfræðinga til landsins og héldum vinnusmiðjur hér á landi. Við þróuðum þekkinguna, teymisvinnuna og vinnulagið í sameiningu og þessi vinna lagði grunninn að innleiðingu líknarmeðferðar á Íslandi.“

Erna segir að mikil samvinna hafi einkennt uppbyggingu á líknarmeðferð sem meðferðarforms innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Þverfagleg vinna var hornsteinninn með Bryndísi og Kristínu í fararbroddi hjúkrunarfræðinga og læknunum Valgerði og Sigurði. „Þetta var spennandi frumkvöðlastarf og með tímanum stækkaði hópurinn og hjúkrunarfræðingunum í honum fjölgaði. Fagaðilar úr öðrum stéttum komu formlega inn i starfið þegar við settum upp líknarteymið á Landspítala en þá bættust við Barbel Schmid félagsráðgjafi og séra Bragi Skúlason. Auk þess varð

„Við þróuðum þekkinguna, teymisvinnuna og vinnulagið í sameiningu og þessi vinna lagði grunninn að innleiðingu líknarmeðferðar á Íslandi.“

öldrunarlæknirinn Jón Eyjólfur Jónsson hluti af líknarteyminu sem efldi líknarmeðferðina enn frekar inn á svið öldrunar,“ útskýrir hún.

Nærvera mikilvægt inngrip í líknarhjúkrun

Þá ætlum við að spóla nokkur ár aftur í tímann og forvitnast um hvers vegna hún hafi upphaflega heillast af hjúkrunarfræði?

„Ég held ég hafi verið 10 ára þegar ég sagðist ætla að verða hjúkrunarfræðingur og það var engin sérstök ástæða, þetta var bara ákvörðun sem ég tók og ég stóð við hana,“ svarar hún á léttu nótunum og þá hraðspólum við áfram að doktorsnáminu. Hvaða

drifkraftur varð til þess að þú fórst í framhaldsnám í hjúkrun?

„Þegar ég var í þessu frumkvöðlastarfi og var að fara á ráðstefnur og byggja upp og leiða líknarteymið fann ég að mig langaði að sækja mér meiri menntun á þessu sviði. Ég ákvað að fara til Edinborgar í meistaranám og lagði land undir fót ásamt dóttur minni sem þá var níu ára. Upphaflega ætlaði ég bara að vera eitt ár í Edinborg en þegar gráðan var í höfn eftir árið langaði mig að halda áfram og hefja doktorsnám. Dóttir mín blómstraði í Edinborg og mér leið líka vel svo ég lét slag standa og byrjaði í doktorsnáminu. Í doktorsverkefninu skoðaði ég nærveru í hjúkrun; meðferð, hlutverk og mikilvægi nærveru í líkandi meðferð.

Erna Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur Ph.D. professor og stjórnandi rannsóknarsviðs í Person Centered Practice Research við Queen Margaret háskóla í Edinborg.

„Ég gerði athugunarrannsókn sem leiddi í ljós að hjúkrunarfræðingum fannst flókið að veita þessa nærveru og veigruðu sér við að fara inn í þær aðstæður með sjúklingum sem voru deyjandi.“

Erna hefur birt fjölda rannsóknagreina þar sem einstaklingsmiðuð umönnun og nærvera sem meðferðarform er rauði þráðurinn í hennar rannsóknum.

Mig langaði að skoða hvernig hjúkrunarfræðingar veita nærveruna sem meðferð og sem hluta af líknarhjúkrun. Ég gerði athugunarrannsókn sem leiddi í ljós að hjúkrunarfræðingum fannst flókið að veita þessu nærveru og veigruðu sér við að fara inn í þær aðstæður með sjúklingum sem voru deyjandi. Rannsókn mín sýndi að þeir slógu frekar á létta strengi og gerðu gott úr hlutunum í stað þess að ræða hreinskilningslega við sjúklinginn um upplifun hans og tilfinningar í flóknum aðstæðum þegar lífslok nálguðust. Í líknarmeðferð er nærvera skilgreind sem mikilvægt inngrip til að leyfa fólki að tjá sína líðan, að heyra þjáninguna og upplifa hana með sjúklingnum getur skipt hann miklu máli. Að hlúa að andlegri líðan þess sem er deyjandi er stundum það eina sem við getum gert fyrir hann.“

Erna segir að doktorsrannsókn sín hafi leitt í ljós að hjúkrunarfræðingar voru frekar verkbundnir í hugsun, fannst of erfitt og sársaukafullt að taka samtalið og hlusta á þjáninguna og fengu hvorki klínískar leiðbeiningar né stuðning til þess. Í grófum dráttum kemur út úr minni rannsókn að hjúkrunarfræðingar höfðu hvorki þekkinguna né skilninginn á mikilvægi þess að veita þessa mikilvægu nærveru í líknarmeðferð. Ég fór í kjölfarið að miðla þekkingu minni með námskeiðum um þetta,“ segir Erna en hún var með fjarnámskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í október síðastliðnum. Námskeiðið heitir Nærvera – að hlúa að sjálfum sér og öðrum.

Óttinn við að fara inn í samtalið má ekki koma í veg fyrir að það eigi sér stað Erna hélt erindi á Íslandi um nærveruna og gildi hennar sem hjúkrunarmeðferðar á málþingi fagdeildar um samþætta hjúkrun í október árið 2022. „Þar var afar skemmtileg og hvetjandi umræða um þessa hlið hjúkrunar og ég heyrði þá að íslenskir hjúkrunarfræðingar væru, undir forystu Þóru Jennýjar Gunnarsdóttur og Lóu Bjarkar Ólafsdóttur, að vinna að því að koma því í gegn að nærveran væri samþykkt sem hjúkrunarmeðferð í ICNP-kerfinu. Í janúar 2024 frétti ég svo að það væri komið í gegn sem mér finnst afar mikilvægt vegna þess að oft og tíðum er nærveran illa skilgreind og gildi hennar vanmetið.“

Erna segir að eigi fagfólk að geta veitt árangursríka nærveru þurfi það hæfni og þekkingu á nærveru sem meðferðarformi. „Í hraða samfélagsins og ekki síst heilbrigðiskerfisins þar sem áherslan er frekar á skilvirkni er erfitt að skilja mikilvægi nærveru sem meðferðarforms. Eins ef heilbrigðisstarfsfólk er verkbundið í hugsun þá finnst því það jafnvel ekki vera að gera neitt ef það er að veita nærveru og hlustun. Það er ekki í forgangi þegar álagið er mikið og þá er hættan að þessi mikilvægi þáttur í hjúkrun fjari út með tímanum. Í líknarmeðferð tengist nærveran oft því að horfast í augu við dauðann og sættast við stöðuna og reyna þá að nýta tímann sem eftir er sem best. Það er ekki síður mikilvægt fyrir aðstandendur að eiga samtalið en að sama skapi verður alltaf að bera virðingu fyrir því að það eru ekki allir á þeim stað að geta talað um dauðann. Það krefst næmni og góðrar tilfinningagreindar að geta lesið hópinn og aðstæður hverju sinni,“ segir hún og tekur fram að nærvera geti haft alls konar birtingarmyndir; að hlæja saman, gráta saman og allt þar á milli. Það er samkenndartilfinning sem myndast. Það er hægt að læra nærveru og tileinka sér nærveru sem meðferðarform. Þetta er svo mikilvægur þáttur í hjúkrun og mín reynsla er að flestir eru tilbúnir að efla sig og læra að veita nærveru en það sem stoppar fólk stundum er að það óttast að það geri eitthvað rangt eða sé klaufalegt. Það er allt í lagi því mín reynsla er að þegar sjúklingur finnur að það er verið að reyna að

veita nærveru þá grípur hann oft boltann og þá er auðveldara að ræða hlutina. Óttinn við að fara inn í samtalið má ekki koma í veg fyrir að samtalið eigi sér stað. Með hlustun og nærveru getur fólk verið til staðar sem er oft það eina sem það getur gert en það er svo mikilvægt.“

Sálrænum þáttum deyjandi ekki sinnt

Nærvera hefur verið rauði þráðurinn á þínum starfsferli, tengist það persónulegri lífsreynslu? „Nei, það sem vakti áhuga minn var frumkvöðulsvinna Dame Cicley Saunders i Bretlandi sem má segja að sé móðir líknarmeðferðar. Árið 1967 hóf hún að þróa líknarmeðferð og hjúkrun deyjandi sjúklinga. Á þeim tíma dó fólk jafnvel félagslegum dauða áður en það raunverulega lést því sálrænum þáttum þess var ekki sinnt, þá voru sjúklingar oft skildir einir eftir í upplifun sinni að vera deyjandi. Mér fannst hennar nálgun í hjúkrun svo merkileg og eins tengdist það mjög vel kenningum í hjúkrun sem ég hafði lært. Þannig þróaðist það að nærvera varð rauði þráðurinn í mínum störfum, bæði sem hjúkrunarfræðings og prófessors við háskólann hér í Edinborg,“ segir hún einlæg.

Og eftir mörg ár af rannsóknum og reynslu þegar kemur að nærveru sem meðferðarformi við lífslok, hvað þarf fagfólk að hafa í huga til að geta veitt þessa mikilvægu nærveru? „Það er ákveðinn þroski og samskiptafærni sem þarf og einnig að geta verið einn með sjálfum sér til að geta verið með öðrum í svona aðstæðum. Það getur dýpkað skilning að hafa kafað djúpt í eigið sálarlíf og jafnvel upplifað þjáninguna til að skilja hana að ákveðnu leyti. Það er svo dýrmætt að hafa þessa innri ró; að geta setið og hlustað á sjúklinga sem eru á þessum erfiða stað að vera deyjandi.“

Ef þú ættir að gefa ráð til að auka eigin hæfni til að veita nærveru hver væru þau? „Að vinna að eigin sálarró. Að hafa tilfinningagreind og að efla hana með því að fara á námskeið þar sem við speglum hegðun okkar. Skoða sífellt hvað við gerum vel og hvernig hefði verið hægt að bregðast öðruvísi við. Læra hvert af öðru og styðja hvert annað, stuðningur hópsins eða teymisins er mjög mikilvægur til að geta veitt nærveruna í tilfinningaþrungnum aðstæðum, það skiptir máli að geta rætt hlutina. Svo er gott að fara á námskeið og lesa til að afla sér þekkingar.“

Prófessor með 15 doktorsnema

Eftir gott spjall um mikilvægi nærverunnar við lífslok vindum við okkur í aðra og léttari sálma; hvernig prófessorslífið við Queen Margaret háskólann í Edinborg sé. „Mjög skemmtilegt, mér finnst ofsalega gaman í vinnunni. Ég er með 15 doktorsnema sem eru að gera áhugaverðar rannsóknir sem allar tengjast persónulegri nálgun í heilbrigðiskerfum með það að leiðarljósi að gera heilbrigðiskerfin manneskjulegri svo þau þrífist sem best,“ svarar hún og aðspurð um hvernig starfsandinn sé við háskólann sem hún starfar við í Edinborg segir hún: „Ég kenndi líknarmeðferð í masters-náminu við Háskóla Íslands og munurinn á kaffistofunni þar og hér í Edinborg er þessi formfesta, heima á Íslandi fannst mér fólk almennt frjálslegra og opnara að ræða hin ýmsu mál. Ég sakna drífandi og framtakssömu menningarinnar á Íslandi því Bretar eru rótgrónir og fastheldnir, hér reddar enginn hlutunum eins og heima. Ég sakna stundum hugarfarsins á Íslandi en á móti kemur að það er meiri ró og friður hér, það þarf ekki alltaf að stökkva til um leið og eitthvað kemur upp, bæði löndin hafa því sína kosti.“

Iðkar þakklæti og hlúir að sjálfri sér og sínum

Að endingu er við hæfi að spyrja Ernu hvernig hún hlúi að sjálfri og næri best andann en það stendur ekki á svörum: „Ég elska að ganga úti í náttúrunni og hér í Edinborg þar sem ég bý er stutt fyrir mig að fara í skóglendi og fallega náttúru. Ég reyni að taka góðan göngutúr, helst alla daga ársins, því ég finn hvað það gerir mikið fyrir mig og mína líðan. Mér finnst líka mikilvægt að iðka þakkæti fyrir litlu hlutina í lífinu og að hlúa vel að fólkinu mínu og svo les ég mjög mikið. Bækur sem víkka skilninginn og gefa mér nýja, eða aðra sýn, á lífið eða manneskjuna heilla mig því ég hef alla tíð haft áhuga á mannlegu eðli, samskiptum og hvað það er sem einkennir gott líf,“ svarar hún glöð í bragði og bætir við að hún sé stöðugt að reyna að bæta sig, verða betri manneskja og hæfari í að veita árangursríka nærveru sem auðvitað getur verið flókið að mæla en svo mikilvægt að veita.

Örlítið meira um Ernu

Nafn og starfstitill:

Erna Haraldsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði og stjórnandi rannsóknarsviðs í Person Centered Practice Research við Queen

Margaret háskóla í Edinborg.

Fæðingardagur?

28. desember 1962.

Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?

Þær eru nokkrar og ein þeirra er séra Auður Eir.

En faglega fyrirmyndin?

Þær Kristín Sophusdóttir og Bryndís Konráðsdóttir.

Hverju ertu stoltust af?

Að hafa valið að fara mínar eigin leiðir í lífinu, jafnvel þegar það var erfitt.

Þrjú orð sem lýsa persónuleika þínum vel?

Ákvæð, bjartsýn og þrautseig.

Eftirminnilegasta atvikið á starfsferlinum?

Þegar ljóst var að líknarteymi Landspítala var komið til að vera. Anna Stefánsdóttir, sem þá var hjúkrunarforstjóri hafði mikinn

áhuga og mikla trú á verkefninu og hún studdi dyggilega við okkur sem komum að þessu. Svo var gerð úttekt á starfsemi líknarteymisins sem sannaði gildi þess. Mér er líka svo minnisstætt þegar ég var á alþjóðlegri líknarráðstefnu og landakorti var varpað upp á skjá í salnum sem sýndi hvar í heiminum líknarteymi störfuðu sem hluti af sjúkrastofnunum viðkomandi lands. Ísland var þar á meðal sem var gaman að sjá.

Ef þú ættir tvær óskir?

Að fólk væri metið út frá manngildum og karakter þegar valið er til stjórnunarstarfa. Að viska væri metin jafnhátt og vísindaleg þekking.

Hvað er það besta við að búa í Edinborg?

Borgin er svo falleg, hér eru gamlar og reisulegar byggingar, svo eru Skotar mjög vinsamlegir og notalegir og hér er auðvelt að komast í fallega náttúru.

Hvaða áfanga myndir þú vilja innleiða í grunnnámið í hjúkrunarfræði ef þú mættir ráða?

Í Queen Margaret háskólanum leggjum við mikla áherslu á persónumiðaða hjúkrun sem er rauði þráðurinn í gegnum allt námið, fremur en að það sé bara einn áfangi í náminu. Mér finnst að þannig ætti það að vera í öllu grunnnámi í hjúkrunarfræði.

Hvaða lífsreynsla hefur mótað þig mest?

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem ungur hjúkrunarfræðingur og fékk að kynnast og starfa við ýmiss konar líknarmeðferð.

Uppáhaldsstaður í heiminum til að slaka á?

„Við þróuðum þekkinguna, teymisvinnuna og vinnulagið í sameiningu og þessi vinna lagði grunninn að innleiðingu líknarmeðferðar á Íslandi.“

Sumarbústaðurinn minn sem ég á með systkinum mínum rétt fyrir utan Stokkseyri á Íslandi.

Hvernig eyðir þú frídögum?

Með fjölskyldunni. Það er ekkert betra en frjáls dagur sem byrjar með kaffibolla og spjalli og líður svo bara áfram.

Besta ráð sem þú hefur fengið á lífsleiðinni?

Að þróa kjarkinn til að lifa lífinu lifandi.

Trúir þú á líf eftir dauðann?

Já og nei, ég trúi samt að mestu leyti á líf eftir dauðann sem birtist kannski best í samræðum sem ég á reglulega við látna foreldra mína.

Þitt mottó?

"Life shrinks or expands in proportion to one's courage," (Anais Nin)

Gegn flösu, kláða og flögnun í hársverði

Dermatín

20 mg/g hársápa

Dermatín inniheldur ketókónazól sem er sveppalyf og er notað við flösu og öðrum sveppasýkingum sem valda kláða og flögnun. Sýkt húðsvæði eða hársvörður er þveginn með hársápunni og hún látin liggja á húðinni í 3-5 mín. áður en skolað er. Hársápan notist tvisvar sinnum í viku í 2-4 vikur og síðan eftir þörfum. Dermatín er ætlað unglingum og fullorðnum. Kynnið ykkur notkunarleiðbeiningar, varnaðarorð og frábendingar áður en lyfið er notað. Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins.

Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is

Markaðsleyfishafi: Teva B.V. Umboðsaðili á Íslandi: Teva Pharma Iceland ehf.

Uppskeruhátíð hjúkrunarfræðinga í Hofi á Akureyri

Texti:

Helga Pálmadóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Ráðstefnan Hjúkrun 2025 var haldin dagana 25. og 26. september í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ráðstefnan er uppskeruhátíð hjúkrunarfræðinga sem koma saman, miðla reynslu og fræðast um nýjustu rannsóknir og þróun á sviði hjúkrunar. Alls bárust 72 ágrip og úr þeim varð til fjölbreytt og áhugaverð dagskrá sem endurspeglaði sterkt vísindasamfélag hjúkrunar á Íslandi. Sannkölluð vísindaveisla í Hofi og almennt mikil ánægja meðal hjúkrunarfræðinga sem mættu með það sem var í boði.

Í fyrsta sinn í sögu ráðstefnunnar seldist upp á hana og var því um metþátttöku að ræða. Rúmlega 500 hjúkrunarfræðingar komu saman á Akureyri og nutu tveggja daga faglegs fjörs, góðra veitinga, skemmtidagskrár og samveru með samstarfsfólki og kollegum.

Aðalfyrirlesararnir sýndu glöggt hversu mikilvægir leiðtogar hjúkrunarfræðingar eru

Aðalfyrirlesararnir buðu upp á fjölbreytt og áhrifarík erindi sem vöktu mikla athygli. Árún K. Sigurðardóttir, heiðursfyrirlesari ráðstefnunnar, fjallaði um nám í hjúkrunarfræði fyrr og nú og lagði áherslu á mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingar hafi sjálfir áhrif á menntun sína og faglega þróun.

Hildigunnur Svavarsdóttir hvatti hjúkrunarfræðinga til dáða og sagði frá því hvernig kjarni hjúkrunar, umhyggjan, hefur verið hennar veganesti í fjölbreyttum verkefnum. Ingibjörg Jónsdóttir, prófessor í lýðheilsufræðum, ræddi um áhrifaþætti kulnunar í heilbrigðiskerfinu og mikilvægi þess að bæta vinnuaðstæður heilbrigðisstarfsfólks. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir kynnti þá mikilvægu vinnu sem nú fer fram við að setja mönnunarviðmið í hjúkrun og Margrieta Langins, yfirhjúkrunarfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, fjallaði um þol heilbrigðiskerfa í Evrópu og mikilvægi þess að styrkja og valdefla hjúkrun á heimsvísu.

Steinunn Jónatansdóttir flutti erindi um landsbyggðarhjúkrun sem sérgrein og lagði áherslu á að efla hana enn frekar. Marianne Klinke ræddi samspil vísinda og menntunar í hjúkrun einstaklinga með heilaslag og lýsti áhrifum gagnreyndrar þekkingar í hjúkrun á batahorfur sjúklinga. Að lokum flutti Ingibjörg R. Þórðardóttir áhrifaríkt erindi um rýmingu hjúkrunarheimilisins Víðihlíðar í Grindavík og undirstrikaði mikilvægi þess að uppfæra viðbragðsáætlanir á stofnunum. Aðalfyrirlesararnir sýndu glöggt hversu mikilvægir leiðtogar hjúkrunarfræðingar eru í störfum sínum og hversu sterkir hjúkrunarfræðingar eru í samfélaginu sem fagstétt.

Framtíð hjúkrunar björt

Ánægjulegt var að sjá hversu margir ungir og upprennandi hjúkrunarfræðingar tóku virkan þátt í ráðstefnunni, sem gefur til kynna að framtíð hjúkrunar á Íslandi er björt. Þá kom einnig í ljós að hjúkrunarfræðingar eru hæfileikaríkir á mörgum sviðum, því þeir sáu sjálfir að miklu leyti um skemmtidagskrána með tónlist, söng og skífuþeytingum. Ráðstefnan Hjúkrun 2025 var því bæði fagleg og skemmtileg hátíð hjúkrunarfræðinga, þar sem faglegt starf, vísindi og samvera runnu saman í eina heild. Við hlökkum þegar til næstu ráðstefnu, Hjúkrun 2027 sem haldin verður í Reykjavík.

Hundrað ára saga tímaritaútgáfu hjúkrunarfræðinga

Tímarit hjúkrunarfræðinga 100 ára

Texti: Ari Brynjólfsson

Í ár eru liðin 100 ár frá því hjúkrunarfræðingar á Íslandi hófu tímaritaútgáfu. Tölublöðin eru öll varðveitt af bæði Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Landsbókasafni. Í síðasta tölublaði var farið yfir sögu tímaritaútgáfunnar í grófum dráttum. Núna verða skoðaðir einstaka efnisþættir sem vöktu athygli á sínum tíma.

Hjúkrunarnemar á blaðamannafundi, mynd úr Þjóðviljanum 14. október 1977.

Algengt efni í tímaritinu eru minningar um látna hjúkrunarfræðinga sem og hátíðarræður fluttar af ýmsum tilefnum. Minningar um einstaklinga hafa haldið áfram að birtast í tímaritinu allt fram á þennan dag en sökum þess að tímaritið er margfalt fleiri blaðsíður nú en áður er efnið ekki jafn áberandi og áður. Þessar minningar og endursagnir af ræðum veita ávallt mikilvæga innsýn í tíðaranda, líf hjúkrunarfræðinga og jafnvel persónuleika.

Ræður og minningar

Harriet Kjær

Árið 1928 hélt Harriet Kjær, yfirhjúkrunarkona á Laugarnesi og fyrsti formaður Félags íslenska hjúkrunarfræðinga, boð á Hótel Íslandi. Fjallað er um erindi Sigríðar Eiríksdóttur, þáverandi formanns félagsins, í tilefni þess. „Einnig minntist formaður á að það hefði verið fröken Kjær að þakka að Fjelag Ísl. hjúkrunarkvenna var stofnað og að hún hafi verið fyrsti formaður þess, þó hún vildi ekki kannast við það.“ Þar er einnig vitnað í erindi baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem hafði þekkt Harriet Kjær lengst af öllum viðstöddum, hátt í 40 ár. „Skýrði frúin frá komu fröken Kjær til landsins, er ekki var allra glæsilegust, þar er allt var þá miklu ófullkomnara en nú er.“ Að þeirri ræðu lokinni bað Harriet viðstadda um að flytja ekki fleiri ræður því hún þyldi ekki meira, henni varð ekki að ósk sinni.

Harriet Kjær (lengst til vinstri í efri röð) og Sigríður Eiríksdóttir (þriðja frá vinstri).

Kristín Thoroddsen

Minningar um hjúkrunarfræðinga eru gjarnan ítarlegri í tímaritinu en annars staðar, í tilfelli andláts Kristínar Thoroddsen, skólastjóra Hjúkrunarskólans, forstöðukonu Landspítala og einn stofnenda félagsins, voru birtar ítarlegar greinar í tímaritinu, fyrst þegar hún lést árið 1961 og aftur árið 1964 þegar lágmynd af henni var afhjúpuð í Hjúkrunarskóla Íslands. Í minningunni um

hana er fjallað um för hennar til Danmerkur árið 1914 til að læra hjúkrun, störf hennar við Röntgenstofuna í Reykjavík 1918 til 1920 og svo ferðum hennar til Englands, Chile og New York til að vinna og læra meira. „Það var hennar vani að ganga stofugang ein síns liðs; hún vildi sjá með eigin augum hvernig hverjum og einum liði, öllum gafst kostur á að ræða við hana. Iðulega þokuðu kvíði og áhyggjur fyrir komu hennar, hún var þess umkomin að veita uppörvun og greiða úr ýmsum vanda,“ skrifar Anna Loftsdóttir, þáverandi formaður, um Kristínu. Minningarsjóður Kristínar

eftir þátttöku á árshátíð HNFÍ að dæma. Þar mættu aðeins fáeinir hausar og sjóðurinn varð að borga tugþúsundir í tap og skemmtinefnd sat með súrt ennið enda húnar að leggja mikla vinnu í undirbúning,“ segir í skýrslu stjórnar nemendafélags Hjúkrunarskóla Íslands frá því í febrúar 1975. „Fleiri tilraunir voru gerðar til þess að ná deyfðinni úr nemunum og tókst betur til bæði með spilakvöld og kvikmyndakvöld.“

allri hættu.“

Auk bréfanna var Ingunn fengin í viðtal í tímaritinu árið 1967, þar lýsti hún dvölinni. „Fyrsta sjúkraskýlið var kringlóttur kofi með stráþaki, byggður að hætti Konsómanna. Nú hefur nýlega verið reist sjúkrahús með 20 sjúkrarúmum,“ lýsti Ingunn. „Það er alltaf fullt. Oft liggja margir á stéttinni fyrir utan sjúkrahúsið og bíða eftir meðferð.“ Algengasti sjúkdómurinn var malaría, slöngubit voru algeng og sárasótt, fyrir utan farsóttir. „Erfiðar fæðingar eru algengar. Aðstaðan við fæðingarhjálp hefur mikið batnað síðan við fengum fæðingarbekk sem ég keypti fyrir peningagjöf frá Íslandi.“

Ingunn starfaði í alls 13 ár í Konsó og fjallaði tímaritið reglulega um hennar störf. Ingunn kom í ársleyfi aftur til Íslands árið 1960 þar sem hún nýtti tækifærið til að halda fyrirlestra, hún lést 63 ára að aldri árið 1981.

Raddir hjúkrunarnema

Fastur liður í tímaritinu frá sjötta fram á áttunda áratuginn nefndist

Raddir hjúkrunarnema. Efnistök voru margvísleg og góð heimild um hvað var á döfinni. „Hafið þið nokkurn tíma heyrt talað um að hjúkrunarnemar væru skemmtanaglaðir? Það er algjör fjarstæða

Í kjölfarið var svo ákveðið að hópefla hjúkrunarnema og fóru nokkrir á námskeið í slíku sem haldið var á vegum BSRB. „Námskeiðið fór í fyrstu fram í höfuðborginni og síðan var endaspretturinn tekinn í Munaðarnesi. Námskeiðið var byggt upp á hópvinnu og sást þar svart á hvítu hve langt er hægt að ná og skemmtilegra er að vinna saman í hópum en þegar hver pukrast í sínu horni. Árangur þessa námskeiðs hefur komið fram í störfum stjórnar og annars staðar og dreifist vinnan meira nú en áður þegar aðeins örfáir hausar

1977 áttu hjúkrunarnemar í kjaradeilu. „Helstu kröfur hjúkrunarnema voru hækkuð laun fyrir yfirvinnu, 75% af launum hjúkrunarfræðings fyrir 1. árs nema, 85% fyrir 2. árs nema og 100% fyrir 3. árs nema.“ Fjármálaráðuneytið og fulltrúar ríkisspítalanna komu með gagntilboð sem var hafnað. „Þá tókum við til okkar ráða. Þann 16. desember lýstum við yfir yfirvinnubanni, og síðan á félagsfundi 21. desember var ákveðið að hjúkrunarnemar segðu sig úr skóla frá og með 1. janúar 1978,“ segir í greininni. „Þar með var komin harka í málið og samstaðan gífurleg meðal nema. Alls 170 nemar skrifuðu undir úrsagnarlista, málið kynnt fyrir starfsfólki sjúkrahúsanna með dreifibréfi og almenningi gefinn kostur á að heyra málavöxtu í dagblöðunum.“ Tveimur dögum fyrir áramót tókust samningar sem hjúkrunarnemar töldu viðunandi. „Hvaða lærdóm getum við svo dregið af kjarabaráttu okkar? Jú, þann sama og áður: „Sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér“.“

Ingunn Gísladóttir 1918-1981.
Forsíða 1. tbl. tímaritsins árið 1945.

Margar áhugaverðar greinar má finna í tímaritinu á borð við frásögn Sigurborgar Einarsdóttur, hjúkrunarfræðings á Eskifirði, sem birtist árið 1975.

Tímaritið allt frá 1925 til dagsins í dag er aðgengilegt öllum á rafrænu formi, auðvelt er að nálgast tölublöðin í gegnum hjukrun.is, undir flipanum tímaritið og blaðasafn.

Þankastrik – tækifæri til að tjá sig Á tíunda áratugnum voru teknir upp tveir fastir liðir í tímaritið, Þankastrik og Hin hliðin, náðu þessir liðir að lifa inn í 21. öldina. Við fyrsta þankastrikið árið 1994 segir að það verði fastur dálkur þar sem höfundur hvers pistils stingi upp á þeim næsta. „Í Þankastriki gefst hjúkrunarfræðingum færi á að tjá sig um ýmislegt sem varðar hjúkrun og er þeim hjartfólgið. Pistlarnir geta fjallað um ákveðin málefni, sögur af kynnum við sjúklinga eða starfsfólk, eitthvað sem hefur orðið höfundum til hugljómunar eða hvaðeina annað sem tengist starfinu og hugmyndafræði þess.“

Það er auðvelt að rekja ferð þankastrikanna með því að fletta í gegnum tölublöðin á timarit.is, er þetta frábrugðið öðru efni að því leyti að þarna skrifuðu hjúkrunarfræðingar sem hefðu líklega annars ekki skrifað í tímaritið. Segja má að þankastrikin hafi náð ákveðnum hápunkti þegar skorað var á þáverandi heilbrigðisráðherra, Ingibjörgu Pálmadóttur hjúkrunarfræðing, sem skrifaði um vináttu. „Í Hjúkrunarskóla Íslands kynntist ég nokkrum kennurum sem ég hef haldið tryggð við æ síðan. En fyrst og fremst skólasystrum, „hollsystrum“ eins og mönnum er tamt að kalla þær og misskilst stundum; (hvílíkur fjöldi hálfsystra),“ skrifaði ráðherra.

Hin hliðin

Þátturinn Hin hliðin voru annars konar viðtöl við hjúkrunarfræðinga þar sem einungis var rætt um þeirra áhugamál eða störf utan við hjúkrun. Árið 1997 var rætt við Kristínu Pálsdóttur, hjúkrunarfræðing og margfaldan Íslandsmeistara í golfi, sagði hún þá að hún yrði vör við fleiri hjúkrunarfræðinga í golfi, nokkrum árum þar á undan hafði verið haldið mót fyrir hjúkrunarfræðinga þar sem fjórir tóku þátt. Einnig var rætt við Jóhönnu Harðardóttur, hjúkrunarfræðing á Blönduósi, sem var söngvari í hljómsveit. „Það er bara einn sjúklingur sem hefur sagt við mig að honum finnist ekki við hæfi að ég sé að syngja á böllum. Flestum finnst gaman að heyra hverjir voru mættir og hvernig var á ballinu. Reyndar hjálpar þetta mér við að mynda nánari tengsl við fólkið því ég er Reykvíkingur og ekki mjög kunnug hérna,“ sagði Jóhanna.

Þorgerður Ragnarsdóttir, ritstjóri 1993-1998.

Þorgerður Ragnarsdóttir settist fyrst í ritnefnd Tímarits Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, tímarit sem kom út frá 1984 til 1992. Í aðdraganda sameiningar Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og Hjúkrunarfélags Íslands voru tímarit félag anna sameinuð í Tímarit hjúkrunarfræðinga og var Þorgerður ráðin fyrsti ritstjóri sameinaða tímaritsins.

„Það átti að breyta um takt. Þá voru sameiningarviðræður í gangi og það átti að byrja á þessu. Ritstjórnin lagði upp með að efla enn frekar tímaritið sem fag- og vísindatímarit meira en félagstímarit. Með það lagði ég upp,“ segir Þorgerður.

Fræðigreinarnar komu ekki jafn hratt og ætlað var í fyrstu. „Eftir einhvern tíma var niðurstaðan sú að reyna að gefa út félagslegt tímarit, sem einkenndist af kjaramálum, sögum úr daglegu lífi hjúkrunarfræðinga, meira vikublaðaefni og gefa þá sjaldnar út stærri tímarit með fræðigreinum. Það var þannig í nokkur ár, á meðan ég var þarna, og virkaði vel,“ segir Þorgerður. „Hjúkrunarfræðingar eru svo margir og þetta er svo fjölbreytt flóra af fólki, það voru ekkert allir stilltir inn á það að tímaritið sem þeim þótti vænt um í Hjúkrunarfélaginu yrði uppskrúfað vísindatímarit, það voru ekkert allir þar, það átti við um bæði félögin.“

Nánar er rætt við Þorgerði í Rapportinu, hlaðvarpi Fíh. Rapportið má finna á Spotify, Podbean og á hjukrun.is.

Ritstjórar tímaritsins frá upphafi

Ritstjórar Tímarits Fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna

1925-1926

Guðný Jónsdóttir

1926-1929

Kristjana Guðmundsdóttir

1929-1932

Sigríður Eiríksdóttir

1932-1933

Kristjana Guðmundsdóttir

1933-1935

Valgerður Helgadóttir

Ritstjórar Hjúkrunarkvennablaðsins

1935-1937

Þorbjörg Árnadóttir

1937-1938

Elísabet Gudjohnsen

1938-1943

Jakobína Magnúsdóttir

1943-1947

Margrét Jóhannesdóttir

1947-1950

Þorbjörg Árnadóttir

1950-1952

Guðrún Bjarnadóttir

1952-1956

Guðlaug Jónsdóttir

1956-1958

Ólafía Stephensen

1958-1959

Ásta Hannesdóttir

Ritstjórar Tímarits Hjúkrunarfélags Íslands

1959-1964

Margrét Jóhannesdóttir

1964-1965

Elín Sigurðardóttir

1965

Sigríður Jakobsdóttir

1965-1968

Jóhanna Stefánsdóttir

1968-1969

Elín Birna Daníelsdóttir

1969-1970

Elísabet P. Malmberg

Forsíða frá ritstjóratímabili Þorgerðar.

Tímaritið mikilvægt fyrir sjálfsmynd hjúkrunarfræðinga

Christer Magnusson var ritstjóri tímaritsins frá 2007 til 2015. „Ég hafði unnið við mjög margt áður en ég varð ritstjóri, ég vann við geðhjúkrun, bráðahjúkrun, röntgenhjúkrun og á gjörgæslu en það var mjög margt sem ég vissi ekki hvað hjúkrunarfræðingar gera, ég uppgötvaði það smám saman.“

Christer segir að viðtölin sem hann tók við hjúkrunarfræðinga hafi verið mjög gefandi. „Mér fannst það mjög gaman að tala við hjúkrunarfræðinga í ýmsum störfum, skrifa það upp og lýsa því sem þeir voru að gera. Einnig fannst mér mjög gaman að fylgjast með kjarabaráttunni, skrifa greinar um kjaramál, launamál og allt það sem var að gerast við samningaborðið,“ segir hann.

Christer segist vona að Tímarit hjúkrunarfræðinga haldi áfram útgáfu sinni í hundrað ár til viðbótar. „Að minnsta kosti á netinu. Mér finnst reyndar líka mikilvægt að gefa það út í prenti. Við gerðum tilraun, sem mistókst reyndar, að gefa tímaritið út fyrir spjaldtölvur. Það kom ekki vel út, það var ekki rétta leiðin til að gefa tímaritið út þannig að við fórum aftur í að prenta tímaritið á pappír eins og áður. Það er mjög gaman að hafa eitthvað í höndunum til að fletta, það er öðruvísi en að lesa einstaka grein á netinu. Það er þetta samhengi, tímaritið er ein heild á pappír.“

Tímaritið skiptir máli fyrir hjúkrunarfræðinga. „Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd hjúkrunarfræðinga. Það er líka mikilvægt að hafa þessa sögu alla til á prenti. Öll þessi útlit sem hafa verið á tímaritinu í gegnum tíðina, allt sem hefur verið ritað um hjúkrun, það er í raun ótrúlegt að það séu liðin 100 ár frá því útgáfan hófst,“ segir hann.

Í tölublöðunum sem Christer ritstýrði rifjaði hann reglulega upp atriði úr sögu hjúkrunar á Íslandi, sá áhugi hefur ekki dvínað og vinnur hann nú að ævisögu Þorbjargar Árnadóttur, hjúkrunarfræðings og rithöfundar, sem ritstýrði tímaritinu í nokkrum áföngum fyrir miðja síðustu öld. „Það var í raun hennar vegna sem ég hætti sem ritstjóri, það var þegar ég uppgötvaði hvað það voru til margar heimildir um hana. Hún var mjög áhugaverð kona og ég hlakka til að gera henni góð skil,“ segir Christer að endingu.

Ritstjórar Hjúkrun (Frá 1978)

1970-1987 Ingibjörg Árnadóttir

1987-1988

Stefanía Sigurjónsdóttir

1988-1990 Ingibjörg Árnadóttir

1990-1993

Lilja U. Óskarsdóttir, Stefanía V. Sigurjónsdóttir

Ritstjórar Tímarits Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga

1984-1985

Elín J.G. Hafsteinsdóttir

1985-1988 Þórhildur Ágústsdóttir

1989-1990 Þorgerður Ragnarsdóttir

1991-1992

Guðrún Jónasdóttir

Ritstjórar Tímarits hjúkrunarfræðinga

1993-1997 Þorgerður Ragnarsdóttir

1996-1997 Bryndís Kristjánsdóttir

1997-1998 Þorgerður Ragnarsdóttir

1998-2007 Valgerður Katrín Jónsdóttir

2007-2015

Christer Magnússon

2015-2021 Helga Ólafs

2021Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Christer Magnusson, ritstjóri 2007-2015.
Forsíður frá ritstjóratímabili Christers.

Leiðtogi í hjúkrun

Krefjandi verkefni að halda skipinu á floti

Leiðtoginn Hildur Elísabet Pétursdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á HVest

Leiðtoginn: Hildur Elísabet Pétursdóttir

Fæðingardagur: 4. ágúst 1971

Stjörnumerki: Ljón

Menntun: Hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1997. Diplómanám í hjúkrun hjarta- og lungnasjúklinga frá H.Í., 2008. Meistaragráða í hjúkrunarstjórnun frá H.Í., 2011 þar sem lokaverkefnið fjallaði um samþætta heilbrigðisog félagsþjónustu fyrir aldraða. Í vor kláraði ég svo diplómanám í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands

Fjölskylduhagir: Gift Svavari Þór Guðmundssyni sem er framhaldsskólakennari hér á Ísafirði. Við Svavar eigum þrjá syni, þá Tómas Helga, Pétur Erni og Guðmund Arnar sem eru fæddir 1994, 2000 og 2002. Við eigum svo þrjú tengdabörn og eitt dásamlegt barnabarn, hann Benedikt litla

Hvers vegna valdir þú að læra hjúkrunarfræði; var einhver lífreynsla eða fyrirmynd sem átti þátt í því vali?

Þegar ég var 16 ára langaði mig að breyta til með sumarvinnu, ég hafði unnið í frystihúsi og verslun eftir að ég var orðin of gömul til að vera í vist með börn. Ég ákvað að sækja um á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík sem var hjúkrunarheimili bæjarins, fékk vinnu þar og þá var ekki aftur snúið. Þarna hafði ég fundið mína hillu í lífinu og var harðákveðin upp frá því að læra hjúkrun. Mamma hefur oft talað um það í gegnum tíðina að hún skildi aldrei hvernig ég gat hugsað mér þetta starf og í nærfjölskyldunni var engin heilbrigðisstarfsmaður. Á Skýlinu kynntist ég mörgum góðum konum sem ólu mig upp í þessu fagi og sú sem var mér dýrmætust og mín mesta fyrirmynd í upphafi ferilsins var Anna heitin Björgmundsdóttir sjúkraliði. Hún kenndi mér margt og ég hef oft hugsað til hennar í gegnum tíðina.

Hvert lá leiðin eftir útskrift?

Eftir að ég vann fyrst á hjúkrunarheimilinu vann ég aldrei við neitt annað á sumrin, ég var á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík og svo á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Þegar líða fór á hjúkrunarfræðinámið fór hjartadeildin að heilla mig og síðustu tvö námsárin starfaði ég á hjartadeildinni á Borgarspítalanum með námi og á sumrin. Mér fannst alveg rosalega gaman að starfa þar en heimahagarnir toguðu í okkur.

Ég eignaðist elsta son okkar þegar ég var í B.S.-náminu og seinkaði útskrift um ár bæði vegna hans og einnig vegna þess að maðurinn minn var að læra í Frakklandi og við fórum þangað í nokkra mánuði. Ég er að vestan og maðurinn minn er frá Akureyri en við kynntumst í Menntaskólanum á Akureyri ung að árum. Heimahagarnir toguðu, eins og ég segi, mikið í okkur, við

ætluðum að flytja norður en ákváðum að taka fyrst tvö ár á Ísafirði og hér erum við enn, fyrir utan eitt ár þegar eiginmaðurinn fór í framhaldsnám og við fluttum til Manchester með alla fjölskylduna. Þar vann ég á einkareknu hjúkrunarheimili sem var mjög áhugaverð og lærdómsrík upplifun.

Ég hóf störf á bráðadeildinni á Ísafirði haustið 1997 sem almennur hjúkrunarfræðingur og var aðstoðardeildarstjóri 2009–2016, fyrir utan árið sem ég bjó í Manchester. Ég tók svo við sem deildarstjóri á hjúkrunarheimilunum Bergi og Eyri árið 2016 og gegndi því starfi þar til ég tók við sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á HVest 1. janúar 2020.

Hvað er það mikilvægasta sem hefur áunnist á þessum árum síðan þú varðst framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða?

Óneitanlega kemur COVID-tíminn strax upp í hugann. Ég var ekki búin að vera lengi í starfi þegar faraldurinn dundi á okkur og fórum við ekki varhluta af því þar sem Berg var fyrsta hjúkrunarheimilið þar sem hópsýkingu kom upp. Starfsfólkið á allri stofnuninni gerði kraftaverk, samvinnan og eljusemin var engu lík. Við unnum eins og einn maður og það sem mér finnst standa eftir og einkenna stofnunina eftir þennan tíma er einstök samvinna starfsfólks, samvinna á milli deilda og milli starfsstöðva. Eftir þessa lífsreynslu skynja ég svo miklu meiri samkennd, deildarstjórar eru í mjög miklu samtali sín á milli og hjálpast mikið að, til dæmis varðandi mönnun. Starfsfólk er meðvitað um ástand á öðrum deildum og öðrum starfsstöðvum og eru boðnir og búnir að aðstoða og stökkva á milli. Liðsheildin og starfsandinn innan stofnunarinnar er einstakur. Í svona samfélögum eins og eru á Vestfjörðum er Heilbrigðisstofnunin einn af hornsteinunum og í raun forsenda byggðar að mörgu leyti, vil ég meina. Starfsfólkið gerir sér grein fyrir

Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Úr einkasafni

„Starfsandinn á HVest er ómetanlegur og ég finn svo vel að ég er ekki ein, hér erum við teymi og okkur þykir vænt um stofnunina og stefnum í sömu átt.“

þessu og leggur sig fram af heilindum og umhyggju fyrir stofnuninni og samfélaginu. Það er ómetanlegt að starfa í slíku umhverfi og ég er full þakklætis fyrir þann mikla mannauð sem við búum að.

endur í íslenska heilbrigðiskerfinu tengi vel við að vera með mörg verkefni varðandi stefnumótun og breytingar í burðarliðnum og séu búnir að taka frá tíma í þá vinnu en svo fer dagurinn í að leysa

Framkvæmdastjórn HVest.

mat sitt, læra af mistökum og aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í þínu starfi?

Mín helsta áskorun í starfi sem framkvæmdastjóri hjúkrunar er mönnun. Á svona lítilli stofnun getur mönnun verið mjög brothætt og hver starfsmaður skiptir mjög miklu máli. Þegar tveir hjúkrunarfræðingar sem starfa á sömu deild fara til dæmis í fæðingarorlof á sama tíma getur skapast mikil krísa. Á litlum sérhæfðum deildum eins og skurð-, svæfinga- eða fæðingardeild þarf að skipuleggja mönnun vel fram í tímann. Við höfum farið þá leið síðustu árin að aðstoða hjúkrunarfræðinga sem vilja fara í framhaldsnám með því að gera við þá samning. Þessi samningur felur í sér aðstoð meðan á námi stendur og skuldbindingu við stofnunina eftir að námi líkur. Þetta hefur gengið vel og við erum til að mynda að verða vel mönnuð af ljósmæðrum eftir að þetta var tekið upp.

Í starfi framkvæmdastjóra er maður oft í krísustjórnun dagsdaglega og forgangsröðun er daglegt brauð. Ég held að margir stjórn-

þína til þess að verða betri yfirmaður?

Já, ég reyni það. Ég reyni að þroska mig sem manneskju og þá eiginleika sem hvetja, styðja og leiða aðra áfram. Ég hef verið dugleg að afla mér meiri þekkingar meðal annars til að verða betri leiðtogi. Ég er gagnrýnin á sjálfa mig og finnst mikilvægt að reyna að vera sífellt að bæta mig. Ég met mikils að fólk komi hreint fram við mig, sé heiðarlegt og láti vita ef því mislíkar eitthvað. Ég reyni að vera sýnileg á stofnuninni, vera góð fyrirmynd og legg mig fram um að þekkja flest starfsfólk með nafni og vil að það finni að það skipti máli.

Hvernig sérðu að hjúkrun hér á landi muni þróast á næstu tíu árum?

Ég held að það séu spennandi tímar fram undan í hjúkrun og heilbrigðiskerfinu öllu. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur að horfa með opnum huga á framfarir hvað varðar stafrænar lausnir, gervigreind og fjarheilbrigðislausnir en auðvitað alltaf með gæði og öryggi starfsmanna og skjólstæðinga í fyrirrúmi. Hjá okkur hér á landsbyggðinni finnum við að fjarheilbrigðislausnir verða æ stærri

hluti af okkar starfi og því er mikilvægt fyrir okkur að vera með opinn huga og hugmyndarík í því samhengi.

Í vaxandi mönnunarvanda tel ég einnig að við munum horfa í átt að „Task shifting“ eða tilfærslu verkefna milli heilbrigðisstétta og ná þannig hámarksgetu út úr hverri stétt.

Hvernig leysum við, eða minnkum, mönnunarvandann að þínu mati?

Stafrænar lausnir, gervigreindin og tilfærsla verkefna milli heilbrigðisstétta er ein leiðin til að minnka mönnunarvandann en ég held líka að það sé mikilvægt að skapa spennandi og fjölskylduvænt starfsumhverfi, jafnvægi milli vinnu og einkalífs og tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga til að þróast og vaxa í starfi. Svo má ekki gleyma því að laun hjúkrunarfræðinga verða að vera samkeppnishæf við laun annarra háskólastétta. Hjúkrun er gríðarlega skemmtilegt og gefandi starf og við þurfum að vera dugleg að halda því á lofti við hvert tækifæri.

Draumastarfið þitt ef þú ættir að skipta um starfsvettvang?

Ég hef aldrei séð eftir því að hafa farið í hjúkrun, tækifærin eru endalaus og mér leiðist aldrei í vinnunni. Ég fékk tækifæri til að spreyta mig sem forstjóri HVest í sex mánuði árið 2023-2024 þegar ég var settur forstjóri tímabundið sem var ómetanleg reynsla. En ég fann þá mjög glöggt að ég gat ekki farið svona langt frá hjúkruninni, mig langaði ekki að sækja um það starf á þeim tímapunkti. Ég á erfitt með að sjá mig gera eitthvað annað en eflaust væri það þá eitthvað tengt útiveru, fjöllum og náttúrunni, það væri spennandi að geta unnið við hjúkrun á veturna og verið skálavörður á fjöllum á sumrin.

Hvernig gengur þér að samræma vinnu og einkalíf?

Mér finnst afar mikilvægt að finna þetta jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og auðvitað koma tímar þar sem það hallar á einkalífið þegar krefjandi mál eru í vinnunni. En alla jafna gengur þetta vel. Ég er mikil félagsvera, elska að vera innan um vini og fjölskyldu, syngja í kórum, hreyfa mig í góðum félagsskap og fleira. Þetta nærir mig og gerir það að verkum að það er auðveldara að takast á við krefjandi verkefni í vinnunni ef þau koma upp.

Þarft þú sem yfirmaður að eyða miklum tíma á skrifstofunni eða hefur þú tíma líka til að sinna skjólstæðingum?

Ég er alveg einstaklega heppin því þegar ég sótti um starf framkvæmdastjóra hjúkrunar hér á HVest kom fram í starfslýsingu að klíník fælist í starfinu. Mér finnst það ómetanlegt að fá að bregða mér í hjúkkugallann einu sinni í viku og starfa á hjúkrunarheimilunum þar sem ég var deildarstjóri áður. Mér finnst mjög mikilvægt að halda mér við faglega og fá tækifæri til að næra klíníska „hjúkkuhjartað“. Viðfangsefni framkvæmdastjóra hjúkrunar eru fjölbreytt, skemmtileg og áhugaverð en einn dag í viku fæ ég að fara aftur í rótina og finna dýnamíkina sem leiddi mig í þetta starf.

Var COVID-tímabilið dýrmætur lærdómur eða lífsreynsla sem þurfti að vinna úr þegar faraldurinn var gengin yfir og lífið varð aftur „eðlilegt“?

Þegar ég lít til baka og hugsa um þetta tímabil sé ég hvað þetta var dýrmætur lærdómur; lífsreynsla sem mun fylgja mér út lífið. Á ákveðnum tímapunkti þegar 90% af starfsfólki og heimilisfólki á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lá smitað,

það var aftakaveður og óvissan mikil, því við vissum ekki hvað myndi gerast næst, fannst mér ég vera stödd í fjórða þætti af sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð. Áhyggjurnar voru miklar og það var lítið sofið. Í dag þegar ég lít yfir farinn veg er ég gríðarlega þakklát fyrir að ekki fór verr og horfi sátt yfir þennan erfiða en lærdómsríka tíma.

Áhugamál utan vinnutíma, hvernig hlúir þú að þér og þínum?

Ég á mörg áhugamál og er dugleg að sinna þeim. Mér finnst dásamlegt að hreyfa mig úti í náttúrunni, skíða, hlaupa, hjóla eða ganga upp um fjöll og firnindi. Það gefur mér orku, kraft og andlega næringu. Ég er líka mikil handavinnumanneskja og svo syng ég með tveimur kórum sem mér finnst mjög gaman. Þetta er svo auðvitað allt best í góðra vina hópi eða með fjölskyldunni. Ég verð líka að nefna nýjasta og skemmtilegasta áhugamálið því ég varð amma í fyrsta sinn núna í sumar og það er náttúrlega toppurinn á tilverunni.

Hjónin saman á fjöllum.

Að lokum, þar sem þetta er jólablað, hvað er það besta við aðventuna og jólin?

Börnin eru annaðhvort farin að heiman eða eru í burtu í skóla yfir vetrartímann og aðventan því oft notuð sem undirbúningur fyrir að fá alla heim, baka skinkuhorn, mömmukökur, lagkökur og svo geri ég árlega sörur með vinkonu minni sem er yndislegt. Við hjónin syngjum bæði í kórum og aðventan er annasamur tími, það eru tónleikar og aðventukvöld en það er einmitt það sem gerir þennan tíma svo hátíðlegan.

Ég elska að jólaskreyta heimilið í hólf og gólf og á í ástar-/haturssambandi við risastóra jólatréð sem við fjölskyldan förum og veljum á hverju ári hérna í skóginum. Þuríður vinkona mín hlær að mér á hverju ári þegar ég segi að þetta hljóti nú að vera minna en í fyrra en alltaf skal það ná upp í loft í stofunni þar sem lofthæðin er um þrír og hálfur metri.

Toppurinn á jólunum er svo þegar allir skila sér heim í hús fyrir jólin, þá líður mér best, umvafin öllu fólkinu mínu.

Spurt og svarað svarað –

Starfsþróunarsetur Fíh (StFíh)

Hvar sæki ég um í Starfsþróunarsetur Fíh?

Sækja þarf um styrki rafrænt á Mínum síðum á hjukrun.is.

Hvaða verkefni eru styrkhæf úr Starfsþróunarsetri Fíh?

Styrkhæf verkefni eru m.a. framhaldsnám, faglegt nám og námskeið, ráðstefnur, tungumálanám, nám í upplýsingatækni og áskrift að fagtímaritum. Einnig önnur námskeið sem styrkja hjúkrunarfræðing í starfi, þó aðeins að hámarki 100.000 kr. á 24 mánaða tímabili.

Er tekinn skattur af styrkjum úr Starfsþróunarsetri Fíh?

Styrkir eru skattskyldir og er upplýsingum um þá skilað til skattayfirvalda. Engu að síður kemur ekki til greiðslu skatts þar sem hjúkrunarfræðingar geta við gerð skattframtals dregið frá styrknum þann kostnað sem styrkurinn endurgreiðir.

Hvenær þarf að skila inn umsóknum?

Fullgildar umsóknir sem berast fyrir mánaðamót eru afgreiddar í næsta mánuði á eftir. Umsóknir eru afgreiddar mánaðarlega að júlí undanskildum.

Hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn vegna náms?

Með umsókn um styrk vegna náms þarf að fylgja:

- Lýsing á náminu og hvernig það nýtist í starfi.

- Staðfesting á greiðslu skólagjalda eða annarra gjalda.

- Staðfesting á þátttöku eða skráningu í námið.

Hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn vegna námskeiðs?

Með umsókn um námskeið þarf að fylgja:

- Reikningur og staðfesting á greiðslu námskeiðsgjalds.

- Lýsing á námskeiði og hvernig það nýtist í starfi.

- Staðfesting á þátttöku eða skráningu.

Hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn vegna ráðstefnu?

Með umsókn um ráðstefnu þarf að fylgja:

- Reikningur og staðfesting á greiðslu ráðstefnugjalds.

- Lýsing eða dagskrá ráðstefnunnar.

- Rökstuðningur um hvernig ráðstefnan nýtist í starfi.

- Ef ráðstefnan er erlendis þarf að rökstyðja staðarval.

Athugið að ef gögn vantar með umsóknum í sjóðinn og þau berast ekki innan þriggja mánaða fellur umsóknin niður.

Er nóg að setja inn hlekk á dagskrá ráðstefnu?

Nei, hlekkir verða oft óvirkir eftir ákveðinn tíma. Því er mikilvægt að dagskrá fylgi með umsókninni, en ekki hlekkur.

Hvað þarf að koma fram í rökstuðningi?

Rökstuðningur skal vera ein til tvær setningar þar sem fram kemur hvernig verkefnið nýtist í starfi sem hjúkrunarfræðingur.

Hvenær er úthlutað úr Starfsþróunarsetri Fíh?

Fullgildar umsóknir sem berast fyrir mánaðamót eru afgreiddar í næsta mánuði á eftir. Styrkir eru greiddir út 15.–17. hvers mánaðar eða næsta virka dag. Athugið að umsóknir eru ekki greiddar út í júlímánuði.

Hvaða rétt hef ég í fæðingarorlofi?

Hjúkrunarfræðingar halda óskertum réttindum í fæðingarorlofi ef greitt er félagsgjald af greiðslum frá fæðingarorlofssjóði til Fíh. Ef ekki er greitt félagsgjald á meðan á fæðingarorlofi stendur missa hjúkrunarfræðingar rétt til úthlutunar úr sjóðnum. Ef hjúkrunarfræðingur í fæðingarorlofi kýs að greiða ekki félagsgjald á fæðingarorlofstíma endurnýjast réttindi í sjóðinn eftir þrjá mánuði í starfi, þ.e.a.s. þegar skilagreinar hafa borist í þrjá mánuði.

Heldur hjúkrunarfræðingur rétti til að sækja um í sjóðinn eftir starfslok?

Lífeyrisþegar halda réttindum í 12 mánuði frá starfslokum.

Hvernig virkar akstursstyrkur?

Ef vegalengd frá lögheimili að viðburðarstað eða flugvelli er yfir 100 km fæst fastur styrkur:

- 100–199 km: 20.000 kr.

- 200–299 km: 30.000 kr.

- 300–399 km: 40.000 kr.

- 400–499 km: 50.000 kr.

- 500+ km: 60.000 kr.

Ef vegalengd er styttri en 100 km eru greiddar 8.000 kr. Akstur innanbæjar er ekki greiddur.

Hvaða gögnum þarf að skila vegna umsóknar um akstursstyrk?

Ekki þarf að skila inn bensínkvittunum þar sem skráð lögheimili ræður því hvort hjúkrunarfræðingur eigi rétt á akstursstyrk. Akstursstyrkur reiknast m.v. vegalengd frá lögheimili að viðburðarstað eða flugvelli.

Hvernig er sótt um styrk vegna gistingar þegar herbergi/íbúð er deilt með samstarfsfélaga eða maka?

Hvern reikning má aðeins nota einu sinni. Undantekning er gerð ef gistingu er deilt en þá skilar hver aðili inn sama reikningi ásamt greiðslustaðfestingu eða millifærslustaðfestingu. Þannig er hægt að sækja um hlutfallslegan kostnað.

Eru takmörk fyrir því hversu margar gistinætur eru greiddar þegar viðburðir eru sóttir?

Gisting er styrkt nóttina fyrir, á meðan og nóttina eftir viðburðinn. Gisting er að hámarki styrkt í fjórar vikur.

Af hverju er umsókn lengi merkt 'í vinnslu' á Mínum síðum?

Staða umsóknar er uppfærð eftir úthlutunarfund stjórnar, sem er haldinn annan miðvikudag í hverjum mánuði. Ef gögn vantar, eða ef þau eru ófullnægjandi, eru send skilaboð þess efnis á Mínum síðum.

Get ég sótt um aftur í tímann?

Já, hægt er að sækja um styrk allt að 12 mánuði aftur í tímann frá lokum verkefnis.

Hvað gerist ef umsókn er dregin til baka?

Ef umsókn er dregin til baka áður en styrkur er greiddur hefur það engin áhrif á réttindi umsækjanda. Hafa skal samband við starfsmann sjóðsins með skilaboðum í gegnum Mínar síður undir umsókninni eða með því að senda tölvupóst á starfsthrounarsetur@hjukrun.is. Umsókn er þá merkt Synjað – hætt við, en inni á Mínum síðum sést Synjað.

Hvað ef staðan er 0 kr. á Mínum síðum?

Ástæður þess geta verið ef réttu er fullnýttur, hjúkrunarfræðingur er í fæðingarorlofi, á lífeyri, atvinnulaus, iðgjöld hafa ekki borist eða ef iðgjald er lægra en 1.750 kr. á mánuði.

Er hægt að bæta við fylgiskjali eftir á?

Það er hægt með því að fara inn á Mínar síður, undir mín mál. Velja þar umsóknina og þá er hægt að bæta við fylgigögnum.

Get ég breytt umsóknarupphæðinni eftir að umsókn hefur verið send inn?

Nei, kerfið leyfir það ekki. Ef þú vilt breyta umsóknarupphæðinni er hægt að:

Fara inn í umsóknina og setja þar inn skilaboð.

Senda tölvupóst á starfsthrounarsetur@hjukrun.is Athugið að númer umsóknar eða kennitala þarf að fylgja með.

Ef verið er að bæta við kostnaðarlið þarf reikningur og greiðslustaðfesting fyrir þeim kostnaðarlið sem bætist við að fylgja umsókninni. (Athugið að hengja þarf skjölin við umsóknina á Mínum síðum).

Ekki er hægt að bæta við kostnaðarlið eftir að umsókn hefur verið afgreidd.

Þarf að sundurliða kostnaðarliði í umsókn?

Það þarf að sundurliða kostnaðarliði í umsókn, ekki setja inn eina heildarupphæð ef kostnaðarliðir eru fleiri en einn.

Þegar settar eru inn umsóknarupphæðir í erlendri mynt myndast þá gengismismunur?

Mínar síður eru tengdar við kreditkortagengi og þegar sett er inn dagsetning kvittunar umreiknast íslenska upphæðin sem næst þeim kostnaði sem var greiddur. Óverulegur gengismunur getur myndast sem er þá bara nokkar krónur.

Ef búið er að fá styrk fyrir ráðstefnugjaldi þarf þá að setja reikninginn fyrir ráðstefnugjaldinu aftur inn þegar sótt er um styrk fyrir flugi og gistingu?

Reikningur fyrir ráðstefnugjaldi þarf að fylgja nýrri umsókn fyrir t.d. flugi og gistingu. En þá þarf að setja upphæð 0 kr. við þann kostnaðarlið í umsókninni.

Ef ekki er nægileg innistæða í Starfsþróunarsetrinu, er þá hægt að sækja um það sem upp á vantaði þegar upphæð uppfærist?

Einungis er hægt að nota hvern reikning einu sinni. Hægt er að geyma kostnaðarlið og sækja um fyrir honum seinna þegar upphæð hefur endurnýjast.

Hægt er að sjá inni á Mínum síðum hvenær upphæðir endurnýjast í sjóðnum.

Rökstuðning vantaði við umsókn, hvað er til ráða?

Ekki er hægt að breyta þeim texta sem fylgdi umsókninni í upphafi. Ef óskað hefur verið eftir rökstuðningi eða hann gleymdist, þá er hægt að:

- Fara inn í umsóknina og setja þar inn skilaboð/rökstuðninginn sem vantaði.

- Setja rökstuðninginn í sérskjal og vista undir umsókninni.

- Senda rökstuðninginn með tölvupósti á starfsthrounarsetur@ hjukrun.is en þá þarf að passa að númer umsóknar eða kennitala fylgi með.

Er hægt að fá styrk fyrir tungumálaskóla erlendis?

Tungumálanám er styrkt af Starfsþróunarsetri. Ekki er tryggt að styrkur fáist vegna dvalar- og ferðakostnaðar en með umsókn þarf að fylgja rökstuðningur fyrir staðarvali.

Spurt og svarað svarað –

Starfsþróunarsetur Fíh (StFíh)

Er nám í markþjálfun styrkhæft?

Ef hjúkrunarfræðingur er í námi til að öðlast réttindi til þess að starfa sem markþjálfi þá er það styrkhæft. Með umsókn þarf að fylgja rökstuðningur um hvernig markþjálfun nýtist í starfi.

Ekki er hægt að sækja um styrk vegna tíma hjá markþjálfa.

Er hægt að sækja um styrk vegna hreyfiferða?

Hreyfiferðir eru ekki styrkhæfar hjá Starfsþróunarsetri.

Hvaða önnur námskeið gr. 2.3 í úthlutunarreglunum sem eru styrkt að hámarki 100.000 kr. á 24 mánaða tímabili?

Það eru önnur námskeið sem styrkja hjúkrunarfræðinga í starfi en eru ekki vegna starfsþróunar. Þetta eru t.d. jógakennaranámskeið, heilunarnámskeið og núvitundarnámskeið.

Eru öll námskeið sem auglýst eru á miðlum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga styrkhæf?

Í flestum tilfellum eru þau styrkhæf en sum geta fallið undir önnur námskeið og takmarkast við hámark 100.000 kr. styrk á 24 mánaða tímabili.

Er hægt að greiða í félagið þegar hlé er gert á starfsþátttöku til að halda réttindum í sjóðnum?

Greiðslur og réttindi í sjóði Fíh eru hluti af kjarasamningi og ráðningarkjörum því getur félagsfólk ekki greitt sérstaklega í sjóðinn.

Réttindin byggjast á því að launagreiðandi greiði iðgjald samkvæmt kjarasamningi.

Félagsfólk Fíh getur sótt um styrk í Starfsþróunarsetur ef atvinnurekandi þeirra hefur greitt sjóðsframlag í samtals sex mánuði, þar af samfellt í þrjá mánuði, þegar stofnað er til útgjalda vegna viðburðar sem sótt er um.

Réttindi endurnýjast þegar skilagreinar hafa borist Fíh í þrjá mánuði eftir að hlé hefur orðið á greiðslum.

Kynnisferðir

Hvert er fyrirkomulag kynnisferða?

Frá og með maí 2025 geta einstaklingar ekki lengur sótt um styrk vegna kynnisferða úr Starfsþróunarsetri Fíh.

Nú geta aðeins stofnanir sótt um styrk fyrir skipulagðar kynnisferðir fyrir sitt starfsfólk.

Skilyrði fyrir styrkveitingu til stofnana:

- Ferðin þarf að tengjast starfsþróun hjúkrunarfræðinga á stofnuninni.

- Umsókn þarf að innihalda ítarlega dagskrá ferðarinnar (minnst tveir dagar með að lágmarki 8 klst. fræðslu).

- Þátttakendalisti hjúkrunarfræðinga þarf að fylgja.

- Umsögn stjórnanda starfseiningar sem tilgreinir markmið ferðarinnar og hvernig hún nýtist í starfi þarf að fylgja.

Hvað er styrkthæft?

- Ferðakostnaður, gisting og náms-/ráðstefnugjöld sem tengjast ferðinni.

Eftirfarandi er ekki styrkhæft:

- Fæðiskostnaður, dagpeningar, bílastæðagjöld, bensínkostnaður og ferðir innan borga/bæja.

Hvernig er sótt um?

Stofnun sækir um styrk rafrænt til skrifstofu Fíh með öllum fylgigögnum.

Styrkir eru greiddir út gegn framvísun reikninga.

Sækja þarf um að lágmarki þremur mánuðum fyrir kynnisferðina. Þegar umsókn hefur farið fyrir fund og fengið þar samþykki hefur stofnun 12 mánuði til þess að skila inn gögnum.

Til þess að fá styrk greiddan þarf að skila eftirfarandi gögnum til StFíh:

- Sundurliðuðum reikningum fyrir þeim kostnaðarliðum sem sótt er um styrk fyrir.

- Lokaskýrslu eða greinargerð um framkvæmd verkefnis.

- Ef um er að ræða ferð þarf dagskrá með tímasetningum og lýsingu á markmiðum ferðarinnar að fylgja.

- Þátttakendalista hjúkrunarfræðinga sem tóku þátt.

Tækniþjónusta Icepharma

Ef lækningatækin þín þurfa viðhald eða viðgerð þá tryggjum við faglega lausn

Við bjóðum upp á þjónustusamninga fyrir reglubundið eftirlit á lækningatækjum til að tryggja langvarandi öryggi og virkni. Reglubundið eftirlit með tækjum og búnaði er lykilatriði til að tryggja öruggan rekstur í heilbrigðisþjónustu og framfylgja lögum um lækningatæki.

icepharma.is/thjonusta

Transteymi fullorðinna sinnir 750 skjólstæðingum

Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Tveir hjúkrunarfræðingar starfa í transteymi fullorðinna á Landspítala og við fengum annan þeirra í viðtal. Malín Guðmundsdóttir tók á móti blaðamanni í Skógarhlíð þar sem transteymið er til húsa í hlýlegu umhverfi og þar fær transfáninn að njóta sín alla daga. Við setjumst niður og spjöllum en Malín segir að starf hennar sé mjög gefandi og að það séu mikil forréttindi að fá að taka þátt í þessu mikilvæga ferli skjólstæðinganna og upplifa kyngleðina með þeim. „Ég hef aldrei sinnt hópi sem er eins þakklátur fyrir þjónustuna og það er yndislegt og dýrmætt að upplifa þetta þakklæti og hrós frá skjólstæðingum. Það er svo magnað að fylgjast með þessu ferli frá því einstaklingur byrjar í hormónameðferð þar til honum fer smám saman að blómstra og líða betur.“

Malín útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur fyrir rétt rúmum áratug og fór þá að starfa á deild A7 sem er smitsjúkdómadeild. „Ég var þar í tvö ár eða þangað til ég og kærastinn minn ákváðum að flytja til Edinborgar. Vinkona mín sem er líka hjúkrunarfræðingur ákvað að fylgja sínum manni þangað í meistaranám og við ákváðum að skella okkur líka. Okkur hafði lengi dreymt um að flytja erlendis og þarna var tækifærið komið. Það tók smátíma að fá starfsleyfi þarna úti sem varð til þess að ég fór aftur heim til Íslands að vinna í nokkrar vikur og fór svo út þegar ég var komin með leyfið. Ég fékk þá starf á einkaskurðsjúkrahúsi þar sem allar aðgerðir, nema hjarta- og heilaskurðaðgerðir voru framkvæmdar.“

Malín segir að fyrstu mánuðirnir í nýju starfi í Skotlandi hafi reynst henni erfiðir, meðal annars vegna þess að hún var að koma af lyflækningasviði og hafi ekki mikla reynslu né þekkingu á starfi skurðhjúkrunar. „Starf mitt fólst mikið í að innrita sjúklinga, undirbúa þá fyrir aðgerðir og sinna hjúkrun eftir skurðaðgerðir. Ég fékk engar klínískar leiðbeiningar þegar ég byrjaði heldur var mér bara hent beint í djúpu laugina. Það tók mig alveg hálft ár að læra inn á nýtt starf og upplifa mig örugga í því sem ég var að gera. Ég hafði aldrei komið til Edinborgar áður en við fluttum þangað en okkur líkaði svo rosalega vel þarna að við vorum lengur en við ætluðum og fluttum ekki aftur heim fyrr en rúmum tveimur árum seinna,“ segir hún ánægð með að hafa látið drauminn um að búa erlendis rætast.

Tveir hjúkrunarfræðingar sinna hjúkrun trans fólks hér á landi

Sumarið 2018 flytja Malín og kærastinn heim til Íslands, hún fer þá aftur að starfa á deild A7. „Ég var ánægð í vinnunni og það var ekki fyrr en ég fór í fæðingarorlof í janúar 2024 að ég hætti á A7. Ári seinna, eða í janúar á þessu ári hóf ég svo störf hjá transteymi fullorðinna. Ég var farin að hugsa mér til hreyfings einfaldlega vegna þess að við maðurinn minn eigum tvö ung börn og hann starfar í Noregi. Hann er fjarverandi tvær vikur í mánuði og það var orðið flókið að vera á sama tíma að starfa á legudeild í vaktavinnu. Ég var farin að höndla bæði kvöld- og næturvaktir illa og fann að það var orðið tímabært að hætta í vaktavinnu. Ég frétti svo að það væri verið að auglýsa eftir hjúkrunarfræðingi í transteymi fullorðinna til að sinna eftirfylgd eftir vaginoplasty-aðgerðir. Þetta eru aðgerðir þar sem kynfæri trans konu/kynsegin fólks eru byggð upp, mér fannst starfið hljóma áhugavert og ákvað að sækja um það. Ég kláraði

meistaranám í annarri klínískri sérhæfingu með áherslu á sár og sárameðferð í lok árs 2024 og fannst þetta því geta verið tilvalið starf fyrir mig með mína menntun. Þessar aðgerðir eru framkvæmdar erlendis og mitt hlutverk hér í transteymi fullorðinna er meðal annars að sinna eftirfylgd þegar skjólstæðingar koma aftur til Íslands,“ útskýrir Malín en yfirleitt eru þeir sem fara í þessa aðgerð um þrjár vikur erlendis þar sem aðgerðin er framkvæmd. „Áður en ég hóf störf var einungis einn hjúkrunarfræðingur sem sinnti bæði hormónameðferð fyrir aðgerðir og eftirfylgd eftir aðgerðir. Það vantaði annan vegna álags og þá bættist ég við teymið. Vegna minnar sérþekkingar er það bara ég sem sinni eftirfylgd eftir aðgerðir, ásamt heilsufarsviðtölum fyrir hormónameðferð og aðgerðir og eftirfylgd með hormónameðferð. Við erum því tveir hjúkrunarfræðingar í transteymi fullorðinna núna, ég og Sigríður Bjarnadóttir sem sinnum hjúkrun trans fólks.“

Fór beint til Amsterdam að læra réttu handtökin

Malín segir að til standi að bjóða upp á phalloplasty-aðgerðir, það virðist ekki vera til gott íslenskt orð yfir það en þetta eru aðgerðir þar sem kynfæri trans manna/kynsegin fólks eru byggð upp. „Ég mun einnig sinna eftirfylgd eftir þær aðgerðir,“ segir hún áhugasöm og það fer ekki á milli mála að Malín brennur fyrir starfi sínu og skjólstæðingum. Hún hóf störf í upphafi árs og strax í sama mánuði og hún byrjaði í nýju starfi fór hún til Amsterdam í þeim tilgangi að læra að sinna eftirfylgd eftir vaginoplasty-aðgerðir. „Það var lýtalæknir sem sá um þessa eftirfylgd hérlendis en það datt upp fyrir og þá vantaði fagaðila til að taka við. Ég dreif mig þess vegna út og lærði þetta, sökkti mér í fræðigreinar um eftirfylgd eftir þessar aðgerðir og hafði samband við Kvennadeild Landspítala til að læra þar að setja upp andanefjur því ég þarf að kunna að skoða inn í leggöng. Það eru ekki til klínískar leiðbeiningar og í raun er ekki til mikið fræðsluefni um þessar aðgerðir og eftirfylgd með þeim en ég er í góðu sambandi við lýtalækni erlendis sem leiðbeinir mér og gefur mér ráð. Sá kom til landsins og hrósaði mér mikið fyrir hvað ég væri að sinna þessu vel og fagmannlega því ég hafði í raun litla sem enga þekkingu áður en ég byrjaði hérna og hafði aldrei gert þetta áður,“ segir hún ánægð með að standa sig vel.

Transteymi fullorðinna framalega í þjónustu í samanburði við önnur lönd Hvaða fylgikvillar eru algengastir eftir svona stórar aðgerðir? „Sár og ofholdgun á skurðsvæðinu er algengur fylgikvilli og krefst

meðferðar en sýkingar eru ekki algengar,“ segir Malín hugsi og þá leikur okkur forvitni á að vita hversu margir skjólstæðingar fara héðan í slíkar aðgerðir? „Það eru um 10-20 skjólstæðingar sem fara í vaginoplasty á ári. Skjólstæðingar þurfa að vera búnir að vera á hormónameðferð í heilt ár fyrir aðgerð og koma svo í eftirfylgd til mín þrisvar sinnum eða oftar, eftir þörfum.“

Ísland í fyrsta sæti

Malín og Sigríður eru nýkomnar heim af ráðstefnu um heilsu trans fólks sem fór fram í Hamborg í Þýskalandi og samtökin EPATH

utan að ávísa lyfjum. En í Evrópu er mikið um hjúkrunarstýrða þjónustu þar sem sérfræðingar í hjúkrun sjá um þjónustuna og einnig að ávísa lyfjum. Transteymi fullorðinna hér á landi stendur framarlega í þjónustu í samanburði við önnur lönd. Við vinnum eftir módelinu um upplýst samþykki sem fellur að matsferli í stað greiningarferlis. Í flestum löndum er unnið með greiningarferli sem getur tekið marga mánuði og jafnvel mörg ár og því hafa biðlistar víða erlendis lengst mikið. Ísland stendur sig mjög vel miðað við önnur lönd, þjónustan er góð og skilvirk en hún hefur verið í mikilli uppbyggingu síðastliðin ár. Við höfum gott lagaumhverfi fyrir trans fólk og þess má geta að Ísland er í fyrsta sæti á korti yfir lagaréttindi trans fólks, TGEU.“

Transteymi sem sinnir 750 skjólstæðingum

Malín segir að biðlistinn hafi verið langur í þjónustu transteymis, jafnvel nokkur ár. Eftir að innkirtlalæknar veittu afar takmarkaða þjónustu og aðsókn í þjónustu jókst, var ráðist í breytingar í því skyni að bæta þjónustuna. „Einn liður var að ráða fleira fólk og nú erum við átta í transteymi fullorðinna og okkur hefur tekist að stytta biðlista verulega sem er frábært. Þess má geta að teymið var heiðrað frá Landspítala á þessu ári fyrir framþróun. Yfirleitt eru skjólstæðingar byrjaðir á hormónameðferð innan árs frá fyrsta

viðtali en teymið er að sinna um 750 skjólstæðingum,“ útskýrir hún og ljóst að þetta er stór hópur sem fær þjónustu transteymis fullorðinna hér á landi.

Malín fékk hvatningarstyrk frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í ár fyrir að stórefla hjúkrunargöngudeild fyrir trans fólk í tengslum við kynstaðfestandi aðgerðir og þannig hefur hún bætt til muna hjúkrunarþjónustu við þennan hóp, sem hún segir að hafi verið mikil hvatning fyrir sig. „Mér finnst starf mitt ótrúlega skemmtilegt og áhugavert og drekk í mig allt sem ég kemst í varðandi það sem ég er að gera ef ég get mögulega bætt þjónustuna við þennan hóp. Til dæmis er ég núna að skoða hvort ég geti boðið upp á leghálsskimun, því trans menn/kynsegin fólk veigrar sér oft við að fara í skimun vegna kynama og fordóma í heilbrigðiskerfinu.“

stuðning og úrræði. „Við viljum vera griðastaður þessa hóps og finnum það vel í samtölum og samskiptum við skjólstæðinga okkar. Transteymi fullorðinna flutti í Skógarhlíð fyrir ekki svo löngu síðan og Malín segir að það hafi bætt aðstöðuna mikið. „Það er meira næði hérna sem er mikilvægt þegar verið er að sinna þessum skjólstæðingum. Það er meira pláss og við höfum gert rýmin okkar hinsegin væn. Okkar hópur talar um það hvað það sé gott að koma hingað, það er vel tekið á móti öllum. Þetta er rosalega gefandi starf og það eru mikil forréttindi að fá að taka þátt í þessu mikilvæga ferli skjólstæðinganna og upplifa kyngleðina með því og jafnframt að veita þeim stuðning í gegnum ferlið. Ég hef aldrei sinnt hópi sem er eins þakklátur fyrir þjónustuna og það er yndislegt og dýrmætt að upplifa þetta þakklæti og hrós frá skjólstæðingum. Það er svo magnað að fylgjast með þessu ferli frá því einstaklingur byrjar í hormónameðferð og fer smám saman að blómstra og líða betur. Ég tárast oft þegar ég sé þessa jákvæðu breytingu á líðan því í þessum hópi skjólstæðinga er oft kvíði,

vanlíðan, sjálfsskaði og jafnvel sjálfsvígshugsanir. Það er ótrúlega dýrmætt að geta hjálpað fólki að líða betur,“ segir Malín einlæg og bætir við að mikilvægt sé að mæta einstaklingum í mildi. Það er mikilvægt fyrir okkur sem heilbrigðisstarfólk að nota nöfn og persónufornöfn sem manneskjan óskar eftir. Það er líka mjög auðvelt fyrir okkur að bjóða upp á hinsegin vænt umhverfi og vera til dæmis með hálsband eða fána eða eitthvað slíkt í umhverfinu þar sem við vinnum. Svo vil ég líka nefna hvað það er mikilvægt að öll heilbrigðisþjónusta sé kynstaðfestandi sem vísar til þess að trans fólk á að geta leitað sér heilbrigðisþjónustu án þess að upplifa fordóma og hræðslu hvar sem þau koma.“ Við látum það vera lokaorðin og hvetjum öll til að hafa þetta í huga.

„… hvort ég geti boðið upp á leghálsskimun, því trans menn/ kynsegin fólk veigra sér oft við að fara í skimun vegna kynama og fordóma í heilbrigðiskerfinu ...“

Octenisan

Breiðvirki sótthreinsirinn

fæst í Farmasíu

Virkar í 48 klst

Dregur úr öramyndun og er bólgueyðandi

Sýkla-, veiru- og sveppabani

Hefur sama sýrustig og húðin og gefur raka

Hentar vel fyrir sár, bólur og sveppasýkingu

Inniheldur engin ilmefni, litarefni né alkohól

Hentugt í staðinn fyrir sjampó á viðkvæma húð

Má nota á meðgöngu og við brjóstagjöf

Fæst einnig í: Lyfjaveri, Rima apóteki, Reykjanesapóteki, Efstaleitis apóteki og Reykjavíkur apóteki

Birkihæð 20 210 Garðabær email: farmasia@farmasia.is sími: 776-8410 www.pharmis.is

Heilandi skógarböð

Undanfarin ár hafa Skógræktarfélag Reykjavíkur og Nature and Forest Therapy Iceland staðið fyrir shinrin-yoku, sem á okkar ylhýra hefur fengið þetta heillandi heiti skógarbað. Skógarböðin fara fram í Heiðmörk og þegar ritstýran og formaðurinn fengu boð um að mæta og kynnast þessari hæglátu útivist sem er ættuð frá Japan var stokkið af stað í mörkina fögru. Það hljómaði spennandi að baða sig í skóginum, kannski það myndi tempra framleiðslu stresshormóna og vera slökun í amstri hversdagsins en Shinrin-yoku er gagnreynd náttúrumeðferð við streitu sem ku vera allra meina bót.

Við mættum í haustlitina í Heiðmörk í grenjandi rigningu og eftir að hafa fengið kynningu á hugmyndafræði og áhrifamætti skógarbaða fengum við stækkunargler, dýnu og segl! Það var ævintýraferð í uppsiglingu sem reyndist vera ferð til „heilsufjár“ ef svo má að orði komast. Líkaminn slakaði á undir háum trjákrónum á meðan rigningadropar lentu í hrönnum á andlitinu, varðeldur skapaði róandi stemningu því snarkið í eldinum og ilmurinn af viðarbitum í ljósum logum fyllti vitin og róaði taugarnar. Þetta var endurnærandi upplifun og opnaði augun fyrir þeirri heilsulind sem náttúran er, best er að vera berfætt í grasinu og finna ilminn af náttúrunni á sama tíma og regndroparnir renna niður andlitið. Hljómar næstum því væmið en þess virði að prófa.

Tilgangur og áhrif shinrin-yoku skógarbaða Shinrin-yoku skógarbað er ekki „bað“ heldur hæglætis ganga og meðvituð dvöl í náttúrunni. Aðferðin var þróuð sem úrræði til að mæta versnandi lýðheilsu í Japan í kjölfar tæknibreytinga,

vaxandi annríkis, áreitis, inniveru og streitu hins daglega borgarlífs. Almenningur, sér í lagi vinnandi fólk, var hvatt til að verja reglulega tíma í skógum landsins og rækta samband sitt við náttúruna. Þessu var fylgt eftir með rannsóknum á áhrifamætti þessarar hæglætis útivistar á heilsu og líðan fólks. Yfirlitsrannsóknir staðfesta að shinrin-yoku skógarbað getur meðal annars dregið úr streitu, aukið orku til athafna, bætt svefn og aukið almenna vellíðan. Rannsóknir sýna einnig að shinrinyoku hefur góð áhrif á ónæmiskerfið og ýmsa áhættuþætti fyrir kulnun, þunglyndi og kvíða. Í dag er shinrin-yoku skógarbað gagnreynd náttúrumeðferð við streitu og ríkur þáttur í japanska heilbrigðiskerfinu auk þess sem hún nýtur vaxandi vinsælda um allan heim, bæði sem forvörn gegn sjúkdómum og hluti af meðferð.

Þær Gunnþóra Ólafsdóttir og Íris Lana Birgisdóttir sem hafa menntað sig í shinrin-yoku útivist leiddu ævintýraferðina í Heiðmerkurskógi. Gunnþóra er með doktorspróf landfræði með

Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

sérsviðið náttúrutengsl, upplifun og samspil umhverfis, líðanar og heilsu. Íris Lana er með meistarapróf í félagsráðgjöf og starfar á blóð- og krabbameinslækningadeild LSH. Þær hafa safnað gögnum um líðan þátttakenda í shinrin-yoku í Heiðmörk og úrvinnsla þeirra gefur vísbendingar um gagnsemi náttúru og skóga landsins

mér að fara á dýptina í lífssögu og hugarheim þátttakenda. Áhugaverðustu niðurstöðurnar fannst mér vera þær að ferðalagið/ útivistin virtist vera drifin áfram af sókn í góða eða betri líðan og endurspeglaði einstaklingsbundið álag og streituvalda í daglegu lífi. Þegar ég fékk tækifæri til að skoða þetta nánar las ég mig inn í það sem hefur verið skrifað um náttúru og heilsu og framkvæmdi

Ritstýran fékk Gunnþóru til að svara nokkrum spurningum sem vöknuðu eftir nærandi samveru í skóginum. Hvers vegna fórstu að skoða Shinrin-yoku skógarböð og áhrif náttúrunnar á heilsuna? Það var nú dálítill aðdragandi að því. Ég byrjaði á að rannsaka upplifun ferða- og útivistarfólks í náttúru Íslands – það er að segja hvatann að baki ferðalögunum, hlutverk náttúrunnar í upplifun fólks á vettvangi og hvað fólk var að fá út úr ferðalögunum. Þetta var fyrirbærafræðileg rannsókn með þátttökuathugunum og djúpviðtölum sem leyfðu

slíkar rannsóknir með góðum hópi fólks. Það var þá sem ég kynntist Shinrin-yoku en stór hluti bókmennta þess tíma um þetta efni var frá Japan. Við tókum eftir hversu vel Shinrin-yoku virtist virka á streitu og þeir voru að birta miklu stöðugri niðurstöður en við sáum annars staðar frá. Ég hélt í fyrstu að hér væri um að ræða japanskt menningarfyrirbæri með kyrrsetum og hægri göngu, en svo komst ég að því að þetta er í grunninn hin einfalda iðja að vera í náttúrunni og veita henni athygli – úrræði sem þeir þróuðu til að tækla versnandi lýðheilsu. Í framhaldinu tók ég sex mánaða fjarnám hjá Association of Nature and Forest Therapy Guides and Programs, en það var fyrst og fremst til að

Félagið
Gunnþóra Ólafsdóttir var með kynningu á Shinrin-yoku áður en haldið var af stað.
Helga Rósa klár í skóginn með dýnu og stækkunargler.
Jurtate var drukkið við arineld í skóginum.
Helga Rósa slakar á milli trjánna í Heiðmerkurskógi.
Anda inn, anda út.

geta beitt aðferðinni á sjálfa mig og mína kulnun sem ég var að upplifa. Það gerði mér afar gott. Síðan leiddi eitt af öðru. Hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar fólk fer í skógarbað eða ætlar að fara bara sjálft í Heiðmörk að ganga með þessa hugmyndafræði í farteskinu? Þeir sem vilja prófa Shinrin-yoku skógarbað á eigin vegum geta t.d. farið eftir leiðbeiningum dr. Qing Li sem eru að finna í bók hans "Into the forest. How trees can help you find health and happiness."

Snörum þessum leiðbeiningum hans yfir á íslensku:

• Skildu eftir allt sem getur dregið til sín athygli: farsímann, myndavélina, tónlistina.

• Skildu líka eftir allar væntingar.

• Hægðu á taktinum; ekki hugsa um tímann.

• Vertu í núvitund.

• Gakktu rólega um náttúruna eða finndu hentugan stað til að setjast niður; á grasið, upp við tré eða á bekk.

• Taktu eftir því hvað þú sérð og heyrir.

• Taktu eftir hvað þú finnur, hvernig þér líður.

Gunnþóra tekur fram að á Íslandi þurfi að klæða sig vel fyrir þessa útivist, og meira en minna, því að útivistin er svo hæg að hún heldur ekki á okkur hita. Auk þess sé undirlagið oft blautt og því gott að taka með sér vatnshelda sessu, eða jafnvel jógadýnu til að leggjast á. Þá sé betra að mæta á staðinn vel nærð/ur og hafa með sér vatn eða kannski eitthvað heitt á brúsa. Og síðast en ekki síst að gefa sér góðan tíma í skóginum en hefðbundið skógarbað er frá tveimur og upp í fjóra tíma.

Hvernig slakar þú best á og hvernig forðastu streitu? Markmiðið er að gefa mér tíma fyrir slökun á hverjum degi og ég næ því oftast. Ég fer í skógarbað, geri jóga nidra eða fer í rólegheita göngutúr um sveitina mína.

Hvar geta áhugasamir nálgast upplýsingar um næstu skógarböð í Heiðmörk? Shinrin-yoku skógarböðin sem við Íris Lana leiðum í Heiðmörk er samvinnuverkefni okkar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Þau eru auglýst á Facebook-síðu félagsins og skráning fer fram hjá þeim. Við Íris tökum einnig að okkur hópa en þá er best að senda tölvupóst á info@foresttherapy.is.

Þá er bara að njóta, ekki þjóta.

„Í dag er shinrin-yoku skógarbað gagnreynd náttúrumeðferð við streitu og ríkur þáttur í japanska heilbrigðiskerfinu auk þess sem meðferðin nýtur vaxandi vinsælda um allan heim, bæði sem forvörn gegn sjúkdómum og sem hluti af meðferð.“

Doktorspróf

- Doktor Inga Valgerður Kristinsdóttir skoðaði umönnunarþarfir í heimaþjónustu

Doktorsnám er skemmtilegt langhlaup

Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Úr einkasafni

Inga Valgerður Kristinsdóttir varði doktorsritgerð sína við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands þann 23. apríl síðastliðinn. Ritgerð Ingu ber nafnið: Umönnunarþarfir í heimaþjónustu: Þættir sem spá fyrir um flutning á hjúkrunarheimili og umönnunarbyrði aðstandenda. Við fengum Ingu Valgerði til að segja okkur frá þessari vegferð; frá því að hugmyndin að doktorsnámi kviknaði og þar til gráðan var í höfn.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að skella þér í doktorsnám?

Ég var verkefnastjóri evrópskrar rannsóknar, IBenC (Identifying best practices for care-dependent elderly by benchmarking costs and outcomes of community care) hér á Íslandi. Rannsóknin fór fram samtímis í sex Evrópulöndum. Það var ógrynni gagna sem varð til við þessa rannsókn og mér fannst að það þyrfti að vinna meira úr þeim til að við fengjum enn betri sýn á heimahjúkrun hér á landi. Þarna skapaðist einstakt tækifæri til að skoða stöðuna hjá okkur hér á landi og ekki síst tækifæri til samanburðar við önnur Evrópulönd. Til að fá heildstæðar niðurstöður úr gögnunum taldi ég ákjósanlegast að gera það í gegnum doktorsnám og eftir samtal við nokkra aðila varð það niðurstaðan.

Hver var rannsóknarspurning þín þegar þú lagðir af stað í þetta verkefni og hvernig þróaðist hún í ferlinu?

Doktorsverkefnið samanstendur af þremur aðskildum rannsóknum sem tengjast þó innbyrðis. Rannsóknarspurningarnar voru því nokkrar en meginmarkmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á heilsufar, færni og aðstæður eldra fólks sem býr í sjálfstæðri búsetu og nýtur bæði aðstoðar formlegrar þjónustu og aðstandenda. Tilgangurinn var að greina leiðir til að efla heimahjúkrun þessa hóps. Þetta var leiðarstefið í gegnum allt rannsóknarferlið. Til að ná þessu markmiði skoðaði ég hvort breytingar hefðu orðið á heilsufari, færni og aðstæðum eldra fólks sem þarfnast þjónustu heima á milli áranna 2001 og 2014. Greindir voru hvaða þættir í heilsufari, færni og aðstæðum eldra

fólks sem býr heima spá fyrir um umönnunarbyrði aðstandenda. Einnig hvernig formleg þjónusta bregst við þeirri áskorun að sinna hrumum öldruðum skjólstæðingum á heimilum sínum. Þá var skoðað hvort breytingar á heilsufari, færni og aðstæðum eldra fólks sem þarfnast þjónustu heima breyttust á rannsóknartímabilinu sem var eitt ár og hvaða þættir í fari einstaklinganna spáðu fyrir um flutning á hjúkrunarheimili.

Hvers vegna valdir þú að rannsaka þetta frekar en eitthvað annað?

Ég hef starfað við heimahjúkrun nánast allan minn starfsferil þannig að það lá beinast við að horfa til þessa fagsviðs auk þess sem ég fékk tækifæri til að starfa við þessa Evrópurannsókn.

Hvenær hófst þessi vegferð og hvernig gekk ferlið fyrir sig þar til titillinn var í höfn?

Það tók mig svolítinn tíma að átta mig á því hvernig væri að vera í doktorsnámi og hvernig væri best að skipuleggja það. Mikill tími fór í hugarflug og vangaveltur um hvernig best væri að framkvæma rannsóknina og annað slíkt. Mun meiri tími en ég hafði gert mér í hugarlund. Það kom oft upp að mér þótti erfitt að halda mér við efnið og var óviss hver næstu skref væru en þá fór ég yfirleitt að vinna meira í vinnunni. Þar kunni ég öll handtök og auðvelt að sjá árangur af starfinu og það var gott að taka svona pásur inn á milli. Þrátt fyrir að hafa haft góða leiðsögn þá held ég að þetta sé tilfinning og tímabil sem flestir doktorsnemar upplifa á þessari vegferð.

Síðustu mánuðirnir voru mjög krefjandi, ég lokaði mig af og var farin að keppa við tímann. Undirbúningur varnarinnar var svo enn ein áskorunin; skemmtileg en líka kvíðavaldandi. Ég var til dæmis hrædd um að skilja ekki spurningar andmælenda og að þeirra eina markmið væri að „grilla“ mig en það var svo sannarlega ekki þannig. Vörnin var eitthvað allt annað en ég hafði ímyndað mér. Ég mætti vel undirbúin og reyndi að hafa andrúmsloftið afslappað, vera fagleg en ekki of alvarleg og held að það hafi tekist. Ég var með frábæra andmælendur, annar var ekki á staðnum svo ég talaði við hann í gegnum fjarbúnað í mynd

og ég náði alveg að gleyma mér og vera laus við stress. Hinn andmælandinn tók svo við og þetta gekk bara vel að mínu mati. Það var mikill léttir þegar þetta var yfirstaðið og ég var bara nokkuð róleg þegar dómnefndin var að ráða ráðum sínum og meta frammistöðu mína. Svo tók við mikil gleði þegar doktorstitillinn var í höfn.

Hvað var skemmtilegast, lærdómsríkast og erfiðast í þessu ferli öllu saman?

Það var virkilega skemmtilegt að kynnast fjölbreyttum hópi fólks, bæði hér heima og í tengslum við ráðstefnur og rannsóknarsamstarf erlendis. Ég kynntist fræðimönnum sem ég hef litið upp til og fékk tækifæri til að vera í samtali við þá. Ritbúðirnar sem við doktorsnemarnir fórum í á Laugarvatni og í sumarbústað voru líka sérlega skemmtilegar. Þá sátum við og skrifuðum yfir daginn og áttum síðan notalegar stundir á kvöldin og gátum rætt hjúkrun í allar áttir klukkustundum saman. Það var lærdómsríkt að fara í gegnum ferli rannsókna og að uppgötva hvað rannsóknir í hjúkrun eru mikilvægar til að við getum þróað fagið áfram.

Erfiðast var sennilega að halda einbeitingu; að halda áfram og gefast ekki upp þegar mótlætið var sem mest því það gekk ekki alltaf allt upp. Að fara í gegnum ritrýni og svara henni fannst mér mikil áskorun. Þrautseigja og þolinmæði eru dyggðir sem maður þarf mikið á að halda á þessu ferðalagi.

Gaf doktorsnámið og áskoranirnar sem því fylgdu þér nýja eða breytta sýn á fagið og/eða lífið?

Kannski helst það hvað rannsóknir eru mikilvægar í heimahjúkrun eins og öðrum fagsviðum hjúkrunar. Heimahjúkrun er sennilega það fagsvið sem mun stækka mest á komandi árum og því mikilvægt rannsóknarefni. Heimahjúkrun á Íslandi hefur takmarkað verið rannsökuð á undanförnum áratugum en það er þó sem betur fer að breytast og til að framþróun eigi sér stað er mikilvægt að skoða, kanna og greina hvar heimahjúkrun stendur og hvort þær breytingar sem verið er að gera skili árangri.

Hvernig er lífið eftir útskrift?

Ég hélt ég gæti bara lagst með tærnar upp í loft en það hefur ekki alveg verið þannig. Daginn eftir útskrift var ég aftur sest við tölvuna til að undirbúa erindi fyrir ráðstefnu. Ég hafði ekki áttað mig á

hvað ég hafði frestað mörgu, bæði vinnutengdu og á heimilinu, meðan ég var í doktorsnáminu. Ég er hægt og rólega að fara niður verkefnalistann og að reyna koma rútínu og jafnvægi í mitt daglega líf.

Hvað myndir þú segja við hjúkrunarfræðing sem væri að velta fyrir sér kostum og göllum við að fara í doktorsnám?

Það er gaman að kynnast akademískum vinnubrögðum og spennandi að sjá niðurstöður rannsóknarinnar fæðast. Kosturinn við doktorsnám er samvinnan, leiðsögnin og stuðningurinn sem þú færð frá leiðbeinanda, samstarfsfólki og ekki síst öðrum doktorsnemum. Námið getur stundum verið dálítið einmanalegt, ég var mikið ein með sjálfri mér í þessari vinnu og þurfti að vera skipulögð. Sjálfsagi er þess vegna mikill kostur á svona vegferð. Þú þarft að gera ráð fyrir meiri vinnu en á sama tíma minni tekjum á námstímanum en þegar maður er búinn að ákveða að fara í þetta ferðalag þá er maður ekki að velta sér upp úr því. Doktorsnám er skemmtilegt langhlaup.

Hver eru framtíðaráform þín

Mig langar að gera frekari rannsóknir innan heimahjúkrunar og efla heimahjúkrun til hagsældar fyrir þá einstaklinga sem þurfa aðstoð til að geta búið lengur á eigin heimili. Þá langar mig að þróa heimahjúkrun áfram m.t.t. niðurstaðna sem komu fram í minni rannsókn.

Að lokum, besta eða eftirminnilegasta minningin frá þessu námsferðalagi sem skilaði nemandanum á áfangastað doktorsgráðunnar?

Augnablikið þegar ég fékk doktorsskírteinið í hendurnar held ég að sé bæði besta og eftirminnilegasta minningin. Að áfanganum væri náð er bara eitthvað sem ég átti erfitt með að trúa og til að fagna því stóðst ég ekki freistinguna og lyfti skírteininu á loft eins og bikar.

Doktorspróf

- Doktor Guðrún Jónsdóttir skoðaði ákvörðunartöku um lífslokameðferð

Nákvæmni, þolinmæði og þrautseigja er nauðsynleg og skilar árangri

Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Úr einkasafni

Guðrún Jónsdóttir varði doktorsritgerð sína við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands núna á vormánuðum. Ritgerð hennar fjallaði um ákvörðunartöku um lífslokameðferð hjá sjúklingum með taugasjúkdóma.

Guðrún segir að doktorsverkefnið hafi eflt sig, bæði sem fræðimann og líka sem hjúkrunarfræðing og að doktorsnám sé frábær vegferð fyrir þá sem hafa raunverulegan áhuga á rannsóknum og vilja kafa dýpra í fagið sitt.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að skella þér í doktorsnám?

Ég hafði lengi haft áhuga a að fara í doktorsnám en meistaranámið mitt í hjúkrunarfræði kveikti enn frekar áhugann á rannsóknum og gaf mér það sjálfstraust sem ég þurfti til að halda áfram á þeirri braut. Samtal við leiðbeinanda minn, Dr. Helgu Jónsdóttur, um möguleg rannsóknarverkefni varð síðan kveikjan að því að ég ákvað að hefja þessi vegferð. Í doktorsverkefninu mínu, sem fjallaði um ákvörðunartöku um lífslokameðferð hjá sjúklingum með taugasjúkdóma, fékk ég tækifæri til að takast á við krefjandi og afar mikilvæg viðfangsefni. Þar mættust vísindi, siðfræði og klínísk reynsla og þetta verkefni hefur stutt mig bæði sem fræðimann og hjúkrunarfræðing.

Hver var rannsóknarspurning þín þegar þú lagðir af stað í þetta verkefni og hvernig þróaðist hún á þeim tíma sem námið tók?

Ég hóf doktorsverkefnið með breiða spurningu um ákvörðunartöku um lífslokameðferð og ætlaði upphaflega að bera saman þrjá sjúklingahópa. Eftir að hafa safnað gögnum um sjúklinga með taugasjúkdóma áttaði ég mig á því að dýpt skilar meiri lærdómi en breidd. Þess vegna kaus ég að fylgja einni línu til enda; sjúklingum með taugasjúkdóma, á meðan kjarnaspurningin sjálf stóð óbreytt. Sú ákvörðun gaf mér tækifæri til að kafa dýpra í þær krefjandi áskoranir sem tengjast ákvarðanatöku sem heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingar og aðstandendur glíma við á síðustu dögum lífsins.

Hvers vegna valdir þú að rannsaka þetta frekar en eitthvað annað?

Ég sá tækifæri til að rannsaka svið sem hefur fengið litla athygli hér á landi. Þótt líknar- og lífslokameðferð hjá sjúklingum með taugasjúkdóma hafi verið rannsökuð víða erlendis, vantar íslenskar rannsóknir sem varpa ljósi á aðstæður í okkar heilbrigðiskerfi. Lífslokameðferð fyrir þennan hóp er sérstaklega flókin þar sem framgangur sjúkdóma er oft ófyrirsjáanlegur. Þessi óvissa gerir rannsókn á ákvörðunartöku í þessum aðstæðum bæði krefjandi og mikilvæga.

Hvenær hófst þessi vegferð og hvernig gekk ferlið fyrir sig þar til titillinn var í höfn?

Ég hóf doktorsnám haustið 2016 og lauk því vorið 2025, í hlutanámi samhliða starfi. Ferlið fór fram í gegnum skýra áfanga: hugmynd og rannsóknaráætlun, siðanefndarleyfi, gagnaöflun, greiningu (tölfræðilega/megindlega), handritsvinnu fræðigreina, sjálf doktorsritgerðin og lokavörn. Þótt COVID-19 faraldurinn hafi tafið vettvangs- og gagnaöflun og umbreytt samstarfi, þá tókst með markvissri aðlögun og endurskipulagningu að halda fókus og ljúka náminu með doktorsgráðu vorið 2025.

Hvað var skemmtilegast, lærdómsríkast og erfiðast í þessu ferli öllu saman?

Skemmtilegast var samfélagið í hópi doktorsnema í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildinni: Ólíkar rannsóknir en sterk tenging í sameiginlegri vegferð í doktorsnáminu.

Lærdómsríkast var að sjá gögnin tala; þegar gagnagreiningin skilaði áhugaverðum og marktækum niðurstöðum sem skýrðu viðfangsefnið betur.

Erfiðast var hins vegar að takast á við ritstíflu og tímabil þar sem lítið gekk; fyrstu fræðigreinina var erfitt að fá birta en með þrautseigju gekk það upp og með aðra og þriðju fræðigreinar mun hraðar.

Gaf doktorsnámið og áskoranirnar sem því fylgdu þér nýja eða breytta sýn á fagið og/eða lífið?

Já og á fleiri en einn hátt. Ritun fræðigreina og doktorsritgerðar reyndi á skipulag og hæfni til að þola

fræðileg nálgun og skarpari forgangsröðun. Niðurstaðan er dýpri virðing fyrir gagnrýnni hugsun og mikilvægi góðra samskipta og samvinnu. Nákvæmni, þolinmæði og þrautseigja er nauðsynleg og skilar árangri.

Hvernig er lífið eftir útskrift?

Lífið eftir útskrift er spennandi. Ég er virkilega ánægð að hafa klárað námið og sé fyrir mér skemmtilega framtíð þar sem ég mun halda áfram að rannsaka, vinna með frábæru fólki og byggja ofan á þann grunn sem námið skapaði.

Hvað myndir þú segja við hjúkrunarfræðing sem væri að velta fyrir sér kostum og göllum við að fara í doktorsnám?

Ég myndi segja að doktorsnám sé frábær vegferð fyrir þá sem hafa raunverulegan áhuga á rannsóknum og vilja kafa dýpra í fagið sitt. Það krefst mikillar þrautseigju og sjálfsaga en gefur svo ótrúlega mikið til baka. Áhuginn og ástríðan fyrir rannsóknarefninu er það sem heldur manni gangandi þegar verkefnið verður þungt eða virkar endalaust. Ég hef sjálf upplifað bæði hæðir og lægðir í þessu ferli en lærdómurinn og þroskinn sem fylgir er þess virði. Ef þú finnur að rannsóknarefnið kallar á þig, þá er það merki um að þú eigir að láta slag standa.

Hver eru framtíðaráform þín?

Ég stefni á að halda áfram kennslu við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og starfa sem sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala. Samspil kennslu, klínískrar reynslu og rannsókna er það sem veitir mér mestan innblástur.

Að lokum, besta eða eftirminnilegasta minningin frá þessu námsferðalagi sem skilaði nemandanum á áfangastað doktorsgráðunnar?

Eftirminnilegast er dagurinn sem doktorsvörnin fór fram, augnablik mikillar ánægju og stolts fyrir mig og fjölskylduna mína sem stóð með mér alla leið. Samt standa líka upp úr ferðalögin, ráðstefnurnar og mannlegu tengslin á þessari vegferð. Ég kynntist frábæru fólki sem mótaði mig bæði faglega og persónulega og þessi tengsl eru einn dýrmætasti ávinningur námsins. Leiðbeinandi minn og doktorsnefndin veittu stöðugan stuðning og hvatningu frá upphafi til enda.

Skurðhjúkrunarfræðingur gerir upp nær hálfrar aldar starfsferil

Vilji er allt sem þarf

Texti: Sólveig Hauksdóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir og úr einkasafni

Þóra Þórhildur Guðjónsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur á skurðstofum Landspítala í Fossvogi, lét nýverið af störfum eftir 47 ára farsælt starf. Við fengum Þóru í skemmtilegt spjall í tilefni af þessum tímamótum og hittumst í húsnæði Félags hjúkrunarfræðinga þar sem Þóra mætti glæsileg að vanda. Það sem einkennir hana ekki síst er einstaklega hlýlegt viðmót, það geislar af henni og hún kemur alltaf fram af miklu öryggi.

Ég hef unnið með Þóru síðustu árin og kynnst henni í hlutverki aðgerðarstjóra en það er manneskjan sem hefur yfirsýnina og stýrir flæðinu inni á skurðstofunum, eins konar flugumferðarstjóri fyrir skurðganginn. Þóra átti langan og farsælan feril að baki áður en við kynntumst og mér leikur forvitni á að vita hvernig starfið á skurðstofunum hefur breyst í áranna rás en fyrst víkjum við að upphafinu. Hvernig datt þér í hug að fara í hjúkrun? ,,Mér datt það eiginlega í hug strax þegar ég var krakki. Ég ætlaði fyrst að verða tannlæknir af því að tannlæknirinn minn var kona en svo breyttist það. Við fengum að fara í starfsþjálfun í skólanum, þá var ég sennilega um 15 ára, og þá fór ég á Borgarspítalann og kom í fyrsta sinn inn á skurðstofu. Þetta hefur verið eitthvað um 1971. Þetta var opin hnéaðgerð og það steinleið yfir mig. Daginn eftir fór ég á deild, þá þurfti ég að aðstoða manneskju við að fara á klósettið og það gekk bara eins og í sögu. Þannig að þetta átti vel við mig eiginlega frá fyrsta degi. Ég var náttúrlega skáti og þetta umönnunar- og hjálparstarf hefur alltaf verið í mér.“

Gerðist óvænt bóndi

Fórstu þá í Hjúkrunarskólann? „Ég fór í Nýja hjúkrunarskólann sem María Pétursdóttir stofnaði. Við vorum fjórtán sem útskrifuðumst saman. Þetta var mjög samheldinn og góður hópur og við hittumst enn þann dag í dag einu sinni í mánuði í kaffi. Ég útskrifast 20. desember 1978. Sigríður Lister var þá deildarstjóri á A4 og ég var svo hrifin af henni en hún var með fullmannaða deild svo að ég fór að vinna á A5. Svo var það að ég gerðist trúnaðarmaður og við Sigríður hittumst á trúnaðarmannanámskeiði hjá BSRB. Þá vildi hún endilega fá mig yfir á A4 en ég sagði henni þá að ég væri orðin ófrísk og ætti að eiga í júlí. Og hún sagði bara að það gerði ekkert til og það varð úr að ég flutti mig yfir á A4 á meðgöngunni. Á þessum árum var fæðingarorlofið bara þrír mánuðir og svo einn mánuður í sumarfrí þannig að ég fór aftur að vinna eftir fjóra mánuði. Þá var ég á næturvöktum og Stulli, maðurinn minn heitinn, sá um stelpuna okkar á nóttunni og svo passaði mamma á daginn. Stelpan byrjaði svo á leikskólanum á spítalanum þegar hún var eins árs,“ segir Þóra brosandi og heldur áfram. ,,Í desember 1981 keyptum við okkur hús á Seltjarnarnesinu og þá fannst mér svo langt að fara á Borgarspítalann þannig að ég ákvað að sækja um á Landakoti. Stulli var verkstjóri í Bæjarútgerð Reykjavíkur og var oft að vinna lengi fram eftir þannig að ég vildi ráða mig í dagvinnu. Ég fór að vinna á vöknun og átti þar yndislegan tíma og þar kynntist ég má segja skurðstofunni. Ég ætlaði alltaf að fara í svæfingarnar en skjótt skipast veður í lofti því árið 1984 tókum við hjónin stóra ákvörðun. Við, ásamt öðrum hjónum, keyptum stóra

jörð á Rangárvöllunum sem heitir Ármót. Þetta voru 120 hektarar af ræktuðum túnum og 100 kýr ásamt nautgripum svo að ég gerist bóndi. Þar eignaðist ég svo son minn Sölva og ég planaði það náttúrlega, eins og hjúkkur gera, þannig að hann kæmi í heiminn 11. maí, fyrir slátt! En þetta voru erfiðir tímar og mikil verðbólga, þannig að við urðum eiginlega að selja og gerðum það sem betur fer, það var árið 1986. Þá fluttum við í Grundarfjörð. Stulli var verkstjóri í hraðfrystihúsinu og ég fór að vinna hálfan daginn á heilsugæslunni. Það voru yndislegir tímar að vera þar með börn og taka þátt í öllu félagslífinu, kirkjukórnum og bara öllu sem var í gangi í samfélaginu.“

Einstakur starfsandi í krefjandi starfi á Landakoti Árið 1990 fluttu þau hjónin aftur til Reykjavíkur. „Ég fór aftur á Landakot en þá var ekki laus full staða á vöknun svo að ég fór að vinna aðeins á augnskoðun og speglun á móti. Svo um haustið kom Steinunn Hermannsdóttir til mín og spurði hvort ég vildi koma að vinna skurðstofunum og ég þurfti nú ekki að hugsa mig lengi um. En þetta var erfitt, ég hafði fengið að fara aðeins inn á skurðstofurnar þegar ég var á vöknun svo að þetta var ekki alveg framandi en samt mjög streituvaldandi, allar reglurnar og vinnubrögðin,“ segir hún þegar hún rifjar upp þessi fyrstu ár á skurðstofum.

,,Það urðu miklar breytingar á Landakoti á þessum árum. Þar fór fremstur í flokki Sigurgeir Kjartansson. Hann sótti mikið til læknanna á Keflavíkurflugvelli, frá bandaríska hernum. Hann hafði lært í Bandaríkjunum og lá beint við fyrir hann að sækja sér þekkingu þangað. Við gerðum fyrstu laparóskópísku aðgerðina á Íslandi á Landakoti, ætli það hafi ekki verið í kringum 1992 og ég stóð í þeirri aðgerð. Það var í raun engin sérhæfing á sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan augnaðgerðirnar sem voru bara gerðar á Landakoti. Annars gerðum við bara allt. En vaktirnar skiptust á milli sjúkrahúsanna þannig að það varð aldrei alveg brjálað að gera.“

Hvernig var andinn á Landakoti? ,,Það var einstaklega góður starfsandi á Landakoti og ég held að þessi tími þar hafi mótað mig fyrir lífstíð. Það var mikill vilji til að vinna og alltaf gaman að koma í vinnuna og ganga í verkin. Við vorum heima á bakvakt og vorum með píptæki á okkur. Þegar pípti þá hringdi maður til baka til að athuga hvort maður ætti að koma í hús. Yfirleitt var ekki mikið að gera en það gat verið mikið að gera á augnskurðstofunum. Ég man sérstaklega eftir einu gamlárskvöldi, þá var ég kölluð út um tvöleytið og ég var að vinna allt kvöldið og alla nóttina. Ég ætlaði

,,Það voru sólarhringsbakvaktir um helgar, frá átta um morguninn til átta morguninn eftir, og það var unnið svakalega mikið.“

nú að koma heim í mat en það dróst á langinn. Þá var eitthvert slæmt flugeldaslys en maður gat alltaf búist við slíkum slysum á gamlárskvöld.“

Sameiningin við Sjúkrahús Reykjavíkur reyndi á Landakot og Sjúkrahús Reykjavíkur, eða Borgarspítalinn eins og hann hét þá, sameinuðust svo árið 1996. ,,Við fluttum frá Landakoti þann 22. október 1996 yfir í Fossvoginn. En það vildi svo til að ég hafði tekið sumarfrí snemma það árið í tilefni af fertugsafmælinu mínu þannig að þegar ég hefði átt að taka sumarfrí þá var lokað á Landakoti. Þá var búið að sameina sjúkrahúsin en starfsemin ekki flutt, svo að ég varð bara að afplána í Fossvoginum. Það var eigin-

hana hvernig það hafi verið að flytja starfsemina í Fossvoginn. ,,Það var mjög erfitt. Við vorum samheldinn og stór hópur sem komum frá Landakoti og þetta var ekki síst erfitt fyrir Fossvogskonurnar. Við stóðum má segja með pálmann í höndunum af því að Steinunn Hermanns tók við deildarstjórastöðunni. Það var mikill munur á vinnubrögðum milli húsa, bara eins og við vitum að er núna á milli Hringbrautar og Fossvogs. Það skipti miklu máli að vera dálítið dipló, en þær voru ekkert endilega frekar að gera eitthvað rangt heldur en við, vinnubrögðin voru bara ólík. Svo slípaðist þetta til. Það var meira um slys og bráðaaðgerðir í Fossvoginum en var á Landakoti af því að þar var slysadeild. Þá máttu læknarnir vinna eins og þá lysti og voru oft að vinna til tvö, þrjú á nóttunni. Ég man að einu sinni vorum við klukkan fimm um nótt að sauma hásinaslit en það yrði nú látið bíða í dag. Það voru sólarhringsbakvaktir um helgar, frá átta að morgni til átta morguninn eftir og það var unnið svakalega mikið. Oft nánast allan sólarhringinn. Það var erfiðast með höfuðaðgerðirnar. Þegar hringt var í mann þá var það upp á líf og dauða. Einu sinni var ég á bakvakt og það var komið fram yfir kvöldmat og ég fór út í smá göngutúr. Ég var á Dunhaganum þegar pípti og ég hljóp heim á Hjarðarhagann og hringdi til baka og þá var það sprungin ósæð, sem betur fer fór það allt vel en mér fannst þetta óþægilegt. Maður

fór ekki neitt á bakvöktum, var bara í sínum litla radíus. Það var gríðarleg framför þegar píptækjunum var skipt út fyrir farsíma því þá var maður ekki bundinn við að vera við heimasímann.“

Aðgerð sem mistókst hafði afdrifaríkar afleiðingar Árið 2005 sameinast Borgarspítalinn við Landspítala við Hringbrautina og Landspítali háskólasjúkrahús varð til. „Þá fluttu kviðarhols-, þvagfæra- og æðaskurðlækningar að mestu niður eftir og lýtaaðgerðir færðust til okkar og ég tók við sem teymisleiðtogi lýtasérgreinar. Svo sameinuðust lýta-, heila- og tauga- og æðateymin og ég varð teymisstjóri yfir því þangað til ég varð aðgerðar-

„Af öllum breytingum sem ég hef gengið í gegnum á ferlinum þá fannst mér þetta erfiðast vegna þess að það er svo erfitt að vera endalaust að biðja fólk um að vinna meira, vera lengur og taka fleiri vaktir. Það er slítandi.“

Árið 2016 átti eftir að verða afdrifaríkt fyrir Þóru en það á fór hún í aðgerð vegna brjóskloss í baki sem mistókst: „Mér versnaði bara og ég var með stöðugan verk í fætinum þannig að ég treysti mér ekki til að standa í skurðaðgerðum. Þá stakk Ólafur Skúlason, þáverandi deildarstjóri, upp á að ég yrði eingöngu aðgerðarstjóri í hlutastarfi og byrjaði að taka lífeyri á móti. Þá var fyrirkomulagið þannig að ég þurfti að segja upp starfinu og gera tímavinnusamning og við það missti ég öll réttindi þannig að þetta var stór ákvörðun sem ég þurfti að taka. Ég var orðin ekkja og þó að börnin mín væru uppkomin fannst mér þetta erfið ákvörðun en ég ákvað að prófa og vann þannig í tvö ár. Lögunum var síðan breytt þannig að hægt

var að fá fastráðningu samhliða lífeyristöku og þá fékk ég þessi réttindi sem ég hafði misst í tvö ár aftur. Þessi ákvörðun reyndist mikið gæfuspor og það besta var að fara í hlutastarf því það gerði mér kleift að halda áfram að vinna. Það er mjög krefjandi að vera aðgerðarstjóri; þarf að hafa svo góða yfirsýn yfir starfsemina og þekkja vel til hennar. Svo þegar það eru kannski 25 manns á bráðalistanum og takmarkað skurðstofupláss og búið að vera þannig vikum og mánuðum saman getur verið erfitt að sjá fram úr verkefnunum.“

Þóra segir að það hafi verið gríðarlegt áfall þegar vinnutímabreytingarnar voru gerðar árið 2021: „Þá fórum úr því að vera með átta skurðstofur opnar niður í að vera með þrjár til fjórar, það var mikill skellur sem við erum ekki enn búin að vinna upp. Skurðlæknarnir misstu sína föstu daga og það riðlaðist allt. Það voru auðvitað kjarabætur í þessu fyrir okkur en þetta var reiðarslag fyrir starfsemina. Af öllum breytingum sem ég hef gengið í gegnum á ferlinum þá fannst mér þetta erfiðast vegna þess að það er svo erfitt að vera endalaust að biðja fólk um að vinna meira, vera lengur og taka fleiri vaktir. Það er slítandi.“

Á myndinni eru frá vinstri: Sigríður Helga Jónsdóttir, Þóra Þórhildur Guðjónsdóttir, Elísabet Íris Þórisdóttir og Þóra Þráinsdóttir.

Starfið í fagdeildinni ,,Af því að ég var af gamla skólanum var ég náttúrlega ekki með B.Sc.-gráðu. Ég útskrifaðist úr skurðhjúkrun í október 1996 og þá þurfti ég að bæta við mig einu ári í viðbót upp í B.Sc.-gráðuna sem ég gerði. Mér fannst ég yrði að hafa gráðuna, sérstaklega af því að ég hafði verið að taka á móti nemum og nýráðnu starfsfólki, það var mitt hlutverk þegar ég byrjaði í Fossvoginum og í tíu ár á eftir. Ég fór í stjórn fagdeildar skurðhjúkrunarfræðinga, ISORNA, strax eftir útskrift úr skurðhjúkrunarnáminu og var meira að segja formaður í þrjú ár. Helga Kristín var formaður á undan mér og við stóðum fyrir því að við gengum inn í NORNA sem eru samtök norrænna skurðhjúkrunarfræðinga. Svo gengum við í EORNA sem eru samtök evrópskra skurðhjúkrunarfræðinga árið 2000. Þá var Þórhalla Eggertsdóttir komin inn í stjórnina líka. Ég var í menntunarnefnd EORNA og tók þátt í að skipuleggja EORNA-þing á Krít sem var mikil lífsreynsla. Ég fékk að ferðast um alla Evrópu, kynnast fólki og taka þátt í þessu starfi. En ef ég á að vera alveg hreinskilin þá finnst mér eins og við séum alltaf á byrjunarreit í þessu EORNA-samstarfi. Það hefur eflaust margt unnist en það eru samt enn þá sömu vandamálin sem eru líka til staðar inni á skurðstofunni. Það eru menntunarmálin og svo eru það þessi grunnmál eins og talningarreglur og umgengnisreglur. Það sýnir okkur kannski bara það að þó að starfið sé fjölbreytt þá er þetta alltaf kjarninn og hann verður að vera í lagi.“

Aðbúnaðurinn breyst mikið og óvissan alltaf erfiðust

Hefur þá ekkert breyst síðan þú byrjaðir í þessu? „Grunnurinn er alltaf sá sami eins og með hjúkrun almennt. Við erum alltaf að vinna með fólk en aðbúnaðurinn hefur breyst gríðarlega mikið. Núna er nánast allt orðið einnota nema verkfærin. Svo eru fleiri hendur að létta okkur verkin. Hér áður fyrr þurfti maður sjálfur að taka allt til, pakka verkfærum, dauðhreinsa þau fyrir aðgerðir og svo þvo þau eftir aðgerðirnar. Í dag er miklu fleira aðstoðarfólk sem sinnir því sem við gerðum áður. Svo hefur auðvitað bæst heilmikið við tækjabúnaðinn. Við erum farin frá því að meirihluti aðgerðanna voru opnar aðgerðir yfir í mikið af alls kyns speglunum. Það var heilmikið að læra á öll nýju tækin og nógu vel til að geta kennt öðrum á þau líka. Tækninni fleygir vitanlega fram; það er laser, navigation og öll þessi þrívíddartækni. Ég er ekki af kynslóð sem ólst upp við tölvuleiki og hef aldrei spilað tölvuleik og það var miklu erfiðara fyrir okkur sem voru af þessari kynslóð að tileinka okkur þessa þrívíddarsýn heldur en þau sem yngri eru. Önnur breyting sem hefur orðið er að léttu aðgerðirnar eru mikið til farnar út í bæ á stofur þannig að við sitjum eftir með erfiðustu tilfellin. En þetta er gefandi starf, fyrstu árin er maður logandi hræddur um að gera einhver mistök, gera sig ósterílan og fær martraðir á nóttunni yfir vinnunni en svo lærist þetta. Það hefur hentað mér vel að vinna í þessu umhverfi en maður þarf að vera agaður og tilbúinn í alls konar áskoranir. Þetta getur verið mjög streituvaldandi, sérstaklega þegar slys verða af því að maður veit aldrei hver er á leiðinni til okkar. Það flaug oft í gegnum hugann að þetta gæti verið einhver sem ég þekkti. Mér fannst erfiðast að venjast því, þessi óvissa á vöktunum var erfið, það er margt sem venst en þessi óvissa venst ekki.“

matur & spa

Þú hugsar um aðra, nú er röðin komin að þér.

Þegar dagarnir eru langir og álagið mikið, er gott að gefa sér tíma til að slaka á og njóta. Við bjóðum þér 2 fyrir 1 í spa og 20% afslátt af à la carte matseðli.

Tími fyrir þig - í hjarta borgarinnar.

af à la carte matseðli á Grandi restaurant & bar

Vaktin mín

- Helga Margrét Gísladóttir

hjúkrunarfræðingur í Ylju neyslurými

Einstaklingar sem upplifa að

heilbrigðiskerfið hafi brugðist þeim

Viðtal og mynd: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Ég byrja þennan mánudagsmorgun líkt og flesta aðra morgna á því að rölta í vinnuna. Þvílík forréttindi sem það eru að búa í göngufæri frá vinnustaðnum. Ég fer á B1 og hitti samstarfskonur mínar þar á göngudeild smitsjúkdóma. Þangað fer ég fyrst og fremst til að hitta skemmtilegar konur en sæki í leiðinni vinnutölvuna og bíllykla. Ég fer aðeins yfir málin með þeim og fæ ráðleggingar.

Næsta stopp er Ylja neyslurými þar sem ég starfa tvo virka morgna í viku með lágþröskulda hjúkrunarmóttöku. Aðra daga er ég á vettvangi eða á legudeildinni. Við erum eins og er tvær sem erum með hjúkrunarmóttökuna samtals þrjá morgna vikunnar. Ylja er neyslurými á vegum Rauða krossins þangað sem einstaklingar geta komið og notað sín vímuefni á öruggum stað, fá þar meðal annars hreinan búnað og stuðning frá starfsfólki. Hjúkrunarmóttakan er svo í öðru rými í sama húsnæði eða gámastæðu öllu heldur. Þar getur fólk komið og fengið heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálst og án þess að þurfa að bóka tíma áður. Það er mörgum af okkar skjólstæðingum mikilvægt að geta hitt starfsmann Landspítala utan sjúkrahússins sjálfs því margir treysta sér ekki til að leita þangað, meðal annars vegna fyrri reynslu. Ég fæ mér kaffibolla og fer yfir tímabókanir vikunnar. Dagarnir eru breytilegir og engin leið að stjórna flæðinu, það má segja að bókanirnar séu nokkurs konar tékklisti til að ná að halda betur utan um hlutina. Ég nýti líka tímann til að fara yfir blóðprufuniðurstöður úr lifrarbólgu C og HIV- skimunum liðinnar viku. Það eru nokkrir bókaðir í lyfjaafhendingu fyrir lifrarbólgu C og HIV- lyf í dag. Þar af eru einhverjir sem munu sækja lyfin niður í Ylju en önnur sem fá þau afhent á vettvangi.

Fyrsta koma dagsins er einstaklingur með húðsýkingu á framhandlegg, abscess, sem ég sting á og losa úr. Ég tel ekki þörf á sýklalyfjum eins og er en við þurfum að fylgjast með viðkomandi næstu daga og við sammælumst um að hittast aftur í Ylju næsta dag. Til öryggis fæ ég símanúmerið hjá honum og bóka tíma næsta dag. Sýkingarnar geta oft verið flóknar að meta og í þeim tilfellum nýti ég mér símaráðgjöf frá hjúkrunarfæðingum eða læknum á göngudeild smitsjúkdóma.

Næsta koma er einstaklingur sem óskar eftir aðstoð við að komast á Buvidal-forðalyf (buprenorphine) við ópíóðafráhvörfum. Ég sendi inn flýtibeiðni fyrir þeirri meðferð til SÁÁ. Það er nýlegt að hjúkrunarfræðingar geti sent þessar flýtibeiðnir og það hefur

reynst mörgum mjög vel meðal annars vegna þess að ferlið gengur frekar hratt fyrir sig og krefst yfirleitt ekki innlagnar á Vog. Það er mjög stór hluti af starfinu að tengja einstaklinga við aðra þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og við erum í miklum samskiptum við bæði geð- og kvenlækningasvið í því samhengi. Við erum einnig að grípa einstaklinga eftir innlagnir á legudeildum í eftirfylgni.

Sálræni stuðningurinn mikilvægastur Svona rúllar dagurinn áfram, komurnar eru fjölbreyttar og ég tek nokkrar blóðprufur inn á milli í skimun fyrir lifrarbólgu C og HIV. Vinnan sem mestur tími nýtist í og er sú allra mikilvægasta hjá okkur er sálræni stuðningurinn; að byggja upp tengsl og traust. Þeir sem þurfa að nýta sér þjónustuna í hjúkrunarrýminu í Ylju eru nær allir einstaklingar sem upplifa að heilbrigðiskerfið og flest önnur kerfi hafi brugðist þeim á marga vegu. Það er því mikilvægt að geta verið til staðar og veitt stuðning en oft vildi maður geta gert meira.

Seinnipartinn þennan dag fer ég með samstarfsmanni á vettvang. Þá förum við og hittum einstaklinga þar sem þeir eru staddir á hverjum tíma. Við erum meðal annars að taka blóðprufur og sinna umbúðaskiptum. Upp á síðkastið hefur mestur tími farið í berklasmitrakningu. Fyrir um ári síðan kom upp berklasmit í neyðarskýli borgarinnar og í kjölfarið fór af stað smitrakning samkvæmt sóttvarnarlögum sem göngudeild smitsjúkdóma hefur haldið utan um. Í því felst meðal annars að taka blóðprufur og röntgenmyndir en stærsta verkefnið þar er að hafa uppi á einstaklingunum sem eru á listanum og hafa yfirsýn. Þegar þetta berklaverkefni fór af stað voru ráðnir inn starfsmenn sem eru jafningjar en hlutverk þeirra hefur skipt sköpum í að ná þessari yfirsýn og skapa traust. Helstu hindranir við smitrakninguna eru krefjandi aðstæður, heimilisleysi og tungumálaörðugleikar. Í kvöld vorum við aðallega í berklaskimunum, við fórum og hittum nokkra víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og kláruðum rúntinn í neyðarskýlinu. Við afhentum þar í leiðinni einum einstaklingi lifrarbólgulyf og enduðum daginn á að fara með blóðprufurnar sem við tókum upp á Landspítala.

Eftir vinnudaginn skelli ég mér á crossfit-æfingu þar sem ég fæ útrás og næ að núllstilla mig sem er svo gott. Ég elska vinnuna mína og er þakklát fyrir að fá að vinna á sviði skaðaminnkunar. Ég fæ að hitta fjölbreyttan hóp af skemmtilegu fólki daglega en aðstæðurnar og málefnin eru oft krefjandi.

„Mér finnst mikilvægt að við munum að öll eigum við sama rétt á heilbrigðisþjónustu sem veitt er af virðingu.“

Hulda Birgisdóttir segir gefandi að geta hjálpað fólki við mjög krefjandi aðstæður

Vakt með hjúkrunarfræðingi í fangelsinu á Hólmsheiði

Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Ritstýran mætti á Hólmsheiði með stírurnar í augunum til að ná morgunvakt með Huldu Birgisdóttur sem er hjúkrunarfræðingur í almennu heilsugæslunni í fangelsinu. Eftir að hafa villst örlítið af leið og svo snúið við, blöstu háar járngirðingar við og þar fyrir innan stór vígaleg bygging sem hlaut að vera fangelsið sjálft. Ég hringdi í Huldu sem fékk vörðinn sem var á vakt þennan morguninn til að hleypa mér inn fyrir járnið. Ég lagði bílnum og rak augun í bleik sumarblóm í trékassa sem virtust þrauka haustveðrið vel og gerðu aðkomuna hlýlegri en ef bara steypan og rimlarnir hefðu verið í „móttökunefndinni“.

Hulda kom arkandi út á móti mér og bauð mig hjartanlega velkomna í Fangelsið á Hólmsheiði. Eftir að hafa sýnt mér öryggisgræjurnar á leiðinni inn, þar sem töskur og mannfólk er skannað hátt og lágt, og tekið mynd af Huldu, við íslenska skjaldarmerkið sem blasir við þegar komið er inn, röltum við inn á vaktherbergi hjúkrunarfræðinga og lækna. Hvað ertu búin að starfa hérna lengi? „Ég hóf störf hér í fangelsinu árið 2017 og er því búin að vera hérna í heil átta ár. Það hefur mikið breyst á þessum árum. Fólkið sem kemur hingað núna er veikara, bæði andlega og líkamlega. Það er meiri blönduð neysla, flóknari viðhaldsmeðferðir og meira af geðlyfjum.“ Hún segir að eftir COVID hafi aukin lyfjanotkun orðið áberandi. „Eftir einangrunina og allt sem fylgdi faraldrinum varð fólk brothættara, það sást líka hér inni. Ég get auðvitað ekki fullyrt að þetta sé eingöngu vegna faraldursins, það er á annarra höndum að rannsaka það,“ segir hún. Vanlíðan jókst líklega víða á þessum fordæmalausu tímum en við ræðum það ekki nánar enda mörg verk sem bíða Huldu og takmarkað hægt að kryfja málin á þessum tímapunkti.

Klukkan er að ganga níu þennan morguninn. Inn af skrifstofunni er lyfjarýmið þar sem lyfin eru geymd, ýmist í kæli eða hillum. Við Hulda spjöllum á meðan hún fer yfir lyfin og tekur þau til í box sem öll eru merkt með nafni. „Það er alltaf nóg að gera, ég byrja vaktina á að fara yfir lyfin og fylla á lyfjaboxin en flestir hér inni eru á lyfjum,“ segir hún. Þegar því verki er lokið tyllum við okkur niður hvor sínum megin við skrifborðið því Hulda þarf að fara í tölvuna til að undirbúa daginn fyrir móttöku læknis.

Fangelsið á Hólmsheiði þjónar hlutverki sem gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi, auk þess að vera afplánunarfangelsi fyrir konur. Þar er aðstaða fyrir afplánun styttri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Heildarfjöldi fangaplássa er 56, skipt á átta deildir sem samanstanda af almennum deildum, gæsluvarðhaldsdeildum og deildum fyrir konur.

Heilbrigðisþjónusta fangelsisins er umfangsmikil og líkist fremur legudeild sjúkrahúss hvað varðar eðli klínískrar þjónustu. „Sumir einstaklingar eru vistaðir í gæsluvarðhaldseinangrun vegna rannsóknarhagsmuna. Einangrun varir yfirleitt í um vikutíma en getur í undantekningartilvikum staðið í allt að tólf vikur. Þeir fangar er sæta einangrunarvist fá eina klukkustund á dag til útiveru og einungis heilbrigðisstarfsfólk, fangaverðir og lögfræðingar mega hafa samband við þessa einstaklinga. Oft má sjá að andlegri og líkamlegri heilsu þeirra hrakar við slíkar aðstæður,“ segir hún og skyldi engan undra en hvaða sáluhjálp ef svo má að orði komast er í boði fyrir fólk sem situr í einangrun á Hólmsheiði? „Hjá Fangelsismálastofnun starfa sálfræðingar og prestur sem fangar geta átt viðtöl við. Slík viðtöl geta haft veruleg jákvæð áhrif á líðan þeirra og hjálpað þeim að takast á við erfiðar aðstæður,“ útskýrir Hulda og í því birtist læknirinn sem á vakt þann dag.

Læknirinn heilsar brosandi með handabandi og kynnir sig sem Ingólf. Hulda segir að læknir sé þarna tvisvar í viku og hjúkrunarfræðingur fjóra daga í viku, níu klukkustundir í senn, auk þess sem hjúkrunarfræðingarnir sinna bakvöktum utan hefðbundins vinnutíma.

„Ingólfur mætir á Hólmsheiði einu sinni í viku og svo mætir annar læknir hinn daginn. Við byrjum á eins konar stofugangi, förum fyrst og athugum hvort þeir sem eru í einangrun vilji hitta lækni en núna eru samtals fjórir í einangrun. Allir sem eru í einangrun eiga rétt á viðtali daglega við hjúkrunarfræðing eða lækni. Þegar við höfum lokið stofugangi fáum við þá hingað inn sem hafa skrifað sig á lista og óskað eftir að fá að hitta lækni,“ útskýrir hún og fer svo með Ingólfi yfir stöðuna á þeim sem eru í einangrun áður en þau fara stofuganginn. Ingólfur hrósar Huldu og hinum hjúkrunarfræðingnum sem starfar með henni í fangelsinu í hástert: „Þær eru alveg harðduglegar og geta unnið mikið sjálfstætt sem skiptir rosalega miklu máli. Svo sinna þær fráhvarfsmeðferðum hér inni mjög vel og eru bara til fyrirmyndar,“ segir hann hress í bragði.

Og nú er komið að stofugangi. Ég fæ að vera fluga á vegg, við göngum yfir á einangrunarganginn og fangavörður opnar lítinn hlera á þykkri járnhurð sem er eins og gluggi inn í klefann og spyr þann sem er fyrir innan hvort hann vilji tala við lækni. Sá afþakkar viðtal og

Hulda hjúkrunarfræðingur við skjaldarmerkið í móttökunni.
Gestamóttakan í fangelsinu.
Munageymsla fyrir gesti sem þurfa að skilja farsíma, veski og annað eftir áður en þeir fara inn.
Hulda og Ingólfur fara yfir verkefni dagsins.

þá förum við að næsta klefa, sá sem þar er þiggur að hitta lækni og þá opnar fangavörður dyrnar og þau fara inn og tala við fangann með hjálp Google translate. Allir nema sá fyrsti þáðu að tala við Ingólf og Huldu og eftir stofugang fara þau yfir stöðuna og skrifa hjá sér það sem liggur fyrir eftir viðtölin við þessa þrjá sem þau töluðu við.

„Ein helsta áskorunin okkar er sú að hér dvelja fangar frá mörgum löndum sem tala ólík tungumál sem getur gert samskipti flókin. Við reynum þó að nýta okkur tæknina eins vel og hægt er og notum Google Translate mikið í daglegu starfi. Einnig getum við nýtt okkur þjónustu LanguageLine en þá kemur stundum fyrir að túlkurinn eigi erfitt með að túlka heilbrigðismál, sem getur flækt samskiptin og leitt til misskilnings. Hægt er að fá túlk á staðinn, sem er auðvitað besti kosturinn, en slíkt þarf að bóka með nokkurra daga fyrirvara. Við gerum það þegar um flókin mál er að ræða en í flestum tilfellum tekst okkur að leysa málin án þess að kalla til túlk,“ útskýrir hún brosandi og ljóst að hjúkrunarfræðingarnir í fangelsinu kunna að bjarga sér og leita lausna.

Biðklefi þar sem þeir sem koma inn í til að mynda annarlegu ástandi eru vistaðir í skamma stund.

Útisvæði fanga.

Nú er komið að viðtölum við fanga sem eru annaðhvort í lausagæslu eða afplánun og hafa óskað eftir viðtali þann daginn. Hulda kallar í talstöðina og segir fangaverðinum sem er á hinum endanum að fyrsti megi koma inn. Það er móttekið og fangavörðurinn kemur með skjólstæðinginn sem fær sér sæti. Hulda og Ingólfur spjalla við hann, spyrja hvernig hann sofi og fleira og hvert erindið sé. Þegar þau hafa lokið viðtalinu við þann fyrsta kallar Hulda aftur í talstöðina að næsti megi koma inn og hún óskar eftir fylgd með þessum skjólstæðingi. Svona gengur þetta koll af kolli þar til þau hafa hitt alla sem óskuðu eftir viðtali í dag og þá er klukkan rétt að verða 11. „Við erum bara búin snemma í dag,“ segir Hulda og Ingólfur tekur undir það og bætir við að stundum séu þau til fjögur og jafnvel lengur að afgreiða viðtöl dagsins.

Vinnudegi Huldu er þó hvergi nærri lokið þótt viðtölunum sé lokið, hún þarf að sinna fjölmörgum verkefnum áður en hún lýkur störfum í dag. „Ég þarf að ganga frá lyfjabreytingum, uppfæra lyfjaskráningu og fylla út beiðnir vegna flutnings fanga í myndrannsóknir eða aðra sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Mitt starf felst svo líka í að útbúa beiðnir til geðheilsuteymis fangelsanna og ganga frá öllum lyfjum þannig að öryggi sé sem best tryggt. Þar sem ekki eru hjúkrunarfræðingar á vöktum á kvöldin eða um helgar, eru það fangaverðir sem annast lyfjagjöfina. Því er afar mikilvægt að lyfjaskráning og frágangur séu með eins einföldum og öruggum hætti og hægt er svo sem minnst sé um mistök.“

Hulda og Þórir Guðlaugsson varðstjóri.
Sími sem fangar geta notað. Yfirheyrsluherbergi en hinum megin við spegilinn er tæknirými.

Auk þess þarf Hulda líka að sjá um lyfjapantanir og birgðastöðu og hafa samband við hjúkrunarfræðinga á Litla-Hrauni vegna fanga með erlenda kennitölu sem flytjast þangað. „Þar þarf að fylgja nákvæm upplýsingagjöf („rapport“) því tölvukerfin tala ekki saman og því ekki hægt að lesa nótur á milli þeirra – ólíkt því sem gildir um íslenska fanga.“ Að lokum gengur hún frá vinnuaðstöðunni og tryggir að allt sé snyrtilegt og tilbúið fyrir næsta dag, svo sá sem tekur við vaktinni geti hafið störf á skipulagðan og öruggan hátt.

Hulda spyr hvort það sé ekki komin tími á kaffibolla, og það held ég nú, og við röltum yfir á varðstofuna þar sem fangaverðirnir halda til. Þar inni eru stórir skjáir uppi á vegg til að fylgjast með öllum rýmum fangelsisins, hægindastólar til að hvíla lúin bein á löngum vöktum og tölvur og tússtöflur til að halda utan um vaktaplan og alls konar verkefni. Talstöðvar pípa og einn fangavarðanna segir mér að það sé alveg bannað að taka myndir þarna inni, nema ef til vill bara af kaffibollum og kleinum. Ég tek hann á orðinu og fanga kaffistofustemningu á varðstofunni á Hólmsheiði þar sem kleinur, hangikjöt og heimilisbrauð bíða örlaga sinna. Sérmerktir kaffibollar hanga á krókum á veggnum og hitakanna með nýuppáhelltu kaffi stendur á borðinu. Við Hulda fáum okkur í ómerkta bolla og kveðjum fangaverðina eftir kaffisopann.

Nú er laus stund til að skoða aðstöðuna í fangelsinu, segir Hulda og við byrjum í Kaupfélaginu þar sem allt milli himins og jarðar fæst á sanngjörnu verði.

Guðrún fangavörður er þar á vakt í dag og er á fullu að taka vörur upp úr kössum og raða í hillur þegar við lítum þar inn. „Fangarnir geta unnið hér í versluninni, í þvottahúsinu eða á vinnustofunum. Þeir geta líka unnið önnur tilfallandi verkefni, til dæmis við þrif og viðhald á húsnæðinu og geta þannig unnið sér inn smá hýru, til dæmis til að versla hér í kaupfélaginu,“ segir Hulda og eftir stutt spjall við Guðrúnu kveðjum við hana og höldum áfram leiðangrinum.

Við kíkjum inn á bókasafnið þar sem hillurnar eru fullar af alls konar lesefni og púsluspilum sem Hulda segir að séu mikið notuð af þeim sem eru í einangrun til að stytta sér stundir þar inni. Næst rekum við nefið inn í þvottahúsið þar sem allt er vel samanbrotið og merkt. Enginn á vakt þar núna og því algjört næði til að ná mynd þar.

Tvær stórar vinnustofur eru í fangelsinu, karlar eru sér og konur sér og við litum inn á báðar sem voru tómar og við því ekki að trufla með innliti. Hulda sýnir mér handverkið sem fangarnir hafa verið að gera á þessum vinnustofum. Búið er að merkja sumt með Fangaverk,

„Ég vil helst vita sem minnst um það sem fólk hefur gert sem situr hér inni. Mér finnst mikilvægt að geta mætt öllum af virðingu án þess að dæma. Markmið mitt er að meta, efla, vernda og stuðla að bættri líkamlegri og andlegri heilsu fanga,“ segir Hulda.

Hún bendir á að í fangelsinu sé fólk af ólíkum þjóðernum og með mismunandi bakgrunn. Margir hafi upplifað áföll og átök sem hafi mótað líf þeirra. Því sé afar mikilvægt að sýna skilning, virðingu og mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur og veita viðeigandi stuðning eftir bestu getu.

Ég spyr Huldu hvað sé það besta við starfið. „Það besta við hjúkrunarstarfið hér er að fá að hjálpa fólki við mjög krefjandi aðstæður, að geta stutt það í veikindum, sýnt umhyggju og hjálpað því að ná bata. Það er mjög gefandi að finna að vinnan skiptir máli og að maður getur gert gagn. Starfið er líka fjölbreytt og býður upp á ótalmörg tækifæri til að læra og þróast, bæði faglega og persónulega. Engir tveir dagar eru eins og það heldur manni á tánum.“

„Þetta er starf sem heldur manni auðmjúkum og minnir á hversu mikilvægt það er að mæta fólki af virðingu, óháð fortíð þess.“

En hvað er þá erfiðast? „Það erfiðasta við starfið er án efa að starfa í svona flóknu umhverfi. Fangar eru oft með fjölþættan heilsuvanda –bæði líkamlegan og andlegan – og margir hafa upplifað áföll eða eru að glíma við fíkn. Þetta getur gert meðferð og samskipti krefjandi. Þar að auki bætist við að fangelsið er öryggisstofnun, sem þýðir að ákveðnar reglur og takmarkanir geta flækt aðgengi að þjónustu eða tafið meðferð. Stundum finnur maður líka fyrir því að kerfið er ekki alltaf tilbúið að taka við fólki þegar það fer héðan sem getur verið mjög erfitt. En þrátt fyrir allt þetta finnst mér starfið bæði gefandi og lærdómsríkt. Þetta er starf sem heldur manni auðmjúkum og minnir á hversu mikilvægt það er að mæta fólki af virðingu, óháð fortíð þess.“

Óskandi að fangar fengju svigrúm til að finna tilgang

Ef þú ættir eina ósk fyrir fangelsið á Hólmsheiði hver væri hún? „Ef ég ætti eina ósk fyrir fangelsið á Hólmsheiði, þá væri það að fangar hefðu meiri tækifæri til menntunar og meðferðar. Að þeir fengju raunverulegt svigrúm til að finna tilgang, vinna í sjálfum sér og finna þannig von um bjartari framtíð. Rannsóknir og reynsla víða í heiminum sýna að þegar fangelsi leggja áherslu á endurhæfingu fremur en refsingu og veita aðgang að menntun, atvinnuþjálfun og stuðningi eftir afplánun, aukast líkur á að einstaklingar standi á eigin fótum og snúi ekki aftur inn í kerfið

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum? „Ég tel að við þurfum að horfa á fangelsi sem hluta af samfélaginu, ekki stað sem geymir fólk. Það besta við starfið mitt er að fá að hjálpa fólki í erfiðum aðstæðum og sjá jafnvel smá von kvikna – jafnvel þegar allt virðist svart. En það er líka það erfiðasta, því oft finnst mér kerfið ekki í stakk búið að taka við fólki þegar það fer héðan. Ég sé einstaklinga sem hefðu getað átt betri möguleika ef stuðningurinn, meðferðin og tækifærin hefðu verið til staðar. Þess vegna er mín helsta ósk sú að yfirvöld leggi meiri áherslu á endurhæfingu, menntun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Að fólk fái raunverulegt tækifæri til að byrja upp á nýtt. Ef heilbrigðisyfirvöld, Fangelsismálastofnun og aðrir hagsmunaaðilar vinna saman að því að bæta þjónustu og tryggja jafnrétti innan kerfisins, þá getum við byggt upp fangelsi sem stuðlar að bata fremur en broti. Með virðingu, fagmennsku og skilningi getum við skapað öruggara og mannúðlegra umhverfi – bæði fyrir fangana og okkur öll sem samfélag.“ Við látum þessi einlægu orð Huldu sem hefur starfað í fangelsinu í hátt í áratug og þekkir því starfsemina vel vera lokaorðin. Klukkan er að ganga fjögur, stutt eftir af vaktinni og tímabært að ljúka þessari áhugaverðu og fræðandi vettvangsheimsókn á Hólmsheiði. Hulda fylgir mér út og við kveðjumst með faðmlagi eftir góð kynni.

„Ég vil helst vita sem minnst um það sem fólk hefur gert sem situr hér inni. Mér finnst mikilvægt að geta mætt öllum af virðingu án þess að dæma. Markmið mitt er að meta, efla, vernda og stuðla að bættri líkamlegri og andlegri heilsu fanga.“

Öryggisklefi þar sem einstaklingar sem eru hættulegir sjálfum sér og/eða öðrum eru vistaðir í hámark 24 klukkustundir.

Í lok dags þegar ég var búin að fylgja Huldu hvert fótmál með myndavélina ákvað hún að smella einni mynd af mér, til tilbreytingar.

Gestaíbúð er í fangelsinu og þar geta fangar eytt tíma með maka og/eða börnum.
Einangrunarklefi.
Hulda Birgisdóttir hjúkrunarfræðingur í fangelsinu á Hólmsheiði kvaddi ritstýruna með bros á vör.

Háskólakennarinn Steinunn Jónatansdóttir

Hjúkrunarfæðingar ættu að hafa aðgang að sérhæfðu framhaldsnámi í landsbyggðahjúkrun

Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Úr einkasafni

Menntun: Hjúkrunarfræði B.Sc.-gráða, heilbrigðisvísindi M.Sc.-gráða, kennslufræði við HÍ.

Starfsheiti: Aðjúnkt við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri.

Hvernig myndir þú lýsa þér í fimm orðum?

Áhugasöm, ákveðin, hvetjandi, hjálpleg og kröfuhörð.

Af hverju hjúkrunarfræði?

Ég sá tækifæri til að sækja háskólanám úti á landi í stað þess að fara í borgina. Ég og kærastinn, sem er eiginmaður minn í dag, gátum þá sleppt því að reka bíl og dregið úr kostnaði með ýmsum hætti. Kærastinn fór í rekstrarfræði og ég hafði val um að fara í hjúkrun eða kennaranám. Ég sat við eldhúsborðið hjá ömmu með umsóknina í höndunum og vissi ekki í hvort boxið ég átti að haka. Báðir möguleikar komu sterklega til greina. Amma horfði á mig hugsi og sagði svo: „Getur þú ekki kennt sem hjúkrunarfræðingur?“ Það var auðvitað hárrétt athugað, svo það varð úr að ég fór í hjúkrunarfræði. Ég sé alls ekki eftir því, enda kom í ljós að fagið átti mjög vel við mig. Mig grunar að amma hafi nú verið búin að átta sig á því.

Af hverju kennsla frekar en klíník?

Ég bý við þau forréttindi að hafa fengið tækifæri til að kenna innan fræðigreinar sem ég elska. Fyrst sem framhaldsskólakennari að kenna á sjúkraliðabraut og

í seinni tíð að kenna hjúkrun á háskólastigi bæði hér heima og erlendis. Þarna sameinast kannski aftur áhugasviðin tvö við eldhúsborðið forðum. Annars er ég líka að vinna smávegis í klíník, ég held að ég geti aldrei alveg sleppt hendinni af því.

Hver er þín sérgrein?

Landsbyggðahjúkrun.

Hvað heillaði þig við þá sérgrein og varð til þess að þá valdir hana frekar en aðra?

Það er engu líkt að starfa í umhverfi sem gerir þá kröfu til hjúkrunarfræðinga að þekkja og geta brugðist við í öllum heilbrigðistengdum aðstæðum sem upp geta komið. Landsbyggðahjúkrun er sérgrein innan hjúkrunar sem er ólík öðrum sérgreinum að því leyti að hún snýst ekki um að vita mjög mikið um eitt svið hjúkrunar, heldur felst sérfræðiþekkingin í einstökum samskiptahæfileikum, klínískri leiðtogahæfni og að

kunna nóg innan allra sviða hjúkrunar til að geta veitt örugga og góða þjónustu. Í sumum tilvikum getur þetta þýtt að vita hvenær og hvernig best er að koma skjólstæðingi í hendur annarra sérfræðinga fyrir sunnan.

Þyrstir þig í fleiri háskólagráður?

Ég er um það bil að ljúka löngu og ströngu doktorsnámi svo löngunin í meira nám er í algjöru lágmarki. Að því sögðu, þá hætti ég nú líklega aldrei að læra og á pottþétt eftir að skrá mig á einhver spennandi námskeið í framtíðinni.

Ef þú hefðir ekki lært hjúkrunarfræði hvað hefðir þú þá lært?

Ég hefði farið í kennaranám. Annars var ég um tíma mjög áhugasöm um dýralækningar, kannski ég hefði drifið mig til Danmerkur í það nám ef ég hefði haft efni á því á þeim tíma sem ég var að taka ákvörðun um hvað ég ætlaði að verða.

Hvaða fög kennir þú við Háskólann á Akureyri?

Ég hef umsjón með hjúkrun I á fyrsta ári og klínískri forystu og stjórnun, á fjórða ári. Svo kem ég að öðrum áföngum með stökum fyrirlestrum eins og gengur.

Hvað er það besta við kennarastarfið?

Í gegnum tíðina hefur það verið samvera með nemendum og fá að sjá þá vaxa, dafna og ná árangri í námi og starfi.

Hver var þinn uppáhaldskennari á námsárunum?

Þegar stórt er spurt! Þau eru svo mörg sem ég horfi til með þakklæti. Í hjúkrunarnáminu þá var Sigurður Bjarklind uppáhaldskennarinn minn.

Hverjar eru helstu áskoranir háskólakennarans?

Það að mæta alltaf með góða orku og vel undirbúinn inn í kennslustofuna, þrátt fyrir alls konar hnökra, dægurþras og utanaðkomandi álag.

Uppáhaldskennslustofan þín að kenna í?

Ég elska að kenna utandyra, í skógarlundi, við vatn eða í fjörunni.

En ég hef því miður ekki haft tækifæri til þess í þeirri kennslu sem ég er í núna. Sjáum til hvort mér takist að koma því í kring einhvern daginn.

Eitthvert fag sem þér finnst vanta í námið?

Akkúrat núna þá þurfum við sárlega að efla þekkingu á notkun gervigreindar í vísindastarfi. Þessi nýja tækni opnar alls konar möguleika og við þurfum að kunna að nýta hana til gagns og á ábyrgan hátt.

Hressasti kennarinn á kennarastofunni?

Þau eru öll hress og skemmtileg en líklega er Þórhalla Sigurðardóttir hressust allra á kennarastofunni.

Eftirminnilegasta kennslustundin?

Þar er af mörgu að taka, það sem kemur fyrst upp í hugann er þegar nemendur mínir í Finnbogastaðaskóla á Ströndum smíðuðu stóra þrautabraut úr rekavið fyrir hunda í bakgarði skólans. Þegar brautin var tilbúin þá notuðu þau kæfu til að hvetja Fríðu og Rex til að fara brautina nokkrum sinnum. Þetta voru kennslustundir í verklegri eðlisfræði og börnin voru öll á ólíkum aldri. Þau yngstu framkvæmdu ýmsar mælingar og teiknuðu skýringarmyndir, á meðan þau eldri reiknuðu flóknari jöfnur og skiluðu að lokum tilraunaskýrslu. Það vildi svo til að fréttamaður átti leið í sveitina daginn sem tilraunin var framkvæmd og auðvitað enduðum við í sjónvarpinu sem gladdi krakkana mjög mikið.

Flottasta fyrirmyndin þín í hjúkrunarfræði?

Það er Dr. Martha MacLeod, sem er einn helsti og áhrifamesti sérfræðingur heims í landsbyggðahjúkrun.

Eiginleikar sem þú vilt tileinka þér í kennarastarfinu?

Að vera til staðar fyrir nemendur mína og miðla þekkingu á valdeflandi og styðjandi hátt, þ.e. ég vil að þau geti nýtt það sem þau læra hjá mér í störfum sínum í framtíðinni.

Hvernig tilfinning er að útskrifa nemendur?

Það er stórkostlegt! Sérstaklega þegar maður hefur fengið tækifæri til að kynnast þeim vel á námstímanum.

Hvernig mætti bæta hjúkrunarfræðinámið að þínu

Ég vil eindregið að landsbyggðahjúkrun verði viðurkenndur hluti af námsefni í grunnnámi hjúkrunarfræðinga og að útskrifaðir hjúkrunarfæðingar hafi aðgang að sérhæfðu framhaldsnámi í landsbyggðahjúkrun.

Hvernig myndir þú sannfæra áhugasama um að skella sér í nám í hjúkrunarfræði?

Ég myndi fyrst og fremst nota áhugahvetjandi samtal. Þegar fólk ræðir áhuga sinn um námsval þá eru örugglega mikilvægar ástæður sem liggja að baki. Fólk sannfærir sig venjulega sjálft ef það fær að spegla sig svolítið.

Hvernig nærir þú andann?

Ég elska að eiga stundir með mínu uppáhaldsfólki og fjórfætlingum mínum, svo finnst mér rólegheitin við handavinnu, skrif og bókalestur líka nærandi.

Hvað gleður þig mest í lífinu?

Þessa dagana er það litla barnabarnið mitt. Heilt yfir þá gleðst ég mest þegar fólkinu mínu líður vel og gengur allt í haginn.

Hvað hryggir þig helst?

Allt ofbeldi, ósanngirni, ósætti, veikindi og andlát, sérstaklega ef það snertir fólkið mitt.

Hvernig fáum við fleiri karlmenn til að læra hjúkrun?

Við þurfum að gæta að því að starfsumhverfi okkar og orðræðan um hjúkrun sé inngildandi fyrir öll kyn. Ég held að jákvæður sýnileiki sé mesta aðdráttaraflið, sonur minn tók ákvörðun um að skella sér í hjúkrun eftir að hafa séð viðtal við ungan karlkyns hjúkrunarfræðing.

Ef þú ættir eina ósk fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi?

Óþarflega borgarmiðaðar ákvarðanir um skipulag heilbrigðisþjónustu gera okkur ekkert gott. Við eigum eitt sameiginlegt heilbrigðiskerfi og það skiptir máli fyrir SAK og LSH ef þjónustan úti á landi hefur bolmagn til að leysa flest mál í nærumhverfinu og að sama skapi er það nauðsynlegt fyrir landsbyggðirnar að hafa sterkan bakhjarl sérgreinasjúkrahúsa þegar þörf er á því. Einn liður í að skerpa á þessu er almenn vitundarvakning um víðtækt og mikilvægt hlutverk landsbyggðahjúkrunarfæðinga.

Falin perla í náttúru Íslands?

Miðnætursólin á Ströndum er engu lík.

Að endingu, þitt mottó?

Þetta hefst allt saman, vittu til!

Höfundar

DR. EYDÍS KRISTÍN SVEINBJARNARDÓTTIR geðhjúkrunarfræðingur, prófessor og forstöðumaður fræðasviðs geðhjúkrunar við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ og Landspítala

GUÐRÚN JÓNA GUÐLAUGSDÓTTIR hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna hjá Embætti landlæknis

DR. MERRIE J. KAAS

professor emeritus at the University of Minnesota, Advanced Practice Registered Nurse, PsychiatricMental Health Clinical Nurse Specialists, Fellow of the American Academy of Nursing (FAAN)

Sjálfsvíg meðal eldra fólks

Hlustum, horfum, metum, bregðumst við, finnum lausnir og

fylgjum eftir

Markmið þessarar fræðslugreinar er að beina athygli hjúkrunarfræðinga að sjálfsvígum og sjálfsvígshættu meðal eldra fólks þ.e. 60-74 ára og 75 ára og eldri. Tilgangurinn er að auka skilning og þekkingu hjúkrunarfræðinga á því hvernig bregðast á við ef skjólstæðingur er mögulega í sjálfsvígshættu og fjalla um gagnreynd viðbrögð. Einnig verður farið í úrræði og eftirfylgd í kjölfar sjálfsvígs.

Sjálfsvíg eru alþjóðlegur lýðheilsuvandi. Þau eru tuttugasta algengasta dánarorsökin á heimsvísu. Algengari en þeir sem deyja samtals vegna malaríu, brjóstakrabbameins, stríða eða morða (WHO, 2023). Yfir 720 þúsund manns deyja af völdum sjálfsvígs á hverju ári í heiminum og það eru eingöngu sjálfsvígin sem eru skráð (WHO, e.d.). Árleg aldursstöðluð tíðni sjálfsvíga í Bandaríkjunum árið 2023 var 14,1 á hverja 100 þúsund íbúa (Garnett og Zehner, 2025). Samkvæmt tölum frá embætti landlæknis dó að meðaltali 42,6 í sjálfsvígi á Íslandi á árunum 2020–2024, sem jafngildir 11,5 dauðsföllum á hverja 100.000 íbúa (embætti landlæknis, 2025a).

Nýlegar rannsóknir og skýrslur um sjálfsvíg í Bandaríkjunum meðal 75 ára og eldri benda til þess að tíðni sjálfsvíga meðal eldri karla hafi aukist á árunum 2018–2020 og aukist lítillega meðal eldri kvenna á milli 2019 og 2020. Frá 2022 til 2023 hefur tíðnin hins vegar aukist meðal eldri kvenna 75 ára og eldri en lækkað meðal eldri karla 75 ára og eldri (Garnett o.fl., 2022; Garnett og Zehner, 2025). Á Íslandi voru miklar sveiflur á milli ára í sjálfsvígstíðni meðal 75 ára og eldri á árunum 2014-2023, en meðaltalið er 7,0 dauðsföll á hverja 100 þúsund íbúa (embætti landlæknis, 2025a). Sjálfsvígstíðni á aldursbilinu 60–74 ára er hærri en hjá 75 ára og eldri, með 16,7 dauðsföll á hverja 100 þúsund Íslendinga á sama árabili (embætti landlæknis, 2025a).

Mikilvægt að hafa í huga að hvert einasta sjálfsvíg er harmleikur fyrir þau sem að eftir lifa; foreldra, maka, systkini, ömmur, afa, börn, vini eða nágranna og það getur haft langtímaáhrif fyrir fjölskyldur og samfélög. Bandarísk landskönnun leiddi í ljós að flestir, 94%, trúa því að hægt sé að koma í veg fyrir sjálfsvíg og að þau myndu vilja hjálpa ef einhver sem þau þekktu væri í sjálfsvígshugleiðingum (National Action Alliance for Suicide Prevention, 2018).

Skilgreiningar

Áður en rætt er um sjálfsvíg er mikilvægt að átta sig á hugtakanotkun og orðræðu í kringum efnið á íslensku. Í töflu 1 eru skilgreiningar á orðum sem tengjast sjálfsvígum en þegar allir nota sama tungumálið aukast tækifærin fyrir sjálfsvígsforvarnir og íhlutun.

Sjálfsvíg

Tilraun til sjálfsvígs

Sjálfsvígshegðun

Tafla 1. Skilgreiningar

Dauðsfall vegna skaða af völdum sjálfsskaðandi hegðunar sem ætluð var að taka eigið líf.

Sjálfsskaðandi hegðun í þeim tilgangi að taka eigið líf sem veldur ekki dauða.

Verknaður sem nær til sjálfsvígs, tilraunar til sjálfsvígs, sjálfsvígshugleiðinga, og áætlanagerðar og undirbúnings í þeim tilgangi að deyja. Til dæmis að gera áætlun um að taka eigið líf.

Banvænir hlutir og aðstæður

Sjálfsskaði sem ekki hefur þann tilgang að taka eigið líf

Sjálfsvígshætta

Einstaklingur sem hefur lifað af sjálfsvígstilraun

Eftirlifandi sjálfsvígs

(Suicide Prevention Resource Center, 2025)

Hlutir og aðstæður sem eru líkleg til að leiða til dauða t.d. skotvopn, háar byggingar eða brýr.

Skaði sem einstaklingur veitir sér sjálfur af ásettu ráði en ekki með fyrirætlun um að deyja.

Sjálfsvíg, tilraun til sjálfsvígs, eða atvik þegar manneskja sem er tilfinningalega yfirbuguð íhugar alvarlega eða gerir áætlun um að reyna sem fyrst að taka eigið líf.

Sá sem hefur reynt að taka eigið líf en dó ekki, t.d. einhver sem tók lyf í þeim tilgangi að deyja en of lítinn skammt til að valda dauða.

Sá sem hefur misst fjölskyldumeðlim, vin, samstarfsaðila, bekkjarfélaga eða annan nákominn vegna sjálfsvígs.

Áhættu- og verndandi þættir sjálfsvígs hjá eldra fólki

Sjálfsvígshegðun er á rófi frá óljósum sjálfsvígshugsunum yfir í nákvæma sjálfsvígsáætlun en það eru margir þættir sem geta annaðhvort aukið eða verndað gegn hættu á sjálfsvígi. Samkvæmt Koo o.fl., (2017) er munur á áhættuþáttum milli aldurshópa eldra fólks en sú heimild skiptir eldra fólki í þrjá aldurshópa þ.e. 85 ára og eldri, 75–84 ára og 65–74 ára. Áhættuþættir fyrir sjálfsvígi meðal 85 ára og eldri eru líkamlegir kvillar sem draga úr getu til að standa á eigin fótum, missir ástvina, félagsleg einangrun og sjálfsvíg í nærumhverfi þeirra. Hjá aldurshópnum 75–84 ára voru geðsjúkdómar, fyrri tilraun til sjálfvígs og fjárhags- og lagatengd vandamál áhættuþættir. Geðröskun og meðferð við henni voru sterkari áhættuþættir hjá yngsta aldurshópnum, 65–74 ára en hjá elsta hópnum 85 ára og eldri.

Eldra fólk er ekki einsleitur hópur og frekari rannsókna er þörf til að varpa skýrara ljósi á áhættu- og verndandi þætti fyrir hvert aldursbil. Verndandi þættir eru bæði umhverfis- og persónulegir þættir sem geta komið í veg fyrir eða verndað fólk gegn því að það fái sjálfsvígshugsanir. Nýleg rannsókn, sem þó beindist ekki sérstaklega að eldra fólki, gefur til kynna að almennir verndandi

þættir sjálfsvíga séu, jákvæð sjálfsmynd, seigla, aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og jákvætt viðhorf gagnvart þeirri þjónustu (Holman og Williams, 2020). Yfirlit yfir almenna áhættu- og verndandi þætti sjálfsvíga meðal eldra fólks eru í töflu 2 (Beghi o.fl., 2021; Conwell o.fl., 2011; Conejero o.fl., 2018; Koo o.fl., 2017; Raue o.fl., 2017). Sterkustu áhættuþættir sjálfsvíga fyrir alla aldurshópa eru: fyrri tilraunir til sjálfsvígs, lyndisraskanir, misnotkun áfengis og annarra vímuefna og aðgangur að banvænum hlutum og aðstæðum.

Tafla 2. Áhættu- og verndandi þættir sjálfsvígs hjá eldra fólki

Áhættuþættir sjálfsvígs

Geðrænir kvillar (sérstaklega alvarlegt þunglyndi og kvíði)

Líkamlegir kvillar

Skerðing á færni

Verndandi þættir sjálfsvígs

Árangursrík meðferð við heilsuog geðheilsuvanda

Að vera félagslega tengdur

Góð samskipti við fjölskyldu og/eða umönnunaraðila

Vandi í félagssamskiptum eða í samskiptum við fjölskyldu Þátttaka í skipulögðu félagsstarfi og samfélagshópar

Missir ástvina

Að verða ekkja/ekkill

Streituvaldandi lífsatburðir á borð við að flytja, að missa sjálfstæði sitt og að vera í fjárhagserfiðleikum

Að upplifa það að hafa tilgang og að skipta máli

Færni í lausnarleit og færni í að takast á við og aðlagast breytingum

Trúar- eða menningartengd hugsun sem samþykkir ekki sjálfsvíg

Flestir sem létust af völdum sjálfsvígs í hópi eldra fólks höfðu haft samband við heilsugæslu innan eins árs fyrir dauða sinn. Því er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar og annað fagfólk á heilsugæslustöðvum geti skimað fyrir þunglyndi, gert sjálfsvígsáhættumat og viðbragðsáætlun (Ahmedani o.fl., 2014; Raue o.fl., 2017; Bryan o.fl. 2017; Bryan og Rudd, 2018).

Klínísk saga um Gunnar sem hittir Sigrúnu hjúkrunarfræðing í heilsugæslunni:

Gunnar er 82 ára gamall. Gunnar vann lengst af sem sjómaður. Hann missti eiginkonu sína úr krabbameini fyrir tveimur árum. Hann býr einn í eigin húsnæði rétt fyrir utan lítið sjávarpláss á Norðurlandi. Hann á tvær dætur, Katrínu og Önnu, og einn son, Sigurð, sem búa í u.þ.b. 30 km fjarlægð. Þau heimsækja hann öðru hverju og koma stundum með barnabörnin fjögur til að heimsækja afa sinn.

Gunnar á orðið erfitt með að keyra og er af þeim sökum nokkuð einangraður. Honum finnst gaman að lesa og horfa á sjónvarp. Hann hittir sveitunga sína einu sinni í viku og tekur í spil í félagsheimili hreppsins. Nýleg aðgerð á blöðruhálskirtli og þvagleki sem hann er með í kjölfarið hefur dregið úr löngun hans til félagslegra samskipta. Hann hefur eftir aðgerðina verið að nota þvaglekanærbuxur fyrir karlmenn en vonast til að geta hætt að nota þær. Skotveiðar eru ástríða hjá Gunnari en vegna þess að hann á orðið erfitt með að ganga og standa lengi í einu er erfitt fyrir hann að fara á veiðar. Gunnar eldar ekki oft.

Gunnar tekur lyf við háþrýstingi og gáttatifi. Blóðþrýstingur er á milli 118/76 og 132/90. Fyrir aðgerðina vó hann 91 kg en í dag vegur hann 80 kg. Gunnar er 172 cm á hæð. Gunnar á sögu um þunglyndi. Við því hefur hann fengið lyf og samtalsmeðferð. Hann hætti sjálfur að taka þunglyndislyfin. Hann sagði þau valda sér svima og þokukenndum hugsunum en tekur enn svefnlyf áður en hann leggst til svefns.

Gunnar fékk tíma á heilsugæslunni og hitti þar hjúkrunarfræðing til að fara yfir stöðuna með þvaglekann ásamt mati á almennri heilsu og líðan. Sigrún hlustar og horfir, hún tekur eftir einkennum þunglyndis hjá Gunnari. Hún ákveður því að skima fyrir alvarleika þunglyndisins með því að leggja fyrir hann sjálfsmatslistann PHQ9 í viðtalinu en sá listi er meðal gagnreyndra matstækja sem til eru í verkfærakistu heilsugæslunnar (Andri S. Björnsson o.fl. 2018; Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 2025). Annað mælitæki sem einnig er hægt að nota til að meta þunglyndi hjá eldra fólki er GDS (Geriatric Depression Scale) (Margrét Valdimarsdóttir o.fl. 2000).

Sjálfsmatslistinn PHQ-9 felur í sér níu spurningar. Sigrún sér að Gunnar hikar við að svara síðustu spurningunni í listanum um hvort hann væri með sjálfsvígshugsanir þ.e. hvort Gunnar hafi hugsað um að það væri betra að hann væri dáinn eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt. Heildarstig Gunnars skv. PHQ-9 listanum bentu til miðlungs alvarlegs þunglyndis. Fyrir spurninguna varðandi hugsanir um dauða fékk hann stig sem þýddu að þörf var á frekara mati á sjálfsvígshættu. Í framhaldi af skimuninni fyrir þunglyndi með PHQ-9 og klínísku mati ákveður Sigrún að spyrja Gunnar nánar um líðan og aðstæður.

Dæmi um samtal á milli Gunnars og Sigrúnar hjúkrunarfræðings í kjölfar skimunar á þunglyndiseinkennum og mati á sjálfsvígshættu:

Sigrún: Hvernig líður þér?

Gunnar: Mér líður eins og ég sé hreinlega að verða of gamall til að vera til. Ég held ég sé bara leiður yfir öllu sem ég get ekki lengur gert. Blöðruhálskirtillinn og hjartað hafa ekki hjálpað! Mér líður eins og smákrakka með þessa bleyju. Ég fór ekki einu sinni á gæsaveiðar í ár af því að flestir vinir mínir eru hættir að veiða og sonur minn komst ekki með mér í ár eins og hann er vanur að gera. Ég veit það ekki ... kannski ætti ég bara að fara út í móa og ekki koma aftur. Það myndi enginn finna mig í einhvern tíma. Ég er algerlega gagnslaus.

Sigrún: Ég heyri að þvaglekinn fer illa með þig. Ég skal aðstoða þig við fá annað álit þvagfæraskurðlæknis á stöðunni. Ég heyri líka að þér finnst þú vera leiður og þú lýsir ákveðnu vonleysi. Gunnar … þegar við erum undir álagi, upplifum heilsukvilla eða leiða þá er ekki óalgengt að okkur finnist eins og ekkert muni lagast. Ég held að við gætum unnið saman í því að láta þér líða betur en ég hef áhyggjur af þessum hugsunum þínum varðandi það að vilja deyja og hugleiðingum þínum að vilja fara út í móa og koma ekki aftur. Mundir þú segja að þú sért með skýra áætlun um að taka eigið líf? Og var eitthvert ákveðið augnablik eða atvik sem leiddi til þess að þú byrjaðir að hugsa um að taka eigið líf?

Gunnar: Mér leið mjög illa þegar ég gat ekki lengur farið á veiðar. Það var það eina sem ég naut virkilega að gera. Mér leið líka eins og enginn væri til staðar fyrir mig. Einnig hefur þetta bleyjustand alveg farið með mig. Ég datt í það að vorkenna sjálfum mér og hugsa um hversu ömurlegt lífið getur verið. Ætli það hafi ekki verið þá sem ég byrjaði að hugsa um þetta.

Mikilvægt er að Sigrún hjúkrunarfræðingur staðfestir og viðurkennir líðan Gunnars og fer strax í að meta sjálfsvígshættuna nánar. Hér hefði verið auðvelt að svara Gunnari á þann hátt að hann hefði ekki opnað sig frekar og samtalið því lokast. Sigrún bregst við með því að ræða og meta nánar sjálfsvígshættu Gunnars, vísar honum strax til heilsugæslulæknis og leggur það

til að vinna með honum viðbragðsáætlun við sjálfsvígshættu (e. crisis response plan) og finnur lausnir með honum (NHS, 2025; Bryan o.fl., 2017; Bryan og Rudd, 2018).

Sigrún: Hefur þú hugsað um hvernig þú gætir tekið þitt eigið líf?

Gunnar: Já, ég hugsaði um að taka byssuna, labba einn út í móa og skjóta mig.

Sigrún: Varst þú byrjaður að undirbúa þig til að gera þetta?

Gunnar: Ég tók byssuna út úr læsta skápnum og horfði á hana. Ég tók líka út skotfærin en var hugsað til sonar míns sem varð til þess að ég hlóð ekki byssuna. Ég upplifði í sama andartaki að ég gæti ekki gert fjölskyldunni minni það. Það yrði hræðilegt fyrir þau að vita að ég hafi dáið á þennan hátt og að þau hafi ekki getað gert neitt til að hjálpa.

Sigrún: Er það þetta sem stoppaði þig í að nota byssuna, að hugsa um fjölskylduna þína? Var eitthvað annað sem stoppaði þig?

Gunnar: Ja ... það var rigning (brosir við) og ég er með gigtarverki í fótleggjunum og það er löng ganga út í móa. Ég hugsaði að ég gæti lifað af einn dag í viðbót, þannig að ég gekk frá byssunni og skotunum. En þú hefur rétt fyrir þér það var í raun það að hugsa til fjölskyldunnar minnar sem stoppaði mig.

Sigrún: Segðu mér frá síðustu tveimur vikum. Hversu oft myndir þú segja að þú hafir hugsað um að vilja ekki lifa lengur?

Gunnar: Ég hugsa sennilega um það flesta daga.

Sigrún: Hefurðu einhvern tíma áður verið með sjálfsvígshugsanir?

Gunnar: Já, þegar ég var um tíma einn á sjó á litlum dalli áður en ég fékk pláss á togaranum. Mér fannst erfitt að vera svona einn úti á sjó þá hugsaði ég um sjálfsvíg og drakk ótæpilega. Þetta var erfitt tímabil en lagaðist þegar ég fór á togarann, hætti að drekka, kynntist konunni minni og stofnaði fjölskyldu.

Sigrún: Fyrir utan byssuna, hefurðu hugsað um aðrar leiðir til að taka eigið líf?

Gunnar: Ég er ekki með mikla matarlyst. Ég hugsa því stundum um hvað myndi gerast ef ég hætti bara að borða. En, ég held það tæki allt of langan tíma og fjölskyldan mín myndi taka eftir því ef ég borðaði ekkert. Ég vil ekki að þau hafi áhyggjur. Ég hef ekki hugsað um lyfin mín sem leið til að deyja, þau eiga að hjálpa mér.

Sigrún: Hversu líklegt er að þú komir sjálfsvígshugsunum þínum í framkvæmd næstu tvær vikurnar?

Gunnar: Ekki mjög líklegt hugsa ég. Ég verð nú frekar órólegur bara af því að tala um þetta við þig. Mér líður ekki vel einum og verð stundum einmana. Ég bara gæti ekki gert fjölskyldunni minni það að deyja á þennan hátt. Ég held ég þurfi bara að halda þetta út. Ég hef getað það áður og ég get gert það núna.

Sigrún: Gunnar, ég hef áhyggjur af þér og sjálfsvígshugsununum þínum. Þú hefur verið lengi með þessar hugsanir en nú ert þú með áætlun og þú hefur hugsað um aðferðir til að taka þitt eigið líf. Þessar hugsanir eru til staðar flesta daga vikunnar. Mig langar að leggja til að við gerum saman viðbragðsáætlun og vinnum saman að því að halda þér úr hættu og að þú náir betri líðan. Ég ætla einnig að gefa þér tíma hjá vakthafandi lækni núna á eftir til að hann geti metið með þér hvort ekki sé þörf á því að hefja aftur þunglyndislyfjameðferðina. Hvað finnst þér um þessar tillögur?

Gunnar: Það þarf að gera eitthvað … Líklega þarf ég að fara aftur á þunglyndislyfin. Ég er tilbúinn í að hitta þig aftur og er líka til í að heyra nánar um þessa viðbragðsáætlun og hvernig hún virkar.

Þegar skjólstæðingar gefa í skyn sjálfsvígshugsanir í samtali eiga þeir ekki að fá að fara án þess að hafa gengið í gegnum ítarlegt matsferli, þar á meðal mati á andlegu ástandi, geðheilsumati, læknisskoðun og endurskoðun lyfja. Sigrún vann strax með vísbendingar sem komu fram í samræðunum við Gunnar varðandi sjálfsvígshættu. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar og annað fagfólk taki eftir merkjum um vanlíðan og spyrji nánar út í hana.

Í töflu 3 er listi yfir dæmi um vísbendingar í tali sem við ættum að heyra og taka eftir.

Tafla 3. Vísbendingar um sjálfsvígshættu í tali eldra fólks

Það væru allir betur settir án mín.

Ég er of mikil byrði á fjölskyldunni minni.

Ég trúi því ekki að hlutirnir lagist.

Ég vildi að ég væri dauð/ur.

Ég vil bara fara að sofa og aldrei vakna aftur.

Sársaukinn hættir aldrei, ekki nema ég geri eitthvað til að stoppa hann.

Ég er að hugsa um að drepa sjálfa/n mig.

Ég get ekki lengur gert neitt. Ég geri engum neitt gagn.

Skref fyrir grunn í sjálfsvígsáhættumati: Hlustum, horfum, metum, bregðumst við, finnum lausnir og fylgjum eftir.

Tilgangurinn með því að gera sjálfsvígsáhættumat er að draga úr líkum á sjálfsvígi. Það getur dregið úr sjálfsvígshugleiðingum fólks að tala um líðan sína við aðila sem það treystir. Það getur líka hjálpað því að átta sig á að það þurfi sennilega að leita sér hjálpar.

1. Hlustum og horfum

Mikilvægt er að tala við eldra fólk um hugsanir og/eða áætlanir þess um að deyja af völdum sjálfsvígs. Eftirfarandi tal og/eða hegðun gæti verið vísbending um að einhver gæti verið í sjálfsvígshættu. Breyting á hegðun gæti einnig bent til sjálfsvígshættu, sérstaklega ef viðkomandi hefur ekki hegðað sér þannig áður, hegðunin hefur aukist undanfarið, eða hún virðist tengjast sársaukafullum atburði, missi eða breytingum:

• Talar um vonleysi eða enga ástæðu til að lifa

• Dregur sig í hlé eða einangrar sig

• Talar um að vilja deyja eða vilja taka eigið líf

• Áætlun um hvernig eigi að taka eigið líf

• Talar um að vera í sjálfheldu eða þjást óbærilega

• Talar um að vera byrði á öðrum

• Kveður fjölskyldu/vini

• Breytir erfðaskrá eða gefur eigur sínar

• Eykur áfengis- og/eða vímuefnaneyslu

• Safnar lyfjum

• Undirbýr sig fyrir langferð, t.d. með því að borga reikninga, segja upp áskriftum eða kemur gæludýri í fóstur

• Sýnir öfgakenndar geðsveiflur, er kvíðin/n eða óróleg/ur, sýnir heift eða talar um hefnd

• Breyting á svefnvenjum, svefnleysi og/eða þreyta

Ef heilbrigðisstarfsfólk sér eða heyrir þessi hættumerki hjá skjólstæðingi er mikilvægt að taka þau alvarlega því þau gætu bent til þess að viðkomandi sé í sjálfsvígshugleiðingum. Nauðsynlegt næsta skref er að meta fyrir geðheilsuvanda og sjálfsvígshættu.

2. Metum

Eftir að hafa metið að sjálfsvígshætta sé til staðar hjá eldra fólki notar heilbrigðisstarfsfólk mismunandi leiðir til að ákveða hversu mikil hættan er. Flest heilbrigðisstarfsfólk sem gerir mat á sjálfsvígshugunum og/eða fyrirætlun um sjálfsvíg spyr spurninga í þeim tilgangi að flokka sjálfsvígshættu sem litla, miðlungs eða mikla (Betz og Boudreaux, 2016; Sinclair og Leach, 2017). Þessi aðferð við að ákvarða hversu mikil sjálfsvígshættan er leiðir hins vegar ekki til fyrirbyggjandi íhlutana. Það að flokka sjálfsvígsáhættu í litla, miðlungs eða mikla snýst um að móta heildrænt áhættumat byggt á áhættustöðu (e. risk status), áhættuástandi (e. risk state), tiltækum úrræðum (e. available resources) og fyrirsjáanlegum breytingum (e. foreseeable changes) (Pisani o.fl., 2016). Markmiðið með því að meta sjálfsvígshættu er að gæta að öryggi skjólstæðingsins og draga úr hættunni á sjálfsvígi (Sigurður Páll Pálsson, 2018).

Í stað þess að spá fyrir um hættu á sjálfsvígi (lítil, miðlungs, mikil) er hægt að nota forvarnarlíkan sem miðast við að í kjölfarið sé búin til forvarnaráætlun vegna sjálfsvígs. Í þessu forvarnarlíkani, sem kalla má PORF-líkanið eða PORF-áhættumatið (PreventionOriented Risk Formulation), er öllum upplýsingum sem tengjast sjálfsvígshættunni safnað saman í þeim tilgangi að stuðla að skýrum samskiptum milli skjólstæðings, fjölskyldu og heilbrigðisstarfsfólks.

Áhættustaða vísar til sjálfsvígshættu skjólstæðingsins í samanburði við svipað þýði. Áhættuástand er sjálfsvígshætta skjólstæðingsins í samanburði við sína eigin grunnlínu eða ákveðna tímapunkta. Áhættustaða og áhættuástand er metið byggt á styrkleikum og verndandi þáttum skjólstæðingsins, langtímaáhættuþáttum, hvatvísi/sjálfsstjórn (þ.m.t. vímuefnanotkun), fyrri og yfirstandandi sjálfsvígshegðun, ríkjandi streituvöldum og öðrum orsakavöldum, einkennum og þjáningum og nýlegum breytingum á þeim, og félagslegri þátttöku og samböndum. Áhættustaða og áhættuástand gefa skýra mynd af stöðu skjólstæðingsins eins og það er á þessum tímapunkti en segir ekki til um sjálfsvígshættu. Öllu heldur getur þetta mat gefið til kynna hvaða íhlutun sé nauðsynleg til að draga úr sjálfsvígshættu. Tiltæk úrræði vísa til innri og félagslegra styrkleika sem hver skjólstæðingur, fjölskylda og fagaðilar hafa aðgang að eða búa yfir og stuðla að öryggi og mótun meðferðaráætlunar. Þetta á ekki við um áðurnefnda almenna verndandi þætti heldur þá sem eru tiltækir fyrir einstaka skjólstæðing sem er með sjálfsvígshugsanir. Fyrirsjáanlegar breytingar eru atburðir eða streituvaldar sem gætu snögglega annaðhvort aukið eða dregið úr sjálfsvígshættu. Markmiðið með PORF-áhættumatinu er að sjá fyrir breytingar í lífi skjólstæðingsins, t.d. heilsu/ geðheilsufars-, fjárhags- og félagslegar breytingar sem gætu haft áhrif á sjálfsvígshættu í framtíðinni. Tiltæk úrræði og fyrirsjáanlegar breytingar móta ákvarðanir um meðferðaráætlun.

Áhættumat í tilfelli Gunnars gæti verið svohljóðandi: Áhættustaða Gunnars er hærri en hjá eldra fólki almennt þar sem hann þjáist af þunglyndi og er með sjálfsvígshugsanir. Hann þjáist af þunglyndi vegna líkamlegra kvilla, skertrar hreyfigetu og félagslegrar einangrunar. Hann finnur fyrir einmanaleika eftir að konan hans dó. Þrátt fyrir að lýsa áætlun um framkvæmd á sjálfsvígi er hann viss um að hann muni ekki fylgja henni eftir vegna áhrifa á fjölskylduna. Áhættuástand Gunnars síðustu tvær vikur er alvarlegra í samanburði við það sem hefur verið áður vegna þess að hann var með sjálfsvígshugsanir flesta daga síðustu tvær vikurnar (sbr. PHQ-9) og vegna þess að hann losaði öryggið af byssunni sinni í þeim tilgangi að nota hana til sjálfsvígs. Hann hugsaði einnig um aðra aðferð við að framkvæma sjálfsvíg (hætta að borða/drekka). Tiltæk úrræði: Gunnar hefur góða kímnigáfu, vini og fjölskyldu sem þykir vænt um hann og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hann þjáist ekki af minnistruflunum og hann er enn fær um að keyra. Hann getur einnig viðurkennt að hann sé með sjálfsvígshugsanir og áætlun um sjálfsvíg. Fyrirsjáanlegar breytingar sem gætu aukið á sjálfsvígshættu Gunnars er frekari skerðing á líkamlegri heilsu og færni og frekari einangrun. Jákvæðar breytingar sem gætu dregið úr sjálfsvígshættu Gunnars er aukið gefandi félagsstarf, aukin hreyfigeta, losna við eða sættast við bleyjuna og viðbragðsáætlun sem meðal annars nær til þess að takmarka aðgang að banvænum hlutum og aðstæðum.

3. Bregðumst við og finnum lausnir Nýjar rannsóknir sýna að viðbragðsáætlun (e. crisis response plan) sýni marktækt betri árangur en samningur um öryggi (e. contract for safety) sem hefur verið notaður í heilbrigðisþjónustu (Bryan et al. 2017; Conti o.fl. 2020). Sigrún hjúkrunarfræðingur var nýkomin af námskeiði um mikilvægi þess að kunna að gera viðbragðsáætlanir með skjólstæðingum sem væru með sjálfsvígshugsanir eða hefðu reynt sjálfsvíg. Hún hafði sóst eftir því að fara á námskeiðið vegna þess að hún hafði áhyggjur af mörgum eldri skjólstæðingum sem hún væri að sinna á heilsugæslustöðinni. Henni fannst margir eldri skjólstæðinga sinna vera að kljást við félagslega einangrun og einmanaleika (Halldór S. Guðmundsson og Sigurveig H. Sigurðardóttir, 2024). Viðbragðsáætlun leggur áherslu á og útlistar hvað skjólstæðingur eigi að gera í krísu. Hún eykur færni skjólstæðings og sjálfsvirðingu en aðalatriðið er að hún styrkir vilja hans til að lifa (Bryan o.fl. 2017). Þegar heilbrigðisstarfsfólk vinnur viðbragðsáætlun með skjólstæðingum sínum er mikilvægt að ræða opinskátt um sjálfsvígshugsanir og/eða tilraunir til sjálfsvígs og hversu áríðandi það er að gera viðbragðsáætlun áður en hugsanir og tilfinningar bera skjólstæðinginn ofurliði. Það virkar best að skjólstæðingur handskrifi sjálfur sína eigin einföldu en markvissu viðbragðsáætlun á lítið spjald sem hann geymir í vasanum, í veskinu eða töskunni og getur þannig gripið til hennar á auðveldan hátt. Gjarnan er spjaldið plastað eða tekin mynd af því og geymt í farsíma skjólstæðings til að auðvelda aðgengi að því. Viðbragðsáætlun er gerð í samtali og samvinnu á milli fagmanns og skjólstæðings þar sem skjólstæðingur hefur sagt fagmanni frá aðstæðum sínum, sjálfsvígshugsunum og/eða sjálfsvígstilraunum. Í samtalinu eykst skilningur fagmanns á aðstæðum skjólstæðings og aðdragandi sjálfsvígshugsana hefur verið kortlagður. Frásögn skjólstæðings hjálpar til við að skilja hvernig sjálfsvígshugsanir, t.d. í tilviki Gunnars, koma til út frá lífsögu hans.

Mikilvægt er að ræða við skjólstæðinginn hvernig hægt sé að takmarka aðgengi að þeim aðferðum til sjálfsvígs sem viðkomandi hefur nefnt, líkt og að fjarlægja skotvopn og skotfæri eða setja þau

í geymslu, eins og í tilfelli Gunnars. Einnig er mikilvægt að minnka magn tiltækra lyfja sem taka mætti sem ofskammt og draga úr eða útiloka færi á að framkvæma sjálfsvíg. Þegar skjólstæðingur, Gunnar í okkar tilfelli, er tilbúinn að gera fimm atriða viðbragðsáætlunina þá þarf fagmaður, Sigrún hjúkrunarfræðingur, að fara í eftirfarandi atriði með Gunnari og hann skráir með penna á spjaldið sitt sjálfur: 1) Viðvörunarmerki, 2) Það sem ég mun gera sjálfur, 3) Ástæður til að lifa, 4) Félagslegur stuðningur, 5) Fagaðilar og bráðaþjónustan. Dæmi um viðbragðsáætlun fyrir Gunnar má sjá í töflu 4. Auk þess að gera viðbragðsáætlun gæti meðferðaráætlun hans náð til mögulegrar lyfjatöku gegn þunglyndi, frekara geðheilsumats á þunglyndi og/eða kvíða, frekari læknisskoðunar vegna þreytu og þyngdartaps, eftirfylgni í formi símtals og svo viðtals eftir tvær vikur. Sigrún leggur einnig til við Gunnar að hann ræði við börnin sín um vanlíðan sína og ef hann treystir sér ekki til þess er hún tilbúin að hafa samband við þau með hans leyfi.

Tafla 4. Viðbragðsáætlun Gunnars (dæmi)

1) Viðvörunarmerki: Eirðarlaus og minni áhugi á samskiptum, sjálfsvorkun„ég er fyrir öllum.“

2) Það sem ég mun gera sjálfur: Horfa á Landann í endurspilara RÚV, leggja kapal, sortera frímerkjasafnið.

3) Ástæður til að lifa: Dætur mínar, Katrín og Anna, og sonur minn, Sigurður, ásamt tengdabörnum og fjórum barnabörnum.

4) Félagslegur stuðningur: Sonur (555-5555) og spilavinur (555-5555)

5) Fagaðilar og bráðaþjónustan: Hringja í heilsugæsluna (555-5555) og óska eftir samtali. Spjalla á netinu við hjúkrunarfræðing hjá Heilsuveru á heilsuvera. is. Hringja í hjálparsíma Rauða krossins (s. 1717). Netspjall á heimasíðu Rauða krossins (1717.is). Hringja í Sorgarmiðstöðina í síma 551–4141 fyrir stuðning í sorginni vegna andláts eiginkonu. Hringja í Píeta samtökin í síma 552–2218. Fara á bráðamóttöku SAk. Hringja í 112.

4. Fylgjum eftir

Mikilvægt er að fylgja skjólstæðingi eftir með símtali fljótlega eftir að viðbragðsáætlun er gerð. Með símtalinu fæst tækifæri til að spyrja um líðan, hvort skjólstæðingur hafi þurft að grípa til viðbragðsáætlunar og þá hvort hún hafi hjálpað. Samtalið tryggir einnig sameiginlegan skilning á næstu skrefum.

Í kjölfar sjálfsvígs

Aðgerðum sem miða að sjálfsvígsforvörnum má skipta í þrjá þætti; forvarnir, íhlutun og stuðning í kjölfar sjálfsvígs, sjá mynd 1.

Forvarnir fela í sér aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir að fólk sjái enga aðra leið út úr vanlíðan sinni en að taka eigið líf. Aðgerðir sem falla undir íhlutun fela í sér stuðning við aðila sem eru með sjálfsvígshugsanir eða sjálfsvígshegðun. Stuðningur í kjölfar sjálfsvígs miðar að því að styðja ástvini, fagfólk og aðra tengda aðila við að vinna úr því áfalli sem sjálfsvíg er og sporna þannig við mögulegum neikvæðum áhrifum á heilsufar og líðan (heilbrigðisráðuneytið, 2025).

Hugtakið um stuðning í kjölfar sjálfsvígs (e. postvention) er nokkuð nýtt í sjálfsvígsforvarnarfræðum en er nú viðurkennt sem mikilvægur liður í sjálfsvígsforvörnum. Hvert sjálfsvíg snertir marga, fjölskyldumeðlimi, vini, nágranna og samstarfsfólk. Nýleg rann-

sókn sýnir að hvert sjálfsvíg geti haft áhrif á allt að 135 einstaklinga í nærumhverfi þess látna (Cerel o.fl., 2019). Ef þessari tölu er snúið yfir á íslenskan veruleika þá má ætla að á hverju ári verði um 5.500 manns fyrir áhrifum vegna sjálfsvíga.

Áhrifin eru mismikil eftir tengslum við hinn látna en sjálfsvígið hefur til lengri tíma mest áhrif á fjölskyldu og nána vini (Cerel o.fl., 2014). Stuðningur í kjölfar sjálfsvígs miðar að því að greina hvaða stuðning hver og einn í nærumhverfinu þarf. Ein leið til að meta stuðningsþarfir er að nýta svokallaða sorgarpýramída (Irish Hospice Foundation, 2020). Neðst í pýramídanum eru flestir í kringum hinn látna. Þeirra stuðningsþarfir fela í sér upplýsingar, fræðslu um sjálfsvíg, sorg og sorgarviðbrögð, en styrkja þarf fólk í að tala saman um það sem gerðist og allir þurfa að vita hvar hjálp er að fá ef fólk finnur fyrir erfiðum hugsunum eða vanlíðan. Eftir því sem ofar dregur í pýramídanum eru aðilar sem eru líklegir til að þurfa sérhæfðari stuðning fagaðila. Í efsta laginu eru þeir sem eru nánastir viðkomandi, gjarnan fjölskyldumeðlimir, nánir vinir og heilbrigðisstarfsfólk/meðferðaraðilar.

Það getur verið flókið að sjá fyrir hvaða stuðningur er viðeigandi. Embætti landlæknis hefur gefið út viðbragðsáætlun vegna skyndilegs andláts á vinnustað (2022) til að aðstoða fólk í þessum aðstæðum. Þessi stutti leiðarvísir er hugsaður sem grunnur sem allir vinnustaðir geta nýtt til að búa til sína eigin viðbragðsáætlun. Í áætluninni er bent á úrræði og mögulegan stuðning í kjölfar sjálfsvígs. Þar eru einnig tillögur að vinnulagi og textum í tölvupósta sem gott er að hugsa fyrir fram og geta gripið til ef þarf.

Sjálfsvíg eru alltaf skyndileg og engir tveir upplifa sorgina á nákvæmlega sama hátt. Stundum er talað um að sorgin sé eins og fingrafar, engin tvö eru eins. Eftirlifendur þurfa að takast á við margar krefjandi tilfinningar eins og söknuð, samviskubit, reiði, skömm, einmanaleika og tilfinningin um að hafa verið yfirgefin/n eða hafnað er gjarnan nefnd. Knýjandi leit að svörum við spurningunum: „Af hverju?“ og „Hvað ef?“ flækja líka oft sorgarúrvinnslu þeirra sem missa ástvin í sjálfsvígi en staðreyndin er sú að svörin fást sjaldnast. Handbókin Ástvinamissir vegna sjálfsvígs – handbók til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur (Embætti landlæknis, 2023a) hefur reynst syrgjendum og fagfólki sem styðja eftirlifendur gott haldreipi í sorgarferlinu. Í handbókinni er m.a. fjallað um stuðning við börn eftir sjálfsvíg, fjallað um jafningjastuðning og stuðningshópastarf sem leiðir til sjálfshjálpar.

Þegar skjólstæðingur deyr í sjálfsvígi upplifir fagfólk og aðrir sem tengjast viðkomandi sorg og dapurleika. Hluti af sorgarúrvinnslunni er að velta því fyrir sér, hvort hefði verið hægt að koma í veg fyrir andlátið. Að auki getur heilbrigðisstarfsfólk upplifað yfirþyrmandi tilfinningar á borð við samviskubit, reiði og skömm. Margir finna til ábyrgðar vegna dauða skjólstæðings og óttast að hafa gert mistök sem áttu þátt í að leiða viðkomandi til dauða. Einhverjir upplifa það að aðrir kenni þeim um dauðsfallið. Ákvörðunin um að taka eigið líf er margslungin og oft skyndileg. Þess vegna getur dauði skjólstæðings ýtt undir ákveðið óöryggi sem getur leitt til þess að sumir taka á sig of mikla og óraunhæfa ábyrgð. Í sumum tilfellum getur dauðsfall skjólstæðings af völdum sjálfsvígs breytt vinnulagi og viðhorfum heilbrigðisstarfsfólks. Á undanförnum árum hefur aukist til muna þekking á mikilvægi þess að veita fag- og meðferðaraðilum viðeigandi stuðning í kjölfar sjálfsvígs (Croft o.fl., 2023). Til þess að vera betur í stakk búinn til að styðja sam starfsaðila, nágranna, vin eða ástvin sem misst hefur einhvern í sjálfsvígi má lesa sér til gagns í bæklingnum Að finna orðin (embætti

landlæknis, 2023b) en þar er fjallað um mikilvægi þess að vera meðvitaður um að það er aldrei ein orsök á bakvið sjálfsvíg og mikilvægi þess að vera til staðar fyrir þann sem syrgir og hlusta.

Viðhorf og orðræða Mikilvægt er fyrir stuðningsaðila að vera meðvitaða um eigin viðhorf til sjálfsvíga. Viðhorfin geta t.d. speglast í orðanotkun. Á Íslandi hefur orðið sjálfsvíg nánast alveg tekið við af orðinu sjálfsmorð sem er jákvæð þróun og aftengir andlátið frá þeim glæp sem morð eru. Annað orð sem greipt er í málvitund þjóðarinnar og er notað er í tengslum við sjálfsvíg er forskeytið fremja sem vísar til glæpsamlegs athæfis, menn fremja glæpi. Í ráðleggingum fyrir fjölmiðlafólk (embætti landlæknis, 2025b) sem Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis vann, í breiðu samstarfi sérfræðinga í sjálfsvígsfræðum og sjálfsvígsforvörnum, er fjallað um orðnotkun í ræðu og riti, í viðauka 1. Þar er mælt með að segja frekar t.d.; lést/dó í sjálfsvígi, að falla fyrir eigin hendi eða að taka eigið líf

Viðhorfin geta líka komið fram í tengslum við það þegar talað er um að einstaklingurinn hafi valið að deyja en hefur sá val sem sér bara eina leið út úr öngstræti eða vanlíðan?

Sjálfsvíg er alltaf harmleikur sem getur haft áhrif á marga og í mörg ár. Sjálfsvígstíðni meðal eldra fólks er að aukast á heimsvísu og við verðum að bregðast við með því að hlusta eftir sjálfsvígstali, spyrja um sjálfsvígshugsanir, meta sjálfsvígshættu og búa til viðbragðsáætlun með eldra fólki og fylgja henni eftir.

Þakkir

Þakkir fá Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Hrönn Harðardóttir, svæðis- og fagstjóri geðheilsuteymis Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vestur, fyrir yfirlestur handrits.

Þakkir fær einnig Geðverndarfélag Íslands vegna framlags, til Hrefnu Maríu Eiríksdóttur þýðanda, í upphafi greinarskrifa.

Spjallbekki er að finna víða um heim og er ætlað að hvetja til félagslegra samskipta og draga úr einmanaleika. Spjallbekk hefur verið komið upp í Laugardalnum, honum er ætlað að skapa vinalegt rými fyrir ókunnuga til að tengjast. Markmið þessara bekkja er að ýta undir samfélagskennd og draga úr einmanaleika og félagslegri einangrun með því að hvetja til lauslegra samræðna.

HEIMILDIR

Andri S. Björnsson, Karen Jónsdóttir, Signý Sigurðardóttir, Inga Wessman, Ólafía Sigurjónsdóttir, Auður S. Þórsdóttir, Jóhann P. Harðarson og Guðmundur Hrafnkelsson. (2018). Próffræðilegir eiginleikar Sheehan Disability Scale, Quality of Life Scale og Patient Health Questionnaire í íslenskri þýðingu. Sálfræðiritið, 23, 91-100.

Ahmedani, B. K., Simon, G. E., Stewart, C., Beck, A., Waitzfelder, B. E., Rossom, R., Lynch, F., Owen Smith, A., Hunkeler, E. M., Whiteside, U., Operskalski, B. H., Coffey, M. J. og Solberg, L. I. (2014). Health care contacts in the year before suicide death. Journal of General Internal Medicine, 29(6), 870–877. https://doi.org/10.1007/s11606-014-2767-3

Beghi, M., Butera, E., Cerri, C. G., Cornaggia, C. M., Febbo, F., Mollica, A., Berardino, G., Piscitelli, D., Resta, E., Logroscino, G., Daniele, A., Altamura, M., Bellomo, A., Panza, P. og Losupone, M. (2021). Suicidal behaviour in older age: A systematic review of risk factors associated to suicide attempts and completed suicides. Neuroscience & Biobehavioral Reviews, 127, 193–211. https:// doi.org/10.1016/j.neubiorev.2021.04.011

Betz, M. E. og Boudreaux, E. D. (2016). Managing suicidal patients in the emergency department. Annals of emergency medicine, 67(2), 276-282. https://doi.org/10.1016/j. annemergmed.2015.09.001

Bryan, C. J. og Rudd, M. D. (2018). Brief cognitive-behavioral therapy for suicide prevention Guilford Publications.

Bryan, C. J., Mintz, J., Clemants, T. A., Leeson, B., Burch, S., Williams, S. R. o.fl. (2017). Effects of crisis response planning vs. contracts for safety on suicide risk in U.S. Army soldiers: A randomized clinical trial. Journal of Affective Disorders, 212, 64–72. http://doi.org/10.1016/j. jad.2017.01.028

Cerel, J., Brown, M. M., Maple, M., Singleton, M., Van de Venne, J., Moore, M. og Flaherty, C. (2019). How many people are exposed to suicide? Not six. Suicide and Life-Treathening Behavior, 49(2), 529-534. https://doi.org/10.1111/sltb.12450

Cerel, J., McIntosh, J. L., Neimeyer, R. A., Maple, M. og Marshall, D. (2014). The continuum of “survivorship”: Definitional issues in the aftermath of suicide. Suicide and Life-Threatening Behavior, 44, 591–600. https://doi.org/10.1111/sltb.12093

Conejero, I., Olié, E., Courtet, P. og Calati, R. (2018). Suicide in older adults: Current perspectives. Clinical Interventions in Aging, 13, 691–699. https://doi.org/10.2147/CIA.S130670

Conti, E. C., Jahn, D. R., Simons, K. V., Edinboro, L. P., Jacobs, M. L., Vinson, L., Stahl, S. T. og Van Orden, K. A. (2020). Safety planning to manage suicidal risk with older adults: Case examples and recommendations. Clinical Gerontologist, 43(1), 104–109. https://doi.org/10.1080/073171 15.2019.1611685

Conwell, Y., Van Orden, K. og Caine, E. D. (2011). Suicide in older adults. Psychiatric Clinics of North America, 34(2), 451–468. https://doi.org/10.1016/j.psc.2011.02.002

Croft, A., Lascelles, K., Brand, F., Carbonnier, A., Gibbons, R., Wolfart, G. og Hawton, K. (2023). Effects of patient deaths by suicide on clinicians working in mental health: A survey. International Journal of Mental Health Nursing, 32(1), 245–276. https://doi.org/10.1111/ inm.13080

Embætti landlæknis. (2022). Viðbragðsáætlun vegna skyndilegs andláts á vinnustað https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/1pyPc6y1PEg58CQYhzHSHf/ 6bc77e150c82ae1c50056e622a1530cb/Vi__brag__s____tlun_vegna_skyndilegs_andl__ts____ vinnusta___2022.pdf

Embætti landlæknis. (2023a). Ástvinamissir vegna sjálfsvígs Handbók til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur. https://sjalfsvig.is/wp-content/uploads/2023/08/EL_Astvinamissir_A5_VEF.pdf

Embætti landlæknis. (2023b). Að finna orðin: Hjálplegar leiðir til að styðja þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi. https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/40jpxgOZiK0Qk0bohgn6RN/ fa89b9de200e17819d04214417841ee4/EL_Ad_finna_ordin_A5_VEF.pdf Embætti landlæknis. (2025a). Skráning sjálfsvíga og túlkun talna. https://island.is/ tolfraedi-um-sjalfsvig/skraning-sjalfsviga-og-tulkun-talna

Embætti landlæknis. (2025b). Sjálfsvígsforvarnir: Ráðleggingar fyrir fjölmiðlafólk. https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/2leOG1u1AhpQNBy7nNmEtG/ 3e963c00c136cbc544c90ea4ab211b33/LANDLÆKNIR_SJALFSVIGSFORVARNIR_WEB_7feb2025. pdf

Garnett, M. F., Curtin, S. C. og Stone, D. M. (2022). Suicide mortality in the United States, 2000–2020 (Data Brief No. 433). National Center for Health Statistics. https://dx.doi.org/10.15620/ cdc:114217

Garnett, M. F. og Zehner, A. M. (2025). Changes in suicide rates in the United States from 2022 to 2023 (NCHS Data Brief No. 541). National Center for Health Statistics. https://dx.doi. org/10.15620/cdc/174625

Halldór S. Guðmundsson og Sigurveig H. Sigurðardóttir. (2024). Einmanaleiki og félagsleg einangrun eldra fólks: Nýlegar íslenskar rannsóknir og alþjóðlegar áherslur. Tímarit félagsráðgjafa, 18(1), 15-23.

Heilbrigðisráðuneytið. (2025). Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. https://www. stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/ A%C3%B0ger%C3%B0a%C3%A1%C3%A6tlun%20til%20a%C3%B0%20f%C3%A6kka%20 sj%C3%A1lfsv%C3%ADgum%20%C3%A1%20%C3%8Dslandi%202025-2030.pdf

Holman, M. S. og Williams, M. N. (2020). Suicide risk and protective factors: A network approach. Archives of Suicide Research, 26(1), 137–154. https://doi.org/10.1080/13811118.2020.1774454 Irish Hospice Foundation. (2020). Adult Bereavement Care Pyramid: A national framework https://hospicefoundation.ie/wp-content/uploads/2025/05/ Adult-Bereavement-Care-Booklet-A-National-Framework.pdf

Koo, Y. W., Kolves, K. og De Leo, S. (2017). Suicide in older adults: Differences between the young old, middle old, and oldest old. International Psychogeriatrics, 29(8), 1297–1306. https://doi. org/10.1017/S1041610217000618

Margrét Valdimarsdóttir, Jón Eyjólfur Jónsson, Sif Einarsdóttir og Kristinn Tómasson. (2000). Þunglyndismat fyrir aldraða – íslensk gerð. Geriatric Depression Scale (GDS). Læknablaðið, 86, 344-348.

National Action Alliance for Suicide Prevention. (2018). National survey shows majority of Americans would take action to prevent suicide. https://afsp.org/story/ national-survey-shows-majority-of-americans-would-take-action-to-prevent-suicide NHS. (2025). Staying safe from suicide: Best practice guidance for safety assessment, formulation and management. https://www.england.nhs.uk/publication/staying-safe-from-suicide/ Pisani, A. R., Murrie, D. C. og Silverman, M. M. (2016). Reformulating suicide risk formulation: From prediction to prevention. Academic Psychiatry, 40(4), 623–629. https://doi.org/10.1007/s40596015-0434-6

Raue, P. J., Ghesquière, A. R. og Bruce, M. L. (2014). Suicide risk in primary care: Identification and management in older adults. Current Psychiatry Reports, 16(9), 466. https://doi.org/10.1007/ s11920-014-0466-8

Shah, A., Bhat, R., Zarate Escudero, S., DeLeo, D. og Erlangsen, A. (2016). Suicide rates in five year age bands after the age of 60 years: The international landscape. Aging & Mental Health, 20(2), 131–138. http://dx.doi.org/10.1080/13607863.2015.1055552

Sigurður Páll Pálsson. (2018). Sjálfsvígsáhættumat og viðeigandi meðferð. Geðvernd, 47, 6-17 Sinclair, L. og Leach, R. (2017). Exploring thoughts of suicide. BMJ, 356. https://doi.org/10.1136/ bmj.j1128

Suicide Prevention Resource Center. (2025). Topics and terms. https://sprc.org/topics-and-terms/ World Health Organization. (2023). Suicide worldwide in 2019: Global health estimates (WHO/HEP/ MNH/2021.02). https://www.who.int/publications/i/item/9789240026643

World Health Organization. (e.d.). Suicide. Sótt 2. október 2025 af https://www.who.int/en/ news-room/fact-sheets/detail/suicide?utm_source=chatgpt.com

Þróunarmiðstöð íslenskrar Heilsugæslu. (2025). Verkfæri. https://throunarmidstod.is/verkfaeri/

Áhrifarík meðferð við óþægindum

á kynfærasvæði kvenna

Einstök virkni - meðferð og forvörn

Rosonia lækningavörurnar draga fljótt úr kláða og ertingu og vinna gegn sýkingum, bæði á ytri kynfærum og í leggöngum. Verkar gegn bakteríu-, sveppa- og veirusýkingum.

Rosonia er margprófuð og sýna niðurstöður klínískra og forklínískra rannsókna að varan minnkar verulega bólgur, sviða, kláða og einnig rispur og sprungur á kynfærum.

• Kemur jafnvægi á pH gildi

• Linar ertingu, sviða og kláða

• Minnkar bólgur, roða og eymsli

• Minnkar óeðlilega útferð og lykt

• Verndar gegn endurteknum sýkingum

• Verkar gegn bakteríu-, sveppa- og veirusýkingum

• Sannreynd virkni gegn lichen schlerosus samhliða sterum

Rosonia lækningavörurnar fást í öllum helstu apótekum.

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Lífsbrú

Sjálfsvígsforvarnir og bjargráð í erfiðum sporum

Textir og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur er verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis. Guðrún er einn höfunda greinarinnar hér undan; Sjálfsvíg meðal eldra fólks: Hlustum, horfum, metum, bregðumst við, finnum lausnir og fylgjum eftir. Þetta er málefni sem snertir okkur flest, ef ekki öll með einhverjum hætti einhvern tíma á lífsleiðinni. Til að kafa dýpra, vita meira og hafa bjargráð til að bregðast við ef sjálfsvíg verður fékk ég Guðrúnu í spjall í Sigríðarstofu á haustlegum mánudagsmorgni.

Guðrún Jóna fór fyrst að vinna að sjálfsvígsforvörnum hjá embætti landlæknis árið 2021. Hún var til að byrja með ráðin tímabundið í verkefnið því staðan var þá fjármögnuð tímabundið. „Það var ekki fyrr en árið 2023 sem þáverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, ákvað að setja fast fjármagn í sjálfsvígsforvarnir og Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna, var stofnuð. Miðstöðin er nokkurs konar hattur yfir sjálfsvígsforvarnir hjá embætti landlæknis og tilgangurinn með Lífsbrú er að sjálfsvígsforvarnir verði sýnilegri almenningi,“ útskýrir hún og nefnir dæmi í því samhengi: „Verkefnastjórnun verkefnisins Gulur september, sem mörg þekkja, er til að mynda hjá Lífsbrú. Vitundarvakningin á að vekja athygli á geðrækt og sjálfsvígsforvörnum og stendur frá 1. sept. til 10. október. Þannig falla tveir alþjóðlegir dagar tengdir málefninu inn í tímabilið; alþjóða geðheilbrigðisdagurinn sem er 10. október og alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga sem er 10. september. Átakið hefur vaxið með hverju árinu, ný vefsíða varð til á árinu (gulurseptember.is) með dagatali, verslun og efni um geðrækt og sjálfsvígsforvarnir. Fjöldi viðburða tengdir geðrækt og sjálfsvígsforvönum eru einnig haldnir til að ýta undir vitundarvakningu um þessi mál í samfélaginu,“ segir hún og það er óhætt að segja að verkefnið hafi vakið athygli á mikilvægi geðræktar og sjálfsvígforvörnum.

Jákvæð umfjöllun getur dregið úr tíðni sjálfsvígshegðunar

Guðrún vill meina að fordómar fari minnkandi og segir aðspurð að umræðan um sjálfsvíg sé ekki eins mikið tabú í dag og fyrir bara áratug síðan. „Umræðan hefur opnast mikið síðustu ár en það skiptir miklu máli hvernig talað er um sjálfsvíg. Eitt sem við gerðum í ár var að gefa út, í samvinnu við fjölmiðlafólk og fleiri, ráðleggingar um hvernig á að fjalla um sjálfsvíg í fjölmiðlum. Þá varðandi orðræðuna, orðnotkun og fleira og þá er einnig lagt til að fjalla um stuðningsúrræði með umfjöllunum um sjálfsvíg,“ segir hún og sýnir ritstýrunni þessar ráðleggingar. Þar segir t.a.m: Fjölmiðlar geta miðlað nýrri þekkingu í sjálfsvígsforvörnum og mögulega komið í veg fyrir sjálfsvíg með því að koma mikilvægum og hjálplegum upplýsingum til skila.

Með aukinni þekkingu hafa leiðbeiningar til fjölmiðla verið gefnar út víðs vegar um heiminn og hafa sumar rannsóknir sýnt fram á að dregið hafi úr sjálfsvígstíðni í kjölfar útgáfu þeirra. Undanfarin ár hafa fleiri rannsóknir skoðað jákvæð áhrif umfjöllunar í fjölmiðlum

og gefa þær til kynna að birtar frásagnir af einstaklingum sem fundu leið úr sínum erfiðleikum og sjálfsvígshugsunum, geti dregið úr tíðni sjálfsvígshegðunar.

„Það hefur lengi verið mýta að það að fjalla um sjálfsvíg geti aukið tíðni þeirra. Í dag vitum við betur. Ef umfjöllunin er til dæmis á þá leið að hún fjallar um bata eða úrræði fyrir fólk í vanlíðan þá getur hún haft öfug áhrif. Aðilar sem voru á erfiðum stað gátu þá frekar reynt sömu úrræði með von um betri líðan. Þannig getur umfjöllun mögulega fækkað sjálfsvígum, það styðja rannsóknir. Við viljum líka tala um sjálfsvíg á yfirvegaðan hátt, ekki í æsifréttastíl og ekki þannig að lesandinn upplifi að sjálfsvíg sé raunhæf leið út úr vanlíðan eða lausn á vandamáli.“

Hún segir að tölurnar sýni að sjálfsvígum sé ekki að fjölga hér á landi. „Það voru 48 sjálfsvíg árið 2024 eða 12,4 á hverja 100.000 íbúa. Meðaltalið sl. fimm ár (2020-2024) er 42,8 sjálfsvíg á ári eða 11,5 á hverja 100.000 íbúa. Við missum of marga, það er sorgleg staðreynd, en í samanburði við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum erum við á svipuðu róli og Norðmenn og Svíar. Finnar hafa verið fyrir ofan okkur með fleiri sjálfsvíg og Danir eru fyrir neðan okkur með færri.“

Skömmin enn til staðar Guðrún Jóna hefur sjálf upplifað að missa nákominn í sjálfsvígi því fyrir 15 árum, í janúar árið 2010 missti hún son sinn Orra Ómarsson sem þá var aðeins 16 ára. Finnst þér umræðan vera öðruvísi og opnari í dag en þegar þú varðst fyrir þessu mikla áfalli? „Já, hún er opnari en það er samt sem áður enn þá ákveðin skömm yfir sjálfsvígum og ástæðan er líklega söguleg; kirkjan bannaði sjálfsvíg á miðöldum og eigur fólks sem lést í sjálfsvígi voru gerðar upptækar og fólk jafnvel grafið utan kirkjugarða. Þetta átti að vera leið til að fækka sjálfsvígum,“ útskýrir hún og í dag þætti þetta galin forvarnarleið sem segir okkur að umræðan sé í rétta átt. „Skömmin kemur þaðan og þótt mörg lönd séu að sinna sjálfsvígsforvörnum þá er staðreyndin samt sú að sjálfsvíg er talið vera glæpur í yfir 20 löndum í heiminum. Og svo er það sektarkenndin, sem bæði fagaðilar og nákomnir ganga í gegnum þegar sjálfsvíg verður, þegar fólk fer að efast um að hafa gert nóg. Það hefði mögulega getað komið í veg fyrir þennan harmleik. Það er flókið.

Þegar ég missti minn son vorum við heppin með stuðning í kjölfarið. Ég fékk viðtal við hjúkrunarfræðing, Rudolf Adolfsson, sem hjálpaði mér að vinna með myndina af því ég kom að syni mínum látnum. Svo vorum við með frábæran prest, séra Braga Ingibergsson sem veitti okkur sálgæslu, hann var eins og grár köttur heima hjá okkur. Ég fór svo í stuðningshóp hjá Sorgar-

Sjálfsvígsforvarnir eru flóknar í eðli sínu en það hefur tekist að sýna fram á gagnsemi sumra forvarna umfram annarra og við erum að vinna að því að innleiða þær.“

Guðrún leggur áherslu á ráðleggingar sem Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hefur gefið út varðandi sjálfsvígsforvarnir. Þar er áherslan lögð á fjögur mikilvæg atriði sem eigi að vera partur af sjálfsvígsforvarnaáætlunum:

Það var ekkert lesefni, enginn bæklingur um sjálfsvíg eða sorg eftir sjálfsvíg, engin heimasíða eða neitt slíkt til að afla sér upplýsinga. Við pöntuðum bækur og eigum hillumetrana heima af bókum um sjálfsvíg og sorg eftir sjálfsvíg. Ég las allt sem ég komst í um sjálfsvíg, það var mitt bjargráð og mín leið til að reyna að komast í gegnum þetta áfall og miklu sorg. Ég labbaði líka rosalega mikið, upp um fjöll og firnindi, útiveran hjálpaði mikið. Við hjónin fórum svo að ferðast erlendis og þannig náðum við að dreifa huganum og hafa eitthvað að hlakka til,“ segir hún einlæg en bætir við að það skipti líka miklu máli að tala saman um líðan og tilfinningar við makann og sína nánustu þegar svona áfall verður.

Ný aðgerðaáætlun til að fækka sálfsvígum

Guðrún Jóna fór í framhaldinu að vinna fyrir sorgarsamtökin Ný dögun og þau hjónin stofnuðu minningarsjóð í nafni sonar síns, orriomars.is en tilgangur sjóðsins er að styðja við aðstandendur því þeim fannst vanta slíkan stuðning. „Þekkingin á mikilvægi stuðnings eftir sjálfsvíg er nýleg en er í dag orðin viðurkenndur hluti sjálfsvígsforvarna af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).“

Erum við að gera nóg í sjálfsvígsforvörnum á Íslandi? „Við erum að vinna eftir nýrri aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum. Við erum með áætlun til ársins 2030 sem við hjá Lífsbrú fylgjum eftir.

Áhersla á að efla seiglu og tilfinningafærni barna og ungmenna og í því samhengi þyrftum við að koma geðrækt inn í skóla og helst leikskóla. Kenna börnum að efla sína seiglu með því að leysa ekki vandamálin fyrir þau og leyfa þeim að spreyta sig og reka sig á, takast á við lífið. Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur að innleiða.

Takmarka aðgengi að hættulegum svæðum, aðstæðum og efnum. Til dæmis að takmarka aðgengi að háum byggingum og brúm, passa brautarpalla í þeim löndum þar sem þeir eru og hafa lög um geymslu skotvopna og lyfja. Miðlægi gagnagrunnurinn sem við höfum hér á landi er okkar tól til að hafa yfirsýn yfir lyfjaávísanir og lyfjanotkun. Á Indlandi varð til að mynda mikil fækkun á sjálfsvígum þegar aðgengi að skordýraeitri þar í landi var takmarkað. Allt þetta skiptir miklu máli og það er alltaf hægt að gera betur í þessum málum.

Vinna með fjölmiðlum að ábyrgri umfjöllun um sjálfsvíg. Mikilvægt fyrir okkur í þessu samhengi er að átta okkur á að við erum ritstjórar á okkar eigin samfélagsmiðlum og getum því öll haft áhrif. Fræðsla til almennings er hér mikilvægt atriði.

Að fólk viti af og það séu til lágþröskulda úrræði fyrir fólk í vanlíðan. Þar má nefna úrræði sem eru opin allan sólarhringinn eins og hjálparsími Rauða krossins, Píeta síminn og sími Upplýsingamiðstöðvar heilsugæslunnar. Bergið er lágþröskuldaúrræði sem er sérstaklega ætlað fólki upp að 25 ára, Píeta samtökin eru fyrir 18 ára og eldri sem glíma við sjálfsvígshugsanir og svo er Sorgarmiðstöð fyrir syrgjendur. Forgangsaðgerðir eru líka fræðsla til fagaðila um samræmt sjálfsvígshættumati og þessi grein smellpassar inn í þá vinnu. Fleiri aðgerðir eru í forgangi sem snúa að samræmdu verklagi eftir sjálfsvígstilraun og í kjölfar sjálfsvígs.

Aðstandendur þurfa stuðning til að geta verið til staðar

Hvernig getur samfélagið verið meðvitað um mikilvægi þess að veita stuðning í erfiðum aðstæðum eins og þegar sjálfsvíg verður og hvernig á að opna á umræðuna því mörgum finnst erfitt að ræða dauðann og þá ekki síst þegar um sjálfsvíg er að ræða? „Við erum vanmáttug gagnvart áföllum eins og sjálfsvígi og vitum fæst hvað við eigum að gera eða segja. Erum mögulega hrædd um að segja eða gera eitthvað rangt og gera þannig illt verra. Þetta er skiljanlegt en aðalmálið er að vera til staðar,“ svarar hún og bætir við að mikilvægt sé að koma á samræmdum faglegum stuðningi eftir sjálfsvíg í þeim tilgangi að styrkja aðstandendur og aðra sem tengjast þeim nánustu til að vera til staðar þegar sjálfsvíg verður. Einnig er mikilvægt að styrkja og styðja þann sem missir þannig að viðkomandi treysti sér til að þiggja hjálp og fá stuðning.“

Embætti landlæknis hefur gefið út viðbragðsáætlun vegna skyndilegs andláts á vinnustað sem er stuttur leiðarvísir og grunnur að því að vinnustaður geti gert eigin viðbragsáætlun en þar er bent á úrræði og mögulegan stuðning. Hvaða leiðir farið þið til að kynna þessar viðbragðsáætlun fyrir þeim sem mögulega munu þurfa á henni að halda einn daginn? „Viðbragðsáætlunin var kynnt á ráðstefnu sem Sorgarmiðstöð hélt árið árið 2022 um skyndilegan

Guðrún í Grasagarðinum.

missi og einnig var hún kynnt á viðburði hjá Mannauði sem er félag mannauðsfólks á Íslandi. Það þyrftu sem flestir að vita af henni, hún er á vefsíðu embættis landlæknis og best væri ef fyrirtæki, stofnanir, skólar og félög myndu vinna sína viðbragðsáætlun byggða á þessum grunni áður en áfall hittir vinnustaðinn en ekki

Vitundarvakningin heldur áfram Greinin um sjálfsvíg eldra fólks hér í blaðinu er athyglisverð, ætlið þið höfundar hennar að fylgja henni eftir? „Já, þessi grein verður til að mynda notuð í bóklegri kennslu í B.S.-námi í hjúkrunarfræði við H.Í. í námskeiði sem heitir geðhjúkrun og geðheilbrigði og Eydís, einn höfundur greinarinnar kennir. Einnig kynntum við hana á Vísindadegi geðhjúkrunar í byrjun nóvember,“ svarar hún og við ákveðum í sameiningu að segja þetta gott og hvetjum öll til að kynna sér sjálfsvígforvarnir og vera meðvituð um mikilvægi þess að geta veitt stuðning og verið til staðar fyrir nánustu aðstandendur ef sjálfsvíg verður í fjölskyldunni, vinahópnum eða á vinnustaðnum. Einnig að geta leitað sér hjálpar ef þessi flókna sorg sem sjálfsvíg hrindir af stað, kemur upp á ferðalagi lífsins.

Ráðleggingar um hvernig á að fjalla um sjálfsvígsforvarnir í fjölmiðlum má finna hér: https://island.is/forvarnir-sjalfsviga/fjolmidlar eða með því að skanna kóðann hér til hliðar.

Það er fallegt í Grasagarðinum á þessum árstíma.

LYFIN FRÍTT

HEIM AÐ DYRUM

Í Lyfju appinu getur þú séð hvað þú átt í gáttinni, leyst út lyfseðla, verslað hjúkrunar- og heilsuvörur og fengið lyfseðilsskyld lyf send frítt heim að jafnaði innan klukkustundar.

Í Lyfju appinu getur þú einnig fengið ráðgjöf frá sérfræðingi í netspjalli alla daga frá 10–22.

Heilbrigði snýst um vellíðan.

Heilsufar grunnskólabarna á Akureyri

Tengsl holdafars við líðan

doi: 10.33112/TH.0101.3.1

ÚTDRÁTTUR

Tíðni ofþyngdar/offitu meðal barna og unglinga hefur aukist á Íslandi, einkum á landsbyggðinni. Börn og unglingar sem glíma við ofþyngd/ offitu greinast í auknum mæli með fitulifur, sykursýki, háan blóðþrýsting, hækkun á blóðfitum, stoðkerfisvandamál og vanlíðan. Offita er flókinn sjúkdómur og orsök hennar getur m.a. verið af líffræðilegum toga, vegna umhverfisáhrifa og lífsstíls eða vegna flókins samspils þessara þátta.

Tilgangur

Var að kanna holdafar grunnskólabarna í fjórum árgöngum á Akureyri og tengsl þess við hreyfingu, mataræði, svefn og líðan þeirra.

Aðferð

Rannsóknin var megindleg, afturskyggn (e. retrospective) lýsandi þversniðsrannsókn á heilsufari grunnskólabarna á Akureyri veturinn 2022-2023. Notuð voru gögn úr skráningarkerfi hjúkrunarfræðinga í heilsuvernd skólabarna. Gögnin eru byggð á upplýsingum sem fengust úr skólaskoðunum (skimunum), þar sem hæð og þyngd nemenda í 1., 4., 7., og 9. bekk var mæld og heilsueflandi viðtöl tekin við þau um lífsstíl og líðan. Hlutfall offitu og ofþyngdar var skoðað og hvort marktæk tengsl væru á milli ofþyngdar/offitu og lífsstílsþátta og líðanar. Notuð var fjölbreytuaðhvarfsgreining til að greina gögnin.

Niðurstöður

Úrtakið var n=1.883 nemendur og nær til 98% af rannsóknarþýðinu. Af þeim voru 9,1% með offitu og 19,5% í ofþyngd. Samtals voru 28,6% nemenda yfir kjörþyngd. Tengsl reyndust á milli ofþyngdar/offitu og þess að börnunum liði illa, bæði heima og í skólanum, að þau væru ósátt við sjálf sig og að þau gerðu eitthvað sem skaðað gæti heilsuna. Einnig voru tengsl á milli þess að vera með ofþyngd/offitu og þess að neyta ekki morgunverðar, gosdrykkju, hreyfingarleysis og að eiga erfitt með að sofna. Niðurstöður bentu til þess að ofþyngd/offita jyki líkur á að börnum liði illa heima um 89%, að þeim liði illa í skólanum um 77% og að þau væru ósátt við sjálf sig um 90%.

Ályktanir

Börnum sem glíma við ofþyngd/offitu líður verr en börnum í kjörþyngd og minni líkur eru á því að lífsvenjur þeirra séu í samræmi við ráðleggingar. Margir ólíkir þættir hafa áhrif á ofþyngd/offitu og því er mikilvægt að þverfagleg teymi sinni meðferðum barna í alvarlegri offitu þar sem unnið er á einstaklingsgrunni.

Lykilhugtök

Offita, börn, lífsstíll, líðan, heilsuvernd skólabarna

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Nýjungar: Rannsóknin veitir innsýn í stöðu grunnskólabarna á Akureyri sem glíma við ofþyngd og offitu og undirstrikar mikilvægi þess að offita sé meðhöndluð á heildrænan einstaklingsmiðaðan hátt.

Hagnýting: Niðurstöður má nýta til frekari þróunar á verkferlum fyrir börn með þyngdarfrávik á vaxtarkúrfu og börnum sem eru nú þegar með offitu.

Þekking: Niðurstöðurnar sýna fram á að börnum og unglingum sem glíma við ofþyngd og offitu líði verr en þeim sem eru í kjörþyngd. Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga:

Niðurstöðurnar minna á mikilvægi

heildrænnar nálgunar í hjúkrun barna sem glíma við offitu.

Höfundar

RANNVEIG ELÍASDÓTTIR

Hjúkrunarfræðingur, M.S.1,2

ÁRÚN KRISTÍN SIGURÐARDÓTTIR

Hjúkrunarfræðingur, Ph.D.1

KJARTAN ÓLAFSSON

Félagsfræðingur3

1 Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri

2 Sjúkrahúsið á Akureyri

3 Háskóli Íslands

Heilsufar grunnskólabarna á Akureyri

Tengsl holdafars við líðan

Bakgrunnur

Ofþyngd og offita hefur á undanförnum áratugum stóraukist þrátt fyrir aukna þekkingu á ógn þessara þátta við heilsu fólks (World Health Organization [WHO], 2017). Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO, 2021) voru um 39 milljónir barna yngri en fimm ára skilgreind í ofþyngd eða offitu árið 2020 og sömuleiðis um 340 milljónir barna og unglinga á aldrinum 5-19 ára í ofþyngd eða offitu árið 2016.

Á Íslandi eru langflest börn á grunnskólaaldri vigtuð og hæðarmæld í fjórum árgöngum, 1., 4., 7. og 9. bekk, af hjúkrunarfræðingum í heilsuvernd skólabarna. Þannig er hægt að fylgjast nokkuð náið með þróun líkamsþyngdar grunnskólabarna (Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu [ÞÍH], e.d.-a). Áhyggjur hafa komið fram vegna aukinnar tíðni ofþyngdar og offitu einkum og sér í lagi meðal barna á landsbyggðinni (Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, 2021). Vísað er í óbirtar tölur frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu frá árinu 2023, þar sem fram kemur að fleiri stúlkur glími við offitu á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, eða 10,0% á landsbyggðinni á móti 5,7% á höfuðborgarsvæðinu. Meðal drengja glíma 9,6% við offitu á landsbyggðinni en 6,4% á höfuðborgarsvæðinu.

Skilgreining á ofþyngd/offitu

Við greiningu á ofþyngd/offitu er oftast notast við líkamsþyngdarstuðulinn (LÞS) sem er hlutfall líkamsþyngdar í kg og hæðar í m2 (kg/m2). Einfalda skilgreiningin er þó að einstaklingurinn sé með umfram líkamsfitu (WHO, 2021). Hjá fullorðnum er einfalt að meta hvort LÞS fólks teljist til ofþyngdar/offitu. LÞS ≥25 kg/m2 telst vera ofþyngd og ≥30 kg/m2 telst vera offita. Hjá börnum þarf einnig að taka aldur og kyn inn í reikninginn. Á Íslandi er tekið mið af viðmiðum Cole og félaga (2000). Skv. þeirra viðmiðum er LÞS reiknaður og tillit tekið til kyns og aldurs barnsins í heilum og hálfum aldursárum við mælingu. Börn frá 5-19 ára teljast vera í ofþyngd ef LÞS er einu staðalfráviki ofan við meðalþyngd og teljast með offitu ef LÞS er tveimur staðalfrávikum ofan við meðalþyngd (WHO, 2021; Cole o.fl., 2000).

Orsakaþættir

Ofþyngd/offita er flókið vandamál og því mikilvægt að horfa á það frá þverfaglegu sjónarhorni (Shaban Mohamed o.fl., 2022). Áður hefur verið talið að skýringin á umfram líkamsfitu sé sú að fleiri hitaeiningar eru innbyrðar heldur en líkaminn brennir en nú er vitað að svo einfalt er það ekki (Trandafir og Temneanu, 2016; Kleinendorst o.fl., 2020). Líffræðilegir þættir, umhverfi og lífsstíll skipta þarna höfuðmáli og flókið samspil þeirra (Kadouh og Acosta, 2017; Masood og Moorthy, 2023). Líffræðilegir þættir, sem ýta undir ofþyngd/offitu, geta verið margir og ólíkir s.s. erfðafræðilegir þættir, efnaskiptasjúkdómar, fatlanir, veirusýkingar og bakteríuflóra ristils. Þessa þætti reynist oft erfiðara að hafa áhrif á. Samlagningaráhrif margra líffræðilegra þátta auka jafnframt líkur á ofþyngd/offitu (Kadouh og Acosta, 2017). Umhverfisáhrif sem ýta undir ofþyngd/offitu geta kveikt á þeim líffræðilegu ferlum sem valda ofþyngd/offitu og með þeim er m.a. átt við menningarlegar og samfélagslegar venjur, mengun o.fl. (Kadouh og Acosta, 2017).

Í allri umræðu um ofþyngd/offitu er mikilvægt að varpa ljósi á þá þætti sem hjúkrunarfræðingar geta stutt og aðstoðað öll börn og fjölskyldur þeirra með s.s. hegðun og lífsstíl (Kadouh og Acosta, 2017). Tilkoma semaglutide-lyfjanna er vissulega nýr valkostur en aðeins fyrir börn eldri en 12 ára með alvarlega offitu og þá að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (Elizabeth-Jane o.fl., 2024). Lífsstíll fólks er mikilvægur vegna þess að hann hefur áhrif á andlega, líkamlega og sálfélagslega heilsu í gegnum almenn atriði á borð við hreyfingu, kyrrsetu, mataræði, félagsleg tengsl, svefn og skjánotkun (Shaban Mohamed o.fl., 2022).

Afleiðingar ofþyngdar/offitu

Ofþyngd og offita hafa gríðarleg áhrif á heilsu og líðan. Fjölmargir lífsstílssjúkdómar eru mun algengari hjá einstaklingum með ofþyngd og offitu, s.s. hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki af tegund tvö, stoðkerfisvandamál, ákveðnar tegundir krabbameina, háþrýstingur, nýrnavandamál, hækkun á blóðfitum, fitulifur, svefnvandamál og jafnvel andleg vanlíðan sem og ótímabær dauði (Lin og Li, 2021; Colley o.fl., 2025).

Áður var talið að heilsufarslegar afleiðingar ofþyngdar og offitu meðal barna væru litlar og myndu jafnvel ekki koma fram fyrr en mörgum árum eftir að barn hefði þróað með sér offitu (Lobstein o.fl., 2004; Peng o.fl., 2021). Í fræðilegri samantekt Goel og félaga (2024) benda þeir á að sykursýki 2, fitulifur, blóðfituhækkun og hár blóðþrýstingur séu heilsufarsvandamál sem börn með offitu glíma gjarnan við. Þar sem börn með offitu eru einnig líklegri til að eiga við offitu að stríða síðar á lífsleiðinni er því enn líklegra að ofangreind heilsufarsvandamál verði sömuleiðis til staðar á fullorðinsárum og versni stöðugt ef ekki er nægilega snemma ráðist að rót vandans.

Úrræði

Forvarnir eru lykilatriði í baráttunni við ofþyngd/offitu barna. Hlutverk heilsugæslunnar er að grípa þau börn sem þurfa einhvers konar inngrip, veita fræðslu og fyrstu meðferð þeim sem það þurfa (Harding, 2023). Heilsuvernd skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd og helstu verkefni hennar eru heilbrigðisfræðsla, skimanir og bólusetningar. Í skimunum eru börn í 1., 4., 7. og 9. bekk hæðar- og þyngdarmæld, sjónmæld og tekið við þau heilsueflandi viðtal um lífsstíl og líðan (ÞÍH, e.d. -a). Með mælingum á hæð og þyngd má fylgjast með vaxtarkúrfum og frávikum sem geta gefið vísbendingar um ýmsa sjúkdóma og líkamlega kvilla, sem og LÞS barnanna (ÞÍH, e.d. -a). Ef barn er komið í ofþyngd á hjúkrunarfræðingurinn að hafa samband við foreldra barnsins og upplýsa þá um stöðu mála. Hjúkrunarfræðingurinn getur þá boðið foreldrum upp á fræðslu um hollt mataræði og hreyfingu. Ef barn er með offitu er gert ráð fyrir að hjúkrunarfræðingurinn hafi samband við foreldra og vísi barninu til heimilislæknis. Lagt er til að hjúkrunarfræðingurinn fylgi málinu eftir og vinni eftir þar til gerðu skjali. Samkvæmt því á að vísa barninu í Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins ef viðeigandi úrræði duga ekki eða ef barnið er með alvarlega offitu (ÞÍH, e.d. -b).

Þegar tekið er heilsueflandi viðtal notar hjúkrunarfræðingurinn hugmyndafræði áhugahvetjandi samtals þar sem barnið er spurt opinna spurninga með það að markmiði að leiða af sér opnar samræður milli hjúkrunarfræðings og barns og hvetja barnið til heilsusamlegri lífshátta. Viðtalið skal vera á einstaklingsgrundvelli. Fræðsluþarfir barnsins eru kannaðar og veitt er fræðsla á forsendum þess. Þema 6H-heilsunnar er notað í uppbyggingu samtalsins og samanstendur það m.a. af hálfstöðluðum spurningum sem hægt er að nota sem útgangspunkta í samtalinu. Mælst er til þess að hjúkrunarfræðingar reyni að ná flæði í samtalinu í stað þess að spyrja nemendur beinna spurninga (ÞÍH, e.d. -c).

Þemað í heilsueflandi viðtölum er 6H heilsunnar. Það var upphaflega samstarfsverkefni Miðstöðvar heilsuverndar barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Lýðheilsustöðvar, Barnaspítala Hringsins og landlæknisembættisins. 6H-in standa fyrir hugtök sem öll byrja á bókstafnum H, þ.e. hreyfing, hollusta, hvíld, hamingja, hugrekki og hreinlæti (Umboðsmaður barna, 2009).

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna holdafar grunnskólabarna í fjórum árgöngum á Akureyri og tengsl við lífsstílsþættina hreyfingu, mataræði, svefn og líðan.

AÐFERÐ

Um var að ræða megindlega, afturvirka þversniðsrannsókn á heilsufari grunnskólabarna á Akureyri veturinn 2022-2023.

Þátttakendur

Þýði rannsóknarinnar var öll börn á Akureyri í 1., 4., 7. og 9. bekk sem áætlað var að færu í mælingar og viðtal hjá hjúkrunarfræðingi í heilsuvernd skólabarna veturinn 2022-2023. Úrtakið spannaði þau börn sem mættu í umrætt viðtal.

Gagnaöflun

Gögnin sem notuð voru í rannsókninni voru fengin úr Ískrá, skráningarkerfi hjúkrunarfræðinga í heilsuvernd skólabarna. Gagnaöflun fór þannig fram að hjúkrunarfræðingur í hverjum skóla fyrir sig sendi tölvupóst á foreldra til að upplýsa um fyrirhugaða skimun og fann hann tíma í samráði við umsjónarkennara bekkjarins. Í viðtalinu eru gerðar hæðar- og þyngdarmælingar og nemendur spurðir út í ýmsa lífsstílsþætti, mismunandi eftir aldri, s.s. svefn, næringu, hreyfingu og líðan.

Framkvæmd

Sótt var um leyfi fyrir rannsókninni til Vísindasiðanefndar og var leyfið veitt þann 13. desember 2023. Tölvupóstar voru einnig sendir á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) þar sem óskað var eftir leyfi þeirra til notkunar á gögnunum fyrir rannsóknina. Gagnaskráin var afhent á Excelformi og án allra persónuauðkenna. Gögnin voru svo færð í SPSStölfræðiforritið til frekari meðhöndlunar og úrvinnslu.

Rannsóknarbreytur

Bakgrunnsbreytur voru bekkur og kyn. Ekki var gerður greinarmunur á börnum innan sama bekkjar eftir því í hvaða mánuði barnið var fætt. Því var bekkur settur upp sem flokkabreyta. Eins var kyni aðeins skipt í karlkyn og kvenkyn. Aðrar breytur voru LÞS (kg/m2) sem var svo flokkaður í kjörþyngd, ofþyngd og offitu skv. viðmiðum Cole o.fl. (2000). Skv. viðmiðum þeirra er LÞS reiknaður og tillit tekið til kyns og aldurs barns við mælingu. Viðmiðin taka mið af heilum og hálfum aldursárum og því var miðað við að börnin væru á milli aldursára miðað við bekk þar sem nákvæmur aldur þeirra var ekki þekktur heldur einungis í hvaða bekk þau voru.

Tengsl ofangreindra breyta voru svo skoðuð með tilliti til þátta úr lífsstílsviðtalinu. Til að afmarka þætti úr lífsstílsviðtalinu var notast við þemað 6H og þeim skipt í hollustu, hreyfingu, hvíld og hamingju. Undir hollustuþættinum voru allir fjórir árgangarnir spurðir um hvort viðkomandi borðaði morgunmat og tæki D-vítamín. Einnig voru 4., 7. og 9. bekkingar spurðir út í neyslu gosdrykkja. Undir hreyfingarþættinum voru börnin spurð hvort þau stunduðu reglulega hreyfingu og hvernig þau ferðuðust í skólann. Undir hvíldarþættinum var spurt hvenær viðkomandi færi að sofa þegar skóli væri að morgni. Þar voru mismundandi svarmöguleikar gefnir fyrir 1. og 4. bekk annars vegar og 7. og 9. bekk hins vegar. Þá voru allir árgangar spurðir hvernig þeim gengi að sofna á kvöldin og að lokum hvort börnin væru syfjuð á daginn í 4., 7. og 9. bekk. Undir hamingjuþættinum voru allir árgangarnir fjórir spurðir út í líðan, bæði heima og í skólanum og hvort þau

ættu vin. Þá voru 4., 7., og 9. bekkingar spurðir um hversu sátt þau væru með sjálf sig og 7. og 9. bekkingar voru spurðir um hvort þau gerðu eitthvað sem geti skaðað heilsu þeirra.

Gagnagreining

Bakgrunnsbreytur voru settar upp í töflur í tölfræðiforritinu SPSS til að hægt væri að skoða umfang úrtaksins. Hlutfall offitu og ofþyngdar var skoðað með tilliti til bakgrunnsbreyta og kannað hvort marktæk tengsl væru á milli ofþyngdar/offitu og þeirra líðan og lífsstílsþátta sem taldir voru upp hér að ofan. Notuð var fjölbreytuaðhvarfsgreining til að greina gögnin og marktektarmörk sett við p<0,05. Breytur sem tóku fleiri en eitt gildi voru endurkóðaðar þannig að þær tóku aðeins tvö gildi, 0 og 1, þar sem 1 stóð fyrir nemendur sem uppfylltu þau skilyrði sem verið var að skoða. Sem dæmi má nefna breytuna „Gengur vel að sofna á kvöldin“ sem tók gildin aldrei, sjaldan, stundum, oft og alltaf. Hún var endurkóðuð á þann hátt að ef svarið var aldrei, sjaldan eða stundum tók breytan gildið 1, þ.e. viðkomandi gekk illa að sofna á kvöldin og 0 ef svarið var oft eða alltaf.

Í töflum 5 og 6 voru skoðuð sjálfstæð tengsl áhrifaþátta við líðan nemenda. Tafla 6 á einungis við um nemendur í 4., 7. og 9. bekk þar sem umræddir þættir áttu ekki við 1. bekk. Gerðar voru tvíkosta aðhvarfsgreiningar þar sem fylgibreytur voru ,,líður illa heima“, ,,líður illa í skólanum“, ,,er ósáttur við sjálfa(n) sig“ og „gerir eitthvað sem getur skaðað heilsuna“. Tilgreint er gagnlíkindahlutfall (exp B) sem segir til um þau áhrif sem hver frumbreyta hefur á viðkomandi fylgibreytur, ásamt marktektarprófi (p-gildi) þar sem miðað var við 95% öryggisstig í túlkun niðurstaðna.

Siðfræði

Engin persónuauðkenni eru í gagnaskránni sem unnið var með og ógerlegt að rekja svör til einstaklinga. Vísindasiðanefnd samþykkti rannsóknina (VSN-23-168) og HH og HSN veittu enn fremur leyfi til að nýta gögnin.

NIÐURSTÖÐUR

Þýði rannsóknar var 1.922 börn og af þeim voru 995 drengir og 927 stúlkur. Heildarfjöldi nemenda eftir bekkjum var frá 424 börnum í 1. bekk og upp í 552 börn í 7. bekk. Kynjahlutfallið var nokkuð jafnt eða 51,8% drengir á móti 48,2% stúlkum. Úrtak rannsóknarinnar taldi 1.883 nemendur sem eru 39 færri en heildarfjöldi nemenda. Svarhlutfallið var því 98%. Þau 2% sem ekki tóku þátt hafa annaðhvort ekki verið mæld eða ekki mætt í heilsueflandi viðtal hjá hjúkrunarfræðingi.

Í töflu 1 má sjá LÞS nemenda flokkaðan eftir viðmiðum Cole og félaga (Cole o.fl., 2000). Í töflunni eru nemendur flokkaðir með tilliti til kyns og bekkjar í „offitu“, „ofþyngd“ og svo þann hóp sem er utan yfirþyngdar. Þeir nemendur sem voru utan yfirþyngdar voru að langstærstum hluta í kjörþyngd en 0,9% nemenda var undir kjörþyngd. Af þeim1.883 sem mældir voru, voru 9,1% með offitu og 19,5% í ofþyngd. Samtals voru 28,6% nemenda yfir kjörþyngd. Á töflunni sést að hlutfall ofþyngdar og offitu hækkar með aldri, um 80% nemenda í 1. bekk var í kjörþyngd en nær 70% í hinum árgöngunum. Hæsta hlutfall barna með ofþyngd var í 4. bekk og hæsta hlutfall barna sem glímdu við offitu var í 7. bekk, þó svo að ekki sjáist afgerandi munur á hlutfalli barna með offitu í 7. og 9. bekk.

Tafla 1. Hlutfall og fjöldi nemenda ekki í yfirþyngd, í yfirþyngd og með offitu og innan bekkja eftir kyni

Flokkaður LÞS 1. bekkur % 4. bekkur % 7. bekkur % 9. bekkur % Samtals %

Ekki í yfirþyngd

Drengir

Stúlkur

Drengir

Stúlkur

Offita

Drengir

Stúlkur

Samtals

Drengir

Stúlkur

Í töflu 2 sjást tengsl ofþyngdar og offitu við lífsstílsþætti sem tengjast hollustu, þ.e. hvort nemendur borða morgunmat, taka lýsi og hvort og hversu oft þau drekka gos. Börn í 1. bekk voru ekki spurð út í gosdrykkju. Til frekari útskýringar þá voru börn sem voru í ofþyngd og offitu sett í einn hóp og hann borinn saman við umrædda þætti. Ef skoðaðir eru drengir í 7. bekk þá eru 27% þeirra sem borða morgunmat í ofþyngd eða offitu en 46% þeirra sem borða ekki morgunmat í ofþyngd eða offitu. Tengsl reyndust vera á milli þess að vera í ofþyngd/offitu og þess að borða ekki morgunmat (p<0,001). Einnig reyndust tengsl vera á milli ofþyngdar/offitu og tíðrar gosdrykkju (p=0,009) hjá börnum í 7. og 9. bekk. Aðrir hollustuþættir reyndust ekki með tengsl við ofþyngd og offitu. Neðar í töflunni voru skoðuð tengsl ofþyngdar og offitu við hreyfingu, þ.e. hvort og hve oft nemandi æfir íþróttir og hvernig hann ferðast í og úr skóla. Meðal nemenda í 1. bekk voru ekki tengsl milli þess hvort nemendur æfðu íþróttir og þess að þeir væru í ofþyngd/offitu. Hjá hinum bekkjunum reyndust hins vegar vera tengsl milli þess að æfa ekki eða sjaldan íþróttir og þess að vera í ofþyngd/offitu, p<0,001. Í öllum bekkjunum reyndust tengsl vera á milli þess að vera skutlað í skólann og þess að vera í ofþyngd/offitu, p=0,015.

Á töflu 3 má sjá lífsstílsþætti sem tengjast svefni og svefngæðum og tengsl þeirra við ofþyngd og offitu. Börnin voru spurð hvenær þau færu að sofa, hvort þeim gengi vel að sofna á kvöldin og hvort þau upplifðu þreytu á daginn. Ekki reyndust vera tengsl á milli þessara þátta og ofþyngdar/offitu þó svo að niðurstöður úr svörum við hvernig þeim gengi að sofna hafi verið nálægt marktektarmörkum, p=0,056.

Á töflu 4 voru skoðuð tengsl ofþyngdar/offitu við lífsstílsþætti sem tengjast líðan barnanna. Skoðuð var líðan í skóla, líðan heima fyrir, hvort þau teldu sig eiga góðan vin, hvort þau væru sátt við sjálf sig og hvort þau hefðu gert eitthvað sem gæti skaðað heilsu þeirra. Líðan barnanna í skólanum hafði tengsl við ofþyngd/offitu, p<0,001. Það sama var að segja um líðan þeirra heima við, p=0,013. Ekki reyndust tengsl milli ofþyngdar/offitu og þess hvort börnin teldu sig eiga góðan vin. Tengsl voru á milli lakrar sjálfsmyndar og ofþyngdar/offitu, p<0,001 og einnig hvort þau gerðu eitthvað sem skaðað gæti heilsu þeirra og ofþyngdar/offitu, p=0,025.

Tafla 2. Hlutfall þeirra nemenda sem reyndust vera í yfirþyngd eða með offitu eftir því hvort þeir borðuðu morgunmat, tóku lýsi/D-vítamín, hversu oft í viku þeir drukku gos-/orkudrykk, hvort og hve oft þeir æfðu íþróttir og hvernig þeir komu til skóla eftir kyni og bekkjum 1.

Tafla 4. Hlutfall þeirra nemenda sem reyndust vera í yfirþyngd eða með offitu eftir líðan í skóla og heima, hvort þau eigi vin og hversu sátt þau eru við sjálf sig, greint

1.b. vs. 9.b. 0,550,241,230,530,310,93

4.b. vs. 9.b. 0,470,230,980,620,391,000,330,220,51

Tekur ekki lýsi/D-vít. 1,250,732,121,370,961,961,230,881,720,820,401,69 Skutlað í skólann 1,510,892,56 1,44*1,022,10 1,240,891,722,000,974,14

Gengur illa að sofna á kvöldin

* Marktæk tengsl eru feitletruð. ** Áhrif frumbreyta metin með tvíkosta aðhvarfsgreiningu og skýrð dreifni metin með Nagelkerke R²

Í töflum 5 og 6 voru skoðuð sjálfstæð tengsl áhrifaþátta við líðan nemenda með tvíkosta aðhvarfsgreiningu. Þannig má sjá hvort og hversu mikið hver og einn þáttur hefur tengsl við líðan nemendanna þegar tekið er tillit til annarra þátta. Tafla 5 sýnir tengsl þar sem áhrifaþættir allra bekkja eru teknir með en tafla 6 inniheldur

ekki áhrifaþátt 1. bekkjar þar sem spurningin um gosneyslu átti ekki við um þann árgang. Þá var einnig spurningunni um hvort viðkomandi gerði eitthvað sem gæti skaðað heilsuna í töflu 6 sleppt þar sem fáir nemendur svöruðu og breytileikinn lítill.

Líður illa heima

Líður illa í skólanum Er ósátt(ur) við sjálfa(n) sig

Fasti

Kynferði (kvk.) 2,78*1,465,27 1,100,741,63 1,73*1,232,43

Ofþyngd/offita 2,17*1,223,891,80*1,212,671,82*1,292,57

4.b. vs. 9.b. 0,500,231,060,680,421,120,370,230,57

7.b. vs. 9.b.

Borðar ekki morgunmat

Tekur ekki lýsi/D-vít. 1,220,682,211,100,741,641,110,791,56

Skutlað í skólann 1,510,852,71,290,871,911,160,831,63

Gengur illa að sofna á kvöldin 3,97*2,127,453,50*2,345,252,45*1,743,43

Drekkur gos oftar en þrisvar í viku 1,380,712,701,77*1,142,752,00*1,362,93

Hreyfir sig sjaldnar en þrisvar í viku 1,090,582,021,59*1,052,391,72*1,202,46

R2** 0,151 0,150 0,164

* Marktæk tengsl eru feitletruð. ** Áhrif frumbreyta metin með tvíkosta aðhvarfsgreiningu og skýrð dreifni metin með Nagelkerke R²

Af töflu 5 má sem dæmi sjá að nemendur sem glíma við ofþyngd/ offitu voru 89% líklegri til að líða illa heima hjá sér, 77% líklegri til að líða illa í skólanum, 90% líklegri til að vera óánægðir með sjálfa sig og 104% líklegri til að gera eitthvað sem skaðar getur heilsuna. Svefn og líðan hafa einnig tengsl, því verr sem nemendum gengur að sofna þeim mun verr líður þeim. Þá sést að stúlkum (tafla 6) virðist líða verr en drengjum. Sömuleiðis sést að því verr sem nemendum líður, þeim mun minna hreyfa þeir sig og gosdrykkja eykst að sama skapi.

UMRÆÐA

Af niðurstöðum rannsóknarinnar má sjá að hlutfall barna yfir kjörþyngd á Akureyri er hærra en á öllu landinu, eða 28,6% á móti 25% (ÞÍH, 2023). Gerð var rannsókn á líkamsþyngdarstuðli barna á Akureyri veturinn 2000-2001 þar sem niðurstöður sýndu að um 12,6% barna í 4., 7. og 10. bekk væru yfir kjörþyngd (Magnús Ólafsson o.fl., 2003). Það er því nokkuð ljóst að tíðni ofþyngdar/ offitu meðal barna á Akureyri hefur bæði aukist frá árunum 20002001 og er meiri en gengur og gerist á landsvísu.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu tengsl á milli þess að börn væru í ofþyngd/offitu og þess að þeim liði illa. Átti það bæði við um líðan barnanna heima fyrir og í skólanum. Ekki var þó hægt að skilgreina slæma líðan frekar út frá spurningum í lífsstílsviðtali skólaheilsuverndar en leiða má þó að því líkur að vandinn sé umtalsverður í lífi barns sem líður bæði illa heima fyrir og í skólanum. Það samræmist niðurstöðum hollenskrar þversniðsrannsóknar Pas og félaga (2023) á rúmlega 400 börnum í ofþyngd/offitu og heilsutengdum lífsgæðum þeirra (e. health-related quality of life). Niðurstöður þeirra bentu til umtalsverðra áhrifa ofþyngdar/offitu á sálfélagslega líðan, börnum sem féllu þar undir leið verr, þau einangruðust og höfðu slaka sjálfsmynd. Rannsóknir sýna að andleg og félagsleg líðan barna í ofþyngd/offitu er almennt mun lakari en meðal barna í kjörþyngd (Agbaria o.fl., 2025; Newson o.fl., 2024). Færri rannsóknir hafa þó verið gerðar á því hvort sú líðan sé afleiðing eða orsök (Hupparage o.fl., 2023).

Í ferilrannsókn Van Vuuren og félaga (2019) á tæplega 14.000 1314 ára unglingum þar sem bornir voru saman hópar í kjörþyngd,

ofþyngd og offitu, sýndu niðurstöður að unglingar með ofþyngd og offitu tjáðu líðan sína mun verri en þeir sem voru í kjörþyngd. Þá var algengara að þeir sem voru með ofþyngd og offitu tjáðu sjálfsvígshugsanir og upplifðu einelti af hálfu samnemenda. Tíðnin var einnig enn meiri í hópi unglinga með offitu samanborið við þá sem voru í ofþyngd (Van Vuuren og félagar, 2019).

Í breskri rannsókn Putra og félaga (2024) var rúmlega 8.000 börnum í ofþyngd/offitu fylgt eftir í tveimur hópum, annars vegar frá 11 ára til 17 ára og hins vegar frá 14 ára til 17 ára. Niðurstöður þeirra bentu til þess að börn með góða andlega líðan, þá einkum þau með sterka sjálfsmynd og gott sjálfstraust við 11 ára aldur, voru líklegri til að snúa ofþyngdinni/offitunni við þegar þau voru orðin 17 ára. Þessar niðurstöður ríma nokkuð við niðurstöður rannsóknarinnar þar sem börn sem voru ósátt við sjálf sig voru marktækt líklegri til að vera í ofþyngd/offitu í 4., 7. og 9. bekk. Hjúkrunarfræðingar í heilsuvernd skólabarna eru mikilvægur hlekkur í því að koma auga á börn sem þurfa aukinn stuðning og miðað við þessar niðurstöður er mjög mikilvægt að fylgja þeim eftir og vísa þeim rétta leið í heilbrigðiskerfinu.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru tengsl á milli þess að borða ekki morgunmat, gosdrykkju, hreyfingar, ferðamáta í skóla og þess að eiga erfitt með að sofna á kvöldin og ofþyngdar/ offitu. Þegar töflur 5 og 6 eru skoðaðar má sjá að þetta eru þeir þætti sem hafa sjálfstæð tengsl við líðan nemendanna. Það má því velta fyrir sér hvað sé eggið og hvað sé hænan. Ljóst er að ofþyngd/offita er flókið vandamál sem þarf að meðhöndla á einstaklingsgrunni með þverfaglegri þjónustu. Það samræmist niðurstöðum Vourdoumpa og félaga (2024) sem gerðu íhlutandi rannsókn á 611 börnum og ungmennum á aldrinum 6-18 ára. Þau fengu öll íhlutun þverfaglegs teymis í eitt ár þar sem markmiðið var að bæta heilsuhegðun þeirra m.t.t. næringar, hreyfingar, svefns og líðanar. Af þeim börnum sem voru í ofþyngd/offitu voru marktækar jákvæðar breytingar á líðan, líkamsþyngdarstuðli og blóðprufuniðurstöðum. Fræðsla hjúkrunarfræðinga í heilsuvernd skólabarna er góð leið til að kenna börnum góða heilsuhegðun og því mikilvægt að gera henni hátt undir höfði m.a. með því að þjálfa nýja hjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar.

Heilsufar grunnskólabarna

Draga má þá ályktun út frá niðurstöðum rannsóknarinnar að mikilvægt sé að huga enn betur að forvörnum og meðferð barna sem glíma við ofþyngd/offitu á landsbyggðinni. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að ofþyngd/offita er algengari eftir því sem búseta er strjálli. Í kanadískri rannsókn Bruner og félaga frá árinu 2008, þar sem tæplega 5.000 börn á aldrinum 11-15 ára tóku þátt, bentu niðurstöður til þess að ofþyngd/offita væri algengari í strjálli byggð og aukist eftir því sem hún er strjálli. Ekki reyndust tengsl strjálbýlis við hreyfingu og næringu en börn í strjálli byggð eyddu lengri tíma fyrir framan skjá.

Hjúkrunarfræðingar í heilsuvernd skólabarna gegna lykilhlutverki í að skima fyrir börnum sem eru að þyngjast óþarflega hratt og vísa þeim sem þurfa áfram í flóknara þjónustustig innan heilbrigðiskerfisins. Athygli vekur að þrátt fyrir alla skimun á líkamsþyngdarstuðli og líðan barnanna ríkir tilfinnanlegur skortur á úrræðum og utanumhaldi á þjónustu við þessi börn.

Í febrúar 2025 tók til starfa þverfaglegt teymi á Barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri sem sinnir börnum í alvarlegri offitu í samvinnu við Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins. Teymið sinnir börnum á Akureyri og nærliggjandi sveitarfélögum og gerir þeim auðveldara fyrir að sækja þjónustuna, auk þess sem það léttir á biðlistum Heilsuskólans. Í teyminu starfa hjúkrunarfræðingur (fyrsti höfundur greinarinnar), barnalæknir og næringarfræðingur. Stefnt er að því að stækka teymið og fjölga fagstéttum innan þess.

STYRKLEIKAR OG VEIKLEIKAR

Styrkleikar rannsóknarinnar er að hún nær til mjög stórs hluta (98%) rannsóknarþýðisins og sömuleiðis það að mæling á LÞS var gerð af fagfólki. Til veikleika rannsóknarinnar mætti telja að gögnunum var ekki safnað í rannsóknarskyni. Þeim var safnað af mörgum mismunandi hjúkrunarfræðingum innan heilsuverndar skólabarna með mismunandi bakgrunn og reynslu innan hjúkrunar. Það getur haft áhrif á hvernig lífsstílsviðtalið fór fram og var túlkað. Einnig er ekki hægt að greina orsakasamhengi með gögnunum. Gagnasafn þessarar rannsóknar gefur ekki tækifæri til að greina LÞS barna eftir þjóðfélagsstöðu foreldra eða jaðarsettra hópa til dæmis barna með erlendan uppruna.

LOKAORÐ

Rannsóknin sýnir að hlutfall barna sem glíma við ofþyngd/offitu hefur aukist á Akureyri. Að auki sýnir hún fram á að þeim börnum líður verr en börnum í kjörþyngd og að minni líkur eru á því að lífsvenjur þeirra séu í samræmi við ráðleggingar. Margir ólíkir áhrifaþættir hafa tengsl við ofþyngd/offitu og því er mikilvægt að þverfagleg teymi sinni einstaklingsmiðuðum meðferðum barna í alvarlegri offitu. Það er samfélagsleg ábyrgð hjúkrunarfræðinga og annarra að sporna við þessari þróun og vinna að bættri heilsu barna okkar.

ÞAKKIR

Þakkir eru færðar Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir veittan styrk úr B-hluta vísindasjóðs sem og Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir veitt námsleyfi.

ENGLISH SUMMARY

Health Status of Elementary School Children in Akureyri: Associations Between Body Mass Index and Wellbeing

ABSTRACT

The prevalence of overweight/obesity among children and adolescents is increasing in Iceland, particularly in rural areas. An increasing number of children and adolescents with overweight/ obesity are being diagnosed with fatty liver disease, diabetes, hypertension, dyslipidaemia, musculoskeletal problems, and psychological distress. Obesity is a complex disease, with causes that may be biological, environmental, or lifestyle-related, often involving an intricate interplay of these factors.

Aim

To examine overweight/obesity of elementary school children from four grade levels in Akureyri and its associations with physical activity, diet, sleep, and well-being.

Method

A quantitative, retrospective, cross-sectional design was used. Data were retrieved from the school health medical registration system maintained by school nurses during the 2022-2023 academic year. These records were based on health screenings, which included measurements of height and weight as well as structured health-promotion interviews regarding lifestyle and well-being in grades 1, 4, 7, and 9 (which corresponds to ages 6, 9, 12 and 14). The study examined the prevalence of overweight/ obesity and analysed significant associations between these conditions and various lifestyle and well-being factors. Multivariate regression analysis was used to interpret the data.

Results

The sample consisted of 1,883 children, which is 98% of the study population. Among the participants, 9.1% were classified as obese and 19.5% as overweight, resulting in 28.6% of children above a healthy weight range. Overweight/obesity were associated with poorer well-being at home and school, dissatisfaction with oneself, and engaging in health-compromising behaviours. Additionally, not eating breakfast, consuming soft drinks, physical inactivity, and experiencing difficulties falling asleep were linked to overweight/obesity. In addition, it increased the likelihood of experiencing distress at home by 89%, at school by 77%, and of being dissatisfied with oneself by 90%.

Conclusions

Children struggling with overweight/obesity generally experience poorer well-being compared to those within a healthy weight range and are less likely to have lifestyle habits that are in line with recommendations. Given the multifactorial nature of obesity, it is crucial that interdisciplinary teams provide individualized treatment for children with severe obesity.

Keywords

Obesity, children, lifestyle, well-being, school health services .

Correspondent

Rannveig Elíasdóttir re0519@sak.is

HEIMILDIR

Agbaria, H., Mahamid, F. og Bdier, D. (2025). Differences in severity of depression symptoms in overweight, obese and normal weight Palestinian children and adolescents. Cambridge Prisms : Global Mental Health, 11(e127), 1-8. https://doi.org/10.1017/ gmh.2024.126

Bruner, M. W., Lawson, J., Pickett, W., Boyce, W. og Janssen, I. (2008). Rural Canadian adolescents are more likely to be obese compared with urban adolescents. International Journal of Pediatric Obesity, 3(4), 205–211. https://doi. org/10.1080/17477160802158477

Cole, T. J., Bellizzi, M. C., Flegal, K. M. og Dietz, W. H. (2000). Establishing a standard definition for child overweight and obesity worldwide: international survey. BMJ (Clinical research ed.), 320(7244), 1240–1243. https://doi.org/10.1136/bmj.320.7244.1240

Colley, R. C., Bushnik, T. og Barnes, J. (2025). The health consequences of obesity history and weight fluctuations in adulthood. Health Reports, 36(2),15-28. https://doi. org/10.25318/82-003-x202500200002-eng

Elizabeth-Jane, van B., Rahman, S., Lai, K., Boulos, N., og Davis, N. (2024). Semaglutide treatment for children with obesity: an observational study. Archives of Disease in Childhood, 109(10), 822-825. https://doi.org/10.1136/archdischild-2023-326687

Goel, A., Reddy, S. og Goel, P. (2024). Causes, consequences, and preventive strategies for childhood obesity: A narrative review. Cureus, 16(7), e64985. https://doi.org/10.7759/ cureus.64985

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir. (2021). Vill að offita sé meðhöndluð sem sjúkdómur,spjallað við Tryggva Helgason barnalækni. Læknablaðið, 107(2), 100-102. https://www. laeknabladid.is/tolublod/2021/02/nr/7622

Harding, S. (2023). Evaluation of adherence to childhood obesity guidelines and the use of a screening tool in the primary care setting. Pediatric Nursing, 49(1), 21-31. https://www. proquest.com/scholarly-journals/evaluation-adherence-childhood-obesity-guidelines/ docview/2780449758/se-2

Hupparage, V., Waman, T., Waman, P., Yadav, P., Tare, H. og Dama, G. (2023). A review of the psychological aspects of childhood obesity: Causes, consequences and treatment. International Journal of Pharmaceutical Quality Assurance, 14(04), 1214-1220. https:// doi.org/10.25258/ijpqa.14.4.61

Kadouh, H. C. og Acosta, A. (2017). Current paradigms in the etiology of obesity. Techniques in Gastrointestinal Endoscopy, 19(1), 2-11. https://doi.org/10.1016/j.tgie.2016.12.001

Kleinendorst, L., Abawi, O., van der Voorn, B., Jongejan, M. H. T. M., Brandsma, A. E., Visser, J. A., van Rossum, E. F. C., van der Zwaag, B., Alders, M., Boon, E. M. J., van Haelst, M. M. og van den Akker, E. L. T. (2020). Identifying underlying medical causes of pediatric obesity: Results of a systematic diagnostic approach in a pediatric obesity center. PloS one, 15(5), e0232990. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0232990

Lin, X. og Li, H. (2021). Obesity: Epidemiology, pathophysiology, and therapeutics. Frontiers in Endocrinology, 12, 706978. https://doi.org/10.3389/fendo.2021.706978

Lobstein, T., Baur, L. og Uauy, R. (2004). Obesity in children and young people: A crisis in public health. Obesity Reviews, 5(s1), 4-85. https://doi. org/10.1111/j.1467-789X.2004.00133.x

Magnús Ólafsson, Kjartan Ólafsson, Kristján M. Magnússon og Rósa Eggertsdóttir. (2003). Þyngd skólabarna og tengsl hennar við líðan og námsárangur. Læknablaðið, 89, 767-775.

Masood, B. og Moorthy, M. (2023). Causes of obesity: a review. Clinical Medicine, 23(4), 284291. https://doi.org/10.7861/clinmed.2023-0168

Newson, L., Sides, N. og Rashidi, A. (2024). The psychosocial beliefs, experiences and expectations of children living with obesity. Health Expectations, 27(1). https://doi. org/10.1111/hex.13973

Pas, K. G., Krom, M. A., Winkens, B., François M.H. og Vreugdenhil, A. C. E. (2023). Health-related quality of life in children and adolescents with overweight, obesity, and severe obesity: A cross-sectional study. Obesity Facts, 16(3), 282-292. https://www. proquest.com/scholarly-journals/health-related-quality-life-children-adolescents/ docview/2900327906/se-2

Peng, L., Wu, S., Zhou, N., Zhu, S., Liu, Q. og Li, X. (2021). Clinical characteristics and risk factors of nonalcoholic fatty liver disease in children with obesity. BMC Pediatrics, 21, 1-8. https://doi.org/10.1186/s12887-021-02595-2

Putra, I. G., Daly, M. og Robinson, E. (2024). Psychological well-being and the reversal of childhood overweight and obesity in the UK: A longitudinal national cohort study. Obesity, 32(12), 2354-2363. https://doi.org/10.1002/oby.24147

Shaban Mohamed, M. A., AbouKhatwa, M. M., Saifullah, A. A., Hareez Syahmi, M., Mosaad, M., Elrggal, M. E., Dehele, I. S. og Elnaem, M. H. (2022). Risk factors, clinical consequences, prevention, and treatment of childhood obesity. Children, 9(12), 1975. https://doi.org/10.3390/children9121975

Trandafir, L. M. og Temneanu, O. R. (2016). Pre- and post-natal risk and determination of factors for child obesity. Journal of Medicine and Life, 9(4), 386–391.

Umboðsmaður barna. (2009, desember). Nýr vefur um heilsu: 6h. https://www.barn.is/ frettir/nyr-vefur-um-heilsu:-6h#

Van Vuuren, C. L., Wachter, G. G., Veenstra, R., Rijnhart, J. J. M., Van Der Wal, M. F., Chinapaw, M. J. M. og Busch, V. (2019). Associations between overweight and mental health problems among adolescents, and the mediating role of victimization. BMC Public Health, 19 (612). https://dx.doi.org/10.1186/s12889-019-6832-z

Vourdoumpa, A., Paltoglou, G., Manou, M., Mantzou, E., Kassari, P., Papadopoulou, M., Kolaitis, G. og Charmandari, E. (2024). Improvement in symptoms of depression and anxiety and cardiometabolic risk factors in children and adolescents with overweight and obesity following the implementation of a multidisciplinary personalized lifestyle intervention program. Nutrients, 16(21). https://doi.org/10.3390/nu16213710

World Health Organization. (2021, júní). Obesity and overweight. https://www.who.int/ news-room/fact-sheets/detail/obesity-and-overweight

World Health Organization. (2017, október). Tenfold increase in childhood and adolescent obesity in four decades: new study by Imperial College London and WHO https://www.who.int/news/ item/11-10-2017-tefold increase-in-childhood-andadolescentobesity-in-four-decades-new-study-by-imperial-college-london-and-who Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (e.d.-a). Skimanir. https://throunarmidstod.is/ svid-thih/heilsuvernd-skolabarna/skimanir/#Flipi2 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (e.d.-b). Offita hjá börnum og unglingum –leiðbeiningar fyrir heilsugæslu. https://throunarmidstod.is/leidbeiningar/ offita-hja-bornum-og-unglingum-leidbeiningar-fyrir-heilsugaeslu/

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (e.d.-c). Viðtal um heilsu og líðan –leiðbeiningar fyrir skólahjúkrunarfræðinga 2024. https://throunarmidstod.is/library/ Laest-efni/Vi%c3%b0tal%20um%20heilsu%20og%20 l%c3%ad%c3%b0an-%20Lei%c3% b0beiningar%20fyrir%20sk%c3%b3lahj%c3%bakrunarfr%c3%a6%c3%b0inga%20 -haust2024.pdf

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (2023). Heilsuvernd skólabarna Ársskýrsla 20222023. [Óútgefin skýrsla].

Snerting við náttúruna og endurnærandi áhrif hennar á fullorðna Íslendinga:

Lýðgrunduð þversniðsrannsókn

doi: 10.33112/TH.0101.3.2

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Á síðustu árum hefur streita hér á landi aukist, einkum meðal kvenna. Sýnt hefur verið fram á endurnærandi áhrif náttúrunnar á heilsu en lítið er vitað um þessi áhrif út frá lýðfræðilegum þáttum. Megintilgangur þessarar rannsóknar var því að skoða hvort það væri munur á upplifun af snertingu við náttúruna og endurnærandi áhrifum hennar út frá kyni, menntun og búsetu.

Aðferð

Rannsóknin er lýðgrunduð þversniðsrannsókn. Hún er hluti af fjölþjóðlegri rannsókn í 65 löndum. Hér er stuðst við íslensk gögn rannsóknarinnar. Rafrænn spurningalisti var sendur til 946 Íslendinga 18 ára og eldri sem voru hluti af netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Unnið var með mælitækin Snerting við náttúruna (Nature Exposure Scale= NES) og Endurnærandi áhrif náttúrunnar (Restoration Outcome Scale= ROS-9). Gagnagreining byggðist á fylgniprófum, tilgátuprófunum og línulegri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður

Svörun var 57%. Þátttakendur voru 19-93 ára; meðalaldur 54,3 ár. Konur voru 52%, 57% þátttakenda háskólamenntaðir og 57% bjuggu á höfuðborgarsvæðinu. Við mælingu á NES kom fram marktækur munur á menntun og búsetu en ekki eftir kyni. Í daglegu lífi voru þeir sem bjuggu utan höfuðborgarsvæðisins í meiri snertingu við náttúruna (p=0,001) og tóku meira eftir henni (p<0,05) en þeir sem bjuggu í höfuðborginni. Utan daglegs umhverfis voru háskólamenntaðir oftar í snertingu við náttúruna en minna menntaðir (p<0,001). Það gilti líka um þá sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu borið saman við þá sem bjuggu utan þess (p=0,005). Endurnærandi áhrif af náttúrunni voru upplifuð marktækt meira af konum en körlum (p<0,05) og háskólamenntuðum einstaklingum miðað við minna menntaða (p<0,05), en ekki var marktækur munur eftir búsetu. Línuleg aðhvarfsgreining sýndi að kyn, menntun og snerting við náttúruna skýrðu 35% af endurnærandi áhrifum náttúrunnar (R2=0,35).

Ályktanir

Niðurstöður benda til þess að mikilvægt sé að tryggja fólki aðgang að náttúrusvæðum. Hjúkrunarfræðingar þurfa að vera meðvitaðir um endurnærandi áhrif náttúrunnar sem viðbót við heilsueflandi meðferðir fyrir skjólstæðinga sína.

Lykilorð

Snerting við náttúruna, endurnærandi áhrif náttúrunnar, kyn, menntun, búseta

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Nýjungar: Rannsóknin er líklega fyrsta sinnar tegundar á Íslandi sem er lýðgrunduð og skoðar snertingu við náttúruna og endurnærandi áhrif náttúrunnar út frá kyni, menntun og búsetu.

- Rannsóknin bendir til mikilvægi þess að hvetja fólk til meiri og tíðari útiveru, sérstaklega karla og minna menntaðra einstaklinga.

Hagnýting: Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar nýti niðurstöður til að hvetja skjólstæðinga sína til útiveru í náttúrulegu umhverfi til að stuðla að endurnærandi áhrifum og streitulosun.

Þekking: Rannsóknin bætir við þekkingu um endurnærandi áhrif náttúrunnar sem vinnur gegn streitu og getur nýst sem viðbótarmeðferð í hjúkrunarfræði.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Hjúkrunarfræðingar geta hagnýtt niðurstöður rannsóknarinnar til fræðslu og ráðgjafar um endurnærandi áhrif náttúrunnar.

Höfundar

DR. SÓLEY SESSELJA BENDER

prófessor emerita1

VIKTORÍA SIF VIÐARSDÓTTIR

fyrrverandi M.S.-nemi1

DR. BRYNJA ÖRLYGSDÓTTIR

prófessor1

1 Háskóli Íslands, Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild

Snerting við náttúruna og endurnærandi áhrif hennar á fullorðna Íslendinga: Lýðgrunduð

þversniðsrannsókn

INNGANGUR

Frá upphafi lifði mannkynið í nánum tengslum við náttúruna en aðgengi að náttúrlegu umhverfi í daglegu lífi hefur minnkað samhliða breytingum á samfélaginu og örri uppbyggingu borga. Íslenskt samfélag, einkum í borgum, einkennist af meiri hraða, hávaða og stöðugum áreitum sem hefur skapað meiri streitu, einkum hjá konum (embætti landslæknis, 2024). Streita er eðlileg í hæfilegu magni en þegar hún verður langvarandi þá getur hún haft neikvæð áhrif á heilsu svo sem minni, vitræna getu, ónæmiskerfið sem gerir fólk útsettara fyrir sjúkdómum auk áhrifa á innkirtlastarfsemi, meltingarfæri og hjarta og æðakerfi (Yaribeygi, o.fl., 2017). Einkenni streitu geta verið margvísleg og má þar nefna erfiðleika við að slaka á, einbeita sér, vera pirraður, auk líkamlegra einkenni eins og höfuð- og magaverk (WHO, 2023).

Um þessa rannsókn og kenningarlegan bakgrunn

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna snertingu við náttúruna og endurnærandi áhrif hennar meðal fullorðinna Íslendinga. Snerting við náttúruna (e. nature exposure) á hér við um að vera úti í náttúrunni í daglegu lífi og utan daglegs umhverfis. Náttúrulegt umhverfi í borgum eða utan þeirra geta meðal annars verið plöntur, fjöll, strendur, ár, lækir og sjór. Einnig er skoðað hversu mikil snertingin er við náttúruna í daglegu lífi og hversu oft utan daglegs umhverfis. Jafnframt er skoðað hversu mikið og vel er tekið eftir náttúrunni bæði í daglegu lífi og utan daglegs umhverfis. Endurnærandi áhrif náttúrunnar (e. restoration) miðast hér við síðustu heimsókn viðkomandi út í náttúruna. Sömu náttúrulegu svæðin voru lögð til grundvallar og við mælingu á snertingu við náttúruna. Skoðuð voru níu atriði um endurnærandi áhrif náttúrunnar: 1) Verða rólegri; 2) verða endurnærður og upplifa slökun; 3) öðlast nýjan styrk; 4) meiri einbeiting og árvekni; 5) gleyma daglegu amstri; 6) öðlaðist skýrari hugsun; 7) aukinn lífskraftur og orka; 8) öðlast trú á framtíðina og 9) aukið sjálfstraust. Spurt var um hversu mikið einstaklingurinn upplifði þessa endurnærandi þætti. Miðað við áherslur þessarar rannsóknar þá fellur hún innan ramma kenningar um streitulosun eða Stress Reductiony Theory (SRT) sem snýst um að snerting við náttúruna geti skapað líkamlega og sálræna streitulosun (Ulrich, 2023). Kenningin gengur út að snerting við náttúruna dragi úr streitu sem eflir vitræna starfsemi og athygli og stuðli þannig að bættu heilsufari (Ulrich, 2023). Þeir einstaklingar sem upplifa endurnærandi áhrif eftir snertingu við náttúruna geta betur tekist á við mikla þreytu og streitu (Ulrich, 2023). Þau atriði sem skoðuð eru í þessari rannsókn til að meta endurnærandi áhrif náttúrunnar endurspegla hið gagnstæða við einkenni streitu eins og erfiðleika með slökun og einbeitingu. Samkvæmt kenningunni ættu þeir að njóta besta afraksturs af því að vera í snertingu við náttúruna sem upplifa mikla streitu en þó einnig þeir sem upplifðu minni streitu. Þannig ættu þessir endurnærandi þættir sem hér eru skoðaðir að vera þess eðlis að fyrirbyggja eða skapa ákveðið viðnám gegn streitu. Þeir sem fá há stig á atriðunum sem mæla ROS-9 ættu því að hafa meira viðnám gegn streitu og eiga þá auðveldar með að ráða við hana. Samkvæmt rannsókn Boltivets og félaga (2021) voru þeir sem höfðu viðnám gegn streitu í jafnvægi, sjálfsöruggari, höfðu meiri sjálfstjórn og upplifðu lítil streitu- og kvíðaeinkenni.

Endurnærandi áhrif náttúrunnar

Sýnt hefur verið fram á margvísleg jákvæð áhrif náttúrunnar á líkama og sál (Jimenez, o.fl., 2021; Nejade, o.fl., 2022). Má þar nefna að snerting við náttúruna lækkaði blóðþrýsting, dró úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, hafði bætandi áhrif á svefn og ónæmiskerfið, veitti vernd gegn þunglyndi, bætti tilfinningalegt ástand og dró úr kvíða auk þess að bæta vitræna getu (Jimenez, o.fl., 2021). Niðurstöður Nejade og félaga sýndu einnig fram á viðtæk áhrif náttúru á heilsu, meðal annars á sálræna líðan og vitræna getu. Í íslenskri rannsókn sem skoðaði skynjaða streitu, hafði ganga úti í náttúrunni betri áhrif á hugarástand en ganga innandyra eða áhorf á myndband um náttúruna (Ólafsdóttir o.fl., 2020). Jafnframt kom fram í rannsókn Payne og félaga (2020) að streita minnkaði verulega hjá tilraunahóp sem dvaldi í ákveðinn tíma úti í náttúrunni en nánast ekkert hjá samanburðarhóp sem var ekki úti í náttúrunni. Auk áhrifa á streitulosun þá geta endurnærandi áhrif náttúrunnar falist í því að róa hugann og bæta athygli. Rannsókn hér á landi meðal sjö einstaklinga sem glímdu við streitutengdan vanda sýndi fram á betri líðan, í kjölfar kyrrðargöngu í náttúrunni, sem kom fram í hugarró og betri einbeitingu (Hervör Arna Árnadóttir, o.fl., 2023). Það kom jafnframt fram meðal þátttakenda í rannsókn Djernis og félaga (2023) sem lýstu hugarró þegar þeir vörðu tíma úti í náttúrunni, sérstaklega nálægt vatni og grænum svæðum. Einnig hefur það eitt að taka eftir náttúrunni áhrif á athygli (Kaplan, 1995; Tennessen og Cimorich, 1996) og að vera úti í náttúrunni hjálpar að öðlast betri athygli í námi og starfi (Djernis o.fl., 2023). Að auki hefur komið fram betri athygli hjá þeim sem eru í snertingu við náttúruna í náttúrulegu umhverfi borið saman við umhverfi borga (Jimenez o.fl., 2021).

Lýðfræðilegir þættir Í þessari rannsókn er snerting við náttúruna og endurnærandi áhrif hennar skoðuð út frá lýðfræðilegu þáttunum, kyni, menntun og búsetu. Þessir þættir hafa að takmörkuðu leyti verið rannsakaðir og á það sérstaklega við um menntunarstig. Niðurstöður varðandi kynjamun hafa í ýmsum tilvikum verið ósamhljóma um það hvort konur eða karlar fari meira út í náttúruna og/eða upplifi endurnærandi áhrif hennar. Boyd og félagar (2018) greindu frá því að karlar færu oftar út í náttúruna en konur, á meðan Colley og félagar (2022) sýndu fram á að það færi eftir aldri hvort konur eða karlar færu meira út í náttúruna. Samkvæmt rannsókn Jarvis og félaga (2020) greindu karlar sem höfðu aðgengi að grænum svæðum síður frá lélegri heilsu en konur. Fram hefur komið að konur væru tengdari náttúrunni en karlar (Rosa o.fl., 2020). Jafnframt voru þær virkari í útivist á grænum svæðum í borgum en karlar og upplifðu meiri vellíðan en karlar (Sang o.fl., 2016). Auk þess sýna rannsóknir að útivist kvenna hafi meiri áhrif á streitulosun en meðal karla (Bornioli o.fl., 2024). Það virðist lítið hafa vakið athygli rannsakenda hvernig fólk með mismikla menntun leitast eftir snertingu við náttúruna eða upplifir endurnærandi áhrif hennar. Þó var í rannsóknum Baceviciene og félaga (2021) og van den Berg og félaga (2010) spurt um menntun en megingagnagreining var ekki eftir menntunarstigi. Að auki virðast rannsóknir á þessu sviði lítt greina gögn eftir búsetu en þó með nokkrum undantekningum. Rannsóknir Baceviciene og félaga (2021) og Colley og félaga (2022) voru samhljóma með að þeir sem bjuggu á dreifbýlli svæðum væru meira úti í náttúrunni miðað við þá sem bjuggu í borgum. Græn svæði í borgum hafa nokkuð verið skoðuð og sýnt hefur verið fram á endurnærandi áhrif þeirra (Bornioli o.fl., 2024) en niðurstöður Jarvis og félaga (2020) studdu þó ekki þær niðurstöður.

Íslenskar aðstæður og þörf á frekari rannsóknum Íslendingar búa í einstöku landi með óteljandi náttúruperlum. Undanfarin ár hafa rannsakendur í auknum mæli borið kennsl á mikilvægi náttúrunnar og er umræðan um áhrif hennar að verða sífellt meira áberandi hér á landi (Hervör Alma Árnadóttir o.fl., 2023; Ólafsdóttir o.fl., 2020). Það er hins vegar þörf á rannsóknum hér sem skoða snertingu við náttúruna og endurnærandi áhrif hennar út frá lýðfræðilegum þáttum eins og kyni, menntun og búsetu. Slík lýðfræðileg nálgun er mikilvæg hjúkrunarfræðingum til að vita betur hverjir þurfi meira á því að halda að vera úti í náttúrunni og njóta endurnærandi áhrifa hennar.

Mikilvægt er að skoða hvort konur, í samanburði við karla, fólk með mismikla menntun og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess, fari meira eða oftar út í náttúruna og upplifi endurnærandi áhrif hennar. Slíkar rannsóknir geta gefið betri heildarsýn yfir það hvernig þessir hópar upplifa snertingu við náttúruna og áhrif hennar. Þessi rannsókn miðast við að þátttakandi svari spurningum út frá því að vera staddur í náttúrulegu umhverfi og er bæði grennslast fyrir um hversu mikið og hversu oft snerting við náttúruna á sér stað. Í byrjun þótti nauðsynlegt að rannsaka tengsl á milli mælitækjanna Snerting við náttúruna og Endurnærandi áhrif náttúrunnar, til að meta gæði þeirra því ekki eru tiltækar niðurstöður um það hér á landi. Megintilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort munur væri á snertingu við náttúruna og upplifun af endurnærandi áhrifum hennar út frá kyni, menntun og búsetu.

AÐFERÐ

Rannsóknarsniðið sem var stuðst við er lýðgrunduð þversniðsrannsókn (Polit og Beck, 2021). Rannsóknin var fjölþjóðleg og var framkvæmd á sama tíma í 65 löndum síðla árs 2021 og fylgdu rannsakendur sömu viðmiðum við framkvæmd hennar. Þær niðurstöður sem hér er greint frá byggjast á íslenska hluta rannsóknarinnar.

Úrtak

Tekið var lagskipt tilviljanaúrtak 946 einstaklinga úr netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Lagskipting úrtaksins var eftir kyni, aldri og búsetu. Netpanellinn byggist á 10.449 einstaklingum sem valdir voru með tilviljanaúrtaki úr þjóðskrá. Panellinn endurspeglar dreifingu kyns, aldurs, búsetu og menntunar sem líkust því sem er meðal allra landsmanna 18 ára og eldri.

Mælitæki

Snerting við náttúruna (e. Nature Exposure Scale, NES)

NES-mælitækið var þróað af áströlskum sálfræðingi, Andrew J.P. Francis (Francis, 2011). Það skoðar með sjálfsmatskvarða hversu mikla og hversu oft einstaklingur telur sig vera í snertingu við náttúruna á 5 stiga Likert-kvarða þar sem svarkostirnir eru frá 1=Lítið/Sjaldan og upp í 5=Mikið/Oft (Kamitsis og Francis, 2013). Hærri mælingar segja til um meiri eða tíðari snertingu við náttúruna. Mælitækið inniheldur alls fjórar spurningar. Fyrri tvær spurningarnar eiga við um daglegt líf einstaklingsins og varða hversu mikla snertingu einstaklingur hefur við náttúruna og hversu vel viðkomandi tekur eftir náttúrunni. Seinni tvær spurningarnar eiga við um atriði utan dagslegs umhverfis og skoða hversu oft einstaklingur er í snertingu við náttúruna og hversu vel viðkomandi tekur eftir náttúrunni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að mælitækið er áreiðanlegt (ɑ=0,73) (Swami o.fl., 2020; Wood o.fl., 2019). Mælitækið var þýtt á íslensku og bakþýtt af fyrsta og þriðja höfundi þessar greinar og var innri áreiðanleiki þess ɑ=0,73.

Endurnærandi áhrif náttúrunnar (e. Restoration OutcomeSscale, ROS)

ROS-mælitækið var þróað af Kalevi Korpela, prófessor í sálfræði við háskólann í Tampere í Finnlandi, en sú þróunarvinna byggði á fyrri rannsóknum varðandi endurnærandi áhrifum náttúrunnar (Hartig o.fl., 1998; Kaplan o.fl., 1993; Staats o.fl., 2003). Það innihélt upprunalega aðeins sex spurningar (Korpela o.fl., 2008) en seinna var þremur spurningum bætt við sem meta jákvæða lífsorku og sjálfsöryggi (Korpela og Ylén, 2009). Útgáfan af ROS-mælitækinu sem notuð var í þessari rannsókn samanstendur af níu spurningum (ROS-9) sem meta endurnærandi áhrif náttúrunnar út frá síðustu heimsókn út í náttúruna. Þrjár spurningar leggja mat á slökun og ró (e. relaxation and calmness), ein metur endurheimt athygli (e. attention restoration), tvær meta hreinsun hugans (e. clearing one‘s thoughts), tvær meta jákvæða lífsorku (e. subjective vitality) og ein sjálfsöryggi (e. self confidence) (Ojala o.fl., 2019; Pasanen o.fl., 2018a). Allar spurningar ROS-9-mælitækisins eru á 7 stiga Likert-kvarða þar sem 1=Alls ekki og 7=Algjörlega. Hærri gildi vísa til meiri endurnærandi áhrifa náttúrunnar. Mælitækið hefur reynst áreiðanlegt (ɑ=0,90-0,96) (Baceviciene og Jankauskiene, 2022; Korpela og Ylén, 2009). Fyrsti og þriðji höfundur þessarar greinar þýddu mælitækið úr ensku og bakþýddu og var innri áreiðanleiki mælitækisins ɑ=0,96

Framkvæmd

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sá um framkvæmd könnunarinnar og sendi rafrænan spurningalista á 946 þátttakendur. Gagnasöfnun fór fram síðla árs 2021. Gögn voru skráð í forritið SPSS (27. útgáfa). Gagnagreining fór fram með SPSS-útgáfu 29.0.1.0 og RStudio 2023.06.1.

Gagnagreining

Greining á gögnum fólst í lýsandi tölfræði á bakgrunnsupplýsingum þátttakenda. Gerð voru Spearman-fylgnipróf, tilgátuprófanir með t-prófum óháðra hópa og línuleg aðhvarfsgreining og leiðrétt fyrir vöntun mælinga. Fylgnipróf voru gerð á NES og ROS-9. Tilgátuprófanir varðandi NES og ROS-9 voru gerðar með t-prófum tveggja óháðra hópa út frá á kyni, menntun og búsetu. Línuleg aðhvarfsgreining var gerð á frumbreytunum; aldri, kyni, menntun, búsetu, snertingu við náttúru í daglegu lífi (SNDL), tekið eftir náttúrunni í daglegu lífi (TNDL), snertingu við náttúruna utan daglegs umhverfis (SNUDU) og tekið eftir náttúru utan daglegs umhverfis (TNUDU). Skoðað var hversu vel þessar frumbreytur skýrðu út fylgibreytuna um endurnærandi áhrif náttúrunnar (ROS-9). Varðandi tilgátuprófanir fékk kynjabreytan gildið 1 fyrir konur og 2 fyrir karla. Menntun var flokkuð í tvo flokka, annars vegar þá sem höfðu lokið grunn- og framhaldsskóla og hins vegar þá sem höfðu lokið háskólanámi. Búsetubreytan sem var í fjórum liðum var sett í tvo flokka, annars vegar höfuðborgarsvæðið (höfuðborgin og úthverfi höfuðborgarinnar) og hins vegar utan höfuðborgarsvæðisins (bær með >10.000 íbúa og dreifbýli).

Varðandi aðrar breytur línulegrar aðhvarfsgreiningar var aldur settur fram í árum og breytur NES-mælitækisins (SNDL, TNDL, SNUDU og TNUDU) héldu sínum tölulegum gildum á Likert-kvarða 1-5. Allar níu spurningar ROS-9 voru sameinaðar í eina breytu fyrir fylgnipróf og aðhvarfsgreiningu.

Siðfræði Vísindasiðanefnd gaf leyfi fyrir rannsókninni (VSNb2021020056/03.01). Í kynningarbréfi til þátttakenda kom fram að ef þeir svöruðu spurningalistanum jafngilti það upplýstu samþykki.

NIÐURSTÖÐUR

Alls svöruðu 57% (n=540) þátttakendur könnuninni og voru þeir á aldrinum 19-93 ára. Meðalaldur var um 54 ára og var kynjahlutfall nokkuð jafnt. Meirihluti þátttakenda var með háskólamenntun (57,5%). Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 57% (tafla 1).

Tafla 1. Bakgrunnur þátttakenda

Öll atriðin sem voru skoðuð varðandi NES (SNDL, SNUDU, TNDL og TNUDU) höfðu marktæka jákvæða fylgni (r=.24-.55) við samsetta breytu varðandi ROS-9 (tafla 2).

Tafla 2. Fylgni á milli snertingar við náttúruna (NES) og endurnærandi

Spearmann fylgnistuðull, ***p<0,0001

SNDL= Snerting við náttúru í daglegu lífi. TNDL= Tekið eftir náttúrunni í daglegu lífi. SNUDU= Snerting við náttúruna utan daglegs umhverfis. TNUDU=Tekið eftir náttúru utan daglegs umhverfis

Snerting við náttúruna (NES)

Skoðaður var munur á snertingu við náttúruna eftir kyni, menntun og búsetu (tafla 3). Fjögur atriði NES voru skoðuð og í ljós kom að það var ekki marktækur munur á neinu þeirra eftir kyni. Aðeins eitt atriði (SNUDU) af fjórum sýndi fram á marktækan mun eftir menntun (t(372,4)=-4,562, p<0,001). Þeir sem voru með háskólapróf miðað við þá sem höfðu minni menntun voru oftar í snertingu við náttúruna utan síns daglega umhverfis. Varðandi búsetu var marktækur munur á þremur atriðum. Þeir sem bjuggu utan höfuðborgarsvæðisins sögðust vera í meiri snertingu við náttúruna í daglegu lífi (SNDL) (t(401,35)=4,107, p=0,001) og tóku betur eftir umhverfi sínu (TNDL) (t(430,24)=2,096, p<0,05) en þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar sögðust þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu vera oftar í snertingu við náttúruna utan daglegs umhverfis (SNUDU) (t(428,98)=-2,826, p=0,005) en þeir sem bjuggu utan höfuðborgar.

Tafla 3. Snerting við náttúruna (NES) eftir kyni, menntun og búsetu

Magn snertingar við náttúruna í daglegu lífi (SNDL)

Kyn

Menntun

Búseta

M (SF)t-próf p-gildi

KK2,65 (1,23)(441,82) = 0,2770,781

KVK 2,62 (1,19)

Grunn- og framhaldssk. 2,60 (1,30)(368,91) = -0,640,516

Háskóli2,67 (1,16)

Höfuðborg2,42 (1,11)(401,35) = 4,107 0,001

Utan höfuðborgar 2,89 (1,27)

Tekið eftir náttúrunni í daglegu lífii (TNDL)

Kyn

Menntun

Búseta

KK4,02 (1,03) (432,11) =-0,553 0,578

KVK 4,07 (0,94)

Grunn- og framhaldssk. 4,07 (0,97)(400,81) = 0,1600,873

Háskóli4,05 (1,0)

Höfuðborg3,96 (0,97)(430,24) = 2,0960,037

Utan höfuðborgar 4,15 (0,98)

Tíðni snertingar við náttúru utan daglegs umhverfis (SNUDU)

Kyn

Menntun

Búseta

KK3,94 (1,12)(453,3) = 1,2430,217

KVK 3,81 (1,22)

Grunn- og framhaldssk. 3,55 (1,22)(372,4) = -4,562<0,001

Háskólamenntun 4,08 (1,11)

Höfuðborg4,01 (1,16) (428,98) =-2,826 0,005

Utan höfuðborgar 3,70 (1,17)

Tekið eftir náttúrunni utan daglegs umhverfis (TNUDU)

Kyn

Menntun

Búseta

KK4,25 (0,97)(438) = -1,2950,194

KVK 4,37 (0,92)

Grunn- og framhaldssk. 4,22 (1,0) (372,09) =-1,728 0,080

Háskólamenntun 4,38 (0,91)

Höfuðborg4,32 (0,93) (427,11) =-0,087 0,931

Utan höfuðborgar 4,31 (0,95)

M=Meðaltal, SF=Staðalfrávik

Endurnærandi áhrif náttúrunnar (ROS-9)

Endurnærandi áhrif náttúrunnar voru skoðuð út frá níu atriðum. Hæstu meðaltöl mældust varðandi hugarró og endurnæringu/ slökun (tafla 4). Þátttakendur upplifðu öll níu atriði ROS-9-mælitækisins jákvæð (meðaltal >4) eftir heimsókn út í náttúruna. Skoðuð voru endurnærandi áhrif náttúrunnar eftir kyni, menntun og búsetu. Niðurstöður sýndu að konur upplifðu öll níu atriðin, sem mældu endurnærandi áhrif náttúrunnar, marktækt meira en karlar (p<0,05). Þegar endurnærandi áhrif náttúrunnar voru skoðuð út frá menntun kom í ljós að marktækur munur var á öllum

Tafla 4. Endurnærandi áhrif náttúrunnar (ROS) eftir kyni, menntun og búsetu M (SF)t-próf p-gildi

Í síðustu heimsókn minni út í náttúruna … Varð ég rólegri

Kyn

Menntun

Búseta

KK5,41 (1,51)426,9=-3,0440,002

KVK 5,81 (1,33)

Grunn- og framhaldssk. 5,42 (1,53)367,77=-2,4570,013

Háskóli5,77 (1,35)

Höfuðborg5,56 (1,46)438,43=1,0290,306

Utan höfuðborgar 5,70 (1,40)

Varð ég endurnærð/t/ur og upplifði slökun

Kyn

Menntun

Búseta

KK5,41 (1,46)440,8=-2,6960,007

KVK 5,77 (1,40)

Grunn- og framhaldssk. 5,38 (1,50)373,09=-2,9570,003

Háskólamenntun 5,80 (1,36)

Höfuðborg5,57 (1,43)428,74=0,4920,623

Utan höfuðborgar 5,64 (1,45)

Fékk ég nýjan styrk til að takast á við dagleg störf

Kyn

Menntun

Búseta

KK5,01 (1,65)435,48=-2,9880,003

KVK 5,46 (1,53)

Grunn- og framhaldssk. 4,92 (1,69(368,07=-3,8600,001

Háskólamenntun 5,53 (1,50)

Höfuðborg5,19 (1,59)428,36=0,8290,407

Utan höfuðborgar 5,32 (1,61)

Einbeiting mín og árvekni jókst

Kyn

Menntun

Búseta

KK4,77 (1,64)438,07=-2,7400,006

KVK 5,18 (1,55)

Grunn- og framhaldssk. 4,70 (1,67)375,13=-3,5600,001

Háskólamenntun 5,26 (1,53)

Höfuðborg4,91 (1,57)420,51=1,2400,213

Utan höfuðborgar 5,09 (1,65)

Gleymdi ég daglegu amstri

KK5,06 (1,77)417,33=-2,1190,033

Kyn

Menntun

Búseta

KVK 5,39 (1,50)

Grunn- og framhaldssk. 4,89 (1,83)324,56=-4,3990,001

Háskólamenntun 5,59 (1,35)

Höfuðborg5,20 (1,64)432,91=0,5730,567

Utan höfuðborgar 5,29 (1,63)

M=Meðaltal, SF=Staðalfrávik

Tafla 4. Endurnærandi áhrif náttúrunnar (ROS) eftir kyni, menntun og búsetu frh. M (SF)t-próf p-gildi

Í síðustu heimsókn minni út í náttúruna … Varð hugsun mín skýrari

Kyn

Menntun

Búseta

KK4,85 (1,71)416,53=-2,1930,027

KVK 5,18 (1,44)

Grunn- og framhaldssk. 4,78 (1,69)365,07=-3,0810,002

Háskóli5,26 (1,48)

Höfuðborg4,99 (1,53)418,12=0,5400,587

Utan höfuðborgar 5,07 (1,63)

Lífskraftur minn og orka jókst

Kyn

Menntun

Búseta

KK4,91 (1,71)430,04=-2,1360,0032

KVK 5,23 (1,54)

Grunn- og framhaldssk. 4,76 (1,71)368,99=-3,9530,001

Háskólamenntun 5,39 (1,52)

Höfuðborg5,10 (1,55)408,56=-0,2520,798

Utan höfuðborgar 5,06 (1,72)

Fékk ég trú á framtíðina

Kyn KK4,18 (1,88)423,26=-3,0920,002

KVK 4,70 (1,63)

Grunn- og framhaldssk. 4,21 (1,88)367,46=-3,0560,002

Menntun

Búseta

Háskólamenntun 4,74 (1,67)

Höfuðborg4,37 (1,73)422,25=1,2420,212

Utan höfuðborgar 4,57 (1,81)

Jókst sjálfstraust mitt

Kyn

Menntun

Búseta

Kyn

Menntun

Búseta

KK4,35 (1,78)439,43=-2,0130,044

KVK 4,68 (1,70)

Grunn- og framhaldssk. 4,28 (1,86)370,12=-2,8020,005

Háskólamenntun 4,77 (1,66)

Höfuðborg4,42 (1,71)423,3=1,4160,156

Utan höfuðborgar 4,65 (1,78)

Heildarskor ROS eftir kyni, menntun og búsetu

KK43,95 (13,22)431,99= -2,9010,004

KVK 47,40 (12,03)

Grunn- og framhaldssk. 43,33 (13,47)365,22 = -3,8180.001

Háskólamenntun 48,11 (11,82)

Höfuðborg45,30 (12,41)420,69= 0,9050,363

Utan höfuðborgar 46,40 (13,07)

M=Meðaltal, SF=Staðalfrávik

níu atriðunum (p <0,05). Þeir sem höfðu háskólamenntun borið saman við þá sem höfðu minni menntun upplifðu marktækt meiri

endurnærandi áhrif náttúrunnar. Einnig voru endurnærandi áhrif náttúrunnar skoðuð eftir búsetu. Enginn marktækur mundur var á neinu þeirra.

Frumbreyturnar aldur, kyn, menntun, búseta, SNDL, TNDL, SNUDU og TNUDU voru settar upp í línulega aðhvarfsgreiningu með fylgibreytunni upplifun á endurnærandi áhrifum náttúrunnar (samsett ROS-9-breyta) (tafla 5). Línuleg aðhvarfsgreining sýndi að þetta aðhvarfslíkan var marktækt og spáði fyrir um 35% af upplifuðum áhrifum náttúrunnar (R2=0,353, F(8, 416)=29,803, p<0,001). Það voru breyturnar kyn, menntun, SNDL, SNUDU og TNUDU sem marktækt skýrðu upplifun á endurnærandi áhrifum náttúrunnar. Það þýðir að konur frekar en karlar, fólk með meiri menntun, þeir sem voru í meiri snertingu við náttúruna í daglegu lífi og oftar utan daglegs umhverfis og þeir sem tóku meira eftir náttúrunni utan dagslegs umhverfis voru mun líklegri að upplifa endurnærandi áhrif náttúrunnar. Umhverfi sem er utan daglegs umhverfis virðist áhrifameira en það umhverfi sem er í daglegu lífi fólks.

Tafla 5. Atriði sem skýra endurnærandi áhrif náttúrunnar (ROS)

B SVt-próf p-gildi

Skurðpunktur

2,790,535,25<0,001 TNUDU 3,470,744,72<0,001

a viðmið er KK, b viðmið er grunn- og framhaldsskólamenntun og c viðmið er utan höfuðborgar. B=Óstöðluð hallatala, SV=Staðalvilla hallatölu. F(8, 416)=29,80. R2= 0,35. SNDL=Snerting við náttúru í daglegu lífi. TNDL=Tekið eftir náttúrunni í daglegu lífi. SNUDU=Snerting við náttúruna utan daglegs umhverfis. TNUDU=Tekið eftir náttúru utan daglegs umhverfis.

UMRÆÐUR

Þessi rannsókn er líklega fyrsta lýðgrundaða rannsóknin hér á landi sem skoðar snertingu fullorðinna Íslendinga við náttúruna og endurnærandi áhrif hennar út frá lýðfræðilegu breytunum kyni, menntun og búsetu. Meginniðurstöður eru þær að þó ekki hafi verið kynjamunur á snertingu við náttúruna, þá greindu konur frá meiri endurnærandi áhrifum af náttúrunni en karlar og studdi aðhvarfsgreining þá niðurstöðu. Háskólamenntaðir þátttakendur voru meira í snertingu við náttúruna utan daglegs umhverfis og öll atriði sem mældu endurnærandi áhrif náttúrunnar voru sterkari hjá þeim heldur en minna menntuðum einstaklingum og staðfesti aðhvarfsgreining einnig þá niðurstöðu. Jafnframt kom í ljós að þátttakendur sem bjuggu utan höfuðborgarsvæðisins voru í meiri daglegri snertingu við náttúruna og tóku betur eftir henni heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins, sem voru þó hins vegar oftar í snertingu við náttúruna utan daglegs umhverfis. Það var ekki munur á endurnærandi áhrifum náttúrunnar eftir búsetu en aðhvarfsgreining sýndi hins vegar að þeir sem voru í meiri daglegri snertingu við náttúruna, voru oftar í snertingu við náttúruna og tóku meira eftir henni utan daglegs umhverfis voru mun líklegri að upplifa endurnærandi áhrif hennar. Rannsóknin varpar því ljósi á marga þætti varðandi endurnærandi áhrif náttúrunnar sem eru mikilvægir til að ráða við streitu samkvæmt kenningu um streitu-

Endurnærandi áhrif náttúrunnar

losun (Ulrich, 2023) og hafa líklega jákvæð áhrif á heilbrigði fólks (Jimenez, o.fl., 2021; Nejade, o.fl., 2022).

Þó að niðurstöður sýni engan mun á snertingu við náttúruna milli kynja, þá ber niðurstöðum annarra rannsókna ekki saman um það hvort og hvernig munur er milli kynja (Boyd o.fl., 2018; Jarvis o.fl., 2020; Sang o.fl., 2020). Hins vegar upplifa konur í þessari rannsókn meiri endurnærandi áhrif náttúrunnar en slíkur kynjamunur kom ekki fram í rannsókn Hartig og félaga (1998). Kynjamunur getur stafað af því að konur upplifi sig tengdari náttúrunni en karlar (Rosa o.fl., 2020) og útivist hefur meiri áhrif á streitulosun þeirra en karla (Bornioli, o.fl., 2024). Í íslensku samfélagi hafa konur greint frá meiri streitu en karlar (embætti landlæknis, 2024) og samkvæmt kenningu um streitulosun er talið að vænta megi meiri endurnærandi áhrifa frá náttúrunni þegar einstaklingurinn er að upplifa mikla streitu (Ulrich, 2023). Ekki er þó unnt að fullyrða um þetta samband þar sem óvíst er hversu mikla streitu konur í þessari rannsókn upplifðu.

Háskólamenntaðir þátttakendur rannsóknarinnar voru oftar í snertingu við náttúruna utan daglegs umhverfis og upplifðu meiri endurnærandi áhrif hennar en þeir sem voru með minni menntun. Það getur mögulega bent til betri vitundar um ávinning náttúrunnar meðal þeirra sem hafa meiri menntun, eða að þeir búi yfir meiri möguleikum til að vera í snertingu við náttúruna og skynja endurnærandi áhrif hennar. Þrátt fyrir ítarlega leit fundust ekki aðrar rannsóknir sem hafa skoðað þetta samband og varpa niðurstöður því nýju ljósi á mikilvægi menntunar til að geta notið þeirra hughrifa sem endurnærandi áhrif náttúrunnar fela í sér og skiptir máli fyrir streitulosun. Mikilvægt er að hafa þetta í huga í framtíðarrannsóknum.

Það kemur kannski ekki á óvart að þátttakendur utan höfuðborgarsvæðisins voru í meiri daglegri snertingu við náttúruna og tóku meira eftir henni en þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu og er það í samræmi við niðurstöður annarra rannsakenda (Baceviciene og Jankauskiene, 2022; Colley o.fl., 2022). Hins vegar voru íbúar á höfuðborgarsvæðinu oftar í snertingu við náttúruna utan daglegs umhverfis. Ástæðan fyrir því gæti verið vegna tímaleysis og takmarkaðs aðgangs að náttúrulegum svæðum innan borgarinnar sem þétting byggðar felur í sér. Ekki var munur á endurnærandi áhrifum náttúrunnar eftir búsetu sem er í samræmi við niðurstöður Baceviciene og Jankauskiene (2021). Þannig virðist ekki skipta máli hvar einstaklingurinn býr og möguleikum hans að skynja endurnærandi áhrifa náttúrunnar. Það átti einnig við um aldur.

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að endurnærandi áhrif náttúrunnar á fullorðna Íslendinga eru veruleg. Öll níu atriðin sem voru mæld voru með mælitækinu ROS-9, voru með meðaltal á bilinu 4,46-5,62 (ekki í töflu) en hæsta gildi hvers atriðis sem unnt var að fá var sjö. Þetta þýðir að öll þessi atriði voru upplifuð nokkuð mikið af þátttakendum þegar þeir fóru síðast út í náttúruna. Þau tvö atriði sem höfðu hæsta gildi voru hugarró og endurnæring/ slökun. Því má álykta að dvöl úti í náttúrunni þar sem eru til dæmis plöntur, fjöll, strendur, ár, lækir og sjór getur skapað hugarró og endurnæringu/slökun en það eru einmitt þessi atriði sem einkenna þá sem ekki eru með streitueinkenni. Þannig gefa þessar niðurstöður upplýsingar um mikilvæga þætti til að halda streitu í skefjum og kenningin um streitulosun leggur áherslu á (Ulrich, 2023). Niðurstöður styðja því fyrri rannsóknir um áhrif náttúru á hugarástand og má þar nefna rannsókn Djernis og félaga (2023) sem sýndi að hugarró skapist sérstaklega nálægt vatni og

grænum svæðum og að einstaklingar hafa greint frá töluverðri streitulosun við útiveru í þéttu skógarumhverfi (Chiang og Jane, 2017). Þó að þessi rannsókn nái ekki að segja til um tengsl á milli streitu og þess að upplifa endurnærandi áhrif náttúrunnar meðal annars með hugarró og slökun þá hafa rannsóknir sýnt að dvöl úti í náttúrunni minnki streitu hjá fólki (Payne o.fl., 2020). Því er líklegt að þau atriði sem voru mæld í þessari rannsókn til að meta endurnærandi áhrif náttúrunnar séu þess eðlis að veita visst viðnám gegn streitu (Boltivets o.fl., 2021) en staðfesta þarf það með frekari rannsóknum.

STYRKLEIKAR OG TAKMARKANIR RANNSÓKNAR

Helstu styrkleikar rannsóknarinnar felast í úrtaksaðferðinni sem endurspeglar þjóðfélagið með tilliti til dreifingu aldurs, kyns, búsetu, menntunar og tekna og er því lýðgrunduð rannsókn. Auk þess hefur viðfangsefni hennar lítt verið rannsakað hér á landi og skortir upplýsingar um menntunarstig í erlendum rannsóknum. Því bæta niðurstöðurnar við þekkingu á þessu sviði. Auk þess gefa próffræðilegar niðurstöður mælinga á mælitækjum NES og ROS-9 góðar vísbendingar um áreiðanleika og réttmæti þeirra. Rannsóknin byggir eingöngu á niðurstöðum þar sem þátttakendur sáu fyrir sér að vera í beinni snertingu við náttúruna. Helstu takmarkanir hennar felast í rannsóknarsniðinu en þversniðsrannsóknir eru líklegri til að skapa skekkju í svörum þátttakenda þar sem byggt er á sjálfsmatskvörðum. Einnig getur þversniðsrannsókn ekki sagt til um orsakasamband. Þar sem mælitækin mældu ekki streitu, sérstakar athafnir úti í náttúrunni (t.d. hlaup, göngur o.fl.) eða þann tíma sem var dvalið úti í náttúrunni var ekki unnt að segja til um þá þætti. Það er jafnframt mögulegt að gagnagreining hefði gefið aðrar niðurstöður með því að skoða þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar.

ÁLYKTANIR

Rannsóknin er líklega fyrsta sinnar tegundar á Íslandi sem er lýðgrunduð og skoðar snertingu- og endurnærandi áhrif náttúrunnar út frá kyni, menntun og búsetu. Fram kom að karlar og einstaklingar með minni menntun upplifðu síður endurnærandi áhrif náttúrunnar sem sýnir mikilvægi þess að stuðla að heilsueflingu þessara hópa með tilliti til aðgengis að náttúrusvæðum. Niðurstöður rannsóknarinnar eru að mörgu leyti í samræmi við erlendar rannsóknir en hún bætir við fyrri vitneskju með því að veita meiri upplýsingar eftir kyni, búsetu og sérstaklega menntun. Vert er að rannsaka frekar tengsl á milli streitu og þeirra breyta sem mæla endurnærandi áhrif náttúrunnar. Hjúkrunarfræðingar geta nýtt niðurstöður þessarar rannsóknar til að hvetja skjólstæðinga sína til meiri og tíðari útiveru sem er þeim til heilsueflingar.

ÞAKKARORÐ

Höfundar færa þeim þakkir sem tóku þátt í rannsókninni og lögðu þannig lóð á vogarskálarnar til frekari þekkingarsköpunar. Við þökkum jafnframt Sigurbjörgu Björnsdóttur fyrir að aðstoða við gagnagreiningu. Einnig þökkum við styrki frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og B-vísindasjóði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem gerði það kleift að framkvæma rannsóknina.

ENGLISH SUMMARY

Exposure to nature and its restorative effects on adult Icelanders: A population based cross-sectional study

ABSTRACT

Aim

In recent years, stress in Iceland has increased, especially among women. The restorative effect of nature has been demonstrated, but little is known about the effects from a demographic perspective. The main purpose of this study was to examine differences in nature exposure and its restorative effects based on gender, education and residence.

Method

The study was a population based cross-sectional study. It is part of a research project in 65 countries. This study uses Icelandic data. An electronic questionnaire was sent to 946 Icelanders (aged 18+) from the Icelandic Social Science Research Institute´s panel. The Nature Exposure Scale (NES) and the Restoration Outcome Scale (ROS-9) were used. Data analysis was based on correlation tests, hypothesis testing, and linear regression.

Results

Response rate was 57%. Participants were 19-93 years old, and average age 54.3 years. Women were 52% , 57% were university educated and 57% lived in the capital area.NES showed a significant difference in education and residence, but not by gender. In daily life, those living outside the capital area had more exposure to nature (p=0,001) and noticed it more (p<0.05) than capital area residents. Outside of daily environments, university educatied participants were more often exposed to nature than less educated (p<0.001). This also applied to capital area residents compared to those living outside (p=0,05). The restorative effects of nature were significantly more experienced by women than men (p<0.05) and those with university education compared to

those with less education (p<0.05), but no significant difference was shown by residence. Linear regression analysis showed that gender, education, and nature exposure explained 35% of the restorative effects of nature (R2 = 0.35).

Conclusions

This study indicates the importance of ensuring people´s access to natural areas. Nurses need to be aware of the restorative effects of nature as an addition to other treatments for their clients regarding health promotion.

Keywords

Exposure to nature, restorative effects of nature, gender, education, residence

Correspondent ssb@hi.is

HEIMILDIR

Baceviciene, M. og Jankauskiene, R. (2022). The mediating effect of nature restorativeness, stress level, and nature connectedness in the association between nature exposure and quality of life. International Journal of Environmental Research and Public Health, 19,(4), 2098. https://doi.org/10.3390/ijerph19042098

Baceviciene, M., Jankauskiene, R. og Swami, V. (2021). Nature exposure and positive body image: A cross–sectional study examining the mediating roles of physical activity, autonomous motivation, connectedness to nature, and perceived restorativeness. International Journal of Environmental Research and Public Health, 18,(22) 12246. https://doi.org/10.3390/ijerph182212246

Boltivets, S., Korolchuk,M., Korolchuk, V., Myronets, S. og Pozdnyshev. Y. (2021). Comparative characteristics of stresss-resistant individual profiles. Propósitos y Representaciones,9(2), e1102. http://dx.doi.org/10.20511/pyr2021.v9nSPE2.1102

Bornioli, A., Doyle, A.H., Fason, F., Faccenda, G., Subiza-Péres, M., Ratcliffe, F. og Bayasif, E. (2024). Sex and the city part. The role of gender and sex in psychological restoration in urban greenspaces. Journal of Environmental Psychology, 100, 102476. https://doi.org/10.1016/j.jenvp.2024.102476

Boyd, F., White, M. P., Bell, S. L., og Burt, J. (2018). Who doesn’t visit natural environments for recreation and why: A population representative analysis of spatial, individual and temporal factors among adults in England. Landscape and Urban Planning, 175, 102–113. https://doi.org/10.1016/j.landurbplan.2018.03.016

Chiang, Y.-C., Li, D. og Jane, H.-A. (2017). Wild or tended nature? The effects of landscape location and vegetation density on physiological and psychological responses. Landscape and Urban Planning, 167, 72-83. https://doi.org/10.1016/j. landurbplan.2017.06.001

Colley, K., Irvine, K. N. og Currie, M. (2022). Who benefits from nature? A quantitative intersectional perspective on inequalities in contact with nature and the gender gap outdoors. Landscape and Urban Planning, 23, 104420. https://doi.org/10.1016/ j.landurbplan.2022.104420

Djernis, D., Lundsgaard, C. M., Rønn-Smidt, H. og Dahlgaard, J. (2023). Nature-based mindfulness: A qualitative study of the experience of support for self-regulation. Healthcare, 11, 905. https:/doi.org/10.3390/healthcare11060905

Embætti landlæknis. (2024). Líðan fullorðinna 2023. chrome-extension://efaidnbmnnnibpcajpcglclefindmkaj/https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/ smcspe27SLoxIEaR4mnu7/923d65379dea6811f1f063c54176f3cc/Talnabrunnur_ tbl6_2023.pdf

Francis, A. J. P. (2011). Nature exposure scale. Óútgefið.

Hartig, T., Lindblom, K. og Ovefelt, K. (1998). The home and near-home area offer restoration opportunities differentiated by gender. Scandinavian Housing and Planning Research, 15(4), 283-296. https://doi.org/10.1080/02815739808730463

Hervör Alma Árnadótir, Halldór S. Guðmundsson og Berglind Magnúsdóttir. (2023). Náttúrumeðferð við langvarandi streitu og kulnun. Tímarit félagsráðgjafa, 17(1), 29-37. chrome-extension://efaidnbmnnnibpcajpcglclefindmkaj/https://felagsradgjof. is/wp-content/uploads/2023/04/Na%CC%81ttu%CC%81rumedferd.pdf

Jarvis, I., Koehoorn, M., Gergel, S. E., og van den Bosch, M. (2020). Different types of urban natural environments influence various dimensions of self-reported health. Environmental Research,18, 109614. https://doi.org/10.1016/j.envres.2020.109614

Jimenez, M. P., DeVille, N. V., Elliott, E. G., Schiff, J. E., Wilt, G. E., Hart, J. E. og James, P. (2021). Associations between nature exposure and health: A review of the evidence. International Journal of Environmental Research and Public Health, 18(9), 4790. https://doi.org/10.3390/ijerph18094790

Kamitsis, I. og Francis, A. J. P. (2013). Spirituality mediates the relationship between engagement with nature and psychological wellbeing. Journal of Environmental Psychology, 36, 136-143. https://doi.org/https://doi.org/10.1016/j.jenvp.2013.07.013

Kaplan, S. (1995). The restorative benefits of nature, toward an integrative framework. Journal of Environmental Psychology, 15(3), 169-182. https://doi.org/10.1016/02724944(95)90001-2

Kaplan, S., Bardwell, L. W. og Slakter, D. B. (1993) The museum as a restorative environment. Environment and Behavior 25(6), 725-742. https://journals.sagepub. com/doi/10.1177/0013916593256004

Korpela, K. M., Ylén, M., Tyrväinen, L. og Silvennoinen, H. (2008). Determinants of restorative experiences in everyday favorite places. Health and Place, 14(4), 636652. https://doi.org/10.1016/j.healthplace.2007.10.008

Korpela, K. M. og Ylén, M. P. (2009). Effectiveness of favorite-place prescriptions: A field experiment. American Journal of Preventive Medicine, 36(5), 435-438. https://doi. org/https://doi.org/10.1016/j.amepre.2009.01.022

Nejade, R. M., Grace, D. og Bowman, L. R. (2022). What is the impact of natue on human health? A scoping review of the literature. Journal of Global Health, 12,04099. https://doi: 10.7189/jogh.12.04099 1 1

Ólafsdóttir, G., Cloke, P., Schulz, A., van Dyck, Z., Eysteinsson, T., Þorleifsdóttir, B. og Vögele, C. (2020). Health benefits of walking in nature: A randomized controlled study under conditions of real-life stress. Environment and Behavior, 52(3), 248-274. https://doi.org/10.1177/0013916518800798

Ojala, A., Korpela, K., Tyrväinen, L., Tiittanen, P. og Lanki, T. (2019). Restorative effects of urban green environments and the role of urban-nature orientedness and noise sensitivity: A field experiment. Health and Place, 55, 59-70. doi.org/https://doi. org/10.1016/j.healthplace.2018.11.004

Pasanen, T., Ojala, A., Tyrväinen, L. og Korpela, K. M. (2018a). Restoration, well-being, and everyday physical activity in indoor, built outdoor and natural outdoor settings. Journal of Environmental Psychology, 59, 85-93. doi.org/https://doi. org/10.1016/j.jenvp.2018.08.014

Payne, E. A., Loi, N. M. og Þorsteinsson, E. B. (2020). The restorative effect of the natural environment on university students‘ psychological health. Journal of Environmental and Public Health, 4210285, https://doi.org/10.1155/2020/4210285

Polit, D. F. og Beck, C. T. (2021). Nursing research: Generating and assessing evidence for nursing practice. (11. útg.). Wolters Kluwer.

Rosa, C. D., Larson, L. R., Collado, S. Cloutier, S. og Profice, C. C. (2020). Gender difference in connection to nature, outdoor preferences, and nature based recreation among college students in Brazik and the United States. Leisure Sciences, 45(2), 135-155. https://doi.org/10.1080/01490400.2020.1800538

Sang, Å. D., Knez, I., Gunnarsson, B. og Hedblom, M. (2016). The efects of naturalness, gender and age on how urban green space is perceived and used. Urban Forestry & Urban Greening, 18, 268-276. http://dx.doi.org/10.1016/j.ufug.2016.06.008

Staats, H., Kieviet, A., og Hartig, T. (2003). Where to recover from attentional fatigue: An expectancy-value analysis of environmental preference. Journal of Environmental Psychology, 23(2), 147-157. https://doi.org/10.1016/S0272-4944(02)00112-3

Swami, V., Barron, D., Todd, J., Horne, G. og Furnham, A. (2020). Nature exposure and positive body image: (Re-)examining the mediating roles of connectedness to nature and trait mindfulness. Body Image, 34, 201-208. https://doi.org/10.1016/ j.bodyim.2020.06.004

Tennessen, C. M. og Cimorich, B. (1996). Views to nature: Effects on attention. Journal of Environmental Psychology, 15(1), 77-85. https://doi.org/10.1016/0272-4944(95) 90016-0

Ulrich, R.S. (2023). Stress reduction theory. Í D. Marchand, E. og K. Weiss (ritstj.), 1000 key concepts in environmental psychology (bls. 143-146). Routledge. Van den Berg, A. E., Maas, J., Verheij, R. A., Greenwegen, P. P. (2010). Green space as a buffer between stressful life events and health. Social Science & Medicine, 70,(8) 1203-1210. https:// doi:10.1016/j.socscimed.2010.01.002

Yaribeygi, H., Panahi, Y., Sahraei, H., Johnston, T. P. og Sahebkar, A. (2017). The impact of stress on body function: A review. Envirionmental and Clinical Scineces, 16, 10571072. https:// doi: 10.17179/excli2017-480

WHO. (2023). What are the signs of stress? https://www.who.int/news-room/questionsand-answers/item/stress

Wood, C., Barron, D. og Smyth, N. (2019). The current and retrospective intentional nature exposure scales: Development and factorial validity. International Journal of Environmental Research and Public Health, 16(22):4443. https://doi.org/10.3390/ ijerph16224443

„Enginn kom auga á heildarmyndina“

Reynsla einstaklinga af heilkenni og sálfélagslegri líðan tengdri rakavanda og/eða rakaskemmdum í húsum

doi: 10.33112/TH.0101.3.3

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Rakavandi og/eða rakaskemmdir í húsum (RSH) eru algeng vandamál og geta valdið RSH-heilkenni. Vöntun er á greiningu og meðferð í tengslum við RSH-heilkenni en þau geta verið óljós, flókin og langvinn. Þeir sem veikjast upplifa lítinn sem engan skilning og stuðning og breytist líf þessara einstaklinga mikið. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna reynslu einstaklinga af RSH-heilkenni og sálfélagslegri líðan tengdri því.

Aðferð

Eigindleg viðtalsrannsókn þar sem stuðst var við Vancouver-skólann í fyrirbærafræði. Tólf viðtöl voru tekin við níu þátttakendur sem voru fengin í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook og með snjóboltaúrtaki.

Niðurstöður

Heildargreiningarlíkan rannsóknar sýndi ákveðna vegferð þátttakenda þar sem kom í ljós að erfitt hafði reynst fyrir bæði þátttakendur og heilbrigðisstarfsfólk að sjá heildarmynd RSH-heilkennis. Þátttakendur upplifðu margvísleg einkenni sem líktust öðrum veikindum og upplifðu ofurnæmi gagnvart mismunandi loftgæðum. Líkamleg og sálfélagsleg líðan varð ekki aðeins fyrir áhrifum af einkennum heldur einnig af skorti á greiningu og meðferð og neikvæðum áhrifum á fjárhag. Vöntun var á stuðningi og skilningi frá heilbrigðiskerfinu, vinnufélögum, vinum og fjölskyldu. Þátttakendur fundu fyrir einkennum víða. Algjör breyting á lífi varð í kjölfarið.

Ályktanir

Vöntun er á greiningarskilmerki sem tekur tillit til heildarmyndar tengdri RSH-heilkenni ásamt markvissri heildarmeðferð. Skortur er á stuðningi og skilningi hvort sem um ræðir frá heilbrigðisstarfsfólki, fjölskyldu eða samstarfsfólki og kallað er eftir fræðslu. Breyting á lífi er algjör þar sem líkamleg og sálfélagsleg vanlíðan er áberandi sem og möguleg neikvæð áhrif á fjárhag.

Lykilorð

Húsasótt, rakavandi og/eða rakaskemmdir í húsum, áhrif á heilbrigði, sálfélagsleg líðan, fyrirbærafræði

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Hvers vegna ættir þú að lesa þessa grein?

Nýjungar: Erfitt var fyrir þátttakendur og heilbrigðisstarfsmenn að sjá heildarmynd RSH-heilkennis þar sem þátttakendur upplifðu bæði líkamlega og sálfélagslega vanlíðan vegna einkenna og vegna skorts á greiningu og meðferð. Vöntun var á skilningi og stuðningi frá heilbrigðisstarfsmönnum, vinnufélögum, fjölskyldu og vinum.

Hagnýting: Brýnt er að þverfaglegt meðferðarteymi, skipað hjúkrunarfræðingum, sérgreinalæknum, heilsugæslulæknum, sjúkraþjálfurum og sálfræðingum, sé tiltækt á öllum sjúkrahúsum til að takast á við þennan vanda með það hlutverk að koma auga á heildarmynd RSH-heilkennis, veita heilsufarslegt heildarmat og styðja og fræða þá sem veikjast með þessum hætti ásamt meðhöndlun einkenna samkvæmt nýjustu rannsóknum.

Þekking: Þetta er í fyrsta skipti sem þetta efni er rannsakað hér á landi með þessum hætti og niðurstöður gefa til kynna að þátttakendur upplifðu ákveðna óskýra vegferð þar sem einkennin voru margvísleg, RSHheilkenni olli vanlíðan og skortur var á stuðningi og skilningi, umfang rakavanda og/ eða rakaskemmda var stórt, leit að bata hófst og algjör breyting varð á lífi einstaklinganna.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Að hjúkrunarfræðingar séu meðvitaðir um RSH-heilkenni og að þeir spyrji markvisst um slík tengsl og auki þannig meðvitund um RSH-heilkenni og skoði leiðir til að draga úr einkennum og vanlíðan sem tengist þeim ásamt því að auka fræðslu um RSH-heilkenni samkvæmt nýjustu rannsóknum fyrir almenning, ákveðna hópa, fjölskyldur og einstaklinga.

Höfundar

SONJA BRØDSGAARD GUÐNADÓTTIR

Hjúkrunarfræðingur, M.S.1,2

EVA HALAPI

Dósent í sýkla- og ónæmisfræði, Ph.D.1

HAFDÍS SKÚLADÓTTIR

Dósent, Hjúkrunarfræðingur, Ph.D.1

1 Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið Hjúkrunarfræðideild

2 Ás, dvalar- og hjúkrunarheimili

„Enginn kom auga á heildarmyndina“ Reynsla einstaklinga af heilkenni og sálfélagslegri líðan tengdri rakavanda og/eða rakaskemmdum í húsum

INNGANGUR

Heilsufarsleg vandamál hafa verið tengd við viðveru í húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdir (rakavandi og/eða rakaskemmdir í húsum, RSH). Dæmi um slík heilsufarsleg vandamál eru einkenni frá öndunarfærum, húð og augum (Dooley og McMahon, 2020; Holzheimer, 2023; World Health Organization, 2009). Frá síðari hluta 20. aldar hefur verið talað um húsasótt (sick building syndrome, SBS) ef um veikindi er að ræða sem tengjast viðveru í húsum en SBS hefur verið skilgreint sem samansafn einkenna sem tengjast dvöl í ákveðnu húsi, oftast vinnustað, en engin skýr orsök hefur verið staðfest (Subri, 2024). Hér eftir verður notað RSH-heilkenni þar sem leitast var við að kanna þá reynslu sem einstaklingar upplifa og tengja við RSH sem líkist heilkenni þó það hafi ekki verið staðfest enn.

RSH-heilkenni hefur verið tengt við mikla vanlíðan vegna skorts á skilningi og stuðningi frá fólki í nánasta umhverfi. Rannsóknir sýna þó að þetta á ekki aðeins við um nánasta umhverfi, heldur einnig um yfirmenn, vinnufélaga, vinnueftirlit, tryggingarfélög, heilbrigðiskerfið og stofnanir sem bera ábyrgð á viðhaldi bygginga (Finell og Seppälä, 2018). Reynsla af frávísun (Finell og Seppälä, 2018; Seppälä o.fl., 2022) og að vera talinn glíma við geðheilbrigðisvanda er einnig þekkt (Seppälä o.fl., 2022; Söderholm o.fl., 2016). RSH-heilkenni er víðtækt, óljóst, flókið og langvinnt og rannsóknir gefa til kynna að það hafi áhrif á alla þætti lífs (Coulburn o.fl., 2024; Finell og Seppälä, 2018; Finell o.fl., 2018; Niza o.fl., 2023; Söderholm o.fl., 2016). Þegar sjúkdómseinkenni og orsakatengsl eru óljós getur slík upplifun valdið vantrú meðal heilbrigðisstarfsfólks, vinnufélaga og fjölskyldu (Finell og Seppälä, 2018; Finell o.fl., 2018; Seppälä o.fl., 2022; Söderholm o.fl., 2016). Þar að auki upplifa sumir einstaklingar með slík einkenni fjárhagserfiðleika og ágreining við tryggingafélög (Finell og Seppälä, 2018; Finell o.fl., 2018; Söderholm o.fl., 2016).

Rannsóknir sýna að heilsufarsleg einkenni geti komið fram þegar loftgæðum innandyra er ábótavant (Holzheimer, 2023, Niza o.fl., 2023). Árið 2009 gaf Alþjóðaheilbrigðisstofnunin út leiðbeiningar um óheilsusamleg loftgæði innanhúss tengd rakavanda og myglu. Gæði innilofts eru mikilvæg þar sem viðvera fólks innandyra er talin vera 90% (Klepeis o.fl., 2001) og raka- og/eða mygluvandi í húsum er talinn vera í um 10-50% húsa (Cai o.fl., 2020; World Health Organization, 2009). Í yfirliti þar sem faraldsfræðilegar greinar voru skoðaðar frá árunum 20112018 um tengsl rakavanda og/eða rakaskemmda í húsum og heilsufarsvandamála kom fram að í 98,2% gagna voru vandamál til staðar svo sem í öndunarfærum, taugakerfi, ónæmiskerfi, húðkerfi, hinu hugræna kerfi og augum (Dooley og McMahon, 2020). Í rannsókn Coulburn og félaga (2024) lýstu 154 þátttakendur eigin upplifun á einkennum, þar sem upphaf einkenna virtist tengjast því að búa í húsi með rakavanda og/eða rakaskemmdum og myglu. Það voru 77,7% þátttakendur sem upplifðu langvinn veikindi, þar sem einkennin voru til staðar í eitt

ár eða lengur og 14,9% upplifðu einkenni í meira en 11 ár. Vegna óljósra veikinda, sem geta birst í ýmsum líffærakerfum, hafa komið fram ýmis heiti til að skilgreina veikindi tengd RSH. Nokkur dæmi um slík heiti eru: building related illness (BRI) (Kramer o.fl., 2021), chronic inflammatory response syndrome (CIRS) (Shoemaker, 2016), dampness and mold hypersensitivity syndrome (DMHS) (Valtonen, 2017) og nonspecific building-related symptoms (Söderholm o.fl., 2016). Hjá þeim sem eru með BRI koma fram svipuð einkenni og í SBS en það er læknisfræðilega alvarlegra og stafar af útsetningu eiturefna í rýminu (Kramer o.fl., 2021). CIRS er skilgreint sem langvinnt, fjöleinkenna og fjölkerfa heilkenni sem stafar af útsetningu lífeiturs (biotoxins) (Shoemaker, 2016). Í DMHS koma fram svipuð einkenni og í SBS en einkennin virðast vara lengur eftir hverja heimsókn í RSH, þar til þau verða langvinn (Valtonen, 2017).

Þótt hvorki greining né meðferð séu til fyrir heildarmynd RSHheilkennis er gagnlegt að forðast orsakavalda eins og hús með rakavanda og/eða rakaskemmdum og hluti sem koma úr húsum þar sem rakavandi og/eða rakaskemmdir eru til staðar (Finell og Seppälä, 2018; Finell o.fl., 2018; Söderholm o.fl., 2016). Skörun hefur fundist milli veikinda tengdum RSH og umhverfisóþols (e. environmental intolerance), svo sem fjölefnaóþol og rafóþol/ rafnæmi (Palmquist o.fl., 2014). Í niðurstöðum rannsóknar Hope (2013) er bent á að skoða heildarmynd veikinda og að meðhöndlun einkenna þurfi að vera fjölþætt. Hope (2013) bendir einnig á að ekki sé hægt að leggja nógu mikla áherslu á að forðast hús með rakavanda og/eða rakaskemmdum og þá hluti sem hafa verið í húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdum til þess að bati geti hafist og er tillaga að notkun bindiefna eins og kólestýramíns lögð fram. Faglegar upplýsingar á íslensku um veikindi tengd húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdum eru af skornum skammti og engar slíkar upplýsingar er að finna á vef Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu (Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, e.d.). Aftur á móti er hægt að finna almennar upplýsingar um áhrif mikils raka í húsnæði á heilsu í bæklingi Umhverfisstofnunar (Umhverfisstofnun, 2015) og á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (Húsnæðis og mannvirkjastofnun, e.d.).

Rannsóknir á áhrifum veikinda tengdum RSH eru af skornum skammti á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var því að kanna reynslu fólks af RSH-heilkenni og sálfélagslegum áhrifum með það að markmiði að stuðla að jákvæðum breytingum innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

AÐFERÐ

Tólf djúpviðtöl voru tekin við níu þátttakendur sem fengnir voru í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook í lokuðum hópi sem kallast „Þolendur raka og myglu í húsum,“ auk þess sem notast var við snjóboltaúrtak. Þátttakendur voru á aldrinum 35–65 ára (meðalaldur 53 ár), þar af fimm karlmenn og fjórar konur. Átta af níu þátttakendum höfðu lokið háskólamenntun, þar af fjórir með sérmenntun á heilbrigðissviði. Allir þátttakendur höfðu reynslu af RSH-heilkenni, og hafði að minnsta kosti eitt ár liðið frá því að þeir veiktust, en mælt er með að minnst sex mánuðir líði frá því að fyrirbærið, sem verið er að rannsaka, átti sér stað (Sigríður Halldórsdóttir, 2021a).

Gagnasöfnun og gagnagreining

Rannsakandi (fyrsti höfundur) hitti sjö þátttakendur augliti til auglitis og tvo í gegnum fjarskiptabúnaðinn Zoom. Viðtölin fóru fram á tímabilinu maí 2022 til janúar 2023. Hvert djúpviðtal var tekið við alla níu þátttakendurna en þrír þátttakendur tóku þátt í tveimur viðtölum. Í viðtölunum var stuðst við hálfstaðlaðan viðtalsramma og meðaltímalengd þeirra var um 78 mínútur. Fyrsti

höfundur tók öll viðtölin, sem voru hljóðrituð og rituð orðrétt upp, þar sem nöfnum og staðháttum var breytt og notast var við dulnefni. Að lokinni gagnagreiningu var upptökum eytt. Stuðst var við aðferðafræði Vancouver-skólans í fyrirbærafræði (tafla 1) sem leggur áherslu á að auka skilning á mannlegri reynslu sem getur meðal annars nýst til að bæta heilbrigðisþjónustu (Sigríður Halldórsdóttir, 2021a).

Áreiðanleiki og réttmæti

Til að auka áreiðanleika og réttmæti var farið í hvívetna eftir tólf þrepa rannsóknarferli Vancouver-skólans í fyrirbærafræði þar sem ígrundun var lykilatriði á hverju stigi rannsóknarferlisins. Sérstök áhersla var lögð á staðfestingu frá þátttakendum, einkum í þrepi 7 og 11 (sjá töflu 1). Samkvæmt Brinkmann og Kvale (2015) er réttmæti talið gott þegar rannsóknarferlið nær að rannsaka það sem lagt var upp með. Með fyrirbærafræðilegri eigindlegri nálgun kemur fram sýn og reynsla þátttakenda (Sigríður Halldórsdóttir, 2021a). Til að auka innra réttmæti er einnig vísað beint í orð þátttakenda í niðurstöðunum.

Siðfræði

Rannsóknin hlaut leyfi Vísindasiðanefndar (VSN-22-065). Þátttakendur fengu skriflegt kynningarbréf um rannsóknina og skrifuðu undir upplýst samþykki áður en viðtölin hófust.

Tafla 1. Tólf meginþrep rannsóknarferlis Vancouver-skólans í fyrirbærafræði

Þrep í rannsóknarferlinu Það sem gert var í rannsókninni Þrep 1. Val á samræðufélögum. Þátttakendur voru valdir með tilgangsúrtaki og snjóboltaúrtaki.

Þrep 2. Undirbúningur hugans (áður en samræður hefjast).

Þrep 3. Þátttaka í samræðum (gagnasöfnun).

Þrep 4. Skerpt vitund varðandi hugmyndir og hugtök (byrjandi gagnagreining).

Þrep 5. Þemagreining.

Þrep 6. Smíða greiningarlíkan fyrir hvern þátttakanda.

Þrep 7.

Þrep 8.

Þrep 9.

Fyrirframgerðar hugmyndir um efnið voru settar meðvitað til hliðar.

Eitt viðtal við níu þátttakendur og tvö viðtöl við þrjá þátttakendur, samtals 12 viðtöl.

Gagnasöfnun hófst og gagnagreining einnig. Ritaður texti var lesinn yfir nokkrum sinnum og ígrundaður endurtekið.

Leitast var stöðugt eftir rauða þræðinum í frásögn hvers og eins. Greind voru megin- og undirþemu.

Megin- og undirþemu voru notuð til þess að smíða greiningarlíkan fyrir hvern þátttakanda.

Staðfesting á hverju greiningarlíkani með hverjum þátttakanda. Staðfestingar var leitað hjá öllum þátttakendum.

Heildargreiningarlíkan er smíðað úr öllum einstaklingsgreiningarlíkönunum.

Heildargreiningarlíkan borið saman við rannsóknargögnin (rituðu viðtölin).

Einstaklingsgreiningarlíkönin voru borin saman og eitt heildargreiningarlíkan var smíðað.

Allur texti var yfirfarinn endurtekið og borið saman við heildargreiningarlíkanið.

Þrep 10. Að velja rannsókninni heiti sem lýsir niðurstöðum í örstuttu máli. „Enginn kom auga á heildarmyndina“.

Þrep 11.

Þrep 12.

Staðfesting á heildargreiningarlíkani og yfirþema með einhverjum þátttakendum.

Niðurstöður rannsóknarinnar skrifaðar niður þannig að raddir þátttakenda heyrist.

NIÐURSTÖÐUR

Staðfestingar var leitað hjá þremur þátttakendum og gaf einn gagnlegar ábendingar.

Raddir allra fengu að heyrast með beinum tilvitnunum til að sýna að niðurstöður byggja á orðum þátttakenda.

Heildargreiningarlíkan rannsóknar sem var niðurstaða greiningar viðtala má sjá á mynd 1. Yfirþema rannsóknarinnar var að enginn, hvorki þátttakendur né heilbrigðisstarfsmenn, kom auga á heildarmyndina. Meginþemun voru fimm: 1) margvísleg einkenni; 2) vanlíðan vegna RSH-heilkennis og skorti á stuðningi og skilningi;

3) umfang rakavanda og/eða rakaskemmda; 4) leit að bata og 5) algjör breyting á lífi (mynd 1). Þátttakendur lýstu því að þeir hefðu almennt verið hraustir áður en veikindin hófust og upplifðu byrjun veikinda sem kúvendingu. Líkamleg og sálfélagsleg líðan þeirra varð ekki aðeins fyrir áhrifum af einkennum RSHheilkennis heldur einnig af skorti á greiningu og meðferð, litlum sem engum skilningi frá heilbrigðiskerfinu, vinnufélögum og neikvæðum áhrifum á fjárhag. Upp að vissu marki hafði skilningur og stuðningur frá fjölskyldu verið til staðar en þó hafði verið skortur þar á. Þátttakendur fundu fyrir einkennum í mismunandi aðstæðum, meðal annars á eigin heimilum og frá hlutum sem höfðu verið í húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdum. Þetta varð til þess að þeir urðu að losa sig við þá hluti. Veikindin höfðu víðtæk áhrif, meðal annars á fjölskyldu, vinnugetu og félagslíf. Allir þátttakendur leituðu eftir því að draga úr einkennum með ýmsum leiðum en bati var hægur. Mikil úrvinnsla vegna RSHheilkennis átti sér stað og smám saman myndaðist heildræn mynd af veikindunum. Veikindin höfðu í för með sér algjöra breytingu á lífi þátttakenda sem reyndi á þrautseigju þeirra og innri styrk. Þátttakendur sáu sig knúna til að fræða fjölskyldu og vinnustaði um veikindin, vanlíðanina og möguleg úrræði þar sem skortur var á fræðslu um veikindin. Reynsla þátttakenda getur stuðlað að jákvæðum breytingum innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu þar sem þeir kölluðu bæði eftir aukinni fræðslu fyrir almenning, hópa, einstaklinga og fjölskyldur jafnframt því að virkja fagteymið á Landspítala, sem hafði verið stofnað af hálfu landlæknis, fyrir þennan sjúklingahóp. Í fagteyminu var kallað eftir því að þar myndu sitja hjúkrunarfræðingar, sérgreinalæknar, heilsugæslulæknar, sjúkraþjálfarar og sálfræðingar.

Hér á eftir er umfjöllun um þemun fimm sem eru öll nátengd þó svo þau hafi verið nefnd og flokkuð sérstaklega.

Mynd 1. Heildargreiningarlíkan rannsóknar sem var smíðað úr öllum einstaklings greiningarlíkönunum sem báru niðurstöður um reynslu hvers þátttakanda fyrir sig.

Yfirþema rannsóknar var: „Enginn kom auga á heildarmyndina“, meginþemu voru fimm (gráir kassar) og undirþemu voru nítján (hvítir kassar).

valdar einkenna voru fjölbreyttir (tafla 3) en sameiginleg einkenni í kjölfar veikinda hjá öllum þátttakendum var ofurnæmi (e. hypersensitivity) og fjölefnaóþol. Lífið varð flóknara þar sem þau þurftu að taka tillit til atriða sem aðrir hugsa ekki um að staðaldri eins og að sleppa að drekka kaffi vegna myglugróa og að takmarka innkaup á húsgögnum vegna útgufunarefna frá þeim:

Ef ég kemst í tæri við það sem ég held að sé mygla … oft hefur það komið á daginn svona eftir á … eða komið í ljós rakaskemmdir … og grunur minn staðfestur, ég bara finn, get bara orðið svona veik við að fara eða vera inni í þannig aðstæðum eða húsnæði … flensueinkenni, hita jafnvel

2) Vanlíðan vegna RSH-heilkennis og skorti á stuðningi og skilningi Líkamleg og sálfélagsleg vanlíðan var til staðar hjá þátttakendum í veikindaferlinu. Skortur var á stuðningi og skilningi frá heilbrigðisstarfsfólki, vinum, vinnufélögum og fjölskyldu:

Ég upplifði kannski ekki svo mikinn stuðning þarna til að byrja með ... þá var bara einhvern veginn mjög lítill skilningur ... maðurinn minn … það tók hann svolítinn tíma bara að skilja þetta … og þá bara var hann minn helsti stuðningur, við vorum svolítið saman í þessu bara við tvö … ég fékk líka stuðning frá mömmu og pabba … tengdafjölskyldan átti erfiðara með þetta ... ég upplifði að fólk bara vissi eiginlega ekki hvernig það ætti að vera ... það vissi ekki hvað það ætti að segja við mig og þegar ég var að tala um þetta þá fannst mér eins og fólki þætti það óþægilegt

Álagið tengdist einnig sambúðarslitum eða skilnaði en þrjú sambönd stóðust ekki álag veikindanna: „[Fjölskyldumeðlimir] skildu þetta að vissu marki ... en hjónabandið stóðst álagið ekki ... og álagið sem veikindin lögðu ofan á fjölskylduna … það stóðst ekki“.

Tveir þátttakendur upplifðu sjálfsvígshugsanir þegar þeir sáu að enga lausn var að finna, stuðningur og skilningur var lítill og vandinn umfangsmikill:

Það var búið að gera allt upp og ég hélt að við gætum verið þarna ... ég fór bara út í [staður] og sat þar, það var ótrúlega stillt og fallegt og snjór og frost … og ég hugsaði, ég bara sit á bekknum, það væri bara auðveldast fyrir alla og ég meinti það í smástund.

Eigin fordómar þátttakenda ásamt fordómum vina, vinnufélaga og heilbrigðisstarfsfólks hafði truflandi áhrif:

Miðlar sérþekkingu þessara veikinda og mögulegum úræðum

*Fjölefnaóþol - Áunnið ástand þar sem einkenni koma fram í mörgum líffærakerfum vegna mjög lítilsmagns af mörgum efnafræðilegum efnum sem meirihluti einstaklinga þola (e. multi chemical sensitivity).

** Ofurnæmi - Mikil líkamleg viðkvæmni ganvart tilteknum efnum í andrúmslofti (e. hypersensitivity).

*** RSH - Rakavandi og/eða rakaskemmdir í húsum.

1) Margvísleg einkenni

Þátttakendur upplifðu mörg einkenni (tafla 2). Stundum voru einkennin lík þekktum veikindum að mati heilbrigðisstarfsmanna. Kulnun, svefnleysi og hjartaáfall eru dæmi um greiningar. Orsaka-

Það var skemmtilegt að hitta þig og spjalla [þetta var sagt við fyrsta höfund sem tók viðtalið], þó ég hafi ekki haft mikinn áhuga að ræða eða rifja upp eigin eða þessi veikindi ... samt þurfti að ræða þau, til að upplýsa, því svo mikil vanþekking og fordómar ... mikil áskorun var að verða ekki klikkaður á þann hátt að lífið breytist svo mikið og allt í einu þarf að passa upp á svo ótalmarga hluti og vera nýjar skorður, sem öðrum finnst klikkað því þau finna ekki þessi áhrif ... en maður verður samt að vera með alla þessar takmarkanir og forðun til að reyna ná einhverri heilsu og svo að halda henni ... þannig verður maður utanveltu, einangraður og jafnvel talinn klikkaður.

Þátttakendur upplifðu sorg vegna missis, svo sem heilsu-, vinaeða atvinnumissis: „Ef þú missir vinnugetu ... ef þú missir allt sem þú átt ... ef þú þarft að berjast fyrir greiningu og fyrir bótum … svo hörð lífsreynsla ... hún umbreytir þér … alveg svakalega sárt“.

3) Umfang rakavanda og/eða rakaskemmda Vandinn var umfangsmikill og leyndist víða svo sem á eigin

Einkenni sem þátttakandi lýsir

Tafla 2. Einkenni, greiningar og meðferðir þátttakenda

Þátttakandi nr. I

Einkenni sem líkjast heilablóðfalli, útbrot á húð, fjölefnaóþol, lítið þrek, ofurnæmi, slappleiki, áfall, verkir í hálsliðum og vöðvum, einbeitingarskortur, höfuðverkur, tvísýni, rafstraumsofnæmi,* einkenni sem líkjast astma eða berkjubólgu, brjóstverkur.

Óstaðfest greining Kulnun, heilablóðfall.

Staðfest greining Jákvætt ofnæmispróf fyrir nokkrum tegundum af sveppum.

Meðferð Gjörgæslumeðferð.

Einkenni sem þátttakandi lýsir

Óstaðfest greining

Staðfest greining

Þátttakandi nr. II

Hjartaáfall, magaverkur, ofurnæmi (hnerri, þurr háls), síþreyta, áfall, höfuðverkur, svefntruflanir,** kvíðakast, minnisglöp, sjóntruflanir, fannst sig vanta súrefni, bólgur í hálsi, hósti, óþægindi, slím í öndunarvegi.

Hjartaáfall.

Kvíðakast, hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról.

Meðferð Tímabundin notkun á blóðþrýstingslyfjum og kólesteróllækkandi lyfi þar til húsnæði með rakavanda og/eða rakaskemmdir var yfirgefið.

Þátttakandi nr. III

Einkenni sem þátttakandi lýsir

Óstaðfest greining

Staðfest greining

Húðflygsur, kláði (klóraði sér til blóðs), sár, stórir exemblettir, þurrkur, þykk og bólgin húð, niðurgangur, meltingartruflanir, fjölefnaóþol, ofnæmi fyrir mat, ofurnæmi, rafóþol, síþreyta, áfall, áfallastreituröskun, veikindi valda þunglyndi og kvíða, svefnleysi, geðvefræn (psycosomatic)*** viðbrögð, heilaþoka, minnkað áreitisþol, minnkað líkamlegt og andlegt álagsþol, ofsakvíðakast, astmi, bólga og slím í kinnholum.

Niðurstöður blóðprufa.

Taugaskinnþroti (neurodermatitis).

Meðferð Boðið að fara á geðdeild en afþakkaði.

Þátttakandi nr. IV

Einkenni sem þátttakandi lýsir

Þungur hjartsláttur sem leiddi upp í háls við áreynslu, ósértækt útbrot á höndum, fótum og öxlum, sár á baki og maga, blæðingar úr góm, endurteknar skemmdir í sömu tönn, hás rödd, niðurgangur, sár í munnholi, svelgdist á munnvatni og þar af leiðandi hósti, þyngdartap því að samhæfingu vantaði í kyngingu, áblástur, endurteknar flensur, fjölefnaóþol, flensueinkenni, hálsbólgur, hitahrollur, kuldahrollur, marblettasækinn, minnkað þrek, ofurnæmi, ristill, slappleiki, sorg vegna veikinda og missis, hásinabólga, sinaskeiðabólga, stirðleiki, vökvi í vinstra hné, svefnleysi, augnpirringur/þurr augu, ávallt að bíta í kinnina (vantaði samhæfinguna), dofi, doði í tungu, einbeitingaskortur, fjörfiskur í auga, lærum og öðrum vöðvahópum, gat ekki tuggið rétt, heilaþoka, kyngingarörðugleikar, minnisleysi, náladofi í fótum, minnkuð samhæfing (datt í tröppum, klaufaleg), óskýrari sjón, sinadrættir í sköflungum, vöðvatitringar, hrotur, húð þykk og óeðlileg í nefholi, mæði, pirringur í nefi, nasablæðingar, þurrt slím, tíðari þvaglát (ekki með blöðrubólgu), tíðablæðingar stoppuðu um tíma, hella fyrir eyrum, verri heyrn og fór að tala hærra.

Óstaðfest greining Kulnun, eiturefnasjónpróf (visual contrast sensitivity test).

Staðfest greining Straumbreytingar (strain) á hjartað.

Meðferð Kólestýramín og stoppa viðveru í húsnæði með rakavanda og/eða rakaskemmdir, vasoactive intestinal peptide. Þátttakandi nr. V

Einkenni sem þátttakandi lýsir

Óstaðfest greining

Hjartsláttartruflanir, brak og klikk í hlust, eyrnabólgur, fjölefnaóþol, flensueinkenni, hella í eyrum, hiti, iktsýki, ofnæmi fyrir mat, ofurnæmi, slen, þreyta, þrýstingur í nefholi eða bólga, áfall, áfallastreituröskun, kvíði og þunglyndi jukust vegna veikinda, bólgur í liðum, verkir sem leiða út í kjálka og eyru, verkur og þrýstingstilfinning við augu og höfuð, verkir í líkama, augnsviði, fannst hann vera undir áhrifum lyfja, illa áttaður, jafnvægistruflanir, ljósviðkvæmni, svimi (rakst utan í fólk, átti erfitt með gang), þvoglumæltur, astmi, sýkingar.

Vefjagigt.

Staðfest greining Astmi, öndunarfærasýkingar, gáttaflökt, eyrnabólgur, iktsýki.

Meðferð Bólgueyðandi lyf, verkjalyf, sýklalyf, sjúkraþjálfun, lyf við iktsýki.

Þátttakandi nr. VI

Einkenni sem þátttakandi lýsir

Óstaðfest greining

Staðfest greining

Hækkaður blóðþrýstingur, sterk lykt frá húð sem kemur stundum (sturta er nauðsynleg í kjölfarið), útbrot á brjóstkassa, þurr tunga, þyngdaraukning, fjölefnaóþol, hitaviðbragð þó ekki mælanlegur hækkaður líkamshiti, ofurnæmi, slappleiki, þrekleysi, áfall, veikindi valda þunglyndi, bólgur og verkir í liðum, stirðleiki, hrotur, miðlægur kæfisvefn, svefnleysi, dofi, engin breyting á einkennum eftir COVID 19-sýkingu, minnisleysi, minnkað álagsþol og áreitisþol nær ekki að tengja saman hug og hönd, ofsafengin líkamsviðbrögð: „Shut down“-heilkenni (fangi í eigin líkama), slen, taugaspenna/kippir, virkar stressaður þótt hann sé slakur, ýkt viðbrögð við áreiti, „ammóníak viðbragð“ í nefi, bólgur og sýkingar í nefholi, lungnabólgur, nær ekki slakri öndun, þung og óeðlileg öndun.

Ofþyngd.

Astmi (greining var síðar dregin til baka), lungnabjúgur, hækkaður blóðþrýstingur, miðlægur kæfisvefn, shut down-heilkenni.

Meðferð Astmalyf (þar til greining var dregin til baka), blóðþrýstingslyf, kæfisvefnsvél, skurðaðgerð í nefholi (sýktir vefir í nefholi brenndir í burtu).

Þátttakandi nr. VII

Einkenni sem þátttakandi lýsir

Óstaðfest greining

Veikindin valda áþreifanlegu og fýsísku þunglyndi og kvíða,**** dýraofnæmi magnaðist, fjölefnaóþol, ofurnæmi, ofurnæmið varð verra eftir COVID 19-sýkingu, skert vinnuþrek, slappleiki, þreyta, veikindi valda kvíða, höfuðverkur, sviðatilfinning í augum, andþyngsli, astmaeinkenni, hósti, nefstíflur, slím, sviða- og brunatilfinning í lungum og nefi, sýkingar, verkir í lungum, viðkvæmni í efri og neðri öndunarfærum.

Staðfest greining Dýraofnæmi.

Meðferð Kólestýramín.

Þátttakandi nr. VIII

Einkenni sem þátttakandi lýsir Hægðatregða, fjölefnaóþol, mikil þreyta, ofurnæmi, endurtekin þreytutímabil (rúmliggjandi í um viku eða lengur), þrekleysi, minnkað þol fyrir áreiti, taugakerfið á yfirsnúningi, blóðnasir.

Óstaðfest greining Hreyfitaugungahrörnun.

Staðfest greining MS.

Meðferð Kólestýramín, lyf við MS sem hann hætti svo að taka inn vegna mikillar vanlíðunar og er lyfjalaus í dag.

Tafla 2. Einkenni, greiningar og meðferðir þátttakenda frh.

Þátttakandi nr. IX

Einkenni sem þátttakandi lýsir Aukinn hjartsláttur, hjartsláttaróregla, magaverkir, endurteknar blóðeitranir (sjö sinnum) eftir stungu á fingur, ofurnæmi, veikindatilfinning, þreyta, höfuðverkur, svimi, kvef.

Óstaðfest greining

Staðfest greining Þunglyndi, blóðeitrun.

Meðferð Sýklalyf, þunglyndislyf (tímabundið þar til húsnæði með rakavanda og/eða rakaskemmdir var yfirgefið).

Einkenni hjá einum af fyrrgreindum þátttakendum eru sett hér vegna persónuverndar

Einkenni sem þátttakandi lýsir Bláleit húð vegna lungnaháþrýstings, lungnaháþrýstingur í hvíld og við áreynslu.

Útskýringar úr töflu. Eftirfarandi lýsingar eru frá þátttakendum

* Yfirborðsspenna líkamans breytist/ líffræðileg breyting; maður verður neikvætt hlaðinn og það blossar alls staðar þar sem maður kemur við.

** Svefnþörf jókst úr 6–7 klukkustundum í 12–13 klukkustundir á sólarhring.

*** Hvorki hjartsláttartruflanir né stress til staðar en einkenni koma samt frá ósjálfráða taugakerfinu.

**** Ekki eins og hið klassíska þunglyndi heldur vegna mikils áreitis sem setur allt úr lagi.

Tafla 3. Orsakavaldar einkenna meðal þátttakenda

Mismunandi loftgæði sem tengjast húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdum, hlutum úr slíkum húsum eða mismunandi efnafræðilegum efnum Ákveðin málning, ákveðið umhverfi eða húsnæði, bíll þar sem hlutir frá RSH hafa verið í*, fólk/hlutir/föt sem koma úr húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdum, gamlar bækur, gömul og ný húsgögn, hreinsiefni, hreingerningarefni (sterk þvottaefni), ilmefni, ilmvötn, rakspíri, lífræn rokgjörn efnasambönd, leysiefni og lím, nýjalykt (ný húsgögn eða húsnæði), nýprentað blað, óheilnæmt inniloft, tóbaksreykur, umferðin.

Mismunandi loftgæði sem tengjast opinberum byggingum eða flugvélum

Fatabúðir og aðrar búðir, gömul hús, hótel í heitu landi með ekkert kælikerfi, leikhús, bíó, opinberar stofnanir, skólar, sumar flugvélar, sum hótel, verslunarmiðstöð. Álag í tengslum við sálfélagslega líðan

Álag, rifrildi, grafa upp erfiðar minningar úr fortíðinni, fólk (sem sýnir RSH-heilkenni ekki skilning).

Matur og drykkir

Bjór, kaffi, kúamjólk, léttvín, matur (sem inniheldur gerjaðan sykur), sykur, ýmis fæða sem veldur tímabundnum einkennum.

Rafóþol/rafnæmi

Rafmagnsmengun, sendimöstur G4/G5

* Annars stigs smit, það er smit frá búslóð sem kemur frá húsnæði með rakavanda og/eða rakaskemmdum sem hefur verið sett í bílinn og bíllinn veldur síðan einkennum þó svo að búslóðin hafi verið fjarlægð úr bílnum.

heimilum, í opinberum byggingum og í flugvélum. Sem hluti af bataferlinu var nauðsynlegt fyrir hvern þátttakanda að vera hvorki í húsum þar sem rakavandi og/eða rakaskemmdir voru til staðar né að vera nálægt hlutum sem höfðu verið í slíkum húsum. Sumir þátttakendur urðu að forðast margmenni í ákveðinn tíma vegna agna sem fólk gat borið í það frá fötum eða hlutum sem höfðu verið í húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdum eða vegna ákveðinna efna eða ilmefna. Umfang rakavanda og/eða rakaskemmda kom einnig fram í tengslum við áhrif veikinda á fjölskyldu, vinnugetu, félagslíf og fjárhag:

Það er svo rosalega drastískt að brennslur á búslóð, á fötum, á bókum … svo gæti þessi afeitrun tekið jafnvel mörg ár … ég held að sem flestir finni til bata bara á tveimur þremur mánuðum eða minni tíma en að því sögðu að ef þú finnur fyrir þessum góða árangri eftir þann tíma þá ertu miklu betur sett til að taka þessa ákvörðun um að henda öllu þessu gamla. Maður heyrir allt of mikið af fólki sem fer á þrjár húsaleigur á ári og er bara á … með plastpoka og fötunum sínum. Það er ekki góður staður að vera á, alveg skelfilegur

4) Leit að bata

Þátttakendur leituðu sér aðstoðar til að byrja með til heilbrigðiskerfisins eða meðhöndluðu einkenni sjálfir að því marki sem þeir gátu. Þátttakendur fengu bæði greiningar sem stóðust sem og greiningar sem stóðust ekki með tímanum (tafla 2). Sumar meðferðir virtust hjálpa að hluta til:

Ég leysti það [kólestýramín] út og tók það. Eftir þrjá daga … steig ég upp úr rúminu … það bara byrjaði að vera skýrar í hausnum á mér og þessi ofboðslegi drungi og … taugaeinkenni líka ... eftir bara tvær vikur var ég búin að fá eitthvað um 20% bata

Þátttakendur voru með ýmis eigin bjargráð (tafla 4). Batinn var talinn hægur, endurtekin bakslög algeng og heildræn mynd RSHheilkennis myndaðist með tímanum: „það er … engin læknisfræðileg meðferð sem virkar við þessar aðstæður. Þú verður að koma þér út úr þessu umhverfi“.

5) Algjör breyting á lífi

Algjör breyting varð á lífsmynstri þátttakenda vegna einangrunar, athafna daglegs lífs og óvissu vegna ofurnæmis og fjölefnaóþols (tafla 4). Þeir þátttakendur sem höfðu lengstu reynsluna, það er að vera með RSH-heilkenni í meira en 10 ár, upplifðu jákvæða breytingu í þjóðfélaginu og innan heilbrigðiskerfisins þar sem þeim fannst skilningur vera að aukast þótt það væri enn langt í land. Þrátt fyrir að hafa prófað ýmislegt til að meðhöndla einkennin, þá hafði enginn upplifað fullan bata en aðeins betri líðan. Þátttakendur tóku með tímanum breytt lífsmynstur meira í sátt og gerðu sér betur grein fyrir því hvað kveikti (e. trigger) á einkennum. Nýr rammi var kominn í kringum líf þeirra og þau upplifðu að þau yrðu aldrei aftur eins og áður. Í nýja rammanum fólst mikil einföldun á lífi, þó mismikil meðal þátttakenda, en þau vöndust smám saman takmörkunum á lífi sínu til þess að halda heilsu. Þátttakendur reyndu þó ávallt að víkka sín eigin mörk með tilliti til ofurnæmis og fjölefnaóþols sem reyndi á þrautseigju og innri styrk:

Þetta breytir öllu, hvert ég fer, hvar ég vinn, hvað ég geri, hverja ég umgengst, hvað ég borða … það er margt sem ég þoli ekki eftir þetta og menningarlífið sem ég get leyft mér að lifa, bara allt, þetta er game changer.

Tafla 4. Leit þátttakenda að bata

Meðferðir og eigin bjargráð um munn, nef eða sem frásogast um húð Heimilislæknar, sérfræðilæknar, grasalæknar, lyf, (kólestýramín, vasoactive intestinal polypeptide, ofnæmislyf, sýklalyf), kæfisvefnsvél, fæðubótarefni (svo sem lýsi, ensím, kóensím Q10, B-12-vítamín, metyl-B-vítamín, N-acetylcystein, kolatöflur) og sérstakt heimatilbúið húðkrem samkvæmt uppskrift frá lækni.

Meðferðir og eigin bjargráð í tengslum við mismunandi loftgæði

Að komast út úr húsnæði með rakavanda og/eða rakaskemmdum, að losa sig við hluti sem koma úr húsnæði með rakavanda og/eða rakaskemmdum, að forðast að vera nálægt fólki sem kemur úr húsnæði með rakavanda og/eða rakaskemmdum eða er með sterk efni á sér, s.s. ilmvötn og ilmandi þvottaefni. Að vera ekki nálægt sterkum efnum eins og leysiefnum, ilmandi þvottaefni, ilmvötnum, reyk eða málningu.

EMDR-áfallameðferð, ljóðaskrif, sálfræðimeðferð.

Meðferðir og eigin bjargráð sem tengjast sálfélagslegri líðan

Annað

Breyting á mataræði: safakúrar, tíma- eða ótímabundin breyting á mataræði, skrifa einkennadagbók, djúpvefjanudd, fasta með hléum, ristilhreinsun, róandi tónlist vegna taugaspennu þótt vöðvar séu slakir, nálastungumeðferð, saltvatnsúði, saltvatnsskolanir í nefhol, fá söngkennslu og að taka þátt í kórastarfsemi til að ná betri tökum á öndun, hvatberameðferð, eiturefnasjónpróf (Visual contrast sensitivity test).

UMRÆÐA

Þessi rannsókn er sú fyrsta á Íslandi sem lýsir reynslu einstaklinga af RSH-heilkenni og sálfélagslegri líðan í tengslum við RSH. Það sem einkenndi lýsingar þátttakenda þessarar rannsóknar var að enginn innan heilbrigðiskerfisins kom auga á heildarmynd hinna ýmsu einkenna sem þeir voru með enda vantar skýr greiningaskilmerki og markvissa meðferð við RSH-heilkenni. Skortur var einnig á stuðningi og skilningi hvort sem um var að ræða frá heilbrigðisstarfsfólki, fjölskyldu eða samstarfsfólki.

Fréttir um myglu og rakavanda og/eða rakaskemmdir í ýmsu húsnæði, gömlu sem nýju, hafa verið áberandi í fjölmiðlum síðustu ár hér á landi. Þann 11. apríl 2024 kom frétt í Morgunblaðið þar sem greint var frá því að um 26 þúsund fermetrar húsnæðis í eigu ríkisins eru ekki lengur í notkun vegna myglu og rakavanda og/ eða rakaskemmda eða um 5% af eignasafni ríkisins (Sigtryggur Sigtryggsson, 2024). Þá er algengt að nefna kostnaðinn sem fylgir endurbótum á húsnæðinu eða hversu langan tíma endurbætur munu taka. Umfjallanir um heilsubrest, einkenni og heilbrigðiskostnað eru takmörkuð. Alvarlegustu afleiðingar heilsubrests sökum myglu og rakavanda og/eða rakaskemmda í húsnæði má sjá í frétt sem birtist í fjölmiðlum í Englandi í byrjun árs 2023. Þá var tveggja ára strákur úrskurðaður látinn, árið 2020, sökum myglusvepps í búsetuhúsnæði hans og fjölskyldu hans. Þetta leiddi til þess að ný lög (Awaab‘s Law) voru sett í Englandi í tengslum við tímaramma leiguhafa með tilliti til endurbóta á óheilsusamlegu húsnæði (Gawne, 2024). Í rannsókn þeirra Suzuki og félaga (2021) kom í ljós að áhættuþættir fyrir SBS voru: konur, ungur aldur, undirliggjandi sjúkdómar, ákveðið umhverfi innandyra og reykingar innandyra. Niðurstöður rannsóknar Clark og félaga (2023) sýndu að tengsl voru milli útsetningu raka og/eða myglu og um það bil 5.000 nýjum tilfellum astma og um 8.500 öndunarfærasýkinga meðal barna og fullorðinna árið 2019. Áhætta stafar af viðveru í húsnæði þar sem rakavandi og/eða rakaskemmdir og mygla eru til staðar en taka skal sérstaklega tillit til einstaklinga með undirliggjandi heilsufarsvandamál svo sem langvinnra lungnateppu, astma, hjarta- og æðasjúkdóma eða veikt ónæmiskerfi og þá sérstaklega barna, kvenna og aldraðra (Gov.uk, 2023).

Í þessari rannsókn veiktust þátttakendur ýmist á vinnustað eða á heimili en niðurstöður annarra eigindlegra rannsókna snúa aðallega að veikindum á vinnustað. Þeir sem veiktust á vinnustað upplifðu að samstarfsmenn þeirra gátu litið á líkamleg einkenni þeirra sem einkenni af andlegum toga. Þeir fundu ekki fyrir skilningi né stuðningi heldur upplifðu að þeir voru ekki teknir alvarlega en slíkri upplifun hefur áður verið lýst (Finell o.fl., 2018; Söderholm o.fl.,

2016). Þegar um eigið heimili var að ræða urðu áhyggjuefnin fleiri þar sem taka þurfti tillit til mögulegra flutninga, förgunar á búslóð, fjárhagslegrar stöðu og skilningsleysis fjölskyldumeðlima sem fundu ekki fyrir einkennum. Þátttakendur lýstu reynslu af frávísun og ógildingu (e. delegitimise) af hendi fjölskyldu og heilbrigðisstarfsmanna. Þetta samsvarar niðurstöðum annarra (Seppälä o.fl., 2022). Heildarálag veikindanna varð næstum óbærilegt sem leiddi til þess að sjálfsvígshugsanir gátu komið fram. Hjá þremur þátttakendum voru afleiðingar heildarálagsins sambúðarslit. Í rannsókn Söderholm og félaga (2016) var greint frá neikvæðum áhrifum RSH-heilkennis á sambönd en þó ekki um sambandsslit né sjálfsvígshugsanir. Í ljósi óljósra veikinda og upplifunar á fordómum frá öðrum var eftirtektarvert hvernig þátttakendur í þessari rannsókn lýstu glímu við eigin fordóma sem virtist gera þeim erfitt fyrir að segja sína raunverulegu sögu.

Allir þátttakendurnir í þessari rannsókn þróuðu með sér ofurnæmi og fjölefnaóþol á sinni vegferð sem gjörbreytti lífi þeirra. Í kjölfar þessarar þróunar upplifðu þeir oft ýmis óþægindi ásamt kvíða, þunglyndi og almennri vanlíðan. Þetta samræmist öðrum niðurstöðum þar sem fjölefnaóþol hefur verið tengt við kvíða, þunglyndi, sjálfsvíg og misnotkun áfengis (Driesen o.fl., 2020). Í þversniðsrannsókn Palmquist og félaga (2014) hafa verið settar fram aðrar tegundir viðkvæmni í tengslum við RSH eins og rafóþol/ rafnæmi. Niðurstöður rannsóknar þeirra benda til þess að 64% einstaklinga sem eru veikir vegna RSH voru einnig með greiningar sem tengdust fjölefnaóþoli og rafóþoli/rafnæmi. Einn þátttakandi í þessari rannsókn upplifði rafóþol/rafnæmi.

Allir þátttakendur þessarar rannsóknar leituðu til heilbrigðiskerfisins og reyndu á sama tíma að meðhöndla einkennin sjálfir að því marki sem þeir gátu. Þar sem ekki var til staðar ICD-10 sjúkdómsgreiningarkóði, skýr greiningarskilmerki eða markviss meðferð, var vanlíðan áberandi í tengslum við RSH-heilkenni ásamt skorti á stuðningi og skilningi. Rakavandi og/eða rakaskemmdir í húsum eru algeng vandamál eins og fram hefur komið og er mikilvægt fyrir hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn að kynna sér þau ýmsu heilsufarsvandamál sem geta tengst viðveru í slíkum húsum og hafa þau hluta af mögulegum orsökum heilsufarsvanda þegar gert er mat á heilsufarsástandi skjólstæðinga. Með því móti eru þeir betur í stakk búnir til að veita fræðslu, stuðning og koma auga á heildarmynd einkenna. Í rannsóknarniðurstöðum Coulburn og félaga (2024) kemur fram að einkenni sem tengjast tíðni raka og myglu innandyra (e. prevalence of indoor dampness and mould) virðast vera mun fleiri en í fyrstu var haldið. Einkenni virðast vera frá flestum líffærakerfum eins og einkenni frá: höfði, eyrum, nefi og augum, öndunarkerfi, innkirtlakerfi, hjarta- og æðakerfi, meltingarkerfi,

stoðkerfi og taugakerfi ásamt sýkingum og ofurnæmi. Í þessu samhengi má hvetja hjúkrunarfræðinga sem starfa með börnum, til dæmis á heilsugæslum, barnadeildum eða í grunnskólum, að hafa fyrrgreinda einkennahópa í huga þar sem óljós og mögulega langvinn veikindi blossa upp með margvíslegum einkennum. Sömuleiðis má hvetja hjúkrunarfræðinga til þess að hafa þetta í huga sem vinna í framhaldsskólum, heilsugæslum um land allt, í heimahjúkrun, á heilbrigðisstofnunum eða á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Athyglisvert er að rannsókn þeirra Coulburn og félaga (2024) sýnir að skjólstæðingar geti verið með aðrar greiningar sem þeir tengja við viðveru sína í húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdum en grípa ekki heildarmynd veikindanna. Þá er til dæmis átt við astma, aukna hjartsláttartíðni vegna stöðubreytinga (postural orthostatic tachycardia syndrome, POTS), ME-sjúkdóminn (myalgic encephalomyelitis) og fjölefnaóþol. Mikil þörf er á því að rannsaka RSH-heilkenni betur, þróa skimunartæki og setja fram bæði greiningu og meðferð. Auka þarf fræðslu um RSH-heilkenni fyrir almenning, ákveðna hópa, fjölskyldur sem og einstaklinga. Þátttakendur þessarar rannsóknar reyndu eftir fremsta megni að meðhöndla einkennin sjálfir. Sameiginlegt bjargráð þátttakenda var forðun úr aðstæðum og frá hlutum sem höfðu verið í húsum með rakavanda og/eða rakaskemmdum, sem kveiktu á einkennum, sem samræmist niðurstöðum annarra (Finell o.fl., 2018; Söderholm o.fl., 2016). Vegna forðunar flæktist líf þátttakenda til muna og nýjar lífsvenjur tóku á sig mynd meðal annars með tilliti til maka, barna og vina.

Faglegar upplýsingar á íslensku um RSH og myglu er ekki að finna á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, e.d.). Upplýsingar er að finna um efnið bæði hjá Umhverfisstofnun (Umhverfisstofnun, 2015) og hjá Húsnæðisog mannvirkjastofnun (Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, e.d).

Faglegar upplýsingar á ensku er að finna á vefsíðunni Centers for Disease Control and Prevention (2023) en engin skýr meðferð er þar sett fram. Rannsókn þeirra Hellgren og Deijula (2011) fjallar um hlutverk, getu og þær aðferðir sem Vinnueftirlitið framkvæmdi í tengslum við slæm loftgæði. Slík vinna var erfið viðureignar þá einkum mat á heilsufarsvanda og mat á hættu (e. risk communication) og nefnt var sérstaklega að brýnt væri að þverfaglegt meðferðarteymi væri tiltækt á öllum sjúkrahúsum sem tækist á við þennan vanda. Þverfaglegt meðferðarteymi þar sem sitja hjúkrunarfræðingar, sérgreinalæknar, heilsugæslulæknar, sjúkraþjálfarar og sálfræðingar. Í rannsókn Söderholm og félaga (2016) eru nefndir ICD-10-sjúkdómsgreiningarkóðar sem hafa verið notaðir í tengslum við veikindi sem tengjast RSH en ekkert dæmi var um sjúkdómsgreiningarkóða fyrir heilkennið í heild sinni. Í bandarísku útgáfunni frá 2024 af alþjóðlegu tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD-10-CM) hefur verið settur fram sjúkdómsgreiningarkóði í tengslum við útsetningu fyrir myglu: Z77.120 (contact with and (suspected) exposure to mold (toxic) (ICD-10Data.com, 2024). Sá kóði tók gildi þann 1. október 2023. Hér á landi er slíkur kóði ekki til, sem grípur heildarmynd veikindanna, og gæti hér íslenska heilbrigðiskerfið farið að dæmi Bandaríkjamanna og skoðað að nýta sama kóða í hið íslenska flokkunarkerfi í heilbrigðisþjónustu.

STYRKUR RANNSÓKNARINNAR

Styrkur rannsóknarinnar er fólginn í því að kanna reynslu níu þátttakenda af heilkenni og sálfélagslegri líðan tengdu RSH-heil-

kenni meðal karla og kvenna. Styrkur rannsóknarinnar liggur einnig í því að þetta er í fyrsta sinn sem þetta efni er rannsakað með þessum hætti á Íslandi. Takmarkanir rannsóknarinnar er fjöldi þátttakenda og rannsóknaraðferð með tilliti til yfirfærslugildi rannsóknarinnar. Ekki er hægt með neinum hætti að alhæfa neitt út frá niðurstöðum en þær gefa þó ákveðnar vísbendingar um þá veikindaupplifun sem tengist RSH.

Mikilvægt er að skoða heildarmynd skjólstæðinga sem búa við reynslu af RSH. Greining er flókin þar sem mörg einkenni geta líkst ýmsum þekktum veikindum en hvorki greining né meðferð er til. Ýmis bjargráð má athuga og þá sérstaklega forðun. Haft var samband við embætti landlæknis, með tölvupósti, til að athuga stöðu fagráðs sem var stofnað árið 2020 í tengslum við veikindi sem tengjast RSH og til að fá upplýsingar um ICD-sjúkdómsgreiningarkóða og meðferðir í tengslum við veikindi og RSH sem hafa verið í boði og reynst árangursríkar. Þann 18. apríl 2024 barst svar frá embætti landlæknis í tölvupósti þar sem vonast er til að fagráðið skili minnisblaði til landlæknis á næstu vikum. Sá ICD-sjúkdómsgreiningarkóði sem hefur verið notaður á Íslandi er frá árinu 2012 og hingað til er sjúkdómsgreiningarkóðinn B46.5 (myglusveppasýki, ótilgreind). Að lokum var bent á að hafa samband við sérfræðinga sem sinna þessum sjúklingum svo sem á ónæmisfræðideild Landspítalans hvað meðferðir varðar. Þegar sjúkdómsgreiningarkóðinn B46.5 er skoðaður má sjá að hann einskorðast við hóp myglusveppa sem nefnast mucormycosis/ zygomycosis (ICD10Data.com, 2021). Sá greiningarkóði grípur ekki heildarmynd veikindanna í tengslum við RSH og nefnir hvorki ofurnæmi né fjölefnaóþol (Centers for Disease Control and Prevention, 2021) sem þátttakendur í þessari rannsókn lýstu og hefur áður komið fram (Niza o.fl., 2023; Söderholm o.fl., 2016).

Álagið sem veikindin orsaka er gríðarlegt því algjör breyting varð á daglegu lífi þátttakenda í þessari rannsókn. Auka þarf sálfélagslegan og fjárhagslegan stuðning og mikilvægt er að upplýsa fjölskyldumeðlimi sem og samstarfsfólk um þessa óljósu vegferð sem mögulega skýrist með tímanum og þegar horft er til baka. Afar brýnt er að frekari rannsóknir verði framkvæmdar um þetta efni í ljósi þess hversu algengt vandamálið er. Áhugavert væri að skoða hversu margir á Íslandi glíma við RSH-heilkenni. Jafnframt að kanna sálfélagslega líðan einstaklinga sem hafa reynslu af RSH-heilkenni eftir að formleg greining hefur verið tekin í notkun og bera þær niðurstöður saman við rannsóknir fyrir greiningu. Sömuleiðis mætti skoða upplifun fjölskyldumeðlima sem veikjast ekki og upplifun heilbrigðisstarfsmanna sem þeir veiku leita til. Efla mætti rannsóknir á sviði lífmerkja (biomarkers) og þróa skimunartæki sem gæti hjálpað til við sjúkdómsgreiningu RSHheilkennis. Þar að auki væri áhugavert að greina hvort tengsl eru milli RSH-heilkennis og ýmissa sjúkdóma eins og lungnasjúkdóma, sjálfsofnæmissjúkdóma og taugasjúkdóma.

ÞAKKARORÐ

Við þökkum þátttakendum fyrir framalag þeirra til rannsóknarinnar, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir veittan rannsóknarstyrk og EMDR-stofunni fyrir samstarf.

ENGLISH SUMMARY

„No one saw the whole picture.“ Individuals‘ psychosocial well-being and experiences of a syndrome related to damp and water-damaged housing: Phenomenological study

ABSTRACT

Aim

Water-damage in buildings (WDB) is a common problem and has been linked to syndrome related to WDB. There is a lack of diagnosis and treatment options in relation to syndrome related to WDB, as the symptoms can be vague, complex and chronic. As their lives change drastically, those who fall ill experience limited understanding from others around them. The aim of this study was to explore individuals’ experiences of syndrome and psychosocial well-being related to WDB.

Methods

A qualitative approach built on twelve interviews with nine participants, supported by the Vancouver School of doing Phenomenology, was used. Participants were recruited through the social media platform Facebook and with snowball sampling.

Results

The overall model reveals the participants’ journeys where both participants and health professionals struggled to see the whole picture of the syndrome related to WDB. Participants experienced diverse symptoms resembling other illnesses and reported hypersensitivity to varying air quality. Their physical and psychosocial well-being was affected not only by the symptoms but also by thelack of diagnosis, treatment options and negative impact on finances. Understanding and support from the healthcare system, colleagues and family were inadequate. Participants experienced symptoms in many places. There was a complete change in life as a result.

Conclusion

There is a need for comprehensive diagnostic criteria for the syndrome related to WDB, along with overall treatment. The lack of support and understanding from healthcare professionals, families and colleagues highlights the need for education. The change in life is complete, as physical and psychosocial distress is evident, along with potential negative effects on finance.

Keywords

Sick building syndrome, water-damaged houses, health impact, psychosocial well-being, phenomenology

Correspondent sbg1@unak.is

HEIMILDIR

Brinkmann, S. og Kvale, S. (2015). Interviews: Learning the craft of qualitative research interviewing (3. útgáfa). Sage.

Cai, J., Li, B., Yu, W., Yao, Y., Wang, L. og Fan, L. (2020). Household dampness and their associations with building characteristics and lifestyles: Repeated cross-sectional surveys in 2010 and 2019 in Chongqing, China. Building and Environment, 183, 107172. https://doi.org/10.1016/j.buildenv.2020.107172

Centers for Disease Control and prevention. (2021). Mucormycosis. www.cdc.gov/fungal/ diseases/mucormycosis/index.html

Centers for Disease Control and Prevention. (2023). Natural disasters and severe weather www.cdc.gov/disasters/clinicians_asthma.html

Clark, S. N., Lam, H. C. Y., Goode, E., Marczylo, E. L., Exley, K. S., Dimitroulopoulou, S. (2023). The burden of respiratory disease from formaldehyde, damp and mould in English housing. Environments, 10(8), 136. https://doi.org/10.3390/environments10080136

Coulburn, L., Miller, W., Susilawati, C. (2024). Onset characteristics and breadth of occupants’ long-lasting building-related symptoms attributed to living in damp housing conditions in Australia: Qualitative insights. Building and Environment, 255, 111432. https://doi.org/10.1016/j.buildenv.2024.111432

Dooley, M. og McMahon, S. A. (2020). A comprehensive review of mold research literature from 2011 - 2018. Internal Medicine Review, 6(1), 1-26. https://doi.org/10.18103/imr. v6i1.836

Driesen, L., Patton, R. og John, M. (2020). The impact of multiple chemical sensitivity on people's social and occupational functioning; a systematic review of qualitative research studies. Journal of Psychosomatic Research, 132, 109964. https://doi. org/10.1016/j.jpsychores.2020.109964

Finell, E. og Seppälä, T. (2018). Indoor air problems and experiences of injustice in the workplace: A quantitative and a qualitative study. Indoor Air, 28(1), 125-134. https://doi. org/10.1111/ina.12409

Finell, E., Seppälä, T. og Suoninen, E. (2018). “It was not me that was sick, it was the building”: Rhetorical identity management strategies in the context of observed or suspected indoor air problems in workplaces. Qualitative Health Research, 28(8), 13661377. https://doi.org/10.1177/1049732317751687

Gawne, E. (2024, 9. January). Awaab Ishak: Plan to force landlords to tackle mouldy homes. BBC News. www.bbc.com/news/uk-england-manchester-67914836

Gov.UK. (2023). Guidance. Understanding and addressing the health risks of damp and mould in the home. www.gov.uk/government/publications/damp-and-mouldunderstanding-and-addressing-the-health-risks-for-rented-housing-providers/ understanding-and-addressing-the-health-risks-of-damp-and-mould-in-the-home--2

Hellgren, U., og Reijula, K. (2011). Scopus - document details - indoor air problems in hospitals: A challenge for occupational health. American Association of Occupational Health Nurses, 59(3), 111-117. https://doi.org/10.3928/08910162-20110223-01

Holzheimer, R. G. (2023). Moisture damage and fungal contamination in buildings are a massive health threat - a surgeon's perspective. Central European Journal of Public Health, 31(1), 63-68. https://doi.org/10.21101/cejph.a7504

Hope, J. (2013). A review of the mechanism of injury and treatment approaches for illness resulting from exposure to water-damaged buildings, mold, and mycotoxins. The Scientific World Journal, 767482. https://doi.org/10.1155/2013/767482

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. (e.d.). Rakaskemmdir og mygla. https://hms.is/ mannvirki/fr%C3%A6%C3%B0sla-um-mannvirkjamal/rakaskemmdir-og-mygla ICD10Data.com. (2021). ICD-10-CM diagnosis code B46.5. www.icd10data.com/ICD10CM/ Codes/A00-B99/B35-B49/B46-/B46.5 ICD-10Data.com. (2024). ICD-10-CM diagnosis code Z77.120. www.icd10data.com/ICD10CM/ Codes/Z00-Z99/Z77-Z99/Z77-/Z77.120

Klepeis, N. E., Nelson, W. C., Ott, W. R., Robinson, J. P., Tsang, A. M., Switzer, P., Behar, J. V., Hern, S. C. og Engelmann, W. H. (2001). The national human activity pattern survey (NHAPS): A resource for assessing exposure to environmental pollutants. Journal of Exposure Analysis and Environmental Epidemiology, 11(3), 231. https://doi.org/10.1038/ sj.jea.7500165

Kramer, A., Wichelhaus, T. A., Kempf, V., Hogardt, M. og Zacharowski, K. (2021). Building-related illness (BRI) in all family members caused by mold infestation after dampness damage of the building. GMS Hygiene and Infection Control, 16. https://doi. org/10.3205/dgkh000403

Niza, I., Souza, M., Mendes da Luz, I. og Broday, E. (2023). Sick building syndrome and its impacts on health, well-being and productivity: A systematic literature review. Indoor and Built Environment, 33(2), 1-19. https://doi.org/10.1177/1420326X231191079

Palmquist, E., Claeson, A., Neely, G., Stenberg, B. og Nordin, S. (2014). Overlap in prevalence between various types of environmental intolerance. International Journal of Hygiene and Environmental Health, 217(4-5), 427-434. https://doi.org/10.1016/j. ijheh.2013.08.005

Seppälä, T., Finell, E. og Kaikkonen, S. (2022). Making sense of the delegitimation experiences of people suffering from indoor air problems in their homes. International Journal of Qualitative Studies on Health and Well-being, 17(1), 2075533. https://doi.org/ 10.1080/17482631.2022.2075533

Shoemaker, R. (2016). RNA-Seq on patients with chronic inflammatory response syndrome (CIRS) treated with vasoactive intestinal peptide (VIP) shows a shift in metabolic state and innate immune functions that coincide with healing. Medical Research Archives, 4(7). https://esmed.org/MRA/mra/article/view/862

Sigríður Halldórsdóttir. (2021a). Fyrirbærafræði sem rannsóknaraðferð. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Rannsóknir: Handbók í aðferðafræði (bls. 255-276). Háskólinn á Akureyri

Sigríður Halldórsdóttir. (2021b). Réttmæti og áreiðanleiki í eigindlegum rannsóknum. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Rannsóknir: Handbók í aðferðafræði (bls. 219–236). Háskólinn á Akureyri.

Sigríður Halldórsdóttir. (2021c). Yfirlit yfir eigindlegar rannsóknaraðferðir. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Rannsóknir: Handbók í aðferðafræði (bls. 191-204). Háskólinn á Akureyri.

Sigtryggur Sigtryggsson (2024, 11. apríl.). Mygla leikur ríkisbyggingar grátt. Morgunblaðið, bls. 10. Subri,M. M. S., Arifin, K., Mohd Sohaimin, M. F. A. og Abas A. (2024). The parameter of the sick building syndrome: A systematic literature review. Heliyon, 10(12), e32431. https:// doi:org/ 10.1016/j.heliyon.2024.e32431

Suzuki, N., Nakayama, Y., Nakaoka, H., Takaguchi, K., Tsumura, K., Hanazato, M., Hayashi, T., og Mori, C. (2021). Risk factors for the onset of sick building syndrome: A cross-sectional survey of housing and health in Japan. Building and Environment, 202, 107976. https://doi.org/10.1016/j.buildenv.2021.107976

Söderholm, A., Öhman, A., Stenberg, B. og Nordin, S. (2016). Experience of living with nonspecific building-related symptoms. Scandinavian Journal of Psychology, 57(5), 406412. https://doi.org/https://doi.org/10.1111/sjop.12319

Umhverfisstofnun. (2015). Inniloft, raki og mygla í híbýlum. https://ust.is/library/Skrar/ utgefid-efni/Annad/Inniloft,%20raki%20og%20mygla_2015%20KH.pdf

Valtonen, V. (2017). Clinical diagnosis of the dampness and mold hypersensitivity syndrome: Review of the literature and suggested diagnostic criteria. Frontiers in Immunology, 8, 951. https://doi.org/10.3389/fimmu.2017.00951

World Health Organization. (2009). WHO guidelines for indoor air quality; dampness and mould. www.who.int/publications/i/item/9789289041683

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (e.d.). Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu http://throunarmidstod.is

Heilsulæsi fólks með kransæðasjúkdóm: Þversniðsrannsókn

doi: 10.33112/TH.0101.3.4

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Að lýsa heilsulæsi einstaklinga með kransæðasjúkdóm og greina tengsl heilsulæsis við valda áhættuþætti sjúkdómsins og bakgrunn þátttakenda.

Aðferð

Í þessari þversniðsrannsókn voru þátttakendur sjúklingar sem lögðust inn á Landspítala eða Sjúkrahúsið á Akureyri með brátt kransæðaheilkenni, bráða kransæðastíflu, vegna kransæðavíkkunar eða kransæðahjáveituaðgerðar. Gagna var aflað á árunum 20172019 úr sjúkraskrám og með spurningalistum og líkamsmælingum sex mánuðum eftir útskrift af sjúkrahúsi. Heilsulæsi var metið með Evrópska heilsulæsisspurningalistanum (The European Health Literacy Questionnaire-HLS-EU-Q16-IS) sem inniheldur 16 spurningar (stig 0-16) og er heilsulæsi flokkað í fullnægjandi (13-16 stig), takmarkað (9-12 stig) og ófullnægjandi (0-8 stig). Undirflokkar spurningalistans eru Heilbrigðisþjónusta, Fyrirbygging sjúkdóma og Heilsuefling, hver með möguleg skor 1-4 og hærra skor þýðir verra heilsulæsi. Hreyfing, einkenni kvíða og þunglyndis, sjúkdómstengd þekking og trú á eigin getu til sjálfsumönnunar voru metin með spurningalistum. Gögn voru greind með lýsandi og greinandi tölfræði. Notað var fjölþátta almennt samlagningarlíkan til að kanna tengsl milli valinna fylgibreyta og heilsulæsis.

Niðurstöður

Nærri þriðjungur (29%) þátttakenda (N=343, meðalaldur 64 ár (sf 8,8), 81% karlar) var með takmarkað eða ófullnægjandi heilsulæsi. Auðveldast þótti þátttakendum að skilja leiðbeiningar læknis eða lyfjafræðings en erfiðast að nota upplýsingar úr fjölmiðlum til að fyrirbyggja veikindi. Trú á eigin getu til sjálfsumönnunar, sjúkdómstengd þekking og kvíði tengdust marktækt heilsulæsi.

Ályktanir

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að um þriðjungur einstaklinga með kransæðasjúkdóm sé með takmarkað eða ófullnægjandi heilsulæsi. Með því að veita einstaklingshæfða hjúkrunarmeðferð sem miðar að því að auka þekkingu sjúklinga, efla trú þeirra á eigin getu og bæta andlega líðan, geta hjúkrunarfræðingar stuðlað að auknu heilsulæsi einstaklinga með kransæðasjúkdóm. Slík meðferð styrkir getu sjúklinga til að taka upplýstar ákvarðanir um eigin heilsu og sjálfsumönnun. Heilbrigðisstofnanir geta lagt sitt af mörkum með því að bæta samskipti og fræðslu og aðgengi að áreiðanlegu og vönduðu fræðsluefni sem kemur til móts við þarfir fólks óháð heilsulæsi.

Lykilorð

Áhættuþættir hjartasjúkdóma, heilsulæsi, kransæðasjúkdómur, sjúklingafræðsla, trú á eigin getu

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Nýjungar: Rannsóknin varpar ljósi á stöðu heilsulæsis hjá fólki með kransæðasjúkdóm á Íslandi sem hefur ekki verið rannsakað áður.

Hagnýting: Hjúkrunarfræðingar sem koma að umönnun hjartasjúklinga á göngudeildum, heilsueflandi móttökum og víðar geta nýtt niðurstöðurnar til að aðstoða sjúklingahópinn við sjálfsumönnun, þar með talið mikilvægar lífsstílsbreytingar.

Þekking: Rannsóknin sýnir fram á mikilvæg tengsl trúar á eigin getu, sjúkdómstengdrar þekkingar og kvíða við heilsulæsi. Hjúkrunarfræðingar geta nýtt sér þessar niðurstöður við þróun hjúkrunarmeðferðar og fræðslu.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingar innleiði hugtakið heilsulæsi í störf sín og hugi að eigin þekkingu og hæfni í þeim tilgangi.

Höfundar

BRYNJA INGADÓTTIR

prófessor og sérfræðingur í hjúkrun1,2

BETTÝ GRÍMSDÓTTIR

Hjúkrunarfræðingur M.Sc. 3

MARGRÉT HRÖNN SVAVARSDÓTTIR

prófessor 4

1 Háskóli Íslands

2 Landspítali

3 Embætti landlæknis

4 Háskólinn á Akureyri

Heilsulæsi fólks með kransæðasjúkdóm: Þversniðsrannsókn

INNGANGUR

Heilsulæsi hefur í vaxandi mæli hlotið athygli meðal rannsakenda og stjórnenda heilbrigðisþjónustu. Heilsulæsi er hugtak sem felur í sér getu fólks, þekkingu og hvatningu til að nálgast, skilja, meta og nota heilbrigðistengdar upplýsingar til að taka ákvarðanir í daglegu lífi varðandi notkun heilbrigðisþjónustu, fyrirbyggingu sjúkdóma og heilsueflingu til að viðhalda lífsgæðum eða bæta þau (Sørensen o.fl., 2012). Nýrri skilgreiningar greina á milli heilsulæsi einstaklinga (e. personal health literacy), sem er lýst hér að ofan, og stofnanatengdu heilsulæsi (e. organisational health literacy), en það vísar til þess hversu vel stofnanir auðvelda fólki að finna, skilja og nota upplýsingar og þjónustu til þess að taka heilsutengdar ákvarðanir fyrir sig eða aðra (Santana o.fl., 2021).

Í stefnu fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 kemur fram að það sé hlutverk heilbrigðisstarfsfólks að efla heilsulæsi notenda heilbrigðisþjónustunnar á markvissan hátt þar sem heilsulæsi er forsenda þess að þeir geti verið virkir þátttakendur í eigin meðferð (heilbrigðisráðuneytið, 2019). Lög um réttindi sjúklinga kveða á um ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu og þátttöku í eigin meðferð (Lög um réttindi sjúklinga, 1997) og í öðrum kafla, grein 2.2 í siðareglum hjúkrunarfræðinga stendur að „hjúkrunarfræðingur hefur samráð við skjólstæðing og virðir rétt hans til að taka ákvarðanir um eigin meðferð. Hjúkrunarfræðingur skal stuðla að því að skjólstæðingur eða forráðamaður geti tekið upplýsta ákvörðun“ (Siðaráð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2015). Í nýrri skilgreiningu alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) á hjúkrunarfræðingum kemur skýrt fram að eitt af hlutverkum þeirra er að efla heilsulæsi (White o.fl. 2025). Það er því ljóst að heilsulæsi gegnir mikilvægu hlutverki í hjúkrun og samskiptum hjúkrunarfræðinga og sjúklinga.

Rannsóknir erlendis hafa sýnt að gera má ráð fyrir að um helmingur fólks hafi ófullnægjandi heilsulæsi en heilsulæsi er þó mismunandi eftir löndum og þjóðfélagsstöðu fólks. Til dæmis sýndi rannsókn með þátttöku átta Evrópulanda að algengi ófullnægjandi heilsulæsis var á bilinu 29% (í Hollandi) til 62% (í Búlgaríu) (Sörensen o.fl., 2015). Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á heilsulæsi Íslendinga. Má þar helst nefna rannsókn á eldri borgurum á Norðurlandi (N=175) þar sem 35% höfðu ófullnægjandi heilsulæsi (Gustafsdottir o.fl., 2022) og rannsókn á einstaklingum með gáttatif (N=185) þar sem 48% höfðu ófullnægjandi heilsulæsi (Erlingsdottir o.fl., 2023).

Árlega greinast yfir 12 milljónir einstaklinga í Evrópu með hjarta- og æðasjúkdóma og 70 milljónir æviára (e. disability adjusted life years) tapast vegna þeirra (Timmis o.fl., 2022). Helstu viðráðanlegu áhættuþættir kransæðasjúkdóms sem er algengastur hjarta- og æðasjúkdóma (Timmis o.fl., 2022) eru reykingar, hár blóðþrýstingur, blóðfituröskun, sykursýki, óhollt mataræði, offita og kyrrseta (Visseren o.fl., 2021). Lífsstílsbreytingar og bætt sjálfsumönnun geta haft jákvæð áhrif á þessa áhættuþætti og þannig hægt á framgangi sjúkdómsins og lækkað dánartíðni (Visseren o.fl., 2021). Til þess að einstaklingurinn geti sinnt slíkri sjálfsumönnun þarf hann á þekkingu og fullnægjandi heilsulæsi að halda (Ghisi o.fl., 2020). Erlendar rannsóknir hafa endurtekið sýnt lágt hlutfall fullnægjandi heilsulæsis (14-50%) meðal einstaklinga með kransæðasjúkdóm (da Costa o.fl., 2023; Ghisi o.fl., 2018) og er tíðni ófullnægjandi heilsulæsis hærra en meðal þeirra sem ekki hafa kransæðasjúkdóm (Diederichs o.fl., 2018). Einstaklingar með kransæðasjúkdóm sem hafa ófullnægjandi heilsulæsi eru í meiri hættu á endurteknum kransæðaáföllum, þeir hafa hærri dánartíðni (Kanejima o.fl., 2022), leita oftar til lækna og eru oftar lagðir inn á sjúkrahús (Diederichs o.fl., 2018) en einstaklingar með fullnægjandi heilsulæsi. Enn fremur tengist ófullnægjandi heilsulæsi upplifun um að geta ekki gert lífsstílbreytingar eða fyrirbyggja versnun sjúkdóms og líkum á að afneita kransæðasjúkdómnum (Peltzer o.fl., 2020). Það er því ljóst að gott

heilsulæsi getur skipt sköpum í sjálfsumönnun og bata fólks með kransæðasjúkdóm.

Lítið er vitað um heilsulæsi almennings á Íslandi og hefur heilsulæsi meðal einstaklinga með kransæðasjúkdóm hér á landi ekki verið skoðað áður. Markmið rannsóknarinnar er að lýsa heilsulæsi einstaklinga með kransæðasjúkdóm og rannsaka tengsl heilsulæsis við valda áhættuþætti, sjúkdómstengda þekkingu, trú á eigin getu og bakgrunn þátttakenda.

AÐFERÐ

Rannsóknin er megindleg lýsandi þversniðsrannsókn og var gagna aflað með spurningalistum, mælingum og upplýsingum úr sjúkraskrá þátttakenda á tímabilinu október 2017 til júní 2019.

Þátttakendur og framkvæmd Þátttakendur rannsóknarinnar voru einstaklingar sem lögðust inn á Landspítala eða Sjúkrahúsið á Akureyri, með brátt kransæðaheilkenni, bráða kransæðastíflu, vegna kransæðavíkkunar eða kransæðahjáveituaðgerðar. Þátttökuskilyrði voru að vera með greindan kransæðasjúkdóm og vera á aldrinum 18–79 ára. Útilokaðir frá þátttöku voru einstaklingar með greinda og skráða skerðingu á hugrænni starfsemi og þeir sem ekki skildu eða töluðu íslensku. Rannsóknin er hluti af KRANS-rannsókninni (https://www. unak.is/english/research/research-projects/The-KRANS-study) þar sem gagnasöfnun fór fram við útskrift sjúklinga af sjúkrahúsi (N=446) og sex mánuðum síðar (N=377; 85%) en þá svöruðu þátttakendur spurningalista um heilsulæsi.

Inniliggjandi sjúklingar sem uppfylltu þátttökuskilyrði voru spurðir hvort mætti kynna rannsóknina fyrir þeim og var það gert munnlega og skriflega. Þeir sem höfðu áhuga á þátttöku í rannsókninni svöruðu spurningalista við útskrift af sjúkrahúsi eða stuttu eftir að heim var komið, annaðhvort rafrænt eða á pappírsformi. Sex mánuðum eftir útskrift komu sjúklingarnir í viðtal og svöruðu spurningalistum, gerðar voru líkamsmælingar og klínískum bakgrunnsupplýsingum var safnað úr sjúkraskrám á báðum tímapunktum.

Mælitæki

1. Heilsulæsi var metið með Evrópska heilsulæsisspurningalistanum (e. European Health Literacy Survey Questionnaire [HLS-EUQ16-IS]) sem inniheldur 16 spurningar og þrjá undirlista; Heilbrigðisþjónustan (7 spurningar), Fyrirbygging sjúkdóma (5 spurningar) og Heilsuefling (4 spurningar). Svarmöguleikar eru fjórir (1=mjög auðvelt, 2=frekar auðvelt, 3=frekar erfitt, 4=mjög erfitt). Annars vegar er meðaltalsskor reiknað fyrir undirlista (möguleg skor 1-4) þar sem hærra skor táknar minna heilsulæsi. Hins vegar eru svarmöguleikar 1 og 2 í heildarlistanum kóðaðir sem „auðvelt=1“ og svarmöguleikarnir 3 og 4 sem „erfitt=0“. Mögulegt heildarskor er þá 0-16. Heilsulæsi er síðan flokkað í fullnægjandi (13-16 stig), takmarkað (9-12 stig) og ófullnægjandi (0-8 stig) (Sørensen o.fl., 2013). Innra samræmi íslensku þýðingarinnar hefur reynst gott með alfastuðul 0,88 fyrir heildarlistann (Gustafsdottir o.fl., 2020). Í þessari rannsókn reyndist alfastuðull 0,87 fyrir heildarlistann og 0,67–0,82 fyrir undirlistana.

2. Sjúkdómstengd þekking var metin með Þekking-KRANS (e. Coronary Artery Disease Education Questionnaire-short version [CADEQ-SV]) (Ghisi o.fl., 2016), mælitæki sem inniheldur 20 spurningar með möguleg skor 0-20 þar sem hærra skor endurspeglar meiri þekkingu. Alfastuðull íslensku þýðingarinnar mældist 0,74 í KRANS-rannsókninni (Svavarsdóttir o.fl., 2023).

3. Einkenni kvíða og þunglyndis voru metin með Kvíða- og þunglyndiskvarða til notkunar á sjúkrahúsum (Hospital Anxiety and Depression Scale [HADS]), mælitæki sem samanstendur af 14 spurningum sem skiptast í kvíðakvarða (7 atriði) og þunglyndiskvarða (7 atriði). Möguleg skor fyrir hvorn kvarða eru 0-21 og skor ≥8 getur bent til kvíða eða þunglyndis (Zigmond og Snaith, 1983). Íslenska útgáfan hefur sýnt fullnægjandi próffræðilega eiginleika (Jakob Smári o.fl., 2008).

4. Hreyfing var metin með Hreyfilistanum (Saltin-Grimby Physical Activity Level Scale), mælitæki sem inniheldur fjóra svarmöguleika við einni spurningu um líkamlega virkni síðustu þrjá mánuði: 1) aðallega kyrrseta (af og til göngutúrar eða því um líkt), 2) létt líkamleg áreynsla (<2 ½ klst./viku), 3) hreyfing með talsverðri áreynslu (>2 ½ klst./viku) og 4) stíf reglubundin þjálfun oft í viku (samtals minnst 5 klst./viku) (Grimby o.fl., 2015).

5. Trú á eigin getu til sjálfsumönnunar var metin með Self-care Self-efficacy Scale sem inniheldur sex spurningar með svarkostum frá 1 (ekki viss) til 5 (alveg viss). Skor eru stöðluð, frá 0 til 100 og hærra skor táknar meiri trú á eigin getu (Dickson o.fl., 2017). Mælitækið var þýtt á íslensku fyrir þessa rannsókn (Margrét Hrönn Svavarsdóttir o.fl., 2020).

6. Bakgrunnsupplýsingar. Þátttakendur svöruðu spurningum um menntun, efnahagslega stöðu, hvort þeir hefðu reykt síðastliðinn mánuð og hvort þeir væru með sykursýki. Upplýsingar um aldur þátttakenda, kyn, búsetu, líkamsþyngdarstuðul (kg/m2), hvort þeir hefðu áður verið lagðir inn á sjúkrahús vegna kransæðasjúkdóms og hvort þeir væru með sjúkdómsgreininguna sykursýki fengust með líkamsmælingum og úr sjúkraskrám.

Gagnagreining

Lýsandi tölfræði var notuð til að lýsa bakgrunni þátttakenda. Reiknuð var tíðni og hlutföll fyrir flokkabreytur, meðaltöl og staðalfrávik eða miðgildi og spönn fyrir samfelldar breytur. Búseta í eða í nágrenni Reykjavikur og Akureyrar var skilgreind sem þéttbýli (póstnúmer: 101-170, 200-225, 270-276 og 600-603), önnur póstnúmer voru skilgreind sem búseta í dreifbýli. Menntun var flokkuð sem „grunnskólapróf“ (barnaskóla- eða fullnaðarpróf, grunnskólapróf, landspróf eða gagnfræðapróf), „framhaldsskólapróf“ (stúdentspróf eða iðnmenntun) og „háskólapróf“. Þeir sem voru með sjúkdómsgreininguna sykursýki skráða í sjúkraskrá eða sögðust vera með sykursýki voru taldir vera með sykursýki en aðrir ekki. Reykingar (nei, já) voru skilgreindar út frá svörum í spurningalista og styrk kolmónoxíðs í útöndunarlofti (já ef CO >10 ppm).

Tengsl heilsulæsis við sjúkdómstengda þekkingu, trú á eigin getu, valda áhættuþætti og bakgrunn voru könnuð með óstikuðum prófum (Mann-Whitney, Kruskal-Wallis, Spearman rho). Til að finna hvaða þættir spáðu fyrir um heilsulæsi var fyrst kannað hvort notast mætti við fjölþátta línulegt líkan. Skýribreytur sem fyrri rannsóknir hafa sýnt að tengjast heilsulæsi voru valdar inn í líkanið (sjá breytur í töflu 1) með því að prófa allar mögulegar samsetningar (e. all subsets regression) með tilliti til hámarks skýringarhlutfalls (leiðrétt R2). Í ljós kom að tengsl milli fylgibreytunnar (heilsulæsi) og skýribreytunnar (trú á eigin getu) fylgdu ekki beinni línu og því þurfti að nota ólínulegar aðferðir. Við kusum að nota almennt samlagningarlíkan (e. generalized additive model, GAM) sem byggir á alhæfingu á hefðbundnu almennu línulegu líkani (e. generalized linear model, GLM) og

ræður við ólínulegt samband á milli skýribreytu og fylgibreytu með því að nota splínu-fall (e. smoothing function). Búið var til fjölþátta almennt samlagningarlíkan með skýribreytunum, sem gáfu best skýringarhlutfall í línulegu líkani, og einnig líkön með færri breytum. Besta líkanið var svo valið samkvæmt Akaike’s Information Criterion (AIC) sem tekur tillit til einfaldleika líkana og hversu vel þau lýsa gögnum (besta líkan hefur lægsta AIC-gildi).

Dreifing fylgibreytunnar (heilsulæsi) var mjög skekkt og prófuðum við að umbreyta henni lógaritmískt. Líkan með umbreyttri fylgibreytu lýsti gögnunum betur en líkan með óbreyttri breytu en skýribreyturnar voru þær sömu og marktæki þeirra var nánast það sama og í óbreyttum gögnum og því völdum við að nota óbreytta fylgibreytu til að auðvelda túlkun niðurstaðna. Marktektarmörk voru valin p<0,05 og gögnin voru greind með SPSS (IBM Statistical Package for Social Sciences, 28. útgáfa) og R í útgáfu 4.3.

Siðfræði

Rannsóknin var unnin í samræmi við ákvæði Helsinkiyfirlýsingarinnar (World Medical Association, 2013), þátttakendur fengu munnlegar og skriflegar upplýsingar og veittu skriflegt samþykki fyrir þátttöku. Leyfi fyrir rannsókninni fékkst hjá Vísindasiðanefnd (tilvísun:17-159 og 17-159-V5) og framkvæmdastjórum lækninga á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri.

tengsl

bakgrunns -

breyta við heilsulæsi (N=343)

Menntun Grunnskólapróf Framhaldsskólapróf Háskólapróf

Búseta

Efnahagsleg staða

Tekjur duga fyrir útgjöldum og ég get lagt fyrir

Tekjur duga rétt fyrir útgjöldum

Tekjur duga sjaldan fyrir útgjöldum Tekjur duga aldrei fyrir útgjöldum

Áður lagst inn á sjúkrahús vegna kransæðasjúkdóms?

Já Nei

Sykursýki

Reykingar

Já Nei

Hreyfing

Aðallega kyrrseta Létt líkamleg áreynsla Hreyfing með talsverðri áreynslu Stíf reglubundin þjálfun

Samfelldar breytur

kvíða og þunglyndis Kvíðastig

NIÐURSTÖÐUR

Þátttakendur í rannsókninni voru 343, meðalaldur þeirra var 64,3 ár (sf 8,8) og 81% voru karlar. Sjá nánar um bakgrunn þátttakenda í töflu 1.

Meirihluti þátttakenda (71%) var með fullnægjandi heilsulæsi, 25% voru með takmarkað heilsulæsi og 4% með ófullnægjandi heilsulæsi. Um þriðjungur (34%) var með 16 stig sem er hæsta mögulega skor á heilsulæsislistanum. Heilsulæsi mældist að meðaltali best í undirþættinum Heilbrigðisþjónusta (M=1,7; sf 0,46), þar næst í Fyrirbygging sjúkdóma (M=1,8; sf 0,49) og lakast í Heilsueflingu (M=1,9; sf 0,57). Í undirþættinum Heilbrigðisþjónusta reyndist þátttakendum auðveldast að skilja leiðbeiningar frá lækni eða lyfjafræðingi en þeir áttu erfiðast með að meta hvenær þörf væri á mati annars læknis. Í undirþættinum Fyrirbygging sjúkdóma reyndist þátttakendum auðveldast að skilja mikilvægi reglubundins heilsueftirlits en mestir erfiðleikar voru við að nýta upplýsingar úr fjölmiðlum til að fyrirbyggja veikindi. Í undirþættinum Heilsuefling þótti þátttakendum auðveldast að meta tengsl eigin lífsstíls og heilsu en erfiðast var að skilja fjölmiðlaumfjöllun um heilsueflingu. Þegar litið er til heildarniðurstaðna kom fram að þátttakendur áttu auðveldast með að skilja leiðbeiningar lækna og lyfjafræðinga en mestur vandi tengdist skilningi á fjölmiðlatengdu efni um fyrirbyggjandi heilsufarsráð. Nánari yfirlit má sjá á mynd 1. Í greiningunni fundum við engar vísbendingar um að tengsl skýribreytanna sjúkdómstengd þekking, einkenni kvíða og einkenni þunglyndis við fylgibreytuna væru ólínuleg og voru þær því settar inn í fjölþátta almennt samlagningarlíkan sem línulegar breytur.

Tafla 2. Breytur sem skýra breytileika heilsulæsis hjá þátttakendum

Efnahagsleg staða -0,250,180.150 Fyrri innlögn vegna kransæðasjúkdóms [já] -0,310,270.248 Hreyfing

Trú á eigin getu*

*Mat á tengslum er ekki fasti, sjá mynd 1.

Tafla 2 sýnir niðurstöður endanlegs líkans. Eins og áður segir völdum við líkan út frá AIC-gildi (því lægra AIC, því betra líkan) og reyndist þetta líkan hafa AIC-gildi 1.099,75. Við það að fjarlægja breyturnar fyrri innlögn vegna kransæðasjúkdóms og hreyfing hækkaði AIC í 1.108,70 og þegar breytan efnahagsleg staða var einnig fjarlægð hækkaði AIC í 1.275,98. Líkön með öðrum samsetningum á breytum gáfu enn lakari niðurstöðu (hærra AICgildi). Tengsl breytunnar trú á eigin getu við heilsulæsi reyndist vera ólínulegt og hún því sett inn í líkanið sem slík. Tengslin eru sýnd á mynd 2 með splínu-falli þar sem tekið var tillit til annarra breyta í líkaninu. Þar sést að þau voru að jafnaði sterk þegar trú á eigin getu var lítil en dvínuðu þegar trú á eigin getu nálgaðist 40 stig. Sem dæmi þá hækkaði heilsulæsi að jafnaði um 2,5 stig við breytingu á trú á eigin getu úr núll í 40 stig. Heilsulæsi jókst að jafnaði með aukinni sjúkdómstengdri þekkingu og meiri trú á eigin getu en minnkaði samfara auknum kvíða. Líkanið skýrir 31% af breytileika í heilsulæsi (leiðrétt R2=0,31).

Tafla 1. Lýsing á þátttakendum og

eigin getu

Mynd 2. Tengsl trúar á eigin getu til sjálfsumönnunar og heilsulæsis, metið með splínu-falli að teknu tilliti til annarra breyta í almennu samlagningarlíkani.
Mynd 1. Dreifing svara við einstökum spurningum á Evrópska heilsulæsisspurningalistanum.

UMRÆÐUR

Helstu niðurstöður þessarar fyrstu rannsóknar á heilsulæsi fólks með kransæðasjúkdóm á Íslandi voru að þriðjungur þátttakenda var með takmarkað eða ófullnægjandi heilsulæsi og trú á eigin getu til sjálfsumönnunar, sjúkdómstengd þekking og kvíði eru þau atriði sem hafa mest forspárgildi fyrir heilsulæsi. Þessar niðurstöður eru sambærilegar við niðurstöður erlendra rannsókna sem sýndu lágt heilsulæsi hjá um þriðjungi einstaklinga með kransæðasjúkdóm (Ghisi o.fl., 2018; Kanejima o.fl., 2022). Meðal þeirra fimm atriða sem þátttakendur áttu í mestum erfiðleikum með sneru fjögur þeirra að því að finna, nota og skilja upplýsingar úr fjölmiðlum er varða heilsu og meta áreiðanleika þeirra. Sambærilegar niðurstöður fengust í íslenskri rannsókn á heilsulæsi eldra fólks (Gustafsdottir o.fl., 2022). Um nokkurt skeið hefur verið fjallað um áhrif þeirrar ofgnóttar af heilsutengdum upplýsingum sem eru aðgengilegar almenningi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og það krefst góðs heilsulæsis að greina og meta hvort slíkar upplýsingar séu réttar og áreiðanlegar. Fólk með takmarkað heilsulæsi leitar frekar til og treystir heilbrigðisupplýsingum sem það finnur á samfélagsmiðlum, bloggsíðum og hjá lyfjafyrirtækjum heldur en upplýsingum frá heilbrigðisstarfsfólki (Chen X o.fl. 2018). Því er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar afli sér markvisst þekkingar um hvar áreiðanlegar og vandaðar heilsutengdar upplýsingar er að finna og hafi getu til að miðla þeim upplýsingum á skýran hátt til sjúklinga. Það er hægt að gera slíkt með því að nota viðurkennd matstæki, til dæmis Fróða sem er íslensk útgáfa matstækisins PEMAT (Landspítali, 2023) til að meta gæði skriflegs og myndræns fræðsluefnis, eða CUE-matstækið (Klompstra o.fl., 2021) til að meta gæði vefsíðna. Bæði þessi matstæki eru aðgengileg á íslensku á heimasíðu Miðstöðvar sjúklingafræðslu á Landspítala (Miðstöð sjúklingafræðslu - Landspítali). Þess ber að geta að mælitækið sem notað var í þessari rannsókn til að meta heilsulæsi gerir ekki greinarmun á mismunandi fjölmiðlum sem er ókostur. Hinar hröðu samfélagslegu breytingar sem við upplifum nú til dags með tilkomu og notkun gervigreindar og fjölbreytni í framsetningu á heilbrigðistengdu fræðsluefni krefjast rannsókna í framtíðinni þar sem ekki bara heilsulæsi fólks er kannað heldur einnig upplýsinga- og fjölmiðlalæsi (e. information and media literacy) og gervigreindarlæsi (e. artificial intelligence literacy).

Við fundum að trú á eigin getu hefur talsvert forspárgildi fyrir heilsulæsi og tengslin voru nokkuð sterk þegar trú á eigin getu var lítil, eða upp að 40 (á skalanum 0-100), en eftir það minnkuðu áhrifin. Tengsl þessara tveggja breyta eru áhugaverð, í vaxandi mæli rannsökuð erlendis og hafa verið staðfest til dæmis hjá fólki með kransæðasjúkdóm (Liu o.fl., 2023), sykursýki (Xu o.fl., 2018) og langvinna sjúkdóma (Farley, 2020) en einnig hjá almenningi (Berens o.fl., 2022). Þegar heilsulæsi er ófullnægjandi eiga sjúklingar og fjölskyldur þeirra erfiðara með að öðlast þá þekkingu, hæfni og sjálfstraust, eða trú á eigin getu sem er nauðsynleg til að þau geti tekið þátt í eigin umönnun (Magnani o.fl. 2018). Þörf er á frekari rannsóknum á þessu sviði og hvernig hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta aðstoðað sjúklinga við að efla trú sína á eigin getu í þeim tilgangi að efla heilsulæsi. Bæði einkenni kvíða og þunglyndis hækkuðu skýringarhlutfall líkansins þó svo að einkenni þunglyndis væru ekki marktæk breyta. Niðurstöðurnar eru áhyggjuefni því kvíði og þunglyndi eru vel þekktir fylgikvillar kransæðasjúkdóms og skert heilsulæsi þar á ofan getur mögulega haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Því er alltaf mikilvægt að meta andlega líðan sjúklinga (Visseren o.fl., 2021) þar sem bæði heilsulæsi og andleg líðan hafa áhrif á það hvort þeir geti tileinkað

sér nauðsynlegar lífsstílsbreytingar (Pajak o.fl., 2013; Vaccarino o.fl., 2020). Sterkum tengslum ófullnægjandi heilsulæsis hjá kransæðasjúklingum við kvíða og þunglyndi en einnig heilsutengd lífsgæði hefur áður verið lýst í stórri evrópskri rannsókn og sýna þau mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk bjóði sjúklingum upp á heildræna meðferð og endurhæfingu sem er öllum aðgengileg (Jennings o.fl. 2023).

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu einnig tengsl heilsulæsis og sjúkdómstengdrar þekkingar, líkt og áður hefur komið fram hjá kransæðasjúklingum (Ghisi o.fl., 2020). Þrátt fyrir fullnægjandi heilsulæsi hjá meirihluta þátttakenda er vert að gefa heilsulæsi kransæðasjúklinga góðan gaum í umönnun þeirra og beita gagnreyndum aðferðum til að efla heilsulæsi. Aðferðir til þess eru margvíslegar og til dæmis kynntar í hugmyndafræði um „heilsulæsar stofnanir“ (Brach og Harris, 2021). Í okkar rannsókn var hlutfall þátttakenda með fullnægjandi heilsulæsi ívið hærra en í rannsóknum á sambærilegum hópum erlendis (da Costa o.fl., 2023; Ghisi o.fl., 2018). Mögulega má skýra það með hagsæld á Íslandi sem birtist í vænlegri efnahagslegri stöðu þjóðarinnar, menntunarstig hennar er hátt og stéttaskipting minni en í mörgum öðrum löndum. Þó þarf að hafa í huga að þjóðfélagið er ört að breytast, til dæmis með fjölgun innflytjenda sem eru líklegri til að hafa lakara heilsulæsi en aðrir, meðal annars vegna tungumálaörðugleika og lakari félagshagfræðilegrar stöðu. Breytingar í heilbrigðis- og menntakerfi, ásamt vísbendingum um versnandi læsi á Íslandi (Þingskjal nr. 1759/2023-2024) og breyttum leiðum fólks til að afla sér upplýsinga, geta haft veruleg áhrif á heilsulæsi almennings. Því er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk leggi sig fram um að efla heilsulæsi þess fólks sem það sinnir.

Hjúkrunarfræðingar á Íslandi eru leiðandi í skipulagningu og framkvæmd sjúklingafræðslu, meðal annars á göngudeildum fyrir fólk með kransæðasjúkdóm og á heilsueflandi móttöku heilsugæslunnar sem sinnir einstaklingum með langvinna sjúkdóma. Þessir staðir eru kjörinn vettvangur til að efla heilsulæsi fólks með gagnreyndum aðferðum. Dæmi um slíkt er notkun „þriggja spurninga aðferðarinnar“ (Ask Me 3), notkun endursagnaraðferðarinnar (Brynja Ingadóttir o.fl., 2024) og með því að gefa út viðeigandi fræðsluefni eins og bent er á í klínískum leiðbeiningum um sjúklingafræðslu (Landspítali, 2022). Beita þarf markvissum aðgerðum og viðurkenndum aðferðum yfir lengri tíma, með áherslu á einstaklingsmiðaða þjónustu, einfaldleika í tungumálanotkun og markmiðasetningu sem beinist að hegðunarbreytingum (heilbrigðisráðuneytið, 2019; Landspítali, 2022). Jafnframt gæti hjúkrunarmeðferð sem beinist að því að efla trú á eigin getu og bæta andlega líðan gagnast í þeim tilgangi að bæta heilsulæsi eins og rætt hefur verið hér að ofan. Rannsókn Ghisi og félaga (2020) sýndi til dæmis að fræðsla ásamt þjálfunarprógrammi fyrir fólk með sykursýki jók bæði þekkingu, heilsulæsi, trú á eigin getu og heilsutengda hegðun. Auk sjúklingafræðslu benda rannsóknir til þess að styðja megi bæði við trú á eigin getu og heilsulæsi með aðstoð ýmis konar rafrænna miðla og aðferða en áhrif þeirra eru háð mörgum þáttum sem rannsaka þarf frekar (Chen D. o.fl., 2021; Farley, 2020). Á Íslandi eru margar rafrænar lausnir í þróun sem ætlað er að bæta fræðslu til sjúklinga, virkja þá til þátttöku í eigin meðferð og auka heilsulæsi þeirra. Dæmi um þetta er Heilsuvera, Landspítalaappið, Island.is, Meðvera/Krabbameinsgáttin og SideKick-smáforritið og verður áhugavert að fylgjast með árangri af notkun slíkra lausna í framtíðinni.

Styrkleikar þessarar rannsóknar liggja í notkun staðlaðra og réttmætra mælitækja, stóru úrtaki og fullnægjandi svarhlutfalli sem eykur alhæfingargildi niðurstaðna. Hins vegar voru útilokaðir frá þátttöku einstaklingar sem ekki töluðu íslensku, sem veikir réttmæti rannsóknarinnar, og mögulegt er að einstaklingar með ófullnægjandi heilsulæsi hafi síður tekið þátt í rannsókninni vegna erfiðleika við að skilja og svara spurningalistunum. Einnig er þekkt í spurningakönnunum að þátttakendur svari spurningum út frá því sem þeir telja æskilegt fremur en raunverulegt sem gæti hafa skapað bjögun í niðurstöðum.

ÁLYKTANIR

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að um þriðjungur einstaklinga með kransæðasjúkdóm sé með ófullnægjandi heilsulæsi. Með því að veita einstaklingshæfða hjúkrunarmeðferð sem miðar að því að auka þekkingu sjúklinga, efla trú þeirra á eigin getu og bæta andlega líðan, geta hjúkrunarfræðingar stuðlað að auknu heilsulæsi einstaklinga með kransæðasjúkdóm. Slík meðferð styrkir getu sjúklinga til að taka upplýstar ákvarðanir um eigin heilsu og sjálfsumönnun. Heilbrigðisstofnanir geta lagt sitt af mörkum með því að bæta samskipti, fræðslu og aðgengi að áreiðanlegu og vönduðu fræðsluefni sem kemur til móts við þarfir fólks óháð heilsulæsi.

ÞAKKIR

Þátttakendur í rannsókninni fá þakkir fyrir sitt framlag. Höfundar þakka einnig styrktaraðilum rannsóknarinnar sem eru Byggðastofnun, Hjartavernd Norðurlands, Menningar- og viðurkenningarsjóður KEA, Minningarsjóður Hans Adolfs Hjartarsonar, Rannsókna og vísindasjóður Maríu Finnsdóttur, Rannsóknarsjóður Háskólans á Akureyri, Vísindasjóður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (B-hluta), Vísindasjóður Landspítala og Vísindasjóður Sjúkrahússins á Akureyri.

ENGLISH SUMMARY

Health literacy of people with coronary heart disease

ABSTRACT

Aim

To describe the health literacy of individuals with coronary heart disease (CHD) and its relationship with selected CHD risk factors and participants´ background.

Method

In this cross-sectional study participants were patients, hospitalized in two Icelandic hospitals with acute coronary syndrome, acute myocardial infarction, percutaneous coronary intervention or coronary artery bypass grafting. Data were collected in 2017-2019, from patient records and with questionnaires and physical measurements six months after hospitalization. Health literacy was assessed using the European Health Literacy Questionnaire (HLS-EU-Q16-IS), which comprises 16 questions (possible scores 0-16). Health literacy is classified as sufficient (13-16), problematic (9-12) and inadequate (0-8). Each of the three subscales, Healthcare, Disease prevention and Health promotion, has possible scores of 1-4, a higher score signifying worse health literacy. Physical activity, symptoms of anxiety and depression, disease-related knowledge, and self-care self-efficacy were assessed using questionnaires. Data were analyzed using descriptive and analytical statistics. A generalized additive model (GAM) was used to explore the relationship between selected independent variables and health literacy.

Results

Almost one third (29%) of the participants (N = 343, mean age 64 years (SD 8.8), 81% male) had problematic or inadequate health literacy. The participants found it easiest to understand instructions from a physician or pharmacist but most difficult to use information from the media to prevent illness. Self-care self-efficacy, disease-related knowledge and anxiety were significantly related to health literacy.

Conclusions

The study indicates that approximately one third of individuals with CHD have problematic or inadequate health literacy. By providing individualized nursing care aimed at increasing patients’ knowledge, strengthening their self-efficacy, and improving their psychological well-being, nurses can contribute to enhancing health literacy of individuals with CHD. This empowers patients to make informed decisions about their health, with a focus on disease-related risk factors and self-care. Healthcare organisations can also contribute by ensuring that communication and education, including access to reliable, high-quality educational material, meets people’s needs regardless of their level of health literacy.

Keywords

Coronary disease, Health literacy, Heart disease risk factors, Patient education as topic, Self-efficacy.

Correspondent brynjain@hi.is

HEIMILDASKRÁ

Berens, E. M., Pelikan, J. M. og Schaeffer, D. (2022). The effect of self-efficacy on health literacy in the German population. Health Promotion International, 37(1), daab085. doi:10.1093/heapro/daab085

Brach, C. og Harris, L. M. (2021). Healthy People 2030 health literacy definition tells organizations: Make information and services easy to find, understand, and use. Journal of General Internal Medicine, 36(4), 1084-1085. doi:10.1007/ s11606-020-06384-y

Brynja Ingadóttir, Jóhanna Ósk Eiríksdóttir, Nanna Friðriksdóttir, Katrín Blöndal, Björk Bragadóttir, Jónína Sigurgeirsdóttir, Hildur Einarsdóttir, Margrét Hrönn Svavarsdóttir (2024). Endursagnaraðferðin í sjúklingafræðslu: Gagnreynd leið til að kanna skilning og bæta heilsulæsi. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 2(100), 90-95. Chen, X., Hay, J.L., Waters, E.A., Kiviniemi, M.T., Biddle, C., Schofield, E., Li, Y., Kaphingst, K. og Orom, H. (2018). Health literacy and use and trust in health information. Journal of Health Communication, 23(8), 724-734. doi:10.1080/108107 30.2018.1511658

Chen, D. D., Zhang, H., Cui, N., Tang, L., Shao, J., Wang, X., Wang, D., Liu, N. og Ye, Z. (2021). Cross-cultural adaptation and validation of the caregiver contribution to self-care of chronic illness inventory in China: A cross-sectional study. BMJ Open, 11(9), e048875. doi:10.1136/bmjopen-2021-048875

da Costa, A. C., da Conceição, A. P., Butcher, H. K. og Butcher, R. de C. G. e. S. (2023). Factors that influence health literacy in patients with coronary artery disease. Revista Latino-Americana de Enfermagem, 31, e3879. doi:10.1590/15188345.6211.3879

Dickson, V. V., Lee, C. S., Yehle, K. S., Mola, A., Faulkner, K. M. og Riegel, B. (2017). Psychometric testing of the Self-Care of Coronary Heart Disease Inventory (SC-CHDI). Research in Nursing and Health, 40(1), 15–22. doi:10.1002/nur.21755

Diederichs, C., Jordan, S., Domanska, O. og Neuhauser, H. (2018). Health literacy in men and women with cardiovascular diseases and its association with the use of health care services - Results from the population-based GEDA2014/2015-EHIS survey in Germany. PLoS ONE, 13(12), e0208303. doi:10.1371/journal.pone.0208303

Erlingsdottir, H. Y., Ketilsdottir, A., Hendriks, J. M. og Ingadottir, B. (2023). Disease-related knowledge and need for revision of care for patients with atrial fibrillation: A cross sectional study. Patient Preference and Adherence, 17, 26212630. doi:10.2147/PPA.S428444

Farley, H. (2020). Promoting self-efficacy in patients with chronic disease beyond traditional education: A literature review. Nursing Open, 7(1), 30-41. doi:10.1002/ nop2.382

Ghisi, G. L. de M., Sandison, N. og Oh, P. (2016). Development, pilot testing and psychometric validation of a short version of the coronary artery disease education questionnaire: The CADE-Q SV. Patient Education and Counseling, 99(3), 443-447. doi:10.1016/j.pec.2015.11.002

Ghisi, G. L. de M., Chaves, G. S. da S., Britto, R. R. og Oh, P. (2018). Health literacy and coronary artery disease: A systematic review. Patient Education and Counseling, 101(2), 177-184. doi:10.1016/j.pec.2017.09.002

Ghisi, G. L. de M., Rouleau, F., Ross, M. K., Dufour-Doiron, M., Belliveau, S. L., Brideau, J. R., Aultman, C., Thomas, S., Colella, T. og Oh, P. (2020). Effectiveness of an education intervention among cardiac rehabilitation patients in Canada: A multi-site study. CJC Open, 2(4), 214-221. doi:10.1016/j.cjco.2020.02.008

Grimby, G., Börjesson, M., Jonsdottir, I. H., Schnohr, P., Thelle, D. S. og Saltin, B. (2015). The “Saltin-Grimby Physical Activity Level Scale” and its application to health research. Scandinavian Journal of Medicine and Science in Sports, 25, 119-125. doi:10.1111/sms.12611

Gustafsdottir, S. S., Sigurdardottir, A. K., Arnadottir, S. A., Heimisson, G. T. og Mårtensson, L. (2020). Translation and cross-cultural adaptation of the European Health Literacy Survey Questionnaire, HLS-EU-Q16: The Icelandic version. BMC Public Health, 20(1), 61. doi:10.1186/s12889-020-8162-6

Gustafsdottir, S. S., Sigurdardottir, A. K., Mårtensson, L. og Arnadottir, S. A. (2022). Making Europe health literate: including older adults in sparsely populated Arctic areas. BMC Public Health, 22(1), 511. doi:10.1186/s12889-022-12935-1

Heilbrigðisráðuneytið (2019). Heilbrigðisstefna til 2030. https://www.stjornarradid. is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Heilbrigdisstefna_4. juli.pdf

Jakob Smári, Daníel Þór Ólason, Þórður Örn Arnarson, Jón Friðrik Sigurðsson (2008). Mælitæki fyrir þunglyndi fullorðinna sem til eru í íslenskri gerð: Próffræðilegar upplýsingar og notagildi. Sálfræðiritið, 13, 147-169. Jennings CS, Astin F, Prescott E, Hansen T, Gale Chris P og De Bacquer D. Illness perceptions and health literacy are strongly associated with health-related quality of life, anxiety, and depression in patients with coronary heart disease: results from the EUROASPIRE V cross-sectional survey (2023). European Journal of Cardiovascular Nursing, 22(7), 719-729. doi:10.1093/eurjcn/zvac105

Kanejima, Y., Shimogai, T., Kitamura, M., Ishihara, K. og Izawa, K. P. (2022). Impact of health literacy in patients with cardiovascular diseases: A systematic review and meta-analysis. Patient Education and Counseling, 105(7), 1793-1800. doi:10.1016/j. pec.2021.11.021

Klompstra, L., Liljeroos, M., Lundgren, J. og Ingadottir, B. (2021). A clinical tool (CUE-tool) for health care professionals to assess the usability and quality of the content of medical information websites: Electronic Delphi study. Journal of Medical Internet Research, 23(2), e22668. doi:10.2196/22668

Landspítali (2022). Leiðbeiningar um skipulagningu og framkvæmd sjúklingafræðslu. https://www.landspitali.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=bb076192-13d811ed-a2e8-005056865b13.

Landspítali (2023). FRÓÐI: Mat á gæðum fræðsluefnis handa sjúklingum – kynning á matstæki, efni þess og notkun. https://www.landspitali.is/lisalib/getfile. aspx?itemid=4a25fe9f-fed6-11ed-a2f4-005056865b13.

Liu, W., Yang, W. og Qian, S. (2023). The mediating effect of self-efficacy on health literacy and social support in young and middle-aged patients with coronary heart disease after PCI. Vascular Health and Risk Management, 19, 341-349. doi:10.2147/ VHRM.S417401

Lög um réttindi sjúklinga nr. 74 (1997). https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997074. html.

Magnani, J. W., Mujahid, M. S., Aronow, H. D., Cené, C. W., Dickson, V. V., Havranek, E., Morgenstern, L. B., Paasche-Orlow, M. K., Pollak, A. og Willey, J. Z. (2018). Health literacy and cardiovascular disease: Fundamental relevance to primary and secondary prevention: A scientific statement from the American Heart Association. Circulation, 138(2), e48-e74. doi:10.1161/CIR.0000000000000579

Margrét Hrönn Svavarsdóttir, Kristín Guðný Sæmundsdóttir og Brynja Ingadóttir (2020). Áhættuþættir og sjálfsumönnun einstaklinga með kransæðasjúkdóm. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 1(96), 76-83.

Pajak, A., Jankowski, P., Kotseva, K., Heidrich, J., de Smedt, D., De Bacquer, D. Og EUROASPIRE Study Group. (2013). Depression, anxiety, and risk factor control in patients after hospitalization for coronary heart disease: the EUROASPIRE III Study. European Journal of Preventive Cardiology, 20(2), 331-340. doi:10.1177/2047487312441724

Peltzer, S., Hellstern, M., Genske, A., Jünger, S., Woopen, C. og Albus, C. (2020). Health literacy in persons at risk of and patients with coronary heart disease: A systematic review. Social Science & Medicine, 245, 112711. doi:10.1016/J. SOCSCIMED.2019.112711

Santana, S., Brach, C., Harris, L., Ochiai, E., Blakey, C., Bevington, F., Kleinman, D. og Pronk, N. (2021). Updating health literacy for Healthy People 2030: Defining its importance for a new decade in public health. Journal of Public Health Management and Practice, 27(suppl 6), S258-S264. doi:10.1097/PHH.0000000000001324

Siðaráð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. (2015). Siðareglur hjúkrunarfræðinga

Sørensen, K., Van den Broucke, S., Fullam, J., Doyle, G., Pelikan, J., Slonska, Z. og Brand, H. (2012). Health literacy and public health: A systematic review and integration of definitions and models. BMC Public Health, 12(1), 80. doi:10.1186/1471-2458-12-80

Sørensen, K., Van den Broucke, S., Pelikan, J. M., Fullam, J., Doyle, G., Slonska, Z., Kondilis, B., Stoffels, V., Osborne, R. H. og Brand, H. (2013). Measuring health literacy in populations: illuminating the design and development process of the European Health Literacy Survey Questionnaire (HLS-EU-Q). BMC Public Health, 13(1), 948. doi:10.1186/1471-2458-13-948

Sørensen, K., Pelikan, J. M., Rothlin, F., Ganahl, K., Slonska, Z., Doyle, G., Fullam, J., Kondilis, B., Agrafiotis, D., Uiters, E., Falcon, M., Mensing, M., Tchamov, K., Broucke, S. V. D. og Brand, H. (2015). Health literacy in Europe: comparative results of the European health literacy survey (HLS-EU). The European Journal of Public Health, 25(6), 1053–1058. doi:10.1093/eurpub/ckv043

Svavarsdóttir, M. H., Halapi, E., Ketilsdóttir, A., Ólafsdóttir, I. V. og Ingadottir, B. (2023). Changes in disease-related knowledge and educational needs of patients with coronary heart disease over a six-month period between hospital discharge and follow-up. Patient Education and Counseling, 117, 107972. doi:10.1016/ j.pec.2023.107972

Timmis, A., Vardas, P., Townsend, N., Torbica, A., Katus, H., De Smedt, D., Gale, C. P., Maggioni, A. P., Petersen, S. E., Huculeci, R., Kazakiewicz, D., de Benito Rubio, V., Ignatiuk, B., Raisi-Estabragh, Z., Pawlak, A., Karagiannidis, E., Treskes, R., Gaita, D., Beltrame, J. F., … Achenbach, S. (2022). European Society of Cardiology: cardiovascular disease statistics 2021. European Heart Journal, 43(8), 716-799. doi:10.1093/eurheartj/ehab892

Vaccarino, V., Badimon, L., Bremner, J. D., Cenko, E., Cubedo, J., Dorobantu, M., Duncker, D. J., Koller, A., Manfrini, O., Milicic, D., Padro, T., Pries, A. R., Quyyumi, A. A., Tousoulis, D., Trifunovic, D., Vasiljevic, Z., De Wit, C., Bugiardini, R., Lancellotti, P. og Carneiro, A. V. (2020). Depression and coronary heart disease: 2018 position paper of the ESC working group on coronary pathophysiology and microcirculation. European Heart Journal, 41(17), 1687-1696. doi:10.1093/eurheartj/ehy913

Visseren FLJ, Mach F, Smulders YM, Carballo D, Koskinas KC, Bäck M, Benetos A, Biffi A, Boavida JM, Capodanno D, Cosyns B, Crawford C, Davos CH, Desormais I, Di Angelantonio E, Franco OH, Halvorsen S, Hobbs FDR, Hollander M, Jankowska EA, Michal M, Sacco S, Sattar N, Tokgozoglu L, Tonstad S, Tsioufis KP, van Dis I, van Gelder IC, Wanner C og Williams B; ESC National Cardiac Societies; ESC Scientific Document Group (2021). 2021 ESC Guidelines on cardiovascular disease prevention in clinical practice. European Heart Journal, 42(34), 3227–3337. doi:10.1093/ eurheartj/ehab484

White, J., Gunn, M., Chiarella, M., Catton, H. og Stewart, D. (2025). Renewing the definitions of 'nursing' and 'a nurse'. Final project report, June 2025. International Council of Nurses.

World Medical Association (2013). World Medical Association Declaration of Helsinki: ethical principles for medical research involving human subjects. Jama, 310(20), 2191–2194. doi:10.1001/jama.2013.281053.

Xu, X. Y., Leung, A. Y. M. og Chau, P. H. (2018). Health literacy, self-efficacy, and associated factors among patients with diabetes. Health Literacy Research and Practice, 2(2), e67-e77. doi:10.3928/24748307-20180313-0

Zigmond, S. og Snaith, R. P. (1983). The hospital anxiety and depression scale. Acta Psychiatrica Scandinavica, 67(6), 361–370. doi:10.1111/j.1600-0447.1983.tb09716.x Þingskjal nr. 1759/2023-2024. Skýrsla mennta- og barnamálaráðherra um læsi, samkvæmt beiðni. Microsoft Word - Læsisskýrsla 2024

Takk fyrir stuðninginn

Sérfræðingar í sjúkraflugi

Skjót og fagleg þjónusta þegar þú þarft mest á henni að halda

Sérútbúnar sjúkravélar til og frá íslandi fyrir liggjandi og/eða sitjandi sjúklinga.

Gæði og góð þjónusta alla leið

Fullkominn búnaður um borð

Læknateymi um borð

Áreiðanleiki

Fjöldi flugvéla til taks allan sólarhringinn.

Neyðarnúmer 24/7: 522-0000 - www.airbrokericeland.is

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.